Skömm og sómi ... í sama fréttatíma!

 Ég er heilshugar fegin (já, og stolt af því) að Ingibjörg Sólrún skuli nú hafa tekið af skarið og fordæmt innrás Ísraelshers á varnarlausa borgara á Gaza. Þess meira undrandi (já, og hneyksluð) er ég á því að menntamálaráðherra skyldi í útvarpsfréttum í morgun tjá sig um ástandið á Gaza eins og hún væri þess umkomin að tala um utanríkismál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Hvað gekk Þorgerði Katrínu til? Er hún að storka utanríkisráðherra? Er hún að storka stjórnarsamstarfinu? Það var nú ekki eins og menntamálaráðherrann hefði mikið eða viturlegt um málið að segja - það sem hún sagði var bara hugsunarlaus upptugga af ummælum Bush frá í gær. Þarna finnst mér Þorgerður Katrín hafa gengið of langt - hún varð sér einfaldlega til skammar.

Hvenær hefði það gerst að utanríkisráðherra færi í útvarpsviðtal til þess að svara fyrir pólitíska afstöðu ríkisstjórnarinnar í menntamálum? Það er orðið þreytandi að sjá þennan tiltekna ráðherra hlaupa til hvenær sem færi gefst í viðtöl. Nú síðast vegna þess að það náðist ekki strax í forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann - til þess að segja svo ... eiginlega ekki neitt af viti.

Þeir vita það þá hinir ráðherrarnir í ríkisstjórninni - næst þegar ekki næst samband við menntamálaráðherrann í eina eða tvær klukkustundir - að þá er þeirra tækifæri til þess að tala um menntamál í útvarpið. Sérstaklega ef þeir vilja tjá skoðanir sem eru á skjön við afstöðu fagráðherrans.

Er hægt að vinna með fólki sem hagar sér svona?


mbl.is Fordæmir innrás á Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Reyndar finnst mér þær báðar kjánalegar. Sé ekki hvað þessi yfirlýsing ISG er til að vera stoltur yfir. En ÞKG er svo sem ekkert að gera neitt sem maður getur verið stoltur yfir frekar. Held það ætti að fara að huga að kosningum, tippa á 16.maí.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.1.2009 kl. 16:06

2 Smámynd: Sævar Helgason

"Er hægt að vinna með fólki sem hagar sér svona?"

Nei , vonandi fer þetta að styttast.   Kjósum fyrrihluta vors og göngum í endurnýjun lífdaga.

Sævar Helgason, 4.1.2009 kl. 16:09

3 identicon

ÞGK varð fúl út af ummælum ISG varðandi ESB umræðu innan Sjálfstæðisflokksins, eins og margir aðrir sjálfstæðismenn um helgina.  Svo fúl að hún tjáði sig um það sem þú ert að lýsa.  Ráðherrar ríkisstjórnarinnar komnir í hana/hænuslag.  Og þá er stutt í skilnaðinn.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 16:10

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þorgerður Katrín varð sér til stórskammar.

Hólmdís Hjartardóttir, 4.1.2009 kl. 16:12

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég er heilshugar fegin (já, og stolt af því) að Ingibjörg Sólrún skuli nú hafa tekið af skarið og fordæmt innrás Ísraelshers á varnarlausa borgara á Gaza.

Sammála þessu Ólína.. en meintiru ekki , loksins tekið upp keflið.. því flest allir þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnir þessa heims fyrir utan bush hafa fordæmt þessa morðingja í ísrael fyrir löngu síðan... 

Óskar Þorkelsson, 4.1.2009 kl. 16:12

6 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

 d_bloggi_myrtar_af_hamas_221848

Saklaust fólk hefur látið lífið í tilgangslausum árásum Hamas gegnum árin.  HVENÆR KOM FORDÆMING Á ÞEIM ÁRÁSUM FRÁ ÍSLANDI ????????  Hvar var hún IMBA?

Hver fordæmdi á Íslandi, þegar Hamas myrti unga móður og fjórar dætur hennar árið 2004 (sjá mynd)? ENGINN.  Þær voru skotnar í tætlur af frelsishetjum Hamas. ERUÐ ÞIÐ BÚIN AÐ GLEYMA?

Íslenskir fjölmiðlar notuðu tvær línur á þær. Sumir minntust ekki á þær.  TVÆR LÍNUR, skítseyðin ykkar.

Margir Íslendingar hafa einhliða skoðun á máli sem þeir vita ekkert um. Hatrið stjórnar ykkur. Þið eigið reglulega bágt í kreppunni.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 4.1.2009 kl. 16:30

7 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæl. Engin segir neitt þegar börn eru myrt í Afríku þau eru svört Íslendingum er sama engin segir neitt öfgahópar líta bara á Afríkubúa sem negra.

  Uppreisnarmenn frá Úganda eru sagðir hafa drepið fjögur hundruð óbreytta borgara í Austur-Kongó í árásum frá því á jóladag. Þá hafa um 20.000 manna flúið til fjalla samkvæmt upplýsingum hjáparstarfsmanna á svæðinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Bruno Mitewo, yfirmaður kaþólskra hjálparsamtaka á svæðinu, segir látna eftir árásir uppreisnarmanna nú verða orðna 400. Segir hann 140 óbreytta borgara hafa látið lífið í Faradje, nærri 75 í Duru og 215 í Doruma. Þá sefir hann alla hafa verið drepna með sveðjum eða neydda til að ganga á eld. 

„Þorpin voru öll brennd til grunna af uppreinarmönnum,” segir hann. Við vitum ekki enn hversu margir komust af þar sem þorpin eru öll tóm.” Þó segist hann hafa upplýsingar um að um 20.000 manns hafi flúið til fjalla. Forsvarsmenn uppreisnarmanna neita því að þeir hafi staðið á bak við árásirnar.

Vitni segja uppreisnarmenn hins vegar hafa verið að verki og að þeir hafi skorið varir af hópi fólks sem viðvöruna til annarra um að segja ekki til þeirra.   

Talið er áð árásirnar séu hefndarárásir eftir að stjórnarherir Úganda, Suður-Súdan og Austur-Kongó efndu til sameiginlegra hernaðaraðgerða gegn uppreisnarmönnum um miðjan desember.  Joseph Kony, leiðtogi uppreisnarmanna, hafði þá neitað að skrifa undir friðarsamkomulag fyrir hönd samtaka uppreisnarmanna nema honum væru persónulega gefnar upp sakir.

Hann hefur farið huldu höfði í frumskógunum í  norðausturhluta Austur-Kongó undanfarin ár og er eftirlýstur af stríðsglæpadómstól sameinuðu þjóðanna vegna ásakana um stríðsglæp og glæpi gegn mankyninu.

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 4.1.2009 kl. 16:49

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Æ, það er svolítið þreytandi þegar umræðan fer í þetta far.

Vissulega er margt hræðilegt sem gerist í heiminum, sbr. Hamas árásin á Ísraelsku mæðgurnar fyrir fjórum árum. ISG var bara ekki utanríkisráðherra þá. Og hér hefur enginn tekið upp vörn fyrir Hamas, eða aðra þá sem beita skæruhernaði, hryðjuverkum eða öðru ofbeldi.

En má maður þá aldrei minnast á neitt sem vel er gert, af því það hefði átt að gerast fyrr eða oftar eða öðruvísi eða annarstaðar ... o.s.frv.? Það er sorglegt að geta aldrei séð neitt jákvætt í lífinu og vera svo fullur heiftar og ásökunar eins og ákveðnar athugasemdir hér ofar bera með sér. 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.1.2009 kl. 17:08

10 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Þú mátt ekki gleyma því Ólína að Þorgerður er varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Þegar ekki næst í formanninn og auk þess ekki í utanríkisráðherra þá er fullkomlega eðlilegt að talað sé við hana. Það er nefnilega svo að þó að ykkar ágæta varaformanni sé ekki treyst til nokkurs skapaðar hlutar þá er það ekki svo allsstaðar. Það sem að Þorgerður sagði var að hún ætlaði ekki að fordæma þetta án þess að það væri rætt í ríkisstjórninni, það heita heilindi. Ekki ætlast ég til að þið skiljið svoleiðis vinnubrögð talandi í allar áttir sí og æ.

Ingólfur H Þorleifsson, 4.1.2009 kl. 17:09

11 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ekki veit ég hvað varaformaður Samfylkingarinnar hefur unnið sér til óhelgis gagnvart þér Ingólfur - hann er þessari umræðu óviðkomandi. Ummæli þín um hann eru í hæsta máta óviðeigandi og koma ekki málinu við.

Svo gleymir þú því að ríkisstjórnin er ekki Sjálfstæðisflokkurinn, heldur samstarf tveggja flokka þar sem ráðherrar eru í forsvari fyrir tiltekna málaflokka. Þorgerður Katrín er ekki talsmaður ríkisstjórnarinnar nema fyrir sitt ráðuneyti. Framkoma hennar á ekkert skylt við heilindi - nema síður sé.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.1.2009 kl. 17:24

12 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Ég er aðeins að benda á að Þorgerður nýtur trausts hjá sínum flokki til starfa, það er tæplega hægt að segja um varaformann Samfylkingarinnar sem ítrekað hefur verið sniðgenginn undanfarin misseri. Það er hins vegar gott að einhver af ykkur gerir sér grein fyrir að þetta sé samstarf tveggja flokka, það væri óskandi að fleiri en þú gerðu það. Ekki hafa þeir hagað sér svoleiðis ráðherrarnir þínir oft á tíðum. Ef þú hefur hlustað á fréttirnar í hádeginu þá sagðist þorgerður EKKI ætla að fordæma þetta fyrr en eftir að ríkisstjórnin hefði rætt þetta. Er það að vera talsmaður ríkisstjórnarinnar ? Ég er nokkuð viss að Ingibjörg hefur aðeins verið að tjá eigin skoðun, ekki ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin er nefnilega ekki Samfylkingin þó svo að ykkar ágæti formaður hagi sér æ oftar þannig.

Ingólfur H Þorleifsson, 4.1.2009 kl. 17:42

13 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ólína æsir palestínskt blóð þig meira en gyðingablóð?

Þú skrifar færslu til að hylla Imbu, en þegar ég minni þig á konu og fjórar dætur hennar (reyndar 5, þar sem hún var ólétt er hún var drepin af Hamas), þá er það þreytandi. Er það ekki hræsni?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 4.1.2009 kl. 18:29

14 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vilhjálmur Örn - þú skalt skammast þín fyrir þá ógeðfelldu aðdróttun sem felst í þinni athugasemd.

 Þitt æsinga- og heiftartal er engum málstað til góðs. Mér er fúlasta alvara.

Skammastu þín.  

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.1.2009 kl. 19:35

15 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Annars var ég að skoða bloggsíðuna hjá þessum Vilhjálmi Erni - hún er víti til varnaðar. Þar er til dæmis færsla um Gaza sem er svo fáránleg að ég er orðlaus.

Sannleikurinn vefst stundum fyrir honum villa karlinum.

Óskar Þorkelsson, 4.1.2009 kl. 20:18

16 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Misskil ég eitthvað hérna eða...

Ef ég hef skilið þetta rétt fordæmir ISG árásir Ísraela á Gaza sem persónan Ingibjörg Sólrún en EKKI sem utanríkisráðherra fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.

Það er bara ekki nóg.

Lára Hanna Einarsdóttir, 4.1.2009 kl. 20:54

17 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Lára Hanna - yfirlýsingin barst frá Utanríkisráðuneytinu, ekki af Neshaganum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.1.2009 kl. 21:24

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Undirritaður og kötturinn sem kemur inn um gluggann í sólskini höfum ákveðið eftir miklar deilur að senda frá okkur sameiginlega yfirlýsingu um þetta mál:

Sjaldan veldur einn þá tveir deila.

Þorsteinn Briem, 4.1.2009 kl. 21:37

19 Smámynd: Anna Guðný

En má maður þá aldrei minnast á neitt sem vel er gert, af því það hefði átt að gerast fyrr eða oftar eða öðruvísi eða annarstaðar ... o.s.frv.? Það er sorglegt að geta aldrei séð neitt jákvætt í lífinu og vera svo fullur heiftar og ásökunar eins og ákveðnar athugasemdir hér ofar bera með sér. 

Mikið ofboðslega hef ég oft fengið þessa tilfinningu hér á blogginu.

Verð að segja líka að ég er alveg sammála dvergnum og Ylfu. Spurning hvort þessi her, hann er nú ekkert á huldu fyrir okkur sem fylgjumst með, nái ekki vinsældum með sínar síður og finnist þá þeir verða að nota aðrar aðferðir.

Kveðja

Anna Guðný , 4.1.2009 kl. 23:17

20 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hálfkák gagnast engum.  Það er verið að myrða með köldu blóðu konur, menn og börn sem ekkert hafa til saka unnið en eru geymd eins og dýr í búri á lokuðu Gasasvæðinu.

Fordæming er ekkert nema hálfkák.  Stjórnmálasambandsslit skal það vera ef það er einhver töggur í íslenskum stjórnvöldum, sem ég er reyndar farin að stórefast um mín kæra bloggvinkona.

Og fyrir mig skiptir það engu hver flokkurinn er sem vinnur verkið bara að það sé gert þannig að maður geti í alvörunni verið stoltur.

Jenný Anna Baldursdóttir, 4.1.2009 kl. 23:23

21 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég fordæmi öll dráp.

Ég fordæmi líka málflutning Vilhjálms Arnar....... fyrr og nú.  Einhverju sinni bloggaði ég um Sjálfstæðisflokkinn og drengurinn hélt því fram að ég væri NASISTI.     Ég gerði sjálfri mér þann greiða að útiloka hann. 

Gleðilegt ár Ólína.

Anna Einarsdóttir, 5.1.2009 kl. 08:21

22 identicon

Mikið ert þú ómerkileg, Anna Einarsdóttir. Ekki hef ég gert athugasemdir hjá þér og ekki sýnist mér að ég sé útilokaður á síðu þinni. Ég var að setja þar inn athugasemd. Ertu ekki að rugla við einhvern annan Vilhjálm?

Ég er ekki félagi í Sjálfstæðisflokknum og tel reyndar að þriðji hluti þeirra sem sitja að völdum í honum séu afkomendur íslenskra nasista, svo þú hlýtur að vera að ímynda þér eitthvað.

Þú þolir kannski heldur ekki að sjá og heyra um ísraelska konu og fjórar dætur hennar sem skotnar voru í tætlur af frelsishetjum Hamas?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 08:46

23 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Vilhjálmur Örn. 

Ég biðst innilega afsökunar því ég fór mannavillt.  Það var allt annar Vilhjálmur sem ruddi út úr sér fúkyrðum sem ekki er hafandi eftir, á síðunni minni í fyrra.  Mér þykir það mjög miður að þú skyldir verða fyrir þessari ómaklegu athugasemd minni. 

Anna Einarsdóttir, 5.1.2009 kl. 11:45

24 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ágætu lesendur.

Ég hef nú fjarlægt nokkrar athugasemdir héðan og vil rökstyðja ástæðuna.

Í fyrsta lagi þá kæri ég mig ekki um að fólk noti þetta athugasemdakerfi til þess að setja inn svívirðingar og óviðeigandi aðdróttanir hvert um annað  hvort sem það eru ásakanir um gyðingahatur, mannhatur almennt, ritskoðun, hræsni ... eða hvað veit ég.

Í öðru lagi þá er mér illa við óralangar færslur inni í athugasemdakerfinu - sérstaklega ef þær innihalda fátt annað en vammir og skammir um aðra sem hér hafa sett inn athugasemdir.

Í þriðja lagi þá er þessi síða ætluð málefnalegum umræðum, ekki skætingi eða offorsi. Ég bið ykkur - eins og hver annar húsráðandi myndi gera - að vaða ekki yfir athugasemdakerfið mitt á skítugum skónum heldur virða umgengnisreglur húsráðanda.

Viljið þið nú vera svo væn(ir) - þið sem kallið ykkur Vilhjálm Örn, Kreppukallinn, Rauða ljónið og ýmislegt fleira. Viljið þið vera svo væn(ir) að virða umgengisreglurnar hér og hógværa bón síðuhöfundar um að ganga með tilhlýðiegri virðingu um þessa síðu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.1.2009 kl. 15:07

25 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Jenný Anna. Mig langar að benda á að Ingibjörg Sólrún er þess ekki umkomin að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael upp á eigin spýtur. Það verður ríkisstjórnin að gera. Hinsvegar getur hún sem utanríkisráðherra fordæmt árásirnar, og það hefur hún gert. Fyrir það er ég þakklát.

Hinsvegar tek ég undir með þér að nú finnst mér að Íslendingar ættu að slíta öllu sambandi við Ísrael - eins og ég bloggaði um fyrir skömmu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.1.2009 kl. 15:12

26 Smámynd: Steinþór Ásgeirsson

Afhverju skiptir það einhverju máli hvað okkur finnst?

Afhverju liggur á að fá komment á þessi mál frá öðrum en utanríkisráðherra?

Sjálfsagt mál að fordæma svona aðgerðir, en ætli það sé tekið mark á því sem við segjum eða gerum þarna megin á hnettinum.

Þeir gera það sem þeim sýnist Ísraelsmönnum. Afhverju? jú þeir virðast komast upp með það.!!

Það er eiginlega skömm að þessu hvernig Guðs útvalda þjóð kemst upp með að haga sér á þessari jarðarkringlu, og sennilega allt út af því að þjóðin á sterka bakhjarla í USA, sem nóta bene hafa mikil ítök í Stjórnmálum bandaríkjamanna. 

Það getur verið að þetta sé einföldun hjá mér og lykti af fordómum, en svona lítur þetta út fyrir mér. 

Steinþór Ásgeirsson, 5.1.2009 kl. 16:13

27 identicon

Kæra Ólína, ég er Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, og er með blog á blog.is: http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/. Ég setti inn athugasemd hjá þér í gær. Nú bannar þú mér mér að gera athugasemdir. 

Ég kalla mig ekki Vilhjálm Örn, eins og þú skrifar. Ef þú læsir skoðanaskiptin, þá sæir þú að ég er Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson. Ekki "gamli góði Villi", heldur maðurinn sem sumt fólk á vina- og stuðningssíðum Hamas kallar gyðingaósómann Villa og Villa vitlausa í Köben, Villa Síonista, Villa morðingja o.s.fr. Fulltrúi múslíma á Íslandi kallaði mig hryðjuverkamann um daginn, vegna þess að ég leiðréttu villu hjá honum.

Athugasemdin mín hjá þér fjallaði um hryðjuverk Hamas.

Þú leyfðir konu, sem ég þekki engin deili á, að hreyta hér af sér ósannindum um mig í gær. Hún hefur nú beðist afsökunar á ósannindum um mig og ég fyrirgef henni að fara mannavillt.

En, athugasemd, þar sem ég segi frá morðum Hamas og konu og fjórum dætrum hennar gera það að verkum, að þú lokar á mig. 

Ég vona ekki að útilokun þín byggi á fordómum. Ég útiloka aðeins fólk frá mínu bloggi, sem er með hatur, dónaskap, hótanir eða alvarlegar lygar. Þú útilokar fólk sem vill segja frá fórnalömbum Hamas.

Þegar stríðinu á Gaza líkur, vona ég að þú setjir út lista yfir öll börnin sem myrt hafa verið á Gaza, svo við getum minnst þeirra á tilheyrandi hátt, ekki sem fréttamynda.

Hér er hluti þeirra barna sem Hamas og aðrir öfgamenn hafa myrt í Ísrael, Sjáhttp://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/229060 :

Kornabörn

1til2ára

3til4ára

5til8ára

9til11ára

12til13ára

14ára

15ára

16ára

17 ára

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 10:58

28 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vilhjálmur Örn - ég lokaði ekki á þig vegna þess að þú sagðir frá morði á móður og dætrum. Enda stendur sú athugasemd inni. Ég lokaði á þig vegna athugasemdar nr. 14 þar sem þú sakar mig um gyðingahatur - sakar mig um að reiðast úthellingum á palenstínsku blóði en láta mér í léttu rúmi liggja úthellingar gyðingablóðs.

Þessi athugasemd þín var svo skammarlega ómerkileg að ég sé ekki ástæðu til að heimila þér frekari heimsóknir inn á þessa síðu þó svo að orð þín hafi fengið að standa. Þú getur ruðst hér inn, eins og þú gerir, eftir öðrum leiðum. Þú verður að eiga það við sjálfan þig hvað þér finnst viðeigandi. En persónulega finnast mér færslur þínar og athugasemdir um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs afar ógeðfelldar.

Því miður virðist þú ekki sjá það sjálfur - heldur ryðst hér inn hvað eftir annað og yfirtekur athugasemdakerfið hjá mér með myndbirtingum og óralöngum færslum sem eru uppfullar af svívirðingum og ógeðfelldum aðdróttunum.

Ég hef skömm á svona málflutningi.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 6.1.2009 kl. 15:01

29 identicon

Ég hélt engu fram um skoðanir þínar, Ólína. Ég spurði bara, hvort blóð Palestínumann æsti þig meira en gyðingablóð!

Ólína, hvar eru annars skrif þín börn sem Hamas hefur myrt? Ég fann ekkert, þess vegna setti ég inn myndir af þeim. Ég vona að við fáum að sjá myndir af börnum þeim sem dóu í núverandi stríði. Allt verður að tína til. Það er ekki bara nóg að komast inn í líkgeymslur Hamas í fréttatímanum. Þetta eru börn með nöfn og heimilisfang. Palestínumenn bera vonandi meiri virðingu fyrir þeim en svo að síðasta við sáum til þeirra var á hillunni í líkhúsi á Gaza.

Annað sem þú skrifar um mig eru dylgjur, sem þú getur ekki undirbyggt. Ég hef ekki ráðist á neitt. Spurning er ekki árás. Þú ert með opið athugasemdarkerfi. Ég minnti á fimm af fórnarlömbum Hamas á því. Það gerði þig reiða, því þú ef til vill helst ekki heyra annað en þína hlið á málum. Ef þú vilt ekki ræða hlutina við aðra, ættir þú ekki að hafa opið fyrir athugasemdir.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 15:19

30 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Spurningin ein og sér er meiðandi Vilhjálmur Örn - það hlýtur þú þó að sjá. Enda hef ég grun um að henni hafi verið ætlað að vera það.

En svo ég stafi það nú fyrir þig - sem þú þykist ekki skilja - þá lít ég að sjálfsögðu svo á að saklaust blóð sé saklaust blóð hvaða þjóð, trú eða kynþætti sem það tilheyrir.

En við Íslendingar lifum ekki lengur á tímum blóðhefnda og það er ekki viðtekin rökvenja hjá siðuðu fólki að réttlæta eitt illvirki með því að benda á annað. Slíkt er siðvilla.

Það er sú siðvilla sem hefur gagntekið þá sem standa fyrir árásarhernaði og blóðsúthellingum fyrir botni Miðjarðarhafs. Stundum eru það skæruliðar sem kenna sig við Hamas, og hér hefur engin tilraun verið gerð til að réttlæta ódæðisverk sem unnin eru í þeirra nafni. Að sjálfsögðu ekki. 

En að þessu sinni er það ríkisstjórn Ísraels sem með kaldrifjuðum og markvissum hætti fremur fjöldamorð á saklausum borgurum sem komast hvorki lönd né strönd. Slíkt ber að sjálfsögðu að fordæma.

Svo vil ég ekki ræða þetta við þig frekar. Og meðan þú dregur ekki þá aðdróttun til baka sem felst í spurningunni, ert þú ekki velkominn hér inn á síðuna. Það væri afar slæmt ef ég þyrfti að loka fyrir aðrar athugasemdir bara til þess að halda þér einum frá. Ég veit ekki hvort þú hefur það í þér að virða þessi tilmæli mín - en þau eru afdráttarlaus.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 6.1.2009 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband