Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Heimatilbúnar aðventuhefðir

adventukrans Ég er ekki alin upp við sérstakar aðventuhefðir. Á mínu bernskuheimili voru einfaldlega haldin íslensk jól, og þau hófust á aðfangadag að undangengnum kökubakstri og hreingerningum. Jólaseríur fóru upp í síðustu vikunni fyrir jól - kannski í einn glugga eða tvo. Það er því hreingerningastúss, saumaskapur og ilmurinn af jólabakstri sem lifir sem mín aðventuminning úr bernsku.

Þegar ég fór sjálf að halda heimili héldu aðventusiðir innreið sína í fjölskyldulíf mitt, aðventukrans og jólastjarna, seríur utan á húsið og í glugga. Minna fór fyrir hreingerningum og kökubakstri, en meira var af kertaljósum og kósíheitum í desember. Einn er þó sá kökubakstur sem til nýjunga heyrir á mínu heimili en er að verða föst hefð - og það er enska jólakakan sem ég baka 8-12 vikum fyrir jól.  Hún er runnin undan rifjum mágs míns, Paul Newton, sem er Breti eins og nafnið gefur til kynna.

Það er rammur gjörningur að baka þessa köku og líkist því helst að magna upp tilbera eins og þeirri kúnst er lýst í þjóðsögunum. Kakan er bökuð marga klukkutíma í ofni, síðan vafin í margfaldar umbúðir og loftþétt ílát og látin standa á köldum stað. Hún er svo tekin fram vikulega og dreypt á hana víni fram að jólum - en þá er hún pensluð með bræddu apríkósumauki og smurð dýrindis marsípankremi og telst þá fullgerð.

Síðustu árin hefur það verið fastur liður hjá okkur Sigga að mæta í afmælis/aðventuboð hjá vinkonu minni suður í Reykjavík, fyrstu helgina í desember. Þá notum við tækifærið og kaupum þær jólagjafir sem eiga að verða eftir fyrir sunnan. Þessi samverustund með góðum vinum, við síldarrétti, jólasnafs og aðrar veitingar, kemur okkur ævinlega í jólaskapið - þannig að þegar við komum heim úr þessum leiðangri má segja að undirbúningur jólanna sé hafinn.

Um svipað leyti hefst baukið við að koma jólaseríum á þakskeggið. Siggi fer upp í stiga, aðrir í fjölskyldunni fylgjast með í lotningu. Svo hefst viðureignin við seríuflækjuna, leit að varaperum, við að greiða úr og rétta honum snúruna upp í stigann. Nú orðið lendir þessi aðstoðarvinna mest á yngsta syninum, en ég sæti færis að smjúga inn í hús og skreyta svolítið þar.

Því hefur fylgt ákveðin serimónía á heimilinu þegar kveikt er á aðventukertum. Þá kemur fjölskyldan að kransinum og við syngjum viðeigandi vers í aðventusálminum. "Við kveikjum einu kerti á"  er sungið fyrsta sunnudag, næst eru sungin tvö vers og sunnudaginn fyrir aðfangadag eru öll erindin fjögur sungin. Þessi siður varð einhvern veginn til með börnunum okkar. Mér finnst alltaf mjög hátíðlegt að sjá kertaljósið lýsa upp andlit lítilla barna við þetta tækifæri .... en .... huhummm

..... núna er litla barnið á heimilinu að verða fjórtán og "glætan" að hann syngi með mömmu sinni "Við kveikjum einu kerti á" við aðventukransinn.  GetLost Hinsvegar .... 

.... þegar hann sér okkur sitja við kertaljós og smákökur að skrifa jólakortin, líður hann til okkar eins og reykur, sest steinþeigjandi að borðinu og teygir sig eftir korti til að skrifa til vinar í Reykjavík. Wink Tungan út um annað munnvikið. Það gerir sama gagn fyrir mömmuhjartað.

bresk_jol1_290403


Fjallshlíðar á hreyfingu

 Óshlíðin-mbl.is Fjallshlíðarnar eru á hreyfingu þessa dagana - og það er óþægilegt að búa undir þeim þegar þannig háttar til. Eftir stórrigningarnar undanfarna sólarhringa má segja að hlíðin í fjallinu fyrir ofan mig sé bókstaflega á iði. Skruðningarnir þagna ekki. Það er sérstaklega óþægilegt þegar myrkur er skollið á því þá sér maður heldur ekki hvað er að gerast. Frown

Þessa dagana erum við Ísfirðingar ekki beint "í faðmi fjalla blárra" eins og sungið er um á tyllidögum. Ó, nei. Engir tyllidagar núna.

 Fjöllin hafa afklæðst sínum draumbláa möttli fyrir móbrúna tötra. Í dag eru þau bara dökkir, úfnir hnúkar með ygglibrún. Eðjutárin streyma niður grjótvangana og þau snökta með skruðningum.

Óshlíðin lætur hæst. Hún er tilkomumikil séð af sjó - jafnvel þegar hún er úfin og viðskotaill, eins og í dag. En viðsjárverð er hún - drottningin sú arna. Og þungt er henni um hjartarætur - hún grætur.

(Þetta er eiginlega orðið að ljóði - þarf að vinna með þetta betur) Wink

 


mbl.is Aurskriður féllu í Eyrarfjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á valdi óttans

Mál Erlu Óskar Arnardóttur hefur vakið verðskuldaða athygli, enda varpar það ljósi á hversu langt eitt samfélag getur látið leiðast í tortryggni og fjandskap. 

Bandaríkjamenn hafa verið undir linnulausum áróðri um hryðjuverkaógn undanfarin ár. Stjórnvöld þar í landi hafa eytt milljörðum í að búa sér til óvini og viðhalda ógnarótta almennings til þess að réttlæta stríðsrekstur sinn í öðrum heimshlutum. Hvaða áhrif halda menn að slíkt hafi til lengdar? Eitt er víst að það ýtir ekki undir lýðfrelsi og mannréttindi. Þvert á móti elur það á ótta og mannfyrirlitningu, líkt þeirri sem Erla Ósk hefur nýfengið að reyna.

Á valdi óttans geta menn gert hvað sem er.  Hér fyrr á öldum var saklaust förufólk drepið á heiðum landsins ef það varð á vegi óttasleginna ferðalanga sem stútfullir af sögum um útilegumenn og drauga réðu þeim bana. Af hverju halda menn t.d. að helsta ráðið til að kveða niður drauga hafi verið að "brjóta þá á bak aftur " eða skilja höfuð frá bol? Hmmm...

Nútímamaðurinn er enn að "brjóta á bak aftur" ýmsa ímyndaða drauga - oft með ærnum fórnarkostnaði, því miður.


mbl.is Mál Erlu Óskar vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarstjóri í pólitískri aðför

Ísafjordur-vetur Í viðtali í svæðisútvarpi Vestfjarða fyrr í vikunni réðist Halldór Halldórsson bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ með ómaklegum hætti á vefmiðilinn skutull.is og sakaði hann um að starfa undir fölskum formerkjum:

 "Í mínum huga, er Skutull fyrst og fremst pólitískur vefmiðill .... Skutull hefur ekkert sýnt það - ekki fyrir mér að minnsta kosti - að það sé einhver óháður fréttamiðill. Þetta er fyrst og fremst pólitískur miðill sem vinnur fyrir Í-listann hér í bæjarstjórn" sagði bæjarstjórinn.

Með þessum orðum veitist bæjarstjórinn á Ísafirði að trúverðugleika nýstofnaðs vefmiðils sem hefur yfirlýsta stefnu um faglega og óhlutdræga fréttamennsku. Þetta gerir hann á grundvelli stjórnmálaskoðana þeirra sem að vefsíðunni standa. Það er alvarlegt mál þegar forsvarsmaður stjórnvalds reynir beinlínis að bregða fæti fyrir þá sem eru að koma undir sig fótum á einhverju sviði. Enn alvarlegra er þegar slíkt er gert á grundvelli stjórnmálaskoðana - og nægir að vísa til 11. greinar stjórnsýslulaga sem kveður á um þá skyldu stjórnvalda að mismuna ekki aðilum vegna stjórnmálaskoðana, trúarbragða, kynferðis eða þjóðfélagsstöðu, heldur gæta "samræmis og jafnræðis" við úrlausn mála. Þetta er svokölluð jafnræðisregla.

Tildrög þessara orðaskipta nú, eru eftirfarandi:

Fyrir nokkrum vikum sendi skutull.is Ísafjarðarbæ erindi þar sem vefmiðillinn var kynntur bæjaryfirvöldum og þess óskað að skutull.is hlyti sama rými á heimasíðu bæjarins og annar vefmiðill hér í bæ, bb.is, hefur nú þegar. Ennfremur var þess óskað að skutull.is fengi að sitja við sama borð og bb.is varðandi auglýsingar og fjárstyrki.

Þess ber að geta að bb.is er með beina RSS-veitu inn á heimasíðu Ísafjarðarbæjar og fær greitt fyrir. Er það líklega einsdæmi að fjölmiðill fái greiðslu frá stjórnvaldi fyrir að auglýsa sjálfan sig á heimasíðu þess. En hjá Ísafjarðarbæ heitir þetta víst "þjónusta" og bb.is er eitt um þá hitu. Á móti hefur bæjarstjórinn fengið sérstakan flýtihnapp á bb.is sem tengir lesendur beint inn á hans persónulegu bloggsíðu. Er mér ekki kunnugt um að nokkur stjórnmálamaður fái aðra eins þjónustu hjá "óháðum" fréttamiðli.

Nú hefur einnig komið í ljós að bb.is er eini vefmiðillinn hér á svæðinu sem er í viðskiptum við Ísafjarðarbæ. Til blaðsins sem heldur vefnum úti, útgefanda þess og vefsíðunnar hafa runnið 4,2 mkr á undanförnum 22 mánuðum. Það er um fjórðungur alls þess sem bærinn greiðir fyrir fjölmiðlaþjónustu 157 aðila sem samanlagt hafa fengið um 16 mkr á sama tíma.

Skemmst er frá því að segja að bæjaryfirvöld samþykktu að setja lítinn tengil á skutul.is inn á heimasíðu bæjarins en erindinu var hafnað "að öðru leyti". RSS-veita kom því ekki til greina og bréf bæjarins verður ekki skilið öðruvísi en svo auglýsingar frá bænum verði ekki settar inn á skutul.is

Nú hefur Halldór bæjarstjóri, í fyrrnefndu viðtali upplýst um raunverulega ástæður þessarar synjunar. Þær eru pólitískar: "Þetta er fyrst og fremst pólitískur miðill sem vinnur fyrir Í-listann hér í bæjarstjórn" segir hann.

Ég fullyrði að þeir sem starfa við skutul.is gera það af fullri fagmennsku - stjórnmálaskoðanir þeirra koma bæjaryfirvöldum hinsvegar ekkert við. Á skutull.is eru siðareglur fréttamanna í heiðri hafðar og allar fréttir unnar eftir bestu fáanlegu heimildum. Halldór bæjarstjóri er þess ekki umkominn að efast um heilindi eða fagmennsku þessa fólks - enda hefur hann engin dæmi máli sínu til sönnunar.

 


Og ruslatunnan mín komin út á fótboltavöll

Ég þakka fyrir að ruslatunnan mín sem fór af stað yfir bílaplanið hjá mér skyldi ekki hafa skollið á bílgreyinu sem þar stóð. Bíllinn slapp - en tunnuófétið liggur á fótboltavellinum hér 50 m neðar, innihaldið komið út um víðan völl.

Já, þetta var nú meiri hvellurinn - og manni varð ekki svefnsamt í nótt.


mbl.is Ísskápur á flugi í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk vakið til umhugsunar

Vitið þið - mér finnst þetta bara gott hjá femínistafélaginu. Þær eru að vekja athygli á klámi sem undirrót kúgunar og misnotkunar á fólki. Fyrirtæki eins og VISA á einfaldlega að forðast allt sem getur tengt það ágæta fyrirtæki við klámiðnað.

Sóley Tómasdóttir er með góða hugleiðingu á bloggsíðu sinni um klámið sem fyrirbæri í mannlegu samfélagi. Þar varpar hún upp nokkrum spurningum sem hverjum og einum er hollt að hugleiða. Spyrja má í sama anda og hún gerir: 

Er klám uppbyggilegt í einhverjum skilningi? Kennir það okkur eitthvað jákvætt um mannleg samskipti - kynlíf? Hefur klám jákvæð áhrif á umhverfi okkar eða samfélagsímyndina? Er það mikilvæg viðbót við menningu okkar og atvinnulíf?

Hmmm .... það er að mörgu að hyggja. En ég er með kenningu:

Klám er eins og fíknefni: Það er gott við fyrstu kynni, veitir líkamlega stundarsælu. Að henni lokinni skilur það ekkert eftir sig - nema kannski fíkn í meira.   

Klám er engum hollt - það getur verið skaðlaust í hófi - en oft kallar það á meira. Margir þeirra sem falla fyrir stundaráhrifum þess missa tökin - og á því græða þeir sem sjá hagnaðarvon í fíkn annarra. Sú hagnaðarvon kallar fram misnotkun á fólki, mannsal, kynlífsþrælkun og þvingað vændi. 

Nei, klám er engum hollt. Fylgikvillar þess eru mannfjandsamlegir - sannkallað menningarvandamál.

Og mér finnst reglulega gott hjá femínistum að taka slaginn í þessari klámumræðu. Áfram stelpur!


mbl.is Femínistafélagið kærir Vísa-klám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eiga að greiða fyrir Hvalfjarðargöng?

hvalfjardargong-visindavefur Ríkisútvarpið greindi frá því í morgun að ekki stæði til að fella niður veggjald í Hvalfjarðargöngin í bráð. Að minnsta kosti mun það ekki vera forgangsmál í samgönguráðuneytinu að svo verði.

Nú  minnir mig að á sínum tíma hafi gjaldið verið sett á til þess að greiða fyrir gerð ganganna. Einhversstaðar hefur komið fram að uppgreiðsla framkvæmdakostnaðar hafi gengið mun hraðar en búist var við, enda hefur Spölur hagnast ágætlega. Á síðasta ári var hagnaður fyrirtækisins 282 mkr, eftir skatta.

 Því hlýtur sú spurning að gerast áleitnari hvort ekki sé tímabært að létta greiðslubyrðinni af vegfarendum um Hvalfjarðargöng og færa hana yfir á ríkissjóð. Við skulum hafa í huga að það eru nær eingöngu Vestlendingar, Vestfirðingar og Norðlendingar sem eiga leið um göngin, og bera þ.a.l. þyngstan hluta þeirrar greiðslubyrði sem hlýst af veggjaldinu.

Nú er verið að tvöfalda Reykjanessbraut. Ekki stendur til að láta vegfarendur greiða fyrir það, eða hvað? Finnst ekki öllum sjálfsagt að ríkið greiði fyrir þá framkvæmd? Því ættu þá íbúar tveggja kjördæma - Norðvestur- og Norðaustur - að bera vegatolla af Hvalfjarðargöngum, sem eru önnur helsta samgönguæðin frá Reykjavík til landsbyggðar? 

Hitt er svo annað mál að það er orðið tímabært að tvöfalda Hvalfjarðargöng. Þeir sem fara þarna um vita vel að útblásturskerfið annar ekki lengur þeirri miklu umferð sem þarna er, og slysahætta í göngunum er vaxandi, þar sem umferð um göngin er umtalsvert meiri en ráð var fyrir gert í fyrstu.

 Þegar hagnaður af göngunum er farinn að skipta hundruðum milljóna skyldi maður ætla að forsendur hefðu skapast fyrir slíkri framkvæmd - ég tala nú ekki um ef menn ætla að halda áfram að innheimta veggjaldið.

 


Stóra lifrarpylsumálið þingfest á mánudag!

Heimilislaus maður fór hungraður inn í verslun í Reykjavík síðastliðið vor. Hann ætlaði bara að kaupa sér harðfiskbita og smjörklípu - en sá þá lifrarpylsukepp sem hann langaði mikið í, enda svangur. Hann átti ekki fyrir honum - en stóðst ekki þá freistingu að stinga lifrarpylsunni á sig. Starfsmaður verslunarinnar stóð hann að verki.

Maðurinn skilaði lifrarpylsunni og baðst afsökunar. Starfsmaðurinn tók því vel en hringdi samt í lögreglu. Í Fréttablaðinu í dag er frá því sagt að ætlun starfsmannsins hafi verið sú að útvega manninum húsaskjól  yfir nótt þar sem hann var illa til reika. En þar með varð ekki aftur snúið - lögreglan var komin í málið. Stóra lifrarpylsumálið! 

Heimilisleysingjar skulu ekki halda að samfélagið taki létt á gripdeildum þeirra - ó nei. Lifrarpylsumálið verður þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur nú á mánudaginn.Shocking

Hvers konar samfélag er það sem ekki getur horft framhjá því þegar hungraður maður teygir sig  eftir lifrarpylsukeppi? Hefur lögreglan ekkert þarfara að gera en að eltast við heimilisleysingja sem REYNIR að stela sér matarbita - en tekst þó ekki? Og hvað með tíma og tilkostnað réttarkerfisins út af máli sem þessu. Gat virkilega ENGINN sparað bæði manninum og samfélaginu angur og fyrirhöfn með því að setja málið út af borðinu?

Hvað er að? 


Verst finnst mér - svona eftir á að hyggja  - að árans keppurinn skyldi aftur hafa lent á búðarhillunni. Hann hefur vafalaust endað á haugunum um síðir, með öðrum fyrningum. Angry

 


Sóley og Katrín Anna sérstakir gestir hjá mér á morgun

Það er ekkert lát á femínistaumræðunni.

Annað kvöld - föstudagskvöld - verður þátturinn minn á ÍNN helgaður kvennabaráttu og jafnrétti. Þær Sóley Tómasdóttir og Katrín Anna Guðmundsdóttir verða gestir í þættinum og við mun BARA tala um kvenréttindabaráttuna: Umræðuna eins og hún  hefur verið að undanförnu, baráttuaðferðir femínista, Silfur Egils, bleikt og blátt ... það verður allur pakkinn Whistling

 

Þátturinn "Mér finnst", rás-20 á Digital Ísland kl. 21:00 annað kvöld. Sjáumst Kissing


Dauðþreyttar eftir Danmerkurferð

 Við Saga komum  heim frá Danmörku í kvöld. Kúguppgefnar eftir hálfs sólarhrings ferðalag.

P1000326 Vorum vaknaðar fyrir allar aldir til þess að ná lestinni kl. 8 frá Árósum. Sú ferð tók þrjá og hálfan tíma. Síðan röltum við um á flugvellinum. Þar varð seinkun á flugi. Svo sátum við í klukkutíma í vélinni áður en hún fór í loftið. Flugið tók um þrjá tíma. Það stytti okkur stundir að í sætaröðinni hjá okkur sat sjö ára patti sem spjallaði við okkur á leiðinni -  Anton heitir hann og var hvergi banginn þó hann þyrfti að sitja hjá tveimur bláókunnugum konum. Raunar vissi hann af foreldrum og systur í röðinni fyrir aftan  - en samt. Vel af sér vikið hjá honum.

Jæja, það tók óratíma að fá bílaleigubílinn sem átti að bíða okkar á Keflavíkurflugvelli. Mikil skriffinska og vesen. Loks þegar við vorum sestar upp í hann með allt okkar hafurtask (sem var nú ekkert smáræði skal ég segja ykkur enda fjórir verslunardagar að baki Smile), þá fór blessaður bíllinn ekki í gang. Angry

Toyota er nefnilega komin með einhvern nýjan fítus í sjálfskiptinguna á þessum bílum, þannig að það þarf flóknar og samhæfðar aðgerðir bremsu, stýris og gírstangar til þess að koma vélinni í gang. Þarna sátum við mæðgurnar í myrkrinu, ráðvilltar á svip, með starfsmann bílaleigunnar í símanum að útskýra fyrir okkur hvað bæri að gera til þess að fá straum á vélina. Og ekkert gerðist - lengi vel.

P1000329 Jæja, svo kom þetta nú. Og heim erum við komnar eftir skemmtilega samverustund með Maddý minni í Árósum, þar sem hún er búin að koma sér vel fyrir. Við skoðuðum skólann hennar og vinnustofuna. Fórum á jólamarkaði - lágum í leti og spjölluðum. Síðast en ekki síst VERSLUÐUM við yfir okkur. Er eiginlega búin að gera jólainnkaupin - þannig að fjórtándi jólasveinninn - Kortaklippir  - hrellir mig ekkert sérlega - ég er eiginlega BÚIN að versla fyrir jólin Smile.

 Það var notalegt að koma aftur til Danmerkur eftir langa hríð. Rifja upp stemninguna sem fylgir aðventunni hjá þessari frændþjóð okkar. Þeir eru í "hygge" allan desembermánuð - og kunna svo sannarlega að njóta þess. 

Virkilega skemmtileg ferð.   

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband