Færsluflokkur: Dægurmál
Verum umræðunni til sóma
14.12.2008 | 13:22
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir tæpum tveimur árum, undirgekkst ég ákveðna skilmála sem eiga að gilda um alla bloggara. Þar segir m.a.:
Notandi samþykkir að miðla ekki ólöglegu efni, áreiti, hótunum, særandi skrifum eða nokkru öðru sem getur valdið skaða. Notandi samþykkir sérstaklega að miðla ekki háði, rógi, smánun, ógnun eða ráðast á mann eða hóp manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, í samræmi við ákvæði 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þetta þýðir að sjálf ber ég ábyrgð á því sem sagt er á þessari bloggsíðu. Það er ekki nóg að ég sjálf gæti orða minna, heldur hef ég skyldu til að birta ekki á minni síðu efni sem felur í sér áreiti, hótanir eða særandi skrif, hvað þá háð, smánun, ógnun eða aðför að einstaklingum eða hópum.
Að gefnu tilefni neyðist ég nú til að árétta þetta. Um leið tek ég skýrt fram að hér eru allar skoðanir velkomnar svo framarlega sem framsetning þeirra er innan velsæmismarka. Séu þær það ekki áskil ég mér allan rétt til að eyða þeim út.
Í öllum bænum, berum þá virðingu fyrir eigin lífskoðunum og annarra, að skrif okkar séu málstaðnum og okkur sjálfum til sóma. Og þið sem hafið gengið hvað lengst í reiðiskrifum ykkar með því að uppnefna fólk, smána það og lífsskoðanir þess með niðrandi samlíkingum - ekki svína út bloggsíður annarra með þessháttar skrifum. Stofnið ykkar eigin bloggsíður og takið þar sjálf ábyrgð á orðum ykkar.
Að þessu sögðu vil ég vekja sérstaka athygli á aldeilis hreint frábærri grein eftir Einar Má Guðmundsson rithöfund sem birtist í Sunnudagsblaði Moggans í dag. Kapítalismi undir jökli nefnist hún. Snilldar grein - skyldulesning.
Eigið góðan sunnudag.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Mikilvægar upplýsingar
13.12.2008 | 18:04
Þá hefur Ingibjörg Sólrún talað hreint út varðandi ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn - og það eru orð í tíma töluð. Margir hafa velt því fyrir sér að undanförnu hver væri staðan í stjórnarsamstarfinu. Nú vitum við það: Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera upp við sig Evrópumálin. Gangi í sundur með flokkunum í því máli má búast við stjórnarslitum og kosningum. Verði ekki kosningar má búast við breytingum í ríkisstjórninni.
Það er mikilvægt fyrir almenning að fá vitneskju um hvað forystumenn Samfylkingarinnar eru að hugsa núna.
En svo er spurning hvort þetta er nóg. Hvort almenningur sættir sig við annað hvort eða, þ.e. kosningar eða "breytingar" í ráðherraliðinu. Það á eftir að koma í ljós.
Ríkisstjórnin verður að svara kalli um breytingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Misvísandi fréttir af verðhækkun áfengis
12.12.2008 | 15:21
Fréttir eru misvísandi af verðhækkun á áfengi og tóbaki. Hér er talað um 12,5% hækkun áfengisgjalds - í þessari frétt á ruv.is segir hinsvegar að léttvín muni hækka um 75% og sterk vín um 40%. Fær þetta staðist?
Ef svo er, þá segi ég nú bara eins og kallinn: Vínið er orðið svo dýrt að maður hefur ekki efni á að éta lengur!
Áfengisverð hækkar ekki strax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Verum neytendur og neitendur
11.12.2008 | 21:27
Ég hef oft verlsað í Next og Noa Noa - þar hafa fengist falleg föt. Ég er hætt því. Málið er einfalt, eins og bloggvinur min Jón Ragnar Björnsson hefur skilmerkilega sett það upp, og ég leyfi mér að vitna beint í þá þríliðu:
- Verslanir settar á hausinn.
- Skuldirnar skildar eftir í bönkunum. Ég, börnin mín og barnabörn ásamt hinum óbreyttu Íslendingunum greiðum skuldirnar.
- Fyrri verslunareigandi kaupir skuldlausar verslanirnar og getur byrjað upp á nýtt og lifað hátt, þangað til hann setur aftur á hausinn.
Þetta er sumsé Nýja Ísland. Það er eins og þeir sem halda um fjármál og viðskipti séu orðnir svo spilltir í gegn að þeim sé ómögulegt að rífa sig upp úr sukkinu. Við, þessi svokallaði almenningur, megum bara standa agndofa og horfa upp á aðfarirnar - eða hvað?
Við getum beitt okkur sem neytendur - já og þar með líka sem neitendur með einföldi i þ.e. með því að neita einfaldlega að versla við þá aðila sem hafa komist yfir eignir með þessum hætti.
Next og Noa Noa aftur í eigu sömu hjóna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Hvar er hátekjuskatturinn?
11.12.2008 | 11:22
Jæja, þá er komið að því að boða skattahækkanir - flata 1% hækkun á línuna. Allt í lagi með það - bjóst svosem við einhverjum skattahækkunum eins og á stendur. En hvar er hátekjuskatturinn?
Þegar að herðir og leggja þarf auknar byrðar á samfélagið er ekki til mikils mælst þó þeir sem bera meira úr býtum taki á sig aðeins meiri byrðar en hinir. Það er grundvallarhugsun jafnaðarstefnunnar að hver maður leggi af mörkum í samræmi við það sem hann aflar og að allir menn njóti grundvallar lífsgæða.
Flöt skattahækkun á línuna er ekki í anda jafnaðarstefnunnar - síst af öllu eins og á stendur í samfélaginu. Nógu hefur nú almenningur tapað samt.
----------------------
PS: Og að lokum - til ykkar sem hafið svínað út athugasemdakerfið hjá mér með ómálefnalegum og rætnum athugasemdum um menn, málefni og stjórnmálaflokka síðustu daga: Nú mun ég ekki hika við að henda athugasemdum ykkar út ef mér ofbjóða þær.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (72)
Fjölmiðlar eru fjórða valdið
11.12.2008 | 10:30
Um þessar mundir reynir mjög á íslenska fjölmiðla að standa sig sem fjórða valdið. Það gera þeir því aðeis að vera á vaktinni, kafa sjálfstætt ofan í mál og halda opinberum rannsóknaraðilum þar með við efnið.
Mogginn hefur boðað að á morgun muni hann fjalla um kaup Baugs á 10-11 verslununum af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Fréttin í dag fjallar um sérkennileg kaup og eignatengsl milli Kaldbaks, Burðaráss og eignarhaldsfélagsins Samson Global Holdings þar sem Björgúlfur Thor Björgúlfsson hefur setið beggja vegna borðs sem eigandi Samsons annarsvegar og stjórnarformaður almenningshlutafélagsins Burðaráss hinsvegar.
Ég vona að mogginn láti ekki hér við sitja heldur haldi áfram að fletta ofan af hagsmuna- og hugsanlegum spillingartengslum í íslensku fjármálalífi. Ekki veitir af.
Sami maður beggja vegna borðsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Af hverju vissi ráðherra ekki?
9.12.2008 | 20:51
Í framhaldi af þessum fréttum um endurskoðun KPMG og rannsókn fyrirtækisins á viðskiptum Glitnis fyrir bankahrunið finnst mér tímabært að rifja upp lögin um ráðherraábyrgð (HÉR), sérstaklega 2. gr., 6. gr. og 7. gr.
Hvernig stendur á því að viðskiptaráðherra vissi ekki af því að KPMG - sem sá um endurskoðun sumra stærstu hluthafa gamla Glitnis - hefði verið falin rannsóknin á viðskiptum bankans fyrir hrunið? Fyrirtækið hefur verið í þessari rannsókn í tvo mánuði.
Hvernig má það vera að viðskiptaráðherra veit ekki hvernig staðið er að þessari rannsókn og hverjir hafa hana með höndum? Hver ber ábyrgð á því að upplýsingar um þetta fyrirkomulag bárust ekki til ráðherrans? Undirmenn hans? Hann sjálfur? Er ráðuneytið kannski ekkert að sinna framgangi málsins - bara ekkert að fylgjast með? Þekkja þeir kannski ekki 9. gr. laganna um Stjórnarráð Íslands (HÉR) þar sem segir ,,Ráðuneyti hefur eftirlit með starfrækslu stofnana, sem undir það ber, og eignum á vegum þeirra stofnana"?
Það er óviðunandi annað en að skýring verði gefin á þessu vitneskjuleysi.
Þeir Atli Gíslason og Lúðvík Bergvinsson ræddu þetta í Kastljósi í kvöld. Atli rökstuddi mál sitt vel. Lúðvík talaði of mikið, greip of oft fram í og sagði of oft "það verða auðvitað mistök". Það er ekkert auðvitað eða sjálfsagt við hugsanleg mistök - síst af öllu þegar menn eiga að vanda sig.
Ef menn (les: ráðherrar) komast ekki yfir það að fylgjast með því sem er að gerast á þeirra eigin heimavelli, þá verða þeir einfaldlega að fá liðsauka. Það er ekki þeirra sjálfra að standa alla pósta, og sinna öllum verkum. En þeir bera ábyrgð á því að vaktstöðurnar séu mannaðar og upplýsingar berist.
Björgvin vissi ekki um KPMG fyrr en í gær | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
Fyrst komi Flokkurinn - svo fólkið!
5.12.2008 | 10:29
"Ég er þess fullviss að formaður bankastjórnar Seðlabankans muni á endanum velja þá leið sem er best fyrir Sjálfstæðisflokkinn" er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra í Fréttablaðinu í dag. Ummælin hafa vakið athygli ýmissa sem vonlegt er - enda er boðskapur þeirra með ólíkindum: Fyrst kemur Flokkurinn, svo kemur fólkið!
Þannig hugsar ráðherra í ríkisstjórn lands sem stendur frammi fyrir mestu erfiðleikum sem gengið hafa yfir þjóðina um aldir: Nú ætti Davíð að gera það sem er best fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Ætli þetta hugarfar sé ekki einmitt vandi ríkisstjórnarinnar í hnotskurn.
I rest my case.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Davíð veit en vill ekki segja
4.12.2008 | 23:48
"Veit en vill ekki segja" gæti verið nafn á nýjum samkvæmisleik - svona orðaleik í anda Davíðs Oddssonar. Þessi leikur gæti verið tilvalin skemmtun fyrir þá sem hafa gaman af því að hleypa upp jólaboðum.
Leikurinn fer þannig fram að einhver úr fjölskyldunni ákveður að fara með hálfkveðnar vísur um mikilvæg atriði , jafnvel leyndarmál sem sá hinn sami hefur búið yfir all lengi og skipta fjölskylduna miklu máli. Hann gefur í skyn að einhver annar í fjölskyldunni hafi vitneskju um það sem hann veit. En hann segir samt ekki hversu mikið sá hefur fengið að vita. Hinir verða að giska - og geta í eyður - og draga ályktanir - og helst fara í hár saman yfir því sem þeir halda að hafi gerst, af því að sá sem stjórnar leiknum "veit en vill ekki segja". Tilgangurinn með leiknum er auðvitað sá að hleypa upp samkvæminu og rjúfa vina og ættarbönd þannig að sá sem stjórnar leiknum standi að lokum uppi sem sá sem einn vissi allt.
Sýnidæmi um þetta höfum við séð að undanförnu í ýmsum ummælum Seðlabankastjórans:
- Hann veit hvað olli því að Bretar skelltu á okkur hryðjuverkalögum - ó, já. Veit en vill ekki segja.
- Hann vissi líka að allt var hér að fara til fjandans. Ó, já. Það kannast bara enginn við að hann hafi sagt frá því - að minnsta kosti kom það ekki fram í skýrslu Seðlabankans sem send var viðskiptaráðherranum.
- Hann veit um fund sem hann sjálfur átti með "fulltrúum ríkisstjórnarinnar" í júní - fund sem enginn kannast við að hafi verið haldinn þá. En Davíð vill ekki segja hvað þar fór fram annað en að þar hafi hann talað um 0% líkur á að bankarnir færu ekki á hausinn - orð sem enginn kannast heldur við. Davíð "veit" við hverja hann sagði þetta og sitt hvað fleira sem fram fór . En hann vill ekki segja.
- Í útlenskum blöðum gefur Seðlabankastjórinn í skyn að kannski eigi hann endurkomu í stjórnmálin - hann lætur berast að hann eigi kosta völ sem hann vill ekki segja nánar frá að svo stöddu.
- Davíð mætir á fund viðskiptanefndar Alþingis í morgun - segist þar vita ýmislegt, en ber fyrir sig bankaleynd og vill ekki segja.
Jebb, þannig er leikurinn í sinni (hl)ægilegustu mynd!
Og þar með er bloggfríið mitt fokið út í veður og vind.
Ingibjörg: Aldrei talað um 0% líkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 5.12.2008 kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Kraftmikill flokksstjórnarfundur
22.11.2008 | 18:22
Í dag átti ég tveggja kosta völ: Að mæta á mótmælafund á Austurvelli, eða flokkstjórnarfund hjá Samfylkingunni. Ég valdi að mæta á flokksstjórnarfundinn og komast þar með milliliðalaust inn í samræðu við ráðherra og forystumenn flokksins um stjórnmálaástandið og framtíðarhorfurnar.
Ég sé ekki eftir því - þetta var afar gagnlegur fundur. Þarna fór fram einörð umræða, hreinskiptin og opin þar sem tæplega fimmtíu manns tóku til máls.
Engan hefði órað fyrir því þegar við hittumst síðast á flokkstjórnarfundi um miðjan september að svo margt alvarlegt ætti eftir að gerast milli funda. Enda lá fólki nú margt á hjarta.
Fundarmenn voru sammála um að síðustu daga hafa mikilvæg skref verið stigin - aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, sátt í Ísbjargardeilunni og afnám eftirlaunarsérréttinda ráðamanna, svo veigamestu málefnin séu nú nefnd. Í burðarliðnum er tillaga um úttekt á aðdraganda bankahrunsins.
En menn voru jafn sammála um að framundan eru mörg og knýjandi verkefni varðandi úrvinnslu, endurreisn og ekki síst uppgjör þeirra atburða sem orðið hafa - því eins og formaðurinn orðaði það í sinni inngangsræðu: Fyrst kemur fólkið, svo flokkurinn!
Mér líður betur eftir að hafa tekið þarna til máls og hlustað á flokkssystkini mín tala.
Það var mikill kraftur í þessum fundi.
Áfallastjórnuninni lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 23.11.2008 kl. 02:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)