Færsluflokkur: Bloggar

Verkin sem vinna þarf

Það var líf og fjör í umræðunum á Sprengisandinum hjá Sigurjóni M. Egilssyni í morgun. Þar sátum við á rökstólum, ég, Helga Sigrún Harðardóttir alþingismaður og Þórlindur Kjartansson formaður SUS og ræddum landsins gagn og nauðsynjar - nánar til tekið: Stjórnmálaástandið og horfurnar sem eru mál málanna þessa dagana (hlusta hér).

Annars var ég að kynna mér verkefnaskrá nýju ríkisstjórnarinnar. Þar er margt sem vekur von um góðan ásetning um brýnar aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs, til endurreisnar bankakerfisins, á sviði endurbóta í stjórnsýslu og aðgerðum í þágu aukins lýðræðis og opins og heiðarlegs samfélags, eins og þar stendur.

Athygli mína vakti fyrirheit um nýjar siðareglur í stjórnarráðinu, afnám eftirlaunalaganna um alþingis og ráðherra, endurskoðun laga um ráðherraábyrgð og ekki síst breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og stjórnlagaþing.  

Fyrirheitið um endurreisn efnahagslífsins og endurskipulagningu stjórnsýslunnar veltur vitanlega á fleiri aðilum en ríkisstjórninni. Það veltur á þingheimi í heild sinni - og þjóðinni sjálfri.

Nú ríður á að sátt náist um að vinna hratt og vel að björgun þjóðarbúsins með þáttöku þjóðarinnar sjálfrar.

 

PS: Sjá líka viðtal mitt við Gísla Tryggvason á ÍNN


Í gang aftur eftir dásemdir Dolomítatindanna

Dolomíta-tindarnir Jæja, þá er ég aftur komin í gang eftir dásamlegt skíðafrí með systrum mínum í ítölsku Ölpunum - undirlögð af harðsperrum en endurnærð til líkama og sálar. Annan eins snjó hef ég aldrei séð og þann sem kom niður úr himninum yfir Madonna síðustu daga. Og kalla ég þó ekki allt ömmu mína í þeim efnum, hafandi búið á Ísafirði í samanlögð 14 ár um mína daga. En tveggja mannhæða háar snjóhengjur ofan á þökum húsa hef ég aldrei augum litið fyrr en í þessari ferð.

Og náttúrufegurðin þarna, maður lifandi! Dolomíta-fjöllin með sínar tignarlegu klettaborgir og tvöþúsundmetra háu tinda. Þetta var engu líkt.

Eru þá ónefndar skíðabrekkurnar - endalausar og aflíðandi. Misvel troðnar að vísu - enda hafa ekki sést þarna önnur eins snjóþyngsli í manna minnum. Sem aftur varð þess valdandi að við systur vorum mis-glæsilegar á skíðunum. Sem aftur varð þess valdandi að við gátum mikið hlegið - allar sex!

Jamm ... það var auðvitað með hálfum huga sem ég fór þetta, svona mitt í efnahagshruninu. En þar sem ferðin hafði nú verið bæði pöntuð og greidd fyrir bankahrun - og ekki á hverjum degi sem systrahópurinn allur gerir sér dagamun með þessum hætti - þá lét ég slag standa.

Og ég sé ekki eftir því - enda hef ég ekki hlegið annað eins í háa herrans tíð og þessa síðustu viku. Hlátur er hollur. Smile

En nú er þetta gaman sumsé búið í bili - og við tekur (vonandi) annað gaman hér heima. Wink

Er að fara í Sprengisandinn hjá Sigurjóni M. Egilssyni á Bylgjunni í fyrramálið. Set kannski inn tengil hérna eftir þáttinn.

Bless á meðan.


Stjórnmálaástandið og horfurnar við stjórnarmyndun

Stjórnmálaástandið, stjórnarmyndunarviðræðurnar og horfurnar framundan voru til umræðu á Morgunvaktinni í morgun þar sem við Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur sátum á rökstólum. Þið sem áhuga hafið getið hlustað hér.

Þó svo að útlit sé fyrir að Samfylking og VG hafi nú þegar komið sér saman um myndun minnihlutastjórnar með hlutleysi Framsóknarflokks - og það séu því umtalsverðar líkur á slíkri ríkisstjórn - er margt sem mælir frekar með þjóðstjórn eða utanþingsstjórn eins og sakir standa. Það eitt að kosningar eru framundan eykur flækjustigið sem við þurfum síst á að halda. Þegar ráðherrar standa annarsvegar í kosningabaráttu, hinsvegar frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, þá er hætta á að ákvarðanirnar líði fyrir annarskonar hagsmuni.

Þjóðstjórn neyðir hinsvegar alla að stjórnarborðinu og þar með til samábyrgðar á þeim ákvörðunum sem teknar verða. Það gæti verið kostur í stöðunni.

Helst er ég þó á því að  það eigi að mynda stjórn með fólki utan alþingis sem er ekki sjálft á kafi í kosningabaráttu um leið og það er að stjórna landinu.

Það er mín skoðun - við sjáum hvað setur.

En það eru komnar 6007 undirskriftir við kröfuna um nýtt lýðveldi Smile

logo


Í dag tók ég þátt í Íslandsmeti, mótmælti, æfði hundinn og ... var sumsé veðurteppt

yoga_2 Ég er veðurteppt á Ísafirði og hef verið föst í þrjá daga. Hér er brjálað veður dag eftir dag og ekki flogið. Ég hef því verið fjarri góðum mannfagnaði á Austurvelli, en það var gaman að sjá fréttamyndirnar þaðan í kvöld. Stemninguna, taktinn, stuðið.

Í staðinn brá ég mér ásamt fjölmörgum Ísfirðingum í íþróttahúsið á Torfnesi til að setja Íslandsmet í jóga. Þangað mættu hátt á annað hundrað manns sem sameinuðust í einbeittu jóga í eina klukkustund. Það var endurnærandi stund.

Svo skellti ég mér ásamt fleiri mótmælendum á Silfurtorgið á Ísafirði þar sem haldnar voru fjórar ræður. Samkomunni lauk með því að allir sungu einum rómi Öxar við ána.

Síðdegis dreif ég mig svo með félaga mínum upp á Seljalandsdal að æfa hundana í snjóflóðaleit. Það var varla stætt fyrir vindi og grimmdarhagléli, en við paufuðumst þetta og kláruðum æfinguna. Annars er stórmerkilegt hvað hundarnir láta veðrið lítið á sig fá. Alltaf jafn glaðir og áhugasamir (maður gæti ýmislegt lært af þeim).

En á morgun er nýr dagur - og veðurspáin afleit fyrir Vestfirði. Woundering


Gott Hörður!

Hörður Torfason er maður að meiri núna - og sjálfum sér líkur - þegar hann hefur beðist afsökunar á óheppilegum orðum sem féllu í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í gær. Þetta var gott. Heart

Áfram Hörður!


mbl.is Baðst afsökunar á ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítir borðar - nýtt upphaf, friðsamleg breyting

White_ribbon Í morgun þegar íbúar borgarinnar vöknuðu og fóru á stjá tóku þeir sem áttu leið um Ártúnsbrekku og Miklubraut eftir hvítum borðum á ljósastaurum meðfram stofnbrautinni. Þeir láta ekki mikið yfir sér þessir hvítu borðar - en hafa strax valdið heilbrotum. Hvaðan koma þeir? Hvað boða þeir?

Böndin tóku fljótlega að beinast að átakinu Nýtt lýðveldi - og það með réttu. Við sem stöndum að áskoruninni um utanþingsstjórn og boðun stjórnlagaþings á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is göngumst fúslega við þessu. Vorum þó að velta fyrir okkur hversu langur tími liði þar til fólk áttaði sig á því hvað um væri að vera. En nú þegar blaðamaður morgunblaðsins er búinn að hafa samband og fá réttar upplýsingar, skal upplýst hér hvað er á seyði. Við vonum að fleiri fari að dæmi okkar.

Hvítur er litur friðar. Sumstaðar í Austurálfu þýðir hvítt sorg. Og svo sannarlega hefur margt farið úrskeiðis sem valdið hefur sorg í okkar samfélagi.  En hvítt merkir líka nýtt upphaf. Hvítt er litur hins óskrifaða blaðs.

Við eigum draum um nýtt lýðveldi á Íslandi. Lýðveldi markað sanngjörnum leikreglum, virðingu fyrir lýðræði og grónum gildum á borð við samhjálp, heiðarleika, samvinnu, jöfnuð og ábyrgð. Þessi gildi hafa verið fótum troðin undanfarin misseri - við viljum endurreisa þau og treysta í sessi.

Við vonum að fleiri fari að dæmi okkar og prýði ljósastaurana í götunni sinni með hvítum borðum. Það má rífa niður gömul lök eða klippa plastræmur. Sömuleiðis veit ég að það fást svona borðar í fyrirtækinu Hringrás sem er fyrir neðan Byko í Kópavogi. Wink

En þessi hljóðlátu skilaboð geta orðið mjög öflug ef þau ná að breiðast vel út. Þögul en sterk áminning til stjórnvalda og stjórnmálamanna.

Gerum bæinn hvítan.


mbl.is Hvítir borðar í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldismenn eru ekki mótmælendur

Austurvöllur2008VilhelmGunnarsson Satt að segja efast ég um að þetta fólk sem þarna var að kljást við lögregluna geti kallast mótmælendur. Menn sem taka upp steinhellur og keyra þær ofan í höfuð á lögreglumönnum sem liggja meðvitunarlausir eftir eru ekki mótmælendur. Þeir eru réttir og sléttir ofbeldismenn. Angry 

Ég leyfi mér hér að tengja á bloggærslu Heiðu, en hún er ein þeirra sem hefur verið virk í friðsömum og táknrænum mótmælum að undanförnu. Hún bloggar svona um atburði næturinnar. Ég hvet ykkur til að kíkja á þetta ... og líka þetta myndskeið af atburðum næturinnar.

Annars er ég farin að dauðvorkenna lögreglumönnunum sem standa vörð um Alþingishúsið og sjá ekki út um glerhjálmana fyrir eggjakasti, súrmjólk, hráka og fleiru. Þeir eru margir hverjir ungir menn með ungar fjölskyldur, standa í húsnæðiskaupum eða húsbyggingum og svona. Þeir hafa vafalaust tekið myntkörfulán, keypt hlutabréf og reynt að spara eins og við hin og tapað því svo í bankahruninu, eins og við hin. Ofan á það áfall (því þessir menn eru jú líka þjóðin) þurfa þeir svo að standa augliti til auglitis við reiðan almenning og taka á sig svívirðingar og áverka fyrir eitthvað sem þeir bera enga ábyrgð á.

Ég sárkenni í brjóst um þá. Verð að segja það alveg eins og er.

 

----

Myndina hér fyrir ofan fékk ég á visir.is - hana tók Vilhelm Gunnarsson


mbl.is Táragasi beitt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er komið að því - undirskriftarsöfnun og áskorun á stjórnvöld!

faninn Á morgun verður formlega opnuð ný vefsíða www.nyttlydveldi.is þar sem Íslendingum gefst kostur á skora á Alþingi og forseta um að mynduð verði utanþingsstjórn og boðað til stjórnlagaþings - nýs þjóðfundar Íslendinga sem hafi það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá og leggja þar með grunn að stofnun nýs lýðveldis.  Í hinni nýju stjórnarskrá verði mörkuð skörp skil milli löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds og lagðar línur fyrir gagngera endurskoðun á kosningareglum til Alþingis.

Að áskoruninni stendur hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í samfélaginu og efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsins.

Við höfum boðað blaðamannafund í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík síðdegis á morgun, þar sem nánari grein verður gerð fyrir þessu framtaki. Svo skemmtilega vill til að fundurinn fer fram í sal sem nefnist Alþingi.

Margir góðir og vel metnir Íslendingar hafa lagt til  ráðgjöf og aðstoð við undirbúning þessa framtaks, en á blaðamannafundinum verða auk mín Njörður P. Njarðvík, Tryggvi Gíslason, Birgir Björgvinsson og hugsanlega fleiri.

Segi nánar frá þessu þegar síðan opnar formlega á morgun. Smile

Nú er allt að gerast.

 

 


Hvað skal til bragðs?

Hvað á að taka til bragðs þegar Alþingi er óstarfhæft vegna ólgu og reiði í samfélaginu? Hvað geta stjórnvöld gert til að skapa frið og sátt um þau verk sem vinna þarf?

Jú, ríkisstjórnin gæti beðist lausnar og komið þannig til móts við þá kröfu sem nú ómar hvarvetna. Þar með myndi ríkisstjórnin sýna lit á því að skapa frið í samfélaginu og þar með forsendur fyrir nýju upphafi.

Alþingi Íslendinga gæti hlutast til um það að boðað yrði til stjórnlagaþings svo unnt verði að semja nýja stjórnarskrá og byggja á henni nýtt (og vonandi betra) lýðveldi.

Það mætti breyta kosningalöggjöfinni og skerpa skilin milli framkvæmdavalds, löggjafar- og dómsvalds. 

Til að endurvekja traust á starfi stjórnmálaflokka gætu núverandi formenn flokkanna stigið til hliðar allir sem einn og hleypi nýju fólki að.

 Það er ýmislegt hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi. 


mbl.is Fundað með flokksformönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afneitun og veruleikafirring

Afneitun og veruleikafirring - það eru einu orðin sem mér koma til hugar þegar ég les þessi ummæli menntamálaráðherra. Skilur konan ekki að fólk er ekki að bíða eftir einhverjum "afdrifaríkum ákvörðunum" frá þeim ráðamönnum sem nú sitja. Fólkið vill að ríkisstjórnin víki.

Hversu lengi ætla ríkisstjórnin að berja höfðinu við steininn? Er hún að bíða eftir að mótmælin þróist í blóðuga byltingu?

Mér sýnist á öllu að það sé einmitt það sem er að gerast núna.


mbl.is Mótmæli mega ekki snúast upp í andhverfu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband