Stjórnarsamstarfið - sjávarútvegsráðherrann - LÍÚ

Hrefna Er Einar Kristinn Guðfinnsson að reyna að ganga í augun á LÍÚ - eiga hvalveiðimenn einhverja hönk upp í bakið á honum? Það er erfitt að átta sig á því hvað maðurinn er að hugsa. Þriðja árið í röð gefur hann út hrefnuveiðikvóta - og setur allt í uppnám.  

Um leið sendir hann fingurinn í átt að þeim sem hafa undanfarin misseri verið að byggja upp hvalaskoðun sem valkost í ferðaþjónustu. Þeir aðilar eru augljóslega ekki jafn beintengdir inn í sjávarútvegsráðuneyti og hvalveiðimennirnir - enda ekki aðilar að LÍÚ, en þau annars ágætu samtök virðast stjórna sjávarútvegsráðuneytinu. 

Hann sendir líka fingurinn í átt að þeim sem hafa á undanförnum árum verið að markaðssetja íslenskar útflutningsvörur - að ekki sé minnst á þá sem hafa unnið ötullega við að skapa okkur ímynd með áherslu á umhverfissjónarmið. Hann setur utanríkisráðherrann í klemmu - já og alla diplómatana sem ötullega vinna að því að skapa okkur Íslendingum sess í samfélagi þjóðanna. 

Hvað er maðurinn að hugsa? 

Svo mikið er víst að þetta bætir ekki orðstír okkar Íslendinga. Hér er verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.

Hafi það verið ætlun sjávarútvegsráðherra að sýna af sér djörfung og dug, þá er honum ekki að takast sérlega vel upp. Þetta er hvorki djörfung né dugur - þetta er bara þrákelkni og fífldirfska. Sjávarútvegsráðherra væri nær að beita kröftum sínum og viðspyrnu gegn óréttlátu kvótakerfi - þar hefur hann ekkert aðhafst. Ekkert.

Svo má spyrja hvað ráðherranum gangi til gagnvart samstarfsaðilum sínum í ríkisstjórn. Auðséð er af yfirlýsingu utanríkisráðherra - formanns Samfylkingarinnar - að þessar nýjustu tiltektir hafa ekki vakið lukku í stjórnarsamstarfinu.

Er Einar Kristinn að ögra samstarfsflokknum? Getur verið að Sjálfstæðismenn séu að guggna í ríkisstjórninni?


mbl.is Alvarleg aðför að hvalaskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Sæl Ólína.

Fyrir það fyrsta þá er löngu vitað að LÍÚ stjórnar sjávarútvegsráðherra með frekju, yfirgangi og í mörgum tilfellum hótunum.

Í öðru lagi þá geta hvalveiðar og hvalaskoðun farið flott saman eins og marg sinnis hefur verið bent á. Það má vel svæðaskipta landgrunninu og skilgreina hvalafriðunarsvæði og hvalveiðisvæði.

Skip beggja aðila þyrftu aldrei að vera í augsýn hvors annars.

Ég skil ekki af hverju ráðherra sjávarútvegsmála lét ekki verða af svæðaskiptingu !

Annað; LÍÚ trúir því að ef veiddir verða hvalir þá fái þeir að veiða loðnuna áfram óheft og viðhaldið þar með skepnuskapnum gagnvart lífríkinu í hafinu umhverfis Ísland.

Allur málflutningur LÍÚ gengur út á stöðugan áróður og kúgunar skoðanaskipti !

Samræðusstjórnmál eru ekki til í orðabók LÍÚ, heldur aðeins eitt orð; "Kúgunarstjórnmál".

Níels A. Ársælsson., 20.5.2008 kl. 00:20

2 Smámynd: Haraldur Pálsson

Níels
"Annað; LÍÚ trúir því að ef veiddir verða hvalir þá fái þeir að veiða loðnuna áfram óheft og viðhaldið þar með skepnuskapnum gagnvart lífríkinu í hafinu umhverfis Ísland."

Hvaða lífvera er skepnan í hafinu, við mennirnir eða hvalirnir sem éta ekki bara meiri fisk en við heldur einnig allt fæðið frá honum líka.
Finnst þér líklegt að LÍÚ, sem eru einnig þeir sem sækja fiskinn í sjóinn vilji veiða alveg upp einn dýrmætasta stofninn og fá þannig ekkert fyrir hann árið á eftir?
Sennilegast ekki, en það þykir alveg sýnt að hvalir eru ekki fáir í hafinu og eru þeir greinilega farnir að hafa töluverð áhrif á lífríki hafsins. Þjóðin myndi því sennilega hagnast á því að hvalveiðar yrðu stórelfdar þannig að fiskistofnar við landið myndu stækka á nýjan leik.

Haraldur Pálsson, 20.5.2008 kl. 02:07

3 Smámynd: Gunnar Páll Gunnarsson

Steina á afmæli á morgun (þriðjudag) fædd 20. 05. 1960. Láttu það ganga.

Gunni Palli kokkur.

Gunnar Páll Gunnarsson, 20.5.2008 kl. 03:36

4 identicon

Sæl Ólína. Þetta er ótrúlegt og úr öllum tengslum við veruleikann, allavega þann sem skapar orðstý. Hann er svo sem ekki eini ráðherran um að berja hausnum við steininn. Þegar menn eru farnir að sækja Þangbrand til þess að mæla gegn EBS er farið að fjúka í flest skjól. Þú nefnir óréttlátt kvótakerfi og aðgerðaleysi. Mér finnst aðgerðirnar vera nægar þar sem hagsmunaaðilar fá óáreittir að viðhalda óréttlætinu. Allur sjávarútvegurinn er eitt allsherjar havarí. Þegar kvótakerfið og það sem þar liggur á bakvið er búið að drepa smábátaútveginn er kostnaðurinn orðinn svo mikill að fiskur er munaðarvara. Þetta gerist líka hér í Noregi. Mikill hluti fiskjar er sendur alla leið til Kína til fullvinnslu í svokallaðar neytendaumbúðir og svo aftur til baka. Ferskfiskur í búð kostar kringum 2000 kr kg og meira á meðan kíló af kjúklingum kostar langt undir 1000 kr. kg. og svínakjöt er á svipuðu verði. Lax úr eldi er hinsvegar orðin eins og síldin í gamla daga - matur hinna efnaminni. Hvað borðar eldislaxinn?
Professor Ottar Brox (emeritus í Háskólanum í Tromsø) hefur margsinnis sýnt fram á að strandveiðar á hagkvæmum smábátum skila miklu meiri arði en stórveiðar á verksmiðjutogurum, þegar upp er staðið og er þá ekki reiknað með þeirri eyðileggingu á botnumhverfi sem togarar valda.
Það getur vel verið að það séu næhjanlega margir hvalir í sjónum til þess að það megi veiða þá. En það er álíka vitlaust að gera það eins og að selja veiðileyfi á rollur uppi á heiðum. Það er ekki fallegt til afspurnar.

Albert Einarsson (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 07:58

5 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Haraldur ! (Sonur hafsins).

Varðandi meiningu þína um hvað sé dýrmætasti stofninn, þá er það nú bara svo að enginn hlekkur í hafinu er sterkari en veikasti hlekkurinn.

Þetta getum við séð bezt á því hvernig hörpuduiskstofninn í Breiðafirði hrundi gjörsamlega vegna ofveiði á loðnu.

Sjá; http://nilli.blog.is/blog/nilli/entry/236989/

Já Haraldur ég trúi nánast hverju sem er upp á forystu LÍÚ, sem reyndar er nánast einn maður og þar með (einræðisherra) þar við völd og rekinn er áfram af ofurskuldum síns útgerðafélags.

Níels A. Ársælsson., 20.5.2008 kl. 08:50

6 Smámynd: Sævar Helgason

Góður pistill hjá þér,Ólína.

Varðandi LÍU og sjávarútvegsráðherra , þá sýnst sem að hann sé kontóristi þessara hagsmunasamtaka. Fyrir einum 2-3 árum gaf hann út veiðiheimild á stórhvalaveiðar að ósk hagsmunaaðila .  Veiddir voru margir stórhvalir.  Enginn kaupandi hefur ennþá fengist til að kaupa það kjöt- það liggur allt inni í frystigeymslum. Umræðan erlendis bættist síðan ofaná það tap sem af þessum veiðum leiddi.

Ljóst er að mjög miklir hagsmunir eru í ferðaþjónustunni gagnvart hvalaskoðun og hagnaður af þeirri starfsemi er í æðraveldi gagnvart veiðum á nokkrum hrefnum, fyrir innanlandsmarkað.

Hrefnur eru mjög félagslynd dýr og halda vel saman og skemmtileg til skoðunar.

Við sem stundum sjó á smábátum hér á grunnslóð  t.d í Faxaflóa, erum oft í mikilli nálægð við þessi dýr.  Þetta eru einkar friðsamar skepnur og meinlausar sé ekkert á hlut þeirra gert. 

Þegar lífi þeirra er ógnað og einhverjar láta lífið fyrir hvalskutli- geta þær sem eftir lifa orðið mjög reiðar og gert árás á veiðiskipið- skipið breytist í skæðan og hættulegan óvin. 

Að blanda saman hvalveiðum og hrefnuveiðum er afar slæm blanda- hrædd dýr með slæmar minningar gagnvart hættu sem getur stafað frá skipum ,gefa minna færi á nálægð.

Við eigum að láta þessi dýr vera hluta af okkar umhverfisímynd og friða þau fyrir veiðum. Að hafa margfaldar atvinnutekjur af því að sýna þau ferðamönnum, en að drepa þau - er okkar framtíð.

Samfylkingin er á réttri leið í málinu. 

Sævar Helgason, 20.5.2008 kl. 09:14

7 Smámynd: Sævar Helgason

Leiðrétting

"Að blanda saman hvalveiðum og hrefnuveiðum"  átti auðvitað að vera : Að blanda saman hvalveiðum og hvalaskoðun ...

Sævar Helgason, 20.5.2008 kl. 09:40

8 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Samfylkingin hefur áhyggur af því að komast ekki í öryggisráðið.

Sigurður Þórðarson, 20.5.2008 kl. 13:23

9 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Merkilegt við þetta mal er djúpstæður ágreiningur er í ríkisstjórninni um þetta mál.

Hvalveiðar eru slæm tímaskekkja. Við erum að leggja steina í götu hvalaskoðunar sem eru okkur margfalt meira virði. En Íslendingum er ákaflega tamt að fleygja perlum fyrir svín.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 20.5.2008 kl. 13:54

10 identicon

Ég skil ekki hvers vegna á að friða hvalastofninn. það virðist þá helst vera vegna undirlægjuháttar gagnvart útlendingum. Mótmæli gegn hvalveiðum eru upprunnin í bandaríkjunum, mestu hvaladrápara í heimi.

Við eigum að veiða alla þá hrefnu sem við komumst yfir að borða. Það getur alveg farið saman hvalaskoðun og hvalveiðar, alveg óþarfi að vera hver ofan í öðrum.

En það þarf að friða loðnuna og banna allar veiðar í flottroll, nema hugsanlega kolmunaveiðar.

Árni Pálsson (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 14:06

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Einar Kristinn landbúnaðarráðherra hefur mótmælt harðlega ákvörðun Einars Kristins sjávarútvegsráðherra um að leyfa hér veiðar á fjörutíu hrefnum í ár. "Hrefnuketið verður í harðri samkeppni við nautaketið á grillinu í sumar og hvað segja bændur þá?! Þeir munu nú aldeilis missa stóran spón úr aski sínum vegna þessarar bjánalegu ákvörðunar," segir landbúnaðarráðherra.

"Sei sei, þessar veiðar eru nauðsynlegar fyrir landsbyggðina, einkum Kópavog og Reykjavík," segir sjávarútvegsráðherra. "Þú getur sjálfur verið bjáni, þú þarna sveitastrumpur!"

Báturinn Njörður frá Kópavogi hélt til hrefnuveiða á Faxaflóa í dag en þrír bátar frá Reykjavík, Ísafirði og Súðavík hafa einnig stundað þessar veiðar. Og Félag hrefnuveiðimanna hefur samið við Kjötvinnsluna Esju í Reykjavík um vinnslu, pökkun og markaðssetningu á því sem veiðist.

"Samþykkt hefur verið framlenging á samningi Reykjavíkurborgar við Esju kjötvinnslu vegna kjötkaupa handa mötuneytum og eldhúsum borgarinnar. Samningurinn hefur verið framlengdur til júní 2008."

http://www.esja.is/user/home

"Þetta verður mikil búbót fyrir okkur í sumar og gaman að éta hrefnuketið," segir Ólafur Friðrik, borgarstjóri og umhverfisverndarsinni. Yfirlýsing forstjóra Baugs um að fyrirtækið væri mótfallið hvalveiðum var talin ástæða þess að Hagkaup voru ekki tilbúin til að selja hrefnuket í fyrra.

"Það verður flott að fá hrefnukjöt á grillið! Segi nú ekki að það jafnist á við nautakjöt en gott er það."

http://thorolfur.blog.is/blog/thorolfur/entry/545128/

"Ég grillaði hrefnukjöt. Þvílíkt og annað eins ógeð hef ég sjaldan smakkað - það minnti á þorskalýsislegið hreindýrakjöt."

http://bjorgvin.eyjan.is/hrefnukjt_og_tlendingahatur.htm

Þorsteinn Briem, 20.5.2008 kl. 15:43

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta eru allt of fáar hrefnur, sér ekki högg á vatni við þetta. Krafan ætti að vera frjálsar veiðar í 5-10 ár eða þar til ástandið kemst í einhvern námunda við að ræða þurfi hvort nauðsynlegt sé að setja á kvóta. Gefum hálfan aflann til Afríku og Asíu, þá gerum við vel og eignumst ýmsa bandamenn í hvalveiðimálum.

Jón Valur Jensson, 20.5.2008 kl. 18:23

13 Smámynd: Yngvi Högnason

Ég er nú yfirleitt á móti svona einstefnu,það hlýtur að vera hægt að stunda veiðar og vera einnig með þessa hvalaskoðun. Ég get ekki séð að við höfum einhverjar skyldur gagnvart útlendingum í þessu máli og hef ekki skilning á því hvað við eigum að vera að beygja okkur undir það hvað aðrar þjóðir vilja í þessum málum.
Var ég ungur sendur stundum niður á Bæjarbryggju þegar Kalli kom með hrefnu að landi,skorna,og seldi kjötið af reislu. Var benslagarni stungið í gegnum bitann og hnýtt lykkja til halds, vesgú, engan þurfti pokann.Einnig man ég eftir stoppi við hvalstöðina þar sem kíkt var á hvalskurð og sníkt tönn ef að til var. Tel ég mig heppinn að hafa upplifað slíka daga og tel að gerilsneyddur nútíminn í plastpoka sé ekki eins skemmtilegur.  En þetta var fyrir Djúpveg og áður en að allt varð heilagt í augum þeirra sem að vilja geyma alla skapaða hluti ósnerta, fyrir eitthvað fólk sem að ekki er einu sinni fætt og verður alveg nákvæmlega sama um það sem að við erum að gera í dag,þegar það er fætt og hefur vit á. 

Yngvi Högnason, 20.5.2008 kl. 19:26

14 Smámynd: Hólmgeir Guðmundsson

Alþingi mun hafa samþykkt þingsályktun um að nýta skuli hvalastofna, átti ekkert að gera með það ?

Sumarið 2003 hófust aftur veiðar á hval. Á hverju einasta sumri hafa þeir sem standa að hvalaskoðun verið vælandi öllum stundum um að hvalveiðar "kippi grundvellinum undan þessum rekstri" og svo frv. Þess á milli guma þeir af hve vel gangi. Svipaða sögu, þó örlítið hófstilltari, má segja af öðrum "ferðaþjónustuaðilum". Þetta er reyndar mjög hliðstætt reynslu norðmanna af hvalveiðum og áhrifum þeirra.

Breski sendiherrann og sjávarútvegsráðherrann hafa lýst árlegum vonbrigðum sínum. Vonbrigði eru hluti af lífinu og þeir verða að venja sig við þau.

Samfylkingarráðherrar hafa tekið undir í vælukórnum, en gerir það nokkuð til ?

Efalaust munu einhver ríki ekki greiða okkur atkvæði til setu í öryggisráði SÞ vegna málsins og HUGSANLEGA náum við ekki sæti vegna þess. Þá finnst mér eigi að umbuna hrefnuveiðimönnum sérstaklega en það verður að skoða þegar þar að kemur.

Hólmgeir Guðmundsson, 20.5.2008 kl. 21:08

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þær fjörutíu hrefnur sem leyfilegt er að veiða hér við land í ár eru einungis 0,001% af þeim 44 þúsund hrefnum sem Hafrannsóknastofnun taldi á landgrunnssvæðinu hér við Ísland árið 2001. Þessar hrefnuveiðar nú breyta því engu um fiskstofna hér við land en hrefnan étur að langmestu leyti ljósátu, loðnu og sandsíli.

Enginn getur aftur á móti fullyrt að þessar hrefnuveiðar skaði ekki íslenska ferðaþjónustu, því fjöldi fólks um allan heim hefur lýst mikilli andúð sinni á þessum veiðum, enda þótt hér sé einungis um fjörutíu hrefnur að ræða. Því er margfalt líklegra að veiðarnar valdi okkur stórum skaða, frekar en að þær geri það ekki.

Tillaga Japana um að leyfa mjög takmarkaða verslun með hrefnukjöt var felld á ársfundi CITES í Chile árið 2002.

"Því er ljóst að enn er langt í land með að rök hvalveiðiþjóða eigi upp á pallborðið á þessari samkomu. CITES er sú alþjóðastofnun sem hefur eftirlit með viðskiptum með dýr og plöntur sem taldar eru í útrýmingarhættu. Tillaga Japana um að heimiluð yrðu alþjóðleg viðskipti með hrefnukjöt í mjög takmökuðum mæli var tekin fyrir af einni af undirnefndum CITES og féllu atkvæði þannig að 54 ríki greiddu atkvæði gegn tillögunni, 41 ríki var meðmælt tillögunni, fimm atkvæði voru auð og sex ógild. Alls höfðu 160 ríki atkvæðisrétt.

Sambærileg tillaga Norðmanna naut meirihlutastuðnings á síðasta ársfundi CITES í Nairobi í Keníu en til þess að tillögurnar nái fram að ganga þurfa 2/3 hluta atkvæða."

http://www.skip.is/frettir/nr/413

Ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun hvalveiða í atvinnuskyni tók gildi árið 1986. Í upphafi átti bannið að gilda í fjögur ár en það var framlengt og aukinn meirihluta þarf í ráðinu til að hnekkja ákvörðuninni. Hvalarannsóknir Hafrannsóknastofnunar hafa einkum beinst að þeim tegundum sem nytjaðar voru hér fram að þessu veiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins, langreyði, sandreyði og hrefnu. Árið 2003 hófust viðamiklar rannsóknir á hrefnu og vísindaveiðum á hrefnu lauk hér í fyrra en þá voru veiddar hér 45 hrefnur, 39 í vísindaskyni og 6 í atvinnuskyni.

Hrefnukjötið fór á innanlandsmarkað og keppti þar við kjöt frá íslenskum bændum.

Þorsteinn Briem, 21.5.2008 kl. 00:33

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þarna sérðu, Steini, það er eins og upp í nös á ketti að veiða bara 40 hrefnur, þær ættu frekar að vera 440 (1%) eða 880 (2% stofnsins), þá gætu margir unnið við þessa atvinnugrein, og þetta væri, þrátt fyrir stórfelldar matgjafir til 3. heimsins, ódýr vara í góðri samkeppnisaðstöðu hér á landi gagnvart því keti sem Einar K. vill fara að flytja inn hrátt.

Svo er goðgá að segja, að hrefna sé vond; menn þurfa bara að matreiða hana rétt. Hitt er laukrétt, að þetta er ket fátæka mannsins, enda geta ekki allir étið lambaket í alla mata, eins og kerlingin sagði.

Jón Valur Jensson, 21.5.2008 kl. 00:56

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jamm, ég held að það sé mikið betra að sleppa þessu en veiða skitnar fjörutíu hrefnur, Jón minn Valur. En Félag hrefnuveiðimanna er með nokkrar hrefnuketsuppskriftir hér:

http://www.hrefna.is/?c=webpage&id=4

Þorsteinn Briem, 21.5.2008 kl. 02:36

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Við Íslendingar lifum á útlendingum í nær einu og öllu, og ég veit ekki til að meiningin sé að taka hér aftur upp sjálfsþurftarbúskap. Hvort útlendingar eru hálfvitar, eða ekki, skiptir engu máli í þessu sambandi, því þeir kaupa af okkur nær allan fiskinn sem hér veiðist, 1-2 milljónir tonna á ári, og við höfum einnig góðar tekjur af erlendum ferðamönnum. Við höfum hins vegar engar tekjur af hrefnuveiðum og þær hafa engin áhrif á stærð fiskstofna okkar. Við getum ekki selt kjötið úr landi, étum það ekki endalaust sjálfir og íslenskir bændur missa stóran spón úr aski sínum vegna hrefnukjöts, sem hér er selt í samkeppni við þeirra kjöt.

Vísindaveiðum á hrefnu lauk hér í fyrra og veiðarnar þurfa að standa undir sér. Útgerðin getur ekki gefið kjötið. Hins vegar hefur olíukostnaður hrefnuveiðibátanna aukist mikið frá því í fyrra og því verður alveg á mörkunum að þessar veiðar standi undir sér í sumar. Erlendir ferðamenn, sem margir fara hér í hvalaskoðunarferðir, fá hins vegar mun meira fyrir erlendan gjaldeyri sinn hér en í fyrra og geta því keypt meiri þjónustu af okkur en þá. Og nú fáum við fleiri krónur fyrir hvert útflutt kíló af fiski en við fengum í fyrra.

Tekjur Norður-Siglingar á Húsavík af hvalaskoðun hafa verið
um 700 milljónir króna á núvirði frá árinu 1995, sé miðað við þrjú þúsund króna tekjur af hverjum farþega, en fyrirtækið hefur farið með vel á þriðja hundrað þúsund manns í þessar ferðir síðastliðin þrettán ár. Það má því reikna með að tekjur fyrirtækisins af erlendum ferðamönnum í hvalaskoðun hafi verið á núvirði um hálfur milljarður króna frá upphafi í 2.400 manna bæjarfélagi.

Erlendir ferðamenn gistu í 48.400 nætur á Vesturlandi og Vestfjörðum árið 2006, en hver erlendur ferðamaður eyðir hér um 100 þúsund krónum að meðaltali og dvelst hér í viku. Til landsins komu um 420 þúsund erlendir ferðamenn árið 2006 og eyddu því hér samtals um 42 milljörðum króna það ár. Þar að auki koma hingað árlega um 60 þúsund farþegar með um 100 skemmtiferðaskipum og nú geta þau lagst að bryggju á Húsavík. Erlendum ferðamönnum fjölgar hér árlega og því má reikna með að þeir eyði hér um fimmtíu milljörðum króna í ár.

http://vgwww.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Erl_ferdam_ahrif_greinargerd/$file/Erl_ferdam_ahrif_greinargerd.pdf

Þorsteinn Briem, 21.5.2008 kl. 14:38

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Glettilega góðar í sjómanni,
en gasalega oft eru í banni,
hrefnurnar chilla,
með honum Nilla,
flottar eru fraukur með sanni.

Þorsteinn Briem, 21.5.2008 kl. 19:28

20 Smámynd: Katrín

Aukin aðsókn ferðamanna í hvalaskoðunarferðir virðist fara saman við aukna veiði á hrefnum....allt á lesa út úr tölunum ef viljinn er fyrir hendi  Reyndar er ég ánægð með þessa ákvörðun sjárvarútvegsmálaráðherra og telst það til frétta.

Katrín, 21.5.2008 kl. 22:22

21 Smámynd: Katrín

allt er hægt að lesa..... sorry

Katrín, 21.5.2008 kl. 22:23

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ætíð ég klikka á Ólínu,
og oft ég blikka Stínu,
Þuru og Hrefnu,
þó að því gefnu,
klikkaða forðist Katrínu.

Þorsteinn Briem, 21.5.2008 kl. 22:31

23 Smámynd: Katrín

Æ takk fyrir Steini Briem...get

Katrín, 22.5.2008 kl. 10:29

24 Smámynd: Katrín

..ég treyst á það??

Katrín, 22.5.2008 kl. 10:29

25 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þegar klikkað er á þig ertu náttúrlega klikkuð, Katrín.

Og því meira sem klikkað er á þig, því klikkaðri ertu. Það segir sig sjálft.

Góðar kveðjur til ykkar allra,

Þorsteinn Briem, 22.5.2008 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband