Færsluflokkur: Bloggar
Gott!
17.1.2009 | 09:16
Gott hjá íslenska utanríkisráðuneytinu að afþakka bara með kurt og pí komu ísraelska menntamálaráðherrans eins og á stendur. Þeir óskuðu ekki einu sinni eftir að fá að koma heldur tilkynntu komu sína. Það sýnir nú kannski hugarþelið hjá þessari hernaðarþjóð sem lætur sprengjum rigna yfir saklausa borgarar til þess að uppræta fámennan hóp uppreisnarmanna sem sumir vilja kalla hryðjuverkamenn.
Sæju menn það gerast í New York til dæmis að Manhattan yrði sprengd í loft upp fyrir það að hryðjuverkamaður eða skæruliði (misjafnt hvernig menn vilja skilgreina þessa Hamas liða) hefði komið sér þar fyrir? Varla.
Ísraelar verða að fá að finna andúð siðaðra þjóða á framferði þeirra. Það er það minnsta sem við getum gert.
Fyrr í vikunni sendi Amnesty International út form að áskorunarbréfi til forseta Ísraels vegna mannfallsins og aðstæðnanna á Gaza. Bréfið má einnig finna á heimasíðu samtakanna (hér). Ég vona að sem flestir finni sig knúna til að prenta það út, undirrita og senda.
Heimsókn Ísraela til Íslands afþökkuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hugsað til Ingibjargar Sólrúnar
15.1.2009 | 22:59
Í þessum erfiðleikum hefur hún hvergi hlíft sér - ekkert frekar en gæðingurinn sem fasmikill skeiðar fram völlinn. Úrvalsgæðingar halda fullri reisn meðan stætt er. Þannig er Ingibjörg Sólrún. Ég óttast að hún hafi gengið fram af sér; að hún sé nú að gjalda með heilsu sinni fyrir úthaldið.
Elsku Ingibjörg Sólrún. Þúsundir félaga þinna og samverkafólks hugsa til þín núna. Þú hefur staðið þig eins og hetja - staðið með þjóð þinni eins og stólpi í hafróti undangenginna mánaða. Þú hefur tekið á þig ágjafir, árásir og vanþakklæti - vina sem óvina - af yfirvegun og aðdáunarverðri stillingu.
"Fyrst kemur fólkið - svo flokkurinn" sagðir þú einbeitt á síðasta flokksstjórnarfundi. Enginn sem þekkir þig efast um heilindi þín gagnvart þjóðinni - umhyggju þína og skyldurækni.
Eins og fleiri á ég nú þá þá ósk heitasta þér til handa, að þú fáir næði til þess að endurheimta heilsuna.
Við eigum enn ógengnar svo margar slóðir á Hornströndum. Og enn er svo mikið verk að vinna fyrir þig sem stjórnmálaleiðtoga.
Guð veri með þér og blessi verk þín. Heimurinn er ríkari með þig innanborðs.
Góðan bata.
Bloggar | Breytt 16.1.2009 kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Flokkunarkerfið á mbl mætti bæta
13.1.2009 | 16:39
Á meðan allt logar hér á bloggsíðunni minni í umræðum um stofnun nýs lýðveldis - já, á meðan verið er að kanna hvað raunhæft sé að gera til að koma af stað fjöldahreyfingu um málið - þá ætla ég að nota tímann til að gera athugasemd við stjórnendur moggabloggsins vegna flokkunarkerfisins. Það mætti nefnilega bæta.
Nú hef ég að undanförnu verið að tjá mig töluvert um ástandið á Gaza. Flokkunarkerfið gerir ekki ráð fyrir því að hér sé bloggað um stríðsátök, utanríkismál, nú eða alþjóðamál almennt, heldur bara Evrópumál eða stjórnmál og samfélag. Margt af því sem ég blogga tengist t.d. heimspeki og hugmyndastefnum (ekki bara trúmálum), fjölmiðlum (ekki bara sjónvarpi), kjarabaráttu, mannréttindum, löggæslu, siðferðismálum o.þ.h. Enginn þessara umræðuefna á sér málaflokk í kerfinu á mbl.is.
Hér vantar víðtækara flokkunarkerfi.
Þetta er nú svona vinsamleg ábending sett fram til umhugsunar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá
12.1.2009 | 14:36
Jón Kristjánsson fv. ráðherra skrifar merka grein í Fréttablaðið í dag (bls. 15) um þann möguleika að þjóðin kjósi sér sjálfstætt stjórnlagaþing sem leysi Alþingi tímabundið af hólmi á meðan samin er ný stjórnarskrá - nýtt upphaf fyrir íslenska þjóð að endurreisa lýðveldi sitt. Hugmyndir þær sem Jón Kristjánsson kynnir eru eiginlega nánari útfærsla á innleggi Njarðar P. Njarðvík um stofnun nýs lýðveldis á Íslandi, þó þær séu til orðnar af öðru tilefni.
Útfærslan felur það í sér að þjóðin sjálf sé "stjórnarskrárgjafinn með raunverulegum hætti" í stað þess að hnýta breytingar á stjórnarskránni við almennar alþingiskosningar og dægurdeilur þeim tengdar eins og venjan hefur verið. Jón bendir réttilega á að hingað til hefur frumkvæði að breytingum á stjórnarskrá aðeins getað komið frá alþingismönnum þó að stjórnvöld fari með vald í umboði þjóðarinnar.
Undirtónninn í allri umræðu þessa dagana er einmitt sá að þessu þurfi að breyta. Sú hugmynd sem þarna er reifuð - að kosið verði sérstakt stjórnlagaþing sem haldið yrði í heyranda hljóði og tillögur þess að nýrri stjórnarskrá síðan lagðar fyrir dóm þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu - virðist geta verið fær leið og þjóðinni þóknanleg.
En ég gríp hér niður í grein Jóns:
,,Með þessari skipan eru stjórnarskrárbreytingar fjarlægðar frá stjórnmálaátökum dagsins sem verka truflandi á þessa vinnu. Hugmyndin er að alþingismenn sitji ekki stjórnlagaþing til þess að þjóðin velkist ekki í vafa um þennan aðskilnað. Með því koma þjóðkjörnir fulltrúar á stjórnlagaþingi einir að málinu og ákveða nýtt upphaf að fenginni reynslu af því stjórnskipulagi sem hefur ríkt hér lítið breytt í rétt 105 ár frá heimastjórn 1904.''
Og hann heldur áfram nokkru síðar:
,,Stjórnlagaþing mundi hafa mikil verkefni og nauðsyn ber til að það spegli sem flest sjónarmið í samfélaginu. Sem dæmi um verkefnin má nefna ákvæði um ríkisstjórn og Alþingi og tengsl þeirra aðila, forseta Íslands, dómstóla, auðlindir og umhverfi . Til viðbótar má svo nefna það ákvæði sem mikið hefur verið til umræðu nú þessa dagana sem er um framsal ríkisvalds eða fullveldis. Ennfremur eru sjónarmið um almenn mannréttindi ætíð breytingum háð. Þá er brýn þörf á að setja ákvæði um aukið valfrelsi kjósenda um fulltrúa á framboðslistum og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu."
Þetta eru athyglisverðar hugmyndir og vel þess virði að þær séu skoðaðar vandlega í samhengi umræðunnar.
----------------------------
Fánamyndin hér ofar er fengin hjá Álfheiði Ólafsdóttur myndlistarkonu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (40)
Viðreisn Alþingis - nýtt lýðveldi!
11.1.2009 | 14:23
Það gladdi mig sannarlega að heyra minn gamla læriföður og meistara Njörð P. Njarðvík orða með svo skýrum hætti hugmynd sem hefur verið að þróast í mínu eigin hugskoti - og trúlega ýmissa annarra undanfarið - um nýtt lýðveldi og viðreisn Alþingis Íslendinga. Sjónarmið Njarðar hafa komið fram í blaðaskrifum hans og nú síðast í útvarpinu í gær og svo Silfri Egils í dag.
Eins og Njörður bendir réttilega á er Alþingi Íslendinga orðin áhrifalítil afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið - ráðherrana - sem sitja í öndvegi þingsalar eins og konungshirð frammi fyrir þingliðinu. Forseti Alþingis er áhrifalaus virðingarstaða þess sem misst hefur af ráðherrastól - nokkurskonar uppbótarsæti.
Á Íslandi er nefnilega ekki virkt lýðræði í reynd - hér ríki þingræði (fulltrúalýðræði) sem í rauninni er ekkert annað en ráðherraræði. Og framkvæmdavaldið - ráðherrarnir - eru á sama tíma starfandi þingmenn. Engin skil eru á milli framkvæmdavalds og löggjafa. Þessu þarf að breyta.
Þingmenn sjálfir eru að vasast í ýmsu meðfram þingstörfum - sitja jafnvel í ráðum og nefndum úti í samfélaginu, stýra stórum hagsmunasamtökum o.s. frv. sem er að sjálfsögðu óeðlilegt.
Nýtt lýðveldi er sennilega lausnarorðið sem við þurfum. Hugmyndin felur í sér að þingið verði leyst upp og mynduð neyðarstjórn. Það gæti verið utanþingsstjórn eða einhverskonar útfærsla á þjóðstjórn eða stjórnlagaþingi í samræmi við núgildandi stjórnarskrá. En þessu mannvali yrði falið að semja nýja stjórnarskrá sem kosið yrði eftir í næstu þingkosningum.
Þessi hugmynd er svo sannarlega þess virði að hún sé tekin til alvarlegrar athugunar - hún er ekki fordæmalaus, eins og Njörður benti á. Frakkar hafa gert þetta fimm sinnum, síðast þegar DeGaulle komst til valda.
Hugmyndin um nýtt lýðveldi og viðreisn Alþingis kemur eins og ferskur andblær inn í það daunilla kreppuástand sem nú ríkir í samfélaginu og innra með þjóðinni. Ástand sem svo sannarlega gæti orðið farvegur fyrir lýðskrumara og æsingafólk sem ekki sést fyrir en gæti sem best notfært sér bágindi þjóðarinnar eins og á stendur til að skara eld að köku eigin hagsmuna.
Nei, við þurfum nýjar leikreglur. Nýtt upphaf: Endurreisum Alþingi á nýjum grunni - stofnum nýtt lýðveldi!
-----------------------------
PS: Þessa fallegu fánamynd fékk ég lánaða á síðu Álfheiðar Ólafsdóttur myndlistarkonu.
Bloggar | Breytt 12.1.2009 kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (77)
Ekki hernaður heldur útrýming
9.1.2009 | 12:15
Þeir smöluðu á annað hundrað Palestínumönnum inn í hús - helmingurinn var börn - og létu svo sprengjum rigna á bygginguna.
Þetta er ekki hernaður - þetta er útrýming.
Svo standa málsvarar Hamas keikir (hér) og segjast aldrei muni gefast upp!
Þvílíkt brjálæði - þvílíkur djöfulskapur.
Hvar er fordæming Utanríkismálanefndar Alþingis? Hana skipa:
Fyrir Sjálfstæðisflokk:
Bjarni Benediktsson, formaður
Guðfinna Bjarnadóttir
Ragnheiður E. Árnadóttir
Fyrir Samfylkingu:
Árni Páll Árnason, varaformaður
Ásta R. Jóhannesdóttir,
Lúðvík Bergvinsson
Fyrir stjórnarandstöðu:
Kristinn H. Gunnarsson, Frjálslynda flokknum
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokknum
Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum.
Sprengdu hús fullt af fólki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Þungbær staða Samfylkingar
8.1.2009 | 11:21
Ég horfði á viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Kastljósi í gær. Hún var skelegg og rökföst að vanda. Og enn treysti ég henni til allra góðra verka. Engu að síður er ég með þyngsli fyrir brjóstinu eftir að hafa hlustað á þetta viðtal.
Það eitt að formaður Samfylkingarinnar skuli með sýnilegt óbragð í munni sjá sig tilneydda að lýsa trausti á fjármálaráðherra "til allra góðra verka" - ráðherra sem nýlega hefur fengið mjög alvarlegar athugasemdir fyrir stjórnsýslufúsk - það eitt fær á mig.
Staða Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum verður þungbærari frá degi til dags. Þetta er staða hins meðvirka maka í óregluhjónabandi þar sem allt er farið úr böndum en enn er verið að verja fjölskyldumeðlimi út á við og fela ummerkin um athafnir þeirra.
Þetta er þyngra en tárum taki.
Á sama tíma er þjóðfélagið allt í upplausn. Ríkisstjórnin trausti rúin. Krafan um afsagnir ráðherra verður sífellt háværari og þeir eru orðnir æði margir sem sitja undir rökstuddum afsagnarkröfum:
Árni Matthiesen, fjármálaráðherra
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra
Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra
Þetta er meirihluti ríkisstjórnarinnar - og farið að hitna undir fleirum. Auk þess liggur ríkisstjórnin í heild sinni undir þungu ámæli og afsagnarkröfum.
Formaður Samfylkingarinnar hefur beðið um svigrúm til handa stjórnvöldum að vinna sig út úr kreppuskaflinum og koma málum í þokkalegt horf. Það er skiljanleg ósk. En dag eftir dag koma upp nýjar fréttir um fúsk og feluleiki, spillingarmál, vanrækslu og atgerfisskort í stjórnkerfinu. Nú síðast varðandi vitneskju Árna Matthiesen og Geirs Haarde um alvarlega stöðu tveggja Glitnisssjóða sem jafnað hefur verið til vitorðs (hér).
Meðal neyðarráðstafana stjórnvalda í skaflmokstrinum eru sparnaðaraðgerðir sem ekki aðeins eru sársaukafullar - þær fela í sér aðför að grunnstoðum velferðarkerfisins. Það eru skelfilegir hlutir að gerast í heilbrigðiskerfinu. Og allt á þetta sér stað nánast án umræðu, á þeirri forsendu að stjórnvöld þurfi frið til að moka sig í gegnum skaflinn.
Velferðarkerfið er helgasta vígi jafnaðarmanna.
Ég vil varpa fram þeirri hugmynd að menn taki sér smá pásu frá þessum mokstri, varpi öndinni og líti í kringum sig. Hvað er verið að moka? Til hvers? Og hverju er til fórnandi að komast þarna í gegn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (77)
Eiga Árni Matthiesen og Björn Bjarnason að sitja?
6.1.2009 | 23:39
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur sagði nánast berum orðum í Kastljósinu í kvöld að Árni Matthiesen ætti að víkja úr ráðherrastóli vegna athugasemda Umboðsmanns Alþingis um embættisfærslu hans þegar Þorsteinn Davíðsson (Oddssonar) var ráðinn héraðsdómari. Árni var þá settur dómsmálaráðherra og hunsaði niðurstöðu sérstakrar dómnefndar um hæfi umsækjenda, eins og mörgum er í fersku minni.
Að mati Umboðsmanns voru ,,annmarkar'' á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð Árna. Sömuleiðis taldi umboðsmaður að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefði átt að víkja sæti í málinu mun fyrr en hann gerði, þar sem fyrrverandi aðstoðarmaður hans hafi verið meðal umsækjenda.
Nú hefur Sigurður Líndal lagaprófessor emeritus fullyrt í sjónvarpsviðtali að bæði Árni og Björn hafi í reynd brotið stjórnsýslulög með málsmeðferð sinni.
Álit umboðsmanns og ummæli lagaprófessorsins eru þungt áfelli fyrir báða ráðherrana. Enn sitja þeir þó sem fastast.
Prestar hafa misst kjól og kall fyrir að falla í freistni holdsins og vera þar með slæmt siðferðisfordæmi fyrir aðra. Sýslumenn hafa misst embætti og lögregluþjónar starf sitt fyrir að verða hált á svelli laganna af svipuðum ástæðum. Það eru meira að setja dæmi um að ráðherrar hafi sagt af sér fyrir viðlíka og jafnvel minni sakir (Guðmundur Árni Stefánsson vegna ásakana um að hygla vinum sínum - pólitískt deilumál en ekki lögrot).
Hvað skal þá með ráðherra tvo sem hafa það sérstaka hlutverk að verja stjórnsýslu landsins - þegar virðist hafið yfir allan vafa að þeir hafa sjálfir brotið stjórnsýslulögin?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Sjúkrahúsgjald - hvar voru stjórnarandstaðan og ASÍ ?
6.1.2009 | 11:50
Um hátíðarnar var tekin ákvörðun á alþingi Íslendinga sem undarlega lítið hefur verið fjallað um. Ég segi undarlega lítið vegna þess að hún varðar grunnafstöðu okkar til samhjálpar og velferðar. Ég er að tala um þá ákvörðun að taka upp 6000 kr. gjald fyrir innlögn á sjúkrahús. Slíkt gjald hefur aldrei verið tekið af sjúklingum áður, þó svo að rukkað hafi verið fyrir komu á heilsugæslustöð, göngudeild og slysavarðstofu, rannsóknir, já og flutning með sjúkrabíl - þá hefur innlögn á sjúkrahús hingað til ekki verið innheimt af sjúklingum. Nú er þetta síðasta vígi fallið - það gerðist þegjandi og hljóðalaust.
Hvar var nú stjórnarandstaðan? Hvar er nú umhyggja hennar fyrir almenningi á Íslandi? Eina bofsið sem þaðan kom var frá Álfheiði Ingadóttur: "Ég vissi ekki að þetta hefði átt að verða svona hátt" umlaði hún vandræðalega í sjónvarpsviðtali rétt eftir nýjárið.
Vissi ekki að þetta ætti að verða svona hátt? Nei, en þingmenn vissu að þetta stóð til, og létu sér fátt um finnast. Hvorki stjórnarandstaðan né verkalýðshreyfingin hafði einu sinni dug í sér til þess að taka málið til umræðu í samfélaginu.
Já, og hvar voru þingmenn Samfylkingarinnar? Eru þeir heillum horfnir í þessu stjórnarsamstarfi?
Fyrir um 15 árum logaði allt þjóðfélagið stafnanna á milli - í tíð Sighvats Björgvinssonar sem þá var heilbrigðisráðherra - vegna hugmynda af þessu tagi. Það var blessunarlega lamið niður þá.
Nú eru augljóslega aðrir tímar.
Eftir síðustu hækkanir heilbrigðisráðherra gæti dæmið litið svona út:
Segjum að ég slasi mig og sé send á bráðamóttöku. Sjúkrabíllinn kostar 4.700 kr og innritun á slysadeildina 4600 kr. Þar er tekin röntgen mynd, blóðprufur o.fl., segjum að það kosti annað eins. Niðurstaðan er sú að ég er með innvortis blæðingar og verð að leggjast á sjúkrahús. Það kostar 6000 kr til viðbótar. Að sjúkrahúsdvöl lokinn þarf ég að koma í endurkomu á göngudeild, 4.600 kr þar. Nú varla er ég lyfjalaus allan þennan tíma - ekki ólíklegt að skrifað hafi verið upp á eitthvað handa mér í apótekinu - 4000 kr. þar. Samtals 28.500.
Þarna á ég að vísu rétt á afsláttarkorti - en það er ekkert sem segir að þessi atburðarás geti ekki endurtekið sig nokkrum sinnum á einu ári.
Já - það sannarlega hægt að mjólka inn tekjurnar í ríkissjóð núna.
Læknisþjónusta hækkar í verði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Dáðleysi í utanríkismálanefnd
5.1.2009 | 19:39
Ég er sammála Steingrími J Sigfússyni núna. Ég er sorgmædd yfir dáðleysi utanríkismálanefndar og vona heitt og innilega að meirihluti nefndarinnar skoði betur eigið hugskot og hjarta. Mér finnst við hæfi að rifja upp hér hverjir það eru sem eiga sæti í utanríkismálanefnd. Sjálf ætla ég að taka vel eftir því hvernig atkvæði falla í nefndinni þegar kemur að endanlegri afgreiðslu málsins. Nefndin er þannig skipuð ...
Fyrir Sjálfstæðisflokk:
Bjarni Benediktsson, formaður
Guðfinna Bjarnadóttir
Ragnheiður E. Árnadóttir
Fyrir Samfylkingu:
Árni Páll Árnason, varaformaður
Ásta R. Jóhannesdóttir,
Lúðvík Bergvinsson
Fyrir stjórnarandstöðu:
Kristinn H. Gunnarsson, Frjálslynda flokknum
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokknum
Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum.
--------------------------
PS: Annars finnst mér efnisflokkunin hér á moggablogginu vera orðin úrelt - hér virðist ekki vera hægt að flokka færslur um utanríkismál, stríð og hernað eða neytendamál svo dæmi séu nefnd. Þessi færsla á t.d. enga flokkun í kerfinu - svolítið bagalegt stundum.
Deilt um stjórnmálasamband | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)