50 milljarða skuldahreinsun - leikhús fáránleikans!

Í fréttum Stöðvar-2 í kvöld var fullyrt að síðustu dagana fyrir yfirtöku ríkisins á Kaupþingi hafi bankinn afskrifað 50 milljarða króna skuldir yfirmanna og valinna lykilstarfsmanna í bankanum, og forðað þeim þar með frá gjaldþroti vegna hlutafjárkaupa sem fjármögnuð voru með lánum. Við erum ekki að tala um 50 milljónir - ó, nei. Fimmtíu milljarðar - fimmtíu þúsund milljónir.

Ekki náðist í neinn af stjórnendum Kaupþings til að staðfesta þetta, en í yfirlýsingu sem kom frá bankanum fyrr í dag er fullyrt að öll viðskipti og kröfur gamla Kaupþings hafi fluzt yfir til Nýja Kaupþings og muni þar fá "eðlilega" meðferð. Þar er reynt að klóra yfir skítinn með hálfsannindum sem í raun eru ekkert annað en ósannindi. Angry

Af sama toga er yfirlýsing Fjármálaeftirlitstins þar sem segir að "Fjármálaeftirlitið hafi ekki sérstaklega samþykkt niðurfellingu krafna sem tengjast lánveitingum til starfsmanna bankanna". Þeir samþykktu það ekki sérstaklega. Hvað skyldi það nú þýða? Annað hvort samþykkir maður eitthvað eða maður samþykkir það ekki. Það er hægt að samþykkja ólöglegt athæfi með aðgerðarleysi - Þögn er sama og samþykki segir máltækið. Yfirlýsing Fjármálaeftirlitsins er aumt yfirklór. Og nú er nóg komið af útúrsnúningum. Angry

Sé það rétt að tilgangur skuldahreinsunarinnar hafi verið sá að tryggja þessum starfsmönnum vinnu í Nýja Kaupþingi - þar sem lög leyfa ekki að gjaldþrota fólk sé ráðið sem stjórnendur í ríkisbönkum - þá hljóta fleiri að hafa vitað af þessu en bankastjórnin.  Það gefur auga leið.

Fjármálaeftirlitið verður að standa gleggri skil sinna gjörða. Sömuleiðis fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra. Vissu þeir af þessu, en létu það viðgangast?

Burt með þetta Fjármálaeftirlit - stjórn og starfslið þess. Burt með alla þá stjórnendur Kaupþings sem þáðu eða ákváðu skuldahreinsun fyrir útvalda. Burt með þá ráðamenn sem vissu af þessu og samþykktu með beinum eða óbeinum hætti. Burt með þetta spillingarlið, hvar í flokki sem það stendur. Angry

Við erum stödd í leikhúsi fáránleikans - spillingin er svo ótrúleg að það tekur engu tali.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)

Ég var að lesa fall Rómaveldis og þar ríkti mikill spilling rétt fyrir fallið, minnir í mörgu á stöðu Íslands í dag.

Getur hugsagst að Kristján Arason, eiginmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, sé meðal þeirra sem fékk niðurfellt lán. 

Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 3.11.2008 kl. 22:28

2 Smámynd: Sævar Helgason

"Burt með þetta Fjármálaeftirlit - stjórn og starfslið þess. Burt með alla þá stjórnendur Kaupþings sem þáðu eða ákváðu skuldahreinsun fyrir útvalda. Burt með þá ráðamenn sem vissu af þessu og samþykktu með beinum eða óbeinum hætti. Burt með þetta spillingarlið, hvar í flokki sem það stendur"

Tek undir þetta - burt með allt þetta spillingarlið- og það strax.

Hverskonar þjóðfélag er þetta eiginlega ? 

Sævar Helgason, 3.11.2008 kl. 22:35

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hvað skal gera Ólína?  Fólkið sem á að vera á vaktinni er það ekki.  Mér fallast hendur.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.11.2008 kl. 22:37

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég veit svei mér ekki hvað skal taka til bragðs. Það er sama hvar velt er við steini, allsstaðar er sori, mygla, rotnun og ýlda.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.11.2008 kl. 22:44

5 Smámynd: Gísli Már Marinósson

Ef þetta reynist vera satt, þá verður að fara strax í rannsókn á þessu og fá erlenda aðila til þess því íslenskum er ekki treystandi spilliningin hér er alltof mikil.

Gísli Már Marinósson, 3.11.2008 kl. 22:54

6 identicon

Þetta er viðbjóðslegur glæpalýður og sori í gegn. Held að þessi orð mín fái að standa þó stór séu.

En það er rétt hjá þér Ólína. Þetta er leikhús fáránleikans og stjórnvöld gera ekki neitt því þar eru allir samsekir. Satt best að segja þá held ég að blóðug bylting sé það eina sem að dugi til.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 23:23

7 Smámynd: Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)

Eggert talandi um blóðuga byltingu, þannig hrundi Rómaveldi.

Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 3.11.2008 kl. 23:28

8 identicon

Auðvitað á að fá erlenda aðila til að rannsaka þessi mál og það strax. Þessi spilling virðist engan endi taka. Svo veður annar Baugs um og kaupir fyrirtæki á útsölu. Já það er furðulegt landið í dag.

Guðrún (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 23:30

9 Smámynd: Jón Ragnar Björnsson

Þetta er fullyrt í öllum fréttatímum í kvöld.

Mig munar ekkert um að borga fyrir bankastrákana (og -stelpurnar). Þette er ekki nema 150 þús. á hvern Íslending - Mér þykir verra að vikugamalt barnabarn mitt skuldar líka 150 þús.

Jón Ragnar Björnsson, 3.11.2008 kl. 23:34

10 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Þetta er óskiljanlegt.  

Þetta fólk var á leið á vanskilaskrá vegna skulda og hefði þar með orðið óhæft sem starfsmenn fjármálafyrirtækja. 

Þetta fólk er samt ekki óhæft vegna þess hve mörgum það hefur komið á vanskilaskrá.

þessar reglur um vanskil og starfsmenn hafa væntanlega verið settar vegna þess að það þótti skynsamlegt.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 4.11.2008 kl. 00:22

11 Smámynd: Theódór Norðkvist

Í Kastljósinu í kvöld var fjallað um hvað hvert barn sem fæðist erfir stóran skuldabagga, 7 milljónir ef ég man rétt, skuldir þjóðarbúsins, einstaklinga og ríkis. Inn í töluna vantaði samt skuldir bankanna.

Síðan var talað við einhvern sérfræðing. Hann sagði að vissulega væri slæmt að svona byrðar væru lagðar á nýfædd börn, en á móti kæmi að barnið erfði líka eignirnar sem eru á bak við skuldirnar!

Það er nefnilega það. Getur verið að RÚV hafi fengið fyrirskipun um að dempa alla umræðu til að missa ekki hálfa þjóðina úr landi? Leppar séu fengnir til að koma með fleiri lygar og hálfsannleik?

Við höfum séð hvernig hinar meintu eignir bankanna reyndust ekki pappírsins virði þegar á reyndi, en skuldirnar lifa góðu lífi.

Theódór Norðkvist, 4.11.2008 kl. 00:28

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þeygi er það gott. Og er nú hvergi hjálpræði fyrir þjóð vora að finna nema í gæsku guðs, óendanlegri, ólýsanlegri og fullkomlega óskiljanlegri!

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.11.2008 kl. 00:51

13 identicon

Maður er bara orðlaus.  Tek undir hvert einasta orð.  Og eins og spyr eins og fleiri, getum við virkilega ekki gert eitthvað í þessu?  Getum ekki látið valta endalaust yfir okkur á skítugum skónum.  Maður er fyrir löngu búinn að missa alla virðingu fyrir opinberum aðilum og viðskiptalífinu, en það versta er að maður er að fara að missa alla virðingu fyrir sjálfum sér (fyrir að hafa, og er ennþá láta þessa vitleysu viðgangast).

ASE (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 00:59

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin eigi að víkja sem fyrst og boða eigi til kosninga í mars eða apríl.  Ég er farinn að hallast á þá skoðun að ekki eigi að leyfa neinum af núverandi þingmönnum þjóðarinnar að bjóða sig fram í þessum kosningum.  Í framhaldi af kosningunum á að stofna utanþingsstjórn með hæfum, reynslumiklum einstaklingum úr þjóðfélaginu.  Hlutverk Alþingis verði að semja og samþykkja lög og þau megi ekki leggja fram nema sérstök laganefnd þingsins hafi fengið þau til meðhöndlunar.  Allir flokkar á þingi eigi sinn fulltrúa í laganefnd, en það verði ekki hlutverk nefndarinnar að stöðva frumvörp, heldur að fá vitrænar skýringar á innihaldi þeirra.  Fulltrúi laganefndarinnar sjái síðan um að leggja frumvarpið fram í þinginu.

Marinó G. Njálsson, 4.11.2008 kl. 01:02

15 identicon

Nú er mér öllum lokið. Ef þessi siðspilling og sori verður látinn viðgangast þá verður byltingarástand á Íslandi.

Þúsundir Íslendinga ég þar á meðal höfum lent í fjárhagsvandræðum með fyrirtæki okkar svo sem vegna gengisfellinga, aflabrests og annarra ófyrirséðra hluta, stundum eflaust líka vegna óráðsíju og bruðls og að hafa ekki sést fyrir í fjármálunum. Hvað sér meðferð fengum við, var okkur útveguð ný vinna var eitthvað afskrifað ó nei ó nei. Hvað gerði ríkið, jú það eltist við mig í meira en tíu ár með gamlar skattaskuldir og hellti dráttarvöxtum á dráttarvexti ofan mánaðarlega ofaná allt klabbið tók lögtök og svo árangusrslaus fjárnám og svo framvegis og svo framvegis og hvar voru bankarnir eða fínu bankamennirnir, sögðu þeir æ æ þú varst bara svo óheppinn að við ætlum að létta þessu af þér. Nei aldeilis ekki það lið var nú verst af öllum og hrokinn eftir því, það var gengið á mann með þvílíku offorsi, gengið að ábyrgðarmönnum mínum s.s. aldraðri móður minni með fjárnámum og auglýstum nauðungaruppboðum á aleigunni hennar og svo framvegis. Manni var í raun úthýst úr samfélaginu. Maður mátti ekkert eiga, ekki einu sinni bíldruslu og lengi vel fékk maður ekki einu sinni að eiga eða stofna bankareikning til að geyma peninga á hjá fínu bönkunum og langrækni þeirra var sko útyfir allt. Manni var lengi vel gert lífið algjörlega óbærilegt. og nánast úthýst úr þessu þjóðfélagi.

Margir Íslendingar kannast við þessa sögu, ef ekki á sjálfum sér þá á vinum sínum og vandamönnum.

Ef þetta óþjóðalið og bankapakk sem hefur vaðið áfram af þvílíkum hroka og siðblindu á nú þegar þeir eru búnirað keyra öllu í kaldakol og þar með allri þjóðinni og alls sárasaklausu fólki á að líðast þesssi óhæfuverk þá segi ég bara nú er mælirinn alveg fullur.  Ef ekki verður tekið á þessu þá hvet ég til vopnaðarar byltingar alþýðunnar á Íslandi og við tökum þá upp dómstóla alþýðunnar til að koma þessu pakki undir mannahendur !

Ég segi hvað er Fjármálaeftirlitið að gera og hvar er nú sá spísperrti viðskiptamálaráðherra Samfylkingarinnar Björgvin G. Sigurðsson sem er æðsti yfirmaður Fjármálaeftirlitsins.

Skyldi maður nú sjá framan í enn eitt glottið á honum í næstu sjónvarpssendingu.

Talandi um hvað þetta séu nú traustir og góðir aðilar. Í sumar ferðaðist hann um hálfan heiminn með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á SAGA CLASS og með einkaþotum elítunnar til að segja öllum heiminum hvað bankarnir væru nú sterkir og hvað þetta væru nú góðir gæjar og hvað Ríksstjórnin myndi nú standa með þeim fram í rauðann dauðann. Alllt í boði KAUPÞINGS, BAUGS og LANDSBANLKANS. Fyrirgefið þið ég er með æluna uppí háls !

ÞESSI MAÐUR ER NÚ SÝNIST MÉR RÚINN ÖLLU TRAUSTI OG FLOKKURINN HANS SAMFYLKINGINN LÍKA, HVENÆT ÆTLAR ÞÚ AÐ SJÁ ÞAÐ LÍKA ÓLÍNA !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 08:44

16 identicon

Og hver er í miðri súpunni. Þorgerður Katrín að dusta ryki í augu okkar með því að tala endalaust um ESB! Hefur hún einhverja hagsmuna að gæta !!!

Að hreinsa út skuldir er bara glæpur

og ef þetta er rétt þá er það bara fangelsi og ekkert annað sem býður

og nú vill ég bara sjá erlenda aðila taka yfir alla stjórnarstarsemi á íslandi

og láta rannsaka allt sem er að gerast og stýra okkuru inn á rétta braut

þetta rusl sem nú stjórnar á bara að víkja og fara á sjó á meðan.

Þetta er bara ótrúlegt!!! Og svo ef þetta reynist rétt, þá er það týpískt fyrir íslendinda að þessar afskriftir verða látnar standa og við gleymum. GLEYMUM !!!!!!!!!!!!

helgi (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 08:49

17 identicon

Já rétt hjá þér Helgi. Ef rétt reynist að þessir glæpagerningar hafi verið gerðir þá þarf að byrta þetta opinberlega STRAX.

Einnig þarf að senda Víkingasveitina á vetvang, nú þegar og handtaka alla þessa gaura. Það þarf nú þegar að passa það að þeir komists ekki úr landi. Og þúsund milljarða sjortstöður þeirra gagnvart íslensku krónunni voru hrein aðför að þjóðinni. LANDRÁÐ ! 

Ákæruefninn eru meira en nóg til þess að fangelsa þessa stórglæpamenn nú þegar.

EFTIR HVERJU ER BEÐIÐ !

Það fór þó aldrei svo að ekki yrði full þörf á þessari VÍKINGASVEIT hans Björns Bjarnasonar. Sannarlega réttnefni Víkingasveit, henni á nefnilega að beita núna að öllu afli gegn útrásarvíkingunum og glæpaverkum þeirra !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 10:37

18 Smámynd: Sævar Helgason

Ríkislögreglustjóraembættið ?  Er það ekki enn einn ótrúverðugleikinn í "stjórnkerfinu" ? Svona eins og skipun þeirra sem eiga að rannsaka syni sína í tengslum við bankahrunið ?

Það er sama hvar borið er niður - þegar steini er velt koma ormar í ljós ...

Sævar Helgason, 4.11.2008 kl. 10:53

19 identicon

Ekki má svo gleyma Landsbankanum í þessu sem var að senda frá sér
tilkynningu um að þeir hafi ekki lánað stjórnendum sínum fyrir
hlutbréfakaupum í bankanum og því hefðu ekki átt sér stað neinar
niðurfellingar á skuldum.

Eeeen hinsvegar er ekki minnst einu orði á þær bónusgreiðslur sem áttu sér
nokkrum dögum fyrir hrunið. Þar sem að stjórnendur bankans greiddu sjálfum sér yfir
10.000 milljónir!!! í bónus fyrir "vel" unninn störf á árinu.

 Svo var nú ekki eins og margir stærstu hluthafarnir hafi ekki náð að
bjarga sér fyrir horn..

Hvernig stendur til dæmis á því að Magnús Ármann sem átti mest allt sitt í
FL-Group sem síðan varð Stoðir sem nú er í greiðslustöðvun. Maður sem er
búinn að tapa gríðarlegum fjármunum og samkvæmt öllu ætti að vera hausnum
eins og vinir hans Hannes Smárason og Steini í kók. Hann meðal annars lét
moka aftur ofan í skurð á húsinu sem hann ætlaði að byggja fjölskyldu sinni
því eitthvað vantaði fjármagnið í verkið.

Hvernig getur þessi maður keypt í Landsbankanum fyrir 9.000.000.000
(9milljarða) síðasta daginn sem seld eru hlutbréf í bankanum???

Þetta fékk hann allt að láni frá bankanum því ekki átti maðurinn peninga
fyrir þessu, það er nokkuð ljóst. Hver í Landsbankum tók ákvörðun um að
lána honum 9 milljarða fyrir þessum kaupum?

Mín tilgáta er sú að hann sem er búinn tapa nánast öllu sínu í kreppunni hafi
verið fenginn gegn vænni þóknun til að taka þátt í þessum gjörning til að
losa marga stærstu hluthafana út, þar á meðal Sigurð Bollason besta vin
sinn sem átti 3 milljarða í bankanum. 

Þessa hluti verður að skoða!!!

Gunnar Már (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 11:01

20 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var með Framsóknarflokkinn sem hækju tókst honum alltaf að láta Framsóknarflokkinn líta út fyrir að vera skúrkurinn, meðan þeir sluppu sjálfir við alla gagnrýni. Þeir réðu í raun öllu og létu samstarfsflokkinn í skítverkin. Þess vegna hrundi fylgið af Framsókn, en sjallar héldu sínu.

Þetta hefur snúist við með Samfylkinguna. Þeir þykjast vera saklausir og allt er Sjálfstæðisflokknum að kenna. Síðarnefndi flokkurinn bera auðvitað mestu ábyrgðina með öll lykilráðuneytin, en Samfylkingin sleppur of vel.

Theódór Norðkvist, 4.11.2008 kl. 11:41

21 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Ég settist hérna við og las fréttaskeytin frá Íslandi og svo bloggið þitt Ólína.  Ég varð afskaplega reiður. Ég ákvað að skrifa ekki neitt meðan ég væri reiður, fara heldur og skoða tóma ískápinn minn, pússa slitnu sumarskóna mína og skoða í tóma ískápinn.

Ég er námsmaður í útlöndum. Mér er kunnugt um að nokkrir námsmenn langt komnir í framhaldsnámi hafi nú hrökklast frá námi vegna fjárskorts; orðið að biðja um fresta á að borga leigu og taka skammtímaokurlán til að fjárfesta í miða heim til Íslands og borga leiguskuldir. Námslánin eru sama sem horfin í lágu gengi krónunnar og þjónustugjaldtöku bankanna og engra uppbóta er að vænta frá LÍN - enda íslensk stjórnvöld önnum kafin við afskrifa skuldir ríka fólksins.

Mér verður óglatt að heyra Þorgerði Katrínu tala á fréttavef MBL: http://www.mbl.is/mm/frettir/sjonvarp/?fl=0;media_id=20863;play=1   

Ekki nóg með að við höfum verið skikkuð að taka á okkur skuldabyrði eftir tapleik hinna ríku, heldur er verið að sliga ungt fólk framtíðarinnar með aukinni byrði af greiðslum lána - 18%. Óþefinn, ýlduna og viðbjóðinn frá athöfnum yfirstéttarinnar leggur fyrir vit heimsins.  Það er hlegið af Íslendingum. "Hvernig í ósköpunum er hægt að leika sitt eigið fólk svo grátt?" spurði einn prófessorinn mig núna í dag.  "Það verður líklega uppreisn í landinu" sagði hann svo í framhaldinu - gersamlega ókunnugt um hina íslensku þrælslund - sem vill verða barin, svelt og niðurlægð.

Í raun er þetta bara öfugþróun frá þeim tíma þá er í Sovétríkjunum sálugu var til hlutur sem kallaðist: номенклату́ра (nomenklatura). "Hópur hinna útvöldu".

номенклату́ра (nomenklatura)

Baldur Gautur Baldursson, 4.11.2008 kl. 13:35

22 identicon

Sæl

Verðum við ekki að fara gera eitthvað?  Kristján Arason og Þorgerður  Katrín þurfa ekki að borga sínar skuldir og sitja sem fastast Þorgeður sem menntamálaráðherra og Kristján enn í Kaupþingi.   Ef nokkrum útvöldum er stætt á að borga ekki sínar skuldir hví skyldum við ekki hætta að borga okkar skuldir.  Þá kannske rakna stjórnmálamenn okkar úr rotinu og fara að taka á þessari spillingu sem er hér á landi.  Spillingu sem aðeins þekkist meðal vanþróaðra ríkja. 

Mætum öll á Austurvöll og tökum með okkur alla þá sem við þekkjum látum ekki endalaust kúga okkur,   

Kristin Valdimarsdóttir (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 17:11

23 Smámynd: Gerður Pálma

Það vekur furðu mína að fólk skuli almennt vera hissa á að uppgötva virðingar- og væntumþykjuleysi, eigingirni og sjálfdýrkun þess fólks sem ræður ríkjum á Íslandi.  Þetta ástand hefur verið við lýði svo lengi sem mig rekur minni til.  Hver er megin ástæða fyrir fylgi Obama í Bandaríkjunum? nákvæmlega sú sama ástæða sem loksins hefur hrist upp í okkur á Íslandi.  Fólk hungrar í traust. Obaman boðar einlægni og heiðarleika, traust. Óheilindi, eiginhagsmunasemi og vanræksla hafa ríkt í Bandaríkjunum á áraraðir,  þau sömu einkenni hafa einkennt íslensk stjórnmál í áratugi, það er ekkert traust eftir. Allt byggist á að maður þekki mann og hafa skal í huga að´blóðböndin´binda best.  Fáir sem engir stjórnmálamenn hafa verið til viðræðu um heilbrigða sjálfbæra atvinnumálastefnu, svo ekki sé minnst á þau ósköp að styðja við þá sem vilja leggja því málefni lið. Ísland er sérstakt og krefst sérstakrar umhyggju en tækifærin sem landið sjálft býður uppá eru óendanleg og að sama skapi sérstök og veita algjöra sérstöðu í alþjóðlegri samkeppni.

Hver erum við? Hvert viljum við? Hvar er ´gættu bróður þíns´Hvernig stóð á að Marel fórnaði Ísafirðingum fyrir ´minni´gróða, hvar er mannvirðingin?hvar er sjálfsvirðingin?. Marel var alltaf í hásæti í mínum huga, eftir Ísafjarðar aftökuna hvarf sú ímynd.

Mannorð Íslands og Íslendinga hefur orðið fyrir stórkostlegum langvarandi skemmdum, ég bý í Hollandi og það er sorglegt að finna viðbrögð hins almenna borgara við ástandinu. Ísland var í huga fólks ímynd hreinleika og heiðarleika, það hefur heldur betur breytst  Það er ekki einungis verið að ræða hveru miklu fólk hefur tapað, heldur áfallið yfir að Ísland var ekki traustsins vert, því fólk upplifir það sem gerðist með Icesave sem hreina glæpastarfsemi, sem það er að sjálfsögðu. Það er nú ljóst að bankinn átti við alvarleg vandamál að stríða í fleiri mánuði áður en ráðist var í að raka að sér sparifé Hollendinga.  Við, Íslendingar verðum að endurbyggja þetta traust, við erum þau einu sem getum lagað það, án mannorðs verðum við aldrei þjóð  meðal þjóða. 

Björk hefur lagt landinu gjörsamlega ómælanlegt lið sem aldrei verður hægt að meta að fullnustu, hún hefur undirstrikað í huga fólks um allan heim mögnunina sem landið gefur hverjum sem þar kemur og er undirstaða kraftsins sem í þjóðinni býr.   Allt það sem lagt hefur verið í kynningu á landinu í hvaða átt sem er, Iceland Naturally (álver) hefur ekki skilað brotabroti af því sem hún ein hefur gert á sínum ferli, og ekki skal vanmeta þær dyr sem hún hefur opnað fyrir öðrum íslenskum listamönnum, hreint kraftaverk.   

 Hvernig stendur á að ekki skuli enn vera stefnumarkandi atvinnumálastefna í landinu? Vanvirt og höfnuð tækifæri sem reynt hefur verið að koma á fót eru efni í margar bækur.  Hvernig stendur á að gullkistan Ísland er á vonarvöl? Björk hefur sýnt frumkvæði og umhyggju fyrir Íslandi og framtíðarstefnu þess  Hversu margir ráðamanna mættu á fundinn hjá Hugsprettu sem hún lagði mikið lið ásamt fjölda annarra til þess að kynna framtíðartækifæri í landinu.  Hversu mörg okkar svo ekki sé talað um stjórnmálamen hafa tekið við hugmynum frá Framtíðarlandinu og skoðað hvað er bitastætt þar?  (það er algjör gullkista) 

Við verðum að hrista þessar lýs af okkur, fitja uppá nýtt, velja út einlæga og heiðarlega stjórnmálamenn, þeir eru nokkrir inn á milli (Steingrímur - Þórunn t.d.). Ísland kallar á sitt besta og hæfasta fólk til þess að stjórna landinu, burt með flokkana.

Við höfum allt sem til þarf til þess, ekki einungis að komast úr þessum drullupolli heldur að byggja upp fyrirmyndar þjóðfélag, við erum svo fá og ættum þar af leiðandi að geta byggt heilbrigðasta og farsælasta  þjóðfélag í heimi.  Einungis ef einlæg og heiðarleg barátta verður háð til uppbyggingar í landinu mun unga kraftmikla fólkið okkar bretta upp ermar og flytja fjöll, það sama fólk mun ekki leggja núverandi stjórnmála þvörgurum lið, hættan er að það muni leita búsetu í vænlegra umhverfi. Þorum við að taka til? Ef ekki, þá sitjum við á réttum stað núna.

það þýðir ekki að troða, þá sökkvum við bara dýpra, nú þurfum við að snúa vörn í sókn, standa saman og vernda þá sem eru að missa sitt, leyfa ekki að hagga við heimilunum ef ástæða erfiðleika verður rakin til atvinnubrests, og/eða afleiðing núverandi ástands. Frysta skuldir - vaxtalaust´peningar fólks sem eftir eru í landinu þurfa að fara í uppbyggingu atvinnuvega ekki í bankaryksoguna. ´

Með nýjustu vaxtahækkun er verið að mergsjúga fólk og draga úr því allan kraft og hefta allan eðlilegan vöxt atvinnulífsins sem er undirstaða breytinga til farsældar. 

 Fram fram fylking....forðum okkur hættu frá

Gerður Pálma, 4.11.2008 kl. 18:38

24 identicon

Gerður, takk fyrir þessa umræðu, vel komist að máli: ...uppgötva virðingar- og væntumþykjuleysi, eigingirni og sjálfdýrkun þess fólks sem ræður ríkjum á Íslandi...

Í grunninum er þessum einstaklingum vorkunn, t.d. þeim sem missa æruna í ofsafenginni sókn um peninga og völd; hljóta að vera dapurleg örlög einstaklings sem á sér ekki viðreisnar von eftir að ósóminn opinberast, og þeir sem standa næst viðkomandi líða ábyggilega mikið líka.

Núna nokkrum vikum eftir hrunið er verið að velta við steinum og spillingin, virðingarleysið og grimmdin gagnvart almenningi hér á landi blasir við allra augum; ég tel reyndar mjög líklegt að þetta hafi viðgengist mjög lengi hér en er nú fyrst að koma upp á yfirborðið vegna þess hve margir eru að líða fyrir þessa taumlausu græðgi.  Nokkuð er líka að þakka aðhaldi hlutlasusra, erlendra rannsóknaraðila og lándrottna sem streyma hér að landi úr öllum áttum.

Varðhundar spillingarinnar birtast þó reglulega í fjölmiðlum; aumkunarvert gelt heyrist og reynt er að glefsa frá sér - reynt í örvæntingu að krafsa í bakkann, en fyrirséð er nú vegna algerrar samstöðu þjóðarinnar gegn þessu ástandi sem hér hefur myndast, að nú neyðist eftirlits- og skoðunaraðilar að  opinbera hryllinginn, þó að það sé borin von að allt komi fram. 

Víða koma bloggarar og viðmælendur inn á margumrædda þrælslund íslendinga; mér sýnist nú að landinn sé að rétta úr beygðu bakinu.  - Hvet ég alla sem vettlingi geta valdið að taka þátt í mótmælunum á Austurvelli á laugardaginn, því ég mæti sem fyrr í góðum félagsskap.  Gjallarhorn óskast !  Kveðja hakon.johannesson@gmail.com

E.s.: Varðandi erlendan almenning sem lét lokka sig inn í hyldýp lyginnar - skelfileg áminnig um siðleysi og ábyrgðarleysi ábyrgðarmanna Icesave  http://www.icelost.net/

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 19:49

25 identicon

Afhverju ætli það sé ekki búið að hrinda af stað erlendri og hlutlausri rannsókn á málum bankana nú þegar? Það er vegna þess að menn hreinlega þora því ekki, yfirmenn þessa lands eru skíthræddir um að eitthvað komi upp á yfirborðið sem á ekki að koma upp, þeir eru hræddir um sitt eigið orðspor, orðspor flokksins síns og orðspor vina, maka og kunningja. Ráðamenn þjóðarinnar, makar, vinir og kunningjar voru á kafi í braski líka, það er engum ráðamönnum treystandi lengur. Ráðherrar og allar þær stofnanir sem eru á vegum ríkisins eru búnar að missa allan trúverðuleika og allt traust og það er þeim sjálfum að kenna og engum öðrum, það bara engum treystandi lengur, svo er er hún Þorgerður dúkkulísa Katrín að væla í fjölmiðlum um að það sé óþolandi að líða fyrir trortryggni og allt verði að koma upp á borðið, hvernig væri ef hún myndi þá sjálf byrja? Í sama viðtali segir hún við spyrjanda að hann ætti að spyrja frekar manninn sinn út í þessu mál, afhverju gat hún ekki bara lagt spilin á borðið og tekið þar með allan vafa? Þetta lið talar í hringi og hefur engan trúverðuleika, akkurat ekki neinn...Það sem er þó gott við þetta er að Sjálfstæðisflokkurinn, þessi mesti spillingar flokkur Íslenkrar sögu þurkast út í næstu kosningum enda löngu tímabært að fólk átti sig á þvi að það er engum holt að vera svona lengi við stjórnun á landi og hafa öll þessi völd, við erum að súpa seyðið af því í dag.

Svo hafa menn talað niður til kommonista í gegnum árin og áragutina, ég held að fólk ætti aðeins að lýta sér nær fyrst, í dag myndi ég frekar vilja búa í kommonistaþjóðfélagi en þessu skítuga landi með þetta skítuga fólk við völd.

Auðunn Atli (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband