Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
Femínismi og rasismi
2.12.2007 | 22:47
Femínistar eiga ekki upp á pallborðið í bloggheimum um þessar mundir. Mér satt að segja hrýs hugur við þeim munnsöfnuði sem fram hefur komið í þeirra garð að undanförnu. Um leið velti ég því fyrir mér hvað valdi þessu.
Fyrir tuttugu árum - þegar ég var enn ung og bjartsýn kona - taldi ég að við konur stæðum á þröskuldi þess að ná fram fullu jafnrétti. Að vísu heyrði maður stundum talað í fyrirlitningartóni um rauðsokkurnar. Það var sami tónninn og heyrðist þegar "allaballa" og hernámsandstæðinga bar á góma. Þá fylgdi jafnan viðskeytið "lið" (þetta hernámsandstæðingalið - þetta vinstralið).
Jæja, þetta var þá. Ég trúði því statt og stöðugt að svona yrði þetta ekki lengi. Og þegar dætur mínar fæddust leyfði ég mér satt að segja að vera bjartsýn fyrir þeirra hönd. Trúði því að þegar þær kæmust á minn aldur (sem þær eru á núna) myndi þjóðfélagið líta allt öðruvísi út, og tækifæri ungra kvenna verða hin sömu og tækifæri ungra karla. Þá á ég ekki bara við atvinnutækifæri og menntun heldur líka kaup og kjör, að ég tali nú ekki um virðingu fyrir konum.
Jæja. Mikið vatn er til sjávar runnið, og vissulega hefur ýmislegt áunnist. Konur eru meirihluti þeirra sem stunda háskólanám. Og þær eru að hasla sér völl á vísindasviðinu. Nú nýlega voru tíu stúdentar verðlaunaðir fyrir framúrskarandi vísindastörf í raunvísindum - þar af átta stúlkur. Ó, já. Konurnar eru að standa sig. Þær geta og vilja. Ég held þær þori líka.
Samt er enn langt í land að þær njóti kjara og tækifæra til jafns við karlmenn. Enn eru stjórnir fyrirtækja að stærstum hluta skipaðar körlum. Kannanir sýna að konur eiga enn langt í land með að ná launajafnrétti. Í opinberri umræðu eiga þær líka undir högg að sækja - einkum þær sem standa fremstar í flokki fyrir kvenréttindum.
Nú má vera að forsvarsmenn femínista hafi í einhverju farið of geyst - eða öllu heldur teygt baráttuna inn á ómarkvissar brautir. Sjálf get ég verið þeim ósammála um eitt og annað (nefni bara nýlega umræðu um bleik og blá ungbarnaföt). Hvað um það. Ég er þeim þakklát fyrir að halda uppi umræðu um kvenréttindi. Við þurfum ekki að vera sammála um alla hluti. En ég er þeim sannarlega þakklát fyrir að standa fremstar í flokki og halda umræðunni áfram þrátt fyrir oft á tíðum neikvæð viðbrögð og niðrandi umtal.
Því finnst mér nóg komið af munnsöfnuði og ofstopa þeirra sem ekki eru sammála talsmönnum kvenréttinda hér á netinu. Sumt af því sem hér hefur verið látið fjúka er ekkert annað en rasismi sem beinist að tilteknum skoðanahópi. Sú tilhneiging að skipta málsmetandi konum í tvo hópa, femínista og svo aðrar konur, er heldur ekki gæfuleg að mínu mati.
Hver er mælikvarðinn á femínista? Er orðið femínisti orðið skammaryrði? Ef svo er, þá er kominn tími til fyrir okkur konur að spyrna við fótum og taka til varna fyrir þær konur sem standa fremstar í þessari víglínu. Þær eru ekki að berjast fyrir sig einar. Munum það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (72)