Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samstöðustjórnmál?

RadhusRvikur Mér er þungt um hjartarætur eftir að hafa horft á viðtölin við Svandísi Svavarsdóttur og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson í Kastljósi í gær. Mér líður eins og ég sé í herkví - er ég þó ekki íbúi í Reykjavík heldur bara kjósandi vestur á fjörðum og venjulegur samfélagsþegn.

 Það lítur út fyrir að skýrsla stýrihópsins svokallaða eigi að verða endahnúturinn á þessu skelfilega OR og REI máli. Svandís talaði um að það hefði ekki verið í verkahring nefndarinnar að sakfella menn. Nú yrðu menn bara að læra af reynslunni og ná samstöðu um betri vinnubrögð  í framtíðinni. Hún talaði um samstöðustjórnmál.

Þeim sem brjótast inn á bensínstöðvar er ekki gefinn kostur á slíku. Hvers vegna ættu þá menn sem reyna að komast yfir milljarðaverðmæti í eigu almennings að fá aðra meðhöndlun? Þegar fyrrverandi borgarstjóri - sem  vel að merkja var bæði ráðinn og kjörinn til trúnaðarstarfa fyrir almenning í borginni - bregst því trausti að gæta verðmætanna og verður vís að ósannindum - hvað þá?

Sjálfum finnst honum rétt að stjórnir OR og REI muni nú "fara yfir málið". Halló! Er ekki búið að fara yfir málið? Voru það ekki kjörnir fulltrúar sem fóru yfir málið? Trúa menn því að stjórnir þessara fyrirtækja muni aðhafast eitthvað gegn fyrrverandi stjórnarmönnum og starfsmönnum?

Og ekki hafa stjórnir OR og REI yfir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni að segja. Hann er utan þeirrar seilingar. Hver mun sjá til þess að hann axli ábyrgð?

Það eiga kjósendur að gera - segja menn borginmannlega á bloggsíðum.  Vandinn er bara sá að kjósendur eiga ekkert val. Það er engin lagastoð fyrir því að rjúfa borgastjórn og efna til nýrra kosninga - þó vissulega væri þess full þörf nú. Löggjöfin gerir bara ekki ráð fyrir að annað eins og þetta geti gerst í einni sveitarstjórn. Og enn er langt til kosninga. Vilhjálmur ætlar að verða borgarstjóri eftir ár. Lagalega er ekkert sem getur komið í veg fyrir það.

Og hvað er þá til ráða? Kjósendur eiga jú sína fulltrúa í borgarstjórn. Það eru auðvitað þeir sem eiga að tala máli almennings og sjá til þess að einhver axli ábyrgð. Það hlýtur að vera þeirra hlutverk öðrum þræði. Annars hefur ekki verið velt við hverjum steini.

Samstöðustjórnmál? Ég þekki líka annað orð: Það er orðið samtrygging sem löngum hefur loðað við valda- og viðskiptaöflin í þessu litla landi. 


Segir enginn af sér? Enginn sóttur til saka?

Spaugstofan1 Skýrsla stýrihópsins sem fjallaði um samruna REI og GGE er ekki aðeins áfellisdómur "um alla stjórnsýslu málsins" eins og segir í frétt mbl.is. Skýrslan leiðir einnig í ljós alvarlega bresti ákveðinna einstaklinga. Umboðssvik er líklega rétta orðið yfir gjörðir þáverandi borgarstjóra Reykvíkinga, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Maðurinn starfaði í umboði almennings - hann átti að gæta milljarða verðmæta í almenningseigu - hann brást því trausti. Hann sagði vísvitandi ósatt, oftar en einu sinni, eins og kom fram í greinargóðri Kastljóssumfjöllun í gærkvöld.

Nú hefur fengist staðfest að ekki aðeins voru verkferlar og valdmörk óskýr, heldur voru stórar og afdrifaríkar ákvarðanir teknar án fullnægjandi umræðu eða samþykkis kjörinna fulltrúa. Í ljós er komið að fulltrúi FL-Group hafði beina aðkomu að gerð þjónustusamningsins milli REI og Orkuveitu Reykjavíkur. Aðkoma FL-Group var mikil og jafnvel ráðandi í samningagerðinni. Stýrihópurinn er sammála um að trúnaðarbrestur hafi orðið milli æðstu stjórnenda REI og OR annars vegar og ákveðinna borgarfulltrúa hins vegar.

Og samt segir í skýrslunni að hún sé "málamiðlun" meðlima hópsins og að farinn hafi verið "meðalvegur" í orðalagi hennar.

Detta mér nú allar dauðar lýs - ætlar enginn að segja neitt við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sem ítrekað fór með ósannindi? Eða þurfa sveitarstjórnarmenn ekki að axla ábyrgð þegar þeir verða uppvísir að vísvitandi blekkingum? Og hvað með stjórnir þessara fyrirtækja sem tóku þátt í samsærinu - eða aðra sem þarna spiluðu með? Allir þessir aðilar eru rúnir trausti. Þeir hafa brotið af sér - alvarlega. Mál Árna Johnsens er hátíð miðað við þetta.

Hér kemur engin "málamiðlun" til greina. Á sama tíma og mönnum er varpað í fangelsi fyrir að stela sér skiptimynd á bensínstöðvum, neitaég að trúa því að þessi skýrsla verði látin duga sem endapunktur þessa máls.  Ef svo fer, þá búum við ekki í lýðræðislegu réttarríki. 

 

 


mbl.is REI skýrslan áfellisdómur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er skólakerfið (enn) eins og herþjónusta?

Barn að lesa Félagi minn sendi mér að gamni viðtal sem birtist við Jón Gnarr í blaði um daginn - það hafði farið framhjá mér. Þarna ræðir Jón Gnarr meðal annars reynslu sína af skólakerfinu - og líkir henni við herþjónustu. Sjálfur átti Jón við athyglisbrest og ofvirkni að stríða sem barn og unglingur, og í viðtalinu kemur fram að hann hefur mátt vinna mikið í sjálfum sér. Það er því athyglisvert að lesa um reynslu hans af íslensku skólakerfi - og satt að segja heyrði ég í lýsingum hans enduróm af ýmsu sem ég minnist sjálf frá minni skólagöngu. Nú er spurningin - hafa hlutirnir mikið breyst?

Hér kemur búturinn sem mér fannst áhugaverður. Jón segir um skólakerfið:

„Það kennir þér ákveðin gildi sem þú mátt aldrei efast um. Þú mátt aldrei efast um mikilvægi þess að kunna dönsku. Það er ekki til um­ræðu, þetta eru reglur sem þú hlýðir. Þeir sem stunda vel kjarnafögin sem eru grundvallarstoðir skólakerfis­ins hljóta umbun, beina og óbeina. Velþóknun leiðbeinanda - þeir sýna þér velþóknun, hrós. Þeir sem á einhvern hátt vilja ekki eða geta ekki tileinkað sér námið mæta afgangi. Stuðningskennsla fellur niður vegna veikinda starfsfólks eða tímaleysis. Það segir manni að þetta er bara hlutur sem mætir afgangi.

Grunnfög eins og stærðfræði ganga fyrir og tekst vel að fylla upp í vönt­un á kennurum þar. Mér finnst misk­unnar­laust hvernig farið er að því að  aðgreina þá sem geta tileinkað sér og þá sem geta ekki tileinkað sér. Verið er að búa til einstaklinga sem vert er að veðja á fyrir samfélagið. Mað­ur­inn með dönskuna, stærðfræðina og ísl­ensk­una á og sýnir að hann er „player" hann spilar með og er góður hermaður."

Jón þú munt aldrei verða...

„Ég var í opnum skóla,  Fossvogs­skóla. Auðvitað tekur maður til sín það sem að sagt er við mann í skóla hvort sem það er jákvætt eða neikvætt. Það var sagt við mig mjög snemma að ég ætti að verða leikari og rit­höf­und­ur. Mér fannst það gaman. Mig lang­aði mjög ungur til þess að verða bæði. Ég sá fyrir mér að í framtíðinni væri ég að skapa hugmyndir því að þær sköp­uð­ust sjálfkrafa í hausnum á mér. Ég gat matreitt hugmyndir sem voru ýmist fyndnar og athyglisverðar en ég vissi ekki með hvaða hætti ég gæti notað þær. Kennarar sögðu við mig alla barna­skóla­göngu mína: „Þú kemst aldrei neitt áfram á kjaftavaðli Jón. Jón, þú munt aldrei ná árangri í lífinu með fíflagangi." Þetta var kol­rangt. Ég hef náð árangri í lífinu með þessu tvennu; kjaftavaðli og fíflagangi."

 Í lok viðtalsins kemur Jón Gnarr inn á umhugsunarvert atriði. Hann segir:

„Óeðlileg hegðun er oft eðlileg viðbrögð við eðlilegum aðstæðum. Óeðli­legu aðstæðurnar eru oft duldar þegar hegðunin verður auðsjáanleg. Ég er ekki að segja að það sé alltaf. En oft er vandamálið miklu stærra en einn einstaklingur. Það verður að skoða hann sem hluta af þeirri heild sem hann tilheyrir. Ég í Fossvogs­skóla gekk ekki upp. Ef ég hefði verið í Skemmtilega skóla Reykjavíkur þá hefði ég brillerað. Ég hefði fengið að tala og vera fyndinn og skemmtilegur og fengið að segja sögur allan daginn og læra á hljóðfæri og setja upp leik­rit. Ég hefði verið aðalkrakkinn í þeim skóla. Hvort var rangt skólinn eða ég? Þar sem ég er manneskja en skól­inn ekki þá hallast ég að því að þeir hafi haft rangt fyrir sér."

Umhugsunarvert Woundering

 


GSM-samband á Ströndum - en hvað með Ísafjarðardjúp?

gjogurbryggja "Ekkert minna en bylting hefur orðið í útbreiðslu GSM-sambands á Ströndum og á siglingaleiðum og miðum á Húnaflóa eftir að Vodafone kveikti á langdrægum GSM-sendi á Steinnýjarstaðafjalli ofan við Skagaströnd" segir á fréttavef Strandamanna nú um helgina. Þeir eru harla kátir yfir þessu Strandamenn, sem vonlegt er. Við þetta kemur inn GSM-samband víða á Ströndum þar sem sjónlína er yfir á Skaga. Sendirinn dregur um 100 km en um 50 km eru í loftlínu frá Skagaströnd að Gjögri.

Gott - ég óska Strandamönnum til hamingju.

En hvenær skyldi röðin koma að Ísafjarðardjúpi sem enn er sambandslaust að mestu? Nýlega fór þungaflutningabíll þar út af fyrir skömmu í vonskuveðri. Ökumaðurinn vissi ekki hvar hann var staddur, svo mikill var snjóbylurinn. Hann taldi það guðsmildi að hafa þó náð símasambandi. Venjulegur farsími hefði ekki náð sambandi á þessum slóðum. Komið hefur fyrir að bílar hafa lent í óhöppum þarna og farþegar og ökumenn þurft að bíða tímunum saman eftir aðvífandi aðstoð, vegna þess að ekki er hægt að hringja eftir hjálp.

Ekki er ýkja langt síðan bæjarstjórinn í Bolungarvík mátti dúsa dágóða stund með börn í aftursætinu hjá sér eftir bílveltu á Steingrímsfjarðarheiði - hann náði ekki farsímasambandi - og því hreinasta mildi að ekki höfðu orðið umtalsverð slys á fólki við óhappið. 

Þetta er umhugsunarefni fyrir alla þá sem málið varða: Fjarskipafyrirtæki og -yfirvöld.

 *

PS: Ég tók mér það bessaleyfi að birta þessa mynd af strandir.is - það fylgir því miður ekki sögunni hver tók hana.


Hvað má og hvenær?

ronar Einu sinni var það útbreidd skoðun að ögrandi klæðaburður konu gæti verið réttlæting fyrir kynferðislegri misbeitingu gegn henni. Það eru ekkert mörg ár síðan fórnarlömb nauðgana  fundu fyrir slíku viðhorfi á lögreglustöðvum og víðar í samfélaginu. Konur voru spurðar hvað þær hefðu verið að þvælast einar, af hverju þær hefðu verið í svona aðskornu og stuttu pilsi. Hvers vegna þær hefðu farið heim með karlmanni.

Þetta viðhorf þykir ekki viðeigandi lengur. Af hverju? Jú, m.a. vegna þess að karlmenn vilja ekki láta líta á sig sem skynlausar skepnur sem megi hvergi sjá beran blett án þess að missa stjórn á sér. Samfélagið fellst ekki á það að menn geti ekki haft stjórn á sér.

Nú er hinsvegar annað skylt viðhorf uppi, sem mér finnst jafn niðurlægjandi fyrir þá sem halda því fram. Það er að þekktir einstaklingar - fólk sem nýtur frægðar, t.d. vegna stjórnmálaþátttöku - megi búast við "hverju sem er", eins og það sé eitthvert sjálfsagt náttúrulögmál að það megi allt ef einhver á annað borð hættir sér inn í frægðina.

Ekki alls fyrir löngu lenti Björk í því að missa stjórn á sér gagnvart ljósmyndara sem gerðist nærgöngull við hana. Þá var þetta sama viðkvæði uppi. Þeir sem hneyksluðust á viðbrögðum Bjarkar sögðu bara: "Hún vildi frægðina - fólk sem þráir athygli verður bara að taka því þegar það fær hana óskipta." Það er einhver tónn í þessu sem mér líkar ekki.

Þegar fólk gefur kost á sér í stjórnmálum vill það láta gott af sér leiða, leggja samfélagi sínu lið, skyldi maður ætla. En það er ekki sjálfsagt mál að fólk ofurselji mannréttindi sín og persónulega friðhelgi í skiptum fyrir frægð og frama. Ef manneskja vill koma list sinni á framfæri - þá þarf hún vitanlega á opinberri athygli að halda, hvort sem hún þráir þá athygli eða ekki. En hvað með það?

Varla getur það verið ásættanleg réttlæting fyrir því að "hinir" - álitsgjafarnir, grínistarnir, bloggararnir, blaðamennirnir, ljósmyndararnir - megi bara gera hvað sem er? Það er ekki í lagi að áreita söngvara með myndatökum hvar og hvenær sem er án þess að sinna bón eða tilmælum um frið. Það er ekki í lagi að hafa veikindi fólks í flimtingum; hnýsast í einkalíf þess; grípa á lofti allt sem gömlum vinum eða kunningjum kann að hafa mislíkað við viðkomandi á lífsleiðinni - af því viðkomandi hætti sér út á hinn opinbera vettvang. Það er ekkert náttúrulögmál að menn verði að sæta höggum, bara vegna þess að þeir hættu sér út á opið svæði.

Við, hinn svokallaði almenningur, erum ekki skynlausar skepnur. Mannlegt samfélag er ekki mannýg nautahjörð sem hlýtur að leggja til atlögu ef hún sér rauða dulu. Það má aldrei verða þannig.


Nú gekk Spaugstofan of langt

Í gegnum tíðina hefur maður oft látið sig hlakka til laugardagskvölda með fjölskyldunni. Spaugstofan á sínum stað, nammi í skálum og svona. Maður kemur sér vel fyrir og nýtur þess með öðrum að horfa á samfélagið (og þar með sjálfan sig) í spéspegli.

Ég skal þó viðurkenna að í seinni tíð hefur þessum stundum farið fækkandi - þó Spaugstofan sé á sínum stað og mannskapurinn framan við sjónvarpstækið líka. Þeir eru bara farnir að missa húmorinn.

 Og í gær tók steininn úr.

Látum hnífaklisjuna vera - hún var þó bara leiðinleg. En atriðið um Ólaf Þ. Magnússon tók öllu fram í lágkúru. Það var svo niðurlægjandi -  fyrir Spaugstofuna - að mér er eiginlega brugðið.

Oft hef ég hlaupið í vörn fyrir Spaugstofumenn og staðið með þeim - enda tel ég að háðsádeilur séu oft beittustu og bestu uppeldistæki samfélaga gagnvart spillingu og hugsanaleti. En háð er vandmeðfarið - og ekki má mikið út af bregða til þess að hárbeittur húmor missi marks. Í gærkvöld brást þeim félögum algjörlega bogalistin.

Þetta var bara sorglegt - og eiginlega er vandséð hvort þeir Spaugstofumenn eiga sér viðreisnar von eftir þessa hraksmán.


Hvað eru skrílslæti?

radhus1 Ég hef séð fólk klappa og stappa af gleði og fögnuði á tónleikum. Eru það skrílslæti? Íþróttafréttaritarar æpa sig hása í útvarpi og sjónvarpi án þess að nokkur kalli þá óþjóðalýð.

Hvað gerðist þá í ráðhúsinu? Þar var hópur fólks sem lét tilfinningar í ljósi yfir gjörningi sem margir álíta skrumskælingu á lýðræði. Þetta fólk hrópaði og stappaði. Hvað ef þetta hefðu verið fagnaðarlæti? Hefði það verið skandall?

Ég minnist þess þegar ég var í borgarstjórn 1990-1994 að fólk mætti einstöku sinnum á palla í heitum málum. Þá var klappaði fyrir ræðumönnum, jafnvel púað, án þess að forseti væri í sífellu að áminna það eða krefja um "hljóð í salnum". Hefði Hanna Birna bara leyft fólki að klappa, eða púa, milli þess sem menn stigu í ræðustól, án þess að vera sífellt að áminna það - æsa það upp, liggur mér við að segja - þá hefði þetta kannski farið öðruvísi. 

Ég get auðvitað ekki dæmt um annað en það sem ég sá og heyrði í sjónvarpinu. Þarna var fólk á öllum aldri, úr ýmsum áttum. Unga fólkið lét vissulega mest til sín heyra - sem vonlegt er. En að stimpla alla þá sem þarna voru sem "óþjóðalýð" og þátttakendur í skrílslátum, það finnst mér allt of langt gengið. Sú umræða er orðin að smjörklípu - hún er til þess fallin að draga athyglina frá sjálfri orsökinni.

Enginn er reykur án elds: Tilfinningahitinn á áhorfendapöllunum átti sér orsök - þeirri orsök skulum við ekki gleyma.


Almenningi er nóg boðið

Ótrúlega er sorglegt að fylgjast með útsendingu frá borgarstjórnarsalnum núna - mínum gamla vinnustað. Og ekki get ég láð almenningi sem er mættur á pallana að láta tilfinningar sínar í ljós. Satt að segja líður mér ekki ósvipað. Hver hljóðbylgja sem berst frá áheyrendapöllunum er bylgja frá mínu eigin hjarta.

Dagur B. Eggertsson má vera stoltur af sinni hundrað daga borgarstjóratíð. Félagar hans í fráfarandi meirihluta mega vera stoltir af starfi sínu í þágu borgarbúa. Þetta fólk hefur staðið ölduna á forsendum málefnastöðu, það hefur staðið vörð um velferð borgarbúa, helgað sig almannaheill af ábyrgð og heilindum. 

Menn skulu ekki gleyma því hvernig þetta fólk forðaði mikilvægum verðmætum í almenningseigu frá því að vera sett í hendur einkaaðila.

dáð sem fráfarandi meirihluti drýgði síðastliðið haust mun lengi verða í minnum höfð. Hún verður enn stærri og glæstari í minningunni samanborið við starfsaðferðir þeirra sem nú eru aftur að taka við stjórnartaumum að afstöðnu valdaráni.

Já, það var framið valdarán í Reykjavík - og það er ekkert sem hægt er að gera við því. Í landsstjórninni er hægt að rjúfa þing og efna til kosninga - en ekki í sveitarstjórn. Það er enginn lagabókstafur sem verndar almenning fyrir atburðarás af því tagi sem nú hefur átt sér stað.

Það er umhugsunarefni.

Eina leiðin sem fólk á til þess að tjá álit sitt á því sem gerst hefur er að mæta á pallana og láta tilfinningar sínar í ljós. Og það hefur gerst núna.

Í þessum töluðu orðum er lögreglan mætt á staðinn - en áheyrendur halda áfram að klappa og stappa. Það er upplausnarástand og heitar tilfinningar.

Almenningi er augljóslega nóg boðið, eins og við mátti búast.

 

 


Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn

Þessi handabakavinnubrögð minna óþægilega á vinnubrögð sama fólks í OR og REI málinu mikla, þegar borgarstjórinn þáverandi las ekki fundargögnin af því hann skildi ekki enskuna - og frekar en láta lögfræðingana hjá borginni fara í gegnum gögnin og gera samantekt um málið, reyndi hann að fela vanþekkingu sína. Hann ætlaði að sigla inn í stóra ákvarðanatöku án þess að vita hvað hann var að gera.

Nú myndar hann meirihluta með Ólafi F. Magnússyni - og báðum liggur svo á að komast að kjötkötlunum að hvorugur kannar baklandið. Hvorugur veit raunverulega hvað hann er að gera.

Þetta segir allt sem segja þarf um trúverðugleika og vinnubrögð þessa "nýja" meirihluta.  

Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Í hinni nýju valdakeðju borgarstjórnar er veikur hlekkur - mjög veikur.


mbl.is Töldu Margréti með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óstarfhæf borgarstjórn

Ég myndi halda að Borgarstjórn Reykjavíkur væri óstarfhæf við núverandi aðstæður. Tiltrú stjórnmálamanna hefur beðið alvarlega hnekki: Nýstofnað meirihlutasamstarf veltur á einum manni, sem hleypur úr einum meirihluta í annan eins og jójó, án tilefnis. Hann hefur ekki einu sinni flokk á bak við sig. Talar ekki við sinn nánasta samverkamann.

Sex sinnum sama daginn sver hann af sér svikráðin og fer með hrein ósannindi. Á þessum manni veltur hinn nýi meirihluti! Þetta ástand er ekki borgarbúum bjóðandi.

Þessi "nýi meirihluti" er hagsmunabandalag sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera við einn mann: Ólaf F. Magnússon. Díllinn gengur út á valdastóla, ekki málefni. Því þó svo að Ólafur hafi veifað einhverju sem hann kallaði málefnasamning á blaðamannafundinum þá var auðheyrt að þar var ekkert sem rekja má til málefnaágreinings við hans fyrrverandi félaga. 

Enginn af fyrrverandi félögum Ólafs kannast heldur við ágreining. Hið eina sem knýr þessa atburðarás áfram er persónuleg valdagræðgi sem þessi maður deilir með fyrrum fjandvini sínum, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og fólkinu sem var fyrir ekki svo löngu síðan "til í allt án Villa." Það eru hlekkirnir í valdakeðjunni.

Velferð borgarbúa er í höndum þessa fólks!

Ólafur F. Magnússon kom öllum að óvörum úr veikindaleyfi eftir að myndaður hafði verið nýr meirihluti í Reykjavík s.l. haust. Þá reis hann upp af sjúkrasæng - kominn til áhrifa. Margrét Sverrisdóttir sem hafði unnið vinnuna hans mánuðum saman mátti víkja til hliðar. Hún vissi ekki um þennan nýja meirihluta fyrr hann var til orðinn síðdegis í dag.

Sex sinnum á einum degi sver Ólafur af sér svikin í samtali við Dag B. Eggertsson og leggur "heiður" sinn að veði. Já, hann lærði sitthvað af Vilhjálmi Þ. eftir meirihlutaviðræðurnar í fyrra. Og hefur nú sannað fyrir öllum að á þeim tveimur er enginn munur. Líkur sækir líkan heim.

Og valdið togar. Nú vantar ekki blíðmælgi og hamingjuóskir fulltrúa Frjálslynda flokksins - þó Ólafur hafi raunar sagt sig úr þeim flokki fyrir allnokkru. Og ekki vantaði mjúkmæli grillmeistarans Hannesar Hólmsteins sem í viðtali á Stöð-2 bauð Ólafi að koma inn í Sjálfstæðisflokkinn á ný. Svo taldi hann upp nokkra aðra undanvillinga í Frjálslynda flokknum sem ættu nú bara að koma heim aftur. Og svei mér ef Guðjón Arnar var ekki farinn að tala á svipuðum  nótum í viðtali við Jóhönnu Vigdísi. Það er makalaust að fylgjast með þessu.

Á meðan standa borgarbúar agndofa. Starfsmenn borgarinnar vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þvílíkur skrípaleikur!

En fulltrúar ríkisstjórnarinnar þegja þunnu hljóði - skyldi enginn hafa gengið á fund Geirs Haarde í dag - með eða án Villa?


mbl.is Allt upp á borð varðandi REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband