Færsluflokkur: Sjónvarp
Launaleynd Þórhalls
26.3.2008 | 10:46
Þórhallur Gunnarsson hefur lagt fram lögbannskörfu á Ríkisútvarpið til að hindra að launakjör hans verði opinberuð. Hann segist sjálfur ætla að ráða því hvenær persónulegar upplýsingar um hann verði birtar opinberlega og telur á sér brotið ef þetta verður upplýst. Frá þessu er sagt á visir.is og það er Óskar Hrafn Þorvaldsson ritstjóri visis.is sem hefur óskað eftir þessum upplýsingum. Hann óskar ennfremur eftir því að sjá launaupplýsingar Sigrúnar Stefánsdóttur sem gegnir sama starfi og Þórhallur - kveðst hafa grun um að laun þessara tveggja stjórnenda á ríkisútvarpinu séu ekki sambærileg.
Nú er auðvitað hugsanlegt að launin hans Þórhalls séu svo lág að hann skammist sín fyrir að sýna það. En hversvegna þumbast útvarpsstjóri við?
Nú er það þannig að fyrirtæki sem rekin eru af almannafé hafa lögbundnar skyldur til þess að upplýsa almenning - eða fulltrúa þeirra - um stjórnsýslu sína. Og á meðan lög gilda sem banna launamismunum á grundvelli kynferðis, þá verður almenningur að geta fylgst með því að þeim sé framfylgt. Málið snýst um grundvallaratriði - jafnréttislögin - launajöfnuð. Það virðist augljóst.
Hitt er auðvitað svolítið sérkennilegt að einkafyrirtæki skuli algjörlega undanþegin upplýsingaskyldu af þessu tagi á meðan ríkisstofnanir verða að leggja allt á borðið. En þannig virkar lýðræðið. Almenningur á rétt á því að vita hvernig farið er með fjármuni hans. Og þó svo að ríkisútvarpið sé orðið ohf - þá er það enn í eigu almennings, fjármagnað af opinberu fé. Á meðan svo er verður ríkisútvarpið að lúta sömu reglum og önnur opinber fyrirtæki.
Það verður því fróðlegt að sjá hvort lögbannskrafan nær fram að ganga. Ég verð að viðurkenna að mig langar að fá þessar upplýsingar - nú þegar forvitnin hefur verið vakin.
Clinton er ótrúlega flott!
22.2.2008 | 11:22
Sjáið bara þessa konu - hlustið á lokaorðin hennar í myndskeiðinu hér fyrir neðan. Svona talar sterkur karakter. Ég vona svo sannarlega að Hilary Clinton verði útnefnd sem forsetaefni demókrata. Um leið og ég harma það eiginlega að loksins þegar hyllir undir að kona eða þeldökkur maður komist í forsetastól þá skuli þau þurfa að keppa hvort við annað.
En þau eru frábærir frambjóðendur bæði tvö. Og gagnkvæmar yfirlýsingar þeirra um vilja til þess að starfa saman eftir kosningar - annað geti hugsað sér að vera varaforseti hjá hinu - eru þeim báðum til sóma.
Ég vona bara að það gangi eftir - þau eru glæsilegt forystupar.
Vöngum velt yfir ummælum Clinton í kappræðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Össur lætur vaða
21.2.2008 | 20:42
Össur Skarphéðinsson er frábær rithöfundur. Ég hef verið aðdáandi hans á því sviði í fjölmörg ár enda fáum lagið að koma orðum að hugmyndum sínum og skoðunum á sama hátt og hann gerir jafnan. Að því leyti ber Össur nafn með réttu. Hann er örninn sem flýgur fugla hæst í forsal hinna pólitísku sviptivinda þegar hann beitir stílvopninu og tekst vel upp í skrifum um menn og málefni.
Gísli Marteinn Baldursson er frambærilegur pólitíkus sem ég hef lengi haft dálæti á - aðallega fyrir það hvað hann er kurteis og vel máli farinn. Ég hef gert mér þá mynd af manninum að hann sé fulltrúi uppvaxandi kynslóðar í stjórnmálum, kynslóðar sem vill nýjar áherslur og aðferðir. Vissulega þykist ég sjá - ekki síður en Össur - að Gísli Marteinn hefur að undanförnu viðhaft aðferðir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins sem ekki hafa reynst flokknum farsælar og verða seint skilgreindar sem foringjahollusta. Hann er svosem ekki einn um það. Ég man ekki betur en allur borgarstjórnarflokkurinn að Vilhjálmi undanskildum hafi gengið á fund formanns og varaformanns flokksins til þess að ræða um foringja sinn að honum fjarstöddum. Þeim var veitt móttaka og áheyrn - án foringja síns. Hvað segir það um móralinn í flokknum?
Gísli Martein er ungur maður - hann er enn að læra. Og ungt fólk þarf að fá svigrúm til að læra í lífinu. Það ætti Össur að vita.
Bloggfærsla Össurar um Gísla Martein Baldursson er snilldar vel skrifuð - því verður ekki á móti mælt. En hún er óvægin - allt of óvægin. Og ég spyr mig hvað valdi þessum tilfinningaþunga hjá iðnaðarráðherra í garð "sjónvarpsdrengsins" sem hann nefnir svo.
Hitt er svo annað mál, að Össur er ekki þarna að gagnrýna samstarfsmann í ríkisstjórn - og því hljóma dulbúnar hótanir Sigurðar Kára Kristjánssonar um áhrif þessa á ríkisstjórnarsamstarfið hálf kjánalega. Össur er þarna að skrifa um skoðun sína á borgarmálefnum og pólitískum vandræðagangi í Reykjavík. Hann skrifar utan síns lögbundna vinnutíma, í eigin frítíma, á eigin bloggsíðu. Skrif hans ættu ekki að bifa meira við ríkisstjórnarsamstarfinu nú en skrif Björns Bjarnasonar á sínum tíma þegar hann réðist að foringja Samfylkingarinnar í borgarstjórn sem hann kallaði "pólitískan loddara" ef mig misminnir ekki.
Það var því hálf hjákátlegt að sjá Sigurð Kára standa á öndinni af hneykslan í sjónvarpinu í kvöld - ekki bara í ljósi þess hvernig Björn hefur skrifað - heldur vegna þess hvernig Sigurður Kári hefur sjálfur talað um aðra stjórnmálamenn. Ekki er ýkja langt síðan hann kallaði borgarfulltrúa í Reykjavík spilltasta og siðlausasta stjórnmálamann landsins, ef ég man rétt.
Sú orðræða sem hér er vísað til er hinsvegar leiðinleg. Persónulegar árásir eru blettur á íslenskri stjórnmálaumræðu - já og opinberri umræðu almennt og yfirleitt.
Þar er við ýmsa að sakast, ekki síst fjölmiðlana, sem alltaf eru tilbúnir að éta upp allt sem mönnum dettur í hug að segja um náungann, hversu rætið og ómerkilegt sem það er. Er þess skemmst að minnast þegar "hnífasettsmálið" fræga komst í umræðuna. Drottningarviðtal við framsóknarmann sem taldi sig eiga harma að hefna á öðrum framsóknarmanni vegna þess að sá síðarnefndi taldi þann fyrrnefnda ekki hafa kjörþokka. Þessu var sjónvarpað yfir landslýð - rætnum sögum um óskemmtileg samskipti þessara tveggja manna. Ég hef enn ekki fengið botn í það hvað okkur landsmönnum kom þetta við. En það er annað mál.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
Hvað var nú þetta?
11.2.2008 | 15:09
Þetta er nú orðinn meiri farsinn: Vilhjálmur einsamall á blaðamannafundi, meira en klukkutíma of seinn, með enn eina yfirlýsinguna: Hann ætlar ekki að hætta. Honum finnst hann hafa axlað sína ábyrgð - af því hann missti meirihlutann í október - meirihlutann sem hann náði svo aftur með bolabrögðum í janúar. Honum finnst að hinir eigi líka að axla ábyrgð. Af hverju axla þeir ekki ábyrgð? spyr hann eins og skólastrákur sem vill draga fleiri með sér í fallinu. Af hverju bara ég??
Nei, þetta er bara orðin algjör vitleysa. Ég held ég taki undir með manninum sem sagðist dást að getu Vilhjálms á einu sviði því, eins og hann sagði: "Alltaf þegar ég held að hann komist ekki neðar þá birtir hann nýja yfirlýsingu ... og grefur sig enn dýpra!"
Vilhjálmur: Hef axlað ábyrgð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Samstöðustjórnmál?
8.2.2008 | 10:47
Mér er þungt um hjartarætur eftir að hafa horft á viðtölin við Svandísi Svavarsdóttur og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson í Kastljósi í gær. Mér líður eins og ég sé í herkví - er ég þó ekki íbúi í Reykjavík heldur bara kjósandi vestur á fjörðum og venjulegur samfélagsþegn.
Það lítur út fyrir að skýrsla stýrihópsins svokallaða eigi að verða endahnúturinn á þessu skelfilega OR og REI máli. Svandís talaði um að það hefði ekki verið í verkahring nefndarinnar að sakfella menn. Nú yrðu menn bara að læra af reynslunni og ná samstöðu um betri vinnubrögð í framtíðinni. Hún talaði um samstöðustjórnmál.
Þeim sem brjótast inn á bensínstöðvar er ekki gefinn kostur á slíku. Hvers vegna ættu þá menn sem reyna að komast yfir milljarðaverðmæti í eigu almennings að fá aðra meðhöndlun? Þegar fyrrverandi borgarstjóri - sem vel að merkja var bæði ráðinn og kjörinn til trúnaðarstarfa fyrir almenning í borginni - bregst því trausti að gæta verðmætanna og verður vís að ósannindum - hvað þá?
Sjálfum finnst honum rétt að stjórnir OR og REI muni nú "fara yfir málið". Halló! Er ekki búið að fara yfir málið? Voru það ekki kjörnir fulltrúar sem fóru yfir málið? Trúa menn því að stjórnir þessara fyrirtækja muni aðhafast eitthvað gegn fyrrverandi stjórnarmönnum og starfsmönnum?
Og ekki hafa stjórnir OR og REI yfir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni að segja. Hann er utan þeirrar seilingar. Hver mun sjá til þess að hann axli ábyrgð?
Það eiga kjósendur að gera - segja menn borginmannlega á bloggsíðum. Vandinn er bara sá að kjósendur eiga ekkert val. Það er engin lagastoð fyrir því að rjúfa borgastjórn og efna til nýrra kosninga - þó vissulega væri þess full þörf nú. Löggjöfin gerir bara ekki ráð fyrir að annað eins og þetta geti gerst í einni sveitarstjórn. Og enn er langt til kosninga. Vilhjálmur ætlar að verða borgarstjóri eftir ár. Lagalega er ekkert sem getur komið í veg fyrir það.
Og hvað er þá til ráða? Kjósendur eiga jú sína fulltrúa í borgarstjórn. Það eru auðvitað þeir sem eiga að tala máli almennings og sjá til þess að einhver axli ábyrgð. Það hlýtur að vera þeirra hlutverk öðrum þræði. Annars hefur ekki verið velt við hverjum steini.
Samstöðustjórnmál? Ég þekki líka annað orð: Það er orðið samtrygging sem löngum hefur loðað við valda- og viðskiptaöflin í þessu litla landi.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
Nú gekk Spaugstofan of langt
27.1.2008 | 12:47
Í gegnum tíðina hefur maður oft látið sig hlakka til laugardagskvölda með fjölskyldunni. Spaugstofan á sínum stað, nammi í skálum og svona. Maður kemur sér vel fyrir og nýtur þess með öðrum að horfa á samfélagið (og þar með sjálfan sig) í spéspegli.
Ég skal þó viðurkenna að í seinni tíð hefur þessum stundum farið fækkandi - þó Spaugstofan sé á sínum stað og mannskapurinn framan við sjónvarpstækið líka. Þeir eru bara farnir að missa húmorinn.
Og í gær tók steininn úr.
Látum hnífaklisjuna vera - hún var þó bara leiðinleg. En atriðið um Ólaf Þ. Magnússon tók öllu fram í lágkúru. Það var svo niðurlægjandi - fyrir Spaugstofuna - að mér er eiginlega brugðið.
Oft hef ég hlaupið í vörn fyrir Spaugstofumenn og staðið með þeim - enda tel ég að háðsádeilur séu oft beittustu og bestu uppeldistæki samfélaga gagnvart spillingu og hugsanaleti. En háð er vandmeðfarið - og ekki má mikið út af bregða til þess að hárbeittur húmor missi marks. Í gærkvöld brást þeim félögum algjörlega bogalistin.
Þetta var bara sorglegt - og eiginlega er vandséð hvort þeir Spaugstofumenn eiga sér viðreisnar von eftir þessa hraksmán.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (103)
Hvað eru skrílslæti?
26.1.2008 | 00:13
Ég hef séð fólk klappa og stappa af gleði og fögnuði á tónleikum. Eru það skrílslæti? Íþróttafréttaritarar æpa sig hása í útvarpi og sjónvarpi án þess að nokkur kalli þá óþjóðalýð.
Hvað gerðist þá í ráðhúsinu? Þar var hópur fólks sem lét tilfinningar í ljósi yfir gjörningi sem margir álíta skrumskælingu á lýðræði. Þetta fólk hrópaði og stappaði. Hvað ef þetta hefðu verið fagnaðarlæti? Hefði það verið skandall?
Ég minnist þess þegar ég var í borgarstjórn 1990-1994 að fólk mætti einstöku sinnum á palla í heitum málum. Þá var klappaði fyrir ræðumönnum, jafnvel púað, án þess að forseti væri í sífellu að áminna það eða krefja um "hljóð í salnum". Hefði Hanna Birna bara leyft fólki að klappa, eða púa, milli þess sem menn stigu í ræðustól, án þess að vera sífellt að áminna það - æsa það upp, liggur mér við að segja - þá hefði þetta kannski farið öðruvísi.
Ég get auðvitað ekki dæmt um annað en það sem ég sá og heyrði í sjónvarpinu. Þarna var fólk á öllum aldri, úr ýmsum áttum. Unga fólkið lét vissulega mest til sín heyra - sem vonlegt er. En að stimpla alla þá sem þarna voru sem "óþjóðalýð" og þátttakendur í skrílslátum, það finnst mér allt of langt gengið. Sú umræða er orðin að smjörklípu - hún er til þess fallin að draga athyglina frá sjálfri orsökinni.
Enginn er reykur án elds: Tilfinningahitinn á áhorfendapöllunum átti sér orsök - þeirri orsök skulum við ekki gleyma.
Almenningi er nóg boðið
24.1.2008 | 13:17
Ótrúlega er sorglegt að fylgjast með útsendingu frá borgarstjórnarsalnum núna - mínum gamla vinnustað. Og ekki get ég láð almenningi sem er mættur á pallana að láta tilfinningar sínar í ljós. Satt að segja líður mér ekki ósvipað. Hver hljóðbylgja sem berst frá áheyrendapöllunum er bylgja frá mínu eigin hjarta.
Dagur B. Eggertsson má vera stoltur af sinni hundrað daga borgarstjóratíð. Félagar hans í fráfarandi meirihluta mega vera stoltir af starfi sínu í þágu borgarbúa. Þetta fólk hefur staðið ölduna á forsendum málefnastöðu, það hefur staðið vörð um velferð borgarbúa, helgað sig almannaheill af ábyrgð og heilindum.
Menn skulu ekki gleyma því hvernig þetta fólk forðaði mikilvægum verðmætum í almenningseigu frá því að vera sett í hendur einkaaðila.
Sú dáð sem fráfarandi meirihluti drýgði síðastliðið haust mun lengi verða í minnum höfð. Hún verður enn stærri og glæstari í minningunni samanborið við starfsaðferðir þeirra sem nú eru aftur að taka við stjórnartaumum að afstöðnu valdaráni.
Já, það var framið valdarán í Reykjavík - og það er ekkert sem hægt er að gera við því. Í landsstjórninni er hægt að rjúfa þing og efna til kosninga - en ekki í sveitarstjórn. Það er enginn lagabókstafur sem verndar almenning fyrir atburðarás af því tagi sem nú hefur átt sér stað.
Það er umhugsunarefni.
Eina leiðin sem fólk á til þess að tjá álit sitt á því sem gerst hefur er að mæta á pallana og láta tilfinningar sínar í ljós. Og það hefur gerst núna.
Í þessum töluðu orðum er lögreglan mætt á staðinn - en áheyrendur halda áfram að klappa og stappa. Það er upplausnarástand og heitar tilfinningar.
Almenningi er augljóslega nóg boðið, eins og við mátti búast.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
Óstarfhæf borgarstjórn
22.1.2008 | 00:51
Ég myndi halda að Borgarstjórn Reykjavíkur væri óstarfhæf við núverandi aðstæður. Tiltrú stjórnmálamanna hefur beðið alvarlega hnekki: Nýstofnað meirihlutasamstarf veltur á einum manni, sem hleypur úr einum meirihluta í annan eins og jójó, án tilefnis. Hann hefur ekki einu sinni flokk á bak við sig. Talar ekki við sinn nánasta samverkamann.
Sex sinnum sama daginn sver hann af sér svikráðin og fer með hrein ósannindi. Á þessum manni veltur hinn nýi meirihluti! Þetta ástand er ekki borgarbúum bjóðandi.
Þessi "nýi meirihluti" er hagsmunabandalag sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera við einn mann: Ólaf F. Magnússon. Díllinn gengur út á valdastóla, ekki málefni. Því þó svo að Ólafur hafi veifað einhverju sem hann kallaði málefnasamning á blaðamannafundinum þá var auðheyrt að þar var ekkert sem rekja má til málefnaágreinings við hans fyrrverandi félaga.
Enginn af fyrrverandi félögum Ólafs kannast heldur við ágreining. Hið eina sem knýr þessa atburðarás áfram er persónuleg valdagræðgi sem þessi maður deilir með fyrrum fjandvini sínum, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og fólkinu sem var fyrir ekki svo löngu síðan "til í allt án Villa." Það eru hlekkirnir í valdakeðjunni.
Velferð borgarbúa er í höndum þessa fólks!
Ólafur F. Magnússon kom öllum að óvörum úr veikindaleyfi eftir að myndaður hafði verið nýr meirihluti í Reykjavík s.l. haust. Þá reis hann upp af sjúkrasæng - kominn til áhrifa. Margrét Sverrisdóttir sem hafði unnið vinnuna hans mánuðum saman mátti víkja til hliðar. Hún vissi ekki um þennan nýja meirihluta fyrr hann var til orðinn síðdegis í dag.
Sex sinnum á einum degi sver Ólafur af sér svikin í samtali við Dag B. Eggertsson og leggur "heiður" sinn að veði. Já, hann lærði sitthvað af Vilhjálmi Þ. eftir meirihlutaviðræðurnar í fyrra. Og hefur nú sannað fyrir öllum að á þeim tveimur er enginn munur. Líkur sækir líkan heim.
Og valdið togar. Nú vantar ekki blíðmælgi og hamingjuóskir fulltrúa Frjálslynda flokksins - þó Ólafur hafi raunar sagt sig úr þeim flokki fyrir allnokkru. Og ekki vantaði mjúkmæli grillmeistarans Hannesar Hólmsteins sem í viðtali á Stöð-2 bauð Ólafi að koma inn í Sjálfstæðisflokkinn á ný. Svo taldi hann upp nokkra aðra undanvillinga í Frjálslynda flokknum sem ættu nú bara að koma heim aftur. Og svei mér ef Guðjón Arnar var ekki farinn að tala á svipuðum nótum í viðtali við Jóhönnu Vigdísi. Það er makalaust að fylgjast með þessu.
Á meðan standa borgarbúar agndofa. Starfsmenn borgarinnar vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þvílíkur skrípaleikur!
En fulltrúar ríkisstjórnarinnar þegja þunnu hljóði - skyldi enginn hafa gengið á fund Geirs Haarde í dag - með eða án Villa?
Allt upp á borð varðandi REI | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
Að græða á daginn og grilla á kvöldin
21.1.2008 | 09:45
Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur nú sett fram skilgreiningu á fyrirbærinu Sjálfstæðismaður. Það gerði hann í þættinum Mannamál á Stöð-2 um helgina, eins og bloggvinkona mín hún Lára Hanna bendir réttilega á í færslu sinni í dag. Skilgreining Hannesar er svohljóðandi:
Sjálfstæðismenn eru mjög foringjahollir og það er dálítill munur kannski ef maður tekur þetta svona... Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og vinstri flokkana hins vegar þá er... í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt. Það hljómar dálítið einkennilega kannski en... og ég á kannski ekki að segja það svona, en til einföldunar má segja að Sjálfstæðismenn eru menn sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin. Vinstri menn eru menn, sem halda að með masi og fundahöldum þá sé... og sko ljóðalestri, þá sé hægt að leysa einhverjar lífsgátur. Þarna er dálítill munur. Þannig að vinstri menn eru miklu pólitískari heldur en hægri menn. Þess vegna eru þeir ekki eins foringjahollir. Hægri mennirnir, þeir eru bara að reka sín fyrirtæki, þeir vilja leggja á brattann, þeir vilja bæta kjör sín og sinna, þannig að þeim finnst hérna... gott að hafa mann sem sér um pólitíkina fyrir þá og Davíð var slíkur maður.
Hér er sko engin "sjúrmjólk í hádeginu og seríós á kvöldin" - ó, nei. Hér er grætt og á daginn og grillað á kvöldin!
Þarna hefur Hannes Hómsteinn tekið ómakið af andstæðingum Sjálfstæðisflokksins og sagt hreint út það sem þeir hafa aldrei kunnað við að segja upphátt. (Hafi hann þökk fyrir það að hreinsa andrúmsloftið með þessum hætti).
En nú læðist fram lítil vísa:
- Sjálfstæðismenn þeir sitja um völdin,
- af syndum er Hannes kvitt:
- Græðir á daginn, grillar á kvöldin
- og gerir í bólið sitt.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)