Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Samvinna eða samkeppni - gæði eða magn!
28.12.2008 | 22:33
Í kvöld hlustaði ég á Pál Skúlason heimspeking og fyrrum Háskólarektor í samtali við Evu Maríu (hér). Honum mæltist vel að venju og ósjálfrátt varð mér hugsað til þess tíma þegar ég sat hjá honum í heimspekinni í den. Það voru skemmtilegir tímar, miklar samræður og pælingar, og eiginlega má segja að þar hafi ég hlotið mína gagnlegustu menntun.
Heimspekin kennir manni nefnilega að hugsa - hún krefur mann um ákveðna hugsunaraðferð sem hefur svo sárlega vantað undanfarna áratugi. Það er hin gagnrýna hugsun í bestu merkingu orðsins gagn-rýni.
Mér þótti vænt um að heyra þennan fyrrverandi læriföður minn tala um gildi samvinnu og samhjálpar. Þessi gildi hafa gleymst á meðan skefjalaus samkeppni hefur verið nánast boðorð meðal þeirra sem fjallað hafa um landsins gagn og nauðsynjar hin síðari ár. Lítil þjóð þarf á því að halda að sýna samheldni og samvinnu - menn verða að kunna að deila með sér, eiga eitthvað saman. Þetta er eitt það fyrsta sem börn þurfa að læra, eigi þau að geta verið með öðrum börnum. Samvinnuhugsunin hefur hins vegar átt mjög undir högg að sækja hin síðari ár - og það er skaði.
Samkeppni og önnur markaðslögmál geta auðvitað átt rétt á sér - eins og Páll benti á - en það má ekki yfirfæra þau á öll svið mannlegra samskipta. Samkeppni getur í vissum tilvikum komið niður á mannúð og gæðum þar sem þörf er annarra sjónarmiða en markaðarins. Hún getur til dæmis orðið til ills í skólastarfi, innan heilbrigðiskerfisins eða í velferðarþjónustunni. Og þó svo að þetta virðist sjálfsagðir hlutir, þá þarf stöðugt að minna á þá - það sýnir reynslan.
Lítum til dæmis á endurskipulagningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Hefur hún ekki einmitt tekið mið af hagræðingu, samruna, stækkun og samlegðaráhrifum líkt og gert er við framleiðslufyrirtæki? Mér hefur sýnst það - þegar nær hefði verið að taka mið af því að starfsemi sjúkrahúsanna er í eðli sínu heilbrigðisþjónusta. Og það gilda önnur lögmál um þjónustu en framleiðslu.
Í framhaldsskólakerfinu hafa fjárframlög til skólanna miðast við fjölda þeirra nemenda sem þreyta próf um leið og áhersla hefur verið lögð á að stytta námstíma þeirra til stúdentsprófs. Fyrir vikið hafa skólar keppst um að fá til sín sem flesta nemendur og útskrifa þá á sem skemmstum tíma. Slík framleiðsluhugsun getur átt fullan rétt á sér í kjúklingabúi, en hún á ekki rétt á sér þar sem verið er að mennta ungt fólk og búa það undir lífið.
Já, það vöknuðu ýmsar hugleiðingar við að hlusta á tal þeirra Páls Skúlasonar og Evu Maríu í kvöld. Hafi þau bestu þakkir fyrir þennan góða viðtalsþátt.

PS: Ummæli Páls um landráð af gáleysi eru líklega gagnorðasta lýsingin á því sem gerðist á Mikjálsmessu þann 29. september síðastliðinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.12.2008 kl. 02:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Hverjum ber að biðjast afsökunar?
19.12.2008 | 12:29
"Við eigum að biðjast afsökunar" segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaraðherra í DV í dag (sjá hér) og er helst að skilja að "við" eigi við um ríkisstjórnina sem hafi ekki "gætt" sín og ekki "haldið vöku" sinni. Þið fyrirgefið, en þetta er full almennt orðað fyrir minn smekk.
Já, það er full vel sloppið verð ég að segja, ef ákveðnir ráðherrar sem persónulega bera siðferðilega (ekki bara pólitíska) ábyrgð geta svo bara beðist afsökunar sem hópverur, þ.e. sem hluti af ríkisstjórn, en ekki einstaklingar.
Byrjum á menntamálaráðherranum og skuldafyrirgreiðslunni sem starfsmenn Kaupþings fengu vegna kaupa á hlutabréfum - þ.á.m. Kristján Arason eiginmaður ráðherrans. Nú hefur Kauphöllin seint um síðir áminnt gamla Kaupþing fyrir það hvernig staðið var að málinu (sjá hér). Hvað varð um ábyrgðina á 500 milljónunum sem hann (þau hjónin?) tók(u) að láni til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi í gegnum einkahlutafélagið sem stofnað var í febrúar eða mars?
Hvaða áhrif hefur þetta á siðferðilega stöðu menntamálaráðherrans? Hún upplýsir það ekki - enda ekki spurð. Og eftir síðustu uppákomur af ritstjórnarmálum DV er ég satt að segja ekkert sérlega hissa þó henni sé hlíft við að svara því. Enda í sjálfu sér ekki auðvelt að gera slíkt í sama viðtalinu og hún tjáir sig um alvarleg veikindi dóttur sinnar.
Já, það gæti komið sér vel fyrir menntamálaráðherrann að geta í skjóli ríkisstjórnarinnar runnið inn í einhverskonar hópafsökun - og málið dautt. Að þurfa ekki að standa skil á einu eða neinu sem tengist hennar persónulegu fjármálum. Óneitanlega væri það þægilegra fyrir ráðherrann. 
----
PS: Af gefnu tilefni árétta ég að ég mun ekki hika við að henda út ómálefnalegum athugasemdum séu þær meiðandi eða særandi fyrir fólk og/eða lífsskoðanir þess sbr. fyrri bloggfærslu mína um það efni (sjá hér).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (54)
Athyglisverð hljóðupptaka - undarlegt hugarfar
15.12.2008 | 23:15
Það var undarlegt að hlusta á orðaflauminn renna út úr Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, þar sem hann reyndi að skýra fyrir blaðamanni sínum hvers vegna hann gæti ekki birt frétt þess síðarnefnda um Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans.
Reynir Traustason, ritstjóri er orðinn margsaga í sínum skýringum. Í yfirlýsingu sem þeir feðgar, hann og Jón Trausti Reynisson, létu frá sér í dag er áréttað að "hótanir komi ekki í veg fyrir birtingu frétta í DV" og blaðamaðurinn hafi "ekkert fyrir sér" í því að svo hafi verið.
Hljóðupptakan sem flutt var í Kastljósi ber þó vitni um hið gagnstæða. Þar kemur ljóslega fram að Reynir Traustason afsakaði sig við blaðamanninn með því að vísa í öfluga aðila sem gætu "stútað" blaðinu ef fréttin yrði birt.
Nú íhugar ritstjórinn málsókn gegn Kastljósi fyrir að birta upptökuna. Hann lítur svo á að þarna hafi átt sér stað einkasamtal milli sín og blaðamannsins. Vissulega var þarna samtal tveggja manna sem ekki hefði undir eðlilegum kringumstæðum átt erindi í fjölmiðla. En þegar orð standa gegn orði - og annar aðilinn er auk þess með frýjanir um að hinn hafi ekkert í höndunum - þá þarf að skera úr um sannleiksgildið með einhverjum hætti. Þessi hljóðupptaka átti erindi við almenning. Svo sannarlega.
Almenningi kemur það við hvernig ritstjórar fjölmiðla ganga fram í sínu starfi. Þeir fara með fjórða valdið - þeir hafa upplýsingaskyldu við almenning - og það er vandasamt verkefni.
Annað þótt mér merkilegt sem kom fram í þessari hljóðupptöku. Það voru orð Reynis ritstjóran um að einn daginn myndi DV takast að knésetja Björgólf Guðmundsson. Er það stefna blaðsins að knésetja þann mann? Ef til vill fleiri?
Þessi afhjúpuná afstöðu Reynis Traustasonar verður sjálfsagt lengi í minnum höfð. Það er jú ekki á hverjum degi sem ritstjóri "frjáls" fjölmiðils upplýsir að hann hyggist sitja fyrir einhverjum í því skyni að "taka hann" eða "skella honum" (man ekki nákvæmlega orðalagið í augnablikinu). Hann er ekki þarna að tala um raðmorðingja eða yfirlýstan nauðgara. Nei hann er að tala um mann sem hefur verið umsvifamikill í íslensku fjármála- og athafnalífi; mann sem mikið hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu. Björgólfur Guðmundsson er vissulega umdeildur nú um stundir, en ef þessi afstaða Reynis Traustasonar stjórnar gjörðum fjölmiðlanna sem eiga að "upplýsa" okkur almenning um það sem er að gerast á bak við tjöldin - ja, þá gef ég nú ekki mikið fyrir hina svokölluðu "upplýstu umræðu".
Þá er ekki síður athyglisvert að sjá viðleitni Reynis til að sverta blaðamanninn, þennan fyrrum starfsmann sinn, með því að blanda óskyldum málum inn í fyrrgreinda yfirlýsingu sína um þetta mál. Reynir upplýsir þar um óskylda hluti sem varða frammistöðu blaðamannsins í starfi - nokkuð sem að öllu eðlilegu ætti að vera trúnaðarmál milli vinnuveitanda og starfsmanns. Svo er hann sjálfur móðgaður og hissa á að að hljóðupptakan af símtali þeirra tveggja skuli hafa endað í Kastljósinu.
Nei, það var svo sannarlega athyglisvert og afhjúpandi að hlusta á Reyni Traustason í Kastljósinu í kvöld - því þó að samhenginu væri ekki fyrir að fara fór hugarþelið ekki framhjá neinum.
Það hugarþel ætti ekki að vera við lýði á neinum íslenskum fjölmiðli.
|
Upptaka af útskýringum ritstjóra DV |
| Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt | |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Mikilvægar upplýsingar
13.12.2008 | 18:04
Þá hefur Ingibjörg Sólrún talað hreint út varðandi ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn - og það eru orð í tíma töluð. Margir hafa velt því fyrir sér að undanförnu hver væri staðan í stjórnarsamstarfinu. Nú vitum við það: Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera upp við sig Evrópumálin. Gangi í sundur með flokkunum í því máli má búast við stjórnarslitum og kosningum. Verði ekki kosningar má búast við breytingum í ríkisstjórninni.
Það er mikilvægt fyrir almenning að fá vitneskju um hvað forystumenn Samfylkingarinnar eru að hugsa núna.
En svo er spurning hvort þetta er nóg. Hvort almenningur sættir sig við annað hvort eða, þ.e. kosningar eða "breytingar" í ráðherraliðinu. Það á eftir að koma í ljós.
|
Ríkisstjórnin verður að svara kalli um breytingar |
| Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt | |
Hvar er hátekjuskatturinn?
11.12.2008 | 11:22
Jæja, þá er komið að því að boða skattahækkanir - flata 1% hækkun á línuna. Allt í lagi með það - bjóst svosem við einhverjum skattahækkunum eins og á stendur. En hvar er hátekjuskatturinn?
Þegar að herðir og leggja þarf auknar byrðar á samfélagið er ekki til mikils mælst þó þeir sem bera meira úr býtum taki á sig aðeins meiri byrðar en hinir. Það er grundvallarhugsun jafnaðarstefnunnar að hver maður leggi af mörkum í samræmi við það sem hann aflar og að allir menn njóti grundvallar lífsgæða.
Flöt skattahækkun á línuna er ekki í anda jafnaðarstefnunnar - síst af öllu eins og á stendur í samfélaginu. Nógu hefur nú almenningur tapað samt.
----------------------
PS: Og að lokum - til ykkar sem hafið svínað út athugasemdakerfið hjá mér með ómálefnalegum og rætnum athugasemdum um menn, málefni og stjórnmálaflokka síðustu daga: Nú mun ég ekki hika við að henda athugasemdum ykkar út ef mér ofbjóða þær. 
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (72)
Fjölmiðlar eru fjórða valdið
11.12.2008 | 10:30
Um þessar mundir reynir mjög á íslenska fjölmiðla að standa sig sem fjórða valdið. Það gera þeir því aðeis að vera á vaktinni, kafa sjálfstætt ofan í mál og halda opinberum rannsóknaraðilum þar með við efnið.
Mogginn hefur boðað að á morgun muni hann fjalla um kaup Baugs á 10-11 verslununum af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Fréttin í dag fjallar um sérkennileg kaup og eignatengsl milli Kaldbaks, Burðaráss og eignarhaldsfélagsins Samson Global Holdings þar sem Björgúlfur Thor Björgúlfsson hefur setið beggja vegna borðs sem eigandi Samsons annarsvegar og stjórnarformaður almenningshlutafélagsins Burðaráss hinsvegar.
Ég vona að mogginn láti ekki hér við sitja heldur haldi áfram að fletta ofan af hagsmuna- og hugsanlegum spillingartengslum í íslensku fjármálalífi. Ekki veitir af.
|
Sami maður beggja vegna borðsins |
| Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt | |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Af hverju vissi ráðherra ekki?
9.12.2008 | 20:51
Í framhaldi af þessum fréttum um endurskoðun KPMG og rannsókn fyrirtækisins á viðskiptum Glitnis fyrir bankahrunið finnst mér tímabært að rifja upp lögin um ráðherraábyrgð (HÉR), sérstaklega 2. gr., 6. gr. og 7. gr.
Hvernig stendur á því að viðskiptaráðherra vissi ekki af því að KPMG - sem sá um endurskoðun sumra stærstu hluthafa gamla Glitnis - hefði verið falin rannsóknin á viðskiptum bankans fyrir hrunið? Fyrirtækið hefur verið í þessari rannsókn í tvo mánuði.
Hvernig má það vera að viðskiptaráðherra veit ekki hvernig staðið er að þessari rannsókn og hverjir hafa hana með höndum? Hver ber ábyrgð á því að upplýsingar um þetta fyrirkomulag bárust ekki til ráðherrans? Undirmenn hans? Hann sjálfur? Er ráðuneytið kannski ekkert að sinna framgangi málsins - bara ekkert að fylgjast með? Þekkja þeir kannski ekki 9. gr. laganna um Stjórnarráð Íslands (HÉR) þar sem segir ,,Ráðuneyti hefur eftirlit með starfrækslu stofnana, sem undir það ber, og eignum á vegum þeirra stofnana"?
Það er óviðunandi annað en að skýring verði gefin á þessu vitneskjuleysi.
Þeir Atli Gíslason og Lúðvík Bergvinsson ræddu þetta í Kastljósi í kvöld. Atli rökstuddi mál sitt vel. Lúðvík talaði of mikið, greip of oft fram í og sagði of oft "það verða auðvitað mistök". Það er ekkert auðvitað eða sjálfsagt við hugsanleg mistök - síst af öllu þegar menn eiga að vanda sig. 
Ef menn (les: ráðherrar) komast ekki yfir það að fylgjast með því sem er að gerast á þeirra eigin heimavelli, þá verða þeir einfaldlega að fá liðsauka. Það er ekki þeirra sjálfra að standa alla pósta, og sinna öllum verkum. En þeir bera ábyrgð á því að vaktstöðurnar séu mannaðar og upplýsingar berist.
|
Björgvin vissi ekki um KPMG fyrr en í gær |
| Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt | |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
Fyrst komi Flokkurinn - svo fólkið!
5.12.2008 | 10:29
"Ég er þess fullviss að formaður bankastjórnar Seðlabankans muni á endanum velja þá leið sem er best fyrir Sjálfstæðisflokkinn" er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra í Fréttablaðinu í dag. Ummælin hafa vakið athygli ýmissa sem vonlegt er - enda er boðskapur þeirra með ólíkindum: Fyrst kemur Flokkurinn, svo kemur fólkið!
Þannig hugsar ráðherra í ríkisstjórn lands sem stendur frammi fyrir mestu erfiðleikum sem gengið hafa yfir þjóðina um aldir: Nú ætti Davíð að gera það sem er best fyrir Sjálfstæðisflokkinn. 
Ætli þetta hugarfar sé ekki einmitt vandi ríkisstjórnarinnar í hnotskurn.
I rest my case.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Davíð veit en vill ekki segja
4.12.2008 | 23:48
"Veit en vill ekki segja" gæti verið nafn á nýjum samkvæmisleik - svona orðaleik í anda Davíðs Oddssonar. Þessi leikur gæti verið tilvalin skemmtun fyrir þá sem hafa gaman af því að hleypa upp jólaboðum.
Leikurinn fer þannig fram að einhver úr fjölskyldunni ákveður að fara með hálfkveðnar vísur um mikilvæg atriði , jafnvel leyndarmál sem sá hinn sami hefur búið yfir all lengi og skipta fjölskylduna miklu máli. Hann gefur í skyn að einhver annar í fjölskyldunni hafi vitneskju um það sem hann veit. En hann segir samt ekki hversu mikið sá hefur fengið að vita. Hinir verða að giska - og geta í eyður - og draga ályktanir - og helst fara í hár saman yfir því sem þeir halda að hafi gerst, af því að sá sem stjórnar leiknum "veit en vill ekki segja". Tilgangurinn með leiknum er auðvitað sá að hleypa upp samkvæminu og rjúfa vina og ættarbönd þannig að sá sem stjórnar leiknum standi að lokum uppi sem sá sem einn vissi allt.
Sýnidæmi um þetta höfum við séð að undanförnu í ýmsum ummælum Seðlabankastjórans:
- Hann veit hvað olli því að Bretar skelltu á okkur hryðjuverkalögum - ó, já. Veit en vill ekki segja.
- Hann vissi líka að allt var hér að fara til fjandans. Ó, já. Það kannast bara enginn við að hann hafi sagt frá því - að minnsta kosti kom það ekki fram í skýrslu Seðlabankans sem send var viðskiptaráðherranum.
- Hann veit um fund sem hann sjálfur átti með "fulltrúum ríkisstjórnarinnar" í júní - fund sem enginn kannast við að hafi verið haldinn þá. En Davíð vill ekki segja hvað þar fór fram annað en að þar hafi hann talað um 0% líkur á að bankarnir færu ekki á hausinn - orð sem enginn kannast heldur við. Davíð "veit" við hverja hann sagði þetta og sitt hvað fleira sem fram fór . En hann vill ekki segja.
- Í útlenskum blöðum gefur Seðlabankastjórinn í skyn að kannski eigi hann endurkomu í stjórnmálin - hann lætur berast að hann eigi kosta völ sem hann vill ekki segja nánar frá að svo stöddu.
- Davíð mætir á fund viðskiptanefndar Alþingis í morgun - segist þar vita ýmislegt, en ber fyrir sig bankaleynd og vill ekki segja.
Jebb, þannig er leikurinn í sinni (hl)ægilegustu mynd!

Og þar með er bloggfríið mitt fokið út í veður og vind.
|
Ingibjörg: Aldrei talað um 0% líkur |
| Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt | |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.12.2008 kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Menntun er meðalið!
3.12.2008 | 23:33
Þegar atvinnuleysi og atgerfisflótti eru raunveruleg vá fyrir dyrum í litlu samfélagi er aðeins eitt að gera: Láta þekkinguna flæða. Mennta fólkið! Gefa því kost á endurmenntun, framhaldsmenntun, háskólamenntun, nýrri menntun ... já, bara menntun, hvaða nafni sem hún nefnist.
Menntun og þekkingarflæði eru eini raunhæfi kosturinn sem þjóðin á til að rækta mannauð sinn, halda honum við, halda fólkinu "í formi" ef svo má að orði komast. Maður sem verður atvinnulaus getur nýtt þau tímamót til þess að byggja upp nýja hluti í lífi sínu. Til dæmis að klára doktorsritgerðina sem hefur árum saman legið í skúffunni; taka vélastjórnarréttindin sem aldrei voru tekin; meiraprófið; ljósmóðurnámið; frumgreinanámið; skipstjórnarréttindin sem hann/hún hefur lengi látið sig dreyma um ... o. s. frv.
Það er ekkert meðal betra á þeim tímum sem við lifum en menntun.
Á málþingi sem Byggðastofnun hélt um nýja byggðaáætlun s.l. föstudag flutti ég erindi um gildi menntunar fyrir landsbyggðina. Þetta var svona eldmessa sem ég nefndi "Háskóla í hvert hérað!" og þið getið lesið í heild sinni HÉR ef ykkur langar (glærurnar eru hér).
Í stuttu máli sagt þá lagði ég út af þeim sjálfsögðu réttindum ungs fólks að geta sótt grunn- og framhaldsskóla í heimahéraði. Þetta þykir öllum eðlilegt nú, þó það hafi ekki alltaf þótt. En hvenær mun þykja jafn sjálfsagt fyrir ungt fólk að sækja háskólanám á heimaslóðum - þó ekki væri nema grunnháskólanám?
Hugsið um það.

Þetta er dulítil undantekning frá annars góðu bloggfríi sem nú hefur staðið í heila fimm daga. Lifið heil, kæru lesendur mínir. 
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)


Augnablik - sæki gögn...





