Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Spillingin rædd Á Sprengisandi

Við Grímur Atlason vorum í þætti Sigurjóns M. Egilssonar Á Sprengisandi í morgun að ræða spillingarmálin og ástandið í þjóðfélaginu. Þeir sem hafa áhuga á að hlusta á þetta geta smellt HÉR.  Að svo stöddu hef ég ekki miklu við að bæta - læt þennan skammt duga í dag.

Burt með spillingarliðið!


Nú langar mig ekki að blogga - heldur yrkja

 

Haustfjöll 

Bak við gisnar trjágreinar
stendur fjallið
á móbrúnum
haustklæðum.

Tveir hrafnar leika í lofti.

Dökkur mýrarflákinn
dýgrænn í sumar

þá angaði lyngið.

Hlæjandi börn
gripu handfylli af berjum
með bláma um varir og vanga

rjóð af heitri sól
sæl í þýðum vindi

og veröldin söng

í bláum tindum
hvítu brimi við svartan sand.

Nú bíða fjöllin
rök og þung
blæju vetrar.

Laufið fokið burt.

haustlauf 


Til ykkar sem ætlið að mótmæla í dag ...

... klæðið ykkur vel. Munið eftir föðurlandinu, húfunni, treflinum og ullarvettlingunum. Það hefur oft viðrað betur á mótmælendur en í dag. Verið svo málstaðnum til sóma - ég verð fjarri góðu gamni, en með í andanum. Wink

Burt með spillingarliðið!


Loks vottar fyrir lausnum

kossinn Það var tími til kominn að ráðamenn þjóðarinnar færu að boða lausnir en ekki aðeins vandamál. Þið fyrirgefið, en mér sýnist það vera að gerast samhliða því að Ingibjörg Sólrún kemur inn á ríkissjónarvettvanginn á ný eftir veikindi sín. Hún skrapp í vinnuna fyrr í vikunni, og skar þá niður útgjöld í utanríkisráðuneytinu um tvo milljarða. Kom svo aftur einum eða tveimur dögum síðar og lagði upp áætlun um að bjarga Iceasave deilunni. Í dag er svo kynnt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að létta undir með heimilum landsins.

Nei, ég segi nú svona - þetta er kannski ekki alveg sanngjarnt. Whistling Auðvitað hlýtur fjöldi manns að hafa verið að vinna að þessu öllu saman vikum saman. Það hefur bara ekkert gengið einhvern veginn - og Geir er farinn að sýna þreytumerki.

Annars var athyglisvert að hlusta á Björgólf Guðmundsson í Kastljósinu í gærkvöld. Þar hélt hann því fram fullum fetum að Landsbankinn hefði átt fyrir skuldum á Mikjálsmessu, þann 29. september. Það mátti skilja á honum að í raun hafi bankinn verið lagður á hliðina af Seðlabankanum - af því að Seðlabankinn hafi ekki sinnt um að hafa nægan gjaldeyrisforða og því ekki getað komið bankanum til hjálpar, eins og farsælast hefði verið. Að vísu lét Björgólfur þess ógetið að í reynd voru bankarnir löngu vaxnir Seðlabankanum yfir höfuð og hann ekki þess megnugur að hjálpa þeim neitt þegar á reyndi. En það vissu menn auðvitað fyrir löngu ... þeir gerðu bara ekkert í því.

Þannig að ekki jókst hróður Davíðs Oddssonar við þetta viðtal - það verður bara að segjast eins og er.

Það er eiginlega að verða vandræðalegt að yfirstjórn Seðlabankans skuli ekki hafa sagt af sér. Það ætti hún að gera. Sömuleiðis yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins - eins og ég hef marg sagt - að ekki sé talað um skuldbreytingaliðið í bönkunum. Burt með spillingarliðið! 

Hef ég þá lokið máli mínu að sinni.  Cool


mbl.is Ný greiðslujöfnunarvísitala tekin upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréfið til Valgerðar

Bréfið til Valgerðar Sverrisdóttur sem varð Bjarna Harðarsyni svo afdrifaríkt lýsir sárum vonbrigðum tveggja Framsóknarmanna með framgöngu Valgerðar á ráðherrastóli og það hvernig flokkinn hefur borið af leið í mikilvægum málum - ekki síst varðandi einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Bréfið fer hér á eftir:

Heil og sæl Valgerður, þú varst ögn önug út í okkur flokksbræður þína yfir því að við minntum á, í bréfi 9. okt. s.l.að í þinni ráðherratíð sem viðskiptaráðherra voru bankarnir einkavæddir.

Það verður þó varla fram hjá því litið að á því ferli öllu berð þú mikla ábyrgð ásamt því regluverki sem bönkunum var ætlað að starfa eftir. Og minnast má þess að lengi vel var það stefna Framsóknarflokksins að selja ekki bankana og als ekki Símann og margir framsóknarmenn munu enn vera á þeirri skoðun. Nú er úti ævintýr og bankarnir komnir aftur í þjóðareign. Nauðsynlegt er að spyrja hvað hefur þjóðin haft upp úr sölu bankanna og hvað mun hún kosta hana? Fyrireinkavæðingu var þjóðin talin með ríkustu þjóðum í heimi. Þjóðartekjur á mann með því besta sem þekktist. Þegnarnir yfirleitt efnahagslega sjálfstæðir og lífskjör hvergi jafnari en hér á landi. Ofurlaun þekktust ekki. Hvernig er svo ástandið í dag, sem einkavæðingin skilur eftir? Allir bankarnirkomnir í þrot. Af eljusemi og dugnaði höfðu þeir safnað erlendum skuldum er nema tólf til þrettán faldri ársframleiðslu þjóðarinnar. Allt sparifé okkar, sem var í vörslu þeirra var í uppnámi. Setja varð neyðarlög að næturlagi til þess að tryggja spariféð og eðlileg bankaviðskipti í landinu. Mörg hundruð miljarða skuldabaggi er lagður á íslenska þjóð. Okkur finnsta því að þú mættir gjarnan hugleið hvaða áhrif þinn félagslegi og pólitíski framgangur hefur haft fyrir þjóðina og Framsóknarflokkinn. Og hvað um KEA og SÍS? Spyrja má hversu mikið landsbyggðin hefur liðið fyrir hrun Samvinnuhreyfingarinnar.

Síður en svo ætlum við þér alla ábyrgð á einkavæðingunni og afleiðingum hennar þótt þú kæmir þar verulega við sögu og margir bera ábyrgð á þróun samvinnumála hér á landi. Framsóknarflokkurinn átti sinn góða þátt í uppbyggingu þess samfélags, sem hér náði að þróast á öldinni sem leið. Það samfélag byggði á blönduðu hagkerfi, sem hafnaði öfgum kapitalisma, sem boðaði að markaðurinn ætti að ráða öllu í heimi hér, jafnt og alræðissósíalisma var hafnað. Með formensku Halldórs Ásgrímssonar hefst raunasaga Flokksins, sem endaði með fylgishruni. Halldór klifaði látlaust á því að breyta þyrfti stefnu Flokksins. Hann skipaði framtíðarnefnd. Jón Sigurðsson var ,,kallaður” til þess að hafa umsjón meðþessari stefnumótun, ásamt Sigurði Einarssyni og Bjarna Ármannssyni, sem afþakkaði reyndar þetta boð.

Í þessari nýju stefnu fólst m.a. þetta:

  1. Í stað þess að standa vörð um sjálftæði Íslands og fullveldi átti að gangastundir ESB- valdið í Brussel.
  2. Í stað hins blandaða hagkerfis skyldi innleiða ,,frjálst” markaðhagkerfi líkt og í Bandaríkjunum og ESB.
  3. Ísland átti að verða ,,alþjóðleg” fjármálamiðstöð og skattaparadís.
  4. Frjáls innflutningur á landbúnaðarvörum, átti að vera forsend þess að flokkurinn næði fylgi í þéttbýlinu.

Allt var þetta í algjöri andstöðu við þau lífsviðhorf og gildismat þess fólks sem Flokkurinn sótti fylgi sitt til. Enginn studdi Halldór formann og þessa nýju stefnu afmeiri alúð en þú, að okkur finnst. Þótt annar hver kjósandi hafi yfirgefið Flokkinn heldur þú áfram á braut, sem leiddi hrun yfir Flokkinn og hörmung yfir þjóðina. Ástandið hefði þó verið sínu verra ef vilji ykkar Halldórs og fyrirmæli um að leggja Íbúðarlánasjóð undir bankanna hefðu ekki verið hundsuð af ágætum flokksbræðrum okkar, Árna Magnússyni, Magnúsi Stefánssyni og Guðmundi Bjarnasyni. Enda nutu þeir, að við höldum, stuðnings annarra þingmanna Flokksins. Þú innleiddir tilskipun ESB um raforkumál, sem kostar fólkið í landinu hundruð miljóna á ári hverju. Og þú orðaðir það svo fallega að þetta gæti verið fyrsta skrefið í einkavæðingu orkugeirans.  Og nú rekur þú áróður sem mest þú getur fyrir aðild að ESB og reynir að fiska málinu fylgi í gruggugu vatni svo ekki sé meira sagt. Því til viðbótar hefur þú og sumir af þínum fylgismönnum talað niður gjaldmiðil hagkerfisins, nokkuð sem er mjög alvarlegt mál. Þá viljum við lýsa undrun og óánægju okkar yfir framgöngu þinni gagnvart sitjandi formanni Framsóknarflokksins. Við munum ekki annað eins.

Með framsóknarkveðju.

Gunnar Oddsson Flatatungu 560 Varmahlíð.
Sigtryggur Jón Björnsson Birkimel 11 560 Varmahlíð.

 

Svo mörg voru þau orð.

 


Bjarna-greiði við Valgerði. Burt með spillingarliðið.

BjarniHarðar Þegar ég var ungur blaðamaður á NT vann ég með skemmtilegum og sérstæðum jafnaldra, Bjarna Harðarsyni að nafni - Sunnlendingi og sveitastrák að upplagi. Okkur varð vel til vina og brölluðum ýmislegt á þessum fyrstu blaðamennskuárum sem voru skemmtilegur tími. Bjarni var og er góðhjartaður maður, svolítið glíminn og fljótfær, en ég hef aldrei efast um góðvild hans og samstöðu með lítilmagnanum.

Í ljósi þessara kynna, kemur mér ekki á óvart að Bjarni skuli nú hafa sagt af sér þingmennsku og axlað þar með ábyrgð á misgjörðum sínum. Honum varð á í hita leiksins. Hann braut á öðrum leikmanni og fer nú af vellinum. Það er honum líkt að taka eigin mistökum eins og maður.

Nú, þegar Bjarni er vikinn úr vegi - er kannski hægt að fara að líta á efni þessa bréfs til Valgerðar Sverrisdóttur, sem hratt atburðarásinni af stað. Sannleikurinn er sá að sú gagnrýni sem þar kemur fram á fullan rétt á sér, og er allrar athygli verð.

Bjarna óska ég velfarnaðar í framtíðinni - ég yrði ekki hissa þótt hann léti að sér kveða á opinberum vettvangi síðar. 


Misræmi í upplýsingum ráðherra - og: Burt með spillingarliðið!

ThorgerdurKatrin Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur ekki gert hreint fyrir sínum dyrum varðandi aðkomu hennar og eiginmanns hennar að viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi og ráðstöfun skulda í framhaldi af því.

 Ráðherrann sagði fyrir fáum dögum að það væri óþolandi fyrir sig og sinn mann að efasemdir væru uppi um stöðu þeirra í þessu máli. Ég er sammála ráðherranum um þetta. Þess vegna verður hún að gera hreint fyrir sínum dyrum - og satt að segja er ég undrandi á fjölmiðlum að ganga ekki harðar fram í því að upplýsa um aðkomu ráðherrahjónanna að hinum umdeildu hlutafjárvipskiptum stjórnenda Kaupþings. Fréttir herma að þau hjónin hafi keypt hlutabréf fyrir um hálfan milljarð króna.

Fram hefur komið að Kristján Arason, eiginmaður ráðherra, stofnaði einkafélag fyrr á þessu ári og að kaup hans á hlut í Kaupþingi áttu sér stað í gegnum það félag. Ráðherrann segir "langt síðan" félagið var stofnað (sjá hér). Þó er ekki lengra síðan en í febrúar síðastliðnum (sjá hér). 

Menntamálaráðherrann segir að þau hjónin hafi sett allan sinn "sparnað" í félagið. Hún upplýsir ekki hvaða sparnað er þar um að ræða - og það sem mér finnst áhyggjuefni, hún er ekki spurð af fjölmiðlum. Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður hefur að vísu hreyft þessu máli í þinginu (sjá hér), en svör hafa ekki fengist enn. Í  blaðaviðtölum er ýmist ýjað að því að þau hjónin hafi keypt hlutabréf fyrir sparnað sinn (sem þau hafi tapað - sjá hér ) eða þau hafi tekið lán sem ekki hafi verið "strokað út" eins og það er orðað (sjá hér). Upplýsingarnar eru misvísandi.

Nú er vitað, að ákveðnir stjórnendur í Kaupþingi fóru þá leið að stofna félög sem önnuðustu kaupin á hlutabréfum í bankanum. Með því móti gátu þeir hirt gróðann af bréfunum - hefði hann orðið einhver - en látið félagið sitja uppi með skuldirnar ef bréfin hefðu orðið verðlaus. Ekki verður annað séð en að félagið sem Kristján Arason, eiginmaður ráðherra, stofnaði, hafi einmitt verið sett á laggirnar í þessu skyni. Að minnsta kosti var hann "fámáll" um tilgang og starfsemi félagsins, þegar það var stofnað fyrr á þessu ári (sjá hér).

Menntamálaráðherra segir í fyrrgreindum fréttaviðtölum að nú verði allir að gera hreint fyrir sínum dyrum.  Það er rétt.

Gott væri ef menntamálaráðherra gengi þá á undan með góðu fordæmi og skýrði misræmið í þeim upplýsingum sem hún sjálf hefur veitt  og leggði þar með "allt upp á borðið" svo notuð séu hennar eigin orð.

 

 


Rétt skal vera rétt ... og burt með spillingarliðið!

 Sagan um að Sigurjón Árnason fv. Landsbankastjóri hafi verið að stöfum í bankanum þar til í þessari viku mun ekki eiga við rök að styðjast. Mér er ljúft og skylt að koma þessu áleiðis hér, þar sem í færslunni hér á undan er vísað til fregna um að Sigurjón Árnason og Halldór J. Kristjánsson hefðu báðir haldið áfram að starfa í bankanum þar til nýlega. Nú hefur þetta verið borið til baka af Viðskiptaráðuneytinu, eins og fram kemur á eyjunni.

reykjavikurapotekRót þessara "fregna" er m.a. tölvupóstur sem gekk á netinu fyrir helgi um að Sigurjón væri enn allt í öllu í Landsbankanum, hann legði bílnum í sitt gamla bankastjórastæði og hefði sérinnréttaða skrifstofu á efri hæð Reykjavíkurapóteks. "Fréttin" varð höfð eftir starfsmanni í bankanum sem "blöskraði" þetta ástand og "gat ekki orða bundist". Orðalag og yfirbragð var mjög trúverðugt, en málið var fyrst tekið upp í Orðinu á götunni og flaug þaðan eins og eldur um sinu.

Þá vitum við það .... en það er afleitt þegar óstaðfestar sögusagnir fá byr undir báða vængi í ástandi sem þessu þar sem tilfinningaútrásin er tekin við af bankaútrásinni.

Það breytir ekki hinu, að fjöldi starfsmanna og millistjórnenda gömlu bankanna er enn að störfum í nýju bönkunum og gegna þar margir hverjir lykilhlutverki.

Og enn og aftur árétta ég það sem ég hef áður sagt, að það þarf að gera þetta mál upp, hreinsa spillinguna út úr bönkunum og stjórnkerfinu.

Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!


Gerendur enn á vettvangi - Burt með spillingarliðið!

bankastjorarLbs Fyrir fáum dögum spurðist það út að Sigurjón Árnason fyrrum Landsbankastjóri væri enn að störfum í bankanum á nýrri skrifstofu sem  hafi verið sérstaklega innréttuð fyrir hann. Þangað mætti hann til starfa, lagði í sitt gamla bankastjórastæði, og ráðskaðist um eins og ekkert hefði í skorist. Halldór J. Kristjánsson mun líka hafa verið að störfum, þar til í gær - að þeir félagar ákváðu að hætta, eftir að umræða spannst í fjölmiðlum um þetta fyrirkomulag.

Á sama tíma heyrir maður frá því sagt í útvarpinu að almennt starfsfólk hafi verið að fá tafarlausar uppsagnir, það orðið að yfirgefa vinnustað sinn samstundis í fylgd einkennisklæddra öryggisvarða, svipt farsímanum og lykilorðinu að tölvunni. Er svo hart fram gengið gegn sumum að vinnusálfræðingar sjá ástæðu til að koma í útvarp og biðja vinnuveitendur að sýna örlitla tillitssemi við uppsagnir á starfsfólki.

Hmmm .... en gömlu stjórnendur bankanna - þessir sem bera ábyrgð á því hvernig komið er - þeir hafa setið vikum saman í ráðgjafastörfum fyrir nýju bankana, í sérinnréttuðum skrifstofum, jafnvel með mannaforráð. Það virðist ekki hafa hvarflað að neinum að svipta þá lykilorði að tölvunum - hvað þá heldur fríðindum á borð við sérmerkt bílastæði, farsíma og fleira. Hmmm .... það lá víst ekkert á að koma þeim út úr húsi. Og á meðan leið tíminn - engin rannsókn hafin - allt í vandræðagangi.

Hvaða áhrif halda menn að það hafi á rannsóknavettvanginn að þeir sem verða sjálfir til rannsóknar skuli geta athafnað sig þar svo vikum skiptir? Nú er ég ekki að fullyrða að gömlu stjórnendurnir séu að spilla rannsóknagögnum í bönkunum - ég bara bendi á þeir eru í góðri aðstöðu til þess sumir hverjir. Möguleikinn er augljós.

ThorgerdurKatrinÍ raun snýst þetta ekkert um það hvort maður heldur að þeir sem í hlut eiga séu heiðarlegt fólk. Málið snýst miklu heldur um það hvort vera þeirra í námunda við vettvanginn er eðlileg. Á sama hátt og vanhæfi einstaklinga snýst ekki um artir þeirra eða innræti - heldur hitt hvort málsmeðferðin sjálf er hafin yfir efasemdir um hlutleysi og fagmennsku í vinnubrögðum: Að ekki sé um að ræða tengsl milli rannsóknaraðila og þess sem rannsakaður er, hvað þá heldur aðgengi meintra gerenda að sjálfum rannsóknavettvanginum og þeim gögnum sem rannsaka þarf. Kristinn H. Gunnarsson hefur rökstutt þetta ágætlega í grein sem hann skrifaði í vikunni um vanhæfi menntamálaráðherra í þessu máli (sjá hér).

BjornBjarnason Það er nefnilega rangt hjá dómsmálaráðherra að umræða um vanhæfi Valtýs Sigurðssonar og Boga Nilssonar hafi verið aðför að heiðri þessara tveggja manna (hann hélt þessu fram í sjónvarpsfréttum í gær). Umræðan um vanhæfi Valtýs og Boga snerist um vinnubrögð, ekki menn. Hún snerist um tengsl þessara manna við viðfangsefnið en ekki persónur þeirra. Leitt að dómsmálaráðherrann skuli ekki sjálfur gera þennan greinarmun.

Ég hefði að óreyndu búist við að stjórnvöld og löggæsluyfirvöld yrðu betur á verði gagnvart rannsóknahagsmunum vegna bankahrunsins - það er jú þeirra að gæta hagsmuna almennings í þessu - vernda almenning. Dómsmálaráðherra sagði í fréttum í gær að það yrðu að berast kærur frá almenningi til að hægt væri að rannsaka mál.

En hverjir eru fulltrúar almennings? Eru það ekki þeir stjórnmálamenn sem kosnir eru af þjóðinni hverju sinni - þingmennirnir í umboði almennings og ríkisstjórnin í umboð þingsins? Hefur Björn Bjarnason ekki sitt umboð frá almenningi? Það er nóg komið af hundakúnstum. Skipið óháða rannsóknanefnd í þetta mál, strax. Og hreinsið rannsóknavettvanginn af þeim sem ollu tjóninu. Hreinsið bankana af gömlum stjórnendum - Seðlabankann  þar með talinn og fjármálaeftirlitið. Víkið frá þeim ráðamönnum sem tóku þátt í ósómanum. Þetta þolir ekki lengri bið.

 Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!

 


,,Ég vakna þennan dag og vel að hann sé góður ... '' Burt með spillingarliðið

ArnarfjordurAgustAtlason Þessar fallegu vísur fékk ég sendar í tölvupósti frá vinkonu minni í morgun. Ljóði er eftir skáldkonuna Unni Sólrúnu sem hefur ort margt fagurt um lífið og tilveruna og birt á heimasíðu sinni. Ég má til að deila þessu með ykkur.

Með boðskapnum birti ég þessa fallegu mynd sem félagi minn Ágúst G. Atlason tók í Önundarfirði í fyrra.

 

 

Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður,
vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður.
Ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.

Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti,
ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.

Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur,
faðma þennan morgun og allar hans rætur,
hita mér gott kaffi, af kærleik þess ég nýt.
Kexið smyr með osti, í blöðin svo ég lít.

Að endingu ég segi við þig sem þetta lest:
Þetta er góður dagur, hafðu það sem best.
Ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni.
Faðmlag þér ég sendi, og kveð þig nú að sinni.

 

Megi dagurinn verða ykkur góður. Smile 

Og burt með spillingarliðið - hvar í flokki sem það stendur!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband