Færsluflokkur: Sjónvarp

Þá er það Útsvarið í kvöld

Jæja, þá er það Útsvarið í kvöld Cool Lið Ísafjarðarbæjar að keppa við Akurnesinga í annarri umferð.

Við hittumst aðeins hérna hjá mér áðan og tókum léttar leiklistaræfingar og einn hring í Gettu-betur spilinu. Það verður að duga.

Eftir þáttinn í kvöld verður mér ekki til setunnar boðið. Á Snæfellsjökli verður landsnámskeið fyrir Björgunarhundasveit Íslands um helgina, og þangað stefni ég með minn hund strax að útsendingu lokinni. Ég verð búin að pakka mínu hafurtaski, hafa hundinn tilbúinn og svona. Gisti á Gufuskálum í nótt, svo byrja snjóleitaræfingarnar kl. 9 í fyrramálið.

En það er samt best að einbeita sér að einu í einu, og í réttri röð. Wink Fyrst er það sumsé Útsvarið. Og við erum galvösk, Ragnhildur, Halldór og ég  - bítum í skjaldarrendur og munum gera okkar besta. 


Meðvirkni í Kastljósi

Horfði á viðtal Kastljóss við Kalla Bjarna - fallna engilinn úr Ædolinu. Og það sýður á mér Angry Ég er ekki sátt við svona meðvirkni. Þetta var EKKI fróðlegt viðtal, það veitti mér EKKI nýja sýn, og bætti ENGU við þá þekkingu sem ég og almennir fjölmiðlaneytendur höfum nú þegar. Þau viðhorf sem þarna komu fram, sjálfsréttlæting og annað, eru ekkert nýtt. Allir meðferðaraðilar, félagsráðgjafar, sálfræðingar og margir fleiri þekkja þessi viðhorf.

Hvað átti þetta að þýða hjá Kastljósi? Hver var tilgangurinn með viðtalinu? Að veita okkur innsýn í hugarheim manns sem hefur verið í fíkniefnaneyslu og sér villu síns vegar? Ef svo var, þá var þetta ómarkvisst viðtal. Burðardýrskaflinn þar sem Kalli Bjarni talaði um blankheitin sem urðu til þess að hann "samþykkti að koma með einhver 700 grömm til landsins" eins og hann orðaði það. Þessi 700 grömm af kókaíni urðu 2 kg í reynd - en Kalli Bjarni vildi þetta frekar en að slá lán hjá öryrkjanum mömmu sinni til að eiga fyrir mat handa börnunum. Rörende? Nei - ég er ekki impóneruð. Hreint ekki.

Kalli Bjarni veitti enga aðstoð við rannsókn málsins og sagði í viðtalinu að hann myndi aldrei koma upp um þá sem hann vann fyrir. Nújá? Er hann þá hetja? Eða skúrkur? Er hann hræddur - eða kannski forhertur? Í raun kom það ekkert fram. Kalli Bjarni vill bara ekki tala um vinnuveitendur sína.

En hvað kemur okkur þetta við? Hvaða tilgangi þjónar það að birta lýsingar Kalla Bjarna á líðan sinni þegar hann fór með efnin í gegnum hliðin, og þegar hann var tekinn? Til hvers er verið að upphefja tilfinningalíf afbrotamanns með þessum hætti. Hvaða erindi á það inn í fréttaþátt á borð við Kastljós? 

Kalli Bjarni hefur hlotið sinn dóm - 2ja ára fangelsisvist sem hann á eftir að afplána. Vonandi heldur hann sig réttu megin laganna framvegis. Það vona ég hans sjálfs vegna og ekki síður barnanna hans. Þess vegna óska ég honum alls velfarnaðar í framtíðinni.

En mér finnst hann eigi að halda sig utan fjölmiðlanna meðan hann er að koma lagi á líf sitt.


Hvert stefnir eiginlega?

160_ap_pakistan_blast_07101 Ég ætlaði ekki að  blogga um fréttir eða þjóðmál þessi jól. Ég ÆTLAÐI bara að vera friðsöm og södd og værukær. En svo fóru fjölmiðlar að hafa samband við mig og biðja mig að tjá mig um tíðindi líðandi árs - og áður en ég vissi af var ég farin hafa áhyggjur af veröldinni á nýjan leik.

Já, jörðin hætti svosem ekki að snúast þessi jólin. Nú er búið að myrða Benazir Bhutto og allt í upplausn í Pakistan. Maður má þakka fyrir að búa í friðsömu landi þar sem menn leggja það ekki í vana sinn að afgreiða pólitískan ágreining með blóðsúthellingum. En það er hryggilegt að heimurinn skuli ekki færast neitt nær friði - hversu mörg sem vítin verða sem varast ber. 

"When will they ever learn?" Spurði Bob Dylan á sínum tíma - og sú spurning er enn brýn og áleitin sem fyrr. Ógnaráróður og tortryggni milli þjóða, heimshluta og menningarheima. Fjandskapur, ótti, stríðsátök, tilræði og hryðjuverk. Það er ekkert lát á.

Og hvernig horfir í umhverfismálum jarðarinnar? Úff!

Svo eru menn að tala um að kirkjan eigi ekki að hafa hlutverk í samfélaginu! Þegar stríð og ógnir eru nánast daglegt brauð í fréttum af heimsmálum - svo mjög að börnum er ekki óhætt að horfa á sjónvarpsfréttir. Þegar ótti og heift eru allsráðandi hvert sem litið er? Nei, ég held satt að segja að kristin kirkja hafi aldrei átt brýnna erindi en einmitt nú - segi það bara hreint út fyrir sjálfa mig.

Ég ætla að fá mér heitt súkkulaði og reyna að hugsa ekki um þetta. 


Sóley og Katrín Anna sérstakir gestir hjá mér á morgun

Það er ekkert lát á femínistaumræðunni.

Annað kvöld - föstudagskvöld - verður þátturinn minn á ÍNN helgaður kvennabaráttu og jafnrétti. Þær Sóley Tómasdóttir og Katrín Anna Guðmundsdóttir verða gestir í þættinum og við mun BARA tala um kvenréttindabaráttuna: Umræðuna eins og hún  hefur verið að undanförnu, baráttuaðferðir femínista, Silfur Egils, bleikt og blátt ... það verður allur pakkinn Whistling

 

Þátturinn "Mér finnst", rás-20 á Digital Ísland kl. 21:00 annað kvöld. Sjáumst Kissing


"Ef marka má orð" utanríkisráðherra?

Ekkert fangaflug hefur farið um Ísland "ef marka má orð utanríkisráðherra" sagði sjónvarpsfréttamaður RÚV í kvöld. Ég sperrti upp eyrun: Ef marka má orð utanríkisráðherra!? Hvaðan kemur fréttastofunni umboð til þess að draga í efa orð opinberra aðila - ráðherra? Shocking

Já - blogg dagsins er málfarspistill. Það hlaut að koma að því. Cool

Reyndar efa ég að fréttamaðurinn hafi vísvitandi ætlað að bregða utanríkisráðherra um ósannindi. Ég held (vona að minnsta kosti) að hann hafi bara komist svona klaufalega að orði. 

En þetta segir maður ekki nema um ótraustar heimildir sé að ræða - heimildir sem ekki er hægt að sannreyna að svo stöddu. Ef maður hefur traustar heimildir eða ummæli fyrir einhverju þá segir maður frekar "samkvæmt upplýsingum" heimildamanns eða einfaldlega "að sögn" heimildamanns (í þessu tilviki utanríkisráðherra).

Mig langar svosem ekkert til að vera eins og kennari með puttann á lofti - en þetta fór bara í mig. Kannski vegna þess að mér finnst óvenju mikið hafa verið um ambögur að undanförnu. Menn tala hiklaust um að ráðamenn "vermi sæti" í stjórnum og ráðum, og virðast ekki átta sig á niðrandi merkingu þessa orðatiltækis. Jafnvel á degi íslenskrar tungu læddist beygingarvilla inn í skrifaða ræðu menntamálaráðherra í kaflanum um málrækt "til viðgangs íslenskrar tungu". Pinch

Annars verða beygingarvillur æ algengari í fréttum - eins og menn gleymi því þegar þeir byrja setningu hvernig þeir ætla að enda hana. Á föstudag var sagt: Kjörstöðum lokaði klukkan sex. GetLost Og í dag var það: Heimasíðan Torrent.is var lokað í dag Pinch 

Jæja - þetta átti nú ekki að verða neitt svartagallsraus. Okkur verður auðvitað öllum á, svona einstöku sinnum. Best þótti mér þó um árið þegar páfinn kom í Íslandsheimsókn og - að sögn ónefnds fréttamanns - "blessaði mannfjöldann og lagði hendur á börn". Smile


Útsvarið í kvöld ; )

Jæja, þá er það Útsvarið í kvöld Blush Lið Ísafjarðarbæjar gegn Reyknesingum.

Í liði Ísfirðinga eru auk mín þau Ragnhildur Sverrisdóttir blaðamaður og Halldór Smárason, menntskælingur. Bæði eru þau miklar mannvitsbrekkur og skemmtilegt fólk. Í liði Reykjanesbæjar eru Guðmann Kristþórsson, Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða í Unun) og Júlíus Freyr Guðmundsson (ég held hann sé sonur Rúnars Júlíussonar sem heitir að ég held Guðmundur Rúnar). Verður spennandi að mæta þeim - en sjálf veit ég ekkert við hverju má búast.

Við Vestfirðingarnir hittumst aðeins í gær, rétt sísvona til að stilla saman strengi. Við erum ágæt saman - verðum vonandi heppin líka þegar á hólminn er komið.

Í síðasta Útsvarsþætti fannst mér spurningarnar raðast einkennilega milli liða. Einhvernvegin vildi þannig til að mér fannst ég geta nánast allt sem vinningsliðið var spurt um, en ekki eins mikið af því sem tapliðið þurfti að svara. Semsagt: Heppnin er hluti af árangrinum, ég fer ekki ofan af því. Samstilling liðanna held ég líka að skipti máli. 

Jæja, en nú er að krossleggja fingur og sjá hvað setur. "Sjáumst" vonandi í kvöld. Cool

 


Kræst! Svo var engin útsending!

Mogginn búinn að taka viðtal, allar konurnar búnar að blogga - ég líka auðvitað - um nýja þáttinn minn. Mamma og Jón föðurbróðir (bæði 82ja)  búin að hringja og fá greinargóðar upplýsingar um það hvernig þau næðu stöðinni - og hvað svo? Þeir sem römbuðu með einbeittum vilja á rás 20 á myndlykli Digital Ísland klukkan níu í kvöld (og það voru allmargir miðað við hringingarnar sem ég fékk), fengu þessi skilaboð á skjánum: "Við verðum því miður að stöðva útsendingu ÍNN þar til tæknin er hætt að stríða okkur. Vinna við lagfæringar stendur yfir" Angry

Enginn þáttur - ekki einu sinni útsending. Mamma fór fýluferð til Sögu dóttur minnar að horfa á þáttinn. Já, og konurnar sem voru í þættinum hjá mér - sumar voru komnar í matarboð til ættingja sem höfðu aðgang að digital Ísland. Og hvað? "Við verðum því miður að stöðva útsendingun ÍNN þar til tæknin er hætt að stríða okkur. Vinna vil lagfæringar stendur yfir" hvað? Komið fram á rauðanótt og enn standa "lagfæringar" yfir.

Kræst:  Þvílíkt "comeback"  Blush


Minn fyrsti sjónvarpsþáttur eftir 15 ár

inn1b500 Fyrsti sjónvarpsþátturinn minn eftir 15 ára hlé var tekinn upp í morgun. Hann heitir "Mér finnst" og verður sendur út á föstudögum kl. 21, í vetur á nýju sjónvarpsrásinni ÍNN (rás-20). Þetta eru umræðuþættir þar sem ég fæ til mín reyndar og skemmtilegar konur með sterkar skoðanir til þess að rökræða við mig um hvaðeina sem þeim (og mér) brennur á hjarta. Sjálf verð ég með þáttinn annað hvert föstudagskvöld, en Maríanna Friðjónsdóttir sjónvarpsstjóri ÍNN tekur hann á móti mér tvisvar í mánuði.

Stöðin fer af stað með fullum þunga n.k. föstudagskvöld þannig að mér virðist sem þátturinn minn Blush verði upphafið - en raunar hafa tilraunaútsendingar staðið nú um nokkra hríð. Til stendur að senda efnið út alla virka daga kl. 20-22, og er stöðin fyrst og fremst helguð umræðu og talmáli. Þarna verða ýmsir þjóðkunnir þáttagerðarmenn, Margrét Frímannsdóttir, Mörður Árnason, Guðjón Bergmann, Randver Þorláksson, Illugi Gunnarsson og Katrín Jakobsdóttir - svo ég nefni nú þá sem ég man í augnablikinu. Ingvi Hrafn Jónsson verður að sjálfsögðu á sínum stað með Hrafnaþingið - enda eigandi stöðvarinnar og upphafsmaður. 

inn2b  En það var ótrúlega gaman að mæta í stúdíóið, þar sem Maríanna Friðjónsdóttir, fyrrverandi samstarfskona mín af RÚV,  tók á móti okkur og stjórnaði upptökunni af sinni alkunnu fagmennsku og fumleysi. Við endurfundina rifjuðust upp góðar minningar, m.a. frá leiðtogafundinum í Höfða þegar við lögðum nótt við dag undir stjórn Ingva Hrafns, okkar gamla yfirmanns (núverandi eiganda ÍNN).

Við tókum upp tvo þætti í morgun. Í þeim fyrri komu til mín þrjár bloggandi konur, þær Marta B. HelgadóttirSalvör Gissurardóttir og Jóna Á Gísladóttir sem allar eru öflugir og litríkir bloggarar. Og þær brugðust mér ekki í dag - gáfaðar, mælskar og skemmtilegar.  Smile

Í seinni þættinum, sem verður sendur út eftir tvær vikur, voru bókmenntafræðingarnir Soffía Auður Birgisdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir. Við veltum okkur upp úr bókmenntum í miklum makindum - mest kvennabókmenntunum eins og gefur að skilja - og það var reglulega gaman að spjalla við þær stöllur svo fróðar og spakar sem þær eru - og margreyndar á þessum vettvangi.

Já, það er mikið vatn til sjávar runnið frá því ég vann síðast fyrir sjónvarp. Og það var vissulega ánægjulegt að vitja þess aftur eftir langa fjarveru. Þetta var BARA gaman, eins og börnin segja.  

Sjáumst vonandi á rás-20 á föstudagskvöldið kl. 21. Wink

 


Of léttar spurningar?

Jæja, var að horfa á ÚTSVAR, nýja spurningaþáttinn á RÚV. Mér fannst þetta skemmtilegur þáttur og fjarri því að spurningarnar væru "allt of léttar" eins og þáttastjórnendur sögðu oftar en einu sinni (full oft fannst mér).

Þetta voru ekkert "allt of léttar" spurningar. Hins vegar voru svarendur býsna vel að sér, og gaman að fylgjast með því hve jafnt var á með liðunum.

Ef þessi þáttur á að höfða til almennra sjónvarpsáhorfenda, þá eru þessar spurningar við hæfi. Þokkalega vel upplýstir sjónvarpsáhorfendur þurfa að hugsa sig um - vita margt, en alls ekki allt. Fjölskyldur og vinahópar geta samsamað sig liðunum. Þau eru þannig samsett að það er líklegt að hópurinn sem situr í stofunni viti í sameiningu álíka mikið og hvert keppnislið. Það er einmitt það sem gerir þætti sem þessa skemmtilega - og þess vegna er Gettu betur keppni framhaldsskólanna farin að fjarlægjast almenna áhorfendur. Því miður.

En hehumm-öööö - ég fylgdist að sjálfsögðu með af athygli þar sem ég er ein þeirra sem á að þreyta kapps í þessum þætti innan tíðar. Whistling Vill til að ég hef með mér góða liðsmenn, Ragnhildi Sverrisdóttur blaðamann og Halldór Smárason framhaldsskólanema og Gettu-betur áhugamann með  meiru.

Ef spurningarnar verða í sama dúr og í þættinum í kvöld, má segja að heppni ráði nokkru um það hvernig fer eftir fyrstu umferð. Undecided Úr því sem komið er held ég að áherslur þáttarins þurfi að halda sér út fyrstu umferð - svo má þyngja róðurinn í þeirri næstu. Það er mín skoðun Wink

 


Kvalafullt hláturskast í beinni

Fyrst ég er farin að skemmta mér yfir sjónvarpsuppákomum þá get ég ekki stillt mig um að slaka þessari inn á síðuna. Þetta er sko martröð sjónvarpsmannsins. Hann hefur örugglega misst vinnuna fyrir frammistöðu sína þessi.

Þetta rifjaði upp fyrir mér ýmsar uppákomur sem stundum urðu í beinni á sjónvarpsárunum mínum í den - ekkert þó í líkingu við þetta.

http://www.youtube.com/watch?v=fl6jfOEPJGk


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband