Dimmitantar vekja gamla skólameistarann sinn

 dimmisjon08 Ég vaknaði við hávaða í morgun, gaul og trommuslátt. Klukkan ekki nema rétt rúmlega sex. Hundurinn var órólegur og þegar ég nuddaði stírurnar úr augunum rann það upp fyrir mér að vorboðarnir voru komnir fyrir utan húsið mitt. Dimmitantarnir úr Menntaskólanum á Ísafirði að kveðja gamla skólameistarann sinn.

Þegar ég kom út á svalirnar, heldur úfin og argintætuleg í morgunsárið, höfðu þau raðað sér upp. Um það bil fjörtiu sætir, litlir póstmenn - eða voru þau Super Mario ? - ég er ekki viss. En svo mikið er víst að þau brustu þau í söng: 

"Það er sárt að sakna, einhvers - lífið heldur áfram til hvers" sungu þau sterkum rómi, og héldu áfram: "Er ég vakna, Ó - Ólína þú er ekki lengur hér!"

Það var þung áhersla á Ó-ið og svo aukataktinn í Ólína. Augljóslega vel æft. Svo skelltu þau sér beint í "Gaudeamus" sem þau sungu með prýði og virtust kunna ágætlega.

Eins og fyrri daginn hlýnaði mér um hjartaræturnar. Eftir nokkrar kærleikskveðjur héldu þau svo för sinni áfram, og ég stóð eftir með kveðjuþela fyrir brjóstinu, og eitthvað í auganu.

Ennþá finnst mér ég eiga svolítið í þeim - og svo sannarlega eiga þau heilmikið í mér.

Heart

Takk fyrir heimsóknina elskurnar - megi lífið brosa við ykkur eins og sólin gerði í morgun.


Gleðilegt sumar

fifill Gleðilegt sumar bloggvinir og lesendur góðir. Það eru víst síðustu forvöð að brúka mannasiðina og óska gleðilegs sumars, svona áður en sól hnígur til viðar á þessum fyrsta degi sumars.

Ég hef það mér til afsökunar að hafa verið vant við látin í allan dag. Sem stjórnarmaður í Menningarráði Vestfjarða var ég við þau ljúfu skyldustörf að vera viðstödd afhendingu á styrkjum til 48 menningarverkefna sem menningarráð hefur úthlutað að þessu sinni. Afhendingin fór fram á Hólmavík þar sem mikið var um dýrðir í dag. Hólmvíkingar eru að taka í notkun nýtt Þróunarsetur sem jafnframt var til sýnis fyrir almenning, svo það fór vel á því að tilkynna um úthlutun menningarráðs af sama tilefni. Athöfnin fór  fram í félagsheimilinu þar sem ungmenni staðarins skemmtu gestuM með brotum úr uppfærslu leikfélagsins á Dýrunum í Hálsaskógi. Boðið var upp á kaffi og tertur og allir í hátíðarskapi.

Sólin skein og fánar blöktu við hún. Þetta var reglulega góður dagur.

ps: Munið svo eftir að taka eftir því hvernig ykkur verður svarað í sumartunglið - megi það vita á gott. Smile

 


GAAAS, GAAAS! - Getum við ekki látið einhvern kasta eggjum?

Jeminn eini - það er agalegt að horfa upp á þetta (smellið hér ).

Hvað gerðist eiginlega í dag? Misstu allir glóruna?

GAAAAS - GAAAAS - GAAAS - öskrar ungur lögreglumaður með úðabrúsa sem hann beitir augljóslega sem vopni en ekki varnartæki gegn mannfjöldanum.

"Við getum kannski látið einhvern kasta eggjum rétt á meðan við erum live?" segir ung fréttakona á Stöð-2 svo heyrist skýrt á einu upptökutækinu. Sama fréttakona spyr áköf af hverju lögreglan beiti ekki sömu hörku við flutningabílstjórana og umhverfisverndarsinnana í fyrra. Það er óþægileg ögrun í röddinni.

Lögreglumaðurinn sem verður fyrir svörum segir - líka með ákefðarglampa í augum: "Bíddu bara í  nokkrar mínútur, þá skulum við sýna þér hvernig við látum verkin tala!" Var lögreglan á þeirri stundu búin að ákveða að beita valdi? Þegar maður gerir sig líklegan til þess að fara að fyrirmælum lögreglu og fjarlægja bíl sinn, þá er hann handtekinn með látum.

Það leynist engum sem sér þessi myndskeið sem ganga á netinu núna og sýnd voru á sjónvarpsstöðvunum í dag, að adrenalínið tók stjórnina. Ábyrgir aðilar, lögregla og fjölmiðlar voru farnir að láta sig dreyma um valdbeitingu áður en atburðarásin hófst - með ofbeldi, ryskingum og eggjakasti. 

Það var sárt að sjá þarna ráðalausa unglinga horfa upp á þessar aðfarir. Menn liggja blóðuga og ofurliði borna í götunni - öskrandi lögreglumenn og bílstjóra. Þarna var svo augljóslega farið yfir mörkin - í orðsins fyllstu merkingu: Mörkin sem lögreglan setti sjálf - gula bandið sem strengt hafði verið milli lögreglu og mótmælenda. Svo ruddist lögreglan sjálf yfir þessi mörk í átt að fólkinu.

Er þetta fordæmið sem við viljum hafa fyrir unglingum og óhörðnuðu fólki? Er þetta það sem við viljum?

Svei.


Of langt gengið

vorubill Í fyrstu var ég hrifin af aðgerðum flutningabílstjóra - fannst þetta svona svolítið "franskt" hjá þeim að loka bara leiðum, þeyta flautur og láta að sér kveða.

En svo fóru að renna á mig tvær grímur. Þeir virðast ekki bara vera að mótmæla háu eldsneytisverði. Þeir vilja líka undanþágur frá evrópskum öryggis- og vinnuverndarreglum um vökutíma atvinnubílstjóra. Þeir vilja fá að aka lengur og sofa minna. Eins og hálfsofandi, útkeyrðir þungaflutningabílstjórar séu það sem okkur vantar á vegi landsins? Nóg er nú samt að mæta þessum gríðarstóru tækjum á fullri ferð á vegum utan þéttbýlis, þó maður þurfi nú ekki að eiga á hættu að þeir séu sofandi við stýrið.

Nú bætast við fréttir af ryskingum og handtökum - konur með börn á handlegg á hlaupum undan piparúða lögreglunnar, sem er orðin "grá fyrir járnum" ef svo má að orði komast.

Eiginlega er þetta farið að ganga fram af manni - og framganga allra hlutaðeigandi er orðin aðeins of ýkt. Þá á ég bæði við lögreglu, bílstjórana og svo ýmsa sem virðast hanga utan á þessum mótmælum og ýta undir ókyrrðina.

Lögreglan virðist ganga fram af óþarfa hörku - ef marka má fréttamyndir og frásagnir vitna.

Og það gera líka þeir sem kasta grjóti. Hvað eru menn að kasta grjóti? Hvurslags er þetta eiginlega?


mbl.is „Alltof harkalegar aðgerðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betrunarvist í fangelsi

fangelsi Í Kastljósi kvöldsins var sagt frá nýrri endurhæfingardeild á Litla-Hrauni þar sem föngum er hjálpað til þess að vera edrú innan fangelsisveggjanna. Fíkniefnaneysla hefur árum saman verið mikið vandamál á Hrauninu, enda kom fljótlega í ljós að mun færri komust í þessa endurhæfingu en vildu.

Um er að ræða tilraunaverkefni sem staðið hefur í hálft ár og rennur út þann 1. maí næstkomandi. Óvíst er um framhaldið á þessari stundu  - en starfsmenn fangelsisins og fangarnir sem hafa fengið að vera á deildinni ljúka upp einum munni um gagnsemi hennar.

Fjármunir hafa víst ekki dugað fyrir meðferðarfulltrúa. Í staðinn hafa fangaverðir gert sitt besta til þess að aðstoða fangana við að ná tökum á lífháttum sínum, vakna á morgnana, kaupa í matinn, elda og halda sér að uppbyggilegum hugðarefnum.

Augljóst er að þarna hefur verið bryddað upp á þarfri nýbreytni.

Ég vona heitt og innilega að fjármunir fáist til þess að halda þessu verkefni áfram; að hægt verði að bjóða öllum þeim föngum sem vilja sannlega bæta sig, upp á þessa endurhæfingu. 

Menn eiga ekki að horfa í aurinn þegar mannslíf eru í húfi.  Þó við séum ekki að tala um líf eða dauða heldur möguleika til innihaldsríkara lífs, þá eru svo sannarlega mannslíf í húfi hér.

Ef vel tekst til verður kannski hægt að tala um betrunarvist í fangelsum landsins.


... að leggja frá sér góða bók, og deyja.

windownb9 Það jafnast ekkert á við góða bók. Margar saman geta bækur verið prýðilegt stofustáss og einangrun útveggja. Ein og sér getur bók verið svo margt: Góður félagi, kennari, tilfinningasvölun, skilningsvaki, hugvekja, myndbirting, afþreying,  .... listinn er óendanlegur.

Fyrir bókaunnanda er vart hægt að hugsa sér betri dánarstund en að sofna í friðsæld með bók í hönd, líkt og eiginmaður móðursystur minnar fyrir nokkrum árum (blessuð sé minning hans). En þegar ég frétti andlát hans, varð mér að orði þessi vísa:

 

Þá er sigurs þegið náðarveldið

að þurfa ekki dauðastríð að heyja,

en mega þegar líður lífs á kveldið

leggja frá sér góða bók - og deyja.

 

 


mbl.is 4,6 bækur á hverja þúsund íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það seytlar inn í hjarta mitt ...

 throstur Krókusarnir eru farnir að kíkja upp úr snjónum í garðinum hjá mér. Fuglasöngur í trjánum á hverjum morgni - brum á greinum. Það er ekki um að villast, vorið er komið. Það fer hægar yfir hérna fyrir vestan en í höfuðborginni, en maður finnur nálægð þess engu að síður. Hér er blíðviðri dag eftir dag og dimmblátt djúpið ljómar í sólinni sem aldrei fyrr.

Nú eiga við orðin hans Jóhannesar úr Kötlum:

 

Það seytlar inn í hjarta mitt

sem sólskin fagurhvítt,

sem vöggukvæði erlunnar,

so undurfínt og blítt,

sem blæilmur frá víðirunni,

- vorið grænt og hlýtt.

 

Ég breiði út faðminn - heiðbjört tíbrá

hnígur mér í fang.

En báran kyssir unnarstein

og ígulker og þang. -

Nú hlæja loksins augu mín

- nú hægist mér um gang.

 

Því fagurt er það, landið mitt,

og fagur er minn sjór.

Og aftur kemur yndi það

sem einu sinni fór.

Og bráðum verð ég fallegur,

og bráðum verð ég stór.

                        

 

 


Bubbi og Björn Jörundur eða Óðinn Valdimarsson?

Odinn Bubbi og Björn Jörundur hafa kynnt til sögunnar nýja útgáfu á laginu yndislega sem Óðinn Valdimarsson söng svo ógleymanlega á sínum tíma, "Ég er kominn heim" eða "Er völlur grær" eins og það heitir víst upphaflega.

Ýmsir hafa spreytt sig á þessu lagi eftir að Óðinn tók það. Bjöggi syngur það býsna vel - svo hafa Andri Bachmann og fleiri sungið það og tekist svona og svona.

En þó ég haldi mikið upp á Bubba og Björn Jörund, þá er ég ekki ýkja hrifin af þessu nýjasta tiltæki þeirra. Þeir bara ná ekki þessari sætu, gammeldags stemningu sem svífur yfir laginu.

Ég hef enn ekki heyrt nokkurn mann syngja þetta eins vel og Óðin heitinn - mýktin í söngstílnum hans er bara óviðjafnanleg. Hreint út sagt.

En fyrst ég er nú farin að tala um þetta. Þá hef ég heldur ekki enn náð einni línunni í textanum - sama hver syngur. Er einhver þarna úti sem getur upplýst mig um þetta?

Það sem mig vantar er í 2. erindinu sem hefst svona: Við byggjum saman bæ í sveit / sem blasir móti sól ...... Svo kemur eitthvað með "landið mitt / mun ljá og veita skjól".

 Hvað á að koma þarna á milli?


Guðdómlegt veður!

ArnarfjordurAgustAtlason Það er guðdómlegt veður úti.

"Sól slær silfri á voga" söng Óðinn Valdimarsson í útvarpinu rétt áðan "sjáðu jökulinn loga" og um leið hringdi ég í Möggu vinkonu, eins og alltaf þegar þetta lag hljómar. Þá hringjum við hvor í aðra og syngjum saman með Óðni. Sama hvernig stendur á. Og það var SVO gaman að syngja þetta í morgun - útsýnið úr stofuglugganum hjá mér var ólýsanlegt.

Gullið morgunmistur yfir spegilsléttum sjó og snævi þakin fjöllin allt í kring. Innst í firðinum mókti selur á ísnum sem er óðum að hverfa og fuglarnir ýfðu vængi, hristu sig og köfuðu allt í kring. Lóan er komin, urtöndin, tjaldur og stelkur. Álftaparið með ungann sinn frá í fyrra.

Það er yndislegt að vera til á svona degi. Verst hvað myndavélin mín er takmörkuð, það þýðir ekkert fyrir mig að taka mynd til að sýna ykkur. Í staðinn set ég inn þessa fallegu mynd sem hann Gústi vinur minn (Ágúst Atlason) tók í vetur þegar fyrstu geislar sólar kysstu Arnarfjörðinn. Birtan í myndinni er svipuð því sem blasti við mér í morgun.

Guð gefi ykkur öllum góðan dag.


Aðstoð forseta

 vigdis ORG Það er ánægjulegt þegar æðstu embættismenn þjóðarinnar gefa sér tíma til þess að staldra við og huga að velferð náungans í annríki og erli daganna. Það hefði verið svo auðvelt fyrir forsetann að aka framhjá slysstaðnum - en hann gerði það ekki. Sá ástæðu til að láta stöðva bílinn og kanna hvort frekara liðsinnis væri þörf.

Við þessa frétt rifjaðist upp fyrir mér annað atvik frá því fyrir tuttugu og sex árum, þegar  við systurnar vorum báðar í háskólanámi og bjuggum á hjónagörðum við Suðurgötu í Reykjavík. Í næsta nágrenni hélt þáverandi forseti, Vigdísi Finnbogadóttir, sitt einkaheimili, á Aragötunni.

Jæja, dag einn er mágur minn að reyna að koma bílnum út af bílastæðinu framan við Hjónagarðana, og er fastur. Kemur þá aðvífandi forsetabílinn sjálfur, Vigdís og dóttir hennar í aftursætinu, einkennisklæddur bílstjóri við stýrið. Það skiptir engum togum, forsetabíllinn stöðvar. Út snarast Vigdís og bílstjórinn og byrja að ýta - af öllum kröftum. Þau skildu ekki við mág minn fyrr en hann hafði losað bílinn. Dóttir Vigdísar horfði undrandi á aðfarir móður sinnar og sagði svo hlæjandi: Mamma þó, það er ekki sjón að sjá þig! Vigdís svaraði að bragði - myndir þú hlæja ef þú værir föst í snjónum og næsti bíll sem kæmi æki bara framhjá?

Svona eiga forsetar að vera.


mbl.is Forseti hugði að hinni slösuðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband