,,Mismunun gegn konum er glæpur''

Maud_de_Boer-Buquicchio  Þetta segir Maud de Boer Buquicchio, annar framkvæmdastjóri Evrópuráðsins. Maud de Boer Buquicchio flutti erindi á fjórðu Tengslanetsráðstefnunni sem haldin var á Bifröst í síðustu viku, undir yfirskriftinni ,,Konur og réttlæti''.

Þessi orð brenndu sig inn í vitund mína. Ég hef aldrei heyrt íslenskan stjórnmálamann, álitsgjafa eða mannréttindafrömuð orða þetta meginatriði kvenréttindabaráttunnar með þessum hætti. Nú hefur Maud tekið af þeim ómakið. Þessi eftirsótti fyrirlesari sem varð fyrst kvenna til þess að gegna starfi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins og þekkir svo vel stöðu mála í 46 aðildarríkjum þess, þar sem búa um 800 milljón manna. Maud de Boer Buquicchio er lögfræðingur að mennt og hefur sérstaklega látið sig varða jafnréttismál og mannréttindi almennt. Hún talar bara um hlutina eins og þeir eru: Kynjamismunun er glæpur - rétt eins og kynþáttamismunun og önnur mannréttindabrot. 

Hvað þýðir þetta?

Það þýðir að þeir sem hugsa sem svo, að:

  • það taki tíma að breyta viðhorfum
  • það sé frekja - jafnvel yfirgangur - að ,,heimta'' helmings aðild að stjórnum, ráðum, nefndum, þingsætum o.s.frv.
  • eitthvað minna en fullt jafnrétti sé ásættanlegt, til dæmis hlutfallið 40/60
  • við eigum að bíða eftir breytingunum - við höfum hvort eð er beðið svo lengi

o.s. frv. ... o.s. frv. ... ættu að endurskoða hugarfar sitt. Það gæti nefnilega verið ,,glæpsamlegt" þegar allt kemur til alls. 

Þetta er umhugsunarefni fyrir marga sem telja sig einfaldlega vera hófsama umbótasinna, velviljaða hægfara framförum. Við erum hér að tala um þetta aðgerðarlitla fólk sem ekki er uppnæmt fyrir mörgu í umræðunni - vill ekki fara að neinu óðslega. Þetta er býsna stór hópur - og sjálfsagt margir lesendur þessara orða einmitt í þeim hópi. En er ekki hugsanlegt að með ,,hófsemi" sinni, ,,stillingu" og aðgerðaleysi sé þetta sama fólk meðvirkir gerendur í óréttlæti og mismunun?

Hugsum þetta lengra:

Er ásættanlegt að segja við blökkumann: ,,Þú hefur nú þurft að bíða svo lengi eftir fullum réttindum, þú getur beðið lengur"? Að segja við konu sem hefur verið barin á heimili sínu eða barn sem hefur verið misnotað: ,,Þetta hefur nú staðið svo lengi að þú getur nú alveg beðið ... þú hlýtur að skilja að það tekur tíma að breyta þessu"?

Samkvæmt alþjóðlegum mannréttindaákvæðum í lögum, reglum og stefnuyfirlýsingum er hugsunarháttur af þessu tagi einfaldlega ekki tækur. Hann er glæpsamlegur.

Það er hart að segja það, en þeir eru trúlega fjölmargir Evrópubúarnir - þar á meðal Íslendingar - sem hafa þó gerst sekir um einmitt þetta.

 *

PS: Í þessari frétt á mbl.is í dag segir frá því að konur skipa 13% stjórnarsæta í 120 félögum hér á landi samkvæmt  könnun sem Rannsóknasetur vinnuréttar á Birfröst lét gera nýlega. Þetta er ekki bara óviðunandi - þetta er glæpur. Athugið það.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Þór Strand

Hvernig er það ef við setjum allskonar kvóta á lýðræðið hvað verður þá eftir?  Ég skoða ekki hvað er undir fólki þegar ég kýs fólk til strafa heldur hvað það segir og hversu heiðarlegt það er, en hvernig það uppfyllir einhvern kvóta það er minna mál. 

Svo er spurningin hver á að vera kvóti samkynhneigðra og tvíkynhneigðra í kvótum kynjana?  Og hver á að vera kvóti iðnmenntaðra og ófaglærðra og hvort lögfræðingar séu ekki löngubúnir með kvótann sinn og svona má halda áfram.  Jafnrétti með kvótum er í raun ekkert jafnrétti því það byggir ekki að virðingu fyrir fólki.

Annars er spurningin líka hvort allt þetta fulltrúalýðræði er ekki gegnið sér til húðar og rétt sé að taka upp beint lýðræði og þá þurfum við ekki að hugsa um neina kvóta og spörum marga milljarða í launagreiðslur til óþarfra stjórnmálamanna.

Einar Þór Strand, 4.6.2008 kl. 15:55

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stjórnarskrá Íslands, 65. grein:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Þorsteinn Briem, 4.6.2008 kl. 16:29

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Það hefur verið gott að hitta Bryndísi vinkonu þína og fleiri starfsmenn í áfallahjálpinni hér síðustu daga.  kær kveðja vestur

Ásdís Sigurðardóttir, 4.6.2008 kl. 23:41

4 identicon

Þér finnst sambærilegt að kona fái ekki umsvifalaust aðgang að helmingi stjórnarsæta íslenskra fyrirtækja, annars vegar, og hins vegar að kona sé barin á heimili sínu?

Konur hafa nákvæmlega sömu möguleika á að komast í stjórnir fyrirtækja, bjóða sig fram til Alþingis, fá vinnu og karlar.  Ekkert bannar þeim að sækjast eftir þessum hlutum, og það er andstætt landslögum að skerða rétt þeirra til að sækjast eftir þessum hlutum.  Hins vegar er það frekja og yfirgangur að heimta það að konur eigi að fá úthlutað helmingi allra þessara "gæða", bara í krafti þess að þær eru konur.  

Mér vitanlega geta konur allt sem karlar geta og fjölbreytileiki kvenna er hinn sami og hjá körlum.  Það eru til konur sem eru frekjudósir, konur sem eru óhæfar í sínu starfi, konur sem eru gríðarlega duglegar, og konur hverra kraftar eru vannýttir.  Rétt eins og hjá körlum.

En að fara fram á að konur fái úthlutað einhverju sem hópur, bara af því að þær eru konur, finnst mér tilætlunarsemi og yfirgangur.  Konur geta, rétt eins og karlar, barist um takmörkuð gæði á jafnréttisgrundvelli við hvern sem er, og það er uppgjöf og aumingjaskapur í róm þeirra kvenna sem heimta fyrirgreiðslu.  

Aumingjavæðing kvenna með þessum hætti er mannskepnunni til skammar og gerir lítið úr þeim konum sem hafa náð árangri.  Það eru engin alvöru rök sem liggja að baki kröfum um sérmeðferð kvenna, þvert á móti finnst mér alltaf bera að sama brunni; konur sem heimta fyrirgreiðslu vilja fá auðveldari leið að markmiðum en karlar, af því að þeim finnst konur almennt eiga svo bágt.  Að vera kona sé eins konar félagsleg fötlun sem einungis verði "leiðrétt" með kvótum, boðum, og bönnum.

Hvernig væri nú að heitustu femínistarnir (þeir sem vilja ekki að konur fái að blómstra á eigin forsendum og í friði fyrir feminískum kreddum) myndu berjast fyrir því að konur fái frelsi til að gera það sem þær vilja án afskipta Miðstjórnar Femínistafélagsins?  Að konur þurfi ekki að búa við kúgun kynsystra sinna um hvað þær eigi að gera (í nafni femínisma) og hvað þær eigi að fordæma?  Og umfram allt að hætta að telja konum stanslaust trú um að konur geti ekki hluti nema með opinberri aðstoð, að konur þurfi á sérstökum úrræðum að halda til að ná sínum markmiðum, því karlar séu svo vondir og frekir?

En það er víst betra í huga sumra að mála upp mynd af konum sem fórnarlömbum sem þurfi að hjálpa, því þannig geti konur fengið stöður og embætti á auðveldari hátt en ella.  Það kallast að stytta sér leið.  Svindla í lífsgæðakapphlaupinu.   

Haukur (IP-tala skráð) 5.6.2008 kl. 10:40

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Einhvernveginn er ég hætt að verða hissa yfir útúrsnúningum og skætingi eins og þeim sem hér birtast  t.d. hjá "Hauki" þar sem allir frasarnir eru hnýttir saman um "aumingjavæðingu kvenna", og að konur vilji komast áfram "bara vegna þess að þær séu konur", að konur séu "kúgarar annarra kvenna" og svo framvegis, o.s. frv.

Ég skal viðurkenna að ég verð bara SVO ÞREYTT þegar ég þarf að lesa svona málflutning. Hundþreytt satt að segja.

En ég ætla ekki að láta þetta á mig fá - dropinn holar steininn - og einhverntíma munu menn sjá ljósið. Það er erfitt að sætta sig við þá bið  (jafnvel glæpsamlegt), en hverju fær maður svosem ráðið? Ef maður ætlar að breyta heiminum verður maður víst að huga fyrst að sjálfum sér.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.6.2008 kl. 16:08

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég held "Johnny Rebel að" að þú ættir að kynna´þér jafnréttislöggjöfina betur. Hún kveður nefnilega ekki á um sérréttindi kvenna - þvert á móti kveður hún á um að það kynið sem er í minnihluta í viðkomandi starfsstétt gangi fyrir við ráðningar að því gefnu að sá umsækjandi sé talinn hæfur eða hæfari en hinn. Þetta heitir jákvæð mismunun og hún getur gengið í báðar áttir - eftir því hvort það eru karlar eða konur sem eru í meirihluta fyrir. 

Fullyrðing þín um að "konur séu jafnar á vissu sviði og karlmen þótt þær standi sig verr" er ekki svara verð - og hafi þú skilið orð mín þannig að ég væri að mæla einhverju slíku bót, þá leiðréttist það hér með.

Konum er ekki mismunað að lögum - sem betur fer. Þeim er mismunað á vettvangi lífsins, því jafnréttislögunum er oft og einatt ekki fylgt við mannaráðningar. Það er kjarni míns máls. Þetta er ekki eitthvað sem ég hef upphugsað. Vinnumarkaðskannanir sýna þetta svo ekki verður um villst. 

En blessaður haltu bara áfram að tala um "rugl" og "vitleysu" og "bull" - haltu því áfram þar til þú verður hás og hönd þín þreytt. Það breytir engu. Misrétti gegn konum er staðreynd - og misrétti er lögbrot. Þannig er það nú bara.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.6.2008 kl. 18:52

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það er einmitt það. Samkvæmt því sem þú segir geta konur bara sjálfum sér um kennt, þær eru sumsé hæfileikalausar frekjur sem trana sér fram til verkefna sem þær eiga ekkert erindi í annað en að ryðjast yfir hæfa, vel menntaða karlmenn sem þar sitja á fleti fyrir.  Hmmmm.....

Þetta er kannski sjónarmið - en ég er hrædd um að það sé "þúveisthvað" .... vil ekki segja orðið, en það byrjar á g...

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.6.2008 kl. 22:32

8 identicon

"Ólína", það er óþarfi að fara í svona mikla vörn þó að "ég" gagnrýni þennan málflutning.

Það að bera saman stöðu kvenna í dag við t.d. stöðu blökkumanna í Bandaríkjunum nær hreint engri átt. 

"Þér" finnst það kannski útúrsnúningur og kjánalegt að tala um aumingjavæðingu kvenna, en það er nú einmitt það sem þetta er, þó svo að "þú" hafnir því.

"Þér" finnst að konur eigi að fá sérmeðferð í gegnum lagasetningu sem tryggir þeim ekki bara helming embætta og staða hjá hinu opinbera, heldur einnig stöður hjá fyrirtækjum í eigu fólks úti í bæ.  Það kalla "ég" heimtufrekju og yfirgang.  Það er bara mín skoðun.

"Þú" segist vera SVO ÞREYTT á að lesa svona málflutning.  "Mér" þykir það miður að "þú" skulir vera þreytt á að hlusta á gagnrýni á "þínar" skoðanir.  "Mér" þykir það líka miður að íslenskir femínistar séu svo ótrúlega einstrengislegir að þeir líta á það sem árás á kvenþjóðina ef einhver vogar sér að vera þeim ósammála.

"Mín" skoðun er einföld; konur geta allt sem karlar geta og munur á kynjunum er sáralítill.  Það eru til konur sem eru algerlega óalandi og óferjandi frekjudósir, rétt eins og það eru til karlar sem eru svoleiðis.  Að fara fram á það að konur fái lagalega vernd gegn samkeppni um lífsins gæði er ekkert annað en yfirlýsing um að konur séu veikari en karlar, þurfi félagslega aðstoð út á það eitt að vera konur.  "Mér" finnst þessi orðræða "þín", og fleiri femínista, vera móðgun við duglegar konur á vinnumarkaði í dag og ungar stúlkur að alast upp.  "Þú", og aðrir, vilja innræta fórnarlambshugsanahátt í konur, að það næstum því borgi sig ekki að reyna hlutina, því karlar munu alltaf reyna að bregða fyrir þær fæti.

Veistu, það er hárrétt hjá "þér".  Karlar munu reyna að bregða fyrir þær fæti.  Og aðrar konur munu reyna það líka.  Það kallast samkeppni.  Ef "þú" ferð í prófkjör, svo dæmi sé tekið, þá eru margir til kallaðir en fáir útvaldir.  Baráttan um laus sæti á lista (baráttan um gæðin) kallast samkeppni og hæfustu einstaklingarnir eiga skilið gæðin (þ.e.a.s. þeir einstaklingar sem enda með gæðin).  Ef "þú" ert ósátt við það, þá verður bara að hafa það.  "Ég" vil ekki að komandi kynslóðir kvenna alist upp við það að þær þurfi að fá sérmeðferð til að verja þær gegn ágangi karlkynsins eða meintu samsæri þeirra gegn þeim.

Svona "þér" að segja, þá held "ég" að karlmenn eigi alveg nóg með sig sjálfa og hafi lítið svigrúm eða tíma eða áhuga á að eyða öllum stundum í að hafa áhyggjur af því að konur séu með einhvern uppskafning eða séu orðnar helst til of áhrifamiklar.

En það er sorglegt að heyra að "þú" skulir vera orðin svona óskaplega þreytt á því að "þér" skuli vera andmælt með rökum, hvað er þá til ráða?  Er lausnin þá að banna hreinlega með lögum að feminískri aðferðafræði sé mótmælt, af því að femínistarnir eru svo þreyttir?  Og lemja bara í gegn hálfgerðan femínískan fasisma, af því að annar hópurinn er búinn að fá nóg af því að rökræða kosti og galla tiltekinnar skoðunar?  Og var einhver að tala um kúgun karlmanna?  Bara spyr. 

Haukur (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 08:37

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Af hverju ættu þessi störf sem þú nefnir að vera nær engöngu skipuð konum? Þetta eru allt láglaunastörf - og það er einmitt vandinn að konur fá mun færri tækifæri í betur launuð störf. Karlar eru í minnihluta þessara starfa vegna þess að þeir fá tækifæri til að vinna betur launuð störf. Þetta er einmitt kjarni málsins.

Þú segir að það halli hvergi á karlmenn þar sem menntunar er krafist ( og þér finnst það augljóslega hið besta mál). En það hallar á karlmenn í til dæmis í kennarastétt - þar sem jafnréttislögin gætu komið til hjálpar. Sama er að segja um hjúkrunarfræðinga. Það er ekkert náttúrulögmál að í þessum stéttum séu  konur í miklum meirihluta.

Á móti hallar á konur í stjórnendastörfum til dæmis í bönkunum, þar sem þær eru meirihlutu starfsmanna en minnihluti stjórnenda. Hvernig skyldi standa á því? Þær geta unnið störfin - en ekki stjórnað? Þú sérð sjálfur að röksemdir þínar ganga ekki upp.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 6.6.2008 kl. 09:48

10 identicon

Elsku Ólína. Takk fyrir að taka þetta mál upp og hugmyndina sem liggur að baki. Það kemur mér alls ekki á óvart að karlaveldið í dauðateygjum skynji ekki  hugmyndafræðina á bak við hugsunina um ójafnræði. En það er nú bara fyndið fyrirbæri og í guðanna bænum strákar haldiði áfram að kitla hláturtaugarnar, með þessari röksemdafærslu. Það er endalaust gripið til þeirra raka að konur séu "minnihlutahópur" og "veikara kynið" og að þær þurfi þess vegna á "kvóta" að halda. Þessu er bara ekki svona farið. Málið er einfalt: Konur eru helmingur mannkyns - karlar og konur eiga að sitja jöfn að lífinu og tækifærum þess. Konur þurfa enga kvóta, bara jafnrétti.
En þannig er það bara ekki. Staðreyndirnar tala sínu máli. Ég vildi óska þess að þeir fulltrúar karlaveldisins í dauðateygjum, sem hér skrifa, myndu eyða orku sinni í að skoða í alvöru stöðu dætra sinna, kærasta/eiginkvenna og mæðra, án þess að nota til þess "glæpsamlegan" hugsunarhátt, heldur skynsemi og fordómalaust.
Ætli þeir hinir sömu kæmust þá ekki, algerlega hjálparlaust, að skynsemdarniðurstöðu og færu að vinna að jöfnum hlut allra manna, enda eru þetta ábyggilega allt góðir og gegnir og vel gefnir menn svona að  öllu jöfnu.
Ég vil hins vegar taka undir hugmyndina um "glæpsamlegan hugsunarhátt" og minna á að maður, sem ætlar að fremja kynferðisafbrot á barni - hann byrjar á því að hugsa um gjörninginn - hann er að hugsa glæpsamlega. Við erum það sem við hugsum. Konur og karlar þessa lands - hugsum jafnrétti - hugsum um hvað við getum gert gott ef orkan okkar er notuð til jafnræðis og samvinnu í staðinn fyrir sundrung, asnalegan málflutning og glæpsamlegan hugsunarhátt hvað varðar jafnan hlut karla og kvenna á þessari jörð.

Maríanna Friðjónsdóttir (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 11:00

11 identicon

"Maríanna", það er einmitt mergurinn málsins, konur og karlar eiga að sitja jöfn að tækifærunum, ekki niðurstöðunum.  Af hverju eiga konur, eða karlar ef út í það er farið, að fá helming þingsæta, stjórnarsæta, ráðherrastóla, eða embætta?  Er ekki jafnrétti einmitt það að konur og karlar hafi jöfn tækifæri til að ná markmiðum sínum, hver sem þau eru, án þess að þeim sé fyrirfram úthlutað markmiðum byggt á kynferði?

Konur þurfa engan kvóta, heyr heyr!  "Ég" er fullkomlega sammála og þar tek "ég" hjartanlega undir með "þér".  Konur eiga ekki að fá kvóta á framboðslistum eða neinu öðru, í fyrsta lagi vegna þess að slíkt er móðgun við konur (aumingjavæðing kynsins) og í öðru lagi vegna þess að slíkt er ósanngjarnt gagnvart þeim sem eiga kannski frekar skilið ráðherradóminn eða þingsætið, en eru svo óheppnir að vera af "röngu" kyni.

En margar tala um að það verði að skipta öllu til helminga því konur séu helmingur mannkyns.  Þ.e.a.s. skipta gæðum heimsins í tvo hluta svo konur og karlar fái örugglega alltaf jafnt.  Hvað með aðra skiptingu.  Hvað með t.d. að hávaxið fólk fær að jafnaði hærri laun og betri stöður en lágvaxið?  Þarf ekki að setja hæðarkvóta?  Hvað með aldur?  Mjög ungt fólk (20-30 ára) og eldra fólk (65 ára og eldra) fær t.d. ekki góða útkomu í prófkjörum.  Þarf ekki að tryggja að þessir hópar fái örugglega sinn rétt?

Eða er kannski best að tryggja öllum jafnræði í upphafi og láta svo hvern og einn spila úr því sem hann eða hún fær, óháð aldri, háralit, eða kyni?

Konur þurfa ekki kvóta.  Það má vel vera að femínistar sem eru orðnar "dauðþreyttar" á umræðunni vilji kvóta og skyndilausnir, en þær berjast ekki fyrir jafnrétti.  Þær berjast fyrir kvenréttindum, sem oft á tíðum hafa ekkert með jafnrétti að gera.  Þær berjast fyrir því að konur fái hluti og gæði með sem minnstri fyrirhöfn og nota til þess rök sem hníga að því að konur eigi svo bágt og allir séu á móti þeim.  Hver vill ekki fá allt fyrir ekkert?  Það er því skylda þeirra sem aðhyllast jafnrétti að berjast gegn þessum þrýstihópum og tryggja að einstaklingar, óháð kyni, fái frelsi og frið til að spila úr þeim spilum sem þeim eru gefin í upphafi, og samfélagið tryggi einfaldlega að allir hafi sömu tækifæri í upphafi.  Skylda samfélagsins er ekki að tryggja að allir uppskeri hið sama þegar spilið er búið.

En þreyttir femínistar eru eflaust ósáttir við það fyrirkomulag. 

"Haukur" (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 13:40

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það er eitthvað mikið að í athugasemdakerfinu. Hér hafa dottið út fjöldi athugasemda frá lesendum bloggsíðunnar, en eftir standa svörin frá mér.

Þetta eru hálf undarlegar einræður - ég ætla að reyna að laga þetta. Veit samt ekki hvort það tekst.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.6.2008 kl. 13:51

13 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Get ekki lagað þetta - en til að upplýsingar þá eru athugasemdirnar nr. 5, 6 og 7 skrifaðar sem svör við öðrum athugasemdum sem af einhverjum ástæðum eru farnar út. Það er því engin lógík í umræðunni, eins og hún birtist lesendum núna.

 Mér þykir það leitt - en get því miður ekkert gert við þessu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.6.2008 kl. 13:55

14 identicon

SKO! Ef hér er verið að tala beinlínis um hugsanaglæpi, þá þarf auðvitað ekki að segja meira, enda væntanlega bara eitthvað sem ætti að vera ólöglegt. Vonandi að svo sé ekki, skal vera á hreinu að hlutir eins og lögsettir fléttulistar, eru andlýðræðislegir. Lýðræðið krefst þess af okkur að við sættum okkur við kerfið þó við séum ekki sátt við það, enda okkar verk að breyta hugum kjósenda, ekki kerfisins, þegar kosningarnar fara ekki eins og við viljum hafa þær. Þetta er svo mikið grundvallaratriði, að yfirvöld hafi ekki vit fyrir kjósendum og beinlínis neyði upp á fólk skert val í nafni góðs málsstaðar, sorrí, það er bara of mikil fórn. Jafnrétti skiptir máli, en það er ekki það eina í heiminum sem skiptir máli.  Lýðræðið, réttur hvers kjósanda til að ákveða þessa hluti sjálfur, vegur þyngra en einhver helvítis tölfræði, og horfist í augu við að þetta er bloddí tölfræði. Mynduð þið hafa harðari kröfur á karla í ökuskóla vegna þess að þeir valda fleiri stórslysum? Ég meina, kommon, það er til orð yfir svona lagað, og það orð er róttæki.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 03:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband