Mega konur hafa skoðun á konum?

konur   Ýmsar mætar konur eru á framboðslistum stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi fyrir þessa kosningar, eins og bent hefur verið á m.a. af Gústafi Gústafssyni sem sent hefur mér tilskrif á héraðsvef Húnvetninga.

Tilefni Gústafs er það að fyrir skömmu skrifaði ég grein þar sem ég vakti athygli á tveimur konum úr einu og sama héraðinu, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur alþingismanni og Herdísi Á. Sæmundsdóttur stjórnarformanni í Byggðastofnun. Báðar keppa þær um hylli Skagfirðinga um þessar mundir – sem og auðvitað kjósenda víðar í kjördæminu. 

Hugleiðingar mínar komu illa við Gústaf og þá væntanlega aðra stuðningsmenn Vinstri grænna sem státa af frambærilegum konum í Norðvesturkjördæmi fyrir þessar kosningar. Síst vil ég gera lítið úr kvennavali Vinstri grænna eða annarra flokka. Hins vegar árétta ég að erindi mitt inn á ritvöllinn var ekki það að gera heildarúttekt á kvenframbjóðendum allra stjórnmálaflokka í kjördæminu, heldur einungis að benda á þá staðreynd að Skagafjörður býður fram tvær konur sem telja mætti í baráttusætum að þessu sinni.

Herdís Á. Sæmundsdóttir tekur skrif mín einnig óstinnt upp í grein sem birtist á vefmiðlum í gær. Hún virðist álíta að með þeim sé ég að “senda tóninn” henni persónulega, eins og hún orðar það.

Ég er ekki sammála því að skrifum mínum sé beint gegn Herdísi sem persónu – fjarri því – enda hef ég ekkert sagt sem talist getur henni sjálfri til vansa. Þvert á móti er hún í grein minni sögð “mæt” kona og “frambærileg” ekkert síður en Anna Kristín Gunnarsdóttir sem ég þó styð fram yfir Herdísi af ástæðum sem raktar eru í grein minni. Þær ástæður lúta að stjórnmálaskoðunum og afstöðu minni  til þeirra sjónarmiða sem þessar tvær konur eru fulltrúar fyrir.

Viðbrögð Herdísar benda til þess að hún geri ekki glöggan greinarmun á mönnum og málefnum – og taki til sín persónulega þá gagnrýni sem beinist að Framsóknarflokknum og stjórnarathöfnum hans. Sjálf gerist hún full persónuleg í garð annarra í svari sínu, og heggur þar ómaklega að Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, sem er þó alsaklaus af mínum skrifum.

laufdrottning   Það virðist hafa komið fólki á óvart að “kvenréttindakonan” og “jafnréttissinninn”, eins og ég er kölluð í greinum þeirra Gústafs og Herdísar, skuli hafa tekið upp penna til þess að ræða um erindi tveggja kvenna í stjórnmálum. Ætlar þetta ágæta fólk að halda því fram að kvenréttindi felist í því að konur séu undanþegnar stjórnmálaumræðu? Ætlast þau til þess að “jafnréttissinnar” taki ekki afstöðu til kvenna í stjórnmálum? Ef svo væri, þá værum við að tala um það að velja konur “bara vegna þess að þær eru konur” – og undir það get ég aldrei tekið.

Konur sem telja sig eiga erindi í stjórnmál verða auðvitað að vera tilbúnar í rökræðu um málstað sinn, tilbúnar að takast á um þann málstað og sæta gagnrýni ef því er að skipta. Við konur eigum það ekki skilið að vera metnar á forsendum kynferðisins eingöngu – hvorki af körlum né öðrum konum.

 

Eru Vestfirðir með?

 Landidallt Hvenær koma kæri minn, kakan þín og jólin? spyr Sigurður Pétursson í athyglisverðri grein á bb.is í gær. Vel má vera að einhverjum finnist það svona og svona að hossa sínum nánustu opinberlega, en ég bara verð að koma þessum hugleiðingum bónda míns á framfæri - þær eru svo mikill sannleikur um stöðu mála á Vestfjörðum. Úrræðaleysið - eða á maður að segja kjarkleysið?

Eiginlega eru engin önnur orð yfir það sem hefur verið að gerast í málefnum Vestfjarða að undanförnu. Og hvað gera kjarklausir menn? Þeir  tala niður tillögur annarra, reyna að þegja þær í hel,  drepa umræðunni á dreif, til þess að breiða yfir eigin vanmátt. Gamla sagan.

 Því miður er ég hrædd um að myndin hérna fyrir ofan - sem sýnir landið án Vestfjarða - sé sannari en margan grunar. Ég minnist þess þegar ég fyrir fáum árum var ein af þeim sem skrifuðu greinar á kreml.is. Vefsíðan sem bar þetta grínaktuga nafn var umræðuvettvangur jafnaðarmanna og þar skrifuðu nokkrir eldhugar um ýmis málefni tengd stjórnmálum og þjóðfélagsumræðu. Ég setti einhverju sinni inn grein sem fjallaði um samgöngumál á Vestfjörðum - enda lá mér margt á hjarta í þeim efnum. Fyrir vikið uppskar ég ákúrur ónefnds kollega í hópnum. Honum fannst fyrir neðan allar hellur að ég skyldi skrifa um "innanhéraðsmál" á jafn virðulegan vef sem fjallaði um þjóðmál "á landsvísu". Spruttu af þessu svolitlar ritdeilur á póstlista kremlverja - því ég var ekki tilbúin að kyngja því að jarðgöng á Vestfjörðum, eða samgöngur þangað yfirleitt, væru innanhéraðsmál. Ekkert frekar en tvöföldun Suðurlandsvegar, staðsetning Reykjavíkurflugvallar, göng um Almannaskarð eða Sundabraut. 

Mér varð hinsvegar ljóst af þessum orðaskiptum að stór hluti Höfuðborgarbúa lítur ekki á Vestfirði sem hluta af heildinni. Í þeirra augum eru vandamál Vestfjarða ekki vandi landsins. Þannig er það nú bara.

Það þykir sjálfsagt að taka við þjóðartekjunum sem héðan koma - hirða afrakstur auðlindanna sem eru í hafinu umhverfis Vestfirði og láta renna í þjóðarbúið. En það virðist ekki vera jafn sjálfsagt að verja einhverju af sameiginlegum fjármunum ríkissjóðs til uppbyggingar atvinnulífs og búsetu á Vestfjörðum, þó þess gerist nú brýn þörf.  

Þess vegna er ég hrædd um að Vestfjarðanefndinni svokölluðu, sem forsætisráðherra setti á laggirnar eftir fjölmennan baráttufund sem haldinn var á Ísafirði, hafi ekki verið ætlað annað en að róa fjöldann. Láta fólk halda að nú væri verið að gera eitthvað - bara eitthvað.

En Vestfirðingar spyrja um efndirnar - og sú spurning brennur nú heitari en nokkru sinni fyrr á stjórnvöldum landsins: "Hvenær?"


195 bloggvinir á tómri síðu!

Ótrúlegt - kíkið á þetta - galtóm bloggsíða en 195 bloggvinir komnir samt! Á tóma síðu. Þetta er sko húmor í lagi. 

Annað hvort er Steini Briem ótrúlega vel kynntur úti í samfélaginu - sem getur auðvitað vel verið, þó mér finnist það ólíklegt (með fullri virðingu fyrir manninum) -  eða bloggvinaæðið hefur keyrt um þverbak. Og það er mín niðurstaða.

En ég semsagt fékk tilboð frá þessum ágæta "bloggara" um að gerast bloggvinur fyrir nokkrum dögum. Þar sem ég er svolítið kresin á þá sem ég kalla vini mína opnaði ég að sjálfsögðu síðuna hans til að sjá hvað hann væri að blogga áður en ég samþykkti hann sem vin. Halló! Þar var þá ekkert - en löng runa af bloggvinum. Ég ákvað að hinkra og hef verið að kíkja á síðuna af og til, svona til að sjá hvort ekki kæmi eitthvað inn. En ekkert gerist. Steini Briem fær 80-90 heimsóknir á hverjum einasta degi, á síðu sem ekkert er inni á, og bloggvinum fjölgar dag frá degi. Í kvöld voru þeir orðnir 195.

Þetta er BARA frábært - eins og börnin segja.

Trúað gæti ég að þarna sé verið að gera tilraun með það hversu marga bloggvini er hægt að fá án þess að nokkuð sé á bak við það. En hvort sem það er tilfellið eða ekki - þá er niðurstaðan athyglisverð. AFAR athyglisverð.

Ég kaupi þennan húmor.


Kalt er við Kárahnjúka

 karahnjukar   Aðbúnaður verkamanna á Kárahnjúkum hefur oft orðið tilefni fréttaskrifa - of oft að mínu mati: Svo virðist sem kuldi, léleg húsakynni, vondur matur og erjur ýmiskonar séu varanlegt hlutskipti þeirra sem þarna vinna. Það er óásættanlegt og auðvitað ekkert gamanmál.

 Þessar fréttir rifja hins vegar upp fyrir mér vísur sem urðu til í hálfkæringi á hagyrðingakvöldi sem ég tók þátt í fyrir tveimur árum. Ég leyfi þeim að fjúka hér - en árétta að auðvitað fylgir öllu gamni nokkur alvara - og um það er ekki að villast í þessu tilviki.

  • Kalt er við Kárahnjúka, 
  • kostur þar naumur bíður.
  • Klórar sér kalinn um búka 
  • krókloppinn verkalýður.

 

  • Ófriðar eru þar læti, 
  • enga finna menn hlýju
  • og fái þeir eitthvert æti
  • það efalaust veldur þeim klígju.

 

  • Já kalt er við Kárahnjúka
  •  og kulið beitir menn hörðu. 
  • Um tindana fannir fjúka 
  • og frost þiðnar aldrei úr jörðu.

Svo mörg eru þau orð að sinni.


mbl.is Tugir starfsmanna við Kárahnjúka veiktust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að velja milli kvenna - erfitt!?

Sú óvenjulega staða er nú uppi í Norðvesturkjördæmi að tvær konur eru í baráttusætum tveggja framboðslista, báðar úr Skagafirði. Anna Kristín Gunnarsdóttir, sem verið hefur þingmaður kjördæmisins á yfirstandandi kjörtímabili, skipar þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar. Herdís Sæmundardóttir, stjórnarformaður Byggðastofnunar, skipar annað sæti á lista Framsóknarflokksins. Báðar eiga þær raunhæfan möguleika á að komast í þingsæti - en hvorug er þó örugg inn.

Það gerist ekki oft í íslenskum stjórnmálum að kjósendur þurfi að velja á milli kvenna. Algengara er að valið standi milli karls og konu. Hefur af því skapast sú hvimleiða umræða sem margir þekkja, að konur komist til valda „bara vegna þess að þær séu konur“. Nú er því ekki að heilsa, heldur þurfa kjósendur að vega og meta tvær mætar konur á pólitískum forsendum. Fyrir hvað standa þær? 

hs Fulltrúi óbreytts ástands

Herdís Sæmundsdóttir er lítt þekkt á opinberum vettvangi, utan héraðs. Hún gegnir þó stjórnarformennsku sem fulltrúi Framsóknarflokksins í Byggðastofnun og hefur starfað sem bæjarfulltrúi. Að öðru leyti þekkja almennir kjósendur í kjördæmi lítið til hennar.Eins og menn vita hefur Byggðastofnun veikst mjög í tíð iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins og hefur átt erfitt með að gegna sínu mikilvæga rannsóknar- og stuðningshlutverki við byggðir landsins. Áform iðnaðarráðherra um að sameina hana Iðntæknistofnun og Nýsköpunarmiðstöð ollu stofnuninni erfiðleikum og óvissu, enda þótt ekki yrði af sameiningunni.

Samkvæmt skoðanakönnun sem fréttablaðið hefur nú kynnt vilja 90% framsóknarmanna áframhaldandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þar með vitum við að atkvæði greitt framsóknarflokknum er atkvæði greitt ríkisstjórninni og óbreyttum stjórnarháttum. Hvað þýðir það? Það þýðir meðal annars áframhaldandi ójafnvægi í hagstjórnun landsins, misskiptingu lífskjara, vaxandi mun milli ríkra og fátækra, viðvarandi biðlista eftir velferðarþjónustu, óréttlátt skattkerfi, miðstýringu í landbúnaði og þverrandi virðingu fyrir grunngildum jafnaðarhugsjónarinnar. 

                                                                          Fulltrúi umbóta og nýsköpunar    AnnaKristin

 Anna Kristín Gunnarsdóttir er alþingisþingmaður á yfirstandandi kjörtímabili og kjósendur þekkja hana af verkum hennar. Hún hefur verið ötull málsvari landsbyggðarinnar, talað fyrir nýsköpun í atvinnu- og menntamálum kjördæmisins. Ekki síst hefur hún talað fyrir bættum samgöngum og umbótum í landbúnaði og látið sig varða málefni íslenskra bænda. Anna Kristín er sömuleiðis málsvari skynsamlegrar nýtingar náttúruauðlinda og aðhyllst hófsemi í þeim efnum. Hún hefur verið einörð og heiðarleg í sínum málflutningi.

Við sem höfum kynnt okkur stefnurskrár stjórnmálaflokkanna fyrir þessar kosningar vitum að atkvæði greitt Samfylkingunni er atkvæði greitt umbótavilja og breytingum: Stjórnarháttum sem miða að jafnvægi og réttlátri skiptingu lífskjara, auknum jöfnuði í samfélaginu, aukinni þjónustu í velferðarkerfinu og nýsköpun í atvinnulífi. Samfylkingin stefnir að sanngjörnum leikreglum í atvinnulífi þjóðarinnar, ekki síst landbúnaði og tekur stöðu með neytendum jafnt og bændum. Samfylkingin hefur heitið því að útrýma biðlistum eftir velferðarþjónustu og gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að afnema launamun kynjanna. Síðast en ekki síst byggir Samfylkingin á grundvallargildum jafnaðarmanna um heim allan.

Kjósendur í Norðvestur kjördæmi! Ef þið eigið erfitt með að velja á milli tveggja frambærilegra kvenna á kjördag, hugleiðið þá vel hvaða grundvallarsjónarmið þessar tvær konur standa fyrir. Það er hið raunverulega val sem þið standið frammi fyrir í kjörklefanum.



Verður Vöggur litlu feginn?

 oliuhreinsistod   Skýrsla Vestfjarðanefndarinnar um atvinnumál hefur nú verið birt á heimasíðu forsætisráðuneytisins. Ég er búin að lesa hana og ... sjáið til:

Fyrir fáum árum skiluðu vestfirskir sveitarstjórnarmenn sérstakri byggðaáætlun fyrir Vestfirði. Sú áætlun var samin í tilefni af því að Vestfirðir "gleymdust" í  byggðaáætluninni  sem átti að ná yfir landið allt. Sú áætlun var send stjórnvöldum, og fyrstu árin á eftir bárust með vorvindum yfirlýsingar um að nú færi að rofa til í málefnum svæðisins - svona hvað úr hverju.

Síðan hefur flest verið á niðurleið - eins og skýrslan sýnir svart á hvítu.

Þegar svo Vestfirðingar fengu nóg af orðavaðli og aðgerðarleysi, eins og glögglega kom í ljós á fundinum Lifi Vestfirðir nú í vor, ákvað forsætisráðherra að skipa nefnd til þess að skila inn tillögum um aðgerðir í atvinnulífi svæðisins. Sveitarstjórnarmenn bentu á að slíkar tillögur lægju nú þegar fyrir og ekki þyrfti að skipa sérstaka nefnd um það mál að sinni. Engu að síður var nefndin skipuð - og ég skal viðurkenna að ég lét að mér hvarfla að það væri vegna þess að nú ætti að skoða málin í alvöru. Kalla eftir nýjum og ferskum tillögum, eða blása ryki af gömlum, og gera áætlun um hvernig fram komnum tillögum yrði helst komið í framkvæmd. 

Nú liggur nefndarálitið fyrir og .... Whistling

Það var auðvitað barnaskapur að halda að eitthvað kæmi út úr þessu. Ég játa á mig þann barnaskap. Hann mun ekki henda mig aftur, a.m.k. ekki á meðan þessi ríkisstjórn situr að völdum.

Vestfirðingar bjuggust við framsæknum tillögum - e.t.v. bara einni þróttmikilli hugmynd sem fæli í sér nýsköpun, framtíðarsýn, metnað. Til dæmis tillögu um sjálfstæðan háskóla á Ísafirði; stórátak í vegamálum (eitthvað annað en að flýta Vestfjarðagöngum - hefði t.d. mátt stíga skrefið til fulls og leggja til tvenn jarðgöng til að tengja norður og suðursvæði Vestfjarða í eitt skipti fyrir öll); strandsiglingar.   Ekki er því að heilsa. Þess í stað koma almennt orðaðar ályktanir um að "stefna að", "auka" og "efla" eitt og annað (sem segir sig auðvitað sjálft) og svo loftkenndar vangaveltur um olíuhreinsunarstöð í Dýrafirði. Hugmynd sem hvorki nefndarmenn né forsætisráðherra þora þó að taka neina ábyrgð á eða mæla með. 

Þannig fór um sjóferð þá.

 

http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir/Vestfjardarnefnd.pdf

http://bb.is/?PageID=26&NewsID=61424

http://bb.is/?PageID=26&NewsID=97956 

http://bb.is/?PageID=26&NewsID=97688


Gleðilegt sumar - og óbeislaða fegurð!

sól Gleðilegt sumar - allir bloggvinir og lesendur þessarar síðu!

Harpa er gengin í garð. Það var dásamlegt að finna návist hennar þegar ég vaknaði í morgun með sumar í sinni. Sól á lofti, fuglasöngur, brum á tjrám.  Ég meira að segja vatt mér í vorverkin í garðinum, tók ofan af blómabeðum, rakaði saman rusli og dáðist að krókusunum sem eru farnir að stinga upp kollinum hér og hvar.

Í gær, síðast vetrardag, var ég á hagyrðingakvöldi á Borg í Grímsnesi, og þar var glatt á hjalla, farið með margar vísur og ort á staðnum. Því miðu missti ég af annarri  óborganlegri skemmtun sem átti sér stað á sama tíma vestur á Ísafirði - en það var fegurðarsamkeppnin "Óbeisluð fegurð".

 everyinchawoman  Hugmyndin að þessari "fegurðarsamkeppni" er aldeilis hreint frábær. Hún storkar viðteknum staðalímyndum um fegurð kvenna og karla og er þess vegna kærkomið uppbrot og ádeila um leið. Þátttakendur voru á ýmsum aldri af báðum kynjum og flestir yfir kjörþyngd. Dregið var um fegursta þátttakandann og hlutskörpust varð falleg kona um sextugt. Þá var kosið um ýmsa titla, sælkera kvöldsins, fegurstu áruna og fleira  (sjá frétt )

Aðstandendur keppninnar báðu mig að setja saman vísur af þessu tilefni - sem ég gerði - og þær munu hafa verið fluttar í gærkvöldi. Læt þær fljóta hér með að gamni: 

   
  • Bundin er í hismi og hjóm
  • horuð leggja megurð,
  • en ávallt hlýtur æðstan dóm
  • hin óbeislaða fegurð. 
  • Mörgum er hún huggun harms
  • og hefur læknað sjúka.
  • Þegar millum bols og barms
  • bifast holdið mjúka. 
  • Já sannleikurinn sjaldan flýr
  • -         soltin lúsin bítur –
  • og æðsta fegurð alltaf býr
  • í auga þess er lítur. 
 Að lokum þetta
  • Ýmsir kostir sinna sjá,
  • en síst ég þarf að minna á
  • að fegurð sanna finna má
  • svo fremi hún komi innan frá.

   


Olíuhreinsunarstöð og aðrar smjörklípur

Jæja, þá er maður kominn inn aftur eftir nokkurra daga hlé. Og ekki fyrr búinn að jafna sig eftir landsfund Samfylkingarinnar en næsta umræða tekur völdin: Olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum - fimmhundruð störf!

Hjartað tekur kipp og eldur þýtur um æðarnar rétt sem snöggvast. Getur það verið? Er mönnum alvara - og engin mengun? Dýrafjörður!

Jæja, svo áttar maður sig - púlsinn róast. Smám saman kemur betur í ljós að málið er uppþot í umræðunni. Hugdetta sem svífur í lausu lofti - ekkert sem  hönd á festir. Í raun hefur ekkert gerst annað en það að Ólafur Egilsson hefur blásið ryki af átta ára gamalli hugdettu - sem þá dúkkaði upp rétt fyrir kosningar eins og núna, nema hvað Skagafjörður var inni í umræðunni í það sinnið. Nú eru það Vestfirðir. Þetta er smjörklípa. 

Eða hvað á maður annars að halda þegar svona umræða er sett af stað tveim dögum áður en nefndin, sem  forsætisráðherra skipaði til að leggja fram tillögur um eflingu atvinnulífs á Vestfjörðum, skilar af sér? Eiginlega sætir furðu að þetta skuli vera meðal þess sem sett er fram í skýrslu nefndarinnar - í ljósi þess hve lítið virðist vera á bak við hugmyndina - engin formleg erindi, engin hagkvæmniathugun, hvað þá framkvæmdaáætlun. Sá vondi grunur læðist að manni að hugmyndin hafi verið sett fram til þess að draga athygli frá annars máttlitlu nefndaráliti.

Tillögur nefndarinnar, eins og þær hafa verið kynntar í fjölmiðlum, eru vonbrigði. Þarna gefur að líta almennt orðaðar ályktanir um að "efla" þetta, "auka" hitt, "stefna að" og "kanna". Raunar fylgir sögunni að í viðauka við skýrslu nefndarinnar komi fram 37 tillögur um tilflutning starfa og verkefna sem nemi áttatíu stöðugildum. Engin framkvæmdaáætlun fylgir þó tillögunum, og það sem birt hefur verið vekur litla von. Þvert á móti fær maður á tilfinningna að tillögur nefndarinnar séu sama marki brenndar og umræðan um olíuhreinsunarstöðina: Hugmyndir í lausu lofti, lítið annað en orð á blaði.

Það verður fróðlegt að sjá hvort  forsætisráðherra sér ástæðu til þess að halda fund með íbúum Vestfjarða til þess að kynna okkur afrakstrur nefndarstarfsins og gera grein fyrir því hvað muni komast til framkvæmda og hvenær. Verði það ekki gert er þetta marklaust plagg. Og kannski var því aldrei ætlað að vera neitt annað.



Fyrir hvað standa konurnar í forystu jafnaðarflokkanna?

SahlinHelle Thorning-SchmidtISG  Það var gaman að hlusta á þær Monu Sahlin og Helle Thorning-Schmidt á landsfundi Samfylkingarinnar í gær. Þetta eru framúrskarandi stjórnmálakonur, glæsilegar og vel máli farnar. Ingibjörg Sólrún sómdi sér vel í þeirra hópi.

 Mona Sahlin er merkileg fyrir margra hluta sakir. Hún hefur mætt meira mótlæti en flestir stjórnmálamenn upplifa á ævi sinni. Hún hefur risið upp úr því andstreymi og ferill hennar sýnir að henni er treyst. Hún er hnyttin og hittin í málflutningi sínum, býr yfir augljósum persónutöfrum.

Helle Thorning-Schmidt hefur líka átt við andstreymi að etja, þó í annari mynd en Sahlin. Hún hefur m.a. orðið fyri ómálefnalegri umfjöllun sökum þess að hún er kona, er t.d. kölluð Gucci-drottningin í Danmörku vegna þess hve vel hún er klædd alla jafna og glæsileg á velli. Slíkar athugasemdir segja manni það að ekki er mikið út á manneskjuna að setja úr því það þykir ástæða til að gagnrýna glæsileik hennar.

Málflutningur allra þessara kvenna skýrir stöðu þeirra í norrænum stjórnmálum - skýrir það hvers vegna þeim er treyst. Ég gat ekki varist þeirri hugsun þar sem ég virti þær fyrir mér allar þrjár á sviðinu, að þetta væri einmitt víddin sem vantaði inn í íslensk stjórnmál. Fleiri frambærilegar stjórnmálakonur. Stjórnmálamenn sem leyfa hjartanu að slá í takt við málflutninginn, hafa sýn á framtíðina, skilning á erindi sínu, og eru einlægir í ásetningi sínum að bæta samfélagið og leita lausna.

Ekki þori ég að fullyrða að slíkir stjórnmálamenn séu fleiri hópi kvenna en karla. Hins vegar grunar mig að orðræðuhefð íslenskra stjórnmála valdi því að svo sé. Karlar virðast eiga erfiðara með að vera einlægir í stjórnmálaumræðum, þó sjálfsagt hafi það meira að gera með hefðir en innræti.

Mér svíður hinsvegar bullið um að við jafnaðarmenn og femínistar viljum koma konum til valda "bara vegna þess að  þær séu konur". Þessi klisja er orðin óskaplega þreytandi.

Konur eiga erindi að stjórnvelinum - og þær eiga verðuga fulltrúa. Um það snýst málið - og að halda öðru fram er einfaldlega móðgandi fyrir konur. Samfélagið er ekki svart hvítt í reynd, þó stundum mætti ætla annað þegar litið er á samsetningu þeirra sem veljast í umræðuþætti, inn í stjórnir fyrirtækja og jafnvel á framboðslistana.

Þegar ég tala um að koma konu að sem forsætisráðherra, er ég ekki að tala um hvaða konu sem er, heldur frambærilega konu sem er verðugur fulltrúi annarra kvenna og samfélagsins í heild.  Þá er ég að tala um þá staðreynd að nú um stundir er á sviðinu frambærileg kona sem getur tekið að sér hlutverk forsætisráðherra, og þar með brotið upp svarthvítar raðir íslenskra forsætisráðherra frá upphafi.  Hvernig væri það? Eða svo ég vitni beint í þekkt orðtak úr My Fair Lady: "Wouldn't it be lovely?"Smile

 


Glæsilegur landsfundur

  Þá er fyrsti dagur landsfundar Samfylkingarinnar að kveldi liðinn. Hátt á annað þúsund landsfundarfulltrúa mættu til leiks í Egilshöll. Setningarathöfnin var glæsileg - ræða formannsin hitti mannskapinn í hjartastað og það var auðfundið að nú er baráttuhugur í samfylkingarfólki. 

Það var gaman að sjá og heyra þær Monu Sahlin og Helle Thorning-Smith formenn jafnaðarmannaflokkanna í Svíþjóð og Danmörku. Ég fann stoltið innra með mér þegar þær stóðu allar á sviðinu, þessir fulltrúar jafnaðarstefnunnar, þrjár konur, hver annarri glæsilegri. Málefnalegar og hrífandi, hver með sínum hætti. 

 Mona Sahlin talaði óhikað um grundvallargildi jafnaðarstefnunnar, réttlætishugsjónina sem knýr jafnaðarmenn til dáða og gildin sem aldrei mega gleymast: Að byggja upp samfélag þar sem hver maður fær að gefa eftir getu og þiggja eftir þörfum. Hún sagði að spurningarnar sem hver kynslóð stæði frammi fyrir væru ævinlega þær sömu - hinsvegar væru svör og lausnir breytileg eftir því sem tímarnir breyttust.

Sahlin sló á létta strengi - sagði það hlutverk norrænna jafnaðarmannaflokka um þessar mundir að vera í forsvari fyrir stjórnarandstöðu, velta ríkisstjórnum úr sessi og mynda nýjar. Það væri vandasamt verk, svo vandasamt að til þess þyrfti konur! 

 Helle Thorning-Smith var hrífandi og rökföst í sínum málflutningi. Þetta er ung og falleg kona með hjartað á réttum stað. Hún lagði áherslu á kvenréttindi sem lið í almennum mannréttindum, sagði að engin kona ætti að þurfa að velja milli barneigna og starfsframa. Þá ræddi hún um gildi jafnaðarstefnunnar og nauðsyn þess að hafa hana í hjartanu, ekki aðeins á vörunum. Það var gaman að finna sannfæringarkraftinn streyma frá henni - sjálfstraustið, áhugann fyrir málstaðnum, vongleðina. 

Ingibjörg Sólrún var rökföst og málefnaleg að vanda - augljóslega ekki af baki dottin þrátt fyrir erfiðar skoðanakannanir að undanförnu. Hún talaði af einurð um þau verkefni sem framundan eru: Leiðréttingu kynjabundins launamunar, lagfæringu á eftirlaunamisrétti milli þjóðfélagshópa, úrbætur á vanrækslusyndum ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum, tryggingakerfinu, samgöngu- og atvinnumálum, hagstjórninni. Ekki síst gladdi mig sú afdráttarlausa yfirlýsing hennar að hún myndi láta það verða sitt fyrsta verk í nýrri ríkisstjórn að taka Ísland af lista hinna vígfúsu þjóða!

Fagnaðarlátum ætlaði aldrei að linna þegar Ingibjörg Sólrún hafði lokið máli sínu - þau fagnaðarlæti voru ekki bara stuðingur við hana sem formann flokksins, heldur lýstu þau samhug fundarins og baráttugleði. Það var gaman að upplifa þá stemningu.     


mbl.is „Það þarf konu til að koma jafnaðarmannastjórn að völdum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband