Bæjarstjóri í pólitískri aðför

Ísafjordur-vetur Í viðtali í svæðisútvarpi Vestfjarða fyrr í vikunni réðist Halldór Halldórsson bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ með ómaklegum hætti á vefmiðilinn skutull.is og sakaði hann um að starfa undir fölskum formerkjum:

 "Í mínum huga, er Skutull fyrst og fremst pólitískur vefmiðill .... Skutull hefur ekkert sýnt það - ekki fyrir mér að minnsta kosti - að það sé einhver óháður fréttamiðill. Þetta er fyrst og fremst pólitískur miðill sem vinnur fyrir Í-listann hér í bæjarstjórn" sagði bæjarstjórinn.

Með þessum orðum veitist bæjarstjórinn á Ísafirði að trúverðugleika nýstofnaðs vefmiðils sem hefur yfirlýsta stefnu um faglega og óhlutdræga fréttamennsku. Þetta gerir hann á grundvelli stjórnmálaskoðana þeirra sem að vefsíðunni standa. Það er alvarlegt mál þegar forsvarsmaður stjórnvalds reynir beinlínis að bregða fæti fyrir þá sem eru að koma undir sig fótum á einhverju sviði. Enn alvarlegra er þegar slíkt er gert á grundvelli stjórnmálaskoðana - og nægir að vísa til 11. greinar stjórnsýslulaga sem kveður á um þá skyldu stjórnvalda að mismuna ekki aðilum vegna stjórnmálaskoðana, trúarbragða, kynferðis eða þjóðfélagsstöðu, heldur gæta "samræmis og jafnræðis" við úrlausn mála. Þetta er svokölluð jafnræðisregla.

Tildrög þessara orðaskipta nú, eru eftirfarandi:

Fyrir nokkrum vikum sendi skutull.is Ísafjarðarbæ erindi þar sem vefmiðillinn var kynntur bæjaryfirvöldum og þess óskað að skutull.is hlyti sama rými á heimasíðu bæjarins og annar vefmiðill hér í bæ, bb.is, hefur nú þegar. Ennfremur var þess óskað að skutull.is fengi að sitja við sama borð og bb.is varðandi auglýsingar og fjárstyrki.

Þess ber að geta að bb.is er með beina RSS-veitu inn á heimasíðu Ísafjarðarbæjar og fær greitt fyrir. Er það líklega einsdæmi að fjölmiðill fái greiðslu frá stjórnvaldi fyrir að auglýsa sjálfan sig á heimasíðu þess. En hjá Ísafjarðarbæ heitir þetta víst "þjónusta" og bb.is er eitt um þá hitu. Á móti hefur bæjarstjórinn fengið sérstakan flýtihnapp á bb.is sem tengir lesendur beint inn á hans persónulegu bloggsíðu. Er mér ekki kunnugt um að nokkur stjórnmálamaður fái aðra eins þjónustu hjá "óháðum" fréttamiðli.

Nú hefur einnig komið í ljós að bb.is er eini vefmiðillinn hér á svæðinu sem er í viðskiptum við Ísafjarðarbæ. Til blaðsins sem heldur vefnum úti, útgefanda þess og vefsíðunnar hafa runnið 4,2 mkr á undanförnum 22 mánuðum. Það er um fjórðungur alls þess sem bærinn greiðir fyrir fjölmiðlaþjónustu 157 aðila sem samanlagt hafa fengið um 16 mkr á sama tíma.

Skemmst er frá því að segja að bæjaryfirvöld samþykktu að setja lítinn tengil á skutul.is inn á heimasíðu bæjarins en erindinu var hafnað "að öðru leyti". RSS-veita kom því ekki til greina og bréf bæjarins verður ekki skilið öðruvísi en svo auglýsingar frá bænum verði ekki settar inn á skutul.is

Nú hefur Halldór bæjarstjóri, í fyrrnefndu viðtali upplýst um raunverulega ástæður þessarar synjunar. Þær eru pólitískar: "Þetta er fyrst og fremst pólitískur miðill sem vinnur fyrir Í-listann hér í bæjarstjórn" segir hann.

Ég fullyrði að þeir sem starfa við skutul.is gera það af fullri fagmennsku - stjórnmálaskoðanir þeirra koma bæjaryfirvöldum hinsvegar ekkert við. Á skutull.is eru siðareglur fréttamanna í heiðri hafðar og allar fréttir unnar eftir bestu fáanlegu heimildum. Halldór bæjarstjóri er þess ekki umkominn að efast um heilindi eða fagmennsku þessa fólks - enda hefur hann engin dæmi máli sínu til sönnunar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já ! Takk fyrir, eigum við að ræða það eitthvað frekar?  Ef satt er sem ég efast ekkert um þá er viðkomandi bæjarstjóri óhæfur í sínu starfi.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 20:33

2 identicon

Þetta er undarleg afstaða hjá bæjarstjóranum - og ekki alveg sæmandi manni í hans stöðu að tala svona um þennan vef eða þá sem reka hann. Ég er alveg sammála þér Ólína, að stjórnmálaskoðanir ykkar eiga ekki að koma honum við - þessi vefur væri væntanlega merktur samfylkingunni eða Í-listanum ef hann væri málgagn þeirra, býst ég við. Skrýtið að láta svona. 

Kristín Helga (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 22:14

3 Smámynd: Yngvi Högnason

Illa bregður mér ef að frú Ólína ætlar að leggja að jöfnu, bb.is, tuttugu og þriggja ára gamalt og nýjan vefmiðil með gömlu nafni blaðs verkalýðs. Finnst mér að nýjum barnsskóm skutuls mætti slíta örlítið áður en hann verður lagður að jöfnu. 

Yngvi Högnason, 14.12.2007 kl. 22:42

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Yngvi.

Þú talar um að gamall fjölmiðill og nýr verði ekki lagðir að jöfnu. Er þá nýbyggt hús verra en gamalt? Auðvitað veit maður aldrei hvernig nýbyggð hús endast eða reynast - en sá sem byggir nýtt hús á skilið sama aðgengi að þjónustu hinsopinbera ekki satt? Frárennsli, rafveitu og aðra aðstöðu sem það þarfnast.

Sama á við um ný fyrirtæki og nýja fjölmiðla sem eiga auðvitað að geta gengið að sömu fyrirgreiðslu hjá yfirvöldum og aðrir sem á undan komu. Það er ekki yfirvalda að efast um heiðarleika og getu þeirra sem stofna slík fyrirtæki, nema þeir hafi sýnt það af sér áður að þeim sé ekki treystandi. Varla á það nú við í þessu tilviki.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.12.2007 kl. 14:43

5 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ólína með sömu orðum og rökum væri hægt að stofna Deigluna upp á nýtt og segja um sé að ræða frjáls, óháður og ópólitískur fjölmiðill.

Fannar frá Rifi, 15.12.2007 kl. 16:15

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Einmitt Fannar. Og hvorki þú né ég hefðum leyfi til að véfengja það að svo sé, nema með haldbærum dæmum eða rökum.

Svo getur fjölmiðill verið pólitískur þó hann reki faglega og óháða fréttastefnu. Ég bendi á Morgunblaðið sem er auðvitað hægrisinnaður fjölmiðill sem leggur áherslu á óháða fréttastefnu. Skutull er í svipuðum sporum - nema hvað hann er yngri og þeir sem að honum standa félagshyggjufólk að mestu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.12.2007 kl. 16:26

7 Smámynd: Yngvi Högnason

Það er nú kannski ekki alveg rétt að bera saman hús og fjölmiðil. Það er vitað að héraðsfréttablöð hafa í gegnum tíðina fengið styrki frá sinni heimabyggð en ég efa að BB hafi stokkið fullskapað inn í þær sporslur sem að  þeir fá núna. Það hefur líklega  ekki verið sjálfgert  í gegnum tíðina. Það er eflaust vitað hvað hver útbreiðsla BB er en er það vitað með skutul.is? Ef að ég myndi opna síðu sem að héti dokkan.is eða hefði góða yfirsýn á gleiðarhjalla.is,þá væri ekki sjálfgefið að komast á styrkjaspenann strax, ég yrði að sýna mátt minn áður en að til styrkjanna kæmi. Það er kannski erfitt fyrir fólk sem að vinnur ekki hjá sjálfum sér að skilja þetta en svona er þetta.

Yngvi Högnason, 16.12.2007 kl. 11:05

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Hvaða styrkjaspena ert þú að tala um Yngvi?

Við óskuðum í fyrsta lagi eftir aðgengi að heimasíðu Ísafjarðarbæjar (sem kostar bæinn ekki neitt), í öðru lagi óskuðum við eftir því að okkur gæfist kostur á að birta auglýsingar frá bænum, og svo í þriðja og síðasta lagi að við sætum við sama borð varðandi styrki og fjárveitingar og aðrir vefmiðlar á svæðinu ef um slíkt væri að ræða.

Best að tala um hlutina eins og þeir eru. Takk fyrir.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.12.2007 kl. 13:19

9 identicon

Ég smellti á tengilinn, og sé ekki betur en þetta sé lifandi og skemmtilegur fréttamiðill Það er full ástæða til að óska Ólínu og félögum til hamingju með það.

Varla væru það mikil útlát fyrir bæinn að auglýsa eitthvað í þessum nýja vefmiðli - hvað þarf hann að sanna? Síðan blasir þarna við öllum, með glænýjum fréttum, greinum, tenglum í ýmsar áttir, bloggurum og öllu tilheyrandi. Flott síða.

Í litlum bæjarfélögum er ekki nema eðlilegt að bæjaryfirvöld styðji við frumkvöðlastarf á einhvern hátt, a.m.k. með jákvæðu umtali og hvatningu. Ég skil bara ekki þessa framkomu bæjarstjórans - og ég fæ heldur ekki séð að Ólína og félagar hafi farið fram á mikið.

Kristín Helga (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 13:36

10 Smámynd: Yngvi Högnason

Á sínum tíma voru gefin út nokkur pólitísk blöð á Ísafirði, Vestfirðingur,Skutull,Ísfirðingur og Vesturland. Það var vandlega passað upp á að ekki væru fleiri auglýsingar frá bæ í einu þeirra en öðru. Annað mál var hvar einkafyrirtæki lögðu sitt fé í gagnslausar auglýsingar, sem voru ekkert annað en styrkur við viðkomandi blað og flokk. Ekki held ég að þessi aðferð sé að einhverju breytt, auglýsing frá bæ  á vefsíðu er styrkur og er yfirleitt vita gagnlaus. Það vita bæði eigendur lítt sóttra vefsíðna og þeir sem að styrkinn (auglýsinguna) veita. Þess vegna finnst mér hallærislegt þegar opnaður er vefur og : Við erum komin, hvað fáum við?

Yngvi Högnason, 16.12.2007 kl. 14:07

11 identicon

Kannski eru þau bara að benda á það hvað "aðrir" (þ.e. bb.is) fá frá bænum fyrir einmitt þetta sem þú lýsir. Jú, og svo beintengingu inn á bloggsíðu bæjarstjórans

Kristín Helga (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband