Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
Norðan fjúkið næðir kalt
31.1.2008 | 23:36
Svolítil hringhenda í tilefni af illviðri og jarðbönnum:
Norðan fjúkið næðir kalt
naprir rjúka vindar.
Fanna dúkur felur allt.
Freðnir hjúpast tindar.
Hjallabungur, freðið frón
fetar hungur vofan.
Kári þungan kveður tón,
kallar drungann ofan.
brrrrrrr.................
Slæmt veður víða um land | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Hann náði þó símasambandi
31.1.2008 | 10:04
Vörubílstjórar eru með betri samskiptatæki um borð hjá sér heldur en "venjulegir" ökumenn. Þeir geta því kallað eftir aðstoð nánast hvar sem þeir eru staddir.
Í Ísafjarðardjúpi er ekkert farsímasamband nema á stöku stað þannig að "venjulegur" ökumaður í vanda hefði ekki getað kallað eftir hjálp. Þarna geta skollið á illviðri eins og hendi sé veifað, því ekki þarf mikinn vind til þess að kominn sé skafrenningur og blinda. Það var gott að maðurinn gat leitað aðstoðar, og að ekki fór verr. En ég byði ekki það ef þarna hefði verið óbreyttur jeppamaður á ferð. Þá er ekki víst að hjálp hefði borist honum enn.
Þetta er nú svona til umhugsunar.
Annars var ósköp notalegt að kúra sig undir sæng í gær og hlusta á veðrið úti. Það sá ekki út um gluggana hjá mér fyrir snjó.
PS: Mér sýnist þessi færsla hafa orðið tilefni fréttar á mbl um hádegisbil í dag. Það er vel, því almennt held ég að fólk geri sér ekki grein fyrir þessu ástandi í fjarskiptamálum við Ísafjarðardjúp.
Viðbúnaður vegna útafaksturs í Skötufirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Hvað má og hvenær?
29.1.2008 | 14:49
Einu sinni var það útbreidd skoðun að ögrandi klæðaburður konu gæti verið réttlæting fyrir kynferðislegri misbeitingu gegn henni. Það eru ekkert mörg ár síðan fórnarlömb nauðgana fundu fyrir slíku viðhorfi á lögreglustöðvum og víðar í samfélaginu. Konur voru spurðar hvað þær hefðu verið að þvælast einar, af hverju þær hefðu verið í svona aðskornu og stuttu pilsi. Hvers vegna þær hefðu farið heim með karlmanni.
Þetta viðhorf þykir ekki viðeigandi lengur. Af hverju? Jú, m.a. vegna þess að karlmenn vilja ekki láta líta á sig sem skynlausar skepnur sem megi hvergi sjá beran blett án þess að missa stjórn á sér. Samfélagið fellst ekki á það að menn geti ekki haft stjórn á sér.
Nú er hinsvegar annað skylt viðhorf uppi, sem mér finnst jafn niðurlægjandi fyrir þá sem halda því fram. Það er að þekktir einstaklingar - fólk sem nýtur frægðar, t.d. vegna stjórnmálaþátttöku - megi búast við "hverju sem er", eins og það sé eitthvert sjálfsagt náttúrulögmál að það megi allt ef einhver á annað borð hættir sér inn í frægðina.
Ekki alls fyrir löngu lenti Björk í því að missa stjórn á sér gagnvart ljósmyndara sem gerðist nærgöngull við hana. Þá var þetta sama viðkvæði uppi. Þeir sem hneyksluðust á viðbrögðum Bjarkar sögðu bara: "Hún vildi frægðina - fólk sem þráir athygli verður bara að taka því þegar það fær hana óskipta." Það er einhver tónn í þessu sem mér líkar ekki.
Þegar fólk gefur kost á sér í stjórnmálum vill það láta gott af sér leiða, leggja samfélagi sínu lið, skyldi maður ætla. En það er ekki sjálfsagt mál að fólk ofurselji mannréttindi sín og persónulega friðhelgi í skiptum fyrir frægð og frama. Ef manneskja vill koma list sinni á framfæri - þá þarf hún vitanlega á opinberri athygli að halda, hvort sem hún þráir þá athygli eða ekki. En hvað með það?
Varla getur það verið ásættanleg réttlæting fyrir því að "hinir" - álitsgjafarnir, grínistarnir, bloggararnir, blaðamennirnir, ljósmyndararnir - megi bara gera hvað sem er? Það er ekki í lagi að áreita söngvara með myndatökum hvar og hvenær sem er án þess að sinna bón eða tilmælum um frið. Það er ekki í lagi að hafa veikindi fólks í flimtingum; hnýsast í einkalíf þess; grípa á lofti allt sem gömlum vinum eða kunningjum kann að hafa mislíkað við viðkomandi á lífsleiðinni - af því viðkomandi hætti sér út á hinn opinbera vettvang. Það er ekkert náttúrulögmál að menn verði að sæta höggum, bara vegna þess að þeir hættu sér út á opið svæði.
Við, hinn svokallaði almenningur, erum ekki skynlausar skepnur. Mannlegt samfélag er ekki mannýg nautahjörð sem hlýtur að leggja til atlögu ef hún sér rauða dulu. Það má aldrei verða þannig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Nú gekk Spaugstofan of langt
27.1.2008 | 12:47
Í gegnum tíðina hefur maður oft látið sig hlakka til laugardagskvölda með fjölskyldunni. Spaugstofan á sínum stað, nammi í skálum og svona. Maður kemur sér vel fyrir og nýtur þess með öðrum að horfa á samfélagið (og þar með sjálfan sig) í spéspegli.
Ég skal þó viðurkenna að í seinni tíð hefur þessum stundum farið fækkandi - þó Spaugstofan sé á sínum stað og mannskapurinn framan við sjónvarpstækið líka. Þeir eru bara farnir að missa húmorinn.
Og í gær tók steininn úr.
Látum hnífaklisjuna vera - hún var þó bara leiðinleg. En atriðið um Ólaf Þ. Magnússon tók öllu fram í lágkúru. Það var svo niðurlægjandi - fyrir Spaugstofuna - að mér er eiginlega brugðið.
Oft hef ég hlaupið í vörn fyrir Spaugstofumenn og staðið með þeim - enda tel ég að háðsádeilur séu oft beittustu og bestu uppeldistæki samfélaga gagnvart spillingu og hugsanaleti. En háð er vandmeðfarið - og ekki má mikið út af bregða til þess að hárbeittur húmor missi marks. Í gærkvöld brást þeim félögum algjörlega bogalistin.
Þetta var bara sorglegt - og eiginlega er vandséð hvort þeir Spaugstofumenn eiga sér viðreisnar von eftir þessa hraksmán.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (103)
"Tónlistarsigur" á Ísafirði segir gagnrýnandi
26.1.2008 | 16:31
"Tónlistarlífið á Ísafirði er hreint með ólíkindum og báru tónleikarnir því glæsilegt vitni" segir Alexandra Kjeld tónlistargagnrýnandi í dómi sem hún birti í Morgunblaðinu í dag um hátíðartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Ísafirði s.l. fimmtudagsvöld. Frammistaða hátíðarkórs Tónlistarskólans sem flutti Gloriu eftir Francis Polenc segir hún að hafi verið tónlistarsigur og sá hluti tónleikanna verið sannkölluð tónlistarveisla. Ingunn Ósk Sturludóttir, mezzosopransönkona, sem söng einsöng með hátíðarkórnum fær sömuleiðis frábæra umsögn gagnrýnandans.
"Sjaldan hefur undirrituð upplifað jafn jákvæðar viðtökur tónleikagesta, og það í jafn fámennu samfélagi. Óhætt er að fullyrða að óvíða annarsstaðar á landinu sé hægt að hóa saman jafn stórum og vönduðum kór með jafnmiklum metnaði. Tónlistarlífið á Ísafirði er hreint með ólíkindum og báru tónleikarnir því glæsilegt vitni" segir Alexandra Kjeld ennfremur í í ritdómnum sem ber yfirskriftina "Undravert tónlistarlíf".
Ritdómurinn í heild sinni er hér.
Já, það er gaman að leggja á sig erfiði þegar uppskeran er góð
Menning og listir | Breytt 2.2.2008 kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvað eru skrílslæti?
26.1.2008 | 00:13
Ég hef séð fólk klappa og stappa af gleði og fögnuði á tónleikum. Eru það skrílslæti? Íþróttafréttaritarar æpa sig hása í útvarpi og sjónvarpi án þess að nokkur kalli þá óþjóðalýð.
Hvað gerðist þá í ráðhúsinu? Þar var hópur fólks sem lét tilfinningar í ljósi yfir gjörningi sem margir álíta skrumskælingu á lýðræði. Þetta fólk hrópaði og stappaði. Hvað ef þetta hefðu verið fagnaðarlæti? Hefði það verið skandall?
Ég minnist þess þegar ég var í borgarstjórn 1990-1994 að fólk mætti einstöku sinnum á palla í heitum málum. Þá var klappaði fyrir ræðumönnum, jafnvel púað, án þess að forseti væri í sífellu að áminna það eða krefja um "hljóð í salnum". Hefði Hanna Birna bara leyft fólki að klappa, eða púa, milli þess sem menn stigu í ræðustól, án þess að vera sífellt að áminna það - æsa það upp, liggur mér við að segja - þá hefði þetta kannski farið öðruvísi.
Ég get auðvitað ekki dæmt um annað en það sem ég sá og heyrði í sjónvarpinu. Þarna var fólk á öllum aldri, úr ýmsum áttum. Unga fólkið lét vissulega mest til sín heyra - sem vonlegt er. En að stimpla alla þá sem þarna voru sem "óþjóðalýð" og þátttakendur í skrílslátum, það finnst mér allt of langt gengið. Sú umræða er orðin að smjörklípu - hún er til þess fallin að draga athyglina frá sjálfri orsökinni.
Enginn er reykur án elds: Tilfinningahitinn á áhorfendapöllunum átti sér orsök - þeirri orsök skulum við ekki gleyma.
Sólrisa í snjómuggu
25.1.2008 | 16:04
Í dag, 25. janúar, er hinn formlegi sólrisudagur okkar Ísfirðinga. Ekki sjáum við þó til sólar í dag, snjómugga í lofti og sjálfsagt skýjaður himinn. Síðustu daga höfum við þó séð sólinskin á fjallatoppum, og næst þegar sér til sólar mun hún gægjast yfir fjallsbrún. Þá munu geislar hennar ná alla leið niður á eyri - gylla húsþökin - og verma hjartað
Sól, þér helgum sigurlag
og syngjum lof af hjarta.
Þú breytir hríðar dimmu í dag
uns dægrin litum skarta.
Já, þiggðu okkar þakkarbrag
þokkagyðjan bjarta.
Þegar vetrar drunginn dvín
og dregur hægt að vori,
Þorri hörfar heim til sín
hrímþungur í spori,
þú feimin yfir fjallsbrún skín
og fyllir brjóstið þori.
Með blíðu kyssir klakatár
af klettsins hrjúfa vanga,
græðir viðkvæm svarðar sár
og sefar kulið stranga.
Þú vekur drauma, vonir, þrár
af vetrarsvefninum langa.
Sól, þér ómar ísfirsk þökk
upp af mjallar hjúpi
og í fuglsins kvaki klökk
kveðin fjalls af gnúpi:
Sigurbragur - söngva þökk
sungin úr bláu Djúpi.
Í dag á Hjörvar, yngsti drengurinn minn, afmæli hann er fjórtán ára.
Á slíkum degi er við hæfi að fara með lofgjörð til sólarinnar. Þessi óður var ortur í tilefni af 70 ára afmæli Sunnukórsins fyrir fjórum árum.
Jónas Tómasson samdi fagurt lag við þennan texta af sama tilefni - en lagið er svo krefjandi fyrir söngraddir að kórinn hefur aðeins flutt það tvisvar sinnum, svo ég muni.
Ljóð | Breytt 26.1.2008 kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ógleymanlegir hátíðartónleikar
25.1.2008 | 01:35
Í kvöld voru hátíðartónleikarnir með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar í íþróttahúsinu á Torfnesi. Sjálf stóð ég inni í miðjum kór og söng Gloríu eftir Poulenc ásamt um hundrað kórfélögum - verkið var síðast á dagskránni. Bernharður Wilkinson stjórnaði hljómsveit og kór - troðfullt íþróttahúsið. Ingunn Ósk Sturludóttir söng einsöng í Gloríunni. Hún gerði það þannig að ég er enn með gæsahúð.
Ég held við höfum bara staðið okkur býsna vel hátíðarkórinn. Áheyrendur virtust ánægðir og tilfinningin á meðan á þessu stóð var góð. Ég veit svosem ekki hvernig stjórnandanum leið þarna í einni innkomunni ... .... best að tala ekki meir um það ... en það verður sjálfsagt aldrei upplýst
Beata Joó á heiður af æfingum kórsins fyrir þessa tónleika - hún er auðvitað frábær. Svo kom Bernharður Wilkinson og rak smiðshöggið á síðustu tveimur æfingunum. Hann er auðvitað afburðamaður á sínu sviði - og mjög gaman að hafa kynnst honum svona í aksjón, eins og maður segir.
Þetta var frábær upplifun og ógleymanleg stund.
Tónlist | Breytt 2.2.2008 kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Almenningi er nóg boðið
24.1.2008 | 13:17
Ótrúlega er sorglegt að fylgjast með útsendingu frá borgarstjórnarsalnum núna - mínum gamla vinnustað. Og ekki get ég láð almenningi sem er mættur á pallana að láta tilfinningar sínar í ljós. Satt að segja líður mér ekki ósvipað. Hver hljóðbylgja sem berst frá áheyrendapöllunum er bylgja frá mínu eigin hjarta.
Dagur B. Eggertsson má vera stoltur af sinni hundrað daga borgarstjóratíð. Félagar hans í fráfarandi meirihluta mega vera stoltir af starfi sínu í þágu borgarbúa. Þetta fólk hefur staðið ölduna á forsendum málefnastöðu, það hefur staðið vörð um velferð borgarbúa, helgað sig almannaheill af ábyrgð og heilindum.
Menn skulu ekki gleyma því hvernig þetta fólk forðaði mikilvægum verðmætum í almenningseigu frá því að vera sett í hendur einkaaðila.
Sú dáð sem fráfarandi meirihluti drýgði síðastliðið haust mun lengi verða í minnum höfð. Hún verður enn stærri og glæstari í minningunni samanborið við starfsaðferðir þeirra sem nú eru aftur að taka við stjórnartaumum að afstöðnu valdaráni.
Já, það var framið valdarán í Reykjavík - og það er ekkert sem hægt er að gera við því. Í landsstjórninni er hægt að rjúfa þing og efna til kosninga - en ekki í sveitarstjórn. Það er enginn lagabókstafur sem verndar almenning fyrir atburðarás af því tagi sem nú hefur átt sér stað.
Það er umhugsunarefni.
Eina leiðin sem fólk á til þess að tjá álit sitt á því sem gerst hefur er að mæta á pallana og láta tilfinningar sínar í ljós. Og það hefur gerst núna.
Í þessum töluðu orðum er lögreglan mætt á staðinn - en áheyrendur halda áfram að klappa og stappa. Það er upplausnarástand og heitar tilfinningar.
Almenningi er augljóslega nóg boðið, eins og við mátti búast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn
23.1.2008 | 10:50
Þessi handabakavinnubrögð minna óþægilega á vinnubrögð sama fólks í OR og REI málinu mikla, þegar borgarstjórinn þáverandi las ekki fundargögnin af því hann skildi ekki enskuna - og frekar en láta lögfræðingana hjá borginni fara í gegnum gögnin og gera samantekt um málið, reyndi hann að fela vanþekkingu sína. Hann ætlaði að sigla inn í stóra ákvarðanatöku án þess að vita hvað hann var að gera.
Nú myndar hann meirihluta með Ólafi F. Magnússyni - og báðum liggur svo á að komast að kjötkötlunum að hvorugur kannar baklandið. Hvorugur veit raunverulega hvað hann er að gera.
Þetta segir allt sem segja þarf um trúverðugleika og vinnubrögð þessa "nýja" meirihluta.
Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Í hinni nýju valdakeðju borgarstjórnar er veikur hlekkur - mjög veikur.
Töldu Margréti með | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)