Færsluflokkur: Dægurmál

Þjóð í greipum Davíðs

DavidGeirMbl.is Ég man þá tíð þegar Davíð Oddsson varð borgarstjóri í Reykjavík, ég var fréttamaður á sjónvarpinu. Mér er það mjög minnisstætt þegar hann neitaði að veita fréttastofunni viðtöl nema ákveðnir fréttamenn tækju þau. Hann ætlaði til dæmis að neita að tala við mig. Þá sýndi Ingvi Hrafn Jónsson þáverandi fréttastjóri af sér þann dug að láta Davíð Oddsson vita það að hann veldi sér ekki viðmælendur á fréttastofu sjónvarpsins. Og þar við sat.

Þetta rifjast upp fyrir mér þegar Davíð talar núna um heljartök hagsmunaaðila á fjölmiðlum. Hann hefur sjálfur haft slíkt tök,  enda átti hann eftir að verða mun valdameiri í íslensku samfélagi en þegar hann var borgarstjóri. Hann hefur viljað hafa þessi tök og beita þeim. Þannig er það nú bara - það otar hver sínum tota.

Sjálfréttlæting var orðið sem kom fyrst í huga minn þegar ég hlýddi á ræðu Davíðs á fundi Viðskiptaráðs í morgun. Vissulega var þróttur í röddinni - hann er greinilega ekki af baki dottinn.  En það er einkennilegt að hlusta á opinberan embættismann tala á formlegum fundi og eyða mestum hluta ræðutíma síns í að réttlæta sjálfan sig persónulega.

Þetta er - hvað sem öðru líður - maðurinn sem skóp skilyrðin fyrir útrásinni í krafti forsætisráðherraembættis síns með hugmyndafræði frjálshyggjunnar að vopni. Var það ekki hann sem "seldi" bankana á gjafverði? Var það ekki hann sem réði lögum og lofum, deildi og drottnaði árum saman?  Skaut sendiboða slæmra tíðinda með því til dæmis að leggja niður Þjóðhagsstofnun þegar honum líkuðu ekki efnahagsspárnar? 

Vissulega má af tilvitnunum Davíðs lesa að hann hafi varað við því sem var yfirvofandi. Það var gert í einhverjum ræðum sem enginn tók eftir á formlegum fundum þar sem menn dotta eldsnemma á morgnana og boðskapurinn fer inn um annað eyrað en út um hitt. En tók hann upp símtólið og talaði við þá sem stjórna landinu? Hélt hann vinnufundi um málið? Gerði hann tillögur um viðbrögð við yfirvofandi hættuástandi? Hvar gerði hann þær tillögur, og við hvern? Hvar eru þær?

Sjáið til, það sem Davíð gerði  var annars eðlis en það sem hann sagði. Hann safnaði ekki korni í hlöður fyrir mögru árin. Gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans reyndist ekki nægur þegar til átti að taka. Sömuleiðis peningastóll bankana - enda búið að lækka bindiskylduna. Hver skyldi hafa borið ábyrgð á því?

Og svo klykkir hann út með því að hann viti hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögum. Hann veit en vill ekki segja. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega?

Eitt stendur þó eftir stálinu sterkara: Davíð Oddsson ætlar ekki að falla einn úr háu sæti. Verði hann látinn víkja úr starfi Seðlabankastjóra mun hann taka fleiri með sér. Í þessari ræðu lét hann skína í tennurnar: Davíð er þess albúinn að fletta ofan af aðgerða- og andvaraleysi annarra. Og þar liggur hundurinn grafinn. 

Það er Davíð sem hefur ráðherra Sjálfstæðislfokksins í heljargreipum, og þar með þjóðina.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo margt hefur gerst ...

Nú hefur bara svo margt gerst síðustu dægur að móttakarinn í mér er brunninn yfir. Hann tekur ekki við meiru í bili.  Lítið bara yfir nýliðna viku:

10. nóv. seint um kvöld: Bjarni Harðarson missir frá sér tölvupóst á alla fjölmiðla með bréfi tveggja Framsóknarmanna til Valgerðar Sverrisdóttur og ljóstrar þar með upp um eigin áform um að koma þessu nafnlaust á framfæri í bakið á Valgerði. Landsmenn taka andköf.  


11. nóv. Bjarni segir af sér þingmennsku. Andköf halda áfram.

12. nóv. Forseti Íslands lætur ummæli falla á fundi með fulltrúum nágrannaþjóða sem verða þess valdandi að menn sitja klumsa undir ræðuhöldunum. Norski sendiherranns sér ástæðu til að senda heim sérstaka greinargerð um uppákomuna. Landsmenn líta hver á annan.

14. nóv. Sjálfstæðismenn ákveða að flýta landsfundi fram í janúar og skipa nefnd um Evrópumál sem á að skila af sér fyrir landsfundinn. Sama dag ...

14. nóv. leggur ríkisstjórnin fram aðgerðaáætlun til bjargar heimilunum í landinu. Maður er rétt farinn að fletta í gegnum aðgerðalistann þegar næsta stórfrétt dynur yfir. 


15. nóv. Framsóknarflokkurinn heldur þann "magnaðasta" miðstjórnarfund sem framsóknarmenn hafa setið, svo vitnað sé í bloggskrif eins þeirra. Á þessum fundi verða þau stórtíðindi að flokkurinn tekur stefnuna til Evrópu. Hart er deilt á forystuna og af fundinum heyrast hróp og köll gegnum luktar dyr. Loft er lævi blandið. Sama dag ...

15. nóv.  mótmæla 6-8 þúsund manns á Austurvelli - hafa aldrei verið fleiri -  Alþingishúsið er þakið eggjarauðum og klósettpappír.

16. nóv. Ríkisstjórnin kynnir samkomulag í Ísbjargar deilunni. Ekki er fyrr búið að taka hljóðnemana úr sambandi og kalla til aðjúnkta, dósenta og lektora til að tjá sig um málið en ...

17. nóv. að morgni dags: Gert er uppskátt um þá 27 liði sem felast í umsókn okkar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrst berast af þessu lausafregnir (skúbb hjá DV ), en síðar um daginn heldur ríkisstjórnin blaðamannafund og opinberar það sem í umsókninni felst. Aftur eru kallaðir til aðjúnktar, dósentar og lektorar til að leggja mat á umsóknina. Þeir hafa ekki fyrr opnað munninn en ...


17. nóv. kl. 15:00: Guðni Ágústsson segir af sér þingmennsku og formennsku í Framsóknarflokknum. Hann er búinn að fá svo gjörsamlega nóg að hann heldur ekki einu sinni blaðamannafund - svarar ekki spurningum, heldur afhendir þingforseta bréf og segir sig frá öllu saman. Ætlar ekki að tjá sig í bráð. Þingheimur situr agndofa - bloggheimur þagnar ... um stund.

 Shocking

Það eru takmörk fyrir því sem hægt er að leggja á einn bloggara á einni viku. Nú er upplýsingaflæðið orðið svo mikið að "tölvan" er einfaldlega frosin - hún tekur ekki við meiru, og skilar ekki fleiru frá sér í bili. 

Hreinsun stendur yfir - en það er bloggstífla á meðan. Ég bið lesendur að sýna biðlund á meðan þetta ástand varir.

 


Spillingin rædd Á Sprengisandi

Við Grímur Atlason vorum í þætti Sigurjóns M. Egilssonar Á Sprengisandi í morgun að ræða spillingarmálin og ástandið í þjóðfélaginu. Þeir sem hafa áhuga á að hlusta á þetta geta smellt HÉR.  Að svo stöddu hef ég ekki miklu við að bæta - læt þennan skammt duga í dag.

Burt með spillingarliðið!


Til ykkar sem ætlið að mótmæla í dag ...

... klæðið ykkur vel. Munið eftir föðurlandinu, húfunni, treflinum og ullarvettlingunum. Það hefur oft viðrað betur á mótmælendur en í dag. Verið svo málstaðnum til sóma - ég verð fjarri góðu gamni, en með í andanum. Wink

Burt með spillingarliðið!


Bréfið til Valgerðar

Bréfið til Valgerðar Sverrisdóttur sem varð Bjarna Harðarsyni svo afdrifaríkt lýsir sárum vonbrigðum tveggja Framsóknarmanna með framgöngu Valgerðar á ráðherrastóli og það hvernig flokkinn hefur borið af leið í mikilvægum málum - ekki síst varðandi einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Bréfið fer hér á eftir:

Heil og sæl Valgerður, þú varst ögn önug út í okkur flokksbræður þína yfir því að við minntum á, í bréfi 9. okt. s.l.að í þinni ráðherratíð sem viðskiptaráðherra voru bankarnir einkavæddir.

Það verður þó varla fram hjá því litið að á því ferli öllu berð þú mikla ábyrgð ásamt því regluverki sem bönkunum var ætlað að starfa eftir. Og minnast má þess að lengi vel var það stefna Framsóknarflokksins að selja ekki bankana og als ekki Símann og margir framsóknarmenn munu enn vera á þeirri skoðun. Nú er úti ævintýr og bankarnir komnir aftur í þjóðareign. Nauðsynlegt er að spyrja hvað hefur þjóðin haft upp úr sölu bankanna og hvað mun hún kosta hana? Fyrireinkavæðingu var þjóðin talin með ríkustu þjóðum í heimi. Þjóðartekjur á mann með því besta sem þekktist. Þegnarnir yfirleitt efnahagslega sjálfstæðir og lífskjör hvergi jafnari en hér á landi. Ofurlaun þekktust ekki. Hvernig er svo ástandið í dag, sem einkavæðingin skilur eftir? Allir bankarnirkomnir í þrot. Af eljusemi og dugnaði höfðu þeir safnað erlendum skuldum er nema tólf til þrettán faldri ársframleiðslu þjóðarinnar. Allt sparifé okkar, sem var í vörslu þeirra var í uppnámi. Setja varð neyðarlög að næturlagi til þess að tryggja spariféð og eðlileg bankaviðskipti í landinu. Mörg hundruð miljarða skuldabaggi er lagður á íslenska þjóð. Okkur finnsta því að þú mættir gjarnan hugleið hvaða áhrif þinn félagslegi og pólitíski framgangur hefur haft fyrir þjóðina og Framsóknarflokkinn. Og hvað um KEA og SÍS? Spyrja má hversu mikið landsbyggðin hefur liðið fyrir hrun Samvinnuhreyfingarinnar.

Síður en svo ætlum við þér alla ábyrgð á einkavæðingunni og afleiðingum hennar þótt þú kæmir þar verulega við sögu og margir bera ábyrgð á þróun samvinnumála hér á landi. Framsóknarflokkurinn átti sinn góða þátt í uppbyggingu þess samfélags, sem hér náði að þróast á öldinni sem leið. Það samfélag byggði á blönduðu hagkerfi, sem hafnaði öfgum kapitalisma, sem boðaði að markaðurinn ætti að ráða öllu í heimi hér, jafnt og alræðissósíalisma var hafnað. Með formensku Halldórs Ásgrímssonar hefst raunasaga Flokksins, sem endaði með fylgishruni. Halldór klifaði látlaust á því að breyta þyrfti stefnu Flokksins. Hann skipaði framtíðarnefnd. Jón Sigurðsson var ,,kallaður” til þess að hafa umsjón meðþessari stefnumótun, ásamt Sigurði Einarssyni og Bjarna Ármannssyni, sem afþakkaði reyndar þetta boð.

Í þessari nýju stefnu fólst m.a. þetta:

  1. Í stað þess að standa vörð um sjálftæði Íslands og fullveldi átti að gangastundir ESB- valdið í Brussel.
  2. Í stað hins blandaða hagkerfis skyldi innleiða ,,frjálst” markaðhagkerfi líkt og í Bandaríkjunum og ESB.
  3. Ísland átti að verða ,,alþjóðleg” fjármálamiðstöð og skattaparadís.
  4. Frjáls innflutningur á landbúnaðarvörum, átti að vera forsend þess að flokkurinn næði fylgi í þéttbýlinu.

Allt var þetta í algjöri andstöðu við þau lífsviðhorf og gildismat þess fólks sem Flokkurinn sótti fylgi sitt til. Enginn studdi Halldór formann og þessa nýju stefnu afmeiri alúð en þú, að okkur finnst. Þótt annar hver kjósandi hafi yfirgefið Flokkinn heldur þú áfram á braut, sem leiddi hrun yfir Flokkinn og hörmung yfir þjóðina. Ástandið hefði þó verið sínu verra ef vilji ykkar Halldórs og fyrirmæli um að leggja Íbúðarlánasjóð undir bankanna hefðu ekki verið hundsuð af ágætum flokksbræðrum okkar, Árna Magnússyni, Magnúsi Stefánssyni og Guðmundi Bjarnasyni. Enda nutu þeir, að við höldum, stuðnings annarra þingmanna Flokksins. Þú innleiddir tilskipun ESB um raforkumál, sem kostar fólkið í landinu hundruð miljóna á ári hverju. Og þú orðaðir það svo fallega að þetta gæti verið fyrsta skrefið í einkavæðingu orkugeirans.  Og nú rekur þú áróður sem mest þú getur fyrir aðild að ESB og reynir að fiska málinu fylgi í gruggugu vatni svo ekki sé meira sagt. Því til viðbótar hefur þú og sumir af þínum fylgismönnum talað niður gjaldmiðil hagkerfisins, nokkuð sem er mjög alvarlegt mál. Þá viljum við lýsa undrun og óánægju okkar yfir framgöngu þinni gagnvart sitjandi formanni Framsóknarflokksins. Við munum ekki annað eins.

Með framsóknarkveðju.

Gunnar Oddsson Flatatungu 560 Varmahlíð.
Sigtryggur Jón Björnsson Birkimel 11 560 Varmahlíð.

 

Svo mörg voru þau orð.

 


Gerendur enn á vettvangi - Burt með spillingarliðið!

bankastjorarLbs Fyrir fáum dögum spurðist það út að Sigurjón Árnason fyrrum Landsbankastjóri væri enn að störfum í bankanum á nýrri skrifstofu sem  hafi verið sérstaklega innréttuð fyrir hann. Þangað mætti hann til starfa, lagði í sitt gamla bankastjórastæði, og ráðskaðist um eins og ekkert hefði í skorist. Halldór J. Kristjánsson mun líka hafa verið að störfum, þar til í gær - að þeir félagar ákváðu að hætta, eftir að umræða spannst í fjölmiðlum um þetta fyrirkomulag.

Á sama tíma heyrir maður frá því sagt í útvarpinu að almennt starfsfólk hafi verið að fá tafarlausar uppsagnir, það orðið að yfirgefa vinnustað sinn samstundis í fylgd einkennisklæddra öryggisvarða, svipt farsímanum og lykilorðinu að tölvunni. Er svo hart fram gengið gegn sumum að vinnusálfræðingar sjá ástæðu til að koma í útvarp og biðja vinnuveitendur að sýna örlitla tillitssemi við uppsagnir á starfsfólki.

Hmmm .... en gömlu stjórnendur bankanna - þessir sem bera ábyrgð á því hvernig komið er - þeir hafa setið vikum saman í ráðgjafastörfum fyrir nýju bankana, í sérinnréttuðum skrifstofum, jafnvel með mannaforráð. Það virðist ekki hafa hvarflað að neinum að svipta þá lykilorði að tölvunum - hvað þá heldur fríðindum á borð við sérmerkt bílastæði, farsíma og fleira. Hmmm .... það lá víst ekkert á að koma þeim út úr húsi. Og á meðan leið tíminn - engin rannsókn hafin - allt í vandræðagangi.

Hvaða áhrif halda menn að það hafi á rannsóknavettvanginn að þeir sem verða sjálfir til rannsóknar skuli geta athafnað sig þar svo vikum skiptir? Nú er ég ekki að fullyrða að gömlu stjórnendurnir séu að spilla rannsóknagögnum í bönkunum - ég bara bendi á þeir eru í góðri aðstöðu til þess sumir hverjir. Möguleikinn er augljós.

ThorgerdurKatrinÍ raun snýst þetta ekkert um það hvort maður heldur að þeir sem í hlut eiga séu heiðarlegt fólk. Málið snýst miklu heldur um það hvort vera þeirra í námunda við vettvanginn er eðlileg. Á sama hátt og vanhæfi einstaklinga snýst ekki um artir þeirra eða innræti - heldur hitt hvort málsmeðferðin sjálf er hafin yfir efasemdir um hlutleysi og fagmennsku í vinnubrögðum: Að ekki sé um að ræða tengsl milli rannsóknaraðila og þess sem rannsakaður er, hvað þá heldur aðgengi meintra gerenda að sjálfum rannsóknavettvanginum og þeim gögnum sem rannsaka þarf. Kristinn H. Gunnarsson hefur rökstutt þetta ágætlega í grein sem hann skrifaði í vikunni um vanhæfi menntamálaráðherra í þessu máli (sjá hér).

BjornBjarnason Það er nefnilega rangt hjá dómsmálaráðherra að umræða um vanhæfi Valtýs Sigurðssonar og Boga Nilssonar hafi verið aðför að heiðri þessara tveggja manna (hann hélt þessu fram í sjónvarpsfréttum í gær). Umræðan um vanhæfi Valtýs og Boga snerist um vinnubrögð, ekki menn. Hún snerist um tengsl þessara manna við viðfangsefnið en ekki persónur þeirra. Leitt að dómsmálaráðherrann skuli ekki sjálfur gera þennan greinarmun.

Ég hefði að óreyndu búist við að stjórnvöld og löggæsluyfirvöld yrðu betur á verði gagnvart rannsóknahagsmunum vegna bankahrunsins - það er jú þeirra að gæta hagsmuna almennings í þessu - vernda almenning. Dómsmálaráðherra sagði í fréttum í gær að það yrðu að berast kærur frá almenningi til að hægt væri að rannsaka mál.

En hverjir eru fulltrúar almennings? Eru það ekki þeir stjórnmálamenn sem kosnir eru af þjóðinni hverju sinni - þingmennirnir í umboði almennings og ríkisstjórnin í umboð þingsins? Hefur Björn Bjarnason ekki sitt umboð frá almenningi? Það er nóg komið af hundakúnstum. Skipið óháða rannsóknanefnd í þetta mál, strax. Og hreinsið rannsóknavettvanginn af þeim sem ollu tjóninu. Hreinsið bankana af gömlum stjórnendum - Seðlabankann  þar með talinn og fjármálaeftirlitið. Víkið frá þeim ráðamönnum sem tóku þátt í ósómanum. Þetta þolir ekki lengri bið.

 Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!

 


,,Ég vakna þennan dag og vel að hann sé góður ... '' Burt með spillingarliðið

ArnarfjordurAgustAtlason Þessar fallegu vísur fékk ég sendar í tölvupósti frá vinkonu minni í morgun. Ljóði er eftir skáldkonuna Unni Sólrúnu sem hefur ort margt fagurt um lífið og tilveruna og birt á heimasíðu sinni. Ég má til að deila þessu með ykkur.

Með boðskapnum birti ég þessa fallegu mynd sem félagi minn Ágúst G. Atlason tók í Önundarfirði í fyrra.

 

 

Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður,
vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður.
Ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.

Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti,
ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.

Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur,
faðma þennan morgun og allar hans rætur,
hita mér gott kaffi, af kærleik þess ég nýt.
Kexið smyr með osti, í blöðin svo ég lít.

Að endingu ég segi við þig sem þetta lest:
Þetta er góður dagur, hafðu það sem best.
Ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni.
Faðmlag þér ég sendi, og kveð þig nú að sinni.

 

Megi dagurinn verða ykkur góður. Smile 

Og burt með spillingarliðið - hvar í flokki sem það stendur!


Burt með spillingarliðið!

  Það mættu fleiri fara að dæmi Boga Nilssonar fyrrverandi ríkissaksóknara sem nú hefur horfið frá þátttöku í undirbúningi rannsóknar á starfsemi gömlu bankanna í aðdraganda hrunsins. Bogi segir réttilega í yfirlýsingu sinni að honum finnist hann ekki lengur njóta nægilegs almenns trausts til að sinna verkefninu. Gott hjá honum - og rétt.

Nú er spurningin hvort Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari, hefur sambærilegar áhyggjur af trausti almennings á þeirri vinnu sem framundan er vegna rannsóknar málsins. Sonur Valtýs er forstjóri Exista, sem eins og allir vita hefur rík tengsl við Kaupþing eins og ég hef bloggað um áður. 

Já, það mættu ýmsir taka sér til fyrirmyndar áhyggjur fyrrverandi ríkissaksóknara af trausti almennings á gjörðum þeirra og dómgreind.

sedlabankiEf einhver manndómur væri í bankastjórum Seðlabankans og stjórnarmönnum, þá hefðu þeir allir farið að dæmi Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem sagði sig úr bankaráðinu og bað þjóðina afsökunar á hlutdeild bankans í fjármálahruninu. Hún er maður að meiri. En það virðist því miður ekki hvarfla að þessum mönnum að skapa frið um störf Seðlabankans og efla traust almennings á honum með því að víkja þaðan - enda stjórnarlaunin feitur biti og greidd af almenningi.

Ekki verður heldur sagt að traust ríki á Fjármálaeftirlitinu um þessar mundir. Síst eftir þá yfirlýsingu að það hafi ekki samþykkt "sérstaklega" skuldaniðurfellingar yfirmanna í bankakerfinu, eins og þeir orðuðu það. Þau orð verður hver að skilja sínum skilningi, en ég skil þau þannig að Fjármálaeftirlitið hafi vitað af því sem fram fór án þess að hafast frekar að. Nú á þetta sama fjármálaeftirlit að rannsaka málið. Bandit

Fólk treystir þessum mönnum ekki lengur - enda virðist vera sama hvar velt er við steinum, allstaðar blasa við okkur siðleysi, spilling, hagsmunatengsl eða vanhæfi - meðal annars í ráðherraliðinu eins og Kristinn H. Gunnarsson fjallar um á heimasíðu sinni í dag.

Þess vegna ætla ég að enda þessa færslu, og allar mínar færslur á næstunni, með sama hætti og í gær:

Burt með stjórn Seðlabankans og bankastjórana þrjá. Burt með Fjármálaeftirlitið, stjórn þess og starfslið. Burt með alla þá starfsmenn bankanna sem þáðu eða ákváðu skuldahreinsun eða undanfæri fyrir útvalda. Burt með þá ráðamenn sem samþykktu ósómann með beinum eða óbeinum hætti, þögn eða aðgerðaleysi.

Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur.  Angry

 


mbl.is Bogi Nilsson hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

50 milljarða skuldahreinsun - leikhús fáránleikans!

Í fréttum Stöðvar-2 í kvöld var fullyrt að síðustu dagana fyrir yfirtöku ríkisins á Kaupþingi hafi bankinn afskrifað 50 milljarða króna skuldir yfirmanna og valinna lykilstarfsmanna í bankanum, og forðað þeim þar með frá gjaldþroti vegna hlutafjárkaupa sem fjármögnuð voru með lánum. Við erum ekki að tala um 50 milljónir - ó, nei. Fimmtíu milljarðar - fimmtíu þúsund milljónir.

Ekki náðist í neinn af stjórnendum Kaupþings til að staðfesta þetta, en í yfirlýsingu sem kom frá bankanum fyrr í dag er fullyrt að öll viðskipti og kröfur gamla Kaupþings hafi fluzt yfir til Nýja Kaupþings og muni þar fá "eðlilega" meðferð. Þar er reynt að klóra yfir skítinn með hálfsannindum sem í raun eru ekkert annað en ósannindi. Angry

Af sama toga er yfirlýsing Fjármálaeftirlitstins þar sem segir að "Fjármálaeftirlitið hafi ekki sérstaklega samþykkt niðurfellingu krafna sem tengjast lánveitingum til starfsmanna bankanna". Þeir samþykktu það ekki sérstaklega. Hvað skyldi það nú þýða? Annað hvort samþykkir maður eitthvað eða maður samþykkir það ekki. Það er hægt að samþykkja ólöglegt athæfi með aðgerðarleysi - Þögn er sama og samþykki segir máltækið. Yfirlýsing Fjármálaeftirlitsins er aumt yfirklór. Og nú er nóg komið af útúrsnúningum. Angry

Sé það rétt að tilgangur skuldahreinsunarinnar hafi verið sá að tryggja þessum starfsmönnum vinnu í Nýja Kaupþingi - þar sem lög leyfa ekki að gjaldþrota fólk sé ráðið sem stjórnendur í ríkisbönkum - þá hljóta fleiri að hafa vitað af þessu en bankastjórnin.  Það gefur auga leið.

Fjármálaeftirlitið verður að standa gleggri skil sinna gjörða. Sömuleiðis fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra. Vissu þeir af þessu, en létu það viðgangast?

Burt með þetta Fjármálaeftirlit - stjórn og starfslið þess. Burt með alla þá stjórnendur Kaupþings sem þáðu eða ákváðu skuldahreinsun fyrir útvalda. Burt með þá ráðamenn sem vissu af þessu og samþykktu með beinum eða óbeinum hætti. Burt með þetta spillingarlið, hvar í flokki sem það stendur. Angry

Við erum stödd í leikhúsi fáránleikans - spillingin er svo ótrúleg að það tekur engu tali.  


Styðjum björgunarsveitirnar!

neydarkall Í þessum skrifuðu orðum er ég á leiðinni niður í bæ að selja Neyðarkallinn með unglingunum í Björgunarfélagi Ísafjarðar. Síðast var Neyðarkallinn lítil kelling - svona til að minnast þess að björgunarsveitir landsins eru þéttskipaðar konum ekkert síður en körlum. Kallinn í ár er voða sætur, eins og þið sjáið - með hvíta hjálminn sinn í rauða gallanum - fínasta lyklakippa!

En Neyðarkallinn er fáröflunarátak sem er að fara af stað á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar nú um helgina um allt land undir yfirskriftinni: Neyðarkall frá björgunarsveitum.  

Fjáröflun er björgunarsveitunum mikilvæg þar sem rekstur þeirra, þjálfun björgunarmanna og kostnaður við útköll byggist á slíkum fjáröflunum.

Ég ætla því að slást í hóp félaga minna í Björgunarsveitum landsins sem nú um helgina munu selja Neyðarkallinn víðs vegar um landið, í öllum helstu verslunarmiðstöðvum og samkomustöðum. Vonandi taka landsmenn vel á móti okkur og sýna í verki stuðning sinn við björgunarsveitirnar.

Annars er það að frétta af Björgunarfélagi Ísafjarðar að það fagnar í dag fagnar 10 ára afmæli sínu. Af því tilefni verða ýmsar ýmsar uppákomur, opið hús í Guðmundabúð, myndataka af öllum félagsmönnum, veisla í kvöld og fleira skemmtilegt.

En fyrst er nú að selja Neyðarkallinn - og nú ætla ég að drífa mig af stað. Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband