Æ, Össur!

Í Spegli ríkisútvarpsins í gær var fjallað um stórmerk og áhugaverð áform um stofnun alþjóðlegs jafnréttisháskóla á Íslandi að fyrirmynd Alþjóðlega sjávarútvegsskólans, Jarðfræðiseturs Sameinuðu þjóðanna og fleiri stofnana. Rætt var við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra sem hefur beitt sér fyrir fjárveitingu til undirbúnings þessu framtaki, enda þarft verk að "kenna þjóðunum að leysa kvenorkuna úr læðingi" eins og hún orðaði það.

Fram kom að Ísland mælist efst í lífskjaravísitölu þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og vildi utanríkisráðherra þakka það stöðu íslenskra kvenna, ekki síst atvinnuþátttöku þeirra."Kvenfrelsisbarátta íslenskra kvenna hefur leyst mikla krafta úr læðingi" sagði utanríkisráðherra.

Sama dag ákvað Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra að ráða konu úr hópi 50 umsækjenda í starf ferðamálastjóra. Var það m.a. gert með vísan til jafnréttislaga. Hjartað tók gleðikipp - Samfylkingin að standa sig í jafnréttismálunum. Smile

En - sólskini fylgja einatt skuggar. Blekið var ekki þornað á skipunarskjalinu þegar sami ráðherra veitti annað embætti, og að þessu sinni var ekki vísað í jafnréttislög - kannski ekki hugsað til þeirra heldur. Nema það hafi verið yfirstjórn ráðuneytisins um megn að ráða tvær konur sama daginn?

Í starf orkumálastjóra var ráðinn hæfur karl - Dr. Guðni A. Jóhannesson, sem verið hefur forstöðumaður byggingatæknideildar Konunglega verkfræðiháskólans í Stokkhólmi undanfarin 13 ár.  Hæf kona - Dr. Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, sem nú gegnir starfi orkumálstjóra og hefur verið aðstoðarorkumálastjóri undanfarin tvö ár - fékk ekki starfið. Woundering

Iðnaðarráðherra hefur sjálfur engu svarað um þessa ráðstöfun, en talsmaður hans sagði það hafa verið "samdóma álit" ráðningastofunnar, iðnaðarráðherra, ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanns ráðherra að Guðni væri "hæfasti umsækjandinn". Þess var að vísu ekki getið hvaða atriði hefðu ráðið þeirri samdóma niðurstöðu - heldur brugðið á það velkunna ráð að nefna nokkur átorítet, og láta þar við sitja.

Fram hefur komið að báðir umsækjendur eru með doktorspróf í verkfræði. Ragnheiður Inga er auk þess með MBA í stjórnunarfræðum. Ekki má heldur gleyma því að hún er eini umsækjandinn sem hefur reynslu af starfi orkumálastjóra. Er nema von þó að konan krefjist rökstuðnings? Er nema von þó að Verkfræðingafélagið lyfti brúnum og óski skýringa?

Í jafnréttisáætlun iðnaðarráðuneytisins, segir orðrétt í 5. gr.:

"Þess skal jafnan gætt að sá umsækjandi sé ráðinn sem talinn er hæfastur til þess að gegna starfi, að teknu tilliti til menntunar og hæfni en án tillits til kynferðis. Séu tveir eða fleiri umsækjendur af báðum kynjum taldir jafn hæfir til ráðningar í auglýst starf skal að jafnaði ráðinn umsækjandi af því kyni sem er í minnihluta á viðkomandi sviði."

Vissulega hefur kvenfrelsisbarátta íslenskra kvenna leyst mikla krafta úr læðingi, eins bent hefur verið á. Að minnsta kosti er ljóst að íslenskar konur taka því ekki þegjandi lengur að vera sniðgengnar - og það er vel. Þessi ráðstöfun kallar á frekari skýringar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Nú bíðum við eftir Össuri með skýringar

En á meðan :

- Hefur aðstoðarmaður Orkumálastjóra (kona) forgang umfram aðra jafn hæfa ?

- Gefa afleysingastörf í embættinu einhvern forgang til ráðningar ? 

-  Er ekki liklegt að orkumálastjórastarfið til dagsins í dag og þess sem krafist      verður af viðkomandi til næsta áratugar geri kröfur um annan og öðruvísi þekkingar , menntunnar og reynslu bakgrunn ?   Orkumálin eru sennilega mál málanna hjá okkur á næstu áratugum-nefna má jarðvarmann með djúpborunartækni , olíuleit á hafsbotni og nýtingu - nýtækin í vatnsaflsnýtingu sem er á frumstigi-sjávarföllin, raforkuöflun þar og fl. - allt nýjir og spennandi kostir og afar kröfuharðir 

Mér finnst að iðnaðarráðherra hafi staðið frammi fyrir fleiri kostum en kynjamálum þó þau séu afar mikilvæg.  

En Össur skýrir málin væntanlega á næstu dögum. 

Þetta eru svona hugleiðingar mínar. 

Sævar Helgason, 3.1.2008 kl. 23:08

2 identicon

Karlinn er með mun meiri stjórnunarreynslu og konan, og lengra er síðan hann lauk doktorsprófi.

Tveggja ára MBA gráða vegur varla þyngra en 13 ára forstöðumennska?

AB (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 01:02

3 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Í jafnréttisáætlun iðnaðarráðuneytisins, segir orðrétt í 5. gr.:

"Þess skal jafnan gætt að sá umsækjandi sé ráðinn sem talinn er hæfastur til þess að gegna starfi, að teknu tilliti til menntunar og hæfni en án tillits til kynferðis. Séu tveir eða fleiri umsækjendur af báðum kynjum taldir jafn hæfir til ráðningar í auglýst starf skal að jafnaði ráðinn umsækjandi af því kyni sem er í minnihluta á viðkomandi sviði."

Hver á að meta hæfnina.? Mér sýnist í þessu máli, að það hafi verið fleiri en pólitíkusar sem komu að þessu mati, og er það nú frekar sjaldgæft þegar ráðið er í opinberar stöður.Ég veit ótal dæmi þess að fólk sem hefur gengt afleysingarstörfum, hafi ekki verið ráðið í viðkomandi starf, að undangenginni auglýsingu um það, enda ekkert sem segir að afleysingamaðurinn sé endilega hæfari en einhver annar sem sækir um.

"skal að jafnaði ráðinn umsækjandi af því kyni sem er í minni hluta á viðkomandi sviði.

Þá er  spurningin . ER átt við orkumál almennt, eða tiltekið faglegt svið,og hvor umsækjandinn er þá hæfari ?

Ari Guðmar Hallgrímsson, 4.1.2008 kl. 08:26

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sælir herrar mínir.

Þetta eru alltsaman verðugar hugleiðingar og gildar spurningar sem þið setjið fram. Sjálf er ég ekkert handviss um að þarna hafi jafnréttislög verið brotin - en mér finnst málið orka tvímælis.

Nú bíðum við eftir Össuri og hans svörum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.1.2008 kl. 10:58

5 identicon

Sæl Ólína

Þú gefur til kynna að rétt hafi verið að ráða Ólöfu af því að hún var kona,
ekki satt??  Hinsvegar voru margir hæfari af báðum kynjum sem sóttu um
starf ferðamálastjóra.  Er ekki bara pólitík í þessu??  Ólöf er gömul
Röskvukona (og líklega í dag komin í Samfylkinguna) og það gæti hafið ráðið
úrslitum hérna að mínu mati.  Ársæll Harðarson sem líka sótti t.d. líka um starfið,
er í nákvæmlega sömu stöðu og Ragnheiður þær sem bæði hafa verið
staðgenglar annars vegar ferðamálastjóra og hins vegar orkumálastjóra.  Hann hefur auk þess langa reynslu af ferðamálum og nánast allur hans starfsferill er úr ferðabransanum.
Ástæða þess að Ársæll var ekki ráðinn var ekki kyn hans, heldur það að hann
hefur verið bendlaður við Framsóknarflokkinn.  Guðni (sem ég tel að er mjög fær og frambærilegur maður að Ragnheiði ólastaðri) er víst eitthvað í
vinartengslum við Össur.

Á hinn bóginn verður ekki um villst að Samfylkingin hefur verið dugleg við
að koma sínu fólki í góðar stöður hjá hinu opinbera undanfarið.  Ég vona að þú móðgist
ekki, en mér finnst Samfylkingin orðin að stærstu atvinnumiðlun
landsins........

Guðvarður Kristinsson (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 14:13

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Guðvarður.

Það er ekki rétt hjá þér að mér finnist Ólöf hafa átt skilið ferðamálastjórastarfið af því hún er kona. Mér finnst hún hafa átt það skilið af því hún er HÆF kona. Og einungis að því skilyrði uppfylltu tel ég rétt að horfa til kynferðis - eins og lög gera reyndar ráð fyrir.

Um pólitíska fortíð Ólafar nenni ég ekki að tala -  mig rámar í þegar þú segir það að hún hafi verið í stúdentapólitíkinni, en hverju skiptir það? Ég ansa því ekki að Samfylkingin sé að hygla sínu fólki pólitískt. Sú gagnrýni á engan rétt á sér að mínu mati. Þér væri nær að líta á stöðuveitingar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í gegnum tíðina. Nú síðast ráðningu Þorsteins Davíðssonar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.1.2008 kl. 16:05

7 identicon

Sæl ÓlínaMér þykir þú horfa framhjá grundvallaratriði þeirrar tilvitnunar í jafnréttisáætlunina sem þú birtir: "...taldir jafn hæfir...".  Jafnrétti á einmitt að snúast um það að þegar valið er milli jafn hæfra einstaklinga að sá af því kyni sem hallar á fái starfið og hef ég ekkert nema gott um þá stefnu að segja og þykir hún kristallast í ráðningu ferðamálastjóra. Bæði eru þau Guðni og Ragnheiður hæf til starfsins enda í þriggja manna úrtaki sérfræðinga Capacent sem fóru í viðtal, en Guðni er einfaldlega mun hæfari og því er það sjálfsögð ákvörðun að ráða hann óháð kyni eða jafnrétti. Hann hefur áratuga alþjóðlega reynslu af orku- og byggingarmálum og ef eitthvað er þá er hann næstum "over qualified" og mikill fengur í honum fyrir Orkustofnun. Ragnheiður var framsóknarráðin í gegnum pólitísk tengsl fyrir tveimur árum eftir að hafa verið deildarstjóri á eins manns deild á Rannsóknarstofnun Byggingariðnaðarins. Eflaust hefur hún unnið sitt starf ágætlega en hún er langt því frá að vera jafn hæf og Guðni í þetta starf og jafnréttisstefnunni væri unnið ógagn með því að ráða hana.Hvernig væri að hrósa Össuri fyrir að hafa EKKI ráðið minna hæfa konu í starf sem hún á ekki skilið og í raun leiðrétta gjörðir Framsóknarráðningarskrifstofunnar? Því að ef að ráða ætti hana sem orkumálastjóra þá væri verið gera það sama og með ráðningu Þorstein Davíðsson þegar ráðið var eftir kyni (kyni Davíðs) og pólitísku ættartré  Annars bíður maður bara spenntur eftir rökstuðningi Árna og Össurar sem ættu að verða áhugaverðir.

Góðar stundir og takk fyrir góð skrif

Guðlaugur Magnússon (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 18:13

8 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Kristín Ástgeirsdóttir hin nýja forstýra Jafnréttisstofu, hlýtur til dæmis að vera dæmi um stefnu S í ráðningu á eigin fólki að ríkisjötunni ekki satt Guðvarður?

En Vil bara lýsa ánægju yfir þessum hugsanlega jafnréttisháskóla, virkar sem mjög spennandi hugmynd!

Magnús Geir Guðmundsson, 5.1.2008 kl. 00:39

9 identicon

Er Kristín Ástgeirsdóttir í Samfylkingunni? Ég hélt að hún væri VG.

En Guðlaugur hitti naglann á höfuðið varðandi þetta með Framsóknarmennskuna. Þó að einhverjir einstaklingar hafi verið ráðnir til skamms tíma sem staðgenglar ríkisforstjóra vegna tengsla sinna við Framsóknarflokkinn, þýðir það ekki að viðkomandi séu sjálfkrafa hæfastir í starf forstöðumannsins þegar sú staða losnar.

AB (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 02:19

10 identicon

Sæl öll sömul

Ólína, Guðlaugur og Magnús, það mætti halda að þið væruð bæði blind og heyrnarlaus, eða eruð þið bara svo í mikilli afneitun gagnvart Samfylkingunni að ykkur finnst allt í lagi að Samfylkingin sé að ráða pólítíska vini og vandamenn á ríkisjötuna??  Samfylkingin er eins og frekt barna sem aldrei fékk neinu að ráða þangað til það komst í aðstöðu til þess og hagar sér eins og eðlisgreint barnið sem kemst í kökudósina og hugsar; nú skal ég ráða hverjum ég gef kökur.

Guðlaugur kýs að gera mikið úr ráðningu Þorsteins Davíðssonar í eitthvert embætti héraðsdómara.  Ég verð að viðkurkenna að ég er jafn hissa og margir aðrir á þessari ráðningu, þó svo að þetta séu smámunir miðað við hina öflugu ráðningarmaskínu Samfylkingarinnar.  

Í ljós hefur komið að Ragnheiður hefur lítið unnið að ferðamálum í gegnum tíðina.  Hins vegar er vitað að hún var öflug í stúdentapólitíkinni í Röskvu og vann þar náið með Steinunni Valdísi og fleiri núverandi Samfylkingarkonum.  Kannski að þetta hafi vegið þyngra við ráðningu hennar sem ferðamálastjóra, þó svo að Ólína vilji ekki ræða þetta (sennilega að þessi sannleikur er óþægilegur).

Það er altalað í samfélaginu að Samfylkingin sé farin að hygla sínu fólki.  Þetta heitir spilling og getur orðið Samfylkingunni fjötur um fót í framtíðinni.  ISG réð t.d. Kristínu Árnadóttur til að sjá um tilgangslaust framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.  Kristín þessi var í Kvennalistanum á sínum tíma og auk þessa vann hún náið með IGS þegar hún var borgarstjóri.  Framboð þetta er talið munu kosta skattborgarana um allt að 1 ma.kr.  peningum sem væri betur varið til þarfari mála t.d. til heilbrigðismála og málefnum aldraða.

Það er ekki réttlætanlegt að vísa til þess að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafi stundað pólítískar ráðningar, þá sé í lagi að Samfylkingin geri það líka og sé því komin tími til.  Þetta er ekkert annað en spilling og neputasismi af verstu sort, sama hver á í hlut.

Guðvarður Kristinsson (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 09:57

11 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Já, ég er blindur og heyrnarlaus Guðvarðaur og þess vegna benti ég á Kristínu Ástgeirs sem dæmi um hve málflutningur þinn er sanarlega glórulaus!

Alveg stórfurðulegt að fv. þingmaður framsóknar, Dagný Jónsdóttir skuli ekki hafa verið í S samkvæmt þessu rökleysurugli, hún vann líka mikið í Röskvu á sama tíma hygg ég og t.d. núverandi borgarstjóri og fleiri er fóru síðar í flokkinn. Stúlkan hefur bara villst af leið ekki satt?

Magnús Geir Guðmundsson, 11.1.2008 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband