Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Hvar er mennskan?
7.7.2008 | 16:16
Nú virðist sem þjóðarsálin og "kerfið" hafi orðið viðskila - að minnsta kosti vona ég að framkoma stjórnkerfisins við Paul Ramses Odour og fjölskyldu hans sé ekki til vitnis um hugarþel þjóðar minnar.
Gestrisni og samhjálp hefur löngum verið einn mælikvarði á menningarstig þjóða. Við Íslendingar höfum í gegnum tíðina haft gestrisni í hávegum, og álitið níðingsskap að synja þeim sem þurfandi eru. Það er inngróið í þjóðarsál okkar. Það hvernig tekið er á móti nýjum samfélagsþegnum, fæddum og innfluttum, er því ekki aðeins til vitnis um menningu okkar, heldur mennsku.
Hvernig samfélag er það þá sem rekur úr landi ungan fjölskylduföður í lífshættu? Getur slíkt samfélag kennt sig við velferð og mennsku?
Við státum okkur af því á tyllidögum að taka vel á móti flóttafólki. Það vantar ekki að stjórnmálamenn láti mynda sig og nefna á nafn þegar verið er að taka á móti hópum fólks af einhverjum ástæðum hafa flúið heimaland sitt. Þá er fjálglega talað um það að halda saman fjölskyldum, taka vel á móti og skapa skilyrði fyrir fólk til að hefja nýtt líf.
En ... nú kom maður sem leitaði á náðir okkar. Hann var ekki sérvalinn af sérstakri sendinefnd. Hann mætti ekki við ljósaleiftur fjölmiðla á Keflavíkurflugvöll í gefinni lopapeysu eins og flóttamannahóparnir sem stjórnvöld hafa státað sig af á undanförnum árum. Nei - hann kom á eigin vegum - í raunverulegri þörf fyrir aðstoð handa sér og sinni ungu fjölskyldu - eiginkonu og nýfæddum syni. Hann bað um hæli, maður í hættu staddur.
Viðbrögðin? Mannréttindi hans hafa verið fótum troðin. Hann var svikinn um þá málsmeðferð sem hann átti rétt á. Svikinn um svör, blekktur ... og sendur úr landi. Rifinn frá nýfæddum syni og ungri konu. Fjölskyldunni sundrað.
Yfir móður og mánaðargömlu barni vofir að verða vísað úr landi á næstu dögum.Við Íslendingar höfum viljað kalla okkur menningarþjóð - en hver er mennska okkar?
![]() |
Óvissuástand hjá Paul Ramses |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Veggjakrot og veggjalist - ég er með tillögu
10.6.2008 | 12:45
Ég vil gera það að tillögu minni að Reykjavíkurborg geri tilraun með að ná sáttum við veggjakrotara og veggjalistamenn. Sáttin felist í því að sett verði stór spjöld - svona á stærð við húsgafl - á völdum stöðum í borginni. Þessi spjöld verði til afnota fyrir þá sem þurfa að fá útrás fyrir skreytilist sína með spreybrúsanum, hvort sem það eru veggjalistamenn eða veggjakrotarar en á þessu tvennu, veggjalist og veggjakroti, er nefnilega allverulegur munur.
Veggjakrot er náskylt þeirri frumstæðu þörf hunda og ýmissa rándýra að merkja sér svæði og óðul. Hópar og klíkur sem ganga á milli hverfa og svæða setja merki sitt við útjaðrana og tilkynna þar með "hér var ég" - sem þýðir "þetta á ég". Þessi tegund veggjakrots er afar hvimleið, enda eirir hún engu, hvorki íbúðarhúsnæði né opinberum byggingum, strætisvagnaskýlum, girðingum eða auglýsingaspjöldum. Þeir sem láta undan þessari þörf láta sig engu varða eigur annarra - þeir vaða bara yfir með sínar merkingar í fullkomnu skeytingarleysi.
Svo er það veggjalistin sem ég vil kalla svo. Myndlistarverkin sem mörg hver eru tilkomumikil og falleg þó þau komi úr úðabrúsum. Þessi myndverk geta verið prýði sé þeim fyrirkomið á réttum stöðum. Víða sér maður slík verk á auðum brandveggjum eða illa hirtu atvinnuhúsnæði þar sem þau eru beinlínis til bóta (þó ekki sé það nú alltaf).
Þess vegna vil ég nú leggja þetta til við borgaryfirvöld - að listamönnum götunnar verði hreinlega boðið upp á að fá útrás fyrir sprey- og merkiþörfina einhversstaðar annarsstaðar en á húsveggjum og strætóskýlum. Það er aldrei að vita nema eitthvað sjónrænt og skemmtilegt gæti komið út úr því. Spjöldin þyrftu auðvitað að vera í öllum hverfum borgarinnar, jafnvel víðar innan hvers hverfis. En hver veit nema þau myndu hreinlega lífga upp á umhverfið og fegra það. Húseigendur gætu þá áhyggjulausir hirt um eigur sínar án þess að eiga það á hættu að þær séu eyðilagðar með spreybrúsa daginn eftir.
Þessi tillaga er í mínu boði og þiggjendum að kostnaðarlausu
Ljótt mál - og stóð of lengi
5.6.2008 | 19:25
Þá er því loks lokið þessu makalausa Baugsmáli sem staðið hefur í sex ár og kostað mörg hundruð milljónir króna. Og til hvers var svo unnið öll þessi ár fyrir allt þetta fé? Jú til þess að sanna "sekt" hins meinta höfuðpaurs, Jóns Ásgeirs, sem samkvæmt dómi Hæstaréttar reyndist jafnast á við umferðarlagabrot að viðurlögum - eins og dæmt hafði verið í héraði.
Eftir því sem þetta mál hefur staðið lengur, og því meira sem hefur verið um það fjallað, þeim mun frekar hef ég hallast á að fjármunum og tímanum sem fóru í rekstur þess hefði verið betur varið í annað. Í löggæslumálefnum eru mörg brýn verkefni sem ég hefði frekar viljað sjá þessa fjármuni fara í. Til dæmis starfsemi réttargeiðdeildarinnar á Sogni - sem í ljós hefur komið að var rekin á faglegum brauðfótum og ekki allt með felldu. Til dæmis í að efla lögregluembættin á landsbyggðinni sem mörg hver kljást við manneklu og fjársvelti. Til dæmis í að bæta aðbúnað og efla betrunarstarf í fangelsum landsins almennt. Og þannig mætti lengi telja ýmislegt sem liðið hefur fyrir fjárskort á undanförnum árum.
Allir sem komu nálægt þessu máli hafa skaðast af því. Ekki bara málsaðilar sjálfir, heldur fjöldi manns sem tengdist þeim með einhverjum hætti. Hvorugur málsaðila er fyllilega sáttur með leikslokin. Og enginn almennur þjóðfélagsþegn veit raunverulega hvað þarna átti sér stað. Það vita einungis þeir sem hófu málareksturinn, hvað þeim sjálfum gekk til. Þeir eru hins vegar horfnir af sviðinu sumir hverjir - laskaðir eftir átökin.
En, vonandi er þessu nú lokið fyrir fullt og allt.
![]() |
Baugsmálinu lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
,,Mismunun gegn konum er glæpur''
4.6.2008 | 15:03
Þetta segir Maud de Boer Buquicchio, annar framkvæmdastjóri Evrópuráðsins. Maud de Boer Buquicchio flutti erindi á fjórðu Tengslanetsráðstefnunni sem haldin var á Bifröst í síðustu viku, undir yfirskriftinni ,,Konur og réttlæti''.
Þessi orð brenndu sig inn í vitund mína. Ég hef aldrei heyrt íslenskan stjórnmálamann, álitsgjafa eða mannréttindafrömuð orða þetta meginatriði kvenréttindabaráttunnar með þessum hætti. Nú hefur Maud tekið af þeim ómakið. Þessi eftirsótti fyrirlesari sem varð fyrst kvenna til þess að gegna starfi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins og þekkir svo vel stöðu mála í 46 aðildarríkjum þess, þar sem búa um 800 milljón manna. Maud de Boer Buquicchio er lögfræðingur að mennt og hefur sérstaklega látið sig varða jafnréttismál og mannréttindi almennt. Hún talar bara um hlutina eins og þeir eru: Kynjamismunun er glæpur - rétt eins og kynþáttamismunun og önnur mannréttindabrot.
Hvað þýðir þetta?
Það þýðir að þeir sem hugsa sem svo, að:
- það taki tíma að breyta viðhorfum
- það sé frekja - jafnvel yfirgangur - að ,,heimta'' helmings aðild að stjórnum, ráðum, nefndum, þingsætum o.s.frv.
- eitthvað minna en fullt jafnrétti sé ásættanlegt, til dæmis hlutfallið 40/60
- við eigum að bíða eftir breytingunum - við höfum hvort eð er beðið svo lengi
o.s. frv. ... o.s. frv. ... ættu að endurskoða hugarfar sitt. Það gæti nefnilega verið ,,glæpsamlegt" þegar allt kemur til alls.
Þetta er umhugsunarefni fyrir marga sem telja sig einfaldlega vera hófsama umbótasinna, velviljaða hægfara framförum. Við erum hér að tala um þetta aðgerðarlitla fólk sem ekki er uppnæmt fyrir mörgu í umræðunni - vill ekki fara að neinu óðslega. Þetta er býsna stór hópur - og sjálfsagt margir lesendur þessara orða einmitt í þeim hópi. En er ekki hugsanlegt að með ,,hófsemi" sinni, ,,stillingu" og aðgerðaleysi sé þetta sama fólk meðvirkir gerendur í óréttlæti og mismunun?
Hugsum þetta lengra:
Er ásættanlegt að segja við blökkumann: ,,Þú hefur nú þurft að bíða svo lengi eftir fullum réttindum, þú getur beðið lengur"? Að segja við konu sem hefur verið barin á heimili sínu eða barn sem hefur verið misnotað: ,,Þetta hefur nú staðið svo lengi að þú getur nú alveg beðið ... þú hlýtur að skilja að það tekur tíma að breyta þessu"?
Samkvæmt alþjóðlegum mannréttindaákvæðum í lögum, reglum og stefnuyfirlýsingum er hugsunarháttur af þessu tagi einfaldlega ekki tækur. Hann er glæpsamlegur.
Það er hart að segja það, en þeir eru trúlega fjölmargir Evrópubúarnir - þar á meðal Íslendingar - sem hafa þó gerst sekir um einmitt þetta.
*
PS: Í þessari frétt á mbl.is í dag segir frá því að konur skipa 13% stjórnarsæta í 120 félögum hér á landi samkvæmt könnun sem Rannsóknasetur vinnuréttar á Birfröst lét gera nýlega. Þetta er ekki bara óviðunandi - þetta er glæpur. Athugið það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Stjórnarsamstarfið - sjávarútvegsráðherrann - LÍÚ
19.5.2008 | 23:49
Er Einar Kristinn Guðfinnsson að reyna að ganga í augun á LÍÚ - eiga hvalveiðimenn einhverja hönk upp í bakið á honum? Það er erfitt að átta sig á því hvað maðurinn er að hugsa. Þriðja árið í röð gefur hann út hrefnuveiðikvóta - og setur allt í uppnám.
Um leið sendir hann fingurinn í átt að þeim sem hafa undanfarin misseri verið að byggja upp hvalaskoðun sem valkost í ferðaþjónustu. Þeir aðilar eru augljóslega ekki jafn beintengdir inn í sjávarútvegsráðuneyti og hvalveiðimennirnir - enda ekki aðilar að LÍÚ, en þau annars ágætu samtök virðast stjórna sjávarútvegsráðuneytinu.
Hann sendir líka fingurinn í átt að þeim sem hafa á undanförnum árum verið að markaðssetja íslenskar útflutningsvörur - að ekki sé minnst á þá sem hafa unnið ötullega við að skapa okkur ímynd með áherslu á umhverfissjónarmið. Hann setur utanríkisráðherrann í klemmu - já og alla diplómatana sem ötullega vinna að því að skapa okkur Íslendingum sess í samfélagi þjóðanna.
Hvað er maðurinn að hugsa?
Svo mikið er víst að þetta bætir ekki orðstír okkar Íslendinga. Hér er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.
Hafi það verið ætlun sjávarútvegsráðherra að sýna af sér djörfung og dug, þá er honum ekki að takast sérlega vel upp. Þetta er hvorki djörfung né dugur - þetta er bara þrákelkni og fífldirfska. Sjávarútvegsráðherra væri nær að beita kröftum sínum og viðspyrnu gegn óréttlátu kvótakerfi - þar hefur hann ekkert aðhafst. Ekkert.
Svo má spyrja hvað ráðherranum gangi til gagnvart samstarfsaðilum sínum í ríkisstjórn. Auðséð er af yfirlýsingu utanríkisráðherra - formanns Samfylkingarinnar - að þessar nýjustu tiltektir hafa ekki vakið lukku í stjórnarsamstarfinu.
Er Einar Kristinn að ögra samstarfsflokknum? Getur verið að Sjálfstæðismenn séu að guggna í ríkisstjórninni?
![]() |
Alvarleg aðför að hvalaskoðun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.5.2008 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
Jón eða séra Jón: Jakob Frímann eða Markús Örn
12.5.2008 | 13:22
Hvar voru hinir ágengu fréttahaukar þegar Markús Örn Antonsson var ráðinn sem forstöðumaður Þjómenningarhúss, án auglýsingar fyrir skömmu - með 1,1, mkr á mánuði? Enginn fjölmiðill hefur mér vitanlega spurst nánar fyrir um launakjörin - eða fett fingur út í ráðningaraðferðina. Hvað þá að nokkur maður hafi verið kallaður til viðtals. Hvernig skyldi standa á því?
Vísir.is sagði þannig frá ráðningunni að Markús Örn hafi verið ráðinn frá 1. sept. n.k., hann muni leysa af hólmi Guðríði Sigurðardóttur sem hættir störfum að eigin ósk. Síðan er rakinn stuttlega ferill Markúsar. Enginn hneykslunartónn, ekki orð um launakjör.
Mbl.is sagði frá með svipuðum hætti. Enginn hneykslan - allt bara sjálfsagt og eðlilegt. Þar segir að Markús hafi verið "fluttur til í starfi".
Eyjan.is er raunar eini vefmiðillinn sem tekur fram að starfið hafi verið veitt án auglýsingar - en ekki er gert neitt með þá staðreynd að öðru leyti.
Ég minnist þess ekki að Kastljósið eða Ísland í dag hafi skipt sér neitt af þesu máli - þið leiðréttið mig ef það er misminni hjá mér.
Áleitin fréttamennska? Varðstaða fyrir almenning? Hmmm ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Eru 700 þúsund ofurlaun?
10.5.2008 | 19:36
Einhvernveginn hefur það aldrei hvarflað að mér að starf framkvæmdastjóra miðborgarmála hafi verið búið til handa Jakobi Frímanni Magnússyni. Ég trúi borgarstjóra mæta vel þegar hann sver slíkar ásakanir af sér. Hann segist hafa leitað til ýmissa áður en kom að ráðningu Jakobs, þ.á.m . Kristínar Einarsdóttur, fyrrum miðborgarstjóra. Þessu trúi ég líka vel. Það breytir því ekki, að það átti að auglýsa stöðuna svo hæfir einstaklingar gætu gefið kost á sér til starfans.
Því get ég vel skilið að fjölmiðlar skuli spyrja gagnrýnið um ástæður þess að staðan var ekki auglýst. Þeim ber að gera það. En ég get ekki tekið andköf yfir því þó að verkefnisstjóri í krefjandi, tímabundnu starfi fái sjöhundruð þúsund krónur á mánuði. Það eru bara engin ofurlaun - jafnvel þó að margur hafi minna. Og satt að segja finnst mér sem fjölmiðlarnir hafi farið aðeins fram úr sér þarna. Ég veit vel að þetta eru engin verkamannalaun. En hvað ætli fréttamaður á sjónvarpinu hafi í mánaðarlaun þegar saman eru komin föst laun, vaktaálagið og óunna yfirvinnan (sem var umtalsverð þegar ég var og hét sem fréttamaður á sjónvarpinu)? Ætli fréttamaðurinn sem spurði borgastjóra spjörunum úr á föstudagskvöldið sé með mikið lægri laun en Jakob Frímann? Hverju skyldi muna þar?
Vitanlega er engin ástæða til þess að hlífa þeim sem fara með völdin við knýjandi spurningum um leikreglur lýðræðisins og stjórnsýslu almennt. Hitt væri kærkomið ef þeir sem ganga fram sem varðmenn almennings (og þá á ég að sjálfsögðu við fjölmiðla) gætu gert það af kurteisi og tilhlýðlegri mannvirðingu. Á það hefur skort gagnvart Ólafi F. Magnússyni.
Ég get ekki fellt mig við að fréttamenn sýni viðmælendum sínum yfirgang. Síst af öllu þegar um er að ræða virkilega góða og öfluga fréttamenn sem ég sjálf hef dálæti á.
Eitt er að krefja svara og spyrja ákveðið - framígrip og háðsglósur yfir borðið eru annað mál. Þegar tilfinningar fréttamanna eru farnar að sjást á þeim í viðtölum við ráðamenn - af ekki stærra tilefni en einni mannaráðningu - þá er tímabært fyrir þá hina sömu fréttamenn að staldra aðeins við og hugsa sinn gang.
Ég segi nú svona.
![]() |
Miðborgarstjóra R-listans var boðið starfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Veldur hver á heldur
9.5.2008 | 10:11
Ég get skilið að starfsfólk á skrifstofu borgarstjóra vilji fá vinnufrið. Ég skil vel að þeim lítist vel á að fá Jakob Frímann til samstarfs við sig. Ég skil að Ólafur F. Magnússon skuli vera orðinn þreyttur nú þegar. En ... veldur hver á heldur.
Starfshættir og ákvarðanataka hins nýja meirihluta hefur verið svo gagnrýniverð að ekki verður hjá því komist að um það sé fjallað. Það er ekki við neinn annan að sakast en borgarstjóra sjálfan og hinn nýja meirihluta í borgarstjórn. Þannig er það bara.
Það eru réttir og eðlilegir stjórnsýsluhættir að auglýsa opinber störf. Gefa hæfu fólki kost á að bjóða fram starfskrafta sína og leggja síðan eina mælistiku á alla, meta þá á faglegum, óhlutdrægum forsendum. Þetta er grundvallaratriði - má jafnvel kalla mannréttindamál.
Af hverju var starf miðborgarstjóra ekki auglýst? Sé Jakob Frímann svo hæfur sem borgarstjóri fullyrðir - og ég dreg ekki í efa - þá ætti hann að standast fyllilega samanburð við aðra umsækjendur. Jakobi Frímanni er sjálfum enginn greiði gerður með þessu.
Rökin fyrir því að ráða hann einungis til eins árs, og það í skyndi, hljóma ekki sannverðug. Í mínum eyrum eru þau hreinn fyrirsláttur. Borgarstjóri vildi fá Jakob til liðs við sig og hann vildi hindra að aðrir - t.d. aðrir umsækjendur - stæðu í vegi fyrir því. Þess vegna beitir hann heimildum sem hann hefur til tímabundinnar ráðningar. Ekkert ólöglegt við það - bara spurning um hvað sé siðlegt í stöðunni. Og hvað sé líklegra til þess að skapa vinnufrið - þennan vinnufrið sem borgastjóri hefur verið að tala um að undanförnu.
![]() |
Full eining meðal starfsmanna á skrifstofu borgarstjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Gleymt er þá gleypt er
8.5.2008 | 10:07
Stundum er talað um að minni kjósenda sé gloppótt - og vika langur tími í pólitík. Að minnsta kosti hættir okkur oft til þess að gleyma jafnóðum því sem vel er gert en sjá svo ofsjónum yfir einhverju sem enn vantar.
Að undanförnu hefur Stöð-2 farið mikinn gegn Ingibjörgu Sólrúnu utanríkisráðherra vegna kosningaloforðs sem hún gaf fyrir síðustu kosningar. Svo mjög liggur fréttamönnum á að sjá þetta eina kosningaloforð efnt - nú þegar innan við fjórðungur er liðinn af kjörtímabilinu - að þeir telja niður dagana til þinghlés. Líkt og ekkert annað loforð hafi verið gefið fyrir síðustu kosningar - enginn annar stjórnmálamaður hafi opnað munninn - og ekkert hafi verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar.
Það er því tímabært að rifja upp það sem gert hefur verið á þessu eina ári sem liðið er frá kosningum - líkt og Ágúst Ólafur gerir á sinni bloggsíðu. Listinn lítur nokkurnveginn svona út:
1. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga hafa hækkað um 7,4% á þessu ári eða um 9.400 krónur til þeirra sem aðeins fá óskertar greiðslur úr almannatryggingum.
2. Þessu til viðbótar verður öllum öldruðum, sem ekki njóta a.m.k. 25.000 króna greiðslu úr lífeyrissjóði nú þegar, tryggð sérstök kjarabót sem jafngildir 25.000 króna greiðslu úr lífeyrissjóði á mánuði.
3. Skerðing bóta vegna tekna maka var að fullu afnumin 1. apríl. Alls munu um 5.800 lífeyrisþegar uppskera hærri bætur við þessa breytingu, þ.e. um 3.900 öryrkjar og um 1.900 ellilífeyrisþegar.
4. Búið er að setja 90.000 króna frítekjumark á fjármagnstekjur á ári til að draga úr of- og vangreiðslum tekjutengdra bóta. Um 90% ellilífeyrisþega og um 95% örorkulífeyrisþega hafa fjármagnstekjur undir þessum mörkum.
5. Vasapeningar til tekjulausra vistmanna hafa hækkað um tæplega 30%.
6. Skerðingarhlutfall ellilífeyris hefur verið lækkað úr 30% í 25%
7. Þá mun frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega 6770 ára verða hækkað í 100.000 krónur á mánuði frá 1. júlí . Þetta þýðir að ellilífeyrisþegar geta aflað sér tekna af atvinnu upp að 1.200.000 krónum á ári án þess að það hafi áhrif til skerðingar á lífeyrisgreiðslur þeirra í stað 327.000 króna áður.
8. Tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga hefur verið að fullu afnumin.
9. Hinn 1. júlí mun einnig verður sett 300.000 króna frítekjumark á lífeyrisgreiðslur örorkulífeyrisþega.
10. Hinn 1. júlí mun aldurstengd örorkuuppbót einnig hækka. Þannig mun einstaklingur sem metinn var til örorku 24 ára gamall fá 100% uppbót eftir breytinguna í stað 85% nú. Alls munu um 12.000 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar njóta hækkunarinnar.
11. Um næstu áramót verður afnumin hin ósanngjarna skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar.
12. Um áramótin tóku gildi ný lög sem fela í sér mikilvægar breytingar á greiðslum til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Greiðslurnar nema 80% af meðaltali heildarlauna foreldra yfir tiltekið viðmiðunartímabil, en þetta fyrirkomulag er sambærilegt greiðslum í fæðingarorlofi. Talið er að foreldrar um 200 barna muni nú nýta sér þessar greiðslur árlega eftir breytingu en voru á síðasta ári færri en 10.
13. Þá hefur verið ákveðið að hækka skattleysismörkin um 20.000 krónur á kjörtímabilinu fyrir utan verðlagshækkanir .
14. Komugjöld á heilsugæslu fyrir börn hafa verið afnumin.
15. Skerðingarmörk barnabóta verða hækkuð um 50%.
16. Hámark húsaleigubóta verður hækkað um 50%.
17. Eignaskerðingarmörk vaxtabóta verða hækkuð um 35%.
18. Stimpilgjöld afnumin fyrir fyrstu kaupendur.
19. Ný jafnréttislög hafa verið sett.
20. Fyrsta aðgerðaráætlun fyrir börn samþykkt - Unga Ísland samþykkt.
Þetta er allnokkuð á ekki lengri tíma - verð ég að segja. Dágott.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Fréttamennska eða áróður?
7.5.2008 | 22:24
Fyrst fannst mér svolítið smart hjá fréttastofu Stöðvar-2, að minna Ingibjörgu Sólrúnu á ummæli sín um eftirlaunareglu þingmanna. Gott hjá þeim, hugsaði ég. Nú hljóta þeir að ganga á röðina. Taka þá, hvern ráðherrann á fætur öðrum og spyrja áleitið um kosningaloforðin.
En þeir gengu ekki á röðina. Þeir hafa bara þrástagast á þessum einu ummælum Ingibjargar Sólrúnar fyrir síðustu kosningar - og talið niður: 30 dagar til þinghlés, 20 dagar .... o.s. frv. Dag eftir dag eftir dag. Það mætti halda að tíminn væri að renna út. Eins og mennirnir viti ekki af því að kjörtímabil spannar fjögur ár en ekki eitt.
Hvað er að gerast með fréttstofu Stöðvar-2? Lítur hún ekki á sig sem fréttamiðil lengur? Hefur hún gleymt hlutverki sínu, að segja fréttir?
Fjölmiðlar eiga vissulega að veita stjórnvöldum aðhald. Það gera þeir með upplýstri óhlutdrægri umræðu, með því að varpa ljósi á mál og láta menn standa skil á gjörðum sínum. Að krefja stjórnmálamenn skil á kosningaloforðum getur að sjálfsögðu flokkast sem slíkt aðhald. En þegar einn stjórnmálamaður af 63 er tekinn fyrir - og eitt loforð af líklega nokkur hundruð loforðum sem gefin eru fyrir kosningar - og það áður en fjórðungur er liðinn af kjörtímabilinu. Dag eftir dag - fréttatíma eftir fréttatíma. Sama klifunin. Hvað er það?
Það er að minnsta kosti ekki fréttamennska.