Hvítir borðar - nýtt upphaf, friðsamleg breyting

White_ribbon Í morgun þegar íbúar borgarinnar vöknuðu og fóru á stjá tóku þeir sem áttu leið um Ártúnsbrekku og Miklubraut eftir hvítum borðum á ljósastaurum meðfram stofnbrautinni. Þeir láta ekki mikið yfir sér þessir hvítu borðar - en hafa strax valdið heilbrotum. Hvaðan koma þeir? Hvað boða þeir?

Böndin tóku fljótlega að beinast að átakinu Nýtt lýðveldi - og það með réttu. Við sem stöndum að áskoruninni um utanþingsstjórn og boðun stjórnlagaþings á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is göngumst fúslega við þessu. Vorum þó að velta fyrir okkur hversu langur tími liði þar til fólk áttaði sig á því hvað um væri að vera. En nú þegar blaðamaður morgunblaðsins er búinn að hafa samband og fá réttar upplýsingar, skal upplýst hér hvað er á seyði. Við vonum að fleiri fari að dæmi okkar.

Hvítur er litur friðar. Sumstaðar í Austurálfu þýðir hvítt sorg. Og svo sannarlega hefur margt farið úrskeiðis sem valdið hefur sorg í okkar samfélagi.  En hvítt merkir líka nýtt upphaf. Hvítt er litur hins óskrifaða blaðs.

Við eigum draum um nýtt lýðveldi á Íslandi. Lýðveldi markað sanngjörnum leikreglum, virðingu fyrir lýðræði og grónum gildum á borð við samhjálp, heiðarleika, samvinnu, jöfnuð og ábyrgð. Þessi gildi hafa verið fótum troðin undanfarin misseri - við viljum endurreisa þau og treysta í sessi.

Við vonum að fleiri fari að dæmi okkar og prýði ljósastaurana í götunni sinni með hvítum borðum. Það má rífa niður gömul lök eða klippa plastræmur. Sömuleiðis veit ég að það fást svona borðar í fyrirtækinu Hringrás sem er fyrir neðan Byko í Kópavogi. Wink

En þessi hljóðlátu skilaboð geta orðið mjög öflug ef þau ná að breiðast vel út. Þögul en sterk áminning til stjórnvalda og stjórnmálamanna.

Gerum bæinn hvítan.


mbl.is Hvítir borðar í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stórkostlegt framtak!  Ég styð þetta heilshugar.   Nýtt lýðveldi með nýjum leikreglum.  Flokkakerfið hefur leikið landið okkar grátt.  Það er löngu tímabært að snúa við taflinu og láta stjórnmálin snúast um fólk en ekki flokka.

 Heillaóskir og risaknús frá Gautaborg.

Teitur Atlason

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 10:11

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"The white ribbon, a white-colored ribbon or representation of a white-colored ribbon, has several different meanings depending on the context. As with other color ribbons, is sometimes used by political movements to signify or spread their beliefs."

Hvítur borði.

Þorsteinn Briem, 24.1.2009 kl. 10:34

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Gott framtak. Það sem ég óttast helst er að gömlu flokkarnir muni gera út fólk í framboð til þessa stjórnlagaþings til að geta áfram þvargað og staðið í vegi fyrir nauðsynlegum endurbótum. Það verður að hlusta á grasrótina sem nú er í óða önn að semja nýjar leikreglur fyrir stjórnkerfið, sjá t.d. hér.

Sigurður Hrellir, 24.1.2009 kl. 10:57

4 Smámynd: Lafðin

Hef bundið borða á húsið hjá mér og ljósastaurinn sem stendur við mitt hús.

Gott framtak.

Lafðin, 24.1.2009 kl. 10:58

5 Smámynd: Einar Sigvaldason

Líst vel á þetta !

En hlekkurinn www.nyttlydveldi.is virkar ekki (kl er nú 11:17 á lau)

Einar Sigvaldason, 24.1.2009 kl. 11:17

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir - já það er svo mikil umferð á síðun Nýs lýðveldis að hún leggst á hliðina hvað eftir annað. Það er verið að laga þetta - ég vona að fólk sýni þessu þolinmæði og láti það ekki aftra sér frá að reyna aftur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 24.1.2009 kl. 11:21

7 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Ólína og Njörður og fleiri sem standa að þessu framtaki. Mikið er ég glöð að fólk með alvöru kjarkmiklar hugsjónir skuli stíga fram. Ég fagna þessu mjög og finnst loksins von

Ég set hvítan borða við mitt hús

p.s. látið athuga heimasíðuna aftur

Ragnhildur Jónsdóttir, 24.1.2009 kl. 11:25

8 Smámynd: Lafðin

Síðan virkar :)  Búin að skrá mig .... bóndinn líka.

Lafðin, 24.1.2009 kl. 11:36

9 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta er siðferðilegt- samfélaglegt- og stjórnmálalegt KRAFTAVEK. Þökk sé öllum sem það styðja.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.1.2009 kl. 13:18

10 identicon

Starfsmenn Gísla Baldurs og Sjálfstæðisflokks eru nú byrjaðir að klippa borðana niður.

Það er ljóst hvar þeir standa  Engu má breyta

Björgvin víglundsson (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 13:25

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kæra á til lögreglunnar þennan GLÆPALÝÐ fyrir að eyðileggja síðuna www.nyttlydveldi.is og byrja upp á nýtt með öflugri vörnum gegn hakki þessa SKRÍLS.

Þorsteinn Briem, 24.1.2009 kl. 14:06

12 Smámynd: Einar Indriðason

Ólína... þú mátt gjarnan láta mig vita þegar síðan er komin upp aftur, þá skal ég skrifa undir aftur.

Ef það hjálpar eitthvað til... þá mæli ég ekki með því að síðan sé skrifuð í PHP... (svona svo ég setji tæknimannahattinn á mig.)

Einar Indriðason, 24.1.2009 kl. 14:31

13 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Hvað í veröldinni á utanþingsstjórn að gera í þá þrjá mánuði sem eru til kosninga? Höfum við efni á því að vera með tvö sett af ráðherrum í starfsþjálfun á því ári sem spáð er að verði hvað erfiðast í kreppunni? Fyrst nýliðana í utanþingsstjórninni og svo nýja ríkisstjórn í maí? Hefur þjóðin efni á margra vikna aðgerðaleysi?

Þetta er óðs manns æði og ég furða mig á því að jafn skynsöm kona eins og Ólína styðji þetta.

Svala Jónsdóttir, 24.1.2009 kl. 15:11

14 Smámynd: Lafðin

Það er verið að tala um 12-18 mánuði, ekki 3 ! 

Lafðin, 24.1.2009 kl. 16:21

15 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já, það er verið að hakka síðuna okkar hvað eftir annað. En við munum rísa upp jafn oft. Við eigum öryggisafrit af undirskriftunum, flestum a.m.k. og látum ekki þagga niður í okkur. Ó, nei.

 Þau ykkar sem skrifuðuð undir síðdegis í gær eða morgun skulið þegar frá  líður athuga í rólegheitunum hvort nöfnin ykkar eru ekki inni, og skrá ykkur þá aftur ef þið hafið dottið út. Við munum birta undirskriftirnar þegar búið er að laga síðuna.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 24.1.2009 kl. 16:41

16 Smámynd: Sævar Helgason

Á leiðinni á Austurvallarfundinn í dag fór ég framhjá aragrúa ljósastaura sem voru með hvítar slaufur.  Ég var orðinn fróður um merkinguna.  Hugmyndin er góð- en það er þetta með vera með rétta aðgerð á réttum tíma. 

"  En hvítt merkir líka nýtt upphaf. Hvítt er litur hins óskrifaða blaðs."

Á leið minni á mótmælafundinn fannst mér þessi skilaboð mjög truflandi.  Við erum ennþá með ríkisstjórn sem 80 % þjóðarinnar vill burt og kosningar hið fyrsta (að hluta í ath.)  Seðlabankastjórnin situr sem fastast  svo og Fjármálaeftirlitið-- þjóðin er enn hundsuð- það axlar enginn ábyrgð .  Þar er ekki komið að neinu nýju upphafi og hin óhreinu blöð efnahagshrunsins eru að drekkja okkur- útbíuð.  

Boðskapur hvítu ljósastauraborðanna gerðu mig þungan í skap á leið minni á hinn magnaða fund á Austurvelli i- því miður . Tími þeirra er ekki kominn.

Þetta er svona það sem mér finnst.

Sævar Helgason, 24.1.2009 kl. 21:04

17 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Satt er það Sævar - tími hins nýja upphafs er ekki kominn, en krafan er sú að hann renni upp.

Sjálfri finnst mér nauðsynlegt (svo ég tali bara fyrir mig) að hafa leiðarstjörnu framundan. Von um nýja tíma - hugsjón um nýja byrjun. Sömuleiðis að fara með friði.

En þetta verður hver og ein(n) að finna sjálf(ur), þ.e. hvort hann/hún er móttækileg(ur) fyrir skilaboðunum einmitt núna.

Ef ekki í dag, þá kannski bara í næstu viku - eða eftir mánuð.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 24.1.2009 kl. 21:15

18 identicon

Hver ætlar að þrífa upp þann sóðaskap sem þetta plast veldur?

Gisli Freyr Valdórsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband