Færsluflokkur: Menning og listir
Tónlistarupplifun í Ísafjarðarkirkju
3.10.2007 | 23:45
Ég er að koma af aldeilis hreint frábærum tónleikum í Ísafjarðarkirkju þar sem franski fiðlusnillingurinn Gilles Apap fór beinlínis á kostum. Og ekki aðeins hann, heldur allir sem að þessum tónleikum komu. Þarna komu fram Íslenska kammersveitin og Balzamersveitin Bardukha - báðar undir forystu Hjörleifs Valssonar fiðluleikara, sem lék við "hvern sinn fingur" ef svo má segja. Hann heillaði mannskapinn gjörsamlega upp úr skónum - og virtist (a.m.k. í augum hins óbreytta leikmanns)standast nokkurnveginn samanburð við franska snillinginn. Íslenska kammersveitin var fyrir hlé - skipuð frábæru mannvali. Eftir hlé lék Balzamersveitin undir með þeim Hjörleifi og Apap. Þar voru Ástvaldur Traustason á harmonikku, Birgir Bragason á kontrabassa - alveg ótrúlega góður - og svo senuþjófur kvöldsins, Steingrímur Guðmundsson á slagverkið. Ég kolféll fyrir honum - þvílík fingrafimi, taktvísi og hraði. Magnaður galdur framinn þar. Gilles Apap er sérstakur tónlistarmaður. Hann hefur náð ótrúlegri tækni á fiðluna - svo mikilli að hann er farinn að brjóta niður helgidóma. Þá á ég við það hvernig hann brýtur upp þekkt tónverk, færir þau í nýjan búning, leikur sér að þeim, ummyndar þau beinlínis. Hljóðfærið leikur í höndunum á honum, að því er virðist algjörlega áreynslulaust. Ef þið eigi þess nokkurn kost að hlusta á þennan mann leika á tónleikum - grípið þá tækifærið. Hann er sannkölluð upplifun. Takk fyrir mig. |
Menning og listir | Breytt 4.10.2007 kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vísa Vatnsenda-Rósu um augað fagra
10.9.2007 | 15:27
Ég þreytist ekki á að reyna að leiðrétta þessa vitleysu. Það er "augað mitt og augað þitt" EKKI "augun mín og augun þín" eins og svo margir syngja núorðið sem eina af vísum Vatnsenda-Rósu. Um þetta hef ég skrifað lærðar greinar ... og mun halda áfram að berjast við þessa vindmyllu. Og hér fylgir rökstuðningurinn. Hann er samantekt úr þremur blaðagreinum sem ég hef áður skrifað um þetta efni.
- Augað mitt og augað þitt,
- ó, þá fögru steina,
- mitt er þitt og þitt er mitt
- - þú veist hvað ég meina.
Það gerist æ algengara, einkum á seinni árum, að bjartar kvenraddir syngja af mikilli innlifun augun mín og augun þín síðan ó, þá fögru steina eða ó, þeir fögru steinar eða og þá fögru steina eða og þeir fögru steinar. Þá er klykkt út með mitt er þitt og þitt er mitt eða mitt var þitt og þitt var mitt og loks þú veist hvað ég meina en það er eina ljóðlínan sem allir virðast sammála um hvernig með skuli farið.
Svo allir njóti nú sannmælis er rétt að taka fram að vísan er til í mismunandi gerðum. Einkum er misjafnt hvernig farið er með 2. og 3. línu og því skiljanlegt að þær séu sungnar á ýmsa vegu. Erfiðara er að sætta sig við þann umsnúning að setja fyrstu ljóðlínuna í fleirtölu og eyðileggja þar með rímfestu vísunnar. Þegar ég á dögunum rökræddi þetta við kunningjakonu mína sagði hún nokkuð sem trúlega varpar ljósi á það hvers vegna þessi tilhneiging er svo rík sem raun ber vitni: Maður segir nefnilega ekki auga þegar maður meinar augu. Hún var sigri hrósandi þegar hún bætti við: Það hljóta meira að segja skáldin að skilja. Séu þessi ummæli til marks um það sem gerst hefur í meðförum vísunnar, hefur merkingafræðin riðið bragfræðinni á slig.
Upptök skekkjunnar má trúlega rekja aftur til ársins 1949 þegar Snorri Hjartarson tók saman Íslenzk ástarljóð[1] og birti vísuna þar með upphafinu: Augun mín og augun þín / ó, þá fögru steina (bls. 83). Þannig orðuð virðist hún svo hafa ratað á nótnablöð, inn í sönghefti, á hljómplötur, diska og hljóðbönd með þeim afleiðingum að á síðustu árum ómar hún hvarvetna í þessari gerð.
Bragfræðin
Auðséð er að þeir eru æði margir undarlega margir sem láta sig litlu skipta að orðið þín skuli eiga að heita rímorð á móti mitt í ferskeyttri vísu. Litlu skiptir hversu ómþýður raddblærinn er sem berst úr ungmeyjarbarkanum jafnvel fegursti söngur getur ekki mildað hið skerandi ósamræmi vísuorðanna í sæmilega heilbrigðu brageyra.
Eins og allir bragglöggir menn sjá og heyra þá hefur þessi vísa Vatnsenda-Rósu verið samin í dæmigerðum ferskeyttum hætti með víxlrími þar sem saman eiga að ríma síðustu orð 1. og 3. línu annars vegar (þitt / mitt) og 2. og 4. línu hins vegar (steina / meina). Sveinbjörn heitinn Beinteinsson, einn fremsti hagyrðingur landsins, sem fáir hafa staðist snúning í bragfimi, birtir vísuna í Lausavísnasafni sem hann tók saman fyrir Hörpuútgáfuna 1976. Þar er hún eins og ég hef skrifað hana hér fyrir ofan[2]
Sveinbjörn lætur þess ekki getið hvaðan hann hefur þessa gerð vísunnar, enda ekki við því að búast í knöppu lausavísnasafni. Það gerir hinsvegar Guðrún P. Helgadóttir í sínu merka riti Skáldkonur fyrri alda þar sem hún fjallar ítarlega um ævi og skáldverk Rósu Guðmundsdóttur. Líkt og hjá Sveinbirni er upphaf vísunnar í riti Guðrúnar augað mitt og augað þitt en önnur ljóðlína er og þá fögru steina.[3] Af umfjöllun Guðrúnar má ráða að vísuna sé að finna í fjórum af þeim sjö handritum sem lagðar eru til grundvallar kaflanum um Vatnsenda-Rósu.[4]
Samtímaheimildir
Af þeim handritum vísunnar sem Guðrún tilgreinir eru þrjú frá því um og eftir miðbik nítjándu aldar. Þau eru:
- Natans saga Gísla Konráðssonar sem Dr. Jón Þorkelsson afritaði 1884[5] og studdist þá við bæði yngri og eldri gerð Natans sögu Gísla frá 1860-1865.[6] Í uppskrift Jóns er upphaf vísunnar Augað mitt og augað þitt en þriðja línan er mitt er þitt og þú er mitt.
- Ljóðmæli eftir ýmsa tilgreinda höfunda, skráð með hendi Páls stúdents Pálssonar og varðveitt í Landsbókasafni.[7] Hér er upphaf vísunnar Augað mitt og augað þitt / og þeir litlu steinar.
- Kvæðasafn ýmissa höfunda skrifað upp af nokkrum skrásetjurum á fyrri hluta 19. aldar. Í þessari heimild, líkt og í uppskrift Páls stúdents, er upphaf vísunnar einnig Augað mitt og augað þitt / og þeir litlu steinar.[8]
Þær heimildir sem nú eru nefndar eru allt 19. aldar uppskriftir á ljóðmælum, það er að segja úr samtíma skáldkonunnar. Svolítill blæbrigðamunur er á vísunni í handritunum en allar eru þær samhljóða um upphaf hennar: Augað mitt og augað þitt.
Enginn sem lesið hefur ljóðin hennar Skáld-Rósu þarf að velkjast í vafa um hvort jafn hagmælt og listhneigð kona hefði látið frá sér fara vísu sem ekki laut rímkröfum. Þá, eins og nú, var algengt að menn hnikuðu til orðaröð og settu fleirtöluorð í eintölumynd til þess að þjóna hrynjandi og formgerð ljóðmálsins. Skáld getur því hæglega komið merkingu ljóðmálsins til skila þó það fylgi ekki ströngustu málfræðireglum. Það nefnist skáldaleyfi og er vel þekkt. Um það vitna mýmörg dæmi frá ýmsum tímum ekki síst önnur vísa eftir Skáld-Rósu sem Sveinbjörn Beinteinsson birti í fyrrnefndu lausavísnasafni. Má þar glöggt sjá að skáldkonunni var vel tamt að nota eintölumyndina auga þegar hún hugsaði um augu og gerði það óhikað ef formið krafðist þess:
Augað snart er tárum tært,
tryggð í partast mola,
mitt er hjartað sárum sært,
svik er hart að þola.
PS: Þessi skrif eru byggð á greininni "Sjá betur augu en auga?" sem ég skrifaði um sama efni í bókina Á sprekamó - afmælisrit tileinkað Helga Hallgrímssyni náttúrufræðingi sjötugum" (bókaútgáfan Hólar) árið 2005.
[1] Íslenzk ástarljóð. Snorri Hjartarson valdi ljóðin. Hörpuútgáfan. Reykjavík.
[2] Lausavísur frá 1400 til 1900. Safnað hefur Sveinbjörn Beinteinsson. Hörpuútgáfan. Reykjavík 1993, bls. 12 (fyrsta útgáfa 1976).
[3] Guðrún P. Helgadóttir 1993: Skáldkonur fyrri alda II. Kvöldvökuútgáfan á Akureyri 1963, bls. 155. Bókin var síðar endurútgefin af Hörpuútgáfunni 1993.
[4] Auk handritanna styðst Guðrún við útgáfu Brynjólfs Jónssonar á Minna-Núpi á Natans sögu Ketilssonar og Skáld-Rósu frá 1912 en þar er vísan sögð öðruvísi. Brynjólfur byggir á Natans sögu Gísla Konráðssonar sem neðar er getið og Natans sögu Tómasar Guðmundssonar á Þverá sem skráð var um miðbik 19. aldar og er varðveitt í Lbs 1933 8 vo.
[5] Lbs 1320 4to.
[6] JS 123 8vo og Lbs 1291 4 to.
[7] Lbs 162 8vo.
[8] JS 83 8vo; sbr. GPH II, nmgr. 274.
Menning og listir | Breytt 28.5.2019 kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Mamma, þetta er sko það flottasta sem ég hef séð .... sagði sonur minn yfirkominn af hrifningu: Hún Saga ER listamaður!
30.8.2007 | 23:31
Sjálf er ég orðlaus yfir allri vinnunni sem hefur verið lögð í þetta eina verk - sem þær vita svo ekki einu sinni hvort nokkur kemur að sjá (því mér sýnast nú kynningarmálin hafa farið fyrir ofan garð og neðan - en það er önnur saga). Hingað til landsins eru t. a. m. komnir þrír hönnuðir, tveir frá Japan og einn frá Þýskalandi, til að aðstoða þær. Þetta fólk kom alla þessa leið til þess að setja upp sviðsmynd og búninga fyrir tvær sýningar (já, seinni sýningin mun vera kl. 14:00 á laugardag)! Raunar er þetta blessaða fólk - sem flaug yfir hálfan hnöttinn til að aðstoða - að fara heim aftur í nótt. Þau munu ekki einu sinni sjá sjálfa sýninguna. Eru í þessum töluðum orðum rétt búin að kveðja mig með hneigingum og þökkum (því þeir eru kurteisir Þjóðverjar og Japanir, þótt ungir séu).
En sem sagt: Systkinin Pétur og Maddý voru líka að hjálpa til - og Pétur fylgdist með heilu rennsli í gær. Hann var með ljóma í augunum þegar hann lýsti þessu fyrir mér: "Þetta er það flottasta ... ég hef aldrei séð neitt eins og þetta! Þetta var ótrúlega flott."
Ég horfði á hann. Fann hlýjan straum fara um brjóstholið. Minnug stundanna þegar þau léku sér að kubbum, rifust um dótið, grétu undan hvort öðru, sungu saman, hugguðu og studdu hvort annað gagnvart heiminum - lásu saman bækurnar, horfðu á Nilla Hólmgeirsson og eyddu heilum sunnudagsmorgni í að lita fallega mynd handa mömmu. Saga talaði fyrir Pétur á leikskólanum svo það þurfti að skilja þau að milli deilda. Það var fyrsti aðskilnaðurinn, og hann stafaði af of nánu systkinaþeli. Orðlausum skilningi.
Jæja, nú eru þau komin á þrítugsaldur - hafa þroskast hvert í sína áttina, Pétur helgar sig tölvuheiminum, Maddý arkitektúrnum, Saga dansinum.
Hvort áhorfendur munu sjá þessa sýningu sömu augum og hann á morgun veit ég auðvitað ekki. Það skiptir mig engu. Mér, móður þeirra, er nóg að vita að enn skilja þau hvert annað - orðlausum skilningi. Rétt eins og þegar þau öll þrjú fyrir löngu - með litla tungubroddinn sinn við annað munnvikið - lituðu saman fallega mynd til að leggja á koddann hjá mömmu.
Menning og listir | Breytt 31.8.2007 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Stones tónleikar í London á morgun
25.8.2007 | 11:27
Jæja, nú er maður að loka ferðatöskunum og búa sig undir það að taka flugið til London. Framundan eru Stones-tónleikar í O2 tónleikahöllinni í London síðdegis á morgun Það eru lokatónleikarnir þeirra í tveggja ára tónleikaröð sem þeir nefna A Bigger Bang!
Yngsti sonurinn fær að fara með að þessu sinni - hann er 13 ára og ekki seinna vænna að kynna hann fyrir stórtóleikahaldi af þessu tagi. Fyrir tíu árum voru systkini hans tekin á Stones-tónleika í Tívolíinu í Kaupmannahöfn - Bridges to Babylon hét sú tónleikaferð þeirra. Þá hélt maður að gömlu brýnin færu að syngja sitt síðasta hvað úr hverju - en það var öðru nær.
Í fyrravor, þegar Keith Richards ráfaði fullur upp í tré, datt niður úr því og fékk heilahristing, hélt maður líka að þetta væri búið hjá þeim. En neibb .... þeir eru eins og samviskan, gera alltaf vart við sig aftur og aftur.
Áður hef ég séð Stones á Wembley 1994 þegar þeir voru að ljúka Vodoo Lounge tónleikaröðinni. Það var frábær upplifum - ógleymanleg.
Raunar er það Siggi, bóndi minn, sem er aðal Stones-maðurinn í fjölskyldunni. Hann hefur oft farið á tónleika með þeim, og það er fátt viðkomandi þessu (að ég held) elsta rokkbandi heimsins sem hann ekki þekkir og kann.
Það eru þeir félagarnir Mick Jagger (64), Keith Richards (63), Charlie Watts (66), Ron Wood (60 - unglingurinn í hópnum) sem við köllum Rolling Stones. En á tónleikum hljómsveitarinnar koma mun fleiri fram en þeir kumpánar. Mér er t.d. sérstaklega minnisstæð frammistaða Lisu Fisher þegar hún söng Gimme Shelter með Mick Jagger á Vooodoo Lounge tónleikunum á Wembley. Sömuleiðis hafa þeir á að skipa frábærum aðstoðarmönnum á ýmis hljóðfæri bæði bassa, brass, hljóðgervla, bakraddir o.fl.
Þetta verður ábyggilega frábært hjá þeim núna.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Minningarbrot af stuttum kynnum
30.7.2007 | 11:05
Margar ljúfar stundir höfum við Íslendingar átt með Kristni Hallssyni söngvara - svo oft hefur rödd hans ómað í eyrum okkar úr útvarpstækjum og af hljómplötum, dimm og þýð.
Kristni Hallssyni kynntist ég lítillega fyrir 18 árum, þegar ég stjórnaði sjónvarps skemmtiþætti með honum og Guðmundi Jónssyni, söngbróður hans, á þrettánda degi jóla árið 1989. Mér eru þeir báðir sérstaklega minnisstæðir. Gamansamir og heillandi persónuleikar - lítillátir en öruggir, eins og allir sannir listamenn.
Í þessum sjónvarpsþætti ákváðu þeir félagarnir að koma mér á óvart með því að syngja til mín þekktan gamansöng með frumsömdum texta eftir þá sjálfa. Ég gleymi þeim aldrei þar sem þeir stóðu, þessir tveir glæsilegu heiðursmenn, klæddir í kjól og hvítt, og sungu mér kvæðið í beinni sjónvarpsútsendingu, eins og þeim einum var lagið. Þeir glöddu mig sannarlega - og tókst ætlunarverk sitt að koma mér í opna skjöldu.
Samband þeirra tveggja virtist vera eitthvað alveg sérstakt: Sambland af hlýju og gneistandi kímni. Annar hár og mikill á velli, hinn lávaxnari og þéttur fyrir. Þeir sögðu frá því glaðbeittir að þrátt fyrir stærðarmuninn væru þeir í raun jafn stórir, því þegar þeir tækju sæti þá snerust stærðarhlutföllin við. Kristinn væri nefnilega búklangur en Guðmundur kloflangur. Þetta sönnuðu þeir með því að standa hlið við hlið og taka sér svo sæti. Og mikið rétt!
Já, þetta voru stórir menn - í margvíslegri merkingu þess orðs.
Ég þakka Kristni Hallssyni þessi ljúfu og eftirminnilegu kynni. Þakka honum margar góðar stundir sem ég hef átt með honum við útvarpstækið bæði fyrr og síðar. Blessuð sé minning hans.
Andlát: Kristinn Hallsson | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Birtubrigði og borgarlíf
27.7.2007 | 00:13
Þá er sumardaginn tekið að stytta á ný. Það er svolítið sérstök tilfinning þegar aftur fer að húma á kvöldin og götuljósin kvikna. Sjálf fæ ég alltaf einhvern fiðring þegar skyggja tekur - þá víkur náttúrubarnið innra með mér smám saman fyrir borgarbarninu.
Mér finnst haustið vera tími borgarlífs - á sama hátt og vorið og sumarið laða mann til fundar við náttúruna. Sé ég ekki stödd í borginni þegar húma tekur á kvöldin verður mér yfirleitt hugsað til hennar um það leyti. Og þó að haustið sé ekki beint á næsta leiti, þá hafa birtubrigðin kallað fram hjá mér hughrif í þessa átt. Sonnettan hér fyrir neðan er ort í þeim anda.
Borg
Dökk ert þú borg í dvala hljóðra nátta,
dimmblár þinn himinn við spegilsvarta voga.
Á myrkum barmi ljósadjásn þín loga,
lýsandi veita sýn til margra átta.
Ætíð er svefn þinn ofinn þungum niði,
þó erillinn hjaðni kynlega þig dreymir.
Eirðarlaust líf um æðar þínar streymir.
Ung ertu og vökul, borg, í næturkliði.
Ungt rennur líka barna þinna blóð.
Brennandi óskum skuggar þínir svala.
Sorgir, þrár og söknuð kæfa gleðilæti.
Kynslóðir fara og koma þína slóð,
kall þeirra greindum ef þögnin mætti tala,
vonbrigði og sigra er geyma steinlögð stræti.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þetta er nú Saga mín
3.7.2007 | 23:11
Þessi kattliðuga stúlka heitir Saga Sigurðardóttir. Hún er nýútskrifaður danshöfundur frá nútímadansdeild Listaháskólans í Arnhem í Hollandi. Ekki alls fyrir löngu sigraði hún í alþjóðlegri danshöfundakeppni í Búdapest, og hefur síðan verið á ferð um heiminn að sýna dansverk sín og annarra samstarfsmanna og samnemenda frá Arnhem. Þau hafa m.a. komið til Íslands og sett hér upp verkið Víkingar og Gyðingar sem sýnt var í Hafnarfjarðarleikhúsinu í fyrra og vakti verðskuldaða athygli. Nú er hún á leið til Ísrael að sýna sólóverk eftir sjálfa sig - hún nefnir það Rite.
Ég er afskaplega stolt af þessari stelpu - eins og reyndar börnunum mínum öllum Segi kannski meira frá þeim síðar.
Brunninn kórbúningur
2.7.2007 | 22:51
Ég er í svolítið vondu máli. Ég þarf nefnilega að útskýra fyrir upphaflegum eiganda kórbúningsins sem ég hef haft að láni undanfarin ár, hvernig mér tókst að brenna tvö hnefastór göt á treyjuna, eitt á framhlið og annað á bakhlið. Sé henni haldið uppi má horfa í gegnum götin bæði, eins og hleypt hafi verið af haglabyssu í gegnum búninginn.
Þetta gerðist í hinni merku tónleikaferð Sunnukórsins til Eystrasaltslanda, sem sagt hefur verið frá hér á síðunni fyrir skemmstu.
Málið er hið vandræðalegasta, enda ýmsar kenningar uppi um það hvað raunverulega gerðist. Hvort ég hafi verið að reykja eða fikta með eld inni á hótelherbergi . Jafnvel að Sigurður bóndi minn hafi verið svo heitur í atlotum að ég hafi hreinlega fuðrað upp þarna rétt ofan lífis Sú kenning varð raunar tilefni ofurlítillar stöku sem sett var fram á góðri stundu og er svona:
- Með aldri funann finna menn
- fölskvast í sér,
- en Siggi kátur kann vel enn
- að kveikja í mér.
Jæja, svo skemmtilega vildi þetta þó ekki til. Tildrög óhappsins yrði of langt mál að rekja hér í smáatriðum en við sögu koma: Standlampi, logandi heit pera af einhverri ónefnanlegri tegund (skaðræðisgripur sem hitnar eins og skot), og Siggi minn blessaður sem í sakleysi sínu kveikti ljósið .... og fann svo brunalykt.
En nú þarf ég semsagt að manna mig upp í að hringja í hinn upprunalega eiganda og útskýra málið.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Komin úr söngferðinni - og fer nú beint í hundana!
19.6.2007 | 20:59
Jæja, þá er ég komin úr stórkostlegu söngferðalagi með Sunnukórnum á Ísafirði til Eystrasaltslanda. Fyrsti viðkomustaður var Finnland - sungum þar undir Síbelíusarminnismerkinu (sjá mynd), líka á Esplanaden, og svo var það hápunkturinn: Sjálf Klettakirkjan. Það var mikil upplifun ... og margt sem fór úrskeiðis, bæði fyrir tónleikana og meðan á þeim stóð.
Til dæmis tókst mér, fyrir ótrúlega slysni sem of langt mál yrði að rekja hér, að brenna hnefastórt gat á kórbúninginn minn kvöldið fyrir tónleikana í Klettakirkjunni . Ég á það hjálpsamri kórsystur að þakka, henni Hrafnhildi, að þessu varð bjargað. Hún er nefnilega völundur í höndum, og þrátt fyrir að hótelið gæti einungis útvegað okkur ónýta saumavél, sem að sjálfsögðu bilaði á meðan verið var að reyna að gera við skemmdina þarna á síðustu stundu, þá tókst henni að sauma treyjuna upp með sínum fimu fingrum. Og nú er treyjan betri ef eitthvað er. Enda sáu allir - þegar viðgerðinni var lokið - að svona styttri treyjur væru eiginlega bara klæðilegri á okkur konunum. Þannig að óhappið hefur sennilega skapað nýjan "trend" fyrir kórbúninga Sunnukórsins í framtíðinni
Jæja, en tónleikarnir tókust vel. Þeir voru vel sóttir og viðtökur áheyrenda frábærar í lokin, mörg uppklöpp og endaði með því að salurinn reis á fætur fyrir okkur. Jamm - ekkert minna.
Sanngirninnar vegna skal þess getið að við höfðum fyrirtaks klapplið með í för þar sem makar okkar voru annarsvegar. Þeir tóku að sér hlutverk kynningarfulltrúa og aðdáenda með öllu sem því tilheyrir - klöppuðu mest og hæst og sköpuðu stemningu hvar sem við komum. Nú skil ég betur en nokkru sinni gildi þess fyrir fótboltaliðin að hafa góða aðdáendaklúbba
En kórinn sjálfur átti auðvitað sinn hlut í þessu - og þá ekki síst stjórnandinn okkar hún Ingunn Ósk Sturludóttir. Hún er sjálf mezzo-sopran söngkona með djúpa og þróttmikla rödd - og það gerði auðvitað útslagið þegar hún tók lagið með okkur. Sérstaklega var áhrifamikið þegar hún söng Ave Maríu eftir Sigvalda Kaldalóns. Það eru engar ýkjur að fólk tárfelldi undir söng hennar, og eftir það áttum við hvert bein í áheyrendum. Þá spillti ekki fyrir að undirleikari kórsins, Sigríður Ragnarsdóttir, er snillingur á hljóðfærið. Sömuleiðis BG sjálfur, hann Baldur Geirmundsson með harmonikkuna og Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir sem sló rengtrommuna af mikilli list þegar við tókum "Húsið" (lagið góða "Húsið er að gráta" sem Helgi Björns gerði frægt en Vilberg Viggósson hefur nú útsett sérstaklega fyrir Sunnukórinn).,
Jæja, svo var haldið til Eistlands. Þar sungum við á ráðhústorginu í Tallin og héldum svo opinbera tónleika síðar um daginn í sænsku kirkjunni. Hljómburðurinn í kirkjunni var ótrúlega fagur, og satt að segja held ég að þar hafi styrkur kórsins og samstilling notið sín best. Oft hef ég heyrt fagra Ave Maríu sungna eftir Sigvalda - en hvergi eins og þar.
Frá Tallin var haldið til Lettlands og sungið í menningarmiðstöðinni í Riga ásamt heimakór, sem að fáum vikum liðnum mun þreyta kapps í alþjóðlegri kórakeppni. Í Riga hittum við líka samkór Kópavogs sem voru á söngfeðralagi. Kórarnir slógu sig saman eitt kvöldið, borðuðu saman og tóku svo lagið, m.a. framan við hótelið þar sem báðir hóparnir gistu (sjá mynd). Kraftmikill söngur kóranna tveggja vakti óskipta athygli gesta og gangandi.
Síðustu tveimur dögunum eyddum við svo í Vilníus í Litháen. Þar gerðum við okkur glaðan dag á 17. júní með því að syngja þjóðsönginn okkar á tröppum ráðhússins. Að því loknu var haldið fylktu liði niður að Óperutorginu og sungið á leiðinni. Vakti þetta mikla athygli í Vilníus og var okkur tjáð að um fátt hefði verið meira rætt þann sunnudaginn en þessa skemmtilegu Íslendinga.
Í gær ókum við svo aftur frá Vilníus til Riga og tókum þaðan ferju yfir til Stokkhólms - gistum um borð og áttum skemmtilegt lokahóf í gærkvöldi. Mikið sungið og trallað.
Ferðina kórónaði Bryndís Schram, sem var fararstjórinn okkar þessa daga. Hún er hafsjór af fróðleik um Eystrasaltslöndin, enda fylgdist hún með sjálfstæðisbaráttu þeirra í óvenjulegu návígi sem utanríkisráðherrafrú á sínum tíma (þegar Jón Baldvin tók sig til fyrir hönd Íslendinga og viðurkenndi sjálfstæði þeirra á undan öðrum). Er síst ofmælt að Bryndís átti sinn þátt í því að gera þessa ferð ógleymanlega.
Jæja, en nú er næst á dagskrá að halda norður í Vaglaskóg með fjölskylduna og hundinn, á nokkurra daga björgunarhundanámskeið og tjaldútilegu.
Blessað barnið hann Hjörvar minn, og tíkin hún Blíða, hafa verið í sveitinni hjá systur minni meðan við hjónin vorum á fyrrnefndu söngferðalagi. Er ekki að orðlengja að þau hafa hvort með sínum hætti notið frelsisins í sveitinni. Hann með frænda sínum og jafnaldra honum Vésteini. Tíkin með heimilishundinum á bænum, honum Sámi. Hefur þar verið óheftur aðgangur að sauðfé, hrossum og öðrum hundum - og nú er spurningin hvernig mér gengur að tjónka við hundspottið þegar við komum norður á björgunarhundanámskeiðið.
Frá því verður kannski sagt síðar - næsta blogg kemur sennilega ekki fyrr en eftir helgina. Hafið það gott á meðan.
Menning og listir | Breytt 20.6.2007 kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hver var Jón lærði?
29.5.2007 | 14:51
Ekki alls fyrir löngu fékk ég fyrirspurn frá Vísindavefnum um Jón lærða Guðmundsson, þann fróðleiksfúsa, sérstæða og drenglundaða mann sem kunni ekki að koma sér vel við höfðingja, og varð því einhverskonar útlagi í eigin föðurlandi mestalla ævi. Hann lifði á 17. öld og er meðal þeirra fyrstu sem dæmdir voru á alþíngi fyrir kukl og galdur. Hélt þó lífinu.
Söguþyrstir lesendur geta kynnt sér ságrip af sögu hans hér fyrir neðan:
Jón lærði Guðmundsson var sjálfmenntaður alþýðumaður og náttúruskoðari. Saga hans er raunaleg lífssaga manns sem var uppi á þeirri öld sem spillti upplagi hans og hæfileikum eins og Páll Eggert Ólason orðaði það (PEÓ 1942, 263).
Hann var fæddur í Ófeigsfirði á Ströndum árið 1574, varð snemma áhugasamur um verkan náttúrunnar, einkum grasa og jurta til lækninga. Á þeim árum var læknisfræði landsmanna ekki á háu stigi og meðferð lyfja nánast talin til varnargaldurs, a.m.k. ef óskólagengnir menn höfðu þau um hönd. Jón var einnig áhugasamur um rúnir og fornrit auk þess sem hann var sjálfur mjög hjátrúarfullur og sannfærður um tilvist álfa og anda.
Jón mun hafa verið blendinn í lund, heiftugur í skapi, sérvitur og fullur hjátrúar og pápískur í trú ef marka má formálsorð Guðbrands Vigfússonar að þjóðsögum Jóns Árnasonar (JÁ I, 1862, xi). Hann var hins vegar hagur maður til munns og handa, smiður góður, listaskrifari og málari, enda oft nefndur Jón málari. Margir leituðu til hans um smíðar og viðgerðir, en þess voru einnig dæmi að liðsinnis hans væri óskað til þess að fyrirkoma draugum og öðrum óhreinleika. Frægustu aðgerðir hans í því efni urðu þegar hann kvað niður reimleika á Snæfjallaströnd - Snæfjalladrauginn svonefnda með kveðskap sem varðveist hefur í handritum (Fjandafæla, Snjáfjallavísur og Umbót eður friðarhuggun).
Til er samtímaheimild frá árinu 1627 um það hvaða augum menn litu iðju Jóns lærða. Í riti sem nefnt hefur verið Hugrás, skrifað af séra Guðmundi Einarssyni á Staðarstað, prófasti í Snæfellssýslu, er rætt um lækningaviðleitni Jóns lærða. Þar segir að Jón hafi hendur yfir sjúka lagt, með lesningum og bænum og þvílík sín þjónustugjörð hafi í þann tíma svo þökkuð verið svo sem hjálp og aðstoð af himnaföðurnum sjálfum (Lbs 494 8vo, bl. 92r).
Jón lærði var talinn ákvæðaskáld (sjá skýringu neðar) og sú saga fór af honum að hann kynni margt fyrir sér, m.a. að kveða niður drauga. Mestu mun þó hafa ráðið að hann lenti í útistöðum við Ara Magnússon, sýslumann í Ögri í Ísafjarðardjúpi í framhaldi af Spánverjavígunum 1615 (Jónas Kristjánsson 1950). Ari í Ögri var á þeim tíma einn helsti héraðshöfðingi landsins, ráðríkur og aðgangsharður ef því var að skipta. Ari stóð fyrir því að fjöldi Spánverja (Baska) var veginn í tveimur aðförum sem áttu sér stað í Dýrafirði og Æðey í Ísafjarðardjúpi í októbermánuði það ár. Vígin mæltust misvel fyrir, og Jón lærði var þeirrar skoðunnar að með þeim hefði verið framið ódæði gegn varnarlausum skipbrotsmönnum. Skrifaði hann um þessa atburði Sanna frásögu af spanskra manna skiptbrotum og slagi þar sem hann tók málstað Baskanna. Í framhaldi af því reis í sveitinni rógurinn mikli / með fölskum bréfum / og forráðs lygi eins og hann segir sjálfur í ævikvæði sínu Fjölmóði (Safn til sögu Íslands, 31-85). Með þessum skrifum kallaði Jón yfir sig óvild Ara sýslumanns, var í framhaldinu kærður fyrir galdra og flosnaði upp frá fjölskyldu og börnum um hávetur.
Það má teljast athyglisvert að Jón lærði skyldi hafa komist hjá því að verða brenndur á báli. En hann var dæmdur útlægur með dómi sem gekk á Bessastöðum sumarið 1631. Leitaði hann þá á náðir yfirdóms í Kaupmannahöfn sem vísaði málinu aftur til Alþingis, og þar var útlegðardómur hans staðfestur árið 1637. Eftir það var Jón lærði útlægur úr öllum ríkjum og löndum konungs nema konungur vildi honum meiri náð sýna (Alþb. V, 483).
Jón fór þó aldrei af landi brott, og segir í Skarðsárannál að engir kaupmenn hafi fengist til að taka hann á skip (Annálar I, 251). Hann var því á vonarvöl síðustu ár ævi sinnar, og hafðist að mestu við í Múlaþingi.
Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup segir í bréfi til Óla Worms árið 1649 að Jón Guðmundsson eyði nú elliárum sínum úti í landshorni þar sem hann eldist ónýtur sjálfum sér og öðrum (Breve... III, 379). Er því vart ofmælt að ævi Jóns lærða hafi verið raunaleg lífssaga manns sem lifði erfiða tíma ogt fékk því aldrei fékk notið hæfileika sinna sem vert hefði verið.
Heimildir
- Alþingisbækur Íslands I-X. Reykjavík 1912-1967.
- Annálar 1400-1800 I-VII. Reykjavík 1922-1998.
- Breve fra og til Ole Worm I-III. Kaupmannahöfn 1965-68.
- Einar G. Pétursson 1998: Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða I-II. Reykjavík.
- Ólína Þorvarðardóttir 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölu og munnmælum. Reykjavík.
- (PEÓ) - Páll Eggert Ólason 1942: Saga Íslendeinga V. Seyjánda öld. Reykjavík.
- Safn til sögu Íslands V (nr. 3). Páll Eggert Ólason ritaði inngang og athugasemdir. Reykjavíkl 1916.
- Jón Árnason (safnað hefur) 1862-1864: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri I-II. Leipzig
- Jónas Kristjánsson 1950: Spánverjavígin 1615. Sönn frásaga eftir Jón Guðmundsson lærða og Víkingarímur. Kaupmannahöfn.
- Handrit: Lbs 494 8vo, bl. 92r
[1] Ákvæðaskáld eða kraftaskáld nefndist það fólk sem gat með kveðskap haft áhrif á velfarnað manna og atburði. Talað var um að ummæli slíkra einstaklinga yrðu að áhrínisorðum, þ.e. að þau kæmu fram. Meðal frægra kraftaskálda má nefna sr. Hallgrím Pétursson, sr. Snorra Björnsson í Húsafelli, Þormóð í Gvendareyjum, Jón lærða o.fl.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)