Færsluflokkur: Menning og listir
Valkyrjutónleikar og vandræðalegur textasmiður
20.12.2007 | 00:14
Jæja, nú fengum við - ég og Bjarney Ingibjörg, kórstjórinn minn - nóg af textanum "Við óskum þér góðra jóla" (We Wish You a Merry Christmas) og öllu talinu um graut og fleira í því annars ágæta kvæði. Svo nú bað hún mig að setja saman eitthvað hátíðlegra til að flytja við þetta lag á jólatónleikum kvennakórsins. Ég er að tala um kvennakórinn Vestfirsku valkyrjurnar, tveggja ára gamlan kór sem ég syng með.
Þetta gerði ég samviskusamlega.
Svo sungum við þetta fullum hálsi á jólatónleikum Valkyrjanna í Ísafjarðarkirkju síðastliðið mánudagskvöld, hátíðlegar á svip. Fólkið klappaði. Bjarney Ingibjörg hneigði sig kurteislega fyrir okkar hönd. Allt eðlilegt.
Þar til hún fór að veifa og banda með höndunum upp í kórinn. Við litum hver á aðra í öftustu röðinni - - áttum við að veifa á móti? Hvað var að gerast? Ég leit í kringum mig - stíf eins og stólpi á mínum stað (djúp alt stendur að sjálfsögðu í báða fætur aftast og lætur ekki haggast).
Jæja, áfram veifar Bjarney Ingibjörg, og nú var mér hætt að lítast á hana. Fór að hugsa hvort hana vantaði kórmöppu - eða hvort hún hefði týnt einhverju.
Þá finn ég að einhver potar í mig. Og allt í einu eru þær allar farnar að veifa og benda mér. Þá rennur það upp fyrir mér, seint og um síðir, að ég á semsagt að koma niður til hennar - og hneigja mig. Auðvitað var ég búin að steingleyma því að ég ætti þennan texta og að þetta teldist frumflutningur á honum.
Jæja, ég mismunaði mér niður í gegnum kórraðirnar og tók við klappinu - að mér fannst óverðskuldað - en hvað um það. Textinn hafði verið sunginn - og þó ég hafi aldrei lært hann almennilega þá var þetta nú minn texti og svona. Hann lætur svosem ekki mikið yfir sér - en hljómar svosem ekki illa þegar hann er sunginn (þó eiginlega sé ekki einsýnt um bragreglurnar í þessu - en það verður bara að hafa það).
Og hér kemur hann:
:: Nú gleðileg jólahátíð :: Nú gleðileg jólahátíð er gengin í garð.
Í kærleika'og frið við kertaljósið
með krásir á borðum svo glöð erum erum við.
:: Nú gleðileg jólahátíð :: ...
Við klukknanna róm og klingjandi óm
til kirkjunnar höldum í söngvanna hljóm.
:: Nú gleðileg jólahátíð :: ...
Svo friðsæl við völd - er fegurð í kvöld
við hugfangin störum á stjarnanna fjöld.
:: Nú gleðileg jólahátíð :: Nú gleðileg jólahátíð er gengin í garð.
Jamm, þannig er nú það. Annars held ég að tónleikarnir okkar Valkyrjanna hafi bara tekist bærilega þarna á mánudagskvöldið. Ég hef að vísu verið hnerrandi með hálsbólgu síðan -- en hvað er það hjá vel heppnuðum tónleikum?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
"Sýsl" og "basl" í skáldskap
28.11.2007 | 16:02
Margra barna mæður eiga ekki að "sýsla" og "basla" við ljóðagerð. Þetta er skoðun Skafta Þ. Halldórssonar bókmenntagagnrýnanda Morgunblaðsins sem birtir ritdóm í blaðinu í dag um ljóðabók mína Vestanvind. Að vísu sviptir Skafti mig einu barni - segir mig vera fjögurra barna móður. Er hann þar að vísa - að því er virðist - í einn af prósum bókarinnar, sem hann augljóslega tekur sem mína persónulegu dagbók, en ekki þá kómísku mannlífsmynd og hugvekju sem tilvitnaðri sögu var ætlað að vera.
Jæja, best ég leiðrétti nú þetta: Ég er FIMM barna móðir eins og fram kemur á bókarkápu. Ég er líka orðin amma.
Og hvað er nú svona kona að gera upp á dekk í skáldskap? Það á gagnrýnandinn erfitt með að skilja. Að vísu telur hann "margt vel gert" - og eyðir síðan furðu löngu máli í að sýna fram á það með dæmum. En honum finnst samt að ég eigi bara að halda mig við vísnagerð - þar sé ég á heimavelli.
Og svo tekur hann mig á kné sér til að kenna mér hvernig maður eigi að orða hugsanir í ljóðum. Myndlíkingar á borð við "hafdjúp hugans", "logndýpi drauma" og "grunnsævi vökunnar" kallar hann "samsetningar" og frasakennda myndsköpun. Þarna hafi ljóðmálið tekið völdin af hugsuninni. Svo rökræðir hann við mig um það hvernig ég hefði átt - eða öllu heldur ekki átt - að yrkja eitt ljóðanna. Það er ljóðið Mæði:
Ástin / er berfætt ganga / um grýttan veg.
Söknuðurinn / sárfætt hvíld / í skugga gleðinnar.
"Ég get alveg skilið að ástin geti verið berfætt ganga um grýttan veg og söknuðurinn þá sárfætt hvíld. En að gleðin varpi skugga á söknuðinn finnst mér vera merkingarleysa", segir Skafti.
Hmmm ... það er einmitt það. Gott er nú fyrir ljóðskáld að fá svona kennslustund. Verst að mér skyldi aldrei hafa hugkvæmst þetta þegar ég skrifaði bókmenntagagnrýni fyrir moggann í den, að kenna ljóðskáldunum að yrkja. Reyndar held ég að Skafti hefði mátt hugleiða betur merkingu þessarar líkingar um gleðina og skuggann - en ef hann meðtekur ekki hvað ég er að fara þarna, þá verður bara að hafa það.
Þessi ritdómur minnir mig óþægilega á þrjátíu ára gamla umræðu sem spratt upp um hinar svokölluðu kerlingabækurá sjöunda áratugnum. En það orð var notað í fúlustu alvöru um verk þeirra skáldkvenna sem þá höfðu kvatt sér hljóðs. Það voru karlrithöfundar - á svipuðu reki og Skafti er núna - sem fundu þessa ágætu einkunn yfir skáldskap kvenna.
Þetta er trúlega hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem gagnrýnendur láta kynhlutverk og þjóðfélagsstöðu kvenna hafa áhrif á dóma sína. En svona til að lesendur geti áttað sig aðeins betur á þessu dæmi sem Skafti nefnir "samsetning" ætla ég að birta það tiltekna ljóð hér fyrir neðan. Það heitir Út vil ek (og auðvitað á maður ekkert að vera að bjóða upp á svona "frasakennda myndsköpun" eða leggja það á gagnrýnendur að botna í svona ljóðum). En ljóðið er svona:
Í hafdjúpum hugans
leitar vitundin landa
um útsæ og innhöf
ferðast hún um þangskóg
í sjávardölum
úr logndýpi drauma
sækir hún í strauminn
streitist á móti
brýst um
og byltist
í þungu róti
Á grunnsævi vökunnar
spriklar hún að kveldi
- þar lagði dagurinn netin
að morgni
þéttriðin net
troðfull að kveldi ...
PS: Og svo skil ég nú ekki hversvegna mogginn birtir af mér 18 ára gamla mynd - nema ég sé orðin svona herfilega ljót af öllum mínum barneignum, sýsli og basli að það sé ekki mönnum bjóðandi að sýna mig eins og ég er
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Brjáluð vinnutörn í menningarráði
22.11.2007 | 11:10
Sat á fundi með Menningarráði Vestfjarða langt fram eftir kvöldi í gær - vorum ekki búin fyrr en undir miðnætti. Við erum á kafi í úthlutunarvinnu. Þetta er fyrsta úthlutun ráðsins frá því það var formlega stofnað fyrr á árinu. Við stefnum að því að tilkynna um hina heppnu styrkþega í byrjun desember.
Þetta er brjáluð vinna, 104 umsóknir bárust, og mikið verk að fara í gegnum þetta alltsaman. Líka mikil ábyrgð að velja og hafna. Það er verst - að þurfa að hafna. En svona er lífið - oftast eru fleiri kallaðir en útvaldir.
Annars þykir mér vænt um þetta hlutskipti, að eiga þess kost að styrkja og velja verðug menningarverkefni í héraði. Maður sá það á umsóknunum hversu mikill kraftur er í vestfirsku menningarlífi, og hugmyndaauðgi. Það eitt vekur manni bjartsýni og von um framtíð þessa svæðis. Sérstaklega er mikið um að vera í tónlistarlífinu - og er það ekki síst að þakka forsvarsmönnum Tónlistarskólans á Ísafirði sem hafa leitt hvern stórviðburðinn af öðrum inn í bæjarfélagið. Annars voru umsóknirnar fjölbreyttar og MJÖG menningarlegar margar hverjar. Það var virkilega gaman að sjá.
Já, þetta er törn - skemmtileg törn, í bili að minnsta kosti.
"Ef marka má orð" utanríkisráðherra?
19.11.2007 | 22:50
Ekkert fangaflug hefur farið um Ísland "ef marka má orð utanríkisráðherra" sagði sjónvarpsfréttamaður RÚV í kvöld. Ég sperrti upp eyrun: Ef marka má orð utanríkisráðherra!? Hvaðan kemur fréttastofunni umboð til þess að draga í efa orð opinberra aðila - ráðherra?
Já - blogg dagsins er málfarspistill. Það hlaut að koma að því.
Reyndar efa ég að fréttamaðurinn hafi vísvitandi ætlað að bregða utanríkisráðherra um ósannindi. Ég held (vona að minnsta kosti) að hann hafi bara komist svona klaufalega að orði.
En þetta segir maður ekki nema um ótraustar heimildir sé að ræða - heimildir sem ekki er hægt að sannreyna að svo stöddu. Ef maður hefur traustar heimildir eða ummæli fyrir einhverju þá segir maður frekar "samkvæmt upplýsingum" heimildamanns eða einfaldlega "að sögn" heimildamanns (í þessu tilviki utanríkisráðherra).
Mig langar svosem ekkert til að vera eins og kennari með puttann á lofti - en þetta fór bara í mig. Kannski vegna þess að mér finnst óvenju mikið hafa verið um ambögur að undanförnu. Menn tala hiklaust um að ráðamenn "vermi sæti" í stjórnum og ráðum, og virðast ekki átta sig á niðrandi merkingu þessa orðatiltækis. Jafnvel á degi íslenskrar tungu læddist beygingarvilla inn í skrifaða ræðu menntamálaráðherra í kaflanum um málrækt "til viðgangs íslenskrar tungu".
Annars verða beygingarvillur æ algengari í fréttum - eins og menn gleymi því þegar þeir byrja setningu hvernig þeir ætla að enda hana. Á föstudag var sagt: Kjörstöðum lokaði klukkan sex. Og í dag var það: Heimasíðan Torrent.is var lokað í dag
Jæja - þetta átti nú ekki að verða neitt svartagallsraus. Okkur verður auðvitað öllum á, svona einstöku sinnum. Best þótti mér þó um árið þegar páfinn kom í Íslandsheimsókn og - að sögn ónefnds fréttamanns - "blessaði mannfjöldann og lagði hendur á börn".
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Húsfyllir í Holti
19.11.2007 | 00:37
Jæja, það varð bara húsfyllir hjá okkur í Holti í dag - á bókmenntadagskránni "Vestfirsku skáldin". Við höfðum ekki undan að hlaupa eftir stólum og bæta við kaffiveitingum. Best af öllu var þó að þeir sem mættu virtust glaðir og sáttir við það sem í boði var.
Ólafur Þ. Harðarson var með bráðskemmtilegt erindi um Guðmund Inga Kristjánsson - skáldið á Kirkjubóli. Erindið samanstóð af minningum Ólafs sjálfs frá því hann var barn sumardvölum á Kirkjubóli. Hann rifjaði upp kynni sín af skáldinu, lýsti heimilisbragnum á Kirkjubóli, matarmenningu, verkmenningu, samskiptum og búskaparháttum af næmi, hlýju og húmor. Margt fleira var á dagskránni - eins og lesa má um á skutull.is
Jebb - þetta var bara góður dagur. Ég sofna með hreina samvisku í kvöld.
Friggjarspuni í skýjum
18.11.2007 | 12:17
Sólin er horfin úr firðinum - við sjáum hana ekki aftur fyrr en 25. janúar. En í dag hefur gyðjan Frigg spunnið gullþræði sína í nóvemberhimininn. Sólgyllt ský svífa yfir fjöllum og ljómi þeirra speglast í lognkyrrum haffletinum. Þetta er fallegur dagur - verst hvað myndavélin mín er lúin. Ég veit ekki hvort hún nær að fanga þessa sjón - skelli samt inn mynd sem ég tók áðan út um stofugluggann minn. Tek þó fram að litirnir eru mun skærari og bjartari en þessi mynd ber með sér.
Í dag er mikið um að vera. Menningardagskrá um Vestfirsku skáldin í Holti í Önundarfirði hefst kl. 16:00. Við í Vestfjarðaakademíunni höfum verið að undirbúa þessa dagskrá í samstarfi við afmælisnefnd Guðmundar Inga Kristjánssonar. Ég verð með yfirlitserindi um vestfirsku skáldin, en auk þess verða flutt erindi um Guðmund Inga Kristjánsson, Jón úr Vör, Jakobínu Sigurðardóttur og Steingerði Guðmundsdóttur. Sungin verða vestfirsk lög, kveðnar þulur og vísur og Grasa-Gudda úr Skugga-Sveini mun mæta til leiks, kaffiveitingar o.fl.
Já þetta er fallegur dagur til þess að mæra menningararfinn - svo sannarlega. Guð láti gott á vita.
Vestanvindur úr prentun
25.10.2007 | 16:39
Ég er að handleika fyrstu ljóðabókina mína - hún var að koma úr prentun. Lítil og nett - ósköp hógvær. Það er undarleg tilfinning að handleika þessa litlu bók - allt öðruvísi en aðrar bækur sem ég hef gefið út. Þær hafa verið stórar og fyrirferðarmiklar - fjallað um fræði og fólk. Þessi bók er allt öðru vísi. Hún er svolítill sálarspegill - nokkurskonar fordyri að sjálfri mér - eða þeirri konu sem ég hef verið fram til þessa.
Mig langar að segja ykkur svolítið frá myndinni á kápunni - hvernig hún varð kveikja að titilljóði bókarinnar.
Þannig var að myndlistarmennirnir Ómar Smári Kristinsson og Nína Ivanova, kona hans voru beðin að hanna myndina. Þau fengu nokkur ljóð til að vinna út frá - og sýndu mér svo fyrstu drög. Ein mynd varð mér svo hugstæð að hún fylgdi mér allan daginn og inn í nóttina. Ég var lögst til svefns og eiginlega í svefnrofunum þegar orðin tóku að streyma til mín. Loks varð ég að fara á fætur, ná mér í blað og penna. Titilljóð bókarinnar var komið - næstum því fullskapað. Ég get ekki skýrt það nánar en morguninn eftir varð það orðið eins og það er í bókinni.
Hallgrímur Sveinsson, útgefandi minn, var þolinmæðin uppmáluð þegar ég hringdi til hans um morguninn til að vita hvort ljóðið kæmist inn í bókina. Þá var komin þriðja próförk, og ekki sjálfgefið að verða við þessari bón. En Hallgrímur er ljúfmenni - og í samvinnu við prentsmiðjuna varð þessu bjargað.
Nú er bókin komin í verslanir - og svo er að sjá hvernig hún fellur lesendum og gagnrýnendum í geð. Ég krosslegg fingur og vona það besta.
Menning og listir | Breytt 26.3.2009 kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Minn fyrsti sjónvarpsþáttur eftir 15 ár
17.10.2007 | 22:09
Fyrsti sjónvarpsþátturinn minn eftir 15 ára hlé var tekinn upp í morgun. Hann heitir "Mér finnst" og verður sendur út á föstudögum kl. 21, í vetur á nýju sjónvarpsrásinni ÍNN (rás-20). Þetta eru umræðuþættir þar sem ég fæ til mín reyndar og skemmtilegar konur með sterkar skoðanir til þess að rökræða við mig um hvaðeina sem þeim (og mér) brennur á hjarta. Sjálf verð ég með þáttinn annað hvert föstudagskvöld, en Maríanna Friðjónsdóttir sjónvarpsstjóri ÍNN tekur hann á móti mér tvisvar í mánuði.
Stöðin fer af stað með fullum þunga n.k. föstudagskvöld þannig að mér virðist sem þátturinn minn verði upphafið - en raunar hafa tilraunaútsendingar staðið nú um nokkra hríð. Til stendur að senda efnið út alla virka daga kl. 20-22, og er stöðin fyrst og fremst helguð umræðu og talmáli. Þarna verða ýmsir þjóðkunnir þáttagerðarmenn, Margrét Frímannsdóttir, Mörður Árnason, Guðjón Bergmann, Randver Þorláksson, Illugi Gunnarsson og Katrín Jakobsdóttir - svo ég nefni nú þá sem ég man í augnablikinu. Ingvi Hrafn Jónsson verður að sjálfsögðu á sínum stað með Hrafnaþingið - enda eigandi stöðvarinnar og upphafsmaður.
En það var ótrúlega gaman að mæta í stúdíóið, þar sem Maríanna Friðjónsdóttir, fyrrverandi samstarfskona mín af RÚV, tók á móti okkur og stjórnaði upptökunni af sinni alkunnu fagmennsku og fumleysi. Við endurfundina rifjuðust upp góðar minningar, m.a. frá leiðtogafundinum í Höfða þegar við lögðum nótt við dag undir stjórn Ingva Hrafns, okkar gamla yfirmanns (núverandi eiganda ÍNN).
Við tókum upp tvo þætti í morgun. Í þeim fyrri komu til mín þrjár bloggandi konur, þær Marta B. Helgadóttir, Salvör Gissurardóttir og Jóna Á Gísladóttir sem allar eru öflugir og litríkir bloggarar. Og þær brugðust mér ekki í dag - gáfaðar, mælskar og skemmtilegar.
Í seinni þættinum, sem verður sendur út eftir tvær vikur, voru bókmenntafræðingarnir Soffía Auður Birgisdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir. Við veltum okkur upp úr bókmenntum í miklum makindum - mest kvennabókmenntunum eins og gefur að skilja - og það var reglulega gaman að spjalla við þær stöllur svo fróðar og spakar sem þær eru - og margreyndar á þessum vettvangi.
Já, það er mikið vatn til sjávar runnið frá því ég vann síðast fyrir sjónvarp. Og það var vissulega ánægjulegt að vitja þess aftur eftir langa fjarveru. Þetta var BARA gaman, eins og börnin segja.
Sjáumst vonandi á rás-20 á föstudagskvöldið kl. 21.
Menning og listir | Breytt 18.10.2007 kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
"Aldrei mun þín auma sál - annað fegra mæla"
7.10.2007 | 20:32
Ég hef vaxandi áhyggjur af stöðu íslenskunnar. Peningastofnanir og skólar sem kenndir eru við viðskipti og verslun gera sífellt háværari kröfur um að "alþjóðavæða viðskiptaumhverfi" sitt, eins og mig minnir að það sé orðað. Það þýðir víst að taka upp ensku sem samskiptatungumál innan stofnunar sem utan, þ.e. að hafa eyðublöð, tölvusamskipti, ársskýrslur o.fl. á ensku eingöngu.Þetta munu einhverjar peningastofnanir hafa tekið upp nú þegar - og nú hefur Verzlunarskólinn sótt um það til menntamálaráðuneytisins að taka ensku upp sem aðaltungumál á tiltekinni námsbraut.
Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.
Á átjándu öld lögðu íslenskir embættismenn það til að íslenskan skyldi lögð niður sem embættismál á Íslandi, en danska tekin upp í staðinn. Rökin voru svipuð þá og nú. Embættismenn þjóðarinnar voru menntaðir í Danmörku og farnir að týna niður íslenskunni. Skrifmál þeirra var dönskuskotið embætismannamál - svokallaður kansellístíll sem er afar torskilinn nútíma Íslendingum. Bjarni Jónsson rektor Skálholtsskóla sagði það "ekki aðeins gagnslaust, heldur skaðlegt að viðhalda íslenskri tungu" í bréfi árið 1771 og Sveinn Sölvason lögmaður talar árið 1754 niðrandi um þetta afdankaða tungumál sem þá sé "komið úr móð".
Af þessu tilefni orti Gunnar Pálsson rektor Hólaskóla, síðar prestur og prófastur í Hjarðarholti í Dölum (1714-1791):
- Er það satt þig velgi við
- vinur, íslenskunni,
- og haldir lítinn herrasið
- hana að bera í munni?
Gunnar svarar spurningunni sjálfur með svofelldum orðum:
- Íslenskan er eitt það mál
- sem allir lærðir hæla
- og aldrei mun þín auma sál
- annað fegra mæla.
Íslensku skáldin risu upp til bjargar þjóðtungu sinni á átjándu öld - og þeim tókst að sýna fram á gildi hennar, gæða hana lífi og draga fram fegurð hennar. Þar með lögðu þau grunn að ríkulegum bókmenntaarfi seinni tíma. Sá arfur státar af verkum manna á borð við Jónas Hallgrímsson, Hannes Hafstein, Einar Benediktsson, Stein Steinarr, Davíð Stefánsson, Halldór Kiljan Laxness, Þórberg Þórðarson, Svövu Jakobsdóttur, Jakobínu Sigurðardóttur, Fríðu Sigurðardóttur .... og þannig mætti lengi telja.
Nú er spurning hvort skáldakynslóð okkar daga er viljug - eða megnug - að launa þessa arfleifð og rísa upp til varnar fyrir "ástkæra, ylhýra málið" - þjóðtunguna sem Jónas orti svo fagurlega um ...
- móðurmálið mitt góða,
- hið mjúka og ríka,
- orð áttu enn eins og forðum
- mér yndið að veita.
Vituð ér enn - eða hvað?
Verzló vill fá enska námsbraut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Fyrsta ljóðabókin mín ...
4.10.2007 | 14:57
... er að fara í prentsmiðjuna. Kápan tilbúin og búið að senda hana í Bókatíðindin. He-hemm - það verður sumsé ekki aftur snúið úr þessu ég er komin út úr skápnum með ljóðin mín.
"Og þó fyrr hefði verið" hnussaði vinkona mín elskulega þegar ég sagði henni hálf feimin hvað stæði til. En ég verð að viðurkenna að fyrir mig er þetta svolítið skrýtið. Nú þegar á hólminn er komið finnst mér hálfpartinn eins og ég hafi opnað dyr sem hingað til hafa verið lokaðar. Hleypt fólki (væntanlegum lesendum) innfyrir hliðin. Ég ímynda mér að þetta sé ekki ósvipað því að standa hálfnakin á almannafæri.
Hvað um það - teningunum er kastað. Ég hlakka til að sjá gripinn þegar hann kemur úr prentsmiðjunni.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)