Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Eiga Árni Matthiesen og Björn Bjarnason að sitja?
6.1.2009 | 23:39
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur sagði nánast berum orðum í Kastljósinu í kvöld að Árni Matthiesen ætti að víkja úr ráðherrastóli vegna athugasemda Umboðsmanns Alþingis um embættisfærslu hans þegar Þorsteinn Davíðsson (Oddssonar) var ráðinn héraðsdómari. Árni var þá settur dómsmálaráðherra og hunsaði niðurstöðu sérstakrar dómnefndar um hæfi umsækjenda, eins og mörgum er í fersku minni.
Að mati Umboðsmanns voru ,,annmarkar'' á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð Árna. Sömuleiðis taldi umboðsmaður að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefði átt að víkja sæti í málinu mun fyrr en hann gerði, þar sem fyrrverandi aðstoðarmaður hans hafi verið meðal umsækjenda.
Nú hefur Sigurður Líndal lagaprófessor emeritus fullyrt í sjónvarpsviðtali að bæði Árni og Björn hafi í reynd brotið stjórnsýslulög með málsmeðferð sinni.
Álit umboðsmanns og ummæli lagaprófessorsins eru þungt áfelli fyrir báða ráðherrana. Enn sitja þeir þó sem fastast.
Prestar hafa misst kjól og kall fyrir að falla í freistni holdsins og vera þar með slæmt siðferðisfordæmi fyrir aðra. Sýslumenn hafa misst embætti og lögregluþjónar starf sitt fyrir að verða hált á svelli laganna af svipuðum ástæðum. Það eru meira að setja dæmi um að ráðherrar hafi sagt af sér fyrir viðlíka og jafnvel minni sakir (Guðmundur Árni Stefánsson vegna ásakana um að hygla vinum sínum - pólitískt deilumál en ekki lögrot).
Hvað skal þá með ráðherra tvo sem hafa það sérstaka hlutverk að verja stjórnsýslu landsins - þegar virðist hafið yfir allan vafa að þeir hafa sjálfir brotið stjórnsýslulögin?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Sjúkrahúsgjald - hvar voru stjórnarandstaðan og ASÍ ?
6.1.2009 | 11:50
Um hátíðarnar var tekin ákvörðun á alþingi Íslendinga sem undarlega lítið hefur verið fjallað um. Ég segi undarlega lítið vegna þess að hún varðar grunnafstöðu okkar til samhjálpar og velferðar. Ég er að tala um þá ákvörðun að taka upp 6000 kr. gjald fyrir innlögn á sjúkrahús. Slíkt gjald hefur aldrei verið tekið af sjúklingum áður, þó svo að rukkað hafi verið fyrir komu á heilsugæslustöð, göngudeild og slysavarðstofu, rannsóknir, já og flutning með sjúkrabíl - þá hefur innlögn á sjúkrahús hingað til ekki verið innheimt af sjúklingum. Nú er þetta síðasta vígi fallið - það gerðist þegjandi og hljóðalaust.
Hvar var nú stjórnarandstaðan? Hvar er nú umhyggja hennar fyrir almenningi á Íslandi? Eina bofsið sem þaðan kom var frá Álfheiði Ingadóttur: "Ég vissi ekki að þetta hefði átt að verða svona hátt" umlaði hún vandræðalega í sjónvarpsviðtali rétt eftir nýjárið.
Vissi ekki að þetta ætti að verða svona hátt? Nei, en þingmenn vissu að þetta stóð til, og létu sér fátt um finnast. Hvorki stjórnarandstaðan né verkalýðshreyfingin hafði einu sinni dug í sér til þess að taka málið til umræðu í samfélaginu.
Já, og hvar voru þingmenn Samfylkingarinnar? Eru þeir heillum horfnir í þessu stjórnarsamstarfi?
Fyrir um 15 árum logaði allt þjóðfélagið stafnanna á milli - í tíð Sighvats Björgvinssonar sem þá var heilbrigðisráðherra - vegna hugmynda af þessu tagi. Það var blessunarlega lamið niður þá.
Nú eru augljóslega aðrir tímar.
Eftir síðustu hækkanir heilbrigðisráðherra gæti dæmið litið svona út:
Segjum að ég slasi mig og sé send á bráðamóttöku. Sjúkrabíllinn kostar 4.700 kr og innritun á slysadeildina 4600 kr. Þar er tekin röntgen mynd, blóðprufur o.fl., segjum að það kosti annað eins. Niðurstaðan er sú að ég er með innvortis blæðingar og verð að leggjast á sjúkrahús. Það kostar 6000 kr til viðbótar. Að sjúkrahúsdvöl lokinn þarf ég að koma í endurkomu á göngudeild, 4.600 kr þar. Nú varla er ég lyfjalaus allan þennan tíma - ekki ólíklegt að skrifað hafi verið upp á eitthvað handa mér í apótekinu - 4000 kr. þar. Samtals 28.500.
Þarna á ég að vísu rétt á afsláttarkorti - en það er ekkert sem segir að þessi atburðarás geti ekki endurtekið sig nokkrum sinnum á einu ári.
Já - það sannarlega hægt að mjólka inn tekjurnar í ríkissjóð núna.
![]() |
Læknisþjónusta hækkar í verði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Dáðleysi í utanríkismálanefnd
5.1.2009 | 19:39
Ég er sammála Steingrími J Sigfússyni núna. Ég er sorgmædd yfir dáðleysi utanríkismálanefndar og vona heitt og innilega að meirihluti nefndarinnar skoði betur eigið hugskot og hjarta. Mér finnst við hæfi að rifja upp hér hverjir það eru sem eiga sæti í utanríkismálanefnd. Sjálf ætla ég að taka vel eftir því hvernig atkvæði falla í nefndinni þegar kemur að endanlegri afgreiðslu málsins. Nefndin er þannig skipuð ...
Fyrir Sjálfstæðisflokk:
Bjarni Benediktsson, formaður
Guðfinna Bjarnadóttir
Ragnheiður E. Árnadóttir
Fyrir Samfylkingu:
Árni Páll Árnason, varaformaður
Ásta R. Jóhannesdóttir,
Lúðvík Bergvinsson
Fyrir stjórnarandstöðu:
Kristinn H. Gunnarsson, Frjálslynda flokknum
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokknum
Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum.
--------------------------
PS: Annars finnst mér efnisflokkunin hér á moggablogginu vera orðin úrelt - hér virðist ekki vera hægt að flokka færslur um utanríkismál, stríð og hernað eða neytendamál svo dæmi séu nefnd. Þessi færsla á t.d. enga flokkun í kerfinu - svolítið bagalegt stundum.
![]() |
Deilt um stjórnmálasamband |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Skömm og sómi ... í sama fréttatíma!
4.1.2009 | 16:02
Ég er heilshugar fegin (já, og stolt af því) að Ingibjörg Sólrún skuli nú hafa tekið af skarið og fordæmt innrás Ísraelshers á varnarlausa borgara á Gaza. Þess meira undrandi (já, og hneyksluð) er ég á því að menntamálaráðherra skyldi í útvarpsfréttum í morgun tjá sig um ástandið á Gaza eins og hún væri þess umkomin að tala um utanríkismál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.
Hvað gekk Þorgerði Katrínu til? Er hún að storka utanríkisráðherra? Er hún að storka stjórnarsamstarfinu? Það var nú ekki eins og menntamálaráðherrann hefði mikið eða viturlegt um málið að segja - það sem hún sagði var bara hugsunarlaus upptugga af ummælum Bush frá í gær. Þarna finnst mér Þorgerður Katrín hafa gengið of langt - hún varð sér einfaldlega til skammar.
Hvenær hefði það gerst að utanríkisráðherra færi í útvarpsviðtal til þess að svara fyrir pólitíska afstöðu ríkisstjórnarinnar í menntamálum? Það er orðið þreytandi að sjá þennan tiltekna ráðherra hlaupa til hvenær sem færi gefst í viðtöl. Nú síðast vegna þess að það náðist ekki strax í forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann - til þess að segja svo ... eiginlega ekki neitt af viti.
Þeir vita það þá hinir ráðherrarnir í ríkisstjórninni - næst þegar ekki næst samband við menntamálaráðherrann í eina eða tvær klukkustundir - að þá er þeirra tækifæri til þess að tala um menntamál í útvarpið. Sérstaklega ef þeir vilja tjá skoðanir sem eru á skjön við afstöðu fagráðherrans.
Er hægt að vinna með fólki sem hagar sér svona?
![]() |
Fordæmir innrás á Gasa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Í dag tók lítil stúlka til máls ...
3.1.2009 | 22:45
Í dag tók lítil stúlka til máls og mannfjöldinn klappaði henni lof í lófa. Hún var vel máli farin og falleg lítil stúlka - kannski verður hún stjórnmálamaður einn daginn. En þessi litla stúlka með fallega nafnið er afar reið og áhyggjufull. Hún hefur meiningar um frammistöðu stjórnmálamanna, viðveru þeirra í vinnunni, ábyrgð þeirra á kreppunni og margt fleira.
Það tók á mig að sjá þetta reiða barn tala á fjöldasamkomu fyrir fullorðna.
Nú spyr ég mig hvort ég hefði viljað sjá mitt eigið barn í þessum sporum - átta ára gamalt. Hjarta mitt svarar því neitandi. Höfuðið sömuleiðis. Svar höfuðsins á ég auðveldara með að rökstyðja, það er einfaldlega þetta: Allir sem starfa með börnum og fyrir þau hafa lögbundna skyldu til að sýna þeim "virðingu og umhyggju" og taka ævinlega mið af hag þeirra og þörfum í hvívetna. Það á ekki að leggja meira á barn en aldur þess og þroski leyfir.
Þegar átta ára gamalt barn er sett fyrir framan mikinn mannfjölda sem fagnar reiðiorðum þess með klappi og fagnaðarlátum - þá má kannski segja að verið sé að sýna sjónarmiðum þess virðingu. En hvað með þroska barnsins og tilfinningar? Hefur átta ára gamalt barn gott af því að vera virkur þáttakandi á mótmælafundi sem haldinn er vegna bágra efnahagsaðstæðna og kreppu?
Dimmblá litla upplýsti að pabbi hennar hefði hjálpað henni með ræðuna. Það þýðir að hann hefur rætt málið við hana - enda mátti heyra á máli hennar skoðanir og viðhorf sem barn finnur ekki upp hjá sjálfu sér heldur meðtekur frá öðrum. Dimmblá litla er uppfull af erfiðum, neikvæðum tilfinningum vegna stöðunnar í samfélaginu. Átta ára gamalt barn í þeirri stöðu hefur augljóslega ekki verið verndað fyrir reiði og áhyggjum á þeim erfiðu tímum sem nú fara í hönd.
Því miður.
PS: Ég sé að ég er ekki ein um þessa skoðun - bendi ykkur á að lesa líka bloggfærslur Jennýjar Önnu og Þorleifs Ágústssonar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (143)
Látum ekki æsingafólk hindra friðsamleg mótmæli
3.1.2009 | 17:29
Þessa dagana eru sjálfsagt margir hikandi við að taka þátt í mótmælum af ótta við ryskingar og ófrið eins og urðu á gamlársdag. Það væri þó afar slæmt ef nokkrir hávaðaseggir yrðu til þess að hrekja fólk frá því að nota lýðræðislegan rétt sinn til friðsamlegra mótmæla.
Ég vil að minnsta kosti ekki láta æsingalið sem vinnur eignaspjöll og meiðir fólk ráða því hvort ég sýni hug minn í verki. Sem betur fer sýnist mér fleiri sömu skoðunar því enn mætir fólk á Austurvöll í þúsunda tali.
Fyrsta mótmælastaðan á Ísafirði átti sér stað í dag, og mættu á annað hundrað manns sem tóku sér mótmælastöðu á Silfurtorginu klukkan þrjú. Það verður að teljast góð mæting í ljósi þess hvernig til mótmælanna var stofnað. Engin formleg fréttatilkynning, engin auglýsing - heldur sms-skeyti, símtöl, tölvupóstar og blogg.
Ætlunin er að mæta framvegis vikulega klukkan þrjú á Silfurtorgi. Kannski verður einhver dagskrá næst - það var ekkert slíkt að þessu sinni. Bara þögul mótmælastaða. Ég hef fulla trú á því að þetta sé upphafið að öðru og meiru.
Loksins er mótmælt á Ísafirði!
3.1.2009 | 13:40
Það verða þögul mótmæli á Silfurtorginu á Ísafirði kl. 15:00 í dag - loksins. Ég ætla svo sannarlega að mæta. Það er tími til kominn að þjóðin standi með sjálfri sér. Það er líka brýnt að almenningur í landinu láti þá ekki eina um að mótmæla sem gengið hafa um með eignaspjöllum og offorsi að undanförnu, eins og á Hótel Borg á gamlársdag. Það er óþolandi ef framganga þess fólks verður til þess að koma óorði á friðsamar mótmælastöður almennings.
Ég ætla því að mæta á Silfurtorgið í dag - og ég vona svo sannarlega að sem flestir mæti á Austurvöll til friðsamlegra mótmæla.
Þetta verður þögul mótmælastaða án formlegrar dagskrár.
Já, loksins spratt upp friðsamleg grasrótarhreyfing hér á Ísafirði. Framtakið hefur verið að vinda upp á sig í morgun. Engar opinberar fréttatilkynningar eða auglýsingar, bara sms-skeyti og boð á Facebook og blogginu. Sannkallað grasrótarstarf.
Vonandi verður þetta upphafið að vikulegum mannsæmandi mótmælum hér á Ísafirði framvegis.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Aftakaárið 2008
2.1.2009 | 20:44
Jæja, þá er nýtt ár gengið í garð. Ekki fékk það að koma óflekkað til okkar frekar en fyrri árin. Heimsfréttirnar segja frá stríðsátökum og manntjóni. Innlendu fréttirnar greina frá vaxandi vanlíðan og spennu meðal almennings, gríðarlegum hækkunum á heilbrigðisþjónustu og helstu nauðsynjum, uppsögnum á vinnumarkaði og gjaldþroti fyrirtækja. Nú er kreppan að koma í ljós. Áfallið er að baki, samdrátturinn er framundan. Hann á eftir að harðna enn, er ég hrædd um.
Samt kveð ég þetta undarlega nýliðna ár með þakklæti. Það færði mér persónulega margar gleðistundir, jafnt í einkalífi sem á samfélagssviðinu. Sem samfélagsþegn kastaðist ég öfganna á milli eins og þjóðin í heild sinni - milli spennu, gleði og áfalla. Borgarpólitíkin sá um spennuna. Þar nötraði allt og skalf fram eftir ári. Á íþróttasviðinu fengum við fleiri og stærri sælustundir en nokkru sinni svo þjóðarstoltið náði áður óþekktum hæðum þegar strákarnir tóku silfrið í Peking. Á Mikjálsmessu 29. september rann víman svo af okkur og við skullum til jarðar. *
Já, þetta var undarlegt ár. Í veðurlýsingum er talað um aftakaveður þegar miklar sviptingar eiga sér stað í veðrinu. Það má því segja að árið 2008 hafi verið "aftakaár" í sama skilning - en tjónið hefur ekki verið metið til fulls.
*PS: Þess má geta til fróðleiks að Mikjáll erkiengill, sem dagurinn er tileinkaður, hafði það hlutverk að kollvarpa illum öflum og vernda kristnar sálir. Sérstök Mikjálsbæn var beðin í kaþóskum messum til ársins 1964 en Mikjálsmessa var tekin út úr helgidagatalinu árið 1770.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Það er nóg komið
30.12.2008 | 13:37
Hafi einhvern tíma verið í hugskoti mínu snefill af samstöðu með Ísraelsmönnum - einhver minnsti vottur af skilningi á aðgerðum þeirra og afstöðu gagnvart Palestínumönnum - þá er hann nú fokinn út í veður og vind eftir síðustu atburði á Gaza. Árásir Ísraelsmanna á Palestínumenn um þessi jól eru yfirgengilegt grimmdarverk og ekkert annað.
Það er nóg komið af þögn og meðvirkni heimsins gagnvart yfirgangi Ísraelsmanna og grimmd þeirra í garð Palestínumanna. Það er óþolandi að horfa upp á annað eins og þegja.
Nokkrir þjóðhöfðingjar hafa nú þegar harmað atburðina á Gaza og sent yfirlýsingar þess efnis til heimspressunnar. En það er bara ekki nóg. Það á að sýna Ísraelsmönnum vanþóknun í verki - slíta öllu sambandi við þá og viðskiptum. Það eigum við Íslendingar líka að gera, þó við séum lítil þjóð og fámenn.
Ég veit vel að það breytir sjálfsagt engu fyrir gang mála hvað okkur finnst. En samvisku okkar og sjálfsvirðingar vegna megum við ekki sitja þegjandi og aðgerðalaus. Það minnsta sem við getum gert er að fordæma þessa framgöngu Ísraelsmanna afdráttarlaust og láta sjást að við viljum engin samskipti við þá sem haga sér svona.
![]() |
Yfir 1.700 særðir á Gaza |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Skammarleg frammistaða LÍN
29.12.2008 | 21:01
Lánasjóður íslenskra námsmanna á skömm skilið fyrir slælega frammistöðu gagnvart námsmönnum erlendis. Á annað hundrað námsmenn hafa nú beðið í tvo mánuði eftir afgreiðslu svokallaðra neyðarlána sem menntamálanefnd Alþingis og menntamálaráðuneytið lofuðu námsmönnum fyrr í haust. Menntamálaráðherrann sló sér meira að segja upp á þessu og maður trúði því eitt andartak að einhver alvara eða umhyggja lægi þar að baki. Síðan hafa sjö - já hvorki meira né minna en sjö námsmenn af 130 umsækjendum - fengið jákvætt svar um neyðarlán. Sjóðurinn túlkar umsóknirnar eins þröngt og hugsast getur og finnur þeim allt til foráttu. Á meðan mega námsmenn í neyð bara bíða rólegir.
Unga konan sem ekki gat talað ógrátandi við fréttamann Kastljóssins í kvöld þegar hún var beðin að lýsa aðstæðum sínum - hún er ein þeirra sem nú á að bíða róleg ef marka má þá sem bera ábyrgð á aflgreiðsluhraðanum hjá LÍN. Já, engan æsing hérna! Þetta verður alltsaman athugað í rólegheitunum.
Þetta nær auðvitað engri átt.
Og það var vægast sagt vandræðalegt að hlusta á Sigurð Kára - formann menntamálanefndar Alþingis - reyna að mæla þessu bót í Kastljósi kvöldsins. Hann talaði eins og það hefði verið menntamálanefndin (eða ráðuneytið) sem átti frumkvæði að því að athuga með stöðu námsmanna erlendis. Ég man þó ekki betur en það hafi verið námsmannasamtökin sjálf (SÍNE) sem vöktu athygli ráðamanna á bágu ástandi námsmanna í útlöndum. Það voru námsmenn sjálfir sem settu fram beinharðar tillögur að lausn vandans til þess að flýta fyrir henni. Raunar brugðust bæði menntamálanefnd og -ráðuneyti skjótt við - en það sama verður ekki sagt um stjórn LÍN.
Það hlýtur eitthvað mikið að vera athugavert þegar einungis sjö af um 130 umsóknum um neyðarlán hafa verið afgreiddar á tveimur mánuðum. Það er ekki eðlilegt að virða umsækjendum allt til vansa og vammar þegar meta skal þörf þeirra fyrir neyðaraðstoð.
Nógu erfitt er fyrir námsmenn að fá aðeins eina útborgun á önn, eftir að önninni er lokið, og þurfa að fjármagna framfærslu sína með bankalánum meðan beðið er eftir námsláninu. Og þegar það er fengið, dugir það rétt til að gera upp við bankann vegna annarinnar sem liðin er - og svo þarf að taka nýtt bankalán til að fjármagna önnina sem er framundan.
Það segir sig sjálft að þetta siðlausa fyrirkomulag þjónar ekki námsmönnum - það þjónar fyrst og fremst bönkunum sem þar með geta mjólkað lánakostnaðinn önn eftir önn eftir önn - árum saman.
Ef einhver dugur er í menntamálanefnd Alþingis og menntamálaráðherra þá verður núna stokkað upp í stjórn LÍN og stjórn og starfsliði sjóðsins gerð grein fyrir því hver sé raunverulegur vilji ráðmanna í þessu máli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)