Færsluflokkur: Menning og listir

Hjartsláttur á danssýningu

leysingar Það voru svo sannarlega "Leysingar" í dansatriðum þeirra stallstystra, Sögu dóttur minnar, Evu Mariu Kupfer og Tönju Friðjónsdóttur, sem þær sýndu Ísfirðingum í Edinborgarhúsinu í dag. Ég er ekki frá því að heyrst hafi stöku hneykslunarandköf í síðara verkinu - Sabotage#1 - þar sem Saga og Eva Maria hlykkjuðust um gólfið í undarlegustu stellingum og samsetningum, án tónlistar. Um miðbik verksins var Eva Maria skyndilega orðin kviknakin  - og maður skynjaði fremur en sá hvernig áhorfendur litu hver á annan. Woundering

Það skal viðurkennt að inntak verksins lá ekki í augum uppi - og sem listræn upplifun reyndi það á áhorfandann. "Dans" er eiginlega ofmæli um það sem þarna átti sér stað - í raun væri nær að tala um hreyfilist.

Hvað um það - ég er ekki frá því að farið hafi um suma í þessu tiltekna atrið. Þarna voru mæður með barnungar dætur sínar sem bjuggust kannski við einhverju öðru en einmitt þessu - voru kannski að bíða eftir "ballettinum".

Og ég verð að viðurkenna að  þegar Eva Maria var komin úr hverri spjör og farin að sparka í allar áttir - fylltist ég þeirri skelfilegu tilhugsun að kannski mynda Saga mín líka fara að rífa sig úr fötunum. Blush Mér leist satt að segja ekki á blikuna - og prísaði mig sæla þegar verkinu var lokið og hún a.m.k. alklædd. Ég meina ... við erum jú á Ísafirði, ekki í Amsterdam.

Fyrra verkið "Leysingar" var allt annars eðlis. Það dönsuðu þær Saga og Tanja við undirleik þríeykisins Melneirophreinia sem þeir skipa Gunnar Theodór Eggertsson, Hallgrímur Jónas Jensson og Hallur Örn Árnason. Dansverk og tónlist voru í sameiningu dramatísk og ljóðræn upplifun. Eiginlega varð ég ekki síður hrifin af tónlistinni en dansinum. Það verður bara að segjast eins og er að þessir strákar eru meiriháttar.

Saga og Tanja sýndu góðan samleik í þessum dansi. Þær voru vatnsdropar sem slitnuðu sundur, elskendur sem sameinuðustu og sundruðust, klaki sem bráðnaði, gróður sem spratt upp úr jörðinni, ungt fólk sem dansaði ... þær sameinuðust tónlistinni og hver annarri afar vel. Verkið snerti ýmsa strengi.

Á heildina litið er ég sátt.

Ég veit hinsvegar ekki hvort þær eru það mömmurnar sem sátu með litlu stelpurnar sínar og biðu eftir ballett-atriðinu. Það verður bara að koma í ljós. Nútímadans er eins og önnur nútímalist - hann getur verið bæði átakamikill og ögrandi. Þegar best lætur ýtir hann hressilega við áhorfandanum og skilur eftir einhverskonar eftirbragð sem lifir með manni - stundum lengi.

Bæði þessi dansatriði skildu eitthvað slíkt eftir sig - hvort með sínum hætti.

 

 


Leysingar um páska

Skíðaland Ísfirðinga er uppljómað af sól þessa dagana. Við skelltum okkur á skíði í gær, það var dásamlegt veður. Ég hef ekkert farið á skíði í vetur, þó skömm sé frá að segja, og er því ekki alveg laus við harðsperrur. Wink

Bærinn iðar af menningu og mannlífi þessa dagana.

 saga-dansarÍ dag kl. 17:00 ætla Saga dóttir mín og tveir dansarar með henni, Eva Maria Kupfer og Tanja Friðjónsdóttir, að sýna tvö frumsamin nútímadansverk í Edinborgarhúsinu. Verkin heita  Leysingar og Sabotage#1eru samin af þeim stöllum ásamt hljómsveitinni Malneirophreinia. Þetta verður MJÖG spennandi.

 Stelpurnar útskrifuðust allar saman frá danshöfundadeild Listaháskólans í Arnhem í Hollandi fyrir tveimur árum og hafa getið sér gott orð sem dansarar og danshöfundar síðan. Saga til dæmis vann til 1. verðlauna sem danshöfundur í alþjóðlegri danshöfundakeppni í Búdapest í janúar í fyrra og hefur hlotið mjög lofsamlega dóma fyrir verk sín, m.a. í þýska danstímaritinu Tanz. Meðan hún var í dansnámi fékk hún fjárstyrk úr Minningarsjóði Gyðu Maríasdóttur - fyrrverandi skólastjóra Húsmæðraskólans Óskar á Ísafirði. Nú langar hana að þakka fyrir sig með þessum hætti. Smile

Jæja, má ekki vera að þessu - þarf að skella mér á skíði og vera komin á

 skiikkanlegum tíma til þess að sjá danssýninguna. Svo er allur hópurinn í mat hjá mér í kvöld.

Gleðilega páska!

páskar


Skíðavikan brostin á

skidi-ReykjavikIs Þá er páskafríið hafið - og börnin mín tínast heim í foreldrahús - þau sem það geta. Það eru þó aðeins tvö (af fjórum brottfluttum) sem koma vestur á Ísafjörð að þessu sinni. Saga og Pétur eru á leiðinni vestur - bæði með vini sína með sér. Svo það verður mannmargt hjá mér þó svo að húsið fyllist ekki af mínum eigin afkomendum.

Hjörvar sonur minn (14 ára) er alsæll yfir því að Nonni frændi hans (15 ára) er kominn í heimsókn vestur. Nú fara þeir á hverjum degi beint upp á skíðasvæði - Pétur afi keyrir þá - og eru þar allan daginn. Svo fara þeim saman heim til Hjördísar ömmu og leyfa henni að stjana við sig þegar þeir koma niður úr fjallinu síðdegis. Sældarlíf á þeim frændum. 

Það er mikið um að vera á Ísafirði um þessa páska eins og oftast. Skíðavika Ísfirðinga var sett í miðbæ Ísafjarðar í gær. Þrátt fyrir mikið fannfergi að undanförnu þurfti að bera snjó í aðalgötu bæjarins til þess að hin árlega sprettganga, sem markar upphaf skíðavikunnar, gæti farið fram.  

 Skíðavikan er mikill hápunktur í bæjarlífinu hér á Ísafirði. Hún er alltaf haldin í dymbilvikunni, því þá flykkjast ættmenni og vinir hvaðanæva að og mikið er um að vera á skíðasvæðinu og götum bæjarins. Fossvavatnsgangan fræga, garpamótið, Páskaeggjamótið og nammiregná skíðasvæðinu eru fastir liðir. Síðustu ár hefur Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, bæst í hóp fastra viðburða á skíðaviku. Í ár er Skíðamót Íslands einnig haldið hér. Já, það er mikið um að vera.

 Jébb - það er allt að gerast á Ísafirði þessa dagana og ég HLAKKA SVO til að knúsa börnin mín - þó þau séu orðin stór. InLove

 


Maðurinn er ljósbrigði - mikil og tvenn

Ljosbrigdi-AgustAtlason Í framhaldi af þeirri umræðu um skólamál sem spunnist hefur á síðunni minni síðasta sólarhringinn - með hugleiðingum um fjölgreind og þarfir barna -  langar mig að sýna ykkur ljóð eftir Ólínu Andrésdóttir skáldkonu. Hún komst oft vel að orði um ýmislegt - þessi fjarfrænka mín, og alnafna ömmu minnar, sem augljóslega hugsaði margt og átti sínar heimspekilegu stundir í einrúmi.  Á slíkri stundu hefur þetta ljóð orðið til - það er þrungið  speki:

 

Allir kunna að brosa, þó augun felli tár,

allir reyna að græða sín blæðandi sár,

alltaf birtist gleðin þótt eitthvað sé að,

allir þekkja ástina, undarlegt er það.

Maðurinn er steyptur úr misjöfnum málm,

maðurinn á skylt við hinn blaktandi hálm.

Maðurinn er knörr, sem klýfur ölduföll,

kraftur sem rís hátt eins og gnæfandi fjöll.

Maðurinn er vetur með myrkur og tóm,

maðurinn er sumar með geisla og blóm,

maðurinn er ljósbrigði, mikil og tvenn,

maðurinn er tími og eilífð í senn.

(Ólína Andrésdóttir)


"Tónlistarsigur" á Ísafirði segir gagnrýnandi

Hatidarkor-BjornBaldursson "Tónlistarlífið á Ísafirði er hreint með ólíkindum og báru tónleikarnir því glæsilegt vitni" segir Alexandra Kjeld tónlistargagnrýnandi í dómi sem hún birti í Morgunblaðinu í dag um hátíðartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Ísafirði s.l. fimmtudagsvöld. Frammistaða hátíðarkórs Tónlistarskólans sem flutti Gloriu eftir Francis Polenc segir hún að hafi verið tónlistarsigur og sá hluti tónleikanna verið sannkölluð tónlistarveisla. Ingunn Ósk Sturludóttir, mezzosopransönkona, sem söng einsöng með hátíðarkórnum fær sömuleiðis frábæra umsögn gagnrýnandans.

"Sjaldan hefur undirrituð upplifað jafn jákvæðar viðtökur tónleikagesta, og það í jafn fámennu samfélagi. Óhætt er að fullyrða að óvíða annarsstaðar á landinu sé hægt að hóa saman jafn stórum og vönduðum kór með jafnmiklum metnaði. Tónlistarlífið á Ísafirði er hreint með ólíkindum og báru tónleikarnir því glæsilegt vitni" segir Alexandra Kjeld  ennfremur í í ritdómnum sem ber yfirskriftina "Undravert tónlistarlíf". 

Ritdómurinn í heild sinni er hér

 Já, það er gaman að leggja á sig erfiði þegar uppskeran er góð Smile


Sólrisa í snjómuggu

 skutulsfjordur

 Í dag, 25. janúar, er hinn formlegi sólrisudagur okkar Ísfirðinga.     Ekki sjáum við þó til sólar í dag, snjómugga í lofti  og sjálfsagt skýjaður himinn. Síðustu daga höfum við þó séð sólinskin á fjallatoppum, og næst þegar sér til sólar mun hún gægjast yfir fjallsbrún. Þá munu geislar hennar ná alla leið niður á eyri - gylla húsþökin - og verma hjartað

 

Sól, þér helgum sigurlag

og syngjum lof af hjarta.

Þú breytir hríðar dimmu í dag

uns dægrin litum skarta.

Já, þiggðu okkar þakkarbrag

þokkagyðjan bjarta.

 

Þegar vetrar drunginn dvín

og dregur hægt að vori,

Þorri hörfar heim til sín

hrímþungur í spori,

þú feimin yfir fjallsbrún skín

og fyllir brjóstið þori.

 

Með blíðu kyssir klakatár

af klettsins hrjúfa vanga,

græðir viðkvæm svarðar sár

og sefar kulið stranga.

Þú vekur drauma, vonir, þrár

af vetrarsvefninum langa.

 

Sól, þér ómar ísfirsk þökk

upp af mjallar hjúpi

og í fuglsins kvaki klökk

kveðin fjalls af gnúpi:

Sigurbragur - söngva þökk

sungin úr bláu Djúpi.

 

Í dag á Hjörvar, yngsti drengurinn minn, afmæli Smile hann er fjórtán ára.

Á slíkum degi er við hæfi að fara með lofgjörð til sólarinnar. Þessi óður var ortur í tilefni af 70 ára afmæli Sunnukórsins fyrir fjórum árum.

Jónas Tómasson samdi fagurt lag við þennan texta af sama tilefni - en lagið er svo krefjandi fyrir söngraddir að kórinn  hefur aðeins flutt það tvisvar sinnum, svo ég muni.


Ógleymanlegir hátíðartónleikar

Hatidarkor-BjornBaldursson Í kvöld  voru hátíðartónleikarnir með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar í íþróttahúsinu á Torfnesi. Sjálf stóð ég inni í miðjum kór og söng Gloríu eftir Poulenc ásamt um hundrað kórfélögum - verkið var síðast á dagskránni. Bernharður Wilkinson stjórnaði hljómsveit og kór - troðfullt íþróttahúsið. Ingunn Ósk Sturludóttir söng einsöng í Gloríunni. Hún gerði það þannig að ég er enn með gæsahúð.

Ég held við höfum bara staðið okkur býsna vel hátíðarkórinn. Áheyrendur virtust ánægðir og tilfinningin á meðan á þessu stóð var góð. Ég veit svosem ekki hvernig stjórnandanum leið þarna í einni innkomunni ... Blush .... best að tala ekki meir um það ...  en það verður sjálfsagt aldrei upplýst Smile

Beata Joó á heiður af æfingum kórsins fyrir þessa tónleika - hún er auðvitað frábær. Svo kom Bernharður Wilkinson og rak smiðshöggið á síðustu tveimur æfingunum. Hann er auðvitað afburðamaður á sínu sviði - og mjög gaman að hafa kynnst honum svona í aksjón, eins og maður segir.

 Þetta var frábær upplifun og ógleymanleg stund.


Úr handboltanum í Hátíðarkórinn - nei, annars: Sunnukórinn!

Þannig fór nú það 24:19. Annars var fyrri hálfleikurinn í þessum leik Íslendinga og Svía svo æsispennandi að ég þurfti að beita ofumannlegu afli til þess að hafa mig upp úr sófanum og snúa mér að öðru. Pinch  Ég þurfti að mæta á kóræfinu. Ó, já. Kóræfingu. Staðan 11:9 fyrir Svía, og ég gekk bara út úr húsinu.

Eftir á að hyggja er ég heilshugar fegin að ég tók kóræfinguna fram yfir seinni hálfleikinn.

Blessuð kóræfingin - ég var svo utan við mig vegna leiksins sem ég væri að missa af, að ég tók ranga kórmöppu og mætti, handviss um að ég væri komin á æfingu með Hátíðarkórnum. Fyrstu mínúturnar vissi ég semsagt ekkert með hvaða kór ég var að æfa. Þetta var nefnilega Sunnukórsæfing. Whistling Þar sem ég átti auðvitað að vera - þó ég væri ekki alveg með á nótunum. Wink  Ég sá ekkert athugavert þegar ég mætti í sal Tónlistarskólans, þar var sama fólkið og venjulega, enda báðir kórarni skipaðir sama mannskapnum að mestu leyti. Ég tók mér sæti og fór að blaða í Gloríunni eftir Poulenc. Þegar fólkið fór að syngja dillandi swing eftir Baldur Geirmunds áttaði ég mig loksins.

Já það er svo mikið að gera í kóralífinu á Ísafirði þessa dagana að maður er orðinn alveg ruglaður. Og nú er ég komin í þrjá kóra Crying

kórsöngur

Ég er í Hátíðarkór Tónlistarskólans sem er tímabundinn kór, settur saman í tilefni af sextugsafmæli skólans og heimsókn Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem við eigum að syngja með á tónleikum þann 24. janúar. Mjög spennandi (það er altso ÞAR sem ég á að syngja Gloríuna eftir Poulenc Wink).

Ég er auðvitað líka í Sunnukórnum. Hann heldur sitt árlega Sunnukórsball (árshátíð sína) um sólrisuna, að þessu sinni þann 26. janúar. Og auðvitað þarf að æfa stíft fyrir það.  Karlakórinn Ernir ætlar að halda árshátíðina með okkur að þessu sinni og syngja með okkur við borðhaldið. Baldur Geirmunds er búinn að semja undurfallegt lag sem ég var beðin að gera texta við - og það verður frumflutt á árshátíðinni. Lag og texti falla vel að hvert öðru, svona eins og kærustupar, enda er textinn rómantískur. Ég spái því að þetta verði vinsælt kórlag.

Þriðji kórinn minn er svo kvennakórinn Vestfirsku Valkyrjunnar sem var stofnaður í fyrra. Hann samanstendur af skemmtilegum og framtakssömum konum. Þessi kór er fullkomlega vanræktur af minni hálfu þessa dagana, og verður það a.m.k. framyfir sólrisu.

En það má með sanni segja að ég dansi á vængjum söngsins þessa dagana  Halo hvað sem líður gengi íslenska handboltalandsliðsins. Þeim verður bara að ganga betur næst.

 


mbl.is Svíar sigruðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikhúsgagnrýnandi úti í kuldanum

Jón Viðar Jónsson, leikhúsgagnrýnandi DV, hefur verið tekinn út af gestalista á frumsýningar í Borgarleikhúsinu. Þetta kom fram í sjónvarpsfréttumí gær. Guðjón Pedersen leikhússtjóri segir Jón Viðar hafa verið dónalegan í garð leikhúsgesta í skrifum sínum. 

Jón Viðar hefur skrifað að frammistaða Leikfélags Reykjavíkur hafi ekki verið glæsileg s.l. haust. "Snobbliðið mætir til að klappa en almenningur finnur nályktina og flýr á braut" sagði hann í umsögn í DV. Þar sagði hann ennfremur að leikhússtjóraferill Guðjóns Petersen væri senn á enda og það væri góð tilhugsun.

Guðjón tekur upp þykkjuna fyrir leikhúsgesti og lætur sem það sé ástæða ákvörðunarinnar um að taka Jón Viðar út af boðsmiðaskrá. Allir hljóta þó að sjá, að ummælin um hann sjálfan gefa ekki síður tilefni til skapraunar.

Ég held þetta sé misráðið hjá Guðjóni. Meðan leikhúsgagnrýnendur fá boðsmiða á frumsýningar er ekkert sem réttlætir það að taka einn þeirra út, jafnvel þó hann kveði sterkt að orði. Það er eiginlega bara barnalegt.

Leikhúsmiði á ekki að tryggja viðunandi umsögn - það eiga leikverkin sjálf að gera. Borgarleikhúsið er ekki í eigu Guðjóns Petersen. Og þó það hafi eigin stjórn og sé sjálfstætt í vissum skilningi, nýtur það engu að síður umtalsverðra fjárstyrkja frá hinu opinbera. Ég man ekki betur en að fyrir tæpu ári hafi verið undirritaður samningur um 50 mkr. framlag Reykjavíkurborgar til menningarstarfs Leikfélags Reykjavíkurborgar á næstu 3 árum. 

Á meðan fyrirtæki nýtur opinberra fjárframlaga, ber því að virða ákveðin viðmið og starfshætti í anda hins opinbera. Hið opinbera gerir ekki síst kröfu um jafnræði og opna stjórnsýslu.  Það að útiloka einn aðila frá fríðindum eða fyrirgreiðslu sem þykir alla jafna sjálfsögð, er ekki í þeim anda.

 Hitt er svo annað mál að leikhúsin mættu endurskoða stefnu sína varðandi það að senda út boðsmiða til fyrirfólks og stjórnmálamanna á allar frumsýningar. Þetta fólk er alla jafna vel launað og ekkert of gott til þess að borga sína miða sjálft.


Frjósemisdansinn um jólatréð

 jolatra_stor Mynd hinnar heilögu guðsmóður með jesúbarnið í fangi er órjúfanlegur hluti jólanna í hugum kristinna manna. Um hana hafa verið sungnir sálmar og lofsöngvar um aldir. Í forkristnum trúarbrögðum sem sum hver tíðkast enn, til dæmis í Afríku og á Indlandi, er það þó önnur móðir sem tignuð er í tilefni af hækkandi sól. Það er móðir jörð.

Þó að fæstir átti sig á því, má vart á milli sjá hvor er meira áberandi í jólahaldi okkar nútímamanna, María mey eða móðir jörð. Tákn þeirrar fyrrnefndu blasir við í trúarlegum skreytingum, tákn þeirrar síðarnefndu breiðir út ilmandi arma inni á heimilum landsmanna um hver einustu jól - það er nefnilega jólatréð.

Jólin marka komu nýrrar tíðar, þau eru endaskeið skammdegisins, boðberar um bjartari og lengri daga. Er því vel við hæfi að kalla þau „hátíð ljóssins". Þessi tímamót, sem norrænir menn nefna „jól" (yule á ensku) hafa verið haldin hátíðleg frá því í árdaga, löngu áður en kristnir menn gerðu þau að fæðingarhátíð frelsara síns. Þess vegna er margt í jólahaldi okkar sem á rætur að rekja til ævafornra trúarbragða og frjósemissiða. Á það ekki síst við um þá venju að skreyta jólatré og dansa í kringum það.   

Kona verður tré

Í fornum arfsögnum eru þess ýmis dæmi að manneskjur ummyndast í tré. Af einhverjum ástæðum á þetta einkum við um konur. Ein þeirra var veiðigyðjan Daphne, dóttir vatnaguðsins Nereusar, sem var sonur jarðargyðjunnar Gæju. Daphne heillaði guðinn Appolló svo mjög að hann varð frávita af ást til hennar. En hún vildi ekki þýðast fegurðar- og skáldskaparguðinn og lagði á flótta. Hann elti að sjálfsögðu og gekk svo hart fram að um síðir leitaði hún á náðir föður síns og bað hann að afmá kvenleika sinn og fegurð.

Nereus breytti henni í lárviðartré. Hár hennar varð að laufskrúði, armar hennar að greinum og húðin að trjáberki. Fæturnir urðu rætur. En Appolló var í álögum ástarinnar og þrá hans dvínaði ekki við þessi umskipti. Hann féll að trénu, faðmaði stofn þess og kyssti laufgreinarnar.

Í norrænni goðafræði höfum við hliðstæðu þessarar sögu. Þar er sagt frá Iðunni sem gætti yngingareplanna. Eitt afbrigði goðsögunnar greinir svo frá að Iðunn hafi haldið til í laufkrónu Yggdrasils en fallið þaðan niður í Niflheim. Maður hennar, skáldskaparguðinn Bragi, unni henni svo mjög að þegar hann fann hana í undirheimum ákvað hann að verða eftir hjá henni. Á meðan Bragi beið með Iðunni í  myrkri og kulda Niflheims hljóðnaði söngur hans, og ekki þarf að taka fram að æsir tóku að hrörna og eldast, þegar þeir nutu ekki lengur eplanna. Hér má líta svo á að dvali Iðunnar og þögn Braga tákni vetrarsvefn náttúrunnar. Á meðan gyðjan er fjarverandi ómar enginn söngur, hvorki fugla né fallvatna og náttúran verður „hrum" líkt og hin öldnu goð.

Í báðum sögum eru hin kvenlegu mögn undirstaða lífs og gróandi. Það eru skáldskaparguðir sem leita gyðjanna og báðar renna þær saman við tré. Báðar sjá þær fyrir fæðu, Daphne er veiðigyðja en Iðunn gætir eplanna sem viðhalda æsku og þrótti guðanna. Þannig hafa þær í hendi sér frumskilyrði vaxtar og viðgangs, þær eru uppspretta lífsorku og þar með tákn eða fulltrúar móður jarðar.

Fornir frjósemissiðir

Tré hafa frá fornu fari verið einkennandi í sköpunar- og goðsögum þjóða. Hér nægir að nefna ask Yggdrasils í norrænni goðafræði og skilningstré góðs og ills í kristnum fræðum. Að sama skapi gegna tré víða veigamiklu hlutverki í frjósemis- og helgisiðum margra trúarbragða. Á Indlandi tíðkast að brenna tré í ársbyrjun og marka þar með endalok og nýtt upphaf. Sambærilegur siður eru áramótabrennur norrænna þjóða.

Samkvæmt fornu tímatali voru áramótin í marsmánuði og víða mörkuðu þau því einnig vorkomuna. Þess vegna eru sumir siðir sem tengjast vorinu og sáningunni keimlíkir jóla- og áramótasiðum. Sem dæmi má nefna þá venju að höggva tré, skreyta það og stilla því miðsvæðis þar sem fólk getur dansað umhverfis það. Í sveitum Englands hefur það verið all útbreiddur siður að fagna sumri með því að skreyta hús með greinum. Maístöngin eða blómastöngin sem sett er upp miðsumars í Svíþjóð hefur svipað tákngildi og jólatréð; Jónsmessubrennan er sambærileg áramótabrennunni. Hugmyndaþræði þessara athafna má rekja til jarðardýrkunar.

Á forsögulegum tíma greina goðsögur svo frá að jarðargyðjan hafi frjóvgast af samræði við sólarguðinn. Mannkynið er ávöxtur þessarar frjóvgunar, en jörðin móðir alls þess sem grær og lifir. Af henni fæðist allt, á henni nærist allt og til hennar hverfur allt. Af tignun jarðarinnar hafa skapast fjölmargir siðir og venjur einkum tengd fæðingum og frjósemi kvenna, sáningar- og uppskerutíma jarðyrkjunnar eða greftrunarsiðum og lækningum. Þess eru jafnvel dæmi meðal ættbálka í Afríku að ekki megi yrkja jörðina til þess að særa hana ekki í bókstaflegum og yfirfærðum skilningi. Í Úganda þykir heillavænlegt fyrir uppskeruna að það sé þunguð kona sem sái í akurinn. Enn í dag þekkjast frjósemissiðir á borð við þann að ung hjón hafi sínar fyrstu samfarir í  nýju plógfari og á það ýmist að tryggja frjósemi jarðar og góða uppskeru eða frjósemi hjónanna og barnalán í framtíðinni.

Flestir þeir helgisiðir sem tengjast komu ljóss og vors eru því frjósemissiðir framdir til heilla samfélaginu með tignun jarðarinnar. Helgiathafnir þessar geta tekið á sig ýmsar myndir. Stundum er um að ræða ærslafullar orgíur sem eiga að storka máttarvöldunum og örva þau til þess að veita ríkulega af regni og sól. Um leið er verið að fremja táknrænan líkingargaldur þar sem kynlífinu er ætlað að hleypa af stað heilögum endurnýjunarkrafti lífsins.

„Dönsum við í kringum ..."

Frumkrafturinn sem þessum siðum er ætlað að laða fram tilheyrir hvarvetna „hinni miklu móður" sem gengur undir ýmsum nöfnum meðal ólíkra samfélaga. Við helgiathafnir af þessu tagi er jarðargyðjan hlut- eða persónugerð á einhvern hátt. Stundum er manneskja hulin stráum eða laufi og hún ávörpuð með nafni gyðjunnar. Einnig er til í dæminu að gerðar séu eftirmyndir úr hálmi, greinum eða heyi. Í Svíþjóð var ungum stúlkum ætlað að dansa við slíkar hálmbrúður fyrr á tíð meðan sáning stóð yfir.

Ein skýrasta hliðstæðan sem við höfum um tengsl frjósemis- og jólasiða er forn shamanísk sögn um það hvernig ættbálkur einn endurheimti þrótt og lífsorku með svokölluðum sólardansi. Þann dans átti að fremja með tiltekinni viðhöfn og umbúnaði sem ekki mátti bregða út af. Lykilatriði þessarar athafnar var „hið helga tré". Það var valið í skóginum af mikilli kostgæfni, höggvið af sérstakri varúð og helgað með vel völdum orðum og athöfnum. Loks var það sett niður miðsvæðis fyrir sjálfa athöfnina. Hún fór fram með söngvum og dansi á vígðum reit við angan af reykelsi og friðarpípum og með áköllum til móður jarðar. Fólkið gekk að trénu og hengdi litlar gjafir á greinar þess en tók svo til við að dansa mót höfuðáttunum fjórum, þ.e. hringinn í kringum tréð.

Hið „helga tré"

Í nútímasamfélögum má finna margvíslega hjátrú sem tengist trénu. Flestir þekkja þann sið að snerta tré eða banka í það og þylja „sjö-níu-þrettán" til að storka ekki forsjóninni með óvarlegu tali. Hefur þessi siður jafnvel verið skýrður með tilvísan til kross Krists; að snerting við tréð sé ígildi þess að snerta krossinn sjálfan og feli þannig í sér bæn til Guðs. Önnur skýring á uppruna þessa siðar er sú að með því að snerta tréð sé verið að koma illum öflum fyrir inni í trénu.  Sú skýring byggir á ævafornri og útbreiddri þjóðtrú sem víða er enn við lýði í heiðnum sértrúariðkunum og wicca-göldrum. Eru þess þekkt dæmi að sjúklingum sé komið fyrir inni í holum trjábol eða gilskorningi til þess að hreinsa þá af sjúkleika eða illum öndum. Í sama tilgangi er fólk grafið í jörð, nýfædd börn lögð á grasið eða sængurkona látin stíga á torfu, svo nefndir séu fáeinir siðir tengdir jarðartignun.

Í ljósi þessa má segja að „krossins helga tré" hafi yfir sér dýpri margræðni en margan grunar sem einungis hefur lesið biblíusögurnar í æsku. Sú margræðni hefur lítið að segja í hugum kristinna manna sem tigna táknið, fyrst og fremst vegna þjáningargöngu Krists og upprisu. En jafnvel í kristnum trúarbrögðum hefur um aldir þrifist margvíslegt helgikukl tengt helgum gripum, ekki síst krossinum sjálfum. Sú iðja hefur verið iðkuð af lærðum og leikum í gegnum tíðina og á vitanlega rætur að rekja til forkristinna hugmynda sem við sjáum í svokölluðum „frumstæðum" trúarbrögðum.

Það gildir því um hið helga tré líkt og jólahaldið sjálft, mestu fagnaðarhátíð kristinna manna, að hinir upphaflegu hugmyndaþræðir liggja langt aftur fyrir kristið tímatal; allt aftur til fornra frjósemistrúarbragða sem byggðu á frumstæðustu hugmyndum mannsins um líf og dauða, árvissa upprisu náttúrunnar og endurlífgun jarðar. Þannig hafa siðirnir lifað af trúskipti og nýja hugmyndastrauma um aldir þótt flestir hafi gleymt uppruna þeirra.

Enn um hríð munu kristnir menn því stíga frjósemisdansinn í kringum jólatréð, staðgengil hinnar miklu móður, en lofsyngja föðurinn í upphæðum fyrir fæðingu frelsarans.

 

Heimildir:

Ásgeir Blöndal Magnússon, 1989: Íslensk orðsifjabók. Reykjavík.

Eliade, Mircea, 1965: Patterns in Comparative Religion. London.

Gunnar Dal, 1997: Í dag varð ég kona. Reykjavík.

Eddukvæði (Ólafur Briem annaðist útgáfuna), 1968. Reykjavík.

Ólína Þorvarðardóttir, 2001: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Reykjavík.

Ringgren, Helmar & Ström, Åke, V, 1954: Religionerna i historia och nutid.

Símon Jón Jóhannsson 1993: Sjö, níu, þrettán. Reykjavík.

Snorra Edda (Árni Björnsson bjó til útgáfu) 1975. Reykjavík.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband