Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

En útrásarvíkingarnir?

Af hverju ekki að bjóða útrásarbarónunum að sitja fyrir svörum á næsta borgarafundi, eins og Friðrik Þór Guðmundsson bendir réttilega á í sínu bloggi? Er ekki tími til kominn að þeir fái sín sérmerktu sæti í Háskólabíói og horfist þar í augu við almenning?

Eru mótmælin að þróast í múgæsingu?

motmælendurEru mótmæli Íslendinga að breytast í múgæsingu? Ég velti því fyrir mér eftir atburðina við lögreglustöðina á Hverfisgötu. Fréttamyndir af vettvangi skjóta manni skelk í bringu.

Hugsanlega hefði lögreglan getað leyst þetta mál betur - til dæmis með því að láta einhvern koma út og tala við fólkið. Þó er ég ekki viss, svona eftir á að hyggja. Enda verð ég að segja að þeir sem brjóta rúður og ráðast til inngöngu með steinhellur á lofti geta nú varla búist við því að þeim sé boðið í kaffi þegar inn er komið. Hvað hélt fólk að lögreglan myndi gera? Auðvitað máttu menn vita að hún myndi verja húsið.

Svo kom drengurinn út - eins og skæruliðaforingi með klút fyrir andlitinu. Lítið bara á þessa fréttamynd hér fyrir ofan. Það mætti halda að hún væri tekin í Palestínu.

piparudiNei, atburðarásin er að verða einhvernvegin hálf óraunveruleg. Það er átakanlegt að sjá nú myndir af fólki sem ber menjar eftir piparúða lögreglunnar.  Við Íslendingar eigum ekki að venjast átökum sem þessum, enda siðmenntuð þjóð að því talið er.  

Hitt er svo annað mál að ég gef lítið fyrir skýringar lögreglu á handtöku piltsins. Þeir voru greinilega að ögra mótmælendum með þessu. En þeir gera það vonandi ekki aftur.

 


Já, hvaða spillingarlið?

Burt með spillingarliðið er krafa sem um hríð var upphaf og endir allra bloggfærslna á þessari síðu. Krafan var sett fram af ærnu tilefni, daginn sem fréttist að yfirmenn Kaupþings hefðu ákveðið að afnema skuldaábyrgð útvalinna "lykilstarfsmanna" í bankanum vegna hlutabréfakaupa sem námu tugum milljarða króna. Þetta voru sömu menn og margir hverjir höfðu tugi milljóna króna í laun á mánuði áður en bakakerfið hrundi. Þarna var manni einfaldlega nóg boðið.

Nú hef ég hinsvegar tekið eftir því að krafan "burt með spillingarliðið" er orðin að einhverskonar samnefnara yfir kröfuna um afsagnir ráðherra, vantraust á ríkisstjórnina og sem tjáning á andúð gegn stjórnmálamönnum almennt. Þetta hefur jafnvel heyrst sem vígorð gegn lögreglunni. Woundering 

Sjálfri var mér rammasta alvara með þessum orðum þegar þau voru sett fram. Þess vegna er mér heldur ekki sama hvernig þau eru notuð. Pólitísk ábyrgð er eitt - spilling er annað. Athugið það.

Ég geri skýran greinarmun á því þegar:

  • Fagráðherra eða háttsettur embættismaður verður að horfast í augu við mistök eða að eitthvað hafi farið úrskeiðis á hans vakt annarsvegar - eða
  • yfirmenn banka falsa efnahagsreikninga, búa til leppfyrirtæki til að fela og koma undan fjármunum, nýta sér innherjaupplýsingar eða fella niður skuldaábyrgðir valinna starfsmanna vegna hlutabréfakaupa, eins og dæmi eru um.

Samskonar greinarmun geri ég á:

  • Ráðherra og/eða háttsettum embættsimanni sem er persónulega tengdur spillingu á borð við innherjaviðskipti (sbr. menntamálaráðherra/ ráðuneytisstjóri fármálaráðuneytisins), eða
  • ráðherra sem ber pólitíska ábyrgð á því að eitthvað fer úrskeiðis sem hann ræður illa við eða honum hefur yfirsést (sbr. forsætisráðherra, viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra).

Ekki man ég hvort það var í Japan eða Kína sem landbúnaðarráðherrann sagði af sér þegar uppskeran brást eitt árið. Þessi ráðherra tók ábyrgð á velferð fólksins í landbúnaðarhéruðum. Hann taldi sig bera pólitíska ábyrgð sem enginn annar en hann ætti að axla, jafnvel þótt um væri að ræða atburði sem hann hafði ekkert vald á.

Það er ekki sanngjarnt að krafa um afsögn ráðherra sem ber fagpólitíska ábyrgð á málaflokki hljóði:  Burt með spillingarliðið! Tja, nema sami ráðherra hafi á einhvern hátt gerst sekur um spillingu.

Burt með spillingarliðið er setning sem hefur þýðingu í mínum huga - hún er ekki bara eitthvert gaspur út í loftið. Við þessa kröfu geta menn svo bætt því sem þeim sýnist, vilji þeir ganga lengra t.d. að krefjast afsagnar ráðherra eða ríkisstjórnarinnar í heild.

En í öllum bænum - látum orð hafa merkingu. 

Já, og ... burt með spillingarliðið! Wink


Kastljósið

Í kvöld sat ég fyrir svörum hjá Helga Seljan í Kastljósinu ásamt Berki Gunnarssyni friðargæsluliða og starfsmann hjá NATO. Umræðuefnið var efnahagsástandið, eftirlaunafrumvarpið, ræða Davíðs o. s. frv.  Ég hefði auðvitað viljað fá helmingi lengri tíma til að segja allt sem mér liggur á hjarta, en .... maður getur ekki alltaf fengið allt sem maður vill. Wink

Þið sem áhuga hafið á þessari umræðu, getið séð þáttinn hér.


Á skítahaugum geta vaxið blóm ...

blóm Nýja Ísland  - listin að týna sjálfum sér, nefnist bók eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing og bloggara. Eintak af þessari bók datt inn um bréfalúguna hjá mér fyrir skömmu og ég fór að blaða í henni. Það endaði með því að ég las hana spjaldanna á milli og var rétt í þessu að leggja hana frá mér. Ég mæli með henni.

Í þessari bók skoðar Guðmundur "íslenska efnahagsundrið" - hvers afleiðingar við erum að kljást við nú um stundir. Hann leitast við að greina þær breytingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi á síðustu áratugum og allt fram á þennan dag:  Hvernig hugarþel þjóðarinnar og gildismat hafa birst frá einum tíma til annars m.a. í löggjöf, opinberri umræðu, viðskiptaháttum og samskiptum. 

Sú athugun leiðir ýmislegt óþægilegt í ljós, m.a. hvernig gildi hins "stéttlausa" samfélags hafa smámsaman molnað og morknað; hvernig samkennd og samheldni hafa látið undan í okkar litla samfélagi; hvernig auðmenn og fyrirtæki hafa öðlast meiri völd og áhrif á ýmsum sviðum þjóðlífsins en þeim er hollt. Á sama tíma hefur almannavaldið orðið veikara og vanbúnara að takast á við breyttar aðstæður, auk þess sem hin glöggu skil sem áður voru milli markaðarins (veraldar viðskipta) og samfélagsins (veraldar almannavalds og menningarverðmæta) verða sífellt óljósari.

Já, íslenska efnahagsundrið hefur ekki orðið okkur sú gæfa sem efni og vonir stóðu til. Útrásartíminn var vissulega tími kappsemi og atorku líkt og þegar Íslendingar brutust úr fátækt og kyrrstöðu á fyrstu áratugum 20. aldar. En eins og höfundur bendir réttilega á báru eldri kynslóðir þó "gæfu til þess að varðveita og rækta lífsviðhorf sem tryggðu samheldni og samkennd þjóðarinnar á því mikla breytingaskeið sem gekk yfir".  Í markaðshyggjuákafanum síðustu ár hafa þessi gildi orðið undir - gildin sem þó eru "svo mikilvæg fyrir starfrækslu þjóðfélags".

Þarna skilur höfundur við okkur með spurningum sem lúta að afdrifum og endurheimt hinna horfnu gilda.

Woundering

Að lestri loknum fór ég að hugsa um hrun og endurreisn. Það er nefnilega þannig að á öllum skítahaugum vaxa blóm. Fegurð þeirra og gagn veltur bara á því hvaða fræjum er sáð.

Spurningin núna er sú, hvort okkur tekst að sá réttu fræjunum í þann haug sem blasir við. Tekst okkur að endurheimta og sá að nýju traustum gildum á borð við samkennd, samhjálp og mannúð? Það er hin stóra spurning - hið stóra verkefni sem bíður okkar allra. 

íslenskiFáninn


Þjóð í greipum Davíðs

DavidGeirMbl.is Ég man þá tíð þegar Davíð Oddsson varð borgarstjóri í Reykjavík, ég var fréttamaður á sjónvarpinu. Mér er það mjög minnisstætt þegar hann neitaði að veita fréttastofunni viðtöl nema ákveðnir fréttamenn tækju þau. Hann ætlaði til dæmis að neita að tala við mig. Þá sýndi Ingvi Hrafn Jónsson þáverandi fréttastjóri af sér þann dug að láta Davíð Oddsson vita það að hann veldi sér ekki viðmælendur á fréttastofu sjónvarpsins. Og þar við sat.

Þetta rifjast upp fyrir mér þegar Davíð talar núna um heljartök hagsmunaaðila á fjölmiðlum. Hann hefur sjálfur haft slíkt tök,  enda átti hann eftir að verða mun valdameiri í íslensku samfélagi en þegar hann var borgarstjóri. Hann hefur viljað hafa þessi tök og beita þeim. Þannig er það nú bara - það otar hver sínum tota.

Sjálfréttlæting var orðið sem kom fyrst í huga minn þegar ég hlýddi á ræðu Davíðs á fundi Viðskiptaráðs í morgun. Vissulega var þróttur í röddinni - hann er greinilega ekki af baki dottinn.  En það er einkennilegt að hlusta á opinberan embættismann tala á formlegum fundi og eyða mestum hluta ræðutíma síns í að réttlæta sjálfan sig persónulega.

Þetta er - hvað sem öðru líður - maðurinn sem skóp skilyrðin fyrir útrásinni í krafti forsætisráðherraembættis síns með hugmyndafræði frjálshyggjunnar að vopni. Var það ekki hann sem "seldi" bankana á gjafverði? Var það ekki hann sem réði lögum og lofum, deildi og drottnaði árum saman?  Skaut sendiboða slæmra tíðinda með því til dæmis að leggja niður Þjóðhagsstofnun þegar honum líkuðu ekki efnahagsspárnar? 

Vissulega má af tilvitnunum Davíðs lesa að hann hafi varað við því sem var yfirvofandi. Það var gert í einhverjum ræðum sem enginn tók eftir á formlegum fundum þar sem menn dotta eldsnemma á morgnana og boðskapurinn fer inn um annað eyrað en út um hitt. En tók hann upp símtólið og talaði við þá sem stjórna landinu? Hélt hann vinnufundi um málið? Gerði hann tillögur um viðbrögð við yfirvofandi hættuástandi? Hvar gerði hann þær tillögur, og við hvern? Hvar eru þær?

Sjáið til, það sem Davíð gerði  var annars eðlis en það sem hann sagði. Hann safnaði ekki korni í hlöður fyrir mögru árin. Gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans reyndist ekki nægur þegar til átti að taka. Sömuleiðis peningastóll bankana - enda búið að lækka bindiskylduna. Hver skyldi hafa borið ábyrgð á því?

Og svo klykkir hann út með því að hann viti hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögum. Hann veit en vill ekki segja. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega?

Eitt stendur þó eftir stálinu sterkara: Davíð Oddsson ætlar ekki að falla einn úr háu sæti. Verði hann látinn víkja úr starfi Seðlabankastjóra mun hann taka fleiri með sér. Í þessari ræðu lét hann skína í tennurnar: Davíð er þess albúinn að fletta ofan af aðgerða- og andvaraleysi annarra. Og þar liggur hundurinn grafinn. 

Það er Davíð sem hefur ráðherra Sjálfstæðislfokksins í heljargreipum, og þar með þjóðina.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spillingin rædd Á Sprengisandi

Við Grímur Atlason vorum í þætti Sigurjóns M. Egilssonar Á Sprengisandi í morgun að ræða spillingarmálin og ástandið í þjóðfélaginu. Þeir sem hafa áhuga á að hlusta á þetta geta smellt HÉR.  Að svo stöddu hef ég ekki miklu við að bæta - læt þennan skammt duga í dag.

Burt með spillingarliðið!


Loks vottar fyrir lausnum

kossinn Það var tími til kominn að ráðamenn þjóðarinnar færu að boða lausnir en ekki aðeins vandamál. Þið fyrirgefið, en mér sýnist það vera að gerast samhliða því að Ingibjörg Sólrún kemur inn á ríkissjónarvettvanginn á ný eftir veikindi sín. Hún skrapp í vinnuna fyrr í vikunni, og skar þá niður útgjöld í utanríkisráðuneytinu um tvo milljarða. Kom svo aftur einum eða tveimur dögum síðar og lagði upp áætlun um að bjarga Iceasave deilunni. Í dag er svo kynnt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að létta undir með heimilum landsins.

Nei, ég segi nú svona - þetta er kannski ekki alveg sanngjarnt. Whistling Auðvitað hlýtur fjöldi manns að hafa verið að vinna að þessu öllu saman vikum saman. Það hefur bara ekkert gengið einhvern veginn - og Geir er farinn að sýna þreytumerki.

Annars var athyglisvert að hlusta á Björgólf Guðmundsson í Kastljósinu í gærkvöld. Þar hélt hann því fram fullum fetum að Landsbankinn hefði átt fyrir skuldum á Mikjálsmessu, þann 29. september. Það mátti skilja á honum að í raun hafi bankinn verið lagður á hliðina af Seðlabankanum - af því að Seðlabankinn hafi ekki sinnt um að hafa nægan gjaldeyrisforða og því ekki getað komið bankanum til hjálpar, eins og farsælast hefði verið. Að vísu lét Björgólfur þess ógetið að í reynd voru bankarnir löngu vaxnir Seðlabankanum yfir höfuð og hann ekki þess megnugur að hjálpa þeim neitt þegar á reyndi. En það vissu menn auðvitað fyrir löngu ... þeir gerðu bara ekkert í því.

Þannig að ekki jókst hróður Davíðs Oddssonar við þetta viðtal - það verður bara að segjast eins og er.

Það er eiginlega að verða vandræðalegt að yfirstjórn Seðlabankans skuli ekki hafa sagt af sér. Það ætti hún að gera. Sömuleiðis yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins - eins og ég hef marg sagt - að ekki sé talað um skuldbreytingaliðið í bönkunum. Burt með spillingarliðið! 

Hef ég þá lokið máli mínu að sinni.  Cool


mbl.is Ný greiðslujöfnunarvísitala tekin upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréfið til Valgerðar

Bréfið til Valgerðar Sverrisdóttur sem varð Bjarna Harðarsyni svo afdrifaríkt lýsir sárum vonbrigðum tveggja Framsóknarmanna með framgöngu Valgerðar á ráðherrastóli og það hvernig flokkinn hefur borið af leið í mikilvægum málum - ekki síst varðandi einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Bréfið fer hér á eftir:

Heil og sæl Valgerður, þú varst ögn önug út í okkur flokksbræður þína yfir því að við minntum á, í bréfi 9. okt. s.l.að í þinni ráðherratíð sem viðskiptaráðherra voru bankarnir einkavæddir.

Það verður þó varla fram hjá því litið að á því ferli öllu berð þú mikla ábyrgð ásamt því regluverki sem bönkunum var ætlað að starfa eftir. Og minnast má þess að lengi vel var það stefna Framsóknarflokksins að selja ekki bankana og als ekki Símann og margir framsóknarmenn munu enn vera á þeirri skoðun. Nú er úti ævintýr og bankarnir komnir aftur í þjóðareign. Nauðsynlegt er að spyrja hvað hefur þjóðin haft upp úr sölu bankanna og hvað mun hún kosta hana? Fyrireinkavæðingu var þjóðin talin með ríkustu þjóðum í heimi. Þjóðartekjur á mann með því besta sem þekktist. Þegnarnir yfirleitt efnahagslega sjálfstæðir og lífskjör hvergi jafnari en hér á landi. Ofurlaun þekktust ekki. Hvernig er svo ástandið í dag, sem einkavæðingin skilur eftir? Allir bankarnirkomnir í þrot. Af eljusemi og dugnaði höfðu þeir safnað erlendum skuldum er nema tólf til þrettán faldri ársframleiðslu þjóðarinnar. Allt sparifé okkar, sem var í vörslu þeirra var í uppnámi. Setja varð neyðarlög að næturlagi til þess að tryggja spariféð og eðlileg bankaviðskipti í landinu. Mörg hundruð miljarða skuldabaggi er lagður á íslenska þjóð. Okkur finnsta því að þú mættir gjarnan hugleið hvaða áhrif þinn félagslegi og pólitíski framgangur hefur haft fyrir þjóðina og Framsóknarflokkinn. Og hvað um KEA og SÍS? Spyrja má hversu mikið landsbyggðin hefur liðið fyrir hrun Samvinnuhreyfingarinnar.

Síður en svo ætlum við þér alla ábyrgð á einkavæðingunni og afleiðingum hennar þótt þú kæmir þar verulega við sögu og margir bera ábyrgð á þróun samvinnumála hér á landi. Framsóknarflokkurinn átti sinn góða þátt í uppbyggingu þess samfélags, sem hér náði að þróast á öldinni sem leið. Það samfélag byggði á blönduðu hagkerfi, sem hafnaði öfgum kapitalisma, sem boðaði að markaðurinn ætti að ráða öllu í heimi hér, jafnt og alræðissósíalisma var hafnað. Með formensku Halldórs Ásgrímssonar hefst raunasaga Flokksins, sem endaði með fylgishruni. Halldór klifaði látlaust á því að breyta þyrfti stefnu Flokksins. Hann skipaði framtíðarnefnd. Jón Sigurðsson var ,,kallaður” til þess að hafa umsjón meðþessari stefnumótun, ásamt Sigurði Einarssyni og Bjarna Ármannssyni, sem afþakkaði reyndar þetta boð.

Í þessari nýju stefnu fólst m.a. þetta:

  1. Í stað þess að standa vörð um sjálftæði Íslands og fullveldi átti að gangastundir ESB- valdið í Brussel.
  2. Í stað hins blandaða hagkerfis skyldi innleiða ,,frjálst” markaðhagkerfi líkt og í Bandaríkjunum og ESB.
  3. Ísland átti að verða ,,alþjóðleg” fjármálamiðstöð og skattaparadís.
  4. Frjáls innflutningur á landbúnaðarvörum, átti að vera forsend þess að flokkurinn næði fylgi í þéttbýlinu.

Allt var þetta í algjöri andstöðu við þau lífsviðhorf og gildismat þess fólks sem Flokkurinn sótti fylgi sitt til. Enginn studdi Halldór formann og þessa nýju stefnu afmeiri alúð en þú, að okkur finnst. Þótt annar hver kjósandi hafi yfirgefið Flokkinn heldur þú áfram á braut, sem leiddi hrun yfir Flokkinn og hörmung yfir þjóðina. Ástandið hefði þó verið sínu verra ef vilji ykkar Halldórs og fyrirmæli um að leggja Íbúðarlánasjóð undir bankanna hefðu ekki verið hundsuð af ágætum flokksbræðrum okkar, Árna Magnússyni, Magnúsi Stefánssyni og Guðmundi Bjarnasyni. Enda nutu þeir, að við höldum, stuðnings annarra þingmanna Flokksins. Þú innleiddir tilskipun ESB um raforkumál, sem kostar fólkið í landinu hundruð miljóna á ári hverju. Og þú orðaðir það svo fallega að þetta gæti verið fyrsta skrefið í einkavæðingu orkugeirans.  Og nú rekur þú áróður sem mest þú getur fyrir aðild að ESB og reynir að fiska málinu fylgi í gruggugu vatni svo ekki sé meira sagt. Því til viðbótar hefur þú og sumir af þínum fylgismönnum talað niður gjaldmiðil hagkerfisins, nokkuð sem er mjög alvarlegt mál. Þá viljum við lýsa undrun og óánægju okkar yfir framgöngu þinni gagnvart sitjandi formanni Framsóknarflokksins. Við munum ekki annað eins.

Með framsóknarkveðju.

Gunnar Oddsson Flatatungu 560 Varmahlíð.
Sigtryggur Jón Björnsson Birkimel 11 560 Varmahlíð.

 

Svo mörg voru þau orð.

 


Misræmi í upplýsingum ráðherra - og: Burt með spillingarliðið!

ThorgerdurKatrin Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur ekki gert hreint fyrir sínum dyrum varðandi aðkomu hennar og eiginmanns hennar að viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi og ráðstöfun skulda í framhaldi af því.

 Ráðherrann sagði fyrir fáum dögum að það væri óþolandi fyrir sig og sinn mann að efasemdir væru uppi um stöðu þeirra í þessu máli. Ég er sammála ráðherranum um þetta. Þess vegna verður hún að gera hreint fyrir sínum dyrum - og satt að segja er ég undrandi á fjölmiðlum að ganga ekki harðar fram í því að upplýsa um aðkomu ráðherrahjónanna að hinum umdeildu hlutafjárvipskiptum stjórnenda Kaupþings. Fréttir herma að þau hjónin hafi keypt hlutabréf fyrir um hálfan milljarð króna.

Fram hefur komið að Kristján Arason, eiginmaður ráðherra, stofnaði einkafélag fyrr á þessu ári og að kaup hans á hlut í Kaupþingi áttu sér stað í gegnum það félag. Ráðherrann segir "langt síðan" félagið var stofnað (sjá hér). Þó er ekki lengra síðan en í febrúar síðastliðnum (sjá hér). 

Menntamálaráðherrann segir að þau hjónin hafi sett allan sinn "sparnað" í félagið. Hún upplýsir ekki hvaða sparnað er þar um að ræða - og það sem mér finnst áhyggjuefni, hún er ekki spurð af fjölmiðlum. Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður hefur að vísu hreyft þessu máli í þinginu (sjá hér), en svör hafa ekki fengist enn. Í  blaðaviðtölum er ýmist ýjað að því að þau hjónin hafi keypt hlutabréf fyrir sparnað sinn (sem þau hafi tapað - sjá hér ) eða þau hafi tekið lán sem ekki hafi verið "strokað út" eins og það er orðað (sjá hér). Upplýsingarnar eru misvísandi.

Nú er vitað, að ákveðnir stjórnendur í Kaupþingi fóru þá leið að stofna félög sem önnuðustu kaupin á hlutabréfum í bankanum. Með því móti gátu þeir hirt gróðann af bréfunum - hefði hann orðið einhver - en látið félagið sitja uppi með skuldirnar ef bréfin hefðu orðið verðlaus. Ekki verður annað séð en að félagið sem Kristján Arason, eiginmaður ráðherra, stofnaði, hafi einmitt verið sett á laggirnar í þessu skyni. Að minnsta kosti var hann "fámáll" um tilgang og starfsemi félagsins, þegar það var stofnað fyrr á þessu ári (sjá hér).

Menntamálaráðherra segir í fyrrgreindum fréttaviðtölum að nú verði allir að gera hreint fyrir sínum dyrum.  Það er rétt.

Gott væri ef menntamálaráðherra gengi þá á undan með góðu fordæmi og skýrði misræmið í þeim upplýsingum sem hún sjálf hefur veitt  og leggði þar með "allt upp á borðið" svo notuð séu hennar eigin orð.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband