Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Heit mitt og játning
19.1.2009 | 15:25
Ykkur að segja þá hef ég fengið mig svo fullsadda af reiði og meðvirkni í samfélaginu að ég segi hvoru tveggja hér með stríð á hendur. Og þá er ég bæði að tala um meðvirknina í sjórnarsamstarfinu og innan stjórnmálaflokkanna og líka þá meðvirkni sem verður æ meira áberandi í tengslum við mótmælin í landinu og andstöðu við stjórnvöld.
Ég er staðráðnari en nokkru sinni í að þegja hvorki yfir því sem miður fer né heldur hinu sem vel er gert, hvernig svo sem það kann að koma niður á flokkstengslum, mannvirðingum eða hagsmunum. Ég fylgi engu og engum að máli nema sannfæringu minni og samvisku. Mér er ljóst að fyrir vikið verð ég kannski sökuð um svik við einhvern málstað og á mig ráðist fyrir að fylgja ekki fjöldanum. Það verður þá að hafa það.
Ég tek mér það frelsi sem mér er heitið í stjórnarskrá lýðveldisins að tjá skoðun mína.
Að þessu sögðu vil ég létta fyrsta steininum af brjósti mínu.
1) Eftir að hafa horft á borgarfundurinn sem haldinn var s.l. mánudag átta ég mig á því að það reiðin í samfélaginu er að verða að einhverskonar hópsefjun. Það er komin "við " og "þið" stemning - og sú stemning er við það að ganga of langt. Hún getur auðveldlega breyst í sjálfsréttlætingu þeirra sem telja sig vera knúna áfram af "réttlátri reiði". Hættan er sú að fólk sem er í hjarta sínu reitt og vill ríkisstjórnina burt, telji sig skyldugt til að taka undir með öllum þeim sem tjá reiði sína, án tillits til þess hvernig það er gert: Að fjöldinn fari að sætta sig við fleira en gott þykir í nafni samstöðunnar. Sú tilhneiging var áberandi á borgarafundinum séð frá mínum sjónarhóli.
2) Ég styð ekki þá ríkisstjórn sem nú situr enda kaus ég Samfylkinguna við síðustu kosningar, ekki ríkisstjórnina. Ég tel óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin víki, sett verði utanþingsstjórn og síðan boðað til stjórnlagaþings.
Ég held að ríkisstjórnin eigi engan annan kost, ef ekki á að verða upplausn í landinu, en að stíga til hliðar og stuðla að því að hér verði mynduð starfhæf utanþingsstjórn - í skjóli og með hlutleysi Alþingis. Þetta gæti verið einhverskonar þjóðstjórn. En ráðamenn verða að átta sig á því trúnaðarrofi sem orðið er milli þeirra og almennings í landinu. Það rof verður ekki bætt með því að þumbast áfram og streitast við að sitja.
----------
Fallegu myndina hér fyrir ofan tók Oddur Jónsson. Hún er ef Kubbanum í SKutulsfirði, tekin yfir Pollinn á Ísafirði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (63)
Framsókn gamla hressist aðeins
18.1.2009 | 23:22
Ég sé ekki betur en Framsóknarflokkurinn sé bærilega staddur með mannval ef marka má þetta formannskjör. Sigmundur og Höskuldur eru báðir afar frambærilegir menn og hin nýja forysta flokksins hefur yfir sér ferskt og trúverðugt yfirbragð. Þó byrjunin hafi verið svolítið brösuleg vil ég óska Sigmundi Davíð til hamingju með kosninguna. Það er ánægjulegt að sjá nýtt fólk með heilbrigðar áherslur kveða sér hljóðs á stjórnmálasviðinu núna.
En ég stenst ekki mátið að skella hér inn tveimur góðum ferskeytlum sem urðu til á Leirvefnum í kvöld. Þessi er eftir Pétur Stefánsson:
Í Framsókn er bæði fjör og drama,
-fremstur var Höski í sigurliði
og stóð í ljósi frægðar og frama
í fimm mínútur uppi á sviði.
Og hér er önnur eftir Davíð Hjámar Haraldsson:
Lokatölur beint úr flokksins bók
baksar við að lesa þegar húmar;
Haukur gaf og Haukur síðan tók
af Höska eftir fimm mínútur rúmar.
Já - það á ekki af þeim að ganga framsóknarmönnum.
![]() |
Sigmundur kjörinn formaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gott!
17.1.2009 | 09:16
Gott hjá íslenska utanríkisráðuneytinu að afþakka bara með kurt og pí komu ísraelska menntamálaráðherrans eins og á stendur. Þeir óskuðu ekki einu sinni eftir að fá að koma heldur tilkynntu komu sína. Það sýnir nú kannski hugarþelið hjá þessari hernaðarþjóð sem lætur sprengjum rigna yfir saklausa borgarar til þess að uppræta fámennan hóp uppreisnarmanna sem sumir vilja kalla hryðjuverkamenn.
Sæju menn það gerast í New York til dæmis að Manhattan yrði sprengd í loft upp fyrir það að hryðjuverkamaður eða skæruliði (misjafnt hvernig menn vilja skilgreina þessa Hamas liða) hefði komið sér þar fyrir? Varla.
Ísraelar verða að fá að finna andúð siðaðra þjóða á framferði þeirra. Það er það minnsta sem við getum gert.
Fyrr í vikunni sendi Amnesty International út form að áskorunarbréfi til forseta Ísraels vegna mannfallsins og aðstæðnanna á Gaza. Bréfið má einnig finna á heimasíðu samtakanna (hér). Ég vona að sem flestir finni sig knúna til að prenta það út, undirrita og senda.
![]() |
Heimsókn Ísraela til Íslands afþökkuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hugsað til Ingibjargar Sólrúnar
15.1.2009 | 22:59

Í þessum erfiðleikum hefur hún hvergi hlíft sér - ekkert frekar en gæðingurinn sem fasmikill skeiðar fram völlinn. Úrvalsgæðingar halda fullri reisn meðan stætt er. Þannig er Ingibjörg Sólrún. Ég óttast að hún hafi gengið fram af sér; að hún sé nú að gjalda með heilsu sinni fyrir úthaldið.
Elsku Ingibjörg Sólrún. Þúsundir félaga þinna og samverkafólks hugsa til þín núna. Þú hefur staðið þig eins og hetja - staðið með þjóð þinni eins og stólpi í hafróti undangenginna mánaða. Þú hefur tekið á þig ágjafir, árásir og vanþakklæti - vina sem óvina - af yfirvegun og aðdáunarverðri stillingu.
"Fyrst kemur fólkið - svo flokkurinn" sagðir þú einbeitt á síðasta flokksstjórnarfundi. Enginn sem þekkir þig efast um heilindi þín gagnvart þjóðinni - umhyggju þína og skyldurækni.
Eins og fleiri á ég nú þá þá ósk heitasta þér til handa, að þú fáir næði til þess að endurheimta heilsuna.
Við eigum enn ógengnar svo margar slóðir á Hornströndum. Og enn er svo mikið verk að vinna fyrir þig sem stjórnmálaleiðtoga.
Guð veri með þér og blessi verk þín. Heimurinn er ríkari með þig innanborðs.
Góðan bata.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.1.2009 kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Vonartýran kviknar
14.1.2009 | 13:51
Efnahagshrun þjóðarinnar er ekki eini vandinn sem við er að eiga í dag. Það sem ég óttast mest um þessar mundir er hið andlega hrun sem fylgt gæti kjölfarið. Og meðan reiðialdan rís sem hæst er hætta á því að lýðskrumarar og eiginhagsmunaseggir sveifli sér upp á ölduna til að láta hana bera sig að ströndum nýrra áhrifa, athygli og valda ... án þess þó að neitt annað breytist.
Sú umræða sem hér hefur orðið á síðunni minni síðustu daga um boðun stjórnlagaþings og stofnun nýs lýðveldis sýnir glöggt að almenningur á Íslandi þráir að sjá vonarljós í þokunni. Hugmyndin um nýtt lýðveldi felur í sér ákveðna lausn - við getum kallað það geðlausn. En fólk þráir að geta horft fram á nýtt upphaf.
Vitanlega felst nýtt upphaf í uppgjöri og endurreisn sem tekur sinn tíma. Fjármálakerfið er jú hrunið og það mun taka langan tíma að koma því á lappirnar aftur. Skúrkarnir í sögunni þurfa sín málagjöld. Tíminn sem þetta tekur er sársaukafullur.
En það er fleiri verk að vinna. Og þau verk þurfa ekki að vera svo tímafrek. Það þarf ekki að taka svo langan tíma að smíða nýja stjórnarskrá og semja samfélaginu nýjar leikreglur. Lögspekingar, siðfræðingar, hagspekingar og fleira vel hugsandi fólk gæti unnið slíkt verk á fáum mánuðum. Umræða um endurnýjun stjórnarskrárinnar er jú ekki ný af nálinni, og það er vel vinnandi vegur að koma saman góðum hópi fólks til þess að smíða það helgiskrín sem stjórnarskráin á að vera.
Hér á síðunni minni hefur verið rætt um þá grunnhugmynd að kjósa til stjórnlagaþings sem sæti í 6-12 mánuði og hefði það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá sem leggði grunn að nýju lýðveldi. Um hana yrði almenn þjóðaratkvæðagreiðsla, síðan alþingiskosningar eftir nýju stjórnarskránni. Þetta gæti átt sér stað eftir tveimur leiðum.
A) með þáttöku alþingis og núsitjandi ríkisstjórnar sem héldi áfram að stjórna landinu óháð stjórnlagaþingi
B) með myndun þjóðstjórnar eða utanþingsstjórnar (eða einhverskonar útfærslu af hvoru tveggja)
Til að þrýsta á stjórnvöld að hleypa þessu umbótaferli af stað mætti kalla saman hóp málsmetandi Íslendinga. Það fólk gæti lagt málið upp, þ.e. samið góða ályktun eða áskorun á stjórnvöld þar sem sett yrði fram skýr og einföld krafa um nýja stjórnarskrá og stofnun nýs lýðveldis. Efnt yrði til undirskriftarsöfnunar við þá ályktun á netinu og síðan - þegar komnar væru 20-50 þús undirskriftir - yrði gengið á fund forseta og forsætisráðherra.
Nú eru nokkrir "málsmetandi" aðilar farnir að tala saman. Ekki get ég fullyrt um hvað út úr því kemur, en vonandi verður það eitthvað gott. Hér er ekki verið að tala um stofnun nýs stjórnmálafllokks heldur einfaldlega að mynda þrýsting með undirskriftarsöfnun.
Ég mun halda lesendum upplýstum eftir því sem tilefni gefst til á næstunn.
Íslandi allt!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá
12.1.2009 | 14:36
Jón Kristjánsson fv. ráðherra skrifar merka grein í Fréttablaðið í dag (bls. 15) um þann möguleika að þjóðin kjósi sér sjálfstætt stjórnlagaþing sem leysi Alþingi tímabundið af hólmi á meðan samin er ný stjórnarskrá - nýtt upphaf fyrir íslenska þjóð að endurreisa lýðveldi sitt. Hugmyndir þær sem Jón Kristjánsson kynnir eru eiginlega nánari útfærsla á innleggi Njarðar P. Njarðvík um stofnun nýs lýðveldis á Íslandi, þó þær séu til orðnar af öðru tilefni.
Útfærslan felur það í sér að þjóðin sjálf sé "stjórnarskrárgjafinn með raunverulegum hætti" í stað þess að hnýta breytingar á stjórnarskránni við almennar alþingiskosningar og dægurdeilur þeim tengdar eins og venjan hefur verið. Jón bendir réttilega á að hingað til hefur frumkvæði að breytingum á stjórnarskrá aðeins getað komið frá alþingismönnum þó að stjórnvöld fari með vald í umboði þjóðarinnar.
Undirtónninn í allri umræðu þessa dagana er einmitt sá að þessu þurfi að breyta. Sú hugmynd sem þarna er reifuð - að kosið verði sérstakt stjórnlagaþing sem haldið yrði í heyranda hljóði og tillögur þess að nýrri stjórnarskrá síðan lagðar fyrir dóm þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu - virðist geta verið fær leið og þjóðinni þóknanleg.
En ég gríp hér niður í grein Jóns:
,,Með þessari skipan eru stjórnarskrárbreytingar fjarlægðar frá stjórnmálaátökum dagsins sem verka truflandi á þessa vinnu. Hugmyndin er að alþingismenn sitji ekki stjórnlagaþing til þess að þjóðin velkist ekki í vafa um þennan aðskilnað. Með því koma þjóðkjörnir fulltrúar á stjórnlagaþingi einir að málinu og ákveða nýtt upphaf að fenginni reynslu af því stjórnskipulagi sem hefur ríkt hér lítið breytt í rétt 105 ár frá heimastjórn 1904.''
Og hann heldur áfram nokkru síðar:
,,Stjórnlagaþing mundi hafa mikil verkefni og nauðsyn ber til að það spegli sem flest sjónarmið í samfélaginu. Sem dæmi um verkefnin má nefna ákvæði um ríkisstjórn og Alþingi og tengsl þeirra aðila, forseta Íslands, dómstóla, auðlindir og umhverfi . Til viðbótar má svo nefna það ákvæði sem mikið hefur verið til umræðu nú þessa dagana sem er um framsal ríkisvalds eða fullveldis. Ennfremur eru sjónarmið um almenn mannréttindi ætíð breytingum háð. Þá er brýn þörf á að setja ákvæði um aukið valfrelsi kjósenda um fulltrúa á framboðslistum og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu."
Þetta eru athyglisverðar hugmyndir og vel þess virði að þær séu skoðaðar vandlega í samhengi umræðunnar.
----------------------------
Fánamyndin hér ofar er fengin hjá Álfheiði Ólafsdóttur myndlistarkonu
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (40)
Viðreisn Alþingis - nýtt lýðveldi!
11.1.2009 | 14:23
Það gladdi mig sannarlega að heyra minn gamla læriföður og meistara Njörð P. Njarðvík orða með svo skýrum hætti hugmynd sem hefur verið að þróast í mínu eigin hugskoti - og trúlega ýmissa annarra undanfarið - um nýtt lýðveldi og viðreisn Alþingis Íslendinga. Sjónarmið Njarðar hafa komið fram í blaðaskrifum hans og nú síðast í útvarpinu í gær og svo Silfri Egils í dag.
Eins og Njörður bendir réttilega á er Alþingi Íslendinga orðin áhrifalítil afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið - ráðherrana - sem sitja í öndvegi þingsalar eins og konungshirð frammi fyrir þingliðinu. Forseti Alþingis er áhrifalaus virðingarstaða þess sem misst hefur af ráðherrastól - nokkurskonar uppbótarsæti.
Á Íslandi er nefnilega ekki virkt lýðræði í reynd - hér ríki þingræði (fulltrúalýðræði) sem í rauninni er ekkert annað en ráðherraræði. Og framkvæmdavaldið - ráðherrarnir - eru á sama tíma starfandi þingmenn. Engin skil eru á milli framkvæmdavalds og löggjafa. Þessu þarf að breyta.
Þingmenn sjálfir eru að vasast í ýmsu meðfram þingstörfum - sitja jafnvel í ráðum og nefndum úti í samfélaginu, stýra stórum hagsmunasamtökum o.s. frv. sem er að sjálfsögðu óeðlilegt.
Nýtt lýðveldi er sennilega lausnarorðið sem við þurfum. Hugmyndin felur í sér að þingið verði leyst upp og mynduð neyðarstjórn. Það gæti verið utanþingsstjórn eða einhverskonar útfærsla á þjóðstjórn eða stjórnlagaþingi í samræmi við núgildandi stjórnarskrá. En þessu mannvali yrði falið að semja nýja stjórnarskrá sem kosið yrði eftir í næstu þingkosningum.
Þessi hugmynd er svo sannarlega þess virði að hún sé tekin til alvarlegrar athugunar - hún er ekki fordæmalaus, eins og Njörður benti á. Frakkar hafa gert þetta fimm sinnum, síðast þegar DeGaulle komst til valda.
Hugmyndin um nýtt lýðveldi og viðreisn Alþingis kemur eins og ferskur andblær inn í það daunilla kreppuástand sem nú ríkir í samfélaginu og innra með þjóðinni. Ástand sem svo sannarlega gæti orðið farvegur fyrir lýðskrumara og æsingafólk sem ekki sést fyrir en gæti sem best notfært sér bágindi þjóðarinnar eins og á stendur til að skara eld að köku eigin hagsmuna.
Nei, við þurfum nýjar leikreglur. Nýtt upphaf: Endurreisum Alþingi á nýjum grunni - stofnum nýtt lýðveldi!
-----------------------------
PS: Þessa fallegu fánamynd fékk ég lánaða á síðu Álfheiðar Ólafsdóttur myndlistarkonu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.1.2009 kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (77)
Ástþóri bannað að mótmæla á fundi með mótmælendum
9.1.2009 | 23:48
Í fyrsta skipti sem ég skelli upp úr yfir frétt úr kreppunni var þegar ég sá sjónvarpsfréttina um uppákomuna í Iðnó þegar Ástþór Magnússon steðjaði þangað inn í jólasveinabúningi og var umsvifalaust kastað út af fundarmönnum. Þarna voru saman komnir grímuklæddir aktívistar ásamt lögreglu og almennum borgurum að ræða mótmælaaðferðir og virðingu fyrir skoðana- og tjáningarfrelsi þeirra sem meðal annar aðhyllast "beinar aðgerðir" í mótmælum.
Skyndilega var friðurinn rofinn. Jólasveinninn mættur - hó hó hó! Með fullan poka af kærugjöfum til stjórnvalda.
Fundarmenn litu hver á annan og í sömu andrá sameinuðust hugir viðstaddra í einni ákvörðun: Út með manninn!
Já, hvahh? Hann bað ekki einu sinni um orðið - það eru nú einu sinni fundasköp!!
Þessar "beinu aðgerðir" Ástþórs féllu greinilega ekki í kramið. Ég meina, hver vill miðaldra kall í jólasveinabúningi inn á alvarlegan fund með alvöru aktívistum í svörtum fötum með lambhúshettur og skýlur fyrir andliti? Út með manninn! Hann er ekki einu sinni töff.
Þið verðið bara fyrirgefa - en þetta var óborganleg uppákoma. Og þó að Ástþóri sé ekki skemmt (sjá hér) og öðrum fundarmönnum augljóslega ekki heldur ef marka má bloggskrif ýmissa í dag - þá skellihló ég. Skelli, skellihló.
Kannski var það vegna flensunnar - ég er auðvitað með fullan hausinn af kvefi og gæti þess vegna verið með óráði.
Á þessum síðustu og verstu tímum er auðvitað bannað að brosa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.1.2009 kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
Ekki hernaður heldur útrýming
9.1.2009 | 12:15
Þeir smöluðu á annað hundrað Palestínumönnum inn í hús - helmingurinn var börn - og létu svo sprengjum rigna á bygginguna.
Þetta er ekki hernaður - þetta er útrýming.
Svo standa málsvarar Hamas keikir (hér) og segjast aldrei muni gefast upp!
Þvílíkt brjálæði - þvílíkur djöfulskapur.
Hvar er fordæming Utanríkismálanefndar Alþingis? Hana skipa:
Fyrir Sjálfstæðisflokk:
Bjarni Benediktsson, formaður
Guðfinna Bjarnadóttir
Ragnheiður E. Árnadóttir
Fyrir Samfylkingu:
Árni Páll Árnason, varaformaður
Ásta R. Jóhannesdóttir,
Lúðvík Bergvinsson
Fyrir stjórnarandstöðu:
Kristinn H. Gunnarsson, Frjálslynda flokknum
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokknum
Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum.
![]() |
Sprengdu hús fullt af fólki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þungbær staða Samfylkingar
8.1.2009 | 11:21
Ég horfði á viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Kastljósi í gær. Hún var skelegg og rökföst að vanda. Og enn treysti ég henni til allra góðra verka. Engu að síður er ég með þyngsli fyrir brjóstinu eftir að hafa hlustað á þetta viðtal.
Það eitt að formaður Samfylkingarinnar skuli með sýnilegt óbragð í munni sjá sig tilneydda að lýsa trausti á fjármálaráðherra "til allra góðra verka" - ráðherra sem nýlega hefur fengið mjög alvarlegar athugasemdir fyrir stjórnsýslufúsk - það eitt fær á mig.
Staða Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum verður þungbærari frá degi til dags. Þetta er staða hins meðvirka maka í óregluhjónabandi þar sem allt er farið úr böndum en enn er verið að verja fjölskyldumeðlimi út á við og fela ummerkin um athafnir þeirra.
Þetta er þyngra en tárum taki.
Á sama tíma er þjóðfélagið allt í upplausn. Ríkisstjórnin trausti rúin. Krafan um afsagnir ráðherra verður sífellt háværari og þeir eru orðnir æði margir sem sitja undir rökstuddum afsagnarkröfum:
Árni Matthiesen, fjármálaráðherra
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra
Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra
Þetta er meirihluti ríkisstjórnarinnar - og farið að hitna undir fleirum. Auk þess liggur ríkisstjórnin í heild sinni undir þungu ámæli og afsagnarkröfum.
Formaður Samfylkingarinnar hefur beðið um svigrúm til handa stjórnvöldum að vinna sig út úr kreppuskaflinum og koma málum í þokkalegt horf. Það er skiljanleg ósk. En dag eftir dag koma upp nýjar fréttir um fúsk og feluleiki, spillingarmál, vanrækslu og atgerfisskort í stjórnkerfinu. Nú síðast varðandi vitneskju Árna Matthiesen og Geirs Haarde um alvarlega stöðu tveggja Glitnisssjóða sem jafnað hefur verið til vitorðs (hér).
Meðal neyðarráðstafana stjórnvalda í skaflmokstrinum eru sparnaðaraðgerðir sem ekki aðeins eru sársaukafullar - þær fela í sér aðför að grunnstoðum velferðarkerfisins. Það eru skelfilegir hlutir að gerast í heilbrigðiskerfinu. Og allt á þetta sér stað nánast án umræðu, á þeirri forsendu að stjórnvöld þurfi frið til að moka sig í gegnum skaflinn.
Velferðarkerfið er helgasta vígi jafnaðarmanna.
Ég vil varpa fram þeirri hugmynd að menn taki sér smá pásu frá þessum mokstri, varpi öndinni og líti í kringum sig. Hvað er verið að moka? Til hvers? Og hverju er til fórnandi að komast þarna í gegn?