Heimatilbúnar aðventuhefðir

adventukrans Ég er ekki alin upp við sérstakar aðventuhefðir. Á mínu bernskuheimili voru einfaldlega haldin íslensk jól, og þau hófust á aðfangadag að undangengnum kökubakstri og hreingerningum. Jólaseríur fóru upp í síðustu vikunni fyrir jól - kannski í einn glugga eða tvo. Það er því hreingerningastúss, saumaskapur og ilmurinn af jólabakstri sem lifir sem mín aðventuminning úr bernsku.

Þegar ég fór sjálf að halda heimili héldu aðventusiðir innreið sína í fjölskyldulíf mitt, aðventukrans og jólastjarna, seríur utan á húsið og í glugga. Minna fór fyrir hreingerningum og kökubakstri, en meira var af kertaljósum og kósíheitum í desember. Einn er þó sá kökubakstur sem til nýjunga heyrir á mínu heimili en er að verða föst hefð - og það er enska jólakakan sem ég baka 8-12 vikum fyrir jól.  Hún er runnin undan rifjum mágs míns, Paul Newton, sem er Breti eins og nafnið gefur til kynna.

Það er rammur gjörningur að baka þessa köku og líkist því helst að magna upp tilbera eins og þeirri kúnst er lýst í þjóðsögunum. Kakan er bökuð marga klukkutíma í ofni, síðan vafin í margfaldar umbúðir og loftþétt ílát og látin standa á köldum stað. Hún er svo tekin fram vikulega og dreypt á hana víni fram að jólum - en þá er hún pensluð með bræddu apríkósumauki og smurð dýrindis marsípankremi og telst þá fullgerð.

Síðustu árin hefur það verið fastur liður hjá okkur Sigga að mæta í afmælis/aðventuboð hjá vinkonu minni suður í Reykjavík, fyrstu helgina í desember. Þá notum við tækifærið og kaupum þær jólagjafir sem eiga að verða eftir fyrir sunnan. Þessi samverustund með góðum vinum, við síldarrétti, jólasnafs og aðrar veitingar, kemur okkur ævinlega í jólaskapið - þannig að þegar við komum heim úr þessum leiðangri má segja að undirbúningur jólanna sé hafinn.

Um svipað leyti hefst baukið við að koma jólaseríum á þakskeggið. Siggi fer upp í stiga, aðrir í fjölskyldunni fylgjast með í lotningu. Svo hefst viðureignin við seríuflækjuna, leit að varaperum, við að greiða úr og rétta honum snúruna upp í stigann. Nú orðið lendir þessi aðstoðarvinna mest á yngsta syninum, en ég sæti færis að smjúga inn í hús og skreyta svolítið þar.

Því hefur fylgt ákveðin serimónía á heimilinu þegar kveikt er á aðventukertum. Þá kemur fjölskyldan að kransinum og við syngjum viðeigandi vers í aðventusálminum. "Við kveikjum einu kerti á"  er sungið fyrsta sunnudag, næst eru sungin tvö vers og sunnudaginn fyrir aðfangadag eru öll erindin fjögur sungin. Þessi siður varð einhvern veginn til með börnunum okkar. Mér finnst alltaf mjög hátíðlegt að sjá kertaljósið lýsa upp andlit lítilla barna við þetta tækifæri .... en .... huhummm

..... núna er litla barnið á heimilinu að verða fjórtán og "glætan" að hann syngi með mömmu sinni "Við kveikjum einu kerti á" við aðventukransinn.  GetLost Hinsvegar .... 

.... þegar hann sér okkur sitja við kertaljós og smákökur að skrifa jólakortin, líður hann til okkar eins og reykur, sest steinþeigjandi að borðinu og teygir sig eftir korti til að skrifa til vinar í Reykjavík. Wink Tungan út um annað munnvikið. Það gerir sama gagn fyrir mömmuhjartað.

bresk_jol1_290403


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg færsla.

Það er gott að sjá að einhver tekur þetta aðventustúss og jólatilstand ekki of alvarlega. Enda eru það auðvitað "kósíheitin" sem skipta mestu máli, ekki hreingerningastúss og kökubakstur.

Guðrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 19.12.2007 kl. 10:57

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er málið, samvera og friðsæld. Hafið það sem allra best.

Ásdís Sigurðardóttir, 19.12.2007 kl. 11:42

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.12.2007 kl. 13:00

4 identicon

Svipað lífstilvik hér á Akureyri. Stúlkan 14 ára, en pabbahjartað sama.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 19.12.2007 kl. 20:16

5 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Fallegt, Ólína mín. Þessar samverustundir fjölskyldunnar gefa lífinu mikið gildi. Vittu til, Hjörvar á eftir að syngja aftur síðar við aðventukransinn.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 19.12.2007 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband