Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Rétt skal vera rétt ... og burt með spillingarliðið!
8.11.2008 | 22:28
Sagan um að Sigurjón Árnason fv. Landsbankastjóri hafi verið að stöfum í bankanum þar til í þessari viku mun ekki eiga við rök að styðjast. Mér er ljúft og skylt að koma þessu áleiðis hér, þar sem í færslunni hér á undan er vísað til fregna um að Sigurjón Árnason og Halldór J. Kristjánsson hefðu báðir haldið áfram að starfa í bankanum þar til nýlega. Nú hefur þetta verið borið til baka af Viðskiptaráðuneytinu, eins og fram kemur á eyjunni.
Rót þessara "fregna" er m.a. tölvupóstur sem gekk á netinu fyrir helgi um að Sigurjón væri enn allt í öllu í Landsbankanum, hann legði bílnum í sitt gamla bankastjórastæði og hefði sérinnréttaða skrifstofu á efri hæð Reykjavíkurapóteks. "Fréttin" varð höfð eftir starfsmanni í bankanum sem "blöskraði" þetta ástand og "gat ekki orða bundist". Orðalag og yfirbragð var mjög trúverðugt, en málið var fyrst tekið upp í Orðinu á götunni og flaug þaðan eins og eldur um sinu.
Þá vitum við það .... en það er afleitt þegar óstaðfestar sögusagnir fá byr undir báða vængi í ástandi sem þessu þar sem tilfinningaútrásin er tekin við af bankaútrásinni.
Það breytir ekki hinu, að fjöldi starfsmanna og millistjórnenda gömlu bankanna er enn að störfum í nýju bönkunum og gegna þar margir hverjir lykilhlutverki.
Og enn og aftur árétta ég það sem ég hef áður sagt, að það þarf að gera þetta mál upp, hreinsa spillinguna út úr bönkunum og stjórnkerfinu.
Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Gerendur enn á vettvangi - Burt með spillingarliðið!
7.11.2008 | 12:49
Fyrir fáum dögum spurðist það út að Sigurjón Árnason fyrrum Landsbankastjóri væri enn að störfum í bankanum á nýrri skrifstofu sem hafi verið sérstaklega innréttuð fyrir hann. Þangað mætti hann til starfa, lagði í sitt gamla bankastjórastæði, og ráðskaðist um eins og ekkert hefði í skorist. Halldór J. Kristjánsson mun líka hafa verið að störfum, þar til í gær - að þeir félagar ákváðu að hætta, eftir að umræða spannst í fjölmiðlum um þetta fyrirkomulag.
Á sama tíma heyrir maður frá því sagt í útvarpinu að almennt starfsfólk hafi verið að fá tafarlausar uppsagnir, það orðið að yfirgefa vinnustað sinn samstundis í fylgd einkennisklæddra öryggisvarða, svipt farsímanum og lykilorðinu að tölvunni. Er svo hart fram gengið gegn sumum að vinnusálfræðingar sjá ástæðu til að koma í útvarp og biðja vinnuveitendur að sýna örlitla tillitssemi við uppsagnir á starfsfólki.
Hmmm .... en gömlu stjórnendur bankanna - þessir sem bera ábyrgð á því hvernig komið er - þeir hafa setið vikum saman í ráðgjafastörfum fyrir nýju bankana, í sérinnréttuðum skrifstofum, jafnvel með mannaforráð. Það virðist ekki hafa hvarflað að neinum að svipta þá lykilorði að tölvunum - hvað þá heldur fríðindum á borð við sérmerkt bílastæði, farsíma og fleira. Hmmm .... það lá víst ekkert á að koma þeim út úr húsi. Og á meðan leið tíminn - engin rannsókn hafin - allt í vandræðagangi.
Hvaða áhrif halda menn að það hafi á rannsóknavettvanginn að þeir sem verða sjálfir til rannsóknar skuli geta athafnað sig þar svo vikum skiptir? Nú er ég ekki að fullyrða að gömlu stjórnendurnir séu að spilla rannsóknagögnum í bönkunum - ég bara bendi á þeir eru í góðri aðstöðu til þess sumir hverjir. Möguleikinn er augljós.
Í raun snýst þetta ekkert um það hvort maður heldur að þeir sem í hlut eiga séu heiðarlegt fólk. Málið snýst miklu heldur um það hvort vera þeirra í námunda við vettvanginn er eðlileg. Á sama hátt og vanhæfi einstaklinga snýst ekki um artir þeirra eða innræti - heldur hitt hvort málsmeðferðin sjálf er hafin yfir efasemdir um hlutleysi og fagmennsku í vinnubrögðum: Að ekki sé um að ræða tengsl milli rannsóknaraðila og þess sem rannsakaður er, hvað þá heldur aðgengi meintra gerenda að sjálfum rannsóknavettvanginum og þeim gögnum sem rannsaka þarf. Kristinn H. Gunnarsson hefur rökstutt þetta ágætlega í grein sem hann skrifaði í vikunni um vanhæfi menntamálaráðherra í þessu máli (sjá hér).
Það er nefnilega rangt hjá dómsmálaráðherra að umræða um vanhæfi Valtýs Sigurðssonar og Boga Nilssonar hafi verið aðför að heiðri þessara tveggja manna (hann hélt þessu fram í sjónvarpsfréttum í gær). Umræðan um vanhæfi Valtýs og Boga snerist um vinnubrögð, ekki menn. Hún snerist um tengsl þessara manna við viðfangsefnið en ekki persónur þeirra. Leitt að dómsmálaráðherrann skuli ekki sjálfur gera þennan greinarmun.
Ég hefði að óreyndu búist við að stjórnvöld og löggæsluyfirvöld yrðu betur á verði gagnvart rannsóknahagsmunum vegna bankahrunsins - það er jú þeirra að gæta hagsmuna almennings í þessu - vernda almenning. Dómsmálaráðherra sagði í fréttum í gær að það yrðu að berast kærur frá almenningi til að hægt væri að rannsaka mál.
En hverjir eru fulltrúar almennings? Eru það ekki þeir stjórnmálamenn sem kosnir eru af þjóðinni hverju sinni - þingmennirnir í umboði almennings og ríkisstjórnin í umboð þingsins? Hefur Björn Bjarnason ekki sitt umboð frá almenningi? Það er nóg komið af hundakúnstum. Skipið óháða rannsóknanefnd í þetta mál, strax. Og hreinsið rannsóknavettvanginn af þeim sem ollu tjóninu. Hreinsið bankana af gömlum stjórnendum - Seðlabankann þar með talinn og fjármálaeftirlitið. Víkið frá þeim ráðamönnum sem tóku þátt í ósómanum. Þetta þolir ekki lengri bið.
Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Burt með spillingarliðið!
4.11.2008 | 22:45
Það mættu fleiri fara að dæmi Boga Nilssonar fyrrverandi ríkissaksóknara sem nú hefur horfið frá þátttöku í undirbúningi rannsóknar á starfsemi gömlu bankanna í aðdraganda hrunsins. Bogi segir réttilega í yfirlýsingu sinni að honum finnist hann ekki lengur njóta nægilegs almenns trausts til að sinna verkefninu. Gott hjá honum - og rétt.
Nú er spurningin hvort Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari, hefur sambærilegar áhyggjur af trausti almennings á þeirri vinnu sem framundan er vegna rannsóknar málsins. Sonur Valtýs er forstjóri Exista, sem eins og allir vita hefur rík tengsl við Kaupþing eins og ég hef bloggað um áður.
Já, það mættu ýmsir taka sér til fyrirmyndar áhyggjur fyrrverandi ríkissaksóknara af trausti almennings á gjörðum þeirra og dómgreind.
Ef einhver manndómur væri í bankastjórum Seðlabankans og stjórnarmönnum, þá hefðu þeir allir farið að dæmi Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem sagði sig úr bankaráðinu og bað þjóðina afsökunar á hlutdeild bankans í fjármálahruninu. Hún er maður að meiri. En það virðist því miður ekki hvarfla að þessum mönnum að skapa frið um störf Seðlabankans og efla traust almennings á honum með því að víkja þaðan - enda stjórnarlaunin feitur biti og greidd af almenningi.
Ekki verður heldur sagt að traust ríki á Fjármálaeftirlitinu um þessar mundir. Síst eftir þá yfirlýsingu að það hafi ekki samþykkt "sérstaklega" skuldaniðurfellingar yfirmanna í bankakerfinu, eins og þeir orðuðu það. Þau orð verður hver að skilja sínum skilningi, en ég skil þau þannig að Fjármálaeftirlitið hafi vitað af því sem fram fór án þess að hafast frekar að. Nú á þetta sama fjármálaeftirlit að rannsaka málið.
Fólk treystir þessum mönnum ekki lengur - enda virðist vera sama hvar velt er við steinum, allstaðar blasa við okkur siðleysi, spilling, hagsmunatengsl eða vanhæfi - meðal annars í ráðherraliðinu eins og Kristinn H. Gunnarsson fjallar um á heimasíðu sinni í dag.
Þess vegna ætla ég að enda þessa færslu, og allar mínar færslur á næstunni, með sama hætti og í gær:
Burt með stjórn Seðlabankans og bankastjórana þrjá. Burt með Fjármálaeftirlitið, stjórn þess og starfslið. Burt með alla þá starfsmenn bankanna sem þáðu eða ákváðu skuldahreinsun eða undanfæri fyrir útvalda. Burt með þá ráðamenn sem samþykktu ósómann með beinum eða óbeinum hætti, þögn eða aðgerðaleysi.
Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur.
![]() |
Bogi Nilsson hættir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
50 milljarða skuldahreinsun - leikhús fáránleikans!
3.11.2008 | 22:22
Í fréttum Stöðvar-2 í kvöld var fullyrt að síðustu dagana fyrir yfirtöku ríkisins á Kaupþingi hafi bankinn afskrifað 50 milljarða króna skuldir yfirmanna og valinna lykilstarfsmanna í bankanum, og forðað þeim þar með frá gjaldþroti vegna hlutafjárkaupa sem fjármögnuð voru með lánum. Við erum ekki að tala um 50 milljónir - ó, nei. Fimmtíu milljarðar - fimmtíu þúsund milljónir.
Ekki náðist í neinn af stjórnendum Kaupþings til að staðfesta þetta, en í yfirlýsingu sem kom frá bankanum fyrr í dag er fullyrt að öll viðskipti og kröfur gamla Kaupþings hafi fluzt yfir til Nýja Kaupþings og muni þar fá "eðlilega" meðferð. Þar er reynt að klóra yfir skítinn með hálfsannindum sem í raun eru ekkert annað en ósannindi.
Af sama toga er yfirlýsing Fjármálaeftirlitstins þar sem segir að "Fjármálaeftirlitið hafi ekki sérstaklega samþykkt niðurfellingu krafna sem tengjast lánveitingum til starfsmanna bankanna". Þeir samþykktu það ekki sérstaklega. Hvað skyldi það nú þýða? Annað hvort samþykkir maður eitthvað eða maður samþykkir það ekki. Það er hægt að samþykkja ólöglegt athæfi með aðgerðarleysi - Þögn er sama og samþykki segir máltækið. Yfirlýsing Fjármálaeftirlitsins er aumt yfirklór. Og nú er nóg komið af útúrsnúningum.
Sé það rétt að tilgangur skuldahreinsunarinnar hafi verið sá að tryggja þessum starfsmönnum vinnu í Nýja Kaupþingi - þar sem lög leyfa ekki að gjaldþrota fólk sé ráðið sem stjórnendur í ríkisbönkum - þá hljóta fleiri að hafa vitað af þessu en bankastjórnin. Það gefur auga leið.
Fjármálaeftirlitið verður að standa gleggri skil sinna gjörða. Sömuleiðis fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra. Vissu þeir af þessu, en létu það viðgangast?
Burt með þetta Fjármálaeftirlit - stjórn og starfslið þess. Burt með alla þá stjórnendur Kaupþings sem þáðu eða ákváðu skuldahreinsun fyrir útvalda. Burt með þá ráðamenn sem vissu af þessu og samþykktu með beinum eða óbeinum hætti. Burt með þetta spillingarlið, hvar í flokki sem það stendur.
Við erum stödd í leikhúsi fáránleikans - spillingin er svo ótrúleg að það tekur engu tali.
Yfirstjórnendur bankanna skuldhreinsaðir?
3.11.2008 | 13:54
Sú "frétt" fer nú eins og logi yfir akur á netinu, að skuldir yfirmanna í bönkunum hafi verið afskráðar til þess að hægt væri að ráða þá til starfa í nýju bönkunum. Þannig hafi allar skuldir verið hreinsaðar við yfirmann áhættustýringar Kaupþings, sem tapað hafi 2 milljörðum króna sem að mestu voru teknar að láni. Sama hafi verið gert við mörg hundruð aðra bankastarfsmenn sem tóku lán frá 10-100 milljónir króna til að kaupa hlutabréf (sjá t.d. hér og hér).
Og ástæðan? Jú, lögum samkvæmt mega gjaldþrota einstaklingar ekki starfa fyrir banka!! Svo það "þurfti" að skuldhreinsa mannskapinn svo hægt yrði að manna yfirmannastöður í nýju bönkunum.
Á sama tíma eru fjölskyldur að brotna og fólk að bugast undan greiðslubyrði lána í þessum sömu bönkum. Landsmenn hafa tugþúsundum saman verið að tapa stórfé bæði hlutabréfum, lífeyrissparnaði vegna fjármálaráðgjafar þessara banka. Nú eru fyrirtækin farin að hrynja og þúsundir manna verða af atvinnutekjum.
Ef rétt reynist þá er sorinn svartari en nokkurn hefði órað fyrir - maður er orðlaus.
Fjölmiðlar verða að komast til botns í þessu máli, því annað eins og þetta myndi jafngilda stríðsyfirlýsingu við almenning í landinu.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Af hverju þarf Davíð að víkja?
2.11.2008 | 23:37
Ja, það er nú það. Eru vinstri menn að ná sér niðri á þessum gamla erkióvini með því að krefjast nú afsagnar hans? Er verið að persónugera í Davíð Oddssyni vonbrigði og reiði þeirra sem sjá nú á bak hlutabréfum, lífeyrissparnaði, atvinnu og ýmsum lífsgæðum með vaxandi skuldabyrði? Er verið að leggja Davíð Oddsson í einelti?
Frá mínum bæjardyrum séð snýst málið ekki um Davíð Oddsson nema að hluta til. Málið snýst um þá reginfirru að hafa gamlan pólitíkus í starfi Seðlabankastjóra. Og ekki bara einhvern pólitíkus, heldur þann þaulsætnasta í stóli forsætisráðherra sem sögur fara af. Mann sem aukinheldur ber ríka ábyrgð vegna sinna fyrr starfa sem forsætisráðherra í ríkisstjórnum sem skópu þau skilyrði sem nú hafa valdið ofsaakstri og útafkeyrslu fjármálamarkaðarins með tilheyrandi hruni og eftirköstum.
Málið snýst um trúverðugleika Seðlabankans jafnt innanlands sem utan - trúverðugleika okkar Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum. Það sér hver heilvita maður að yfirlýsingar og ummæli Davíðs að undanförnu hafa stórskaðað efnahag þjóðarinnar. Yfirlýsingar hans hafs vakið athygli langt út fyrir landsteina - eins og t.d. má lesa í harðorðri gagnrýni eins stærsta dagblaðs í Þýskalandi sem fjallað er um í Morgunblaðinu um helgina.
Já, við erum dregin sundur og saman í erlendum fjölmiðlum fyrir það háttarlag við stjórnun efnahagsmála að hafa fyrrverandi forsætisráðherra við stjórnvölinn sem Seðlabankastjóra.
Reiðiákall almennings um afsögn Davíðs Oddssonar er ákall til stjórnvalda um að þau gangist við mistökum sínum og hreinsi til í Seðlabankanum, og sýni þar með vilja og viðleitni til þess að gera upp við bæði mistök og ranga hugmyndafræði.
Sú hreingerning getur ekki einskorðast við Davíð einan og sér. Stjórn Seðlabankans og bankastjórarnir þrír hljóta allir að þurfa að víkja. Og hafi þeir ekki sómatilfinningu til þess að segja af sér sjálfir, þá verður ríkisstjórnin að víkja þeim frá.
Fólkið krefst þess. Fólkið á rétt á því. Þetta er ekki flóknara en það.
Höfum nokkur hugtök á hreinu
31.10.2008 | 15:57
Nú þegar talað er um nauðsyn þess að gera upp við hugmyndafræði kapítalismans og nýfrjálshyggjunnar er eins gott að hafa nokkur hugtök á hreinu.
SÓSÍALISMI: Þú átt 2 kýr. Þú gefur nágranna þínum aðra þeirra.
KOMMÚNISMI: Þú átt 2 kýr. Ríkið tekur þær báðar og gefur þér mjólk.
FASISMI: Þú átt 2 kýr. Ríkið tekur þær báðar og selur þér mjólk.
NASISMI: Þú átt 2 kýr. Ríkið tekur þær báðar...og skýtur þig svo.
SKRIFRÆÐI: Þú átt 2 kýr. Ríkið tekur þær báðar, skýtur aðra þeirra, mjólkar hina og hellir svo allri mjólkinni.
HEFÐBUNDINN KAPÍTALISMI: Þú átt 2 kýr. Þú selur aðra þeirra og kaupir naut. Þú stofnar kúabú. Þú hagnast vel, selur kúabúið og sest í helgan stein.
SÚRREALISMI: Þú átt 2 gíraffa. Ríkið krefst þess að þú farir í harmonikkunám.
BANDARÍSKT FYRIRTÆKI: Þú átt 2 kýr. Þú selur aðra þeirra og þvingar hina til að gefa af sér mjólk á við fjórar kýr. Þú ræður svo sérfræðing til að komast að því hvers vegna hún datt niður dauð.
ÍSLENSKT FYRIRTÆKI: Þú átt 2 kýr. Þú selur 3 þeirra til fyrirtækis á opnum markaði með veði í gervifyrirtæki mágs þíns, gengur svo frá yfirtöku með vísan í skráningu á markaði þannig að þú færð allar 4 kýrnar tilbaka og skattaívilnanir vegna einnar til viðbótar. Afurðarétturinn af kúnum 6 er færður yfir á fyrirtæki í Karíbahafinu, en leynilegur meirihlutaeigandi þess selur þér aftur réttinn að öllum 7 kúnum. Samkvæmt ársskýrslu á fyrirtækið nú 8 kýr, með eigendarétti að einni til viðbótar. Þú selur eina kú til þess að þóknast ónefndum stjórnmálamanni og átt þá níu kýr. Rétturinn að nautinu er seldur almenningi í hlutafjárútboði.
FRANSKT FYRIRTÆKI: Þú átt 2 kýr. Þú ferð í verkfall, skipuleggur mótmæli og tefur umferð...vegna þess að þú vilt eiga þrjár kýr.
JAPANSKT FYRIRTÆKI: Þú átt 2 kýr. Þú endurhannar þær þannig að þær verða tíu sinnum minni, en framleiða tuttugu sinnum meiri mjólk. Þú markaðssetur svo nýja teiknimyndahetju, "Kúmann", sem nær miklum vinsældum um allan heim.
Jamm .... þennan fékk ég sendan í dag. Mikið til í þessu.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Dómgreindarleysi
30.10.2008 | 10:12
Að Valtý Sigurðssyni ríkissaksóknara og Boga Nilssyni, fyrrverandi ríkissaksóknara skuli koma til hugar að þeir séu ekki vanhæfir til þess að "safna gögnum" og undirbúa rannsókn sem gæti beinst að sonum þeirra beggja, er með ólíkindum. Sigurður Valtýsson er forstjóri
Exista, Bernharð Bogason er framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Stoða. Þessi tvö fyrirtæki eru - fyrir utan bankana - þau sem hvað oftast koma til tals þegar fjármálahrunið ber á góma, enda hvort tveggja útrásarfyrirtæki með rík tengsl við Kaupþing og Glitni.
Að dómsmálaráðherra skuli koma til hugar að feðurnir, Valtýr og Bogi, séu best til þess fallnir að svo stöddu til að meta eigið hæfi í þessu sambandi - er sömuleiðis með ólíkindum, sérstaklega í ljósi þess að þeim er ætlað að safna gögnum og leggja grunn að rannsókn málsins. Ríkissaksóknari talar eins og þetta skipti litlu eða engu máli - ekki sé verið að taka skýrslur af mönnum, enginn sé orðinn sakborningur sem stendur. Halló! Ætli það gæti þá ekki ráðist af gagnaöflun feðranna hvort synirnir lenda í þeirri stöðu??
Þetta nær auðvitað engri átt. Og að dómsmálaráðherra skuli veita þessum tveimur heiðursmönnum sjálfdæmi í því hvort þeir telja sig vanhæfa eða ekki með þeim orðum að fáir eða engir þekki betur vanhæfisreglurnar ... það er eins og að reka fingurinn framan í alþjóð.
Það er fyrirsláttur að halda því fram að á Íslandi finnist ekki nokkur maður án tengsla við einhvern hlutaðeigandi. Sé það tilfellið þá á að fá erlenda aðila til að stjórna þessari rannsókn - en ekki bara "aðstoða" við hana.
En að ætla tveimur háttsettum embættismönnum að leggja með gagnaöflun grunn að rannsókn sem beinst gæti að sonum þeirra - lykilmönnum í fjármálastofnunum sem hafa tengsl við fallna banka - það er fullkomið dómgreindarleysi.
Slík "rannsókn" yrði aldrei hafin yfir nokkurn vafa.
![]() |
Álíta sig hæfa til að rannsaka syni sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Sannleiksnefndina þarf að skipa núna
28.10.2008 | 10:26
Nú, þegar ég kem aftur til landsins eftir um 10 daga fjarveru má segja að fátt hafi breyst frá því ég fór, nema eitt: Reiði almennings er orðinn auðsæ - allt að því áþreifanleg. Að öðru leyti er staðan sú sama. Stjórnvöld standa í samningaviðræðum við aðrar þjóðir um lán og aðstoð í efnahagsvanda okkar. Enn eru hnökrar á gjaldeyrisviðskiptum og seðlaskömmtun. Enn er spáð og spekúlerað.
Það sem nú er að gerast og er auðfundið - er að þjóðin er að koma út úr áfallinu. Reiðin er að taka völdin.
Nú þarf Alþingi Íslendinga að gera eitthvað til þess að sýna almenningi fram á að gerð verði skuldaskil gagnvart þeim sem bera ábyrgð. Gott og blessað er með það að halda áfram samningaviðræðum við aðrar þjóðir og gera það sem hægt er til að halda skipinu á floti. Það skyldu ríkisstjórn og Seðlabanki vitanlega gera. En, menn mega ekki gleyma því að almenningur á fullan rétt á því að málið verði gert upp. Og það má ekki dragast of lengi. Nú eru atburðir ferskir og menn til staðar sem geta lýst því sem gleggst hvað gerðist. Ríkisstjórn og Seðlabanka vinnst þá e.t.v. frekari friður til þess að sinna nauðsynlegustu verkum til að lágmarka skaðann af þeim erfiðleikum sem nú ganga yfir okkur öll.
Sannleiksnefndina þarf að skipa núna - það má ekki dragast lengur. Alþingi Íslendinga á að skipa þessa nefnd og í henni þurfa að sitja erlendir sérfræðingar sem hafnir eru yfir öll hagsmunatengsl og innanlandspólitík. Með nefndinni þurfa síðan að starfa valinkunnir sómamenn (konur eru líka menn) sem hafnir eru yfir allan vafa. Nefndin þarf að taka til starfa nú þegar.
Mikið déskoti var Sigmar góður!
23.10.2008 | 23:39
Takið nú eftir - þið áhugamenn um fjölmiðla og viðtalstækni - hvernig Sigmar bar sig að í viðtali sínu við Geir Haarde í gær, samanborið við Egil í viðtali við Jón Ásgeir um daginn. Sigmar vissi upp á hár hvað hann ætlaði að fá út úr forsætisráðherranum. Hann virkjaði reiðina - sleppti henni aldrei lausri, heldur baunaði spurningunum (stundum á mörkum þess að missa það, en fór samt aldrei yfir strikið) hverri af annarri, í rökréttri röð. Og þegar forsætisráðherranum var orðið nóg um, og taldi að spyrillinn væri farinn að fullyrða meira en spyrja - þá rökstuddi spyrillinn ástæður sínar fyrir framsetningunni og hélt sínu striki.
Þetta var beinskeytt viðtal - hugsað. Ákveðinn spyrill. Reiður undir niðri - en umfram allt vel undirbúinn. Það gerði gæfumuninn.
Annars er líka fróðlegt fyrir fjölmiðlafíkla að spá í muninn á viðtali Sigmars frá því um daginn við Davíð annarsvegar, og viðtali Egils við Jón Ásgeir hinsvegar. Í fyrra tilvikinu (viðtalinu við Davíð) hélt spyrillinn sig svo vel á mottunni að hann bókstaflega skrúfaði frá talandanum á seðlabankastjóra (með hrikalegum afleiðingum fyrir land og þjóð reyndar, en samt ...).
Í síðara tilvikinu (viðtali Egils við Jón Ásgeir) sleppti spyrillinn sér svo gjörsamlega að hann skrúfaði fyrir viðmælandann og fékk ekkert út úr honum eftir það.
Sumsé - eins og kría á steini, tylli ég mér niður á Frón, rétt nýkomin frá Póllandi á leið til Danmerkur í nótt. Verð ekki í bloggsambandi fyrr en eftir helgi.
En ... ég náði að kíkja á Kastljós gærkvöldsins og get ekki orða bundist: Mikið déskoti var Sigmar góður!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)