Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Óstarfhæf borgarstjórn

Ég myndi halda að Borgarstjórn Reykjavíkur væri óstarfhæf við núverandi aðstæður. Tiltrú stjórnmálamanna hefur beðið alvarlega hnekki: Nýstofnað meirihlutasamstarf veltur á einum manni, sem hleypur úr einum meirihluta í annan eins og jójó, án tilefnis. Hann hefur ekki einu sinni flokk á bak við sig. Talar ekki við sinn nánasta samverkamann.

Sex sinnum sama daginn sver hann af sér svikráðin og fer með hrein ósannindi. Á þessum manni veltur hinn nýi meirihluti! Þetta ástand er ekki borgarbúum bjóðandi.

Þessi "nýi meirihluti" er hagsmunabandalag sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera við einn mann: Ólaf F. Magnússon. Díllinn gengur út á valdastóla, ekki málefni. Því þó svo að Ólafur hafi veifað einhverju sem hann kallaði málefnasamning á blaðamannafundinum þá var auðheyrt að þar var ekkert sem rekja má til málefnaágreinings við hans fyrrverandi félaga. 

Enginn af fyrrverandi félögum Ólafs kannast heldur við ágreining. Hið eina sem knýr þessa atburðarás áfram er persónuleg valdagræðgi sem þessi maður deilir með fyrrum fjandvini sínum, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og fólkinu sem var fyrir ekki svo löngu síðan "til í allt án Villa." Það eru hlekkirnir í valdakeðjunni.

Velferð borgarbúa er í höndum þessa fólks!

Ólafur F. Magnússon kom öllum að óvörum úr veikindaleyfi eftir að myndaður hafði verið nýr meirihluti í Reykjavík s.l. haust. Þá reis hann upp af sjúkrasæng - kominn til áhrifa. Margrét Sverrisdóttir sem hafði unnið vinnuna hans mánuðum saman mátti víkja til hliðar. Hún vissi ekki um þennan nýja meirihluta fyrr hann var til orðinn síðdegis í dag.

Sex sinnum á einum degi sver Ólafur af sér svikin í samtali við Dag B. Eggertsson og leggur "heiður" sinn að veði. Já, hann lærði sitthvað af Vilhjálmi Þ. eftir meirihlutaviðræðurnar í fyrra. Og hefur nú sannað fyrir öllum að á þeim tveimur er enginn munur. Líkur sækir líkan heim.

Og valdið togar. Nú vantar ekki blíðmælgi og hamingjuóskir fulltrúa Frjálslynda flokksins - þó Ólafur hafi raunar sagt sig úr þeim flokki fyrir allnokkru. Og ekki vantaði mjúkmæli grillmeistarans Hannesar Hólmsteins sem í viðtali á Stöð-2 bauð Ólafi að koma inn í Sjálfstæðisflokkinn á ný. Svo taldi hann upp nokkra aðra undanvillinga í Frjálslynda flokknum sem ættu nú bara að koma heim aftur. Og svei mér ef Guðjón Arnar var ekki farinn að tala á svipuðum  nótum í viðtali við Jóhönnu Vigdísi. Það er makalaust að fylgjast með þessu.

Á meðan standa borgarbúar agndofa. Starfsmenn borgarinnar vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þvílíkur skrípaleikur!

En fulltrúar ríkisstjórnarinnar þegja þunnu hljóði - skyldi enginn hafa gengið á fund Geirs Haarde í dag - með eða án Villa?


mbl.is Allt upp á borð varðandi REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að græða á daginn og grilla á kvöldin

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur nú sett fram skilgreiningu á fyrirbærinu Sjálfstæðismaður. Það gerði hann í þættinum Mannamál á Stöð-2 um helgina, eins og bloggvinkona mín hún Lára Hanna bendir réttilega á í færslu sinni í dag. Skilgreining Hannesar er svohljóðandi:   

Sjálfstæðismenn eru mjög foringjahollir og það er dálítill munur kannski ef maður tekur þetta svona... Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og vinstri flokkana hins vegar þá er... í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt. Það hljómar dálítið einkennilega kannski en... og ég á kannski ekki að segja það svona, en til einföldunar má segja að Sjálfstæðismenn eru menn sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin. Vinstri menn eru menn, sem halda að með masi og fundahöldum þá sé... og sko ljóðalestri, þá sé hægt að leysa einhverjar lífsgátur. Þarna er dálítill munur. Þannig að vinstri menn eru miklu pólitískari heldur en hægri menn. Þess vegna eru þeir ekki eins foringjahollir. Hægri mennirnir, þeir eru bara að reka sín fyrirtæki, þeir vilja leggja á brattann, þeir vilja bæta kjör sín og sinna, þannig að þeim finnst hérna... gott að hafa mann sem sér um pólitíkina fyrir þá og Davíð var slíkur maður.
 

Hér er sko engin "sjúrmjólk í hádeginu og seríós á kvöldin" - ó, nei. Hér er grætt og á daginn og grillað á kvöldin!

Þarna hefur Hannes Hómsteinn tekið ómakið af andstæðingum Sjálfstæðisflokksins og sagt hreint út það sem þeir hafa aldrei kunnað við að segja upphátt. (Hafi hann þökk fyrir það að hreinsa andrúmsloftið með þessum hætti).

En nú læðist fram lítil vísa:

  • Sjálfstæðismenn þeir sitja um völdin,
  • af syndum er Hannes kvitt:
  • Græðir á daginn, grillar á kvöldin
  • og gerir í bólið sitt.

Lækjarniður í snjóholu.

Ég fann þetta á mér - horfði ekki á þennan leik. Fyrir vikið hef ég sælar minningar um frábæra frammistöðu íslenska landsliðsins í leiknum gegn Slóvökum í gær. Þar stóðu þeir sig vel - og sýndu hvað í þessu liði býr - svona stundum Errm

Annars fór allur seinnihluti dagsins í fimm tíma langa leitarþjálfun með björgunarhundasveitinni. Við fórum upp á Skálavíkurheiði. Grófum þar stærðarinnar holu með mikilli fyrir höfn, tvo metra niður og tveggja metra innskot. Uppgötvuðum þá að holan ómaði af lækjarnið Woundering og fígúrantinn þorði ekki ofan í hana fyrir vikið - óttaðist að pompa niður í rennandi vatn á einhverju tímapunkti.

 Ég tók á honum stóra mínum - fannst ótækt að láta æfinguna eyðileggjast eftir allt okkar púl við holugröftinn - og skreið ofan í holuna. Hugrökk eins og fjallahind - eða hitt þó heldur (ég er nefnilega með fóbíu fyrir lokuðum rýmum). Lét mig samt hafa það og lá úti fyrir þrjá hunda. Fékk þá aðra hugrakka í hópnum til að skipta við mig. Hún lá við lækjarniðinn fyrir aðra þrjá hunda. Þar með var deginum bjargað. Svo lokuðum við holunni og merktum hana. Það verður fróðlegt að sjá hvort hún verður í heilu lagi - eða á floti - næst þegar við komum.

ÉG var köld á rassinum með klakabrynju í hárlokkum þegar ég kom heim í kvöld. Minn elskulegi eiginmaður hafði útbúið svolítið þorraborð handa okkur Hjörvari - og ég reif í mig matinn, hungruð eins og úlfur. Fór svo að horfa á Forbrydelsen - danska sakamálaþáttinn. Hann er frábær. Ég er vissum að Rie (kærasta Hartmans) hefur eitthvað óhreint í pokahorninu Cool

 

holufundurskalavikurheidi06Gusti


mbl.is EM: Níu marka tap gegn Frökkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr handboltanum í Hátíðarkórinn - nei, annars: Sunnukórinn!

Þannig fór nú það 24:19. Annars var fyrri hálfleikurinn í þessum leik Íslendinga og Svía svo æsispennandi að ég þurfti að beita ofumannlegu afli til þess að hafa mig upp úr sófanum og snúa mér að öðru. Pinch  Ég þurfti að mæta á kóræfinu. Ó, já. Kóræfingu. Staðan 11:9 fyrir Svía, og ég gekk bara út úr húsinu.

Eftir á að hyggja er ég heilshugar fegin að ég tók kóræfinguna fram yfir seinni hálfleikinn.

Blessuð kóræfingin - ég var svo utan við mig vegna leiksins sem ég væri að missa af, að ég tók ranga kórmöppu og mætti, handviss um að ég væri komin á æfingu með Hátíðarkórnum. Fyrstu mínúturnar vissi ég semsagt ekkert með hvaða kór ég var að æfa. Þetta var nefnilega Sunnukórsæfing. Whistling Þar sem ég átti auðvitað að vera - þó ég væri ekki alveg með á nótunum. Wink  Ég sá ekkert athugavert þegar ég mætti í sal Tónlistarskólans, þar var sama fólkið og venjulega, enda báðir kórarni skipaðir sama mannskapnum að mestu leyti. Ég tók mér sæti og fór að blaða í Gloríunni eftir Poulenc. Þegar fólkið fór að syngja dillandi swing eftir Baldur Geirmunds áttaði ég mig loksins.

Já það er svo mikið að gera í kóralífinu á Ísafirði þessa dagana að maður er orðinn alveg ruglaður. Og nú er ég komin í þrjá kóra Crying

kórsöngur

Ég er í Hátíðarkór Tónlistarskólans sem er tímabundinn kór, settur saman í tilefni af sextugsafmæli skólans og heimsókn Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem við eigum að syngja með á tónleikum þann 24. janúar. Mjög spennandi (það er altso ÞAR sem ég á að syngja Gloríuna eftir Poulenc Wink).

Ég er auðvitað líka í Sunnukórnum. Hann heldur sitt árlega Sunnukórsball (árshátíð sína) um sólrisuna, að þessu sinni þann 26. janúar. Og auðvitað þarf að æfa stíft fyrir það.  Karlakórinn Ernir ætlar að halda árshátíðina með okkur að þessu sinni og syngja með okkur við borðhaldið. Baldur Geirmunds er búinn að semja undurfallegt lag sem ég var beðin að gera texta við - og það verður frumflutt á árshátíðinni. Lag og texti falla vel að hvert öðru, svona eins og kærustupar, enda er textinn rómantískur. Ég spái því að þetta verði vinsælt kórlag.

Þriðji kórinn minn er svo kvennakórinn Vestfirsku Valkyrjunnar sem var stofnaður í fyrra. Hann samanstendur af skemmtilegum og framtakssömum konum. Þessi kór er fullkomlega vanræktur af minni hálfu þessa dagana, og verður það a.m.k. framyfir sólrisu.

En það má með sanni segja að ég dansi á vængjum söngsins þessa dagana  Halo hvað sem líður gengi íslenska handboltalandsliðsins. Þeim verður bara að ganga betur næst.

 


mbl.is Svíar sigruðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rökin þrotin?

c_arni_mathiesen geir-eyjanIs sigurdurlindal-DeiglanIs thorst_dav

Alveg er ég undrandi á þeim ummælum sem ráðherrar fjármála og forsætis hafa látið sér um munn fara að undanförnu vegna ráðningar Þorsteins Davíðssonar í starf héraðsdómara.

Í þinginu sagði Geir Haarde forsætisráðherra að Sigurður Líndal, sem er einn virtasti lögspekingur landsins, hefði orðið sér "til minnkunar" í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið. Fjölmiðlar höfðu þetta eftir forsætisráðherra athugasemdalaust. Ekki kom þó fram hvaða ummæli Sigurðar hann átti við. Samt var þessi niðrandi fullyrðing höfð eftir ráðherranum eins og það væri bara sjálfsagt mál. Forsætisráðherra þurfti ekkert að færa frekari rök fyrir sínu máli.

Ég las grein Sigurðar, og gat ekki betur séð en þar væri fjallað af skynsemi og viti um þessa umdeildu ráðningu, lagaforsendur hennar og áhrif. Ummæli forsætisráðherra eru að mínu mati ómakleg - en þau sýna líka að ráðamenn eru komnir í harða vörn vegna þessara ráðningarmála.

Árni Matthiesen fjármálaráðherra var á sömu slóðum í Kastljósinu í gær. Hann valdi þann kostinn að gera lítið úr nefndarálitinu sem lagði mat á umsækjendur um starf héraðsdómarans. Talaði um að það væri gallað og hann hefði átt þann kost einan að ganga í berhögg við nefndina.  Lét í það skína að nefndin væri ekki starfi sínu vaxin. Úff! Þvílíkir loftfimleikar.

Það er þekkt taktík að niðra andstæðinga sína. Þegar rökin þrýtur taka hnefarnir við.

Nú ganga hnefarnir á þeim sem hafa leyft sér að efast um ákvarðanir þeirra sem með valdið fara. Það er leitt að verða vitni að slíku.


mbl.is Ósammála ráðherra um mat á umsækjendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölpóstur fær vængi

bréfalúga Nú hefur bréfberum verið bannað að virða tilmæli fólks utan á útihurðum þar sem það afþakkar ruslpóst. Samkvæmt lögum ber póstinum að ábyrgjast afhendingu pósts sem sendandi hefur greitt fyrir. Því virðist sem viðtakandinn fái því hreint ekki ráðið hvað sett er inn um bréfalúguna hjá honum.

Ég skil vandamálið - en mikið ansvíti er þetta nú samt hart. Að fá ekki sjálfur að ráða því hverju er ausið inn um bréfalúguna hjá manni. Til eru allskyns eldveggir og varnir gegn ruslpósti á netinu. Þar þykir sjálfsagt að verja fólk fyrir óumbeðnum sendingum af öllu tagi.

Af hverju er þá ekki sjálfsagt og eðlilegt að fólk fái varið sig gegn ruslpósti inn um bréfalúgur?

Spyr sú sem ekki veit. Errm

Svo er ég líka dauðhrædd um að ruslapóstsframleiðendum aukist áræði við þessar upplýsingar - og að nú muni óumbeðnir auglýsingasneplar ryðjast inn um bréfalúgur landsmanna sem aldrei fyrr. Fjölpósturinn hefur fengið vængi. Woundering


Hver er í rétti - stjarnan eða ljósmyndarinn?

Æ, það nær bara engri átt þetta einelti sem frægt fólk þarf að þola af hálfu fjölmiðla og ljósmyndara. Fólk er hundelt allan sólarhringinn af ljósmyndurum sem skríða í húsagörðum og á húsþökum til að ná af því myndum við allar hugsanlegar aðstæður; þeysa um á mótorhjólum til að elta uppi einkabíla og ná myndum inn um myrkvaðar bílrúður - líkt og frægt varð þegar Díana prinsessa lét lífið.

Á fólk sem orðið hefur frægt fyrir einhverja hluti, bókstaflega engan rétt? Það virðist vera sem ljósmyndararnir séu alltaf í rétti Devil. Svo kalla þeir á samúð (og virðast fá hana) í hvert sinn sem einhver missir stjórn á sér eitt augnablik og slæmir hendi eða eys úr sér fúkyrðum. Þá fyrst er gaman - eða hitt þó heldur - og almenningur lætur ekki standa á hneykslun sinni: Hún hefur bara enga stjórn á sér manneskjan! 

Fólk mætti hugleiða hvað hefur gengið á áður en til þess kemur að "stjarnan" missir stjórn á sér - og það þarf ekki mikið ímyndunarafl til þess að sjá hversu ómanneskjulegt álag það getur verið að lifa við stöðugt áreiti af þessu tagi, eins og sumir gera.

Það veit sá sem allt veit að ég yrði BRJÁLUÐ ef ég fengi aldrei stundlegan frið fyrir einhverju fólki sem hefði það að atvinnu (og teldi það um leið mannréttindi sín) að ljósmynda mig við allar kringumstæður til þess að hagnast á því. Það getur engin manneskja þolað þetta álag til lengdar.

Ég stend með Björk - og held að alþjóðasamtök blaðamanna ættu að fara að setja alþjóðlegar siðareglur um samskipti fréttamanna og ljósmyndara við frægt fólk. Að öðrum kosti er kannski tímabært að fræga fólkiði bindist samtökum um að fá einhverskonar alþjóðlega lagavernd gegn ásóknum af þessu tagi.


mbl.is Björk réðist á ljósmyndara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel heppnuð helgaræfing Björgunarhundasveitar Íslands

Blíða Ég er kúguppgefin. Var að koma heim af helgaræfingu á Snæfellsjökli með Björgunarhundasveit Íslands. Þar sem ég var stödd í borginni fékk ég far með Nick félaga mínum strax eftir Útsvarskeppnina á föstudagskvöld (já, hún hefði mátt fara betur árans spurningakeppnin Wink ).

Við vorum komin á Gufuskála upp úr miðnætti og svo hófust æfingarnar morguninn eftir. Við ókum upp á jökulinn um tíuleytið, fjöldi björgunarsveitarbíla og jeppa í einni halarófu. Þar fundum við góð æfingasvæði, grófum holur fyrir "fígúrantana" fyrir hádegi, og svo var farið að æfa eftir hádegiskaffið.

Þarna var gríðarleg þátttaka, á sjötta tug manna og á fjórða tug hunda. Meðal annarra níu manna lið unglinga úr Grindavík sem kom gagngert til þess að liggja í snjóholum fyrir hundana. Það heitir að vera "fígúrant" og er sko ekki heiglum hent. Fólk er grafið niður í tveggja metra djúpar snjóhella þar sem það má dúsa - jafnvel tímunum saman - meðan hver hundurinn á fætur öðrum kemur að finna.  Það er ekkert sérlega notaleg vist í kulda og þrengslum skal ég segja ykkur. Viðkomandi þarf að vera bæði þolinmóður og sérlega skemmtilegur í augum hundsins, tilbúinn að leika við hann, gefa honum bita og hrósa honum á allan hátt þegar hann hefur grafið sig niður til fígúrantsins. 

Blíða (hundurinn minn) stóð sig með prýði. Á meðfylgjandi mynd er hún að skríða upp úr einni holunni sem hún gróf sig niður í til að finna mann - sjáið þið ekki hvað hún er hróðug á svipinn? Cool

Blíða2 Blíða tók C-próf í snjóleitinni í fyrravor, og hefur ekki fengið nema tvær snjóleitaræfingar síðan. Þótt ótrúlega megi virðast þá hefur bara sama og ekkert snjóað fyrir vestan í vetur Woundering Ég bjóst því ekki við miklu af henni núna.

En leiðbeinandinn lét okkur byrja á því að leita að tveimur týndum í fyrsta rennslinu - og það er í fyrsta skipti sem okkur er falið svo "stórt "verkefni. Það vafðist þó ekkert fyrir henni, og í heild stóð hún sig ljómandi vel. Það átti raunar við um alla hundana á okkar æfingasvæði, ekki síst unghundana sem voru að spreyta sig í fyrsta sinn.


Nú er hún greyið í búrinu sínu um borð í björgunarsveitarbílnum á leið vestur - ég sendi hana á undan mér því sjálf fer ég með flugi í fyrramálið.

Já, við erum lúnar stöllurnar, hvor á sínum stað. Þetta var viðburðarík og skemmtileg helgi. 

 


Þá er það Útsvarið í kvöld

Jæja, þá er það Útsvarið í kvöld Cool Lið Ísafjarðarbæjar að keppa við Akurnesinga í annarri umferð.

Við hittumst aðeins hérna hjá mér áðan og tókum léttar leiklistaræfingar og einn hring í Gettu-betur spilinu. Það verður að duga.

Eftir þáttinn í kvöld verður mér ekki til setunnar boðið. Á Snæfellsjökli verður landsnámskeið fyrir Björgunarhundasveit Íslands um helgina, og þangað stefni ég með minn hund strax að útsendingu lokinni. Ég verð búin að pakka mínu hafurtaski, hafa hundinn tilbúinn og svona. Gisti á Gufuskálum í nótt, svo byrja snjóleitaræfingarnar kl. 9 í fyrramálið.

En það er samt best að einbeita sér að einu í einu, og í réttri röð. Wink Fyrst er það sumsé Útsvarið. Og við erum galvösk, Ragnhildur, Halldór og ég  - bítum í skjaldarrendur og munum gera okkar besta. 


Ullað framan í landslýð

c_arni_mathiesen Yfirlýsing matsnefndarinnar sem fjallaði um hæfi umsækjenda um tíðrætt héraðsdómarastarf sem  hlotnaðist Þorsteini Davíðssyni er ekki aðeins skiljanleg viðbrögð við ráðningunni, heldur sjálfsögð.

Rökstuðningur Árna Matthiesen er hinsvegar furðulegur. Ekki er ég dómbær á meintar rangfærslur sem Pétur Kr. Hafstein fullyrðir að séu í yfirlýsingu ráðherrans. Mér nægir að horfa á þá staðreynd að matsnefndin áleit þrjá umsækjendur hæfari en þann sem ráðinn var - og að sá sem ráðinn var er sonur fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og þaulsætnasta forsætisráðherra í íslenskri stjórnmálasögunni, núverandi Seðlabankastjóra.

 Enn furðulegri fannst mér þó leiðari moggans í dag. Þar er nefndin snupruð fyrir að andæfa gjörðum ráðherrans og henni beinlíni sagt að hypja sig - hún eigi bara að segja af sér og þegja.

Já, það er hlaupin harka í varðliða gamla sjálfstæðisveldisins. Nú sýna þeir tennurnar - urra að almenningi og svara illu einu þeim sem vilja halda í nútímalegar leikreglur um fagleg vinnubrögð og óhlutdræg. Leiðarahöfundur bendir nefndarmönnum pent á það að álit þeirra hafi enga lagalega þýðingu - og ráðherra beri því engin skylda til þess að hlýða því.

En til hvers er þá verið að setja á fót faglegar mats- og dómnefndir, skipa þær virtustu fræðimönnum í hverri grein? Til þess að ráðherra geti skemmt sér við að nota svo vald sitt og hunsa fagálit?  Það læðist að manni sá grunur að kannski sé nefndum af þessu tagi bara ætlað að vera leiðitamar afgreiðslustofnanir sem þjóna lund ráðherra á hverjum tíma. Kannski hefur aldrei verið ætlast til þess í alvöru að þær ynnu  starf sitt af neinni alúð - því auðvitað getur verið gott fyrir ráðherrana að geta vísað í fyrirframpöntuð nefndarálit til stuðnings gjörðum sínum, hvort sem það eru mannaráðningar eða aðrar tiltektir.

Nú höfum við fyrir augunum eitt alversta dæmið um pólitíska misnotkun valds. Hér hefur einfaldlega verið ullað framan í landlýð. Og ef dómnefndin hefði ekki mótmælt þessu vinnubrögðum - þá væri illa komið fyrir íslenskri stjórnsýslu. Nóg er nú samt.

 
Nei - þetta er vont mál, hvernig sem á það er litið. VONT mál. 


mbl.is Segir rangfærslur í yfirlýsingu Árna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband