Á skítahaugum geta vaxið blóm ...

blóm Nýja Ísland  - listin að týna sjálfum sér, nefnist bók eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing og bloggara. Eintak af þessari bók datt inn um bréfalúguna hjá mér fyrir skömmu og ég fór að blaða í henni. Það endaði með því að ég las hana spjaldanna á milli og var rétt í þessu að leggja hana frá mér. Ég mæli með henni.

Í þessari bók skoðar Guðmundur "íslenska efnahagsundrið" - hvers afleiðingar við erum að kljást við nú um stundir. Hann leitast við að greina þær breytingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi á síðustu áratugum og allt fram á þennan dag:  Hvernig hugarþel þjóðarinnar og gildismat hafa birst frá einum tíma til annars m.a. í löggjöf, opinberri umræðu, viðskiptaháttum og samskiptum. 

Sú athugun leiðir ýmislegt óþægilegt í ljós, m.a. hvernig gildi hins "stéttlausa" samfélags hafa smámsaman molnað og morknað; hvernig samkennd og samheldni hafa látið undan í okkar litla samfélagi; hvernig auðmenn og fyrirtæki hafa öðlast meiri völd og áhrif á ýmsum sviðum þjóðlífsins en þeim er hollt. Á sama tíma hefur almannavaldið orðið veikara og vanbúnara að takast á við breyttar aðstæður, auk þess sem hin glöggu skil sem áður voru milli markaðarins (veraldar viðskipta) og samfélagsins (veraldar almannavalds og menningarverðmæta) verða sífellt óljósari.

Já, íslenska efnahagsundrið hefur ekki orðið okkur sú gæfa sem efni og vonir stóðu til. Útrásartíminn var vissulega tími kappsemi og atorku líkt og þegar Íslendingar brutust úr fátækt og kyrrstöðu á fyrstu áratugum 20. aldar. En eins og höfundur bendir réttilega á báru eldri kynslóðir þó "gæfu til þess að varðveita og rækta lífsviðhorf sem tryggðu samheldni og samkennd þjóðarinnar á því mikla breytingaskeið sem gekk yfir".  Í markaðshyggjuákafanum síðustu ár hafa þessi gildi orðið undir - gildin sem þó eru "svo mikilvæg fyrir starfrækslu þjóðfélags".

Þarna skilur höfundur við okkur með spurningum sem lúta að afdrifum og endurheimt hinna horfnu gilda.

Woundering

Að lestri loknum fór ég að hugsa um hrun og endurreisn. Það er nefnilega þannig að á öllum skítahaugum vaxa blóm. Fegurð þeirra og gagn veltur bara á því hvaða fræjum er sáð.

Spurningin núna er sú, hvort okkur tekst að sá réttu fræjunum í þann haug sem blasir við. Tekst okkur að endurheimta og sá að nýju traustum gildum á borð við samkennd, samhjálp og mannúð? Það er hin stóra spurning - hið stóra verkefni sem bíður okkar allra. 

íslenskiFáninn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann G. Frímann

Fyndið hvað það eru lítil viðbrögð við þessum pistli miðað við þann síðasta. Eftir síðustu málsgreinina sé ég fyrir mér fallegt lítið blóm sem vex upp úr hrokkinkolli. Hvort það er þjóðarblómið eða gleim-mér-ei eða eitthvað annað skal ósagt látið. Takk fyrir góða pistla Ólína.

Jóhann G. Frímann, 20.11.2008 kl. 01:12

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þessi bók bíður mín á náttborðinu - ég hlakka mikið til að lesa hana. Er búin að gefa hana í tvær afmælisgjafir þvi ég var svo sannfærð um að hún væri góð.

Þú staðfestir það.

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.11.2008 kl. 02:35

3 identicon

Ætla mér að lesa þessa bók. Já það verður fróðlegt að vita hverju við sáum.

Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 08:10

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Bæti þessari á listann.

Er með upp fyrir haus að bókum að lesa núna og afskaplega sátt með þau örlög.

Takk fyrir þennan góða pistil Ólína.

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.11.2008 kl. 08:24

5 identicon

Sæl Ólína.

Já, þetta held ég að séu mikilvægustu spurningarnar núna. Ég hef mikið velt því fyrir mér hvað taki við þegar óveðrinu slotar. Það er mikið talað um nýja Ísland, sem á að taka við eftir hrunið mikla. Ég hef bara heilmiklar áhyggjur af því að hlutirnir fari á undraskömmum tíma í svipað far, sami hugsunarháttur taki við hjá þeim sem munu halda um stjórnartaumana, hver og einn fari að skara eld að sinni köku og áður en við verður litið verði allt orðið eins og það var.

Ég vona bara svo heitt og innilega að loksins takist okkur að læra af reynslunni. Undanfarnar kosningar, mörg ár aftur í tímann, hef ég orðið gríðarlega svekktur þegar við höfum trekk í trekk kosið sama óhroðann yfir okkur, aftur og aftur, og þannig grafið okkur æ dýpra í skítahauginn. En núna hefur kviknað vonarneisti eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum; ef amerísk þjóð er fær um þennan viðsnúning, þá hljótum við að geta líka?

Nú þarf bara að breyta öllu, flokkakerfið er gengið sér til húðar og ég treysti engum stjórnmálamanni lengur. Engum.

Mér finnst ekki nóg að "stokka upp", það þarf að henda spilabunkanum og fara að nota nýjan.

Mundi (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 08:47

6 identicon

Rett athugad hja ter Olina.

Mer finnst tu lika vera blom a skitahaug.

Sa skitahaugur heitir SAMFYLKINGIN !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 09:35

7 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Sammála Munda. Við þurfum að stokka upp algerlega.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 20.11.2008 kl. 10:54

8 identicon

Nei Katrín, ekki stokka upp; skipta um stokk! :o)

Og í framvarðasveitina vil ég fá konur, eins og t.d. Láru Hönnu.

Þeim til fulltingis verði síðan sérfræðingar á hverju sviði.

Hljómar þetta nokkuð asnalega?

Mundi (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 11:42

9 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

já það er nú svo merkilegt hvað skíturinn er nærandi...

Guðrún Helgadóttir, 20.11.2008 kl. 12:01

10 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Er það ekki svolítið þannig að við höfum enn verið að brjótast úr fátæktinni og ekki fundist rétt að slá neitt af. Hvort sem við köllum það græðgi eða eitthvað annað, þá er þessi árátta rík í sumu fólki að eignast sem mest til að að forðast fátæktina.

Þegar farið var markvisst að færa til verðmæti í samfélaginu, gefa fiskistofnan til fárra útvaldra og síðan aðrar eigur ríkisins, fór einhvern veginn allt á skjön. Kjör urðu svo gríðarlega misjöfn og lögmáli frumskógarinns var sleppt inni í viðskiptalífið. Þá er mannlegt eðli bara þannig að grimmd veiðimannsins brýst fram og hann hamstrar bráð meðan eitthvað er að hafa.

Til að ná aftur jafnvægi verður lagarammi þjóðfélagsins að taka mið af því að öllum sé gert kleyft að sjá sér farborða á mannsæmandi hátt. Þegarvið verðum komin inn í ESB kemmst á jafnvægi á peningamarkaði, vextir verða skaplegir, verðtryggingin lögð af, velferðarmálin komast þá aftur á dagskrá sem forgangsverkefni o.s.frv

Hólmfríður Bjarnadóttir, 20.11.2008 kl. 16:26

11 identicon

Ég vil fá konu eins og þig Ólína, í framvarðasveit stjórnmálanna. Málefnalega, skörulega og umfram allt heiðarlega manneskju.

Guðrún (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 16:47

12 Smámynd: Sævar Helgason

"Mer finnst tu lika vera blom a skitahaug.

Sa skitahaugur heitir SAMFYLKINGIN !" segir einn álitsgjafinn.

Já sá skítahaugur sem Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa á sl. einum á hálfum áratug búið þjóðinni - er bæði stór og mikill.

En eins og Ólína bendir á: " Það er nefnilega þannig að á öllum skítahaugum vaxa blóm. Fegurð þeirra og gagn veltur bara á því hvaða fræjum er sáð."

Fræi Samfylkingarinnar hefur verið sáð - hún mun leiða þjóðina til hinna góðu gilda sem liggur í arfleifð þessarar þjóðar og hafa reynst henni svo vel. 

Sævar Helgason, 20.11.2008 kl. 20:30

13 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk Sævar

Svo þakka ég líka traustsyfirlýsingar sem hér hafa borist frá andstæðingum Samfylkingarinnar  

Aðalatriðið núna er það að endurvekja traust á stjórnkerfi landsins,  ekki endilega stjórnmálaflokkunum sem slíkum. Þeir verða bara að standa fyrir sínu máli í kosningum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 21.11.2008 kl. 01:59

14 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Takk fyrir að benda á þessa bók, Ólína, og fyrir frábær skrif.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 21.11.2008 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband