Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Mikill munur á útgönguspám og úrslitum í New Hampshire

ClintonObama Það er undarlegt hve mikill munur virðist vera á útgönguspám og úrslitum í forvalinu í New Hampshire, einkum í forvali Demúkrata. Ég horfði á Sky News í gærkvöld og hlustaði þar á fjálglegar fullyrðingar fréttamannanna sem vísuðu í allar áttir, aðra fjölmiðla, ýmsa sérfræðinga - sem allir virtust vera að túlka útgönguspár um yfirvofandi úrslit.

Á fimm mínútna fresti komu fréttamenn inn með miklar bollaleggingar  um afhroð Hilary Clinton og  sterka stöðu Obama (sem hafði áður náð góðum sigri í Iowa með 38% en Clinton 29%). Úrslitin í Iowa virðast hafa setið ansi sterkt í fréttamönnum: Einn fjölmiðill kvað upp úr um sigurlíkur Obama,  sá næsti vitnaði í þennan fjölmiðil og svo líka útgönguspárnar, þriðji fjölmiðilinn vitnaði í fyrrnefnda tvo fjölmiðla og útgönguspár. Og þannig vatt þetta upp á sig - var orðin ein hringavitleysa þar sem hver át upp eftir öðrum af ákefð.

Það hvarflar að manni að þessar útgönguspár hafi nú ekki verið unnið af tilhlýðlegri vandvirkni. Sömuleiðis setti að mér svolítinn óhug við að hlusta á það hvernig hver át upp eftir öðrum fullyrðingar sem undu upp á sig eins og í sögunni um fjöðrina sem varð að fimm hænum.

 Jæja, en Hilary blessunin hafði það  í New Hampshire - það skiptir máli. 

Nú er ég í þeirri undarlegu stöðu að halda eiginlega með tveimur frambjóðendum. Ég vil að Clinton vinni - en um leið er ég auðvitað mjög svag fyrir Obama. Ekki endilega vegna þess að hann gæti orði fyrsti þeldökki forsetinn - heldur vegna þess að hann er bara svo asskoti sjarmerandi og sætur InLove

 Við spyrjum að leikslokum.


mbl.is Clinton vann í New Hampshire
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðvirkni í Kastljósi

Horfði á viðtal Kastljóss við Kalla Bjarna - fallna engilinn úr Ædolinu. Og það sýður á mér Angry Ég er ekki sátt við svona meðvirkni. Þetta var EKKI fróðlegt viðtal, það veitti mér EKKI nýja sýn, og bætti ENGU við þá þekkingu sem ég og almennir fjölmiðlaneytendur höfum nú þegar. Þau viðhorf sem þarna komu fram, sjálfsréttlæting og annað, eru ekkert nýtt. Allir meðferðaraðilar, félagsráðgjafar, sálfræðingar og margir fleiri þekkja þessi viðhorf.

Hvað átti þetta að þýða hjá Kastljósi? Hver var tilgangurinn með viðtalinu? Að veita okkur innsýn í hugarheim manns sem hefur verið í fíkniefnaneyslu og sér villu síns vegar? Ef svo var, þá var þetta ómarkvisst viðtal. Burðardýrskaflinn þar sem Kalli Bjarni talaði um blankheitin sem urðu til þess að hann "samþykkti að koma með einhver 700 grömm til landsins" eins og hann orðaði það. Þessi 700 grömm af kókaíni urðu 2 kg í reynd - en Kalli Bjarni vildi þetta frekar en að slá lán hjá öryrkjanum mömmu sinni til að eiga fyrir mat handa börnunum. Rörende? Nei - ég er ekki impóneruð. Hreint ekki.

Kalli Bjarni veitti enga aðstoð við rannsókn málsins og sagði í viðtalinu að hann myndi aldrei koma upp um þá sem hann vann fyrir. Nújá? Er hann þá hetja? Eða skúrkur? Er hann hræddur - eða kannski forhertur? Í raun kom það ekkert fram. Kalli Bjarni vill bara ekki tala um vinnuveitendur sína.

En hvað kemur okkur þetta við? Hvaða tilgangi þjónar það að birta lýsingar Kalla Bjarna á líðan sinni þegar hann fór með efnin í gegnum hliðin, og þegar hann var tekinn? Til hvers er verið að upphefja tilfinningalíf afbrotamanns með þessum hætti. Hvaða erindi á það inn í fréttaþátt á borð við Kastljós? 

Kalli Bjarni hefur hlotið sinn dóm - 2ja ára fangelsisvist sem hann á eftir að afplána. Vonandi heldur hann sig réttu megin laganna framvegis. Það vona ég hans sjálfs vegna og ekki síður barnanna hans. Þess vegna óska ég honum alls velfarnaðar í framtíðinni.

En mér finnst hann eigi að halda sig utan fjölmiðlanna meðan hann er að koma lagi á líf sitt.


Olíuhreinsistöð enn á döfinni

arnarfjordur Jæja, þá er umræðan um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum aftur komin af stað með staðarvalsskýrslu og skýrslu um könnun á völdum samfélagsþáttum sem Fjórðungssamband Vestfirðinga let vinna á eigin kostnað til að mýkja sporin fyrir Íslenskan hátækniiðnað að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Bæjarstjóri Vesturbyggðar kominn í hatramma ritdeilu við Dofra Hermannsson  þar sem sá fyrrnefndi sakar þann síðarnefnda um að vera á móti Vestfirðingum af því hann hefur aðra sýn á framtíð svæðisins. Tilefni ummælanna er að Dofri leyfði sér að mæla með því að Vestfirðingar verðu kröftum sínu í það frekar að byggja upp háskóla en olíuhreinsistöð á hvítum sandi í fegursta firði landsins. 

Svo les ég grein á bb.is í dag þar sem sýslumaður Patreksfirðinga flytur uppljómaða lofgjörð um Vestfirði sem "griðastað fyrir framfarir" - og á þar við Vestfirskan fjörð sem kjörlendi fyrir olíuhreinsistöð. Sýslumaður vitnar í fögur ljóð - og hvað veit ég. Nú er orðræðan um olíuhreinsistöð orðin skáldleg í þokkabót Shocking

 Ég hvet fólk til þess að kynna sér þessa umræðu. Mér finnst Dofri tala rödd skynseminnar þarna - en sínum augum lítur hver silfrið.

 


Fagurt er rökkrið við ramman vætta söng

þrettándabrenna Það er einhver dulræn helgi yfir þrettándanóttinni - rökkrið aldrei fegurra en þá, sjáist til himins á annað borð.

Næsta sólarhringinn hverfur ljós af tungli. Þá er eins og veröldin haldi niðri í sér andanum þar til tungl kviknar á ný. Þegar svo stendur á er best að fara sér hægt, bíða úrlausnar og nýrra tækifæra. Leyfa sálinni að hvílast eins og barni sem sefur um nótt. Innan tíðar kviknar nýtt tungl, með vaxandi þrótti og framkvæmdagleði. 

Margir finna mun á sér eftir tunglstöðunni.  Ég veit t.d. að ég var ekki sú eina sem átti erfitt með að vakna í morgun  Wink  þó ég hafi sofnað á skikkanlegum tíma við lestur góðrar bókar í gær. Ýmsir velta því sjálfsagt fyrir sér hversvegna þeim gengur stundum illa að vakna - og láta sér ekki detta í hug að setja það í samband við ný eða nið - nú eða loftþrýstinginn, þegar lægðir eru á leiðinni.

En nú fer sumsé dulmögnuð nótt í hönd. Vættir á kreiki, álfar og huldufólk - kýrnar tala í fjósunum. Á þrettándanum og nýjársnótt gátu menn setið úti á krossgötum og leitað fregna um framtíðina. Þegar leið á nótt komu álfarnir og buðu útisetumanninum gull og gersemar. Mikið lá þá við að segja ekkert og líta ekki á gullið - því væri það gert hvarf það allt jafnóðum. En ef menn gátu setið á sér og þagað afskiptalausir til morguns féll þeim allt í skaut sem lagt var fyrir þá um nóttina.

Því fór illa fyrir karlgarminum sem hafði staðið af sér freistingarnar allt framundir morgun. En rétt fyrir dögun dró huldukonan upp tólgarplötu og bauð karli. "Sjaldan hef ég flotinu neitað" sagði þá sá gamli - og þar með hurfu honum gersemarnar eins og dögg fyrir sólu.

 Ýmsar sögur eru til af jóla- og nýjársgleði álfa og tiltektum þeirra á þrettándanum. Héldu þeir dýrindis veislur og lögðu undir sig heilu bæina meðan fólk var við messu. Oft var einhver maður látinn gæta bæjarins á meðan annað fólk sótti kirkju, og gat þá gengið á ýmsu. Sumir urðu ærir eftir samskiptin við álfana, aðrir sýndu ráðsnilld og hugrekki og urðu gæfumenn æ síðan. Hér læt ég fylgja eina sögu sem ég fann á netinu um Jólanótt í Kasthvammi.

Góða skemmtun í kvöld - þið sem ætlið að brenna út jólin.

 


Leikhúsgagnrýnandi úti í kuldanum

Jón Viðar Jónsson, leikhúsgagnrýnandi DV, hefur verið tekinn út af gestalista á frumsýningar í Borgarleikhúsinu. Þetta kom fram í sjónvarpsfréttumí gær. Guðjón Pedersen leikhússtjóri segir Jón Viðar hafa verið dónalegan í garð leikhúsgesta í skrifum sínum. 

Jón Viðar hefur skrifað að frammistaða Leikfélags Reykjavíkur hafi ekki verið glæsileg s.l. haust. "Snobbliðið mætir til að klappa en almenningur finnur nályktina og flýr á braut" sagði hann í umsögn í DV. Þar sagði hann ennfremur að leikhússtjóraferill Guðjóns Petersen væri senn á enda og það væri góð tilhugsun.

Guðjón tekur upp þykkjuna fyrir leikhúsgesti og lætur sem það sé ástæða ákvörðunarinnar um að taka Jón Viðar út af boðsmiðaskrá. Allir hljóta þó að sjá, að ummælin um hann sjálfan gefa ekki síður tilefni til skapraunar.

Ég held þetta sé misráðið hjá Guðjóni. Meðan leikhúsgagnrýnendur fá boðsmiða á frumsýningar er ekkert sem réttlætir það að taka einn þeirra út, jafnvel þó hann kveði sterkt að orði. Það er eiginlega bara barnalegt.

Leikhúsmiði á ekki að tryggja viðunandi umsögn - það eiga leikverkin sjálf að gera. Borgarleikhúsið er ekki í eigu Guðjóns Petersen. Og þó það hafi eigin stjórn og sé sjálfstætt í vissum skilningi, nýtur það engu að síður umtalsverðra fjárstyrkja frá hinu opinbera. Ég man ekki betur en að fyrir tæpu ári hafi verið undirritaður samningur um 50 mkr. framlag Reykjavíkurborgar til menningarstarfs Leikfélags Reykjavíkurborgar á næstu 3 árum. 

Á meðan fyrirtæki nýtur opinberra fjárframlaga, ber því að virða ákveðin viðmið og starfshætti í anda hins opinbera. Hið opinbera gerir ekki síst kröfu um jafnræði og opna stjórnsýslu.  Það að útiloka einn aðila frá fríðindum eða fyrirgreiðslu sem þykir alla jafna sjálfsögð, er ekki í þeim anda.

 Hitt er svo annað mál að leikhúsin mættu endurskoða stefnu sína varðandi það að senda út boðsmiða til fyrirfólks og stjórnmálamanna á allar frumsýningar. Þetta fólk er alla jafna vel launað og ekkert of gott til þess að borga sína miða sjálft.


Æ, Össur!

Í Spegli ríkisútvarpsins í gær var fjallað um stórmerk og áhugaverð áform um stofnun alþjóðlegs jafnréttisháskóla á Íslandi að fyrirmynd Alþjóðlega sjávarútvegsskólans, Jarðfræðiseturs Sameinuðu þjóðanna og fleiri stofnana. Rætt var við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra sem hefur beitt sér fyrir fjárveitingu til undirbúnings þessu framtaki, enda þarft verk að "kenna þjóðunum að leysa kvenorkuna úr læðingi" eins og hún orðaði það.

Fram kom að Ísland mælist efst í lífskjaravísitölu þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og vildi utanríkisráðherra þakka það stöðu íslenskra kvenna, ekki síst atvinnuþátttöku þeirra."Kvenfrelsisbarátta íslenskra kvenna hefur leyst mikla krafta úr læðingi" sagði utanríkisráðherra.

Sama dag ákvað Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra að ráða konu úr hópi 50 umsækjenda í starf ferðamálastjóra. Var það m.a. gert með vísan til jafnréttislaga. Hjartað tók gleðikipp - Samfylkingin að standa sig í jafnréttismálunum. Smile

En - sólskini fylgja einatt skuggar. Blekið var ekki þornað á skipunarskjalinu þegar sami ráðherra veitti annað embætti, og að þessu sinni var ekki vísað í jafnréttislög - kannski ekki hugsað til þeirra heldur. Nema það hafi verið yfirstjórn ráðuneytisins um megn að ráða tvær konur sama daginn?

Í starf orkumálastjóra var ráðinn hæfur karl - Dr. Guðni A. Jóhannesson, sem verið hefur forstöðumaður byggingatæknideildar Konunglega verkfræðiháskólans í Stokkhólmi undanfarin 13 ár.  Hæf kona - Dr. Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, sem nú gegnir starfi orkumálstjóra og hefur verið aðstoðarorkumálastjóri undanfarin tvö ár - fékk ekki starfið. Woundering

Iðnaðarráðherra hefur sjálfur engu svarað um þessa ráðstöfun, en talsmaður hans sagði það hafa verið "samdóma álit" ráðningastofunnar, iðnaðarráðherra, ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanns ráðherra að Guðni væri "hæfasti umsækjandinn". Þess var að vísu ekki getið hvaða atriði hefðu ráðið þeirri samdóma niðurstöðu - heldur brugðið á það velkunna ráð að nefna nokkur átorítet, og láta þar við sitja.

Fram hefur komið að báðir umsækjendur eru með doktorspróf í verkfræði. Ragnheiður Inga er auk þess með MBA í stjórnunarfræðum. Ekki má heldur gleyma því að hún er eini umsækjandinn sem hefur reynslu af starfi orkumálastjóra. Er nema von þó að konan krefjist rökstuðnings? Er nema von þó að Verkfræðingafélagið lyfti brúnum og óski skýringa?

Í jafnréttisáætlun iðnaðarráðuneytisins, segir orðrétt í 5. gr.:

"Þess skal jafnan gætt að sá umsækjandi sé ráðinn sem talinn er hæfastur til þess að gegna starfi, að teknu tilliti til menntunar og hæfni en án tillits til kynferðis. Séu tveir eða fleiri umsækjendur af báðum kynjum taldir jafn hæfir til ráðningar í auglýst starf skal að jafnaði ráðinn umsækjandi af því kyni sem er í minnihluta á viðkomandi sviði."

Vissulega hefur kvenfrelsisbarátta íslenskra kvenna leyst mikla krafta úr læðingi, eins bent hefur verið á. Að minnsta kosti er ljóst að íslenskar konur taka því ekki þegjandi lengur að vera sniðgengnar - og það er vel. Þessi ráðstöfun kallar á frekari skýringar.


Þá bíður hið daglega amstur

Við keyrðum vestur í gær í fallegu veðri og mildu. Vorum þó ekki fyrr komin inn í Skutulsfjörðinn en ég fékk SMS-skeyti um björgunarhundaæfingu á Breiðadalsheiði. Nú var vandi á höndum. Heima beið Hjördís tengdamamma með dýrindis fiskrétt í ofni sem við hlökkuðum til að borða - á heiðinni félagarnir að moka 2 m djúpa snjóholu fyrir fyrstu snjóflóðaæfinguna sem allir hafa beðið eftir. Niðurstaðan varð sú að Siggi og Hjörvar voru settir úr heima hjá tengdó, við Blíða skelltum okkur á æfingu Cool Ég sé ekki eftir því þar sem í dag er farið að rigna - og óvíst hvenær hægt verður að æfa vetrarleit næst.

En þetta var skemmtileg æfing. Mjúk og mild logndrífa, og hundarnir hafa engu gleymt í snjóleitinni. Á eftir úðaði ég svo í mig góðgætinu við eldhúsborðið á Hjallaveginum. Það var því komið undir miðnætti þegar við loks komum heim í Miðtún og tókum upp úr töskum. Mikið var nú gott að leggjast upp í rúmið sitt með góða bók. 

En ... þá er bílífið að baki og nú tekur hið daglega amstur við.  Hér fyrir neðan skellti ég inn nokkrum myndum frá Reykjavíkurdvölinni.

DSC02986 Hluti fjölskyldunnar við á aðfangadagskvöld, fv. mamma (Magdalena), Siggi, ég og Magdalena dóttir mín (Maddý).

Allirvidjolatre (Medium) Við litla jólatréð á Framnesveginum, fv. mamma, Saga, Hjörvar, Pétur og Blíða fremst.

 Munnörpuleikur (Small) Munnörpulekur á aðfangadagskvöld Wink

Maddý og Maddý (Medium) Nöfnur og langmæðgur á gamlárskvöld


Skemmtileg áramót - og skaupið bara ágætt

Þetta voru skemmtileg áramót og skaupið bara ágætt. Ég hló að minnsta kosti, ekki síst þegar við bloggararnir fengum á baukinn. Mér fannst það bara smellið.

Annars var svona ýmist hvort þeir sem með mér voru hlógu - mamma er á níræðisaldri, og hún var ekki mjög hrifin. Krakkarnir voru svolítið spyrjandi á svip stöku sinnum. En svona í heildina var þetta bara ágætt. Það lá líka svo vel á öllum, að ég held við hefðum hlegið að hverju sem var.

Að þessu sinni héldum við áramótin hátíðleg á rólegu sveitahóteli í nágrenni höfuðborgarinnar - Völlum í Ölfusi - sem við höfðum alveg út af fyrir okkur. Ekki amalegt það Wizard 

Þarna reka systir mín og mágur hestaleigu og vistvæna ferðaþjónustu ásamt fleirum. Þau buðu okkur að koma og eyða gamlárskvöldinu með þeim í kyrrð og ró - hótelið autt yfir aðal hátíðarnar og nóg gistirými. Við þáðum það með þökkum og sjáum ekki eftir því.

Halldóra og Nonni (Medium) Eins og sjá má höfðu þau hjónin  (Sigurjón og Halldóra) í ýmsu að snúast í eldhúsinu meðan verið var að matbúa kalkúninn Wink

Allir lögðu eitthvað í púkkið í mat og drykk - svo borðuðum við saman dýrindis kalkún og ýmsa eftirrétti, horfðum á fréttaannálinn og skaupið í sameiningu. Fjölskyldufeðurnir skutu upp flugeldum - og voru sýnu áhugasamari við þá iðju en afkomendur þeirra Wink. Eftir miðnætti fór unga fólkið akandi í bæinn til þess að skemmta sér, en elsta og yngsta fólkið sló sig til rólegheita.

Frændsystkin (Medium)  Frændsystkinin gera sig klár fyrir brottför. Fv. bræðurnir Sigurjón Bjarni og Þorvarður Sigurjóns og Halldórusynir, þá Magdalena (Maddý), Pétur og Saga Sigurðar og Ólínubörn.  

Einhvern tíma hefði maður nú vakað (og sofið) lengur um áramót - öðruvísi mér áður brá. En tímarnir breytast og mennirnir með. Það var gott að vakna hress og endurnærður á nýjársdagsmorgun - með fögur fyrirheit og uppbyggilegar áætlanir fyrir nýja árið. Smile

 

Áramót

 

Enn vaggar tíminn

nýfæddu ári

í faðmi sínum

 

við deyjandi glæður

af bálför þess liðna

horfa hvívoðungsaugu

í myrkar sjónir

óræðrar fyrndar

                                       (ÓÞ: Vestanvindur, 2007)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband