Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

RÚV gægist á glugga

Sjonvarpidlogo22 Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi voru sýndar þessar fréttamyndir sem teknar voru inn um glugga á borgarstjóraskrifstofunni í Ráðhúsinu nóttina áður. Þar sat miðborgarstjóri á einkafundi með fráfarandi borgarstjóra. Örvænting og örmögnun í loftinu. Stór geispi.

Nú þykist ég vita að Jakob Frímann Magnússon myndi ekki standa geispandi og úfinn frammi fyrir myndavélum ef hann vissi af því að þær væru í gangi. Það myndi enginn gera eða vilja - ekki ég að minnsta kosti. En Jakob Frímann vissi ekkert af þessari myndatöku - ekki heldur Ólafur F. Magnússon. Þessir tveir samverkamenn voru á einkafundi - fjarri augliti fjölmiðla að þeir töldu.

Þetta var óviðeigandi myndataka - og mér leið illa að verða vitni að þessu. Ríkisútvarpið á ekki að leyfa sér að liggja á gluggum og taka myndir af fólki því að óvörum, þar sem það telur sig vera óhult bak við lokaðar dyr.

Gægjuhvötin getur vissulega verið rík stundum og fjölmiðlar forvitnir um það sem gerist "bak við tjöldin". En það er ekki sama hvernig forvitninni er svalað. Fjölmiðill sem er vandur að virðingu sinni hagar sér ekki svona - hversu dramatískt sem augnablikið kann að vera. Allir eiga rétt á því að skýla sér fyrir augliti annarra þegar erfiðir atburðir eru að gerast. Það verður ríkisfjölmiðillinn að virða.


Orðabrigð og laumuspil - vond byrjun hjá Hönnu Birnu

Látum vera þó að meirihlutinn hafi sprungið og nýr myndaður. En framkoma helstu persóna og leikenda í því handriti er í senn yfirgengileg og sorgleg. Það eru ósannindin, hálfsannindin og blekkingar þessa fólks sem valda mér hugarangri og hneykslan.

"Orð skulu standa" er stundum sagt. Við Íslendingar höfum löngum litið svo á að orð og handsöl hafi gildi enda mikilvægt að hægt sé að reiða sig á eitthvað í mannlegum samskiptum.  Ekki síst hefði maður nú haldið að stjórnmálamenn þyrftu að kunna þessa kúnst - og einhvern veginn hélt maður að Íslendingar væru enn það siðvæddir að líta á orðheldni sem dyggð.  En í Borgarstjórn  Reykjavíkur er annað uppi á teningnum. Þar eru orð og yfirlýsingar einskis virði.

Í gær og morgun kepptist Óskar Bergsson við að sannfæra fjölmiðla og borgarfulltrúa minnihlutans um að hann ætti ekki í neinum þreifingum um nýja meirihlutamyndun í borgarstjórn. Hanna Birna hefur margoft lýst því yfir að Sjálfstæðismenn væru heilshugar í samstarfi sínu við Ólaf F. Magnússon. Flóttaleg framkoma hennar og Vilhjálms Þ. síðustu daga þar sem þau hafa laumast út um brunaútganga til að forðast fjölmiðla hefur ekki beinlínis borið vott um góðan málstað. Þau hafa verið á harðahlaupum undan eigin orðum og gjörðum - svo dapurlegt sem það nú er. Jafnvel sjálfur forsætisráðherrann hefur orðið uppvís að ummælum sem ekki fá staðist nánari skoðun - hann hefur ekki viljað kannast við að neitt væri í gangi.

Og nú hefur samstarfinu - þessu sem gengið var til svo "heilshugar" fyrir skömmu - verið slitið. Nýr meirihluti er orðinn að veruleika, Hanna Birna borgarstjóri og Óskar Bergsson formaður borgarráðs. Þetta hefur gerst þrátt fyrir nokkurra klukkustunda gamlar yfirlýsingar í allt aðra veru. Já, án þreifinga - án vitneskju formanns Sjálfstæðisflokksins, ef marka mætti orð þessa fólks - sem er auðvitað ekki hægt. Undangengnir atburðir sanna að ekki er ORÐ að marka sem það segir.

Samt er þetta fólkið sem þiggur umboð sitt frá almenningi og á að starfa í hans þágu. Svona starfar það.

Nei, dyggðir á borð við orðheldni, heilindi, drengskap eru augljóslega hverfandi á þessum leikvangi.  Og það er sorglegt að sjá.

Þetta er vond byrjun hjá Hönnu Birnu.


mbl.is Nýr meirihluti að fæðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horn skella á nösum - og hnútur fljúga um borð

bilde Sorglegt er að sjá hvernig komið er fyrir stjórnarháttum í höfuðborg landsins. Framsóknarmenn eru að hugsa um að ganga til meirihlutasamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Guðni Ágústsson segir flokkinn reiðubúinn að "axla ábyrgð" eins og hann orðar það. Fréttir herma að framsókn setji skilyrði um að Ólafi F. Magnússyni verði ýtt út - Sjálfstæðismenn eru að hugsa málið.

Ég spái því að þetta verði niðurstaðan, enda er ekki á nokkurn mann treystandi í þessum herbúðum eins og sakir standa og dæmin sanna. Yfirstandandi fundahöld Hönnu Birnu og Ólafs F í Ráðhúsinu í dag eru trúlega bara dauðateygjur þessa meirihlutasamstarfs. Sagan sýnir okkur að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins svífast einskis þegar svo ber undir - enda virðist borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna gjörsamlega heillum horfinn. Þar er ástandið eins og hjá Goðmundi á Glæsivöllum í frægu kvæði eftir Grím Thomsen ...

 ... trúðar og leikarar leika þar um völl,
en lítt er af setningi slegið.

 Og eins og í því ágæta kvæði er allt "kátt og dátt" á yfirborðinu ...

... en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt
í góðsemi vegur þar hver annan.

 Nú sannast það sem sagt var þegar grafið var undan 100 daga meirihlutanum: Borgarstjórn Reykjavíkur er óstarfhæf.  Þarna er engum að treysta - samningar og handsöl eru einskis virði - allt er falt fyrir völd og áhrif. Upplausnin er algjör. Undirferlið sömuleiðis og uppdráttarsýkin.

Horn skella á nösum
og hnútur fljúga um borð,
hógvær fylgja orð;
en þegar brotna hausar og blóðið litar storð,
brosir þá Goðmundur kóngur.

Já, þetta er Reykjavík í dag. Svei.


Staðsetning nýs Listaháskóla: Móðgun við Laugaveginn ... og húsið

Tillagan að nýju húsi Listaháskóla Íslands er stórglæsileg. Ég get ekki tekið undir með Magnúsi Skúlasyni að hún sé ljót. Hún er gullfalleg. Hinsvegar á þessi bygging ekkert erindi á Laugaveginn - þar erum við Magnús sammála. Þetta hús á að sjálfsögðu að fara í Vatnsmýrina og vera þar í námunda við aðrar háskólabyggingar. Þar færi húsið vel, skipulagslega - auk þess sem nemendur Listaháskólans kæmust þar með í gefandi samneyti við aðra háskólanema.

Alveg er það dæmigert fyrir okkur Íslendinga að teikna hús sem þarfnast rýmis - og ætla svo að troða því niður inn á milli gamalla húsa í elstu götu borgarinnar. Dæmigert. GetLost

 Það er eins og við getum ekki borið virðingu fyrir nokkrum sköpuðum hlut, hvorki götumyndum, gömlum húsum eða yfirleitt neinu. Ég hef áður bloggað þetta bræðiblogg um sundurgerðina í íslenskum arkitektúr og skipulagsmálum, og ætla því ekki að endurtaka það hér.

En, í þessu máli held ég að báðir aðilar séu haldnir ákveðinni meinloku.

Borgaryfirvöld halda að það sé svo mikils virði fyrir Laugaveginn að fá þangað listaháskóla - inn í miðja verslunargötu. Forvígismenn Listaháskólans eru haldnir þeirri meinloku að það sé svo mikils virði fyrir Listaháskólann að komast á Laugaveginn. Ég held að þetta sé misskilningur. Hvorki verslunargatan, götumyndin né Listaháskólinn munu græða neitt á þessu sambýli. Hinsvegar myndi skólinn njóta góðs af því að vera innan um aðrar háskólabyggingar í Vatnsmýrinni þar sem byggingin félli mun betur að öllu skipulagi - eða réttarasagt þeirri sundurgerð sem fyrir er á háskólasvæðinu - og þar myndi húsið njóta sín. Þar hefði það rými.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skipulagsfræðingur hefur bent á það hversu illa getur til tekist þegar verið er að reyna að draga líf í miðborgarkjarna með stórum byggingum. Í útvarpinu í kvöld benti hann á nokkur víti til varnaðar hér og hvar um Evrópu.

Ég er svolítið hrædd um að svipað geti verið á döfinni hér. Því fyrr sem menn komast út úr hinum ætlaða ávinningi beggja af því að hafa þetta hús við Laugaveginn, því betra. Því satt best að segja: Að setja þetta hús á Laugaveginn er eiginlega bara móðgun við Laugaveginn ... og ekki síður ... sjálft húsið.

Frakkastígsreitur


Ei veldur sá er varar - gott hjá Landsbjörgu

Reynisfjara Það gleður mig að Landsbjörg skuli nú hafa tekið af skarið og ákveðið upp á sitt eindæmi að setja upp skilti og bjarghringi í Reynisfjöru. Málið var komið í einhvern flækjuhnút þar sem menn voru í harða kapphlaupi um að varpa frá sér ábyrgð og finna því allt til foráttu að setja þarna upp nauðsynlegar viðvaranir. Jafnvel það að fólk muni hvort eð er ekki taka mark á viðvörunarskilti; þetta myndi kosta svo mikið, það væri engin leið að finna út út því hver ætti að borga, svo væri fólk ekkert of gott til þess að nota skynsemina og gæta sín sjálft.

Ei veldur sá er varar - segir máltækið, og fólk er ekki fætt með þá vitneskju að fjaran umhverfis Vík í Mýrdal é stórhættuleg. Það er hroki í okkur Íslendingum að fussa alltaf og sveia í vanþóknun ef aðkomufólk eða ferðamenn sem ekki þekkja hættur landsins fara sér að voða, hvort sem það er í illviðrum, brimi eða í hamrabeltum.

Gott hjá Landsbjörgu. Takk fyrir þetta frumkvæði.


mbl.is Skilti verða sett upp við Reynisfjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var eitt mannslíf ekki nóg?

Reynisfjara Hvað er eiginlega að Mýrdælingum? Hvers vegna er ekki komið aðvörunarskilti og björgunarhringur í Reynisfjöru? Maður hélt eftir banaslysið í fyrra að ÞÁ yrði eitthvað gert? Það er nú oft þannig að mannslíf kalla á aðgerðir - enda finnst manni að annars sé þeim fórnað til einskis.

Var þetta ekki nógu dýrt mannslíf, eða hvað? Hversu mörg þurfa þau að verða? Nú skall hurð nærri hælum áður en ár er liði frá banaslysinu í Reynisfjöru - og enn benda menn hver á annan. Þetta er til skammar.

Og menn spyrja hver eigi að BORGA eitt skilti. Er ekkert kvenfélag á staðnum sem getur safnað fyrir svona skilti? Hvað með björgunarsveitina - ef hreppurinn hefur ekki ráð á þessu - nú eða lögregluembættið. Hvar er nú Björgúlfur Thor eða Jóhannes í Bónus? Varla myndi það ríða þeim að fullu að skaffa þarna eitt skilti úr því heimamenn og stjórnvöld landsins eru ekki bógar til þess.

Ég á bara ekki orð yfir þessu aðgerða- og ráðaleysi. Þetta er öllum hlutaðeigandi til háborinnar skammar - sérstaklega þó heimamönnum sjálfum. Angry

Nú skora ég á Landsbjörgu að taka til sinna ráða og láta þessa ósvinnu ekki líðast lengur. Það hlýtur að vera hægt að fá einhvern til að "borga" eitt bévítans skilti og einn eða tvo björgunarhringi.


Dýravernd í lamasessi

kria Það er ekki um að villast. Dýraverndunarmál á Íslandi eru í lamasessi. Þau samtök, eða félög sem kenna má við dýravernd eru fá og óaðgengileg. Þetta er mín niðurstaða eftir leit á netinu og í símaskrá:

Engin virk heimasíða er til um dýraverndunarmál. Heimasíðan www.dyravernd.is var síðast uppfærð árið 2003.

 

BlidaogHjorvar

Í símaskrá er að finna Dýraverndarsamband Íslands með símanúmer 5523044. Þar ískrar í faxtæki ef hringt er - enginn símsvari. Samkvæmt símaskránni á þó að vera hægt að senda póst á dyravernd@dyravernd.is Ég hef ekki látið reyna á þann möguleika.

Á vafri mínu rakst ég hinsvegar á greinargóða bloggfærslu frá árinu 2006 um stöðu dýraverndamála hérlendis, eftir ungan mann, Snorra Sigurðsson að nafni. Hér er tengillinn á hana. Þó að greinin sé 2ja ára gömul virðist allt eiga við enn, sem þar er sagt.

 Á vegum umhverfisstofnunar er starfandi Dýraverndarráð sem í eiga yrðlingursæti fulltrúar frá bændasamtökum, dýralæknum, Dýraverndarsambandi Íslands og samtökum náttúrufræðinga. Ráðið er skipað til fjögurra ára í senn. Hlutverk þess er að vera Umhverfisstofnun og umhverfisráðherra til ráðgjafar um dýraverndarmál. Ólafur Dýrmundsson, sem í Kastljósþætti í fyrradag var kynntur sem formaður Dýraverndarsambands Íslands hefur verið fulltrúi bændasamtakanna í ráðinu undanfarin ár. Svo er að skilja sem hann hafi nú skipt um sæti - og vonandi verður það Dýraverndarsambandinu til góðs og umræðunni í heild sinni. Fyrsta skrefið mætti verða það að koma upp nothæfri heimasíðu um málefnið.

  Hrefna 

Það er nefnilega staðreynd að starfsemi áhugasamtaka um dýravernd er afar lítil hér á landi; upplýsingar óaðgengilegar og torsóttar og lítil opinber umræða um dýraverndunarmál. Það er til vansa fyrir okkur Íslendinga og löngu tímabært að við hysjum upp um okkur.


Hjáveituleið Björns Bjarnasonar

Evra-AlvaranCom Af hverju telur forsætisráðherrann að íslenska krónan henti best sem gjaldmiðill? Gengi krónunnar er með lægsta móti. Ofan á geigvænlegar eldsneytishækkanir sem eiga upptök úti í heimi, er krónan að falla frá degi til dags með keðjuverkandi afleiðingum á verðlag. Af hverju hentar hún okkur sem gjaldmiðill? Af hverju?

Menn komast allt of oft upp með það að svara með almennum orðum - án þess að færa rök fyrir máli sínu. En það er ekkert - nákvæmlega ekkert - nú um stundir sem bendir til þess að íslenska krónan sé hentugasti gjaldmiðillinn. Þið leiðréttið mig þá, ef ég fleipra. En ég hef bara ekki séð nein haldbær rök fyrir því að halda í krónuna. Ég hef hins vegar bölvað því í hljóði að Sjálfstæðismenn skuli vera svo flæktir í andstöðu sína við ESB-aðild að umræðan um að taka hér upp Evru hefur strandað á því atriði. Á meðan líður efnahagskerfið fyrir vanmátt íslensku krónunnar.

Leiðin sem Björn Bjarnason hefur vakið máls á á heimasíðu sinni (sjá hér) er hinsvegar athyglisverð. Björn segir: 

 ,,Íslendingar hafa valið þann kost, að tengjast ESB eftir tveimur meginleiðum: með EES-samningnum og Schengen-samkomulaginu. Hvernig væri að láta reyna á það á markvissan hátt, hvort unnt sé að setja þriðju stoðina undir þetta samstarf, það er um evruna? Engin lagarök eru gegn því, að það verði gert. Mun meiri pólitísk sátt yrði um þá leið en aðildarleiðina. Evruleiðin kann auk þess að hafa meiri hljómgrunn í Brussel en aðildarleiðin.''

Snjallt - eitursnjallt. Og þó svo að Björn segi á heimasíðu sinni í gær, að fjölmiðlar hafi snúið út úr orðum hans - þá vona ég að meginhugsunin í tillögu hans hafi skilist rétt. Því þá gætum við verið hér að tala um nokkurskonar hjáveituleið, sem ég leyfi mér að kalla svo.  Hún felur það í sér að hugsanlega verði hægt að taka upp nothæfan gjaldmiðil án þess að láta það standa og falla með rótgrónu ágreiningsmáli sem litlar líkur eru á að leysist í bráð; að hægt verði að fara framhjá ágreiningnum í átt að viðunandi lausn á aðsteðjandi og vaxandi vandamáli - sem er veik staða íslensku krónunnar.

Menn ættu að skoða þetta vel.

 GetLost

PS: Rétt í þessu var ég að lesa viðbrögð Percy Westerlund, sendiherra og yfirmanns fastanefndar Evrópusambandsins við þessari hugmynd (sjá hér). Verst hvað kallinn er neikvæður.


mbl.is Evruhugmynd ekki ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaði gögnum eða fjarlægði þau um miðjan dag í gær? Svo er það bíllinn.

 Eitthvað er nú bogið við þessa tilvísanasetningu. Fjarlægði Guðmundur gögnin af skrifstofu OR um miðjan dag í gær? Var það ekki þá sem hann skilaði þeim?

 Svona klaufaleg notkun tilvísanatenginga stingur stundum upp kollinum í blaðafréttum, og er oft býsna kátleg. Einhverju sinni las ég myndatexta sem var eitthvað á þessa leið: Módelið er með sumarlegan varagloss frá Dior sem herrann leiðir nú um salinn.

Annars er ágætt að þetta dæmalausa gagnamál er afstaðið. Þá tekur sjálfsagt bílamálið við.

toyota_land_cruiser_2_bw Nú skal ég ekki að ætla Guðmundi Þóroddssyni það að hafa tekið bílinn ófrjálsri hendi - hann hlýtur að hafa eitthvað fyrir sér í því að bíllinn sé hluti af starfskjörum hans, meðan starfslokasamningur er í gildi. Hinsvegar tek ég heilshugar undir með þeim sem telja svona bílasamninga óviðfelldna óráðsíu og flottræfilshátt.

 Laxá Talandi um flottræfilshátt. Í fréttablaðinu í gær las ég lýsingar Ingva Hrafns Jónssonar á því hvernig flottheitin gerast á bökkum laxveiðiáa landsins, þar sem svarthvítir þjónar ganga um með silfurbakka, sérráðnir matreiðslumeistarar ýta matráðskonum veiðihúsanna út fyrir dyr og sérstakur "riverguide" fylgir hverjum veiðimanni.

Ég veit ekki hvað menn sem haga sér svona í íslenskri náttúru halda sig vera - þeir geta varla litið á sig sem hluta af íslensku samfélagi. Sama má kannski segja um þá sem aka um á tugmilljónkróna farartækjum og líta á það sem eðlilegan hluta af starfskjörum. Guðmundur Þóroddsson er ekki einn um það - því miður.


mbl.is Guðmundur skilaði gögnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hangið í lagakrókum - hálfrifin sjálfsréttlæting

471885A Eftir fund sem allsnerjarnefnd Alþingis hélt í gær með ýmsum aðilum vegna brottvísunar Paul  Ramses Odour úr landi kom fram að menn teldu "að málsmeðferðarreglur hefðu ekki verið brotnar" í máli mannsins (sjá frétt mbl).

 Ég furða mig á þessu - sérstaklega í ljósi þess að samkvæmt stjórnsýslulögum ber að úrskurða og upplýsa fólk um ákvarðanir stjórnvalda svo fljótt sem mögulegt er. Það getur a.m.k. ekki verið eðlilegt að birta ekki úrskurð fyrir manni fyrr en búið er að handtaka hann níu vikum síðar. Það gefur auga leið að Paul Ramses Odour átti velferð sína (jafnvel líf sitt) undir því að geta leitað annarra úrræða félli úrskurður honum í óhag. Þessi málsmeðferð getur því ekki talist eðlileg.

Vera má að meðferð Útlendingastofnunar á Paul Ramses standist lög - en lög og siðferði eru ekki endilega sami hlutur, eins og Vilmundur heitinn Gylfason benti eftirminnilega á.

Ég vona heitt og innilega að menn beri gæfu til þess að bæta úr í þessu máli - sé það mögulegt. Það er stórmannlegra að horfast í augu við það sem hefur farið úrskeiðis og bæta fyrir það, heldur en að hanga í lagakrókum á sjálfsréttlætingunni hálfrifinni.

 


mbl.is Kært til ráðherra í dag vegna máls Paul Ramses
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband