Rógsmenn allir og umræðan

  Snákur  Í mannhelgikafla Jónsbókar frá 1281 er athyglisvert ákvæði um "rógsmenn alla". Þar segir að sá sem rægir mann við konung eða jarl skuli sjálfur dæmdur fyrir þær sakir sem hann hefur borið á viðkomandi. Í tilviki Jónsbókar er hugtakið "rógur" jafngildi tilræðis við æru manna - en á þeim tímum var ekki svo mikill greinarmunur gerður á æru manns og lífi hans. Til dæmis er kveðið á um það í gömlum lögum að í "lífs- og ærusökum" skuli menn ekki dæmdir án tilhlutunar æðsta dómsvalds.

 

Sjálf var ég alin upp við það sem barn að ekki væri rétt að setja út á fólk að því  fjarstöddu. Það væri rógur, og að einungis huglaust fólk og illa innrætt beitti rógi. Rógur er aðför úr launsátri sagði faðir minn heitinn. Trúað gæti ég að fleiri Íslendingar hafi fengið viðlíka uppeldi.

 

Rógur er stjórnleysi - hann er siðvilla. Hver sá sem viðhefur róg eða hlustar á róg, hefur vikið frá réttlátum leikreglum. Þeir sem "hvísla" ærumeiðingar sínar í skjóli nafnleyndar að einhverjum æðra settum til þess að koma höggi á einstakling, hafa gerst sekir um tilraun til launvígs. Sá sem hlustar á róg, lætur hann viðgangast, jafnvel hafa áhrif á gerðir sínar er samsekur. Hann hefur þar með brotið mannréttindi þess sem um er rætt, brotið rétt viðkomandi til sjálfsvarnar. Þetta jafngilti ódæði á þrettándu öld - og einhvern veginn finnst manni að svo ætti að vera enn þann dag í dag. En þannig er það þó ekki.

 

Í íslenskum lögum er ekkert ákvæði um rógsmenn.

 

Íslensk stjórnsýslulög kveða á um málsmeðferð hins opinbera gagnvart þeim sem þurfa að sækja mál sitt til stjórnvalda, þ.m.t. andmælarétt, rannsóknarskyldu stjórnvalda og jafnræðisreglu. En í hinum almennu leikreglum sem gilda í reynd  - þ.m.t. almennum hegningarlögum -- hafa rógberarnir frið til athafna. Yfir þeim vofir engin refsing eða krafa um að bera ábyrgð orða sinna.

 

Rógsmenn hafa fengið of mikið svigrúm í íslenskri umræðu. Við sjáum það á bloggsíðum netsins þar sem þeir vaða sumstaðar uppi í skjóli nafnleyndar. Við sjáum það jafnvel í opinberum málum sbr. bréfið fræga sem sent var dómendum í Baugsmálinu - og var tekið til umfjöllunar á opinberum vettvangi. Nafnlaus bréfritari sem bar ósannaðar sakir á dómendur og málsaðila varð stjarna um hríð. Ummæli hans urðu sérstakt umfjöllunarefni, einhverskonar liður í málflutningi. Ótrúlegt en satt.

 

Ég tel að þetta sé galli á íslenskri löggjöf - og um leið siðferðisbrestur í íslensku samfélagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hárétt hjá þér Ólína og orð í tíma töluð. Ég  er hinsvegar ekkert viss um að þú fáir mikil  viðbrögð, enda eru þau ekki  réttur mælikvarði á mikilvægi þess sem sagt er. Minnist þess að  nóbelskáldið sagði um rökræður okkar að  íslendingum væri gjarnt að rífast um allsskonar tittlingaskít en setti ævinlega hljóða,hvenær sem komið væri að kjarna máls.......Það er bara svoleiðis, held ég

,Oskar Þór (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 07:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband