Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að græða á daginn og grilla á kvöldin

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur nú sett fram skilgreiningu á fyrirbærinu Sjálfstæðismaður. Það gerði hann í þættinum Mannamál á Stöð-2 um helgina, eins og bloggvinkona mín hún Lára Hanna bendir réttilega á í færslu sinni í dag. Skilgreining Hannesar er svohljóðandi:   

Sjálfstæðismenn eru mjög foringjahollir og það er dálítill munur kannski ef maður tekur þetta svona... Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og vinstri flokkana hins vegar þá er... í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt. Það hljómar dálítið einkennilega kannski en... og ég á kannski ekki að segja það svona, en til einföldunar má segja að Sjálfstæðismenn eru menn sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin. Vinstri menn eru menn, sem halda að með masi og fundahöldum þá sé... og sko ljóðalestri, þá sé hægt að leysa einhverjar lífsgátur. Þarna er dálítill munur. Þannig að vinstri menn eru miklu pólitískari heldur en hægri menn. Þess vegna eru þeir ekki eins foringjahollir. Hægri mennirnir, þeir eru bara að reka sín fyrirtæki, þeir vilja leggja á brattann, þeir vilja bæta kjör sín og sinna, þannig að þeim finnst hérna... gott að hafa mann sem sér um pólitíkina fyrir þá og Davíð var slíkur maður.
 

Hér er sko engin "sjúrmjólk í hádeginu og seríós á kvöldin" - ó, nei. Hér er grætt og á daginn og grillað á kvöldin!

Þarna hefur Hannes Hómsteinn tekið ómakið af andstæðingum Sjálfstæðisflokksins og sagt hreint út það sem þeir hafa aldrei kunnað við að segja upphátt. (Hafi hann þökk fyrir það að hreinsa andrúmsloftið með þessum hætti).

En nú læðist fram lítil vísa:

  • Sjálfstæðismenn þeir sitja um völdin,
  • af syndum er Hannes kvitt:
  • Græðir á daginn, grillar á kvöldin
  • og gerir í bólið sitt.

Rökin þrotin?

c_arni_mathiesen geir-eyjanIs sigurdurlindal-DeiglanIs thorst_dav

Alveg er ég undrandi á þeim ummælum sem ráðherrar fjármála og forsætis hafa látið sér um munn fara að undanförnu vegna ráðningar Þorsteins Davíðssonar í starf héraðsdómara.

Í þinginu sagði Geir Haarde forsætisráðherra að Sigurður Líndal, sem er einn virtasti lögspekingur landsins, hefði orðið sér "til minnkunar" í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið. Fjölmiðlar höfðu þetta eftir forsætisráðherra athugasemdalaust. Ekki kom þó fram hvaða ummæli Sigurðar hann átti við. Samt var þessi niðrandi fullyrðing höfð eftir ráðherranum eins og það væri bara sjálfsagt mál. Forsætisráðherra þurfti ekkert að færa frekari rök fyrir sínu máli.

Ég las grein Sigurðar, og gat ekki betur séð en þar væri fjallað af skynsemi og viti um þessa umdeildu ráðningu, lagaforsendur hennar og áhrif. Ummæli forsætisráðherra eru að mínu mati ómakleg - en þau sýna líka að ráðamenn eru komnir í harða vörn vegna þessara ráðningarmála.

Árni Matthiesen fjármálaráðherra var á sömu slóðum í Kastljósinu í gær. Hann valdi þann kostinn að gera lítið úr nefndarálitinu sem lagði mat á umsækjendur um starf héraðsdómarans. Talaði um að það væri gallað og hann hefði átt þann kost einan að ganga í berhögg við nefndina.  Lét í það skína að nefndin væri ekki starfi sínu vaxin. Úff! Þvílíkir loftfimleikar.

Það er þekkt taktík að niðra andstæðinga sína. Þegar rökin þrýtur taka hnefarnir við.

Nú ganga hnefarnir á þeim sem hafa leyft sér að efast um ákvarðanir þeirra sem með valdið fara. Það er leitt að verða vitni að slíku.


mbl.is Ósammála ráðherra um mat á umsækjendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ullað framan í landslýð

c_arni_mathiesen Yfirlýsing matsnefndarinnar sem fjallaði um hæfi umsækjenda um tíðrætt héraðsdómarastarf sem  hlotnaðist Þorsteini Davíðssyni er ekki aðeins skiljanleg viðbrögð við ráðningunni, heldur sjálfsögð.

Rökstuðningur Árna Matthiesen er hinsvegar furðulegur. Ekki er ég dómbær á meintar rangfærslur sem Pétur Kr. Hafstein fullyrðir að séu í yfirlýsingu ráðherrans. Mér nægir að horfa á þá staðreynd að matsnefndin áleit þrjá umsækjendur hæfari en þann sem ráðinn var - og að sá sem ráðinn var er sonur fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og þaulsætnasta forsætisráðherra í íslenskri stjórnmálasögunni, núverandi Seðlabankastjóra.

 Enn furðulegri fannst mér þó leiðari moggans í dag. Þar er nefndin snupruð fyrir að andæfa gjörðum ráðherrans og henni beinlíni sagt að hypja sig - hún eigi bara að segja af sér og þegja.

Já, það er hlaupin harka í varðliða gamla sjálfstæðisveldisins. Nú sýna þeir tennurnar - urra að almenningi og svara illu einu þeim sem vilja halda í nútímalegar leikreglur um fagleg vinnubrögð og óhlutdræg. Leiðarahöfundur bendir nefndarmönnum pent á það að álit þeirra hafi enga lagalega þýðingu - og ráðherra beri því engin skylda til þess að hlýða því.

En til hvers er þá verið að setja á fót faglegar mats- og dómnefndir, skipa þær virtustu fræðimönnum í hverri grein? Til þess að ráðherra geti skemmt sér við að nota svo vald sitt og hunsa fagálit?  Það læðist að manni sá grunur að kannski sé nefndum af þessu tagi bara ætlað að vera leiðitamar afgreiðslustofnanir sem þjóna lund ráðherra á hverjum tíma. Kannski hefur aldrei verið ætlast til þess í alvöru að þær ynnu  starf sitt af neinni alúð - því auðvitað getur verið gott fyrir ráðherrana að geta vísað í fyrirframpöntuð nefndarálit til stuðnings gjörðum sínum, hvort sem það eru mannaráðningar eða aðrar tiltektir.

Nú höfum við fyrir augunum eitt alversta dæmið um pólitíska misnotkun valds. Hér hefur einfaldlega verið ullað framan í landlýð. Og ef dómnefndin hefði ekki mótmælt þessu vinnubrögðum - þá væri illa komið fyrir íslenskri stjórnsýslu. Nóg er nú samt.

 
Nei - þetta er vont mál, hvernig sem á það er litið. VONT mál. 


mbl.is Segir rangfærslur í yfirlýsingu Árna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill munur á útgönguspám og úrslitum í New Hampshire

ClintonObama Það er undarlegt hve mikill munur virðist vera á útgönguspám og úrslitum í forvalinu í New Hampshire, einkum í forvali Demúkrata. Ég horfði á Sky News í gærkvöld og hlustaði þar á fjálglegar fullyrðingar fréttamannanna sem vísuðu í allar áttir, aðra fjölmiðla, ýmsa sérfræðinga - sem allir virtust vera að túlka útgönguspár um yfirvofandi úrslit.

Á fimm mínútna fresti komu fréttamenn inn með miklar bollaleggingar  um afhroð Hilary Clinton og  sterka stöðu Obama (sem hafði áður náð góðum sigri í Iowa með 38% en Clinton 29%). Úrslitin í Iowa virðast hafa setið ansi sterkt í fréttamönnum: Einn fjölmiðill kvað upp úr um sigurlíkur Obama,  sá næsti vitnaði í þennan fjölmiðil og svo líka útgönguspárnar, þriðji fjölmiðilinn vitnaði í fyrrnefnda tvo fjölmiðla og útgönguspár. Og þannig vatt þetta upp á sig - var orðin ein hringavitleysa þar sem hver át upp eftir öðrum af ákefð.

Það hvarflar að manni að þessar útgönguspár hafi nú ekki verið unnið af tilhlýðlegri vandvirkni. Sömuleiðis setti að mér svolítinn óhug við að hlusta á það hvernig hver át upp eftir öðrum fullyrðingar sem undu upp á sig eins og í sögunni um fjöðrina sem varð að fimm hænum.

 Jæja, en Hilary blessunin hafði það  í New Hampshire - það skiptir máli. 

Nú er ég í þeirri undarlegu stöðu að halda eiginlega með tveimur frambjóðendum. Ég vil að Clinton vinni - en um leið er ég auðvitað mjög svag fyrir Obama. Ekki endilega vegna þess að hann gæti orði fyrsti þeldökki forsetinn - heldur vegna þess að hann er bara svo asskoti sjarmerandi og sætur InLove

 Við spyrjum að leikslokum.


mbl.is Clinton vann í New Hampshire
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíuhreinsistöð enn á döfinni

arnarfjordur Jæja, þá er umræðan um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum aftur komin af stað með staðarvalsskýrslu og skýrslu um könnun á völdum samfélagsþáttum sem Fjórðungssamband Vestfirðinga let vinna á eigin kostnað til að mýkja sporin fyrir Íslenskan hátækniiðnað að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Bæjarstjóri Vesturbyggðar kominn í hatramma ritdeilu við Dofra Hermannsson  þar sem sá fyrrnefndi sakar þann síðarnefnda um að vera á móti Vestfirðingum af því hann hefur aðra sýn á framtíð svæðisins. Tilefni ummælanna er að Dofri leyfði sér að mæla með því að Vestfirðingar verðu kröftum sínu í það frekar að byggja upp háskóla en olíuhreinsistöð á hvítum sandi í fegursta firði landsins. 

Svo les ég grein á bb.is í dag þar sem sýslumaður Patreksfirðinga flytur uppljómaða lofgjörð um Vestfirði sem "griðastað fyrir framfarir" - og á þar við Vestfirskan fjörð sem kjörlendi fyrir olíuhreinsistöð. Sýslumaður vitnar í fögur ljóð - og hvað veit ég. Nú er orðræðan um olíuhreinsistöð orðin skáldleg í þokkabót Shocking

 Ég hvet fólk til þess að kynna sér þessa umræðu. Mér finnst Dofri tala rödd skynseminnar þarna - en sínum augum lítur hver silfrið.

 


Æ, Össur!

Í Spegli ríkisútvarpsins í gær var fjallað um stórmerk og áhugaverð áform um stofnun alþjóðlegs jafnréttisháskóla á Íslandi að fyrirmynd Alþjóðlega sjávarútvegsskólans, Jarðfræðiseturs Sameinuðu þjóðanna og fleiri stofnana. Rætt var við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra sem hefur beitt sér fyrir fjárveitingu til undirbúnings þessu framtaki, enda þarft verk að "kenna þjóðunum að leysa kvenorkuna úr læðingi" eins og hún orðaði það.

Fram kom að Ísland mælist efst í lífskjaravísitölu þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og vildi utanríkisráðherra þakka það stöðu íslenskra kvenna, ekki síst atvinnuþátttöku þeirra."Kvenfrelsisbarátta íslenskra kvenna hefur leyst mikla krafta úr læðingi" sagði utanríkisráðherra.

Sama dag ákvað Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra að ráða konu úr hópi 50 umsækjenda í starf ferðamálastjóra. Var það m.a. gert með vísan til jafnréttislaga. Hjartað tók gleðikipp - Samfylkingin að standa sig í jafnréttismálunum. Smile

En - sólskini fylgja einatt skuggar. Blekið var ekki þornað á skipunarskjalinu þegar sami ráðherra veitti annað embætti, og að þessu sinni var ekki vísað í jafnréttislög - kannski ekki hugsað til þeirra heldur. Nema það hafi verið yfirstjórn ráðuneytisins um megn að ráða tvær konur sama daginn?

Í starf orkumálastjóra var ráðinn hæfur karl - Dr. Guðni A. Jóhannesson, sem verið hefur forstöðumaður byggingatæknideildar Konunglega verkfræðiháskólans í Stokkhólmi undanfarin 13 ár.  Hæf kona - Dr. Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, sem nú gegnir starfi orkumálstjóra og hefur verið aðstoðarorkumálastjóri undanfarin tvö ár - fékk ekki starfið. Woundering

Iðnaðarráðherra hefur sjálfur engu svarað um þessa ráðstöfun, en talsmaður hans sagði það hafa verið "samdóma álit" ráðningastofunnar, iðnaðarráðherra, ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanns ráðherra að Guðni væri "hæfasti umsækjandinn". Þess var að vísu ekki getið hvaða atriði hefðu ráðið þeirri samdóma niðurstöðu - heldur brugðið á það velkunna ráð að nefna nokkur átorítet, og láta þar við sitja.

Fram hefur komið að báðir umsækjendur eru með doktorspróf í verkfræði. Ragnheiður Inga er auk þess með MBA í stjórnunarfræðum. Ekki má heldur gleyma því að hún er eini umsækjandinn sem hefur reynslu af starfi orkumálastjóra. Er nema von þó að konan krefjist rökstuðnings? Er nema von þó að Verkfræðingafélagið lyfti brúnum og óski skýringa?

Í jafnréttisáætlun iðnaðarráðuneytisins, segir orðrétt í 5. gr.:

"Þess skal jafnan gætt að sá umsækjandi sé ráðinn sem talinn er hæfastur til þess að gegna starfi, að teknu tilliti til menntunar og hæfni en án tillits til kynferðis. Séu tveir eða fleiri umsækjendur af báðum kynjum taldir jafn hæfir til ráðningar í auglýst starf skal að jafnaði ráðinn umsækjandi af því kyni sem er í minnihluta á viðkomandi sviði."

Vissulega hefur kvenfrelsisbarátta íslenskra kvenna leyst mikla krafta úr læðingi, eins bent hefur verið á. Að minnsta kosti er ljóst að íslenskar konur taka því ekki þegjandi lengur að vera sniðgengnar - og það er vel. Þessi ráðstöfun kallar á frekari skýringar.


Það á ekki að leyfa flugeldasölu til almennings >:(

flugeldar Frá því ég fékk rakettuprikið í hausinn á Klambratúninu fyrir 35 árum, er mér illa við að vera úti þegar sprengingarnar byrja á gamlárskvöld. Líkamlega líður mér illa í þessum hávaða - ég verð eins og hundurinn, vil helst skríða í skjól. Og það sem ég ætla að segja núna er sjálfsagt ekki til vinsælda fallið. En ég segi það samt og mér er fúlasta alvara: Það á ekki að leyfa flugeldasölu til almennings. Og hananú. 

Whistling

 Ég minnist þess alla ævi þegar kínverjinn sprakk við eyrað á stúlku sem stóð við hliðina á mér á gamlársdag fyrir mörgum árum. Ég var ellefu ára hún kannski fimmtán. Hún var að bera ölkassa inn í sjoppu, þegar kínverjanum var kastað að henni. Sársauki hennar og skelfing meðan verið var að koma henni undir læknishendur líður mér seint úr minni. Þessi stúlka missti heyrnina um aldur og ævi. Hún stóð við hliðina á mér þegar þetta gerðist - og það var hrein hending að hún varð fyrir þessu en ekki ég.

Síðan hef ég oft furðað mig á þeirri skefjalausu meðferð skotelda sem viðhöfð er hér á landi um hver einustu áramót. Að þetta skuli bara vera leyft. Til hvers er eiginlega verið að taka þessa áhættu? Til að skemmta auganu eina kvöldstund. Það er ekki áhættunnar virði, finnst mér. Til þess eru fórnirnar of miklar sem færðar hafa verið á undanförnum árum með skelfilegum slysum þar sem fólk hefur hlotið alvarleg örkuml, blindu og brunasár. 

Eiginlega er þetta bara villimennska - og hún magnast ár frá ári. Fjölskyldufeður á nælonskyrtum, í misgóðu ástandi, börn og yfirspenntir unglingar, sameinast og sundrast inni í húsagörðum og á götum úti við að bera opinn eld að sprengiefni - án eftirlits, í hvaða veðri sem er. Og samfélagið virðist bara sammála um að þetta sé í lagi.

Svo fer eitthvað úrskeiðis (og það á hverju gamlárskvöldi), og einhver missir auga eða heyrn. "Æi, það var nú leiðinlegt. En þetta var auðvitað bara óhapp". Angry

Mér finnst illt að björgunarsveitirnar skuli yfirleitt vera ofurseldar því að afla sér fjár með þessum hætti. Þær eiga bara að vera á íslensku fjárlögunum með veglega styrki. Síðan mættu þær gangast fyrir myndarlegum flugeldasýningum á gamlárskvöld - þar sem flugeldum er skotið upp undir ströngu eftirliti af kunnáttufólki almenningi til skemmtunar.

En að landið breytist í vígvöll þar sem hvínandi rakettur þjóta milli húsa og mannfólks sem er í misgóðu ástandi til þess að skjóta þeim upp (hvað þá forðast þá) - það á bara ekki að líðast.

 


Á valdi óttans

Mál Erlu Óskar Arnardóttur hefur vakið verðskuldaða athygli, enda varpar það ljósi á hversu langt eitt samfélag getur látið leiðast í tortryggni og fjandskap. 

Bandaríkjamenn hafa verið undir linnulausum áróðri um hryðjuverkaógn undanfarin ár. Stjórnvöld þar í landi hafa eytt milljörðum í að búa sér til óvini og viðhalda ógnarótta almennings til þess að réttlæta stríðsrekstur sinn í öðrum heimshlutum. Hvaða áhrif halda menn að slíkt hafi til lengdar? Eitt er víst að það ýtir ekki undir lýðfrelsi og mannréttindi. Þvert á móti elur það á ótta og mannfyrirlitningu, líkt þeirri sem Erla Ósk hefur nýfengið að reyna.

Á valdi óttans geta menn gert hvað sem er.  Hér fyrr á öldum var saklaust förufólk drepið á heiðum landsins ef það varð á vegi óttasleginna ferðalanga sem stútfullir af sögum um útilegumenn og drauga réðu þeim bana. Af hverju halda menn t.d. að helsta ráðið til að kveða niður drauga hafi verið að "brjóta þá á bak aftur " eða skilja höfuð frá bol? Hmmm...

Nútímamaðurinn er enn að "brjóta á bak aftur" ýmsa ímyndaða drauga - oft með ærnum fórnarkostnaði, því miður.


mbl.is Mál Erlu Óskar vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarstjóri í pólitískri aðför

Ísafjordur-vetur Í viðtali í svæðisútvarpi Vestfjarða fyrr í vikunni réðist Halldór Halldórsson bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ með ómaklegum hætti á vefmiðilinn skutull.is og sakaði hann um að starfa undir fölskum formerkjum:

 "Í mínum huga, er Skutull fyrst og fremst pólitískur vefmiðill .... Skutull hefur ekkert sýnt það - ekki fyrir mér að minnsta kosti - að það sé einhver óháður fréttamiðill. Þetta er fyrst og fremst pólitískur miðill sem vinnur fyrir Í-listann hér í bæjarstjórn" sagði bæjarstjórinn.

Með þessum orðum veitist bæjarstjórinn á Ísafirði að trúverðugleika nýstofnaðs vefmiðils sem hefur yfirlýsta stefnu um faglega og óhlutdræga fréttamennsku. Þetta gerir hann á grundvelli stjórnmálaskoðana þeirra sem að vefsíðunni standa. Það er alvarlegt mál þegar forsvarsmaður stjórnvalds reynir beinlínis að bregða fæti fyrir þá sem eru að koma undir sig fótum á einhverju sviði. Enn alvarlegra er þegar slíkt er gert á grundvelli stjórnmálaskoðana - og nægir að vísa til 11. greinar stjórnsýslulaga sem kveður á um þá skyldu stjórnvalda að mismuna ekki aðilum vegna stjórnmálaskoðana, trúarbragða, kynferðis eða þjóðfélagsstöðu, heldur gæta "samræmis og jafnræðis" við úrlausn mála. Þetta er svokölluð jafnræðisregla.

Tildrög þessara orðaskipta nú, eru eftirfarandi:

Fyrir nokkrum vikum sendi skutull.is Ísafjarðarbæ erindi þar sem vefmiðillinn var kynntur bæjaryfirvöldum og þess óskað að skutull.is hlyti sama rými á heimasíðu bæjarins og annar vefmiðill hér í bæ, bb.is, hefur nú þegar. Ennfremur var þess óskað að skutull.is fengi að sitja við sama borð og bb.is varðandi auglýsingar og fjárstyrki.

Þess ber að geta að bb.is er með beina RSS-veitu inn á heimasíðu Ísafjarðarbæjar og fær greitt fyrir. Er það líklega einsdæmi að fjölmiðill fái greiðslu frá stjórnvaldi fyrir að auglýsa sjálfan sig á heimasíðu þess. En hjá Ísafjarðarbæ heitir þetta víst "þjónusta" og bb.is er eitt um þá hitu. Á móti hefur bæjarstjórinn fengið sérstakan flýtihnapp á bb.is sem tengir lesendur beint inn á hans persónulegu bloggsíðu. Er mér ekki kunnugt um að nokkur stjórnmálamaður fái aðra eins þjónustu hjá "óháðum" fréttamiðli.

Nú hefur einnig komið í ljós að bb.is er eini vefmiðillinn hér á svæðinu sem er í viðskiptum við Ísafjarðarbæ. Til blaðsins sem heldur vefnum úti, útgefanda þess og vefsíðunnar hafa runnið 4,2 mkr á undanförnum 22 mánuðum. Það er um fjórðungur alls þess sem bærinn greiðir fyrir fjölmiðlaþjónustu 157 aðila sem samanlagt hafa fengið um 16 mkr á sama tíma.

Skemmst er frá því að segja að bæjaryfirvöld samþykktu að setja lítinn tengil á skutul.is inn á heimasíðu bæjarins en erindinu var hafnað "að öðru leyti". RSS-veita kom því ekki til greina og bréf bæjarins verður ekki skilið öðruvísi en svo auglýsingar frá bænum verði ekki settar inn á skutul.is

Nú hefur Halldór bæjarstjóri, í fyrrnefndu viðtali upplýst um raunverulega ástæður þessarar synjunar. Þær eru pólitískar: "Þetta er fyrst og fremst pólitískur miðill sem vinnur fyrir Í-listann hér í bæjarstjórn" segir hann.

Ég fullyrði að þeir sem starfa við skutul.is gera það af fullri fagmennsku - stjórnmálaskoðanir þeirra koma bæjaryfirvöldum hinsvegar ekkert við. Á skutull.is eru siðareglur fréttamanna í heiðri hafðar og allar fréttir unnar eftir bestu fáanlegu heimildum. Halldór bæjarstjóri er þess ekki umkominn að efast um heilindi eða fagmennsku þessa fólks - enda hefur hann engin dæmi máli sínu til sönnunar.

 


Fólk vakið til umhugsunar

Vitið þið - mér finnst þetta bara gott hjá femínistafélaginu. Þær eru að vekja athygli á klámi sem undirrót kúgunar og misnotkunar á fólki. Fyrirtæki eins og VISA á einfaldlega að forðast allt sem getur tengt það ágæta fyrirtæki við klámiðnað.

Sóley Tómasdóttir er með góða hugleiðingu á bloggsíðu sinni um klámið sem fyrirbæri í mannlegu samfélagi. Þar varpar hún upp nokkrum spurningum sem hverjum og einum er hollt að hugleiða. Spyrja má í sama anda og hún gerir: 

Er klám uppbyggilegt í einhverjum skilningi? Kennir það okkur eitthvað jákvætt um mannleg samskipti - kynlíf? Hefur klám jákvæð áhrif á umhverfi okkar eða samfélagsímyndina? Er það mikilvæg viðbót við menningu okkar og atvinnulíf?

Hmmm .... það er að mörgu að hyggja. En ég er með kenningu:

Klám er eins og fíknefni: Það er gott við fyrstu kynni, veitir líkamlega stundarsælu. Að henni lokinni skilur það ekkert eftir sig - nema kannski fíkn í meira.   

Klám er engum hollt - það getur verið skaðlaust í hófi - en oft kallar það á meira. Margir þeirra sem falla fyrir stundaráhrifum þess missa tökin - og á því græða þeir sem sjá hagnaðarvon í fíkn annarra. Sú hagnaðarvon kallar fram misnotkun á fólki, mannsal, kynlífsþrælkun og þvingað vændi. 

Nei, klám er engum hollt. Fylgikvillar þess eru mannfjandsamlegir - sannkallað menningarvandamál.

Og mér finnst reglulega gott hjá femínistum að taka slaginn í þessari klámumræðu. Áfram stelpur!


mbl.is Femínistafélagið kærir Vísa-klám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband