Leikhúsgagnrýnandi úti í kuldanum

Jón Viðar Jónsson, leikhúsgagnrýnandi DV, hefur verið tekinn út af gestalista á frumsýningar í Borgarleikhúsinu. Þetta kom fram í sjónvarpsfréttumí gær. Guðjón Pedersen leikhússtjóri segir Jón Viðar hafa verið dónalegan í garð leikhúsgesta í skrifum sínum. 

Jón Viðar hefur skrifað að frammistaða Leikfélags Reykjavíkur hafi ekki verið glæsileg s.l. haust. "Snobbliðið mætir til að klappa en almenningur finnur nályktina og flýr á braut" sagði hann í umsögn í DV. Þar sagði hann ennfremur að leikhússtjóraferill Guðjóns Petersen væri senn á enda og það væri góð tilhugsun.

Guðjón tekur upp þykkjuna fyrir leikhúsgesti og lætur sem það sé ástæða ákvörðunarinnar um að taka Jón Viðar út af boðsmiðaskrá. Allir hljóta þó að sjá, að ummælin um hann sjálfan gefa ekki síður tilefni til skapraunar.

Ég held þetta sé misráðið hjá Guðjóni. Meðan leikhúsgagnrýnendur fá boðsmiða á frumsýningar er ekkert sem réttlætir það að taka einn þeirra út, jafnvel þó hann kveði sterkt að orði. Það er eiginlega bara barnalegt.

Leikhúsmiði á ekki að tryggja viðunandi umsögn - það eiga leikverkin sjálf að gera. Borgarleikhúsið er ekki í eigu Guðjóns Petersen. Og þó það hafi eigin stjórn og sé sjálfstætt í vissum skilningi, nýtur það engu að síður umtalsverðra fjárstyrkja frá hinu opinbera. Ég man ekki betur en að fyrir tæpu ári hafi verið undirritaður samningur um 50 mkr. framlag Reykjavíkurborgar til menningarstarfs Leikfélags Reykjavíkurborgar á næstu 3 árum. 

Á meðan fyrirtæki nýtur opinberra fjárframlaga, ber því að virða ákveðin viðmið og starfshætti í anda hins opinbera. Hið opinbera gerir ekki síst kröfu um jafnræði og opna stjórnsýslu.  Það að útiloka einn aðila frá fríðindum eða fyrirgreiðslu sem þykir alla jafna sjálfsögð, er ekki í þeim anda.

 Hitt er svo annað mál að leikhúsin mættu endurskoða stefnu sína varðandi það að senda út boðsmiða til fyrirfólks og stjórnmálamanna á allar frumsýningar. Þetta fólk er alla jafna vel launað og ekkert of gott til þess að borga sína miða sjálft.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst í góðu lagi að taka manninn út af frumsýningarskránni.  Hann gerir lítið úr þeim gestum sem er með honum á frumsýningunni, hann kallar fólk nöfnum og notar orð sem gera ekki annað en að stuða stóran hóp fólks.  Hann getur alveg mætt á aðra, þriðju eða fjórðu sýningu eins og sauðsvartur almúginn í þessu landi.  Jón Viðar Jónsson á ekki að  hafa neinn forgang á frumsýningar.  Mér finnst reyndar mjög sérstakt þegar einhverju liði er boðið á frumsýningar í boði okkar skattgreiðenda.  Menn eiga að borga fyrir sína miða - allir sem einn.

Berglind Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 12:40

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Það er hætt við að Jóni Viðari þyki þessi gjörningur leikhússtjórans frekar "klénn".

Halldór Egill Guðnason, 4.1.2008 kl. 12:49

3 identicon

Takk fyrir þetta - og tími til kominn að  "ALLIR" borgi í leikhús - ætti kanski að launatengja þetta, gengur kanski ekki þar sem svo margir lifa á fjármagnstekjum eingöngu og eða með tekju erlendis frá

kv

js

Jón Snæbjörnsson (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 12:56

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ólína, frábær pistill og ég hefði svo sannarlega ekki getað sagt þetta betur sjálf.

Asskoti klént hjá Guðjóni Pedersen þarna.

TAKK FYRIR MIG.

Jenný Anna Baldursdóttir, 4.1.2008 kl. 13:23

5 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Það er eitt að vera með gagnrýni á leikverk, það er annað að gagnrýna leikhúsgestina sem slíka. Er það ekki? Ég veit ekki með ykkur en í mínu umdæmi kallaðist það dónaskapur!

Magnús V. Skúlason, 4.1.2008 kl. 14:28

6 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Gæti ekki verið þér meira sammála.  Hér áður fyrr hellti fólk sér yfir gagnrýnendur ef náðist til þeirra á almannafæri sumir fengu jafnvel yfir sig gusu úr glasi eða heilli vatnskönnu í Þjóðleikhúskjallaranum ef þeir voguðu sér þar inn fyrir dyr eftir slæm skrif og síðan látið þar við sitja, máið dautt.  Engum datt í hug að reka þá frá húsinu.  Úps þarna fór Guðjón aðeins yfir markið.

Ía Jóhannsdóttir, 4.1.2008 kl. 15:20

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir undirtektir - þið sem eruð sammála mér.

Ég tek undir það með hinum að Jón Viðar var vissulega dónalegur - en slík skrif dæma sig jafnan sjálf. Þannig er nú það. Svo finnst mér bara - í framhaldi af umræðum um vínflöskur sem bankarnir senda ráðherrum og svona - að leikhúsin eigi ekkert að vera að borga miðana fyrir gagnrýnendur. Það má allt eins líta á það sem einhverskonar mútur, eins og vínflösku sem send er ráðherra. Hvað kostar miði á frumsýningu - varla minna en vínflaska?

Fjölmiðlarnir eiga bara sjálfir að borga fyrir sitt fólk - og fyrirfólkið hefur alveg efni á að borga fyrir sig sjálft. Punktur.

En það á eitt yfir alla að ganga.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.1.2008 kl. 16:10

8 Smámynd: kiza

Ég er hjartanlega sammála þér með þessa blessuðu boðsmiða.  Sem fyrrum nemandi í Listaháskólanum (dansbraut) man ég alveg hvað það gat soðið í manni blóðið þegar maður þurfti að borga fullt (já, FULLT) gjald fyrir miða á sýningar Íslenska Dansflokksins og horfa svo á öll tómu sætin á forsýningum og frumsýningum þar sem merkilegustu rassar þjóðarinnar áttu að sitja. 

Borgarleikhúsið kom nú á móts við okkur með leiksýningarnar; Listaháskólanemendur fengu miðann á 500kr svo framarlega sem væri laust; Þjóðleikhúsið gaf frítt en með sömu skilmálum.  Hinsvegar gátum við aldrei skilið hvers vegna þeir sem væru langfátækastir fengju aldrei neinn afslátt eða boðsmiða hjá Í.D., þó að við værum kannski helst þau sem hefðum hvað mest gaman og gagn af...

...sérstaklega þegar boðsliðið hunskast ekki einusinni til að mæta. 

kiza, 4.1.2008 kl. 16:46

9 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég ætlaði að fara að skrifa um þetta færslu en sá að hér er komin góð umræða í gang.
Það sem mér datt nú í hug hvað þetta varðar er að með þessum gjörningi er vakin enn meiri athygli á gagnrýnispistlum Jóns Viðars. Þetta er sem sagt auglýsing fyrir hann og hans skrif.
Hins vegar er jú sjónarmið að allir greiði bara fyrir sinn miða og gildir þá einu hvort um er að ræða gagnrýnanda eður ei. Það held ég að sé ekkert nema réttlátt og eðlilegt.

Þó skal ég viðurkenna að get alveg sett mig í spor Guðjóns. Hann móðgast fyrir hönd gesta sem segir mér að leikhúsið í heild sinni er honum hjartans mál.
Hvort þessi aðferð geti hins vegar mildað móðgunina skal ég ekki segja.

Kannski hefði hann bara átt að ræða við Jón Viðar og fara þess á leit við hann að hann haldi sig innan kurteislegra marka sér í lagi gagnvart gestum leikhússins sem auðvitað hafa ekkert að gera með það hvort verkið þykir gott eða slæmt.

Kolbrún Baldursdóttir, 4.1.2008 kl. 17:43

10 identicon

Jón Viðar held ég er búin að dæma sig sjálfan sem lélegur gagnrýnandi miðað við hvernig hann skrifar. Og fólk eflaust tekur takmarkað mark á honum, allavega geri ég það. Guðjón er eflaust líka bara móðgaður út í gagnrýnina í sinn garð og frekar barnalegt eins og þú segir og tek ég fyllilega undir orð þín varðandi þetta.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 19:07

11 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Finnst að eitt eigi yfir alla að ganga, en er ekki það vel inn í málum og les ekki þessa gagnrýni svo ég get sjálfsagt ekki gagnrýnt þetta.  Kveðja vestur.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.1.2008 kl. 21:35

12 identicon

Takk fyrir að opna þessa umræðu hér á blogginu Ólína. Já ég er nú soldið hissa á honum Guðjóni með þetta og er sammála einhverjum sem hefur párað hér að þetta sé barnalegt athæfi. Við sem í leikhúsinu vinna eru nú oft óþarflega upptekin af gangrýnendum mér hefur alltaf fundist einn Hollywoodleikarinn hafa orðaða þetta skemmtilega en hann sagði um rýnendur: Þegar gagnrýnandi hrósar mér þá er það einsog þegar böðullinn hrósar mér fyrir hve ég hef fallegan háls. En leikhúsið hefur þörf á gangrýnendum sem eru vissulega misjafnir og ætla ég ekkert að tjá um neitt um það hver sé góður í það djobb og hver ekki. Allavega dettur mér ekki í hug að setja t.d. einn gangrýnenda á Fréttablaðinu á bannlista eftir að hann ritaði miður um eina sýningu Kómedíuleikhússins vegna þess að hann var búinn að gera sér upp ákveðna skoðun á verkinu áður en hann sá það og svo kom bara í ljós að sýningin var allt öðruvísi og mesta gagnrýnin fór í þetta frekar en tala um verkið sjálft. Samt sem áður er nú þessi Fréttablaðsgagnrýnanda enn að störfum og eitt er víst að honum er velkomið að koma á sýningar Kómedíu  því einhversstaðar segir að allt umtal sé gott hvort heldur það sé nega- eða possitíft.

Elfar Logi Hannesson (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 21:38

13 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Takk fyrir fínan pistil Ólína, tek hjartanlega undir það sem þú segir þar. Jón Viðar má hafa sína skoðun á leikhúsi og leikhúsgestum mín vegna, ummæli sem hann hefur um "snobbliðið" dæma frekar Jón Viðar heldur en umrætt fólk. Guðjón fór framúr sér þegar hann tók miðann af Jóni Viðari og í raun má segja það sama um þann gjörning og um dóminn hans Jóns, þetta dæmir sig allt sjálft.

Ekkert okkar er hafið yfir gagnrýni, hvort heldur við erum leikarar, leikhússtjórar, skólameistarar eða eitthvað annað. Við megum heldur aldrei gleyma því að það eru tvær hliðar á hverjum peningi, hverjum þykir sinn fugl fagur o.s.frv. Er ekki bara rétt að hvetja fólk ("almenning") til að fara oftar í leikhús og dæma sjálft hvort þar sé nálykt að finna eða ekki!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 4.1.2008 kl. 23:44

14 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Þetta er nú í aðra röndina brosleg umræða og greinilegt að fólk man eða þekkir ekki fortíðina.

Allavega virðist sem fáir muni lengur eftir hinum snöggsoðnu en jafnframt oft á tíðum snilldarlegu skemmtilegu dómum Jóns viðars í Dagsljósi um árið, sem ollu nú enn meiri látum en þetta!

svo örlar nú aðeins á vanþekkingu hérna og sleggjudómum finnst mér, hvað sem fólki annars kann að finast um jón viðar og ahns jú hvassa og kannski já svolítið dónalega framsögu á stundum, þá er hann einfaldlega einn allramenntaðasti og best kunnandi einstaklingur um flesta ef ekki alla afkima leikhússins á Íslandi!

En þetta sem nú gerist er jú mikið rétt svolítið "leikrit" líka sem já vissulega vekur aukna athygli á DV og skrifum J'ons, en gjörningur Guðjóns gerir það kannski líka fyrir borgarleikhúsið, hversu umdeilanlegur og/eða barnalegur hann er. Annars hefur það nú lengi verið í deiglunni að Guðjón hætti og nafni minn Magnús Geir Þórðarson taki við, "kraftaverkadrengurinn" sá er hefur ásamt dugmiklu liði hjá LA lyft því leikhúsi til gríðarlegra vinsælda sl. árin!

Magnús Geir Guðmundsson, 5.1.2008 kl. 00:22

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í sambandi við það að "almenningur finni nályktina og flýi á braut" höfum við sem erum í söngleiknjm Ást ekki fundið fyrir því í þau 70 skipti sem uppselt hefur verið á sýningar og ekkert lát virðist ætla að verða á. Í Mogganum í dag sé ég að uppselt sé á allar níu sýningarnar sem verða á Jesus Christ Superstar á stóra sviðinu fram í febrúar. Sérkennilegur flótti áhorfenda frá þeirri sýningu.

Ómar Ragnarsson, 5.1.2008 kl. 01:10

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst eitt að gagnrýna, en annað að setja fram níð um Borgarleikhúsið og koma með niðrandi umsögn um fólkið sem situr með manninum í salnum.  Ummæli Jóns Viðar dæma sig sjálf og sanna enn og einu sinni að maðurinn kann sér ekki hóf.  Að segja að nálykt sé af Borgarleikhúsinu vegna þess að manninum líkar ekki einhver uppsetning, er einfaldlega of langt gengið.  Ég myndi líka vísa þeim manni á dyr sem hefði slík orð um mín hús, mína fjölskyldu og mína starfsemi.  Þetta hefur ekkert með tjáningarfrelsi að gera.  Þetta hefur ekkert með ritskoðun að gera.  Þetta hefur með það eitt að gera, að Jón Viðar ætlaði að misbjóða fólki og sem oft áður tókst honum það.  Hann má bara þakka fyrir að Guðjón skuli ekki sækja hann til saka fyrir meiðyrði og atvinnuróg, því það var nákvæmlega það sem fólst í "gagnrýni" hans.

Marinó G. Njálsson, 5.1.2008 kl. 01:57

17 identicon

Ég tek undir hvert orð Marinós hér að ofan.. Þetta var engin "gagnrýni".. sem á að vera til gagns.. þetta var meiðyrði, dónaskapur um fólk og persónur og hefði aldrei átt að rata á prent.

Björg F (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 03:04

18 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég held við ættum að skilja á milli gjörða Guðjóns Petersen annarsvegar og Jóns Viðars hinsvegar.

Eins og ég sagði, þá held ég að dónaskapur dæmi sig ævinlega sjálfur. Viðbrögð Guðjóns voru ekki í samræmi við tilefnið að mínu mati. Hafi Guðjóni fundist þetta vera atvinnurógur og níðskrif, þá hefði e.t.v. verið nær að sækja Jón Viðar til saka fyrir það, heldur en að beita þessum aðferðum. Það að taka mann af gestalista eru ekki málefnaleg viðbrögð. Slíkum ráðum beitir maður í heimahúsum, og tilfinningasamskiptum, en ekki á opinberum vettvangi.

Hinsvegar tek ég undir það að Jón Viðar er ekki bara "einhver" gagnrýnandi. Hann er, eins og bent hefur verið á, einn gagnmenntaðasti leikhúsfræðingur sem við Íslendingar eigum og eftir hann liggja merkar ritsmíðar um sögu íslensks leikhúss. Þess vegna finnst mér leitt hvernig hann dæmir sjálfan sig hálfpartinn úr leik með gassalegum yfirlýsingum stundum. Það er leitt vegna þess að fræðilega er mikill fengur í Jóni Viðari.

Svo þakka ég fyrir góð skoðanaskipti.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.1.2008 kl. 14:38

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ólína, það má spyrja hvort gagnrýnandi geti verið hlutlaus, ef hann fær ókeypis í leikhúsið.  Eða hvort miðillinn hans geti verið hlutlaus, af því að leikhúsið auglýsir í honum.  Sá einn getur verið fullkomlega hlutlaus sem hefur engan hag af gagnrýninni.

Var það því ekki á sama hátt afskipti af ritstjórn DV að láta Jón Viðar fá ókeypis miða.  Þannig var tryggt eða gert eins mikið og hægt var til að tryggja að sýnignar leikhússins fengju umfjöllun.  Er það bara þegar miðinn er tekinn af blaðinu sem verið er að íhlutast í ritstjórnarmál blaðsins?  Ég veit um mann sem fjallar um knattspyrnu (vissulega ólíkt), en hann neitar að taka við nokkurm sköpuðum hlut frá félaginu sínu sem hann hefur haldið með frá blautu barnsbeini.  Veistu af hverju?  Hann vill vera óháður í umsögn sinni, hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð.  Hann vill ekki að nokkur maður geti sagt að umsögnin hafi verið keypt eða skrifuð í hefndarhug.  Ég held að það gæti aukið trúverðugleika gagnrýni Jóns Viðars að DV þurfi að borga undir hann og það myndi auka trúverðugleikann ennþá meira, ef DV afþakkaði auglýsingar frá Borgarleikhúsinu.  Þá væri með sanni hægt að segja að DV væri "frjálst og óháð".

Marinó G. Njálsson, 5.1.2008 kl. 16:04

20 identicon

Vegna umræðunnar hér að framan er rétt að taka það fram að gagnrýnendur fjölmiðla hafa fengið boð um að mæta á frumsýningar eða forsýningar allra leikhúsanna. Nú hefur einn þeirra verið tekinn út af gestalista. Það er DV mikið gleðiefni að greiða fyrir miða gagnrýnandans en við höfum fram að þessu ekki velt því fyrir okkur þar sem þessi háttur hefur almennt verið hafður á varðandi gagnrýnendur. Það vill gleymast í þessarri umræðu að Jón Viðar hefur undanfarið rúmt ár gagnrýnt velflest þau verk sem sett hafa verið upp í stóru leikhúsunum. Sumum hefur hann gefið góða dóma en öðrum slaka. Þegfar Jón Viðar grípur til þeirrar myndlíkingar að nálykt leggi af Borgarleikhúsinu er hann ekki að tala um gestina heldur verkin sem sett hafa verið upp. Framkoma Guðjóns í þessu máli er grafalvarleg en hann hefur komið þeim boðskap áleiðis að ef Jón Viðar breyti skrifum sínum sé hugsanlegt að hann megi snúa aftur. Hann vill ritstýra honum. Þetta er ekki ólíkt því að bannað yrði að skrifa um Borgarleikhúsið í DV út af persónulegum skoðunum ritstjóra. En Borgarleikhúsið, eins og reyndar leiklist, hefur verið á áhugasviði blaðsins. Til dæmis er að vænta dóms um Jesus Christ Superstar í mánudagsútgáfu DV og á þriðjudag er fjögurra síðna umfjöllun um Borgarleikhúsið þar sem leikhússtjórinn kynnir lesendum húskostinn og söguna. Tekið skal fram að sú umfjöllun er ekki gerð í ljósi undanfarinna tíðinda af straffinu. Fyrir þá sem ekki hafa lesið dóminn, Hver er fíflið?, sem fór svo mjög fyrir brjóst Guðjóns er rétt að benda á að hann er í heild sinni á www.dv.is.  

Reynir Traustason (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 23:21

21 Smámynd: Mofi

Það er ömurlegt af Jóni Viðari að rakka niður einstaklinga í staðinn fyrir að gagnrýna þau verk sem er verið að sýna. Það er eins og gagnrýnendur hafa fengið leyfi til að vera virkilega dónalegir og leiðinlegir. Mér finnst alveg eðlilegt að gera kröfu til þeirra að þeirra gagnrýni er málefnaleg og án persónulegs skítkast á þá sem verið er að fjalla um en mér finnst það hafa verið greinilega þarna á ferðinni. Myndi ég vilja gefa einhverjum pening til að ausa yfir mig skít... well, svari hver fyrir sig.

Mofi, 6.1.2008 kl. 21:48

22 identicon

Mér sýnist að sumir álíti að "gagnrýni" og "neikvæð umsögn" séu samheiti.

Gagnrýni er vandleg skoðun/rýni á einhverju fyrirbæri, sbr. "fékk góða gagnrýni", sem aftur er svolítið út úr kortinu því góð gagnrýni ætti að þýða það að gagnrýnandinn hafi unnið sitt verk vandlega, burtséð frá því hver niðurstaða hans er á fyrirbærinu (hér leiksýningum og því sem þeim fylgir)

Umræddur gagnrýnandi er sagður langskólagenginn, hámenntaður leikhúsfræðingur. Það stendur hvergi að hann sé alheill heilsu eða sé snillingur í mannlegum samskiptum. Almenn kurteisi er sjaldnast kennd í skólum og þótt svo væri, er ekki öllum gefið að meðtaka það sem reynt er að kenna þeim.

Það virðist mannlegur veikleiki að þola illa tiltal (gagnrýni á mann sjálfan eða það sem maður fæst við. Eigandi þessa bloggs ljóstrar því líka upp í kveðju sinni hér að framan:  "Takk fyrir undirtektir - þið sem eruð sammála mér".  Hinir eiga víst ekki þakkir skilið.

Beturvitringur (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 04:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband