Færsluflokkur: Sjónvarp
Frábært!
1.7.2007 | 10:51
Þetta er hreint út sagt frábært - þessi fréttakona ætti að fá alþjóðleg blaðamannaverðlaun. Það var tími til kominn að einhver fréttamaður með sjálfsvirðingu segði eða gerði eitthvað gagnvart þessari alheimsmúgsefjun um persónu Parisar Hilton.
Ég tek ofan fyrir þessari fréttakonu - vil fá hana sem fyrirlesarar á málþing um blaðamennsku og fréttasiðferði sem er löngu tímabært að halda. Væri verðugt verkefni fyrir blaðamannafélag Íslands.
Fréttaþulur neitaði að byrja á frétt um París Hilton | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Barsmíðar og söguburður - er það hlutverk lögreglu?
7.6.2007 | 21:04
Það var undarlegt að sjá í sjónvarpinu ofbeldisfullar aðgerðir lögreglunnar á Egilsstöðum gagnvart fíkniefnaneytanda sem hugðist taka mynd á farsímann sinn af lögreglumanni að störfum. Ég tek undir með Sigurði Þór Guðjónssyni sem bloggar um þetta atvik á síðu sinni í dag. Bræði lögreglumannsins og handbrögðin við að taka manninn voru ekki traustvekjandi - enda fingurbrotnaði maðurinn í átökunum.
Þá voru ummæli yfirlögregluþjónsins á Egilsstöðum ekki beint fagleg - þar sem hann bar út sögur um viðkomandi einstakling og það hvaða augum hann væri litinn á Egilsstöðum. Hvað varðar sjónvarpsáhorfendur um það hvaða augum yfirlögregluþjónninn lítur þennan mann, eða hvað hann hefur heyrt um hann? Söguburður er ekki í verkahring lögreglu. Þannig er það nú bara.
Þetta var ekki traustvekjandi - hreint ekki.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Söngvakeppni (austur) Evrópskra sjónvarpsstöðva
10.5.2007 | 22:30
Þetta var með ólíkindum. Öll lélegustu lögin komust áfram. Meira að segja Tyrkland - sú rauðgljándi, iðandi hörmung. Það vantaði bara ALBANÍU til þess að kóróna ósköpin.
Og sáuð þið landafræðina í þessu? Balkan og Austur Evrópa!
Nei, þetta er ekki lengur söngvakeppni sem endurspeglar evrópska tónlistarmenningu - ekki fyrir fimm aura. Þetta er að verða hálfgert strip-show með flugeldasýningum og lafmóðu fólki sem heldur sumt ekki einusinni lagi fyrir látum. Við höfum ekkert í þetta að gera - hreint ekki neitt.
Eigum bara að hætta þessu.
En Eiki var góður - rokkaður reynslubolti, flottur á sviðinu og söng eins og hetja. Hann er eins og Burgundi-vínin, batnar með árunum.
Ísland komst ekki í úrslit Eurovision | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Flottur framboðsþáttur á Stöð-2 í gær
10.5.2007 | 11:01
Horfði á formannaþáttinn á Stöð-2 í gær. Flottur þáttur og vel skipulagður.
Það var góð hugmynd að taka formennina sérstaklega í beinskeytt viðtal, einn og einn - auk skoðanaskiptanna. Sömuleiðis var vel til fundið að hafa álitsgjafa með í útsendingunni. Maður veit hvernig þetta er á mörgum heimilum eftir svona þætti - þá vill fólk spá og spekúlera, leggja mat á frammistöðu pólitíkusanna. Þá er ekki verra að hafa spekúlanta við sömu iðju á skjánum.
Spyrlar komu vel fyrir - háttvísir í framkomu en beinskeyttir.
Hafi ég saknað einhvers þá var það kannski að ekki skyldi ákveðnum lykilspurningum beint til þeirra allra í yfirheyrslunum. Til dæmis var Ingibjörg Sólrún spurð að því hvort hún gæti hugsað sér setu í ríkisstjórn án þess að vera forsætisráðherra. Hún svaraði því játandi og það svar var meðal þess sem tekið var út í frétt um efnið. En hvers vegna var Geir Haarde ekki spurður þess sama? Ég hefði gjarnan vilja heyra hans svar.
Ég er sammála álitsgjöfum um að Ingibjörg Sólrún bar af í þessum þætti - ekki aðeins máflutningur hennar heldur líka yfirbragð og framkoma. Enn og aftur gerist það að flokksformennirnir á hægri vængnum mæta dökk- eða svartklæddir til leiks, svo lýsist liturinn eftir því sem lengra dregur í hina áttina. Ingibjörg Sólrún bar seinna nafn sitt með réttu þar sem hún sat á ljósri pilsdragt innan um kallana -- það var næstum því táknrænt að sjá.
Þá get ég tekið undir með álitsgjöfum að í viðtölunum hefði e.t.v verið nær að spyrja formennina nánar út í önnur mál en þau sem þeir hafa mest fjallað um; spyrja t.d. Ómar út í efnahagsmál og Evrópusambandsaðild, Guðjón Arnar út í umhverfismál og launamun kynjanna, svo dæmi sé tekið.
Hvað um það - þetta var vel heppnað á heildina litið. Bestu þakkir Stöð-2.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Gjamm og karp í framboðsþætti
11.4.2007 | 10:24
Æ, ósköp var lítil reisn yfir framboðsþætti Kastljóssins í gærkvöldi. Gjamm og karp - frammígrip. Hver talaði upp í annan og illgerlegt á köflum að heyra nokkurn skapaðan hlut. Þetta er ósiður sem hefur verið að aukast í umræðuþáttum undanfarin ár - og ég held að hafi byrjað með Silfri Egils. En þetta er leiðinlegt. Það er ekkert fjör að hlusta á fjóra tala samtímis. Maður vill heyra málflutning frambjóðenda fyrir kosningar - til þess kveikir maður á sjónvarpi eða útvarpi þegar frambjóðendur eru leiddir saman.
Stjórnendurnir þáttarins voru ekki barnanna bestir - sérstaklega fannst mér Helgi Seljan (bloggvinur minn) fara offari. Hann greip fram í fyrir öllum sem töluðu, var neikvæður í spurningum (bæði tónninn og orðfærið). Fyrri hluti þáttarins var hvorki líflegur né upplýsandi - þvert á móti var maður bara orðinn pirraður þegar honum lauk.
Nýr frambjóðandi í kjördæminu, Ásta Þorleifsdóttir, komst einna best frá hildarleik fyrri hálfleiks, málefnaleg og yfirveguð.
Síðari hluti þáttarins var illskárri, þar stóð Þórunn Sveinbjarnardóttir upp úr - náði að snúa af sér og sækja fram af áheyrilegri rökfimi. Sérstaklega í umræðunni um Evrópumálin.
Enginn af fulltrúum stjórnarflokkanna kom sérlega vel út - sumir komu beinlínis illa fyrir. Yfirlæti og gjamm er ekki traustvekjandi í svona þætti. Sumum þeirra var þó vorkunn, vegna þess hvernig þættinum var stjórnað - því í raun var gert lítið úr öllum sem þarna komu fram.
Stjórnun umræðuþátta er vandmeðfarin listgrein - og vandrataður hinn gullni meðalvegur milli þess að grípa fimlega inn í umræður til að halda uppi líflegum skoðanaskiptum eða hreinlega vaða yfir þátttakendur. Stjórnendum gærkvöldsins brást því miður sú bogalist.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)