Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hverjir eiga að greiða fyrir Hvalfjarðargöng?

hvalfjardargong-visindavefur Ríkisútvarpið greindi frá því í morgun að ekki stæði til að fella niður veggjald í Hvalfjarðargöngin í bráð. Að minnsta kosti mun það ekki vera forgangsmál í samgönguráðuneytinu að svo verði.

Nú  minnir mig að á sínum tíma hafi gjaldið verið sett á til þess að greiða fyrir gerð ganganna. Einhversstaðar hefur komið fram að uppgreiðsla framkvæmdakostnaðar hafi gengið mun hraðar en búist var við, enda hefur Spölur hagnast ágætlega. Á síðasta ári var hagnaður fyrirtækisins 282 mkr, eftir skatta.

 Því hlýtur sú spurning að gerast áleitnari hvort ekki sé tímabært að létta greiðslubyrðinni af vegfarendum um Hvalfjarðargöng og færa hana yfir á ríkissjóð. Við skulum hafa í huga að það eru nær eingöngu Vestlendingar, Vestfirðingar og Norðlendingar sem eiga leið um göngin, og bera þ.a.l. þyngstan hluta þeirrar greiðslubyrði sem hlýst af veggjaldinu.

Nú er verið að tvöfalda Reykjanessbraut. Ekki stendur til að láta vegfarendur greiða fyrir það, eða hvað? Finnst ekki öllum sjálfsagt að ríkið greiði fyrir þá framkvæmd? Því ættu þá íbúar tveggja kjördæma - Norðvestur- og Norðaustur - að bera vegatolla af Hvalfjarðargöngum, sem eru önnur helsta samgönguæðin frá Reykjavík til landsbyggðar? 

Hitt er svo annað mál að það er orðið tímabært að tvöfalda Hvalfjarðargöng. Þeir sem fara þarna um vita vel að útblásturskerfið annar ekki lengur þeirri miklu umferð sem þarna er, og slysahætta í göngunum er vaxandi, þar sem umferð um göngin er umtalsvert meiri en ráð var fyrir gert í fyrstu.

 Þegar hagnaður af göngunum er farinn að skipta hundruðum milljóna skyldi maður ætla að forsendur hefðu skapast fyrir slíkri framkvæmd - ég tala nú ekki um ef menn ætla að halda áfram að innheimta veggjaldið.

 


Sóley og Katrín Anna sérstakir gestir hjá mér á morgun

Það er ekkert lát á femínistaumræðunni.

Annað kvöld - föstudagskvöld - verður þátturinn minn á ÍNN helgaður kvennabaráttu og jafnrétti. Þær Sóley Tómasdóttir og Katrín Anna Guðmundsdóttir verða gestir í þættinum og við mun BARA tala um kvenréttindabaráttuna: Umræðuna eins og hún  hefur verið að undanförnu, baráttuaðferðir femínista, Silfur Egils, bleikt og blátt ... það verður allur pakkinn Whistling

 

Þátturinn "Mér finnst", rás-20 á Digital Ísland kl. 21:00 annað kvöld. Sjáumst Kissing


Femínismi og rasismi

Femínistar eiga ekki upp á pallborðið í bloggheimum um þessar mundir. Mér satt að segja hrýs hugur við þeim munnsöfnuði sem fram hefur komið í þeirra garð að undanförnu. Um leið velti ég því fyrir mér hvað valdi þessu.

Fyrir tuttugu árum - þegar ég var enn ung og bjartsýn kona - taldi ég að við konur stæðum á þröskuldi þess að ná fram fullu jafnrétti. Að vísu heyrði maður stundum talað í fyrirlitningartóni um rauðsokkurnar. Það var sami tónninn og heyrðist þegar "allaballa" og hernámsandstæðinga bar á góma. Þá fylgdi jafnan viðskeytið "lið" (þetta hernámsandstæðingalið - þetta vinstralið).

Jæja, þetta var þá. Ég trúði því statt og stöðugt að svona yrði þetta ekki lengi. Og þegar dætur mínar fæddust leyfði ég mér satt að segja að vera bjartsýn fyrir þeirra hönd. Trúði því að þegar þær kæmust á minn aldur (sem þær eru á núna) myndi þjóðfélagið líta allt öðruvísi út, og tækifæri ungra kvenna verða hin sömu og tækifæri ungra karla. Þá á ég ekki bara við atvinnutækifæri og menntun heldur líka kaup og kjör, að ég tali nú ekki um virðingu fyrir konum.

Jæja. Mikið vatn er til sjávar runnið, og vissulega hefur ýmislegt áunnist. Konur eru meirihluti þeirra sem stunda háskólanám. Og þær eru að hasla sér völl á vísindasviðinu. Nú nýlega voru tíu stúdentar verðlaunaðir fyrir framúrskarandi vísindastörf í raunvísindum - þar af átta stúlkur. Ó, já. Konurnar eru að standa sig. Þær geta og vilja. Ég held þær þori líka.

Samt er enn langt í land að þær njóti kjara og tækifæra til jafns við karlmenn. Enn eru stjórnir fyrirtækja að stærstum hluta skipaðar körlum. Kannanir sýna að konur eiga enn langt í land með að ná launajafnrétti. Í opinberri umræðu eiga þær líka undir högg að sækja - einkum þær sem standa fremstar í flokki fyrir kvenréttindum.

Nú má vera að forsvarsmenn femínista hafi í einhverju farið of geyst - eða öllu heldur teygt baráttuna inn á ómarkvissar brautir. Sjálf get ég verið þeim ósammála um eitt og annað (nefni bara nýlega umræðu um bleik og blá ungbarnaföt). Hvað um það. Ég er þeim þakklát fyrir að halda uppi umræðu um kvenréttindi. Við þurfum ekki að vera sammála um alla hluti. En ég er þeim sannarlega þakklát fyrir að standa fremstar í flokki og halda umræðunni áfram þrátt fyrir oft á tíðum neikvæð viðbrögð og niðrandi umtal.

Því finnst mér nóg komið af munnsöfnuði og ofstopa þeirra sem ekki eru sammála talsmönnum kvenréttinda hér á netinu. Sumt af því sem hér hefur verið látið fjúka er ekkert annað en rasismi sem beinist að tilteknum skoðanahópi. Sú tilhneiging að skipta málsmetandi konum í tvo hópa, femínista og svo aðrar konur, er heldur ekki gæfuleg að mínu mati.

Hver er mælikvarðinn á femínista? Er orðið femínisti orðið skammaryrði? Ef svo er, þá er kominn tími til fyrir okkur konur að spyrna við fótum og taka til varna fyrir þær konur sem standa fremstar í þessari víglínu. Þær eru ekki að berjast fyrir sig einar. Munum það.

 


Ráðhagur og ráðynja

Nú tek ég Reykásinn í ráðherramálinu: Cool  Eftir á að hyggja mætti kannski reyna að finna nothæf kynskipt orð yfir ráðherra - þó ég sé enn sem fyrr á móti því að breyta rótgrónum orðum. En EF menn finna GOTT orð og ÞJÁLT, tja .... þá má auðvitað skoða það ...

Tvær tillögur sem ég fékk í athugasemdakerfið mitt í gær vöktu mig til umhugsunar - svona geta góðar tillögur stundum snúið þverustu sauðum Wink  Sigríður Svavarsdóttir stakk upp á orðinu "ráðhagur" og Kári S. Lárusson kom með orðið "ráðynja". Hvort tveggja eru falleg orð - og því langar mig að vekja athygli á þeim hér fari svo að menn fari út í það að skipta um starfstitil á ráðherrum (sem mér finnst auðvitað óþarfi - en best að hafa varaáætlun ef út þetta verður farið).

 Ráðhagur og ráðynja - spáið í það.


Ráðherra - ráðsmaður - ráðskona - ráðslag .....

Ég veit að ég er ekki að bregðast við nýjustu fréttum. Samt verð ég að koma aðeins inn í þessar vangaveltur um ráðherranafngiftina - og þá tillögu Steinunnar Valdísar að fundið verði nýtt heiti yfir ráðherra.

Þó ég sé hafi oft verið sammála Steinunni Valdísi, þeirri mætu konu, þá get ég ekki tekið undir með henni núna.

Tungumálið sjálft er söguleg heimild. Það á við um starfsheiti, orðatiltæki og hvaðeina. Enn tölum við um að leggja árar í bát, vaxa fiskur um hrygg, skara eld að eigin köku - svo tekin séu fáein dæmi úr daglegu máli sem þykir gott og gilt. Hið fagra orð ljósmóðir er söguleg heimild um þá staðreynd að það voru fyrst og fremst konur sem sinntu barnsfæðingum. Ég sé enga ástæðu til þess að breyta starfsheitinu þó að karlmaður sinni því, enda vandfundið fegurra orð.

Sama á við um ráðherra. Orðið herra er hvort sem er gamalt orð sem við notum eiginlega ekki lengur nema við hátíðlegustu tækifæri. Það er barn síns tíma, eins og séra. Þegar fyrstu kvenprestarnir tóku vígslu var um það deilt hvort þær gætu borið titilinn séra þar sem hann þýðir einmitt herra (sbr. enska orðið sir). En hví skyldu konur ekki geta verið herrar í merkingunni sá/sú sem ræður? Var ekki Bergþóra kona Njáls sögð drengur góður - og kynsystur hennar margar hverjar skörungar, jafnvel vargar ef því var að skipta. 

Þó tekur steininn úr þegar konur vilja ekki vera menn, til dæmis blaðamenn og alþingismenn heldur aðgreina sig sérstaklega sem blaðakonur og alþingiskonur. Ekki skólastjórar heldur skólastýrur.  

Nei - ég nenni ekki að taka þátt í þessu, enda veit ég ekki hvaða endi þetta ætti þá að taka. Ég hef verið blaðamaður um mína daga, borgarfulltrúi, skólameistari, háskólakennari og rithöfundur - þetta eru allt karlkynsorð til vitnis um tíma sem voru áður og fyrr. Mér þykir vænt um þessi orð og ég vil ekki eigna þau öðru kyninu þó að þau beri þeim uppruna vitni að hafa einhverntíma verið karlmannsverk. Þann dag sem enginn tekur lengur eftir því hvort starfsheiti er kk, kvk eða hk - þann dag hafa skapast alvöru forsendur fyrir kynjajafnrétti. 

En svo ég hagi mér nú eins og útsmoginn lögfræðingur - þá er ég að hugsa um að setja fram varakröfu varðandi þetta mál með ráðherrana: Ef menn vilja endilega taka upp kynskiptingu í nafngiftum - þá bendi ég á tvö orð sem bíða þess bara að verða tekin úr sínu hverfandi hlutverki og sett í nýtt. Þetta eru þau virðulegu starfsheiti  "ráðsmaður" og "ráðskona" Smile


Guðni ljóstrar upp leyndarmáli

gudni_agustsson Guðni er að "kjafta" frá. Í fréttatímum gærdagsins var sagt frá því hvað forseti Íslands hefði "ætlað" að gera við fjölmiðlafrumvarpið hér um árið "ef" það hefði .... o.s.frv. Heimildamaðurinn er Guðni Ágústsson, núverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra. Guðni átti nefnilega "leynifund" með forsetanum um þetta leyti og varð þess þá áskynja hvernig forseta vorum var innanbrjósts. Guðni lýsir þessum fundi, ummælum forseta og yfirbragði. Guðni er nefnilega að gefa út bók - eins gott að hafa eitthvað bitastætt fram að færa þegar maður stendur í bóksölu.

Ég vona að ég sé ekki ein um það að finnast þetta óviðeigandi: Að upplýsa alþjóð um það sem fram fer á óformlegum tveggja manna fundi - trúnaðarfundi - leynifundi. Mér finnst að Guðni hafi þarna stigið yfir ósýnileg siðferðismörk. Og það sem verra er - hann hlýtur að vita að hann er einn til frásagnar. Forsetinn getur ekki tjáð sig um þetta mál - embættis síns og virðingar vegna. Það sér hver heilvita maður. Forsetinn hlýtur að telja sig bundinn af hinum óskráðu lögum um þagmælsku þegar tveir talast við og engum öðrum vitnum verður við komið.

En Guðni rýfur trúnaðinn - hann þarf að selja bók.

Þetta er ekki ósvipað þeim hvimleiða sið sem mörg dæmi eru um erlendis og því miður nokkur hérlendis - að hlaupa í blöðin með lýsingar á einkasamskiptum þegar fólk er skilið að skiptum. Segja "söguna alla" eins og það er stundum orðað. Þetta er alltaf ójafn leikur - og oft ljótur.

Í raun skiptir ekki svo miklu hvort um er að ræða einkamál eða stjórnmálaleg samskipti. Tveggja manna tal er alltaf tveggja manna tal. Menn eiga ekki að vitna í slík samskipti.

Trúað gæti ég líka að stjórnmálamenn þjóðarinnar hugsi sig um tvisvar áður en þeir eiga trúnaðarfundi með formanni framsóknarflokksins.


Lögvarðir hagsmunir hverra? Svandísar eða Reykvíkinga?

Nú er því haldið fram á heimasíðu Daggar Pálsdóttur í dag að Svandís Svavarsdóttir hafi aldrei haft "lögvarða hagsmuni af því að fá dóm í máli sínu" gegn Orkuveitu Reykjavíkur. Og hversvegna ekki? Jú, lögmaðurinn miðað við "dómaframkvæmd". Shocking

 

Dögg viðurkennir að vísu að "fundurinn virðist ólöglega boðaður miðað við þær reglur sem giltu um boðun fundar". En af því allir mættu, þá sé fundurinn löglegur. Þar af leiðandi hafi verið ástæðulast af Orkuveitunni að ganga til dómsáttar við Svandísi, hún hafi verið með "gjörtapað" mál.

 

Mér finnst þetta undarlegur málflutningur hjá lögmanninum. Verð bara að segja það. Svandís Svavarsdóttir sat ekki sem einstaklingur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Hún var ekki að knýja fram sína persónulegu hagsmuni með málshöfðun, heldur hagsmuni almennings. Hún sat í stjórninni sem fulltrúi Reykvíkinga, og þeir eiga svo sannarlega lögvarða hagsmuni í þessu makalausa máli.  

Það er kjarni þessa máls, hvað sem líður dómaframkvæmdum.

 


Ef hjá henni mömmu einn fimmeyring ég fengi!

Í vísunni um telpuna og fimmeyringinn - sem oft heyrðist sungin á árum áður - var sú stutta að láta sig dreyma um það hvernig hún myndi ráðstafa öðrum eins fjármunum og heilum fimmeyringi. Og hún var sko ekki í vandræðum með það. Ætlaði að kaupa einhver ósköp og gefa svo mömmu allan afganginn --- nei, pabba var það víst. "Glöggur" lesandi hefur bent mér á að vísan snerist um telpuna og pabba, ekki mömmu: "Ef hjá honum pabba, einn fimmeyring ég fengi" hljómar þetta í upprunalegu gerðinni. Ég sneri kynhlutverkunum við - og tók ekki einu sinni eftir því sjálf. Vonandi er það þó góðs viti Smile 

Jæja, en fimmeyringar eru ekki lengur til sem mynt - og einfeldni okkar Íslendinga í peningamálum heyrir brátt sögunni til. 

 Á Íslandi hafa orðið til tvær þjóðir. Launamunur sá sem við nú þekkjum milli stóreignamanna og almennings er slíkur að við getum ekki lengur talað um að hér búi ein þjóð í einu landi. Því miður.

Ofurlaun stjórnenda í einkafyrirtækjum eru af þeirri stærðargráðu í mörgum tilvikum að venjulegt fólk á erfitt með að gera sér þær upphæðir í hugarlund. Þar á bæjum eru mánaðarlaunin talin í árstekjum venjulegs launafólks. Og hagnaðartölur í viðskiptalífinu þar sem menn geta verið að græða hundruð milljarða í viðskiptum, líkt og æ fleiri dæmi eru um, þær eru eitthvað sem við Íslendingar höfum ekki vanist. Þó svo við heyrum slíkar fréttir æ oftar held ég að við venjumst þeim seint.

Ég á erfitt með að ímynda mér hvernig ég myndi ráðstafa 10 milljörðum - en tíu milljarðar eru víst ekkert sérlega há tala í viðskiptalífinu.

Fyrst myndi ég stofna framfærslusjóð fyrir öll börnin mín. Kaupa eitthvað handa mömmu. Svo myndi ég kaupa mér hús, jeppa, sumarbústað og góðan reiðhest. Kannski annan hund. Þá færi ég líklega að huga að stofnun styrktarsjóðs fyrir góðgerðarmál. Ég myndi gefa eitthvað til menningarmála.

En þá væri ég sennilega bara búin með einn eða tvo milljarða. Hvað ætti ég þá að gera við hina átta eða níu? Woundering

Þetta var einfaldara meðan fimmeyringar voru ennþá verðmæti. Ennþá eru það þó karlmenn sem hafa fjárráðin að mestu í sínum höndum - og fá í sínar hendur afganginn, sé hann einhver.


mbl.is Launin þola ekki dagsljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr landsmálavefur skutull.is

 Vestfirðir Nýr landsmálavefurm skutull.is, hefur nú litið dagsins ljós. Hann var opnaður með pompi og prakt í hádeginu í gær.

Þetta er fréttavefur tileinkaður Vestfjörðum og þjóðmálaumræðunni, ekki síst þeirri sem tengist svæðinu. Að vefnum stendur hópur áhugafólks um framsækna fjölmiðlun. Allt er það fólk sem vill veg og vanda Vestfjarða sem mestan og vill glæða skilning og áhuga á málefnum svæðisins. 

Sjálf er ég í þessum hópi, titluð fréttastjóri - en vart þarf að taka fram að öll fréttavinnsla og efnisöflun er á þessu stigi málsins unnin í sjálfboðavinnu og bætist að sjálfsögðu við önnur störf sem fólk hefur með höndum. Í framtíðinni tekst okkur vonandi að afla auglýsingatekna og nýsköpunarstyrkja til þess að standa undir einhverjum lágmarksrekstri, og greiða fólki laun.

Skutull var nafn á blaði jafnaðarmanna í Ísafjarðarbæ. Af stakri velvild hefur Samfylkingarfélagið í Ísafjarðarbæ nú eftirlátið vefsíðunni þetta táknræna nafn með velfarnaðaróskum - þar með má segja að þau hafi ýtt fleytunni úr vör. Þeim er ljóst að fréttastefna vefsíðunnar er á faglegum nótum, ekki pólitískum. Þau segjast treysta okkur - eru áhugasöm eins og við um að fjölga valkostum í fréttamiðlun á Vestfjörðum.

Svo sjáum við hvað setur.


Atvinna fyrir (k)alla?

Hvað er að gerast þegar efnt er til  málþings um "atvinnu fyrir alla" og þar er boðið upp á kynjahlutfallið 2/17 í hópi framsögumanna á þinginu - konum í óhag? Hvað er að gerast í höfði þeirra kvenna sem standa að skipulagningunni? Já, þið trúið því kannski ekki - en það eru konur sem eiga "veg og vanda" af þessari skipulagningu.

Um er að ræða málþing sem verður haldið nú á laugardag, að tilhlutan bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. Því mun ætlað að „varpa ljósi á ýmsa vaxtarbrodda í atvinnulífi Ísafjarðarbæjar“ meðal annars, og „þá möguleika sem eru fyrir hendi til að efla Ísafjarðarbæ sem miðstöð þekkingar og þjónustu á Vestfjörðum“ eins og segir í frétt um þingið. En hverjir eru þessir „allir“ sem þingið á að höfða til?

Samkvæmt auglýsingu sem nú hefur verið dreift verða framsögumenn þingsins sautján: Þar af fimmtán karla og tvær konur. Já, TVÆR konur! Ef með eru taldar þær konur sem stjórna fundinum, og ein sem ávarpar gesti í upphafi hans, mætti með góðum vilja teygja hlutfall kvenna upp í 5/20, eða fjórðung. Slíkur útreikningur væri þó ofrausn, eðli málsins samkvæmt. 

Hafa konur þá ekkert fram að færa í umræðunni um atvinnulíf staðarins? Eru þær ekki þátttakendur í ísfirsku atvinnulífi? Jú, fyrirgefið: Tvær hafa víst eitthvað til málanna að leggja. Nei, annars, bara ein – því hin kemur ekki úr ísfirsku atvinnulífi – hún er sérfræðingur að sunnan.

Því hefur verið haldið fram í mín eyru að konur séu ekki eigendur eða stjórnarformenn atvinnufyrirtækja; þær séu ekki ráðandi í sjávarútvegi og verktakastarfsemi og því hafi þetta bara „komið svona út“. Umrætt málþing sé einfaldlega spegill þess samfélags sem við búum við, og við þessu sé ekkert að gera.

Því er til að svara, að ef ekki er hægt að skipuleggja málþing um atvinnulíf á Ísafirði þannig að það endurspegli þá sem eru þátttakendur á vinnumarkaði – þá er nálgun skipuleggjendanna RÖNG.

Konur eru helmingur þátttakenda á vinnumarkaði. Við þurfum ekki að líta langt til þess að sjá þessar konur hér á Ísafirði sem annarsstaðar. Þær reka verslanir í bænum. Þær eru forstöðumenn stofnana og stoðþjónustu, stýra mikilvægum menntastofnunum – jafnt opinberum sem einkareknum. Þær reka listastarfsemi og handverksmiðstöðvar. Þær eru uppistaða alls fiskvinnslufólks. Þær eru fyrirferðarmiklar í veitingarekstri, halda uppi þjónustu á leikskólunum og sjúkrahúsunum. Þær eru með öðrum orðum meginþorri allra þeirra sem starfa að verslun og þjónustu, auk þess að vera margar hverjar virkar á vettvangi sveitarstjórnarinnar. Margar þessara kvenna hafa verið virkir þátttakendur í opinberri umræðu , félagsstörfum og menningarlífi – og þar með átt sinn þátt í því að gera þetta byggðarlag svo mannvænt sem það er.

Það er því nöturlegt að á þaulskipulögðu málþingi um atvinnumál á Ísafirði skuli konum ekki ætlaður stærri hlutur í umræðunni um atvinnulíf staðarins og möguleika þess, en raun ber vitni. Er þetta málþing þó að stærstum hluta skipulagt af konum, m.a. tveim kvenbæjarfulltrúum sem komu fram á blaðamannafundi ekki alls fyrir löngu. Þar upplýstu þær að þingið ætti ekki hvað síst að leiða í ljós „hversu gott er að búa í Ísafjarðarbæ“.

En hversu gott er fyrir konur að búa í bæjarfélagi þar sem rödd þeirra er þögguð? Hversu góð tilfinning fylgir því að vera kona í bæjarfélagi þar sem konur við völd koma ekki auga á aðrar konur sem hafi eitthvað til málanna að leggja? Hversu heilbrigt er það bæjarfélag þar sem horft er framhjá konum sem þátttakendum í atvinnulífi og opinberri umræðu?

Nógu lengi höfum við íslenskar konur barist fyrir þeim mannréttindum að vera metnar jafningjar karla á vinnumarkaði, í stjórnmálum og opinberu lífi. Í því skyni höfum við – margar hverjar a.m.k. – viljað styðja aðrar konur til áhrifa. Og víst er að nógu margar konur hafa höfðað til kvennasamstöðunnar þegar þær hafa boðið sig fram til sveitarstjórna og alþingis. Meðal annars þær konur sem nú hafa - á því herrans ári 2007 - skipulagt málþing á Ísafirði um atvinnu fyrir "alla"  (lesist: kalla).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband