Hvað skal til bragðs?

Hvað á að taka til bragðs þegar Alþingi er óstarfhæft vegna ólgu og reiði í samfélaginu? Hvað geta stjórnvöld gert til að skapa frið og sátt um þau verk sem vinna þarf?

Jú, ríkisstjórnin gæti beðist lausnar og komið þannig til móts við þá kröfu sem nú ómar hvarvetna. Þar með myndi ríkisstjórnin sýna lit á því að skapa frið í samfélaginu og þar með forsendur fyrir nýju upphafi.

Alþingi Íslendinga gæti hlutast til um það að boðað yrði til stjórnlagaþings svo unnt verði að semja nýja stjórnarskrá og byggja á henni nýtt (og vonandi betra) lýðveldi.

Það mætti breyta kosningalöggjöfinni og skerpa skilin milli framkvæmdavalds, löggjafar- og dómsvalds. 

Til að endurvekja traust á starfi stjórnmálaflokka gætu núverandi formenn flokkanna stigið til hliðar allir sem einn og hleypi nýju fólki að.

 Það er ýmislegt hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi. 


mbl.is Fundað með flokksformönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Undir þetta finnst mér að við öll eigum að geta tekið. Það er ljóst að regluverkið kringum lýðræðisskipan okkar er úrelt og á ýmsa lund sýnist mér það vera að snúast upp í andhverfu þeirrar hugmyndafræði sem það byggir á. Engan þarf að undra þó það komi í ljós að lög og reglur þurfi að endurskoða við breyttar aðstæður. Alþingi ber að vera á verði og bregðast við öllu slíku áður en ólgan í samfélaginu fer úr böndum með ófyrirséðum afleiðingum. Í raun sýnist þetta nú vera fremur einfalt til umhugsunar og niðurstöðu. 

Árni Gunnarsson, 21.1.2009 kl. 14:28

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

 Sæl Ólína þetta mál á að vera hafið yfir flokkshagsmuni.

Samkvæmt mínum heimilldum er stjórnin búin að sætta sig við breytingar fram að kosningum í vor.  Mér líst persónulega best á utanþingsstjórn

Forsetinn er lýðræðislega kjörinn og hann er fulltrúi okkar allra. 

Ég er ekki að sjá að núverandi stjórnarandstaða búi yfir töfralausnum. Sumir þeirra áttu sök á ástandinu en aðrir voru meðvirkir. Við verðum að vanda til verka og gefa okkur nauðsynlegan tíma í verkið en samt án tafa. 

Sigurður Þórðarson, 21.1.2009 kl. 14:29

3 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæl Ólína!  Upphafs spurningarnar hjá þér eru góðar og vert að velta þeim fyrir sér. Stjórnvöld, þ.a.s. (ríkisstjórn) hefur sýnt að þar á bæ er engin hugmyndafræði um lausn þeirra vandamála sem að þjóðinni steðja um þessar mundir. Ástæða þess er líklega fyrst og fremst sú að aðgerðir og aðgerðarleysi þeirra, er fyrst og fremst ástæðan fyrir þeirri stöðu sem þjóðfélagið er í. Aðgerðir þurfa fyrst og fremst að beinast að lagfæringum þess sem ekki var gert. Því er hæpið að núverandi ríkissjórn hafi frumkvæði eða hugmyndaauðgi til slíkra verka.

Að Alþingi sé óstarfhæft, er kannski  ekki eins augljós þáttur. Enn hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að samstaða Sjálfstæðismanna og Samfylkingar á Alþingi, um stjórnun þjóðfélagsins, sé að bresta.  Meðan svo er, að ríkisstjórnina styður umtalsverður meirihluti þingheims,  hefur Geir ekki lagaforsendur til að biðjast lausnar.  Alþingi ber fulla ábyrgð á ríkisstjórninni og á meðan þingflokkar stjórnarmeirihlutans styðja ráðherrana, eiga þeir einungis þá einu leið til að losna úr stöðu sinni, að tilkynna þingflokki sínum að þeir segi af sér ráðherradómi, eða segja af sér þingmennsku. Ríkisstjórn með þingmeirihluta að baki sér, getur ekki beðist lausnaar, eða fengið lausn frá störfum. Næsti leikur í stöðunni er því hjá þingmönnum, en ekki hjá ráðherrum og ríkisstjórn.

Ég tek heils hugar undir með þér að mikil þörf er á endurskoðun stjórnarskrár og endurksilgreiningar okkar á hugtakinu "lýðræði og lýðveldi". Þar verða áreiðanlega í forgrunni þeir þættir sem þú nefnir, og vafalaust margir fleiri þættir. Ég hefði talið að tímabært væri að ábyrgur hópur (helst þverpólitískur) innan þjóðfélagsins, fari sem fyrst að hittast til að vinna uppkast að slíkri breytingu; þó endanleg útfærsla yrði ekki fyrr en hjá fulltrúum stjórnlagaþings. Við erum í tímaþröng, margar hugmyndir komnar á loft og engin þörf á frekari bið með að fara að ræða hin mikilvægu grundvallargildi þess lýðveldis sem við viljum sjá verða til, í framhaldi þeirra hörmunga sem yfir okkur hafa gengið.

Með kveðju, G.J. 

Guðbjörn Jónsson, 21.1.2009 kl. 14:53

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Já Ólína nú er verulega farið að hitna í kolunum. Ríkisstjórnin hangir á bláþræði samkvæmt áliti Gunnars Helga stjórnmálafræðings.

Ég tek heilhugar undir þin skrif og við bæta við utanþings eða starfsstjórn sem mundi sitja þar til réttkjörin stjórn tekur við.

Er að horfa á beina útsendingu frá svæðinu fyrir framan Stjórnarráðið þar sem er mikill hávaði og læti.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 21.1.2009 kl. 15:13

5 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Sammála þér að flestu leyti nema með að skipta um formenn flokkanna til að endurvekja traust þeirra.   Flokksræðið kemur ekki frá formönnunum eingöngu heldur er stór hópur og teygir anga sína inn í stjórnarráð, stofnanir, skóla o.v. og það er meinið sem losna þarf við.    Það væri gott sð skipa stjórnlagaþing með skynsömu fólki við stjórnvölinn, þá gætum við jafnvel fengið nýja og betri stjórnarskrá næsta haust.!

Ragnar

Ragnar Eiríksson, 21.1.2009 kl. 16:13

6 identicon

Sæl Ólína.  Fyrirgefðu fyrirferðina á skrifum mínum, en mér er mikið niðri fyrir því ég óttast að hraðinn á hlutunum verði til þess að við verðum að kjósa enn einu sinni njörvuð af flokkdræðinu.  Mig langar til að viðra tillögur mínar að því að nýrri skipan kosningalaga strax.

Það er búið að ganga mikið á í Íslensku þjóðlífi að undanförnu. Það hefur komið í ljós að grunnur góðærisins var hreinn blekkingavefur og þjóðin situr hnípin eftir, rænd og forsmáð, og hefur mist trúna á varnarmátt, (jafnvel varnarvilja) þeirra stofnana sem til varðgæslu voru settar.          Grasrótin hefur vaknað til vitundar um kjör sín og framtíð, og hefur líklega aldrei verið jafn vel vakandi og nú.  Stöðug umræða meðal almennings um atburði síðustu mánaða og nýjar fréttir af svikum og prettum milljarðagauranna þvingar nú almenning til að huga að pólitík. ,, En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott “.          Nú er tækifæri til að reka út ill öfl og sjúklegt athæfi sem náð hefur tökum á nokkrum mönnum sem því miður höfðu náð undir sig bæði fjármagni og völdum, en kunnu með hvorugt að fara.          Nú erum við að fá kosningar í fangið jafnvel fyrr en flesta grunaði, og þá kemur ýmislegt upp í hugann sem gott hefði verið að hafa betur undirbúið tímanlega fyrir kosningar.          Ég hef lengi hugleitt hvernig hægt væri að snúa ofan af flokksræðis vöndlinum svo að kjósendur geti í raun notað kjörseðil sinn á fullkomlega lýðræðislegan hátt til þess að velja það fólk til þingsetu sem þeir treysta best.  Treysta best til að setja þjóðinni réttlát og framkvæmanleg lög, sem er jú fyrst og framst hlutverk þingsins.  Framkvæmdavaldið á ekki að taka þátt í að setja lögin, hvað þá heldur að stjórna því verki.  Framkvæmdavaldið á að starfa utan þings á faglegan hátt við að fylgja eftir og framkvæma þær reglur og þau lög sem löggjafinn setur.          Af sömu ástæðu er það ófært að innstu klíkur flokkanna geti stillt upp gæðingum sínum á listana og raðað þeim í númeruð sæti þannig að hinn almenni kjósandi fái engu um það ráðið með kjöri sínu hverjir verða sendir á þingið.          Það þarf á næstu misserum og árum að gjörbreyta stjórnlögum þjóðarinnar í lýðræðisátt.  Það er að vísu ekki hægt um vik að breyta miklu fyrir kjördag, en þó má hefja verkið með því að núsitjandi þing samþykkti þá breytingu á kosningalögunum að nöfnum þess fólks sem gefur kost á sér til þingsetu undir merki flokkanna hvers um sig, verði óheimilt af flokkanna hálfu að raða á listann á kjörseðlinum eftir númeraröð, eða með nokkru því tákni sem gefur til kynna fyrirheit um sérstök sæti að vilja flokksins.          Raða skal á listana eftir stafrófsröð eða slembiröð.  Það á svo að vera vilji kjósenda einna sem ræður því hvaða frambjóðendur á listanum, hljóta þingsætin sem flokkarnir kunna að fá í sinn hlut.          Það hafa komið fram nokkrar hugmyndir um það til dæmis hversu marga frambjóðendur hver kjósandi mætti krossa við, allt frá aðeins einum og upp í þann fjölda þingsæta sem kjördæmi hans er ætlaður, en það er atriði sem örugglega má finna flöt á sem flestir geta sætt sig við.       Ef kjósandi má krossa við fleiri en einn frambjóðanda, ætti hann að hafa heimild til að velja þann fjölda hvar sem er á kjörseðlinum óháð því í hvaða flokksröð þeir eru.           Eftir þessa breytingu væru ,,prófkjör,, orðin óþörf og einnig allar aðrar gamaldags uppstillingaraðferðir.          Áhugasamir gefa sig einfaldlega fram við stjórn einhvers flokks eða samtaka sem þeir kynnu að vilja bjóða sig fram fyrir, og eins geta samtök og flokkar sótt eftir því við fólk að það gefi kost á sér í framboð.          Þessar breytingar eru ekki stærra mál en svo að þingið ætti að geta afgreitt það á skömmum tíma og það á meðan ríkisstjórn er að fást við sinn vanda.  Þetta væri mjög þarft upphafsskref að lýðræðislegri stjórnarháttum  og vekti vonir um framhald,, ef, já ef þingheimur þekkir sinn vitjunartíma.             Hættum að tuða í barminn fyrir kosningar um að það þýði ekkert að kjósa því það sé búið að ákveða þetta allt saman.             Hættum að tuða um að það sé sami rassinn undir þeim öllum.   Því nú krefjumst við breytinga.  Nú krefjumst við þess af núverandi þingmönnum að þeir breyti reglunum í þá, eða svipaða veru og hér er lýst að ofan.   Segjum þeim að ef þeir vilji eiga einhver möguleika á sæti á alvöru þingi, þá vinni þeir með grasrótinni að þessum lýðræðislegu breytingum.  En ef þeir vilja það ekki,  hvað gerum við þá.     Eigum við einhver vopn í handraðanum til að beita ef mikil andstaða verður á þingi við breytingarnar, eða verðum við þá að leggja niður skottið og láta við svo búið standa.          Já, svo sannarlega eigum við vopn sem bítur.    Það er einfalt,  þá kjósum við ekki,  eða það sem er enn betra.  Við mætum á kjörstað, tökum við kjörseðli, förum með hann í kjörklefann og skilum honum síðan í kassann,,, AUÐUM.  Þá teljumst við með þeim sem atkvæði hafa greitt.          Það hefur komið fram í fjölmiðlum að það sé ekki leyfilegt að skila auðum kjörseðli, en það er mikill misskilningur.  Kosningar eru leinilegar og því veit enginn með vissu hver skilar auðu og hver ekki.  Hins vegar  er ekki leyfilegt að sýna öðrum kjörseðil sinn áður en hann fer í kjörkassann og gildir þá einu hvort seðillinn er auður eða ekki.  Það er einfaldlega brot á þeirri reglu að kjörið skal vera leynilegt          Ég vil taka það sýrt fram að ég er ekki að veifa hótun um beitingu svona aðgerða með því að minnast á þennan möguleika hér, en það er almenningi nauðsynlegt að vita, að hann er ekki varnarlaus gegn ofríki flokkavaldsins, og að við erum ekki úrræðalaus þó baráttan harðni.           Það yrði snautlegt þing sem kannski sæti í umboði aðeins 20- 30% þeirra sem skilað hefðu kjörseðli.          En við skulum vona að ekki þurfi að beita þessu vopni.  Þingmönnum hlýtur að skiljast að Þeir eru betur komnir í skjóli grasrótarinnar en flokksvaldsins.             Hjá kjósendum er valdið samkvæmt stjórnarskránni.                    Með þessari breytingu væri endurreisnin hafin, og breytingar á kjördæmum og stjórnarskrá gætu beðið næsta þings.           Við berjumst fyrir réttlæti með borgaralegri óhlýðni, en höfnum öllu ofbeldi í okkar baráttu.                     Lengi lifi búsáhaldabiltingin.                                                                               

                                                              Jökull Guðmundsson    Akureyri.

Jökull Guðmundsson á Akureyri. (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband