Hundastúss og flakk

blidaibilnumsumaraefingapril07   Í gær brugðum við Blíða okkur á leitaræfingu með björgunarhundasveitinn hérna fyrir vestan - það var fyrsta sumarleitaræfingin, því nú er snjóa óðum að leysa. 

Þetta var skemmtileg æfing og Blíða stóð sig með prýði. Hún hefur í allan vetur verið að æfa snjóflóðaleit, þannig að ég bjóst hálfpartinn við því að við þyrftum að bakka svolítið í sumarleitinni og rifja upp eitt og annað. En, ónei. Minn hundur hefur engu gleymt frá því í haust Cool

 Hún er farin að láta vita með gelti þegar hún finnur mann - og í gær kom hún af sjálfsdáðum og sótti mig þegar maðurinn var fundinn. Ég var ekki við þessu búin svo það var eiginlega ég sem klikkaði (svona hálfpartinn). Ég hefði átt að nota tækifærið og láta hana gelta hjá mér (því hún er farin að gelta eftir skipun), en gerði það ekki. Hinsvegar hrósaði ég henni þegar hún kom til mín, og hún þaut alsæl til baka og gelti hjá þeim fundna - svo þetta bjargaðist. Í seinna rennslinu gelti hún bæði hjá þeim fundna og mér, svo æfingin endaði vel og við vorum báðar glaðar.  

sumarleit  audurogskima-utigustiogbalti

Í dag förum við Siggi keyrandi suður til þess að mæta á landsfund Samfylkingarinnar á morgun. Það er tilhlökkunarefni, enda auðfundið að nú er hugur í mönnum!

 Við ætlum að fara Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar (úff, þær eru sjálfsagt rennandi blautar og leiðinlegar) og reyna að ná Breiðafjarðarferjunni Baldri til að hvíla okkur á akstrinum. Maður verður víst að láta sig hafa það að hristast eftir rennandi blautum malarvegum á meðan ekki hefur verið gert átak í samgöngumálum okkar Vestfirðinga. Það verður sjálfsagt ekki fyrr en skipt hefur verið um samgönguráðherra í vor. Við sjáum hvað setur.


Gjamm og karp í framboðsþætti

   kastljos  Æ, ósköp var lítil reisn yfir framboðsþætti Kastljóssins í gærkvöldi. Gjamm og karp - frammígrip. Hver talaði upp í annan og illgerlegt á köflum að heyra nokkurn skapaðan hlut. Þetta er ósiður sem hefur verið að aukast í umræðuþáttum undanfarin ár - og ég held að hafi byrjað með Silfri Egils. En þetta er leiðinlegt. Það er ekkert fjör að hlusta á fjóra tala samtímis. Maður vill heyra málflutning frambjóðenda fyrir kosningar - til þess kveikir maður á sjónvarpi eða útvarpi þegar frambjóðendur eru leiddir saman.

Stjórnendurnir þáttarins voru ekki barnanna bestir - sérstaklega fannst mér Helgi Seljan (bloggvinur minn) fara offari. Hann greip fram í fyrir öllum sem töluðu, var neikvæður í spurningum (bæði tónninn og orðfærið). Fyrri hluti þáttarins var hvorki líflegur né upplýsandi - þvert á móti var maður bara orðinn pirraður þegar honum lauk.

Nýr frambjóðandi í kjördæminu, Ásta Þorleifsdóttir,  komst einna best frá hildarleik fyrri hálfleiks, málefnaleg og yfirveguð.

Síðari hluti þáttarins var illskárri, þar stóð Þórunn Sveinbjarnardóttir upp úr - náði að snúa af sér og sækja fram af áheyrilegri rökfimi. Sérstaklega í umræðunni um Evrópumálin. 

Enginn af fulltrúum stjórnarflokkanna kom sérlega vel út - sumir komu beinlínis illa fyrir. Yfirlæti og gjamm er ekki traustvekjandi í svona þætti. Sumum þeirra var þó vorkunn, vegna þess hvernig þættinum var stjórnað - því í raun var gert lítið úr öllum sem þarna komu fram.

 Stjórnun umræðuþátta er vandmeðfarin listgrein - og vandrataður hinn gullni meðalvegur milli þess að grípa fimlega inn í umræður til að halda uppi líflegum skoðanaskiptum eða hreinlega vaða yfir þátttakendur. Stjórnendum gærkvöldsins brást því miður sú bogalist.


Sigurvegarinn er Ingibjörg Sólrún

  Ingibjörg Sólrún  Umræður stjórnmálaforingjanna í ríkissjónvarpinu í kvöld voru svolítið einkennilegar. Þarna sátu fulltrúar stjórnarflokkanna með Guðjón Arnar sér við hlið og mynduðu einn væng - svartklæddan. Hinumegin í skeifunni sátu Ómar Ragnarsson, Ingibjörg Sólrún og Steingrímur J - öll ljósari yfirlitum. Málefnastaðan var eiginlega með svipuðu móti. Ingibjörg Sólrún gneistaði af kímni og öryggi, málefnaleg. Steingrímur J var áheyrilegur eins og alltaf - talaði af kunnáttu, hæfilega ágengur. Ómar var trúverðugur og einlægur.

Ekki verður sama sagt um þá félagana hinumegin í settinu - upplitið á þeim var eiginlega grátbroslegt: Jón iðaði í sætinu eins og spörfugl á grein, hann virtist klæja. Geir var raunamæddur til augnanna. Þarna sátu þeir, húktu hálfpartinn fram á gaupnir sér, með bindin lafandi milli fóta. Þetta var agaleg sjón. Við hlið þeirra sat Guðjón Arnar með þrota í öðru auga, og virtist gráti næst.

Það leyndi sér ekki hver hafði sterkustu málefnastöðuna í þessum þætti. Það var óefað Ingibjörg Sólrún. Hún talaði af yfirvegun, umhyggju fyrir málefnum og síðast en ekki síst: Af þekkingu og reynslu stjórnmálamanns sem hefur staðið við stjórnvölinn og þekkir ábyrgð sína. 

Þar fataðist Jóni Sigurðssyni hins vegar flugið. Síendurteknir frasar hans um "þjóðarsátt" og "handbremsustöðvun" hljómuðu undarlega í eyrum þegar líða tók á þáttinn. Eiginlega vissi maður aldrei um hvað hann var að tala. Sömuleiðis var erfitt að hlusta á Geir tala um nauðsyn þess að fá konur til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn (hann er sjálfsagt ekki bara að tala um þær "sætustu").

Já, þetta var einkennilegur þáttur. Umræðurnar um skattkerfið og tekjuskiptinguna í samfélaginu afhjúpaði bága málefnastöðu stjórnarflokkanna. Skoðanaskiptin leiddu í ljós hvar velferðaráherslan liggur ekki - hún liggur ekki hjá ríkisstjórninni. Í þeim hluta umræðnanna bar Ingibjörg Sólrún af sem gull af eiri.

Trúlega hefur verið dregið um uppröðun frambjóðenda í þessum þætti, en það vildi svo undarlega til að ríkisstjórnarmegin voru menn svartklæddir - svo lýstist fatalitur manna eftir því sem lengra dró í hina áttina. Ég vona bara að það verði ljósi armurinn sem myndar næstu ríkisstjórn.


Hefðirnar og tæknin

Grammofonn Tæknin er ótrúleg. Fyrir þessa páska gerði ég tvo þætti um kveðskap, þulur og þjóðlagahefð. Þeir voru fluttir í útvarpinu með viku millibili, sá fyrri 1. apríl, sá síðari í morgun. 

Fyrir fáum árum hefði maður þurft að sitja um að heyra tiltekinn þátt í útvarpi. Og ef maður missti af honum varð maður að vona að hann yrði endurfluttur við tækifæri. Fólk á mínum aldri man sjálfsagt vel eftir "Lögum unga fólksins" sem voru flutt kl. 21:00 á miðvikudagskvöldum árum saman. Þá sátu unglingar landsins límdir við útvarpið. "Óskalög sjómanna" og "óskalög sjúklinga" áttu líka sínar stundir, og fyrir kom að maður beit á vör yfir að missa af þætti.

Nú eru aldeilis aðrir tímar. Þættirnir hafa ekki fyrr verið fluttir í útvapinu en þeir eru komnir á netið, og þar getur maður tengt inn á þá, t.d. af bloggsíðunni sinni, eins og ég er skemmta mér við að gera núna.

Já, tæknin hefur opnað ótrúlega möguleika á því að varðveita og miðla efni af margvíslegu tagi. Mér er málið skylt þar sem ég sýsla við gamlar hefðir og fræði. Satt að segja finnst mér sem það hafi orðið bylting í möguleikum menningarmiðlunar með tölvutækninni.  Og það er vel.

Reyndar er sá galli á gjöf Njarðar varðandi heimasíðu RÚV, að hver þáttur fær ekki að vera á netinu nema tvær vikur. Hlekkirnir sem ég setti inn hér ofar munu því renna út 14. og 23. apríl.  Þau ykkar sem áhuga hafið á að forvitnast um gamla kvæðahefð, þjóðlög og þulur, hvet ég til þess að smella á hlekkina fyrir þann tíma, og leggja við hlustir Wink

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fuglar himinsins og helgidagalöggjöfin

 fuglarhimins2 Loksins lét ég verða af því að mæta hjá Ólöfu Nordal, myndlistarkonu, til þess að gera mína eigin leirlóu í altaristöfluna sem sett verður upp í Ísafjarðarkirkju í sumar. Við hjónin drifum okkur á verkstæðið í Vestrahúsinu síðdegis í gær og gerðum hvort sinn fuglinn. Mín lóa er nr. 707 og hans nr. 708.  Þetta var ótrúlega gaman - þarna sá maður leirfugla í hundraða tali. Sumir báru með sér að vera gerðir af áköfum barnahöndum, aðrir voru haganleg smíði, og svo allt þar á milli. Eftir handverkið skráði maður nafn sitt í bók þar sem númer fuglsins kemur fram, og hér eftir getur maður dundað sér við - ef maður missir athygli prédikarans í kirkjunni - að finna fuglinn sinn í altaristöflunni.

 

Sagan sem varð kveikjan að þessu listaverki er svona: Þegar Jesú var lítill drengur fór hann að dunda sér við það á sunnudegi að búa til leirfugla - það voru lóur. Farísearnir komu að honum heldur þungir á brún og töldu það helgispjöll að vinna slíkt verk á sunnudegi. Ætluðu þeir að uppræta ósómann og brjóta fyrir honum fuglana. En í þann mund flugu fuglarnir til himins með fjaðrabliki og söng.

Mér kom í hug helgidagalöggjöfin, þegar ég heyrði þessa sögu. Í kvöldfréttunum í gær var sagt frá fólki sem ákvað að spila bingó á Austurvelli til þess að mótmæla skemmtanabanni föstudagsins langa. Lögreglan var á vappi í námunda og fylgdist með, en hafðist ekki að. Og hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að auðvitað var fólkið ekkert að gera af sér - samt var það að brjóta lögin. Leiðinleg klemma fyrir laganna verði að vera settir í þessa stöðu. Þeir hefðu sjálfir raskað helgidagafriðnum ef þeir hefðu farið að handtaka fólkið sem sat þarna með börnin sín og spilaði bingó. Fyrir vikið gerði löggan ekkert (sem betur fer) en braut um leið eigin starfsskyldur. Fáránleg staða.

Því skyldi fólk ekki mega gera sér glaðan dag á helgidegi? Gera eitthvað skapandi, eða bara skemmtilegt? Það þarf augljóslega að endurskoða þessa löggjöf.

Flest erum við hlynnt því að samfélagið haldi í heiðri reglur sem tryggja rétt fólks til þess að eiga "helga" daga. Þá er ég ekki að tala um hástemmda andaktuga daga, tileinkaða trúarlífi sem einungis hluti þjóðarinnar virðir í reynd, heldur daga sem fólk hefur fyrir sjálft sig: Daga helgaða friðsemd, afþreyingu eða hvíld frá daglegu amstri, daga þar sem fólk ráðstafar tíma sínum sjálft. Bann við ákveðnum tegundum skemmtana tryggir enga "helgi". Það er ekkert verra að spila bingó heldur en fara á skíði, fara á tónleika eða móta leirlóur á föstudaginn langa.

Lög samfélagsins eru ekki náttúruögmál - það þarf alltaf að vaka yfir þeim, endurskoða þau og bæta í takt við samfélagsþróunina. Og nú er sennilega kominn tími á helgidagalöggjöfina. 


Skíðavikan: Bjartir dagar á Ísafirði

isafjordur-vetur "Dymbilvika" er alvöruþrungið orð. Maður heyrir nánast sorgarhljóm kirkjuklukknanna hér áður fyrr þegar trékólfur (dymbill) var settur í þær - stundum vafinn trafi -  til þess að deyfa hljóminn og ná fram virðulegum sorgarblæ í klukknahringinguna. Þannig minntust menn píslargöngu Frelsarans og þótti ekki við hæfi að gantast mikið í dymbilvikunni. En nú eru frjálsari tímar.

 Og hér á Ísafirði er svo sannarlega engin deyfð í dymbilviku - enda hefur sú vika líflegri hljóm hér um slóðir: "Skíðavikan!"

Sól og snjór, fjöldi manns á ferli og mikið um að vera í bænum, ekki síst á sjálfu skíðasvæðinu. Ættingjar, vinir og gamlir Ísfirðingar streyma til staðarins að sýna sig og sjá aðra.  Fjölskyldur sameinast, vinir hittast á ný. Allir hafa sólarblik í sálinni þessa daga.

Á skíðasvæðinu eru börn með eplarauðar kinnar af útiveru frá morgni til kvölds. Sveitungar sem ekki hafa sést lengi líta hvern annan með bros á vör og blik í auga, minnast gamalla daga, klappa hver öðrum á öxl og svífa svo niður brekkurnar með þjálfuðum svighreyfingum eins og þeir hafi aldrei gert annað. Unglingarnir varpa af sér svefndrunga og námsleiða og halda upp í skíðabrekkurnar með hlátrasköllum og ærslum.  Nammiregn af himnum ofan og furðufatadagur á dalnum eru fastir liðir á Föstudaginn langa. 

Í bænum er mikið um að vera, tónleikar, leiksýningar, myndlistarsýningar og íþróttaviðburðir. Þessa dagana gefst almenningi kostur á að aðstoða við skreytingu altaristöflunnar í Ísafjarðarkirkju. Fólk má mæta á verkstæði myndlistarkonunnar og búa til leirfugla sem settir verða upp í kirkjunni hundruðum saman. Í framtíðinni geta þeir sem taka þátt samsamað sig altaristöflunni, fundið hlutdeild sína. Frábær hugmynd - og ég er staðráðin í að búa til einn fugl á Föstudaginn langa - tel þeim tíma vel varið á páskahátíðinni.

Og ekki má gleyma rokkhátíðinni miklu, Aldrei fór ég suður, sem hefur skapað sér fastan sess og er orðin hápunktur skíðavikunnar hér á Ísafirði. Stærsta rokkhátíð landsins.

Já, þetta eru bjartir dagar - og nú skín sól á fjörðinn.


Ekki lögbrot heldur hneyksli

Grund  Landssamtök eldri borgara hafa dregið til baka yfirlýsingu um að úthlutanir heilbrigðisráðherra úr framkvæmdasjóði aldraðra hafi verið lögleysa. Þar með þagnaði umræðan um hríð - og það var afleitt - því svo virtist sem ekki væri lengur ástæða til þess að gera athugasemdir við úthlutanir úr sjóðnum. En það er eitt að saka einhvern um lögbrot, annað er að gagnrýna verk hans. Og víst er að úthlutanir úr framkvæmdasjóði aldraðra eru hreint ekki hafnar yfir gagnrýni þó að yfirlýsingar um lögbrot gangi of langt.

Ég var því fegin að lesa grein eftir Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur þar sem vakin var athygli á því hvernig fjármunum sjóðsins hefur verið ráðstafað undanfarin ár.  Úthlutanir úr framkvæmdasjóði aldraðra hafa verið með eindæmum undarlegar.  Allskyns styrkir - sem vandséð er hvernig tengjast öldrunarmálum - hafa verið veittir úr sjóðnum, m.a. til listrænna verkefna. Ekki nóg með það, heldur hefur sjóðurinn verið látinn kosta kynningu á stefnumálum heilbrigðisráðherrans í öldrunarmálum.  Þá hafa eldri borgarar réttilega gagnrýnt að fjármunir sjóðsins skuli hafa runnið til reksturs hjúkrunarheimila en ekki framkvæmda, sem auðvitað stingur í stúf við yfirlýstan tilgang sjóðsins.

Nei, það er alveg ljóst að framkvæmdasjóður aldraðra hefur ekki verið notaður eins og til var ætlast. Við erum því ekki að tala um lögbrot - heldur hneyksli. 


Draumalandið Hafnarfjörður

Hafnarfjordur   Ég er ánægð með niðurstöðu kosninganna í Hafnarfirði, en ég hef svolitlar áhyggjur vegna þess hve mjótt var á munum. Það er alltaf erfitt - fyrir báða aðila - þegar niðurstaða næst með mjóum mun.  Ég held hins vegar að Hafnfirðingar hafi tekið rétta ákvörðun þarna.

Það er svolítið skemmtileg tilviljun að fyrir fáum dögum var ég á sýningunni Draumalandið í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Ég hafði fyrirfram velt því fyrir mér hvernig í ósköpunum handritshöfundi myndi takast að koma boðskap bókarinnar í leikrænan búning - en bókina las ég mér til óblandinnar ánægju fyrir allnokkru. Ég bjóst því ekki við neinu sérstöku þegar ég mætti í Hafnarfjarðarleikhúsið - og var svona eins og við því búin að finna til einhverskonar vonbrigða eins og stundum gerist þegar maður fer á bíómynd sem gerð er eftir bók. En það voru óþarfa áhyggjur. Í stuttu máli sagt átti ég frábært kvöld þarna og tek hér með ofan fyrir handritshöfundi, leikurum og öðrum aðstandendum verksins. Þau komust hjá því að festast í einstrengingshætti - gerðu létt grín að ýmsum hliðum málsins, m.a. umhverfisverndarsinnum og mótmælendum ekkert síður en virkjunarsinnum og hinum óupplýsta almenningi sem veit vart í hvorn fótinn skal stigið. Undir öllu niðaði hinsvegar þungur tónn sem engan lætur ósnortinn. 

 Það er uggvænlegt til þess að hugsa að íslensk stjórnvöld skuli hafa falboðið erlendum stóriðjufyrirtækjum landið; boðið upp á 30 terawattstundir ef stóriðjufyrirtækin vildu bara láta svo lítið að koma og virkja hér. Það er umhugsunarefni að öll íslenska þjóðin notar einungis þrjár terawattstundir - en Kárahnjúkavirkjunin ein og sér framleiðir fjórar. Já það eru undarleg stærðarhlutföll sem skyndilega eru komin inn í umræðuna - og ekki nema von þó að við, venjulegar manneskjur, eigum stundum erfitt með að átta okkur á þeim viðmiðunum sem viðhafðar eru.

 

Straumsvik  Nei, það er engin sátt um stóriðjustefnuna á Íslandi. Þó svo að kosningin í Hafnarfirði hafi að forminu til snúist um deiliskipulag, er niðurstaðan engu að síður skilaboð til stjórnvalda um hug almennings í stóriðjumálum.


Ef stjórnvöld ættu að standa við stóru orðin um að hér megi virkja 30 terawattstundir á ári, þyrfti að virkja nánast allt sem rennur á Íslandi, þ.á.m. Gullfoss og Dettifoss. Ekki amalegt loforð upp í ermar komandi kynslóða. Úff!

Sem betur fer held ég að þjóðin sé búin að fá nóg af stóriðjuframkvæmdum. Umfang Kárahnúkavirkjunar kom flatt upp á íslenskan almenning - jafnvel hörðustu virkjunarsinna setti hljóða daginn sem Jökla þagnaði. Ósættið um þá framkvæmd hefur nánast skipt þjóðinni í tvennt - og til hvers? Til þess að skapa 1,5% af mannafla þjóðarinnar atvinnu í álveri? 

 


Rógsmenn allir og umræðan

  Snákur  Í mannhelgikafla Jónsbókar frá 1281 er athyglisvert ákvæði um "rógsmenn alla". Þar segir að sá sem rægir mann við konung eða jarl skuli sjálfur dæmdur fyrir þær sakir sem hann hefur borið á viðkomandi. Í tilviki Jónsbókar er hugtakið "rógur" jafngildi tilræðis við æru manna - en á þeim tímum var ekki svo mikill greinarmunur gerður á æru manns og lífi hans. Til dæmis er kveðið á um það í gömlum lögum að í "lífs- og ærusökum" skuli menn ekki dæmdir án tilhlutunar æðsta dómsvalds.

 

Sjálf var ég alin upp við það sem barn að ekki væri rétt að setja út á fólk að því  fjarstöddu. Það væri rógur, og að einungis huglaust fólk og illa innrætt beitti rógi. Rógur er aðför úr launsátri sagði faðir minn heitinn. Trúað gæti ég að fleiri Íslendingar hafi fengið viðlíka uppeldi.

 

Rógur er stjórnleysi - hann er siðvilla. Hver sá sem viðhefur róg eða hlustar á róg, hefur vikið frá réttlátum leikreglum. Þeir sem "hvísla" ærumeiðingar sínar í skjóli nafnleyndar að einhverjum æðra settum til þess að koma höggi á einstakling, hafa gerst sekir um tilraun til launvígs. Sá sem hlustar á róg, lætur hann viðgangast, jafnvel hafa áhrif á gerðir sínar er samsekur. Hann hefur þar með brotið mannréttindi þess sem um er rætt, brotið rétt viðkomandi til sjálfsvarnar. Þetta jafngilti ódæði á þrettándu öld - og einhvern veginn finnst manni að svo ætti að vera enn þann dag í dag. En þannig er það þó ekki.

 

Í íslenskum lögum er ekkert ákvæði um rógsmenn.

 

Íslensk stjórnsýslulög kveða á um málsmeðferð hins opinbera gagnvart þeim sem þurfa að sækja mál sitt til stjórnvalda, þ.m.t. andmælarétt, rannsóknarskyldu stjórnvalda og jafnræðisreglu. En í hinum almennu leikreglum sem gilda í reynd  - þ.m.t. almennum hegningarlögum -- hafa rógberarnir frið til athafna. Yfir þeim vofir engin refsing eða krafa um að bera ábyrgð orða sinna.

 

Rógsmenn hafa fengið of mikið svigrúm í íslenskri umræðu. Við sjáum það á bloggsíðum netsins þar sem þeir vaða sumstaðar uppi í skjóli nafnleyndar. Við sjáum það jafnvel í opinberum málum sbr. bréfið fræga sem sent var dómendum í Baugsmálinu - og var tekið til umfjöllunar á opinberum vettvangi. Nafnlaus bréfritari sem bar ósannaðar sakir á dómendur og málsaðila varð stjarna um hríð. Ummæli hans urðu sérstakt umfjöllunarefni, einhverskonar liður í málflutningi. Ótrúlegt en satt.

 

Ég tel að þetta sé galli á íslenskri löggjöf - og um leið siðferðisbrestur í íslensku samfélagi.


Stíflurof í stjórnmálunum?

  Hjörleifur Guttormsson á heiður skilið fyrir þann málflutning sem hann hefur haldið uppi í umhverfismálum að undanförnu.

 Ég er líka ánægð með það að nú skuli vera komið fram nýtt framboð sem hefur náttúruvernd og umhverfismál á sinni stefnuskrá. Það er engin ástæða til þess að merkja þau mál vinstrinu, eins og verið hefur - og þó ég sé ekki liðsmaður þessa nýja flokks þá þekki ég fólkið sem er þar í forsvari og óska þeim velfarnaðar.

 Það  má kannski segja að með Íslandshreyfingunni hafi orðið nokkurskonar stíflurof í umhverfismálum á Íslandi - og það er ágætt. Það minnir mig á ljóðmæli sem ég setti á blað í haust þegar umræðan var hvað mest um Kárahnjúka og Draumaland Andra Snæs. Það er ekki úr vegi að deila því með ykkur.

 

Stíflurof 

Við erum fólkið neðan við stífluna,

fólkið sem reisti hana

og vann af iðjusemi og natni

dag og nótt

 

svo hún hækkaði

já, og stækkaði

og var orðin stærsta stífla

sem um getur í sögunni -

 

hugmyndastíflan.

 

Þó vissum við lítið af henni

þar sem hún hvíldi í kyrrð

að fjallabaki hugans

fyrr en maðurinn kom

með bókina.

 

Hann barði á stífluvegginn

eitt snöggt

og þungt

högg

 

eins og þegar Sæmundur

bukkaði selinn

með Saltaranum forðum

og sá gamli sökk.

 

Stíflan brast.

 

Nú flæðir aurugt jökulvatn

milli skinns og hörunds

og harður straumur

byltist í brjóstinu.


mbl.is Hjörleifur: Erum að kynnast kaupum umhverfisvænna ímynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband