Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Notum málfrelsið: Burt með spillingarliðið!

réttlæti Hvað getum við gert? Spyr fólk hvert annað þessa dagana, agndofa yfir því ástandi sem skapast hefur í samfélaginu eftir bankahrunið. Agndofa yfir þeim upplýsingum sem berast um spillingu, misbeitingu valds og aðstöðu, meðvirkni, græðgi, óréttlæti ... ég gæti þulið hér upp langan lista.

Já, hvað getum við gert? Við höfum málfrelsi. Við getum notað það. Við eigum að nota það. 

Fyrr í dag sendi ég bréf til bloggvina minna þar sem ég bið þá að sameinast í einni kröfu - kröfu sem verði aukasetning í öllum fyrirsögnum þeirra á blogginu nú á næstunni, og þeirra lokaorð - hvert svo sem efni bloggfærslnanna er að öðru leyti: Burt með spillingarliðið!

Þannig að þegar ráðamenn þjóðarinnar, fjölmiðlafólk og aðrir, koma inn á moggabloggið, visi.is, eyjuna eða önnur bloggsvæði, þá blasi krafan við þeim hvert sem litið er.

Ég hef gert þetta nú í þrjá daga og ætla að halda því áfram i anda Katós gamla, að minnsta kosti út vikuna. Mér er nóg boðið eins og ótal fleirum. Mér til gleði sé ég að ýmsir hafa farið að dæmi mínu í dag.

Vona ég að fleiri taki undir með okkur næstu daga: 


Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!

 


Ný von fyrir heiminn og: Burt með spillingarliðið!

obama8.jpg Kjör Baracks Obama í embætti forseta Bandaríkjanna gefur heiminum von um nýja tíma - nýjar áherslur og gildi. Ekki veitir af í harðindum heimsbyggðarinnar þessar vikur og mánuði. Með þessu kjöri hafa Bandaríkjamenn gert upp við stríðshörku, óheftan kapítalisma, kynþáttamisrétti og annan yfirgang. Þetta er þeirra leið til þess að leiðrétta kúrsinn. Og trúlega eru þetta meiri tíðindi fyrir Bandaríkin og heimsbyggðina alla en maður meðtekur í fljótu bragði.

Karl Th. Birgisson orðaði það afar vel í sjónvarpsumræðum í gær þegar hann dró upp tvær einfaldar myndir með orðum til að lýsa þessum tíðindum, og sagði eitthvað á þessa leið: Þegar bandaríska þjóðin fær að sjá Barack Obama sverja forsetaeiðinn - og verða vitni að því þegar þessar fallegu þeldökkur telpur hans hlaupa um ganga Hvíta hússins, af því þær eiga heima þar - þá hafa orðið mikil tíðindi hjá þessari þjóð.

Skyldum við Íslendingar bera gæfu til þess að gera viðlíka breytingar á okkar gildum? Eins og nú horfir virðast litlar líkur til þess. Því miður.

Ég ætla því að enda þetta spjall með sömu áskorun og síðustu tvo daga, um leið og ég skora á alla bloggara landsins að setja sambærilegt ákall inn á síður sínar, án tillits til umræðuefnisins, og láta ekki af áskorun sinni fyrr en eitthvert jákvætt skref verður tekið af ráðamönnum til að uppræta spillingu og endurvinna traust landsmanna:

Burt með stjórn Seðlabankans og bankastjórana þrjá. Burt með Fjármálaeftirlitið, stjórn þess og starfslið. Burt með alla þá starfsmenn bankanna sem þáðu eða ákváðu skuldahreinsun eða undanfæri fyrir útvalda. Burt með þá ráðamenn sem samþykktu ósómann með beinum eða óbeinum hætti, þögn eða aðgerðaleysi.

Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!

 


mbl.is Obama kjörinn forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burt með spillingarliðið!

  Það mættu fleiri fara að dæmi Boga Nilssonar fyrrverandi ríkissaksóknara sem nú hefur horfið frá þátttöku í undirbúningi rannsóknar á starfsemi gömlu bankanna í aðdraganda hrunsins. Bogi segir réttilega í yfirlýsingu sinni að honum finnist hann ekki lengur njóta nægilegs almenns trausts til að sinna verkefninu. Gott hjá honum - og rétt.

Nú er spurningin hvort Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari, hefur sambærilegar áhyggjur af trausti almennings á þeirri vinnu sem framundan er vegna rannsóknar málsins. Sonur Valtýs er forstjóri Exista, sem eins og allir vita hefur rík tengsl við Kaupþing eins og ég hef bloggað um áður. 

Já, það mættu ýmsir taka sér til fyrirmyndar áhyggjur fyrrverandi ríkissaksóknara af trausti almennings á gjörðum þeirra og dómgreind.

sedlabankiEf einhver manndómur væri í bankastjórum Seðlabankans og stjórnarmönnum, þá hefðu þeir allir farið að dæmi Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem sagði sig úr bankaráðinu og bað þjóðina afsökunar á hlutdeild bankans í fjármálahruninu. Hún er maður að meiri. En það virðist því miður ekki hvarfla að þessum mönnum að skapa frið um störf Seðlabankans og efla traust almennings á honum með því að víkja þaðan - enda stjórnarlaunin feitur biti og greidd af almenningi.

Ekki verður heldur sagt að traust ríki á Fjármálaeftirlitinu um þessar mundir. Síst eftir þá yfirlýsingu að það hafi ekki samþykkt "sérstaklega" skuldaniðurfellingar yfirmanna í bankakerfinu, eins og þeir orðuðu það. Þau orð verður hver að skilja sínum skilningi, en ég skil þau þannig að Fjármálaeftirlitið hafi vitað af því sem fram fór án þess að hafast frekar að. Nú á þetta sama fjármálaeftirlit að rannsaka málið. Bandit

Fólk treystir þessum mönnum ekki lengur - enda virðist vera sama hvar velt er við steinum, allstaðar blasa við okkur siðleysi, spilling, hagsmunatengsl eða vanhæfi - meðal annars í ráðherraliðinu eins og Kristinn H. Gunnarsson fjallar um á heimasíðu sinni í dag.

Þess vegna ætla ég að enda þessa færslu, og allar mínar færslur á næstunni, með sama hætti og í gær:

Burt með stjórn Seðlabankans og bankastjórana þrjá. Burt með Fjármálaeftirlitið, stjórn þess og starfslið. Burt með alla þá starfsmenn bankanna sem þáðu eða ákváðu skuldahreinsun eða undanfæri fyrir útvalda. Burt með þá ráðamenn sem samþykktu ósómann með beinum eða óbeinum hætti, þögn eða aðgerðaleysi.

Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur.  Angry

 


mbl.is Bogi Nilsson hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

50 milljarða skuldahreinsun - leikhús fáránleikans!

Í fréttum Stöðvar-2 í kvöld var fullyrt að síðustu dagana fyrir yfirtöku ríkisins á Kaupþingi hafi bankinn afskrifað 50 milljarða króna skuldir yfirmanna og valinna lykilstarfsmanna í bankanum, og forðað þeim þar með frá gjaldþroti vegna hlutafjárkaupa sem fjármögnuð voru með lánum. Við erum ekki að tala um 50 milljónir - ó, nei. Fimmtíu milljarðar - fimmtíu þúsund milljónir.

Ekki náðist í neinn af stjórnendum Kaupþings til að staðfesta þetta, en í yfirlýsingu sem kom frá bankanum fyrr í dag er fullyrt að öll viðskipti og kröfur gamla Kaupþings hafi fluzt yfir til Nýja Kaupþings og muni þar fá "eðlilega" meðferð. Þar er reynt að klóra yfir skítinn með hálfsannindum sem í raun eru ekkert annað en ósannindi. Angry

Af sama toga er yfirlýsing Fjármálaeftirlitstins þar sem segir að "Fjármálaeftirlitið hafi ekki sérstaklega samþykkt niðurfellingu krafna sem tengjast lánveitingum til starfsmanna bankanna". Þeir samþykktu það ekki sérstaklega. Hvað skyldi það nú þýða? Annað hvort samþykkir maður eitthvað eða maður samþykkir það ekki. Það er hægt að samþykkja ólöglegt athæfi með aðgerðarleysi - Þögn er sama og samþykki segir máltækið. Yfirlýsing Fjármálaeftirlitsins er aumt yfirklór. Og nú er nóg komið af útúrsnúningum. Angry

Sé það rétt að tilgangur skuldahreinsunarinnar hafi verið sá að tryggja þessum starfsmönnum vinnu í Nýja Kaupþingi - þar sem lög leyfa ekki að gjaldþrota fólk sé ráðið sem stjórnendur í ríkisbönkum - þá hljóta fleiri að hafa vitað af þessu en bankastjórnin.  Það gefur auga leið.

Fjármálaeftirlitið verður að standa gleggri skil sinna gjörða. Sömuleiðis fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra. Vissu þeir af þessu, en létu það viðgangast?

Burt með þetta Fjármálaeftirlit - stjórn og starfslið þess. Burt með alla þá stjórnendur Kaupþings sem þáðu eða ákváðu skuldahreinsun fyrir útvalda. Burt með þá ráðamenn sem vissu af þessu og samþykktu með beinum eða óbeinum hætti. Burt með þetta spillingarlið, hvar í flokki sem það stendur. Angry

Við erum stödd í leikhúsi fáránleikans - spillingin er svo ótrúleg að það tekur engu tali.  


Yfirstjórnendur bankanna skuldhreinsaðir?

Sú "frétt" fer nú eins og logi yfir akur á netinu, að skuldir yfirmanna í bönkunum hafi verið afskráðar til þess að hægt væri að ráða þá til starfa í nýju bönkunum. Þannig hafi allar skuldir verið hreinsaðar við yfirmann áhættustýringar Kaupþings, sem tapað hafi 2 milljörðum króna sem að mestu voru teknar að láni. Sama hafi verið gert við mörg hundruð aðra bankastarfsmenn sem tóku lán frá 10-100 milljónir króna til að kaupa hlutabréf (sjá t.d. hér og hér).

 Og ástæðan? Jú, lögum samkvæmt  mega gjaldþrota einstaklingar ekki starfa fyrir banka!! Svo það  "þurfti" að skuldhreinsa mannskapinn svo hægt yrði að manna yfirmannastöður í nýju bönkunum.

 Á sama tíma eru fjölskyldur að brotna og fólk að bugast undan greiðslubyrði lána í þessum sömu bönkum. Landsmenn hafa tugþúsundum saman verið að tapa stórfé bæði hlutabréfum, lífeyrissparnaði  vegna fjármálaráðgjafar þessara banka. Nú eru fyrirtækin farin að hrynja og þúsundir manna verða af atvinnutekjum.

Ef rétt reynist þá er sorinn svartari en nokkurn hefði órað fyrir - maður er orðlaus. 

Fjölmiðlar verða að komast til botns í þessu máli, því annað eins og þetta myndi jafngilda stríðsyfirlýsingu við almenning í landinu.


Af hverju þarf Davíð að víkja?

DavidGeirMbl.is Ja, það er nú það. Eru vinstri menn að ná sér niðri á þessum gamla erkióvini með því að krefjast nú afsagnar hans? Er verið að persónugera í Davíð Oddssyni vonbrigði og reiði þeirra sem sjá nú á bak hlutabréfum, lífeyrissparnaði, atvinnu og ýmsum lífsgæðum með vaxandi skuldabyrði? Er verið að leggja Davíð Oddsson í einelti?

Frá mínum bæjardyrum séð snýst málið ekki um Davíð Oddsson nema að hluta til. Málið snýst um þá reginfirru að hafa gamlan pólitíkus í starfi Seðlabankastjóra. Og ekki bara einhvern pólitíkus, heldur þann þaulsætnasta í stóli forsætisráðherra sem sögur fara af. Mann sem aukinheldur ber ríka ábyrgð vegna sinna fyrr starfa sem forsætisráðherra í ríkisstjórnum sem skópu þau skilyrði sem nú hafa valdið ofsaakstri og útafkeyrslu fjármálamarkaðarins með tilheyrandi hruni og eftirköstum.

Málið snýst um trúverðugleika Seðlabankans jafnt innanlands sem utan - trúverðugleika okkar Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum. Það sér hver heilvita maður að yfirlýsingar og ummæli Davíðs að undanförnu hafa stórskaðað efnahag þjóðarinnar. Yfirlýsingar hans hafs vakið athygli langt út fyrir landsteina - eins og t.d. má lesa í harðorðri gagnrýni eins stærsta dagblaðs í Þýskalandi sem fjallað er um í Morgunblaðinu um helgina.

Já, við erum dregin sundur og saman í erlendum fjölmiðlum fyrir það háttarlag við stjórnun efnahagsmála að hafa fyrrverandi forsætisráðherra við stjórnvölinn sem Seðlabankastjóra.

Reiðiákall almennings um afsögn Davíðs Oddssonar er ákall til stjórnvalda um að þau gangist við mistökum sínum og hreinsi til í Seðlabankanum, og sýni þar með vilja og viðleitni til þess að gera upp við bæði mistök og ranga hugmyndafræði.

Sú hreingerning getur ekki einskorðast við Davíð einan og sér. Stjórn Seðlabankans og bankastjórarnir þrír hljóta allir að þurfa að víkja. Og hafi þeir ekki sómatilfinningu til þess að segja af sér sjálfir, þá verður ríkisstjórnin að víkja þeim frá.

Fólkið krefst þess. Fólkið á rétt á því. Þetta er ekki flóknara en það.

 

 


Styðjum björgunarsveitirnar!

neydarkall Í þessum skrifuðu orðum er ég á leiðinni niður í bæ að selja Neyðarkallinn með unglingunum í Björgunarfélagi Ísafjarðar. Síðast var Neyðarkallinn lítil kelling - svona til að minnast þess að björgunarsveitir landsins eru þéttskipaðar konum ekkert síður en körlum. Kallinn í ár er voða sætur, eins og þið sjáið - með hvíta hjálminn sinn í rauða gallanum - fínasta lyklakippa!

En Neyðarkallinn er fáröflunarátak sem er að fara af stað á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar nú um helgina um allt land undir yfirskriftinni: Neyðarkall frá björgunarsveitum.  

Fjáröflun er björgunarsveitunum mikilvæg þar sem rekstur þeirra, þjálfun björgunarmanna og kostnaður við útköll byggist á slíkum fjáröflunum.

Ég ætla því að slást í hóp félaga minna í Björgunarsveitum landsins sem nú um helgina munu selja Neyðarkallinn víðs vegar um landið, í öllum helstu verslunarmiðstöðvum og samkomustöðum. Vonandi taka landsmenn vel á móti okkur og sýna í verki stuðning sinn við björgunarsveitirnar.

Annars er það að frétta af Björgunarfélagi Ísafjarðar að það fagnar í dag fagnar 10 ára afmæli sínu. Af því tilefni verða ýmsar ýmsar uppákomur, opið hús í Guðmundabúð, myndataka af öllum félagsmönnum, veisla í kvöld og fleira skemmtilegt.

En fyrst er nú að selja Neyðarkallinn - og nú ætla ég að drífa mig af stað. Smile


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband