Össur lætur vaða

Össur Össur Skarphéðinsson er frábær rithöfundur. Ég hef verið aðdáandi hans á því sviði í fjölmörg ár enda fáum lagið að koma orðum að hugmyndum sínum og skoðunum á sama hátt og hann gerir jafnan. Að því leyti ber Össur nafn með réttu. Hann er örninn sem flýgur fugla hæst í forsal hinna pólitísku sviptivinda þegar hann beitir stílvopninu og tekst vel upp í skrifum um menn og málefni. 

Gísli Marteinn Baldursson er frambærilegur pólitíkus sem ég hef GisliMarteinnlengi haft dálæti á - aðallega fyrir það hvað hann er kurteis og vel máli farinn. Ég hef gert mér þá mynd af manninum að hann sé fulltrúi uppvaxandi kynslóðar í stjórnmálum, kynslóðar sem vill nýjar áherslur og aðferðir. Vissulega þykist ég sjá  - ekki síður en Össur - að Gísli Marteinn hefur að undanförnu viðhaft aðferðir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins sem ekki hafa reynst flokknum farsælar og verða seint skilgreindar sem foringjahollusta. Hann er svosem ekki einn um það. Ég man ekki betur en allur borgarstjórnarflokkurinn að Vilhjálmi undanskildum hafi gengið á fund formanns og varaformanns flokksins til þess að ræða um foringja sinn að honum fjarstöddum. Þeim var veitt móttaka og áheyrn - án foringja síns. Hvað segir það um móralinn í flokknum?

Gísli Martein er ungur maður - hann er enn að læra. Og ungt fólk þarf að fá svigrúm til að læra í lífinu. Það ætti Össur að vita.

Bloggfærsla Össurar um Gísla Martein Baldursson er snilldar vel skrifuð - því verður ekki á móti mælt. En hún er óvægin - allt of óvægin. Og ég spyr mig hvað valdi þessum tilfinningaþunga hjá iðnaðarráðherra í garð "sjónvarpsdrengsins" sem hann nefnir svo.

Hitt er svo annað mál, að Össur er ekki þarna að gagnrýna samstarfsmann í ríkisstjórn - og því hljóma dulbúnar hótanir Sigurðar Kára Kristjánssonar um áhrif þessa á ríkisstjórnarsamstarfið hálf kjánalega. Össur er þarna að skrifa um skoðun sína á borgarmálefnum og pólitískum vandræðagangi í Reykjavík. Hann skrifar utan síns lögbundna vinnutíma, í eigin frítíma, á eigin bloggsíðu. Skrif hans ættu ekki að bifa meira við ríkisstjórnarsamstarfinu nú en skrif Björns Bjarnasonar á sínum tíma þegar hann réðist að foringja Samfylkingarinnar í borgarstjórn sem hann kallaði "pólitískan loddara" ef mig misminnir ekki.

Það var því hálf hjákátlegt að sjá Sigurð Kára standa á öndinni af hneykslan í sjónvarpinu í kvöld - ekki bara í ljósi þess hvernig Björn hefur skrifað - heldur vegna þess hvernig Sigurður Kári hefur sjálfur talað um aðra stjórnmálamenn. Ekki er ýkja langt síðan hann kallaði borgarfulltrúa í Reykjavík spilltasta og siðlausasta stjórnmálamann landsins, ef ég man rétt.

Sú orðræða sem hér er vísað til er hinsvegar leiðinleg. Persónulegar árásir eru blettur á íslenskri stjórnmálaumræðu - já og opinberri umræðu almennt og yfirleitt.

Þar er við ýmsa að sakast, ekki síst fjölmiðlana, sem alltaf eru tilbúnir að éta upp allt sem mönnum dettur í hug að segja um náungann, hversu rætið og ómerkilegt sem það er. Er þess skemmst að minnast þegar "hnífasettsmálið" fræga komst í umræðuna. Drottningarviðtal við framsóknarmann sem taldi sig eiga harma að hefna á öðrum framsóknarmanni vegna þess að sá síðarnefndi taldi þann fyrrnefnda ekki hafa kjörþokka. Þessu var sjónvarpað yfir landslýð - rætnum sögum um óskemmtileg samskipti þessara tveggja manna. Ég hef enn ekki fengið botn í það hvað okkur landsmönnum kom þetta við. En það er annað mál.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gulli litli

Hvernig væri nú ad verja Gísla Martein nú eins og tú vardir Ólaf gagnvart spaugstofunni um daginn?

Gulli litli, 21.2.2008 kl. 21:08

2 Smámynd: Ár & síð

Mig minnir að fólk hafi snúist til varna vegna hæðnislegrar umfjöllunar um sjúkdóm Ólafs. Hvaða sjúkdóm telur Gulli litli að Gísli Marteinn sé með?

Ár & síð, 21.2.2008 kl. 21:15

3 Smámynd: Gulli litli

Er einhver svo lítill kall ad hann verdskuldi róg og teim sem róginn ber obinberlega rétt rós fyrir snildartakta í rædumennsku. Tad er greinilega ekki sama hver er... Annars er pólitík leidindatík tar sem tvískinnungur telst kostur.

Gulli litli, 21.2.2008 kl. 21:24

4 Smámynd: Calvín

Það þarf að setja orð ráðherrans í samhengi við REI málið og alla milljarðanna sem Össur taldi að þjóðarbúið væri að tapa með framgöngu sexmenninganna. Einnig þarf að taka með í reikninginn "vinskap" Össurar við hinn fallna foringja Framsóknarmanna Björn Inga sem Össur hafði mikið álit á. Gísli Marteinn átti þátt í að dæma hann í útlegð ásamt öllum milljörðunum "ofurbusinessmanna" þjóðarinnar. Allt fór þetta fyrir lítið og Össur og aðrir kenna Gísla Marteini um... Sjá blogg um össurisma.

Calvín, 21.2.2008 kl. 21:34

5 identicon

Rætin níðskrif verða ekkert betri þó þau séu "snilldar vel skrifuð". Heldur þvert á móti- áhrifamáttur þeirra verður enn meiri.

Þessi blogfærsla Össurar batnar ekkert  þó bent sé á "hnífasettsmál" og "drotningarviðtal við framsóknarmann". Þessi skrif Össurar voru algerlega ástæðulaus og honum til skammar.

Og mér fannst Sigurður Kári rökfastur og kurteis að vanda í í Kastljósinu í kvöld. Og ég gat ekki annað séð en að öndunin hjá honum  væri bara í góðu jafnvægi.

Össur hefur kveinkað sér á opinberum vettvangi undan óvægnum skrifum og lýst því á tilfinningaþrungin hátt hvernig hann reyndi að forða því að dætur hans læsu eitthvað ljótt um pabba gamla. Hann ætti því ekki að ástunda það sjálfur sem honum finnst miður heppilegt hjá öðrum. Það eiga nefnilega fleiri en hann börn og ættingja.

Og varla eru þetta umræðustjórnmálin sem Samfylkingin hefur boðað í ræðu og riti. 

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 21:36

6 identicon

Ólína.

Ósköp er að lesa ofanritað frá þér. Ertu virkilega svona lítilla sanda og sæva?

Flokks- og fyrrverandi foryngjahollysta þín ríður ekki við einteyming.

Þegar Össur segist í sl. janúar hafa hent dagblöðum, grátklökkur, með ljótum skrifum um sjálfan sig, svo dætur sínar sæu ekki skrifin, þá skrifar hann hálfu verra, meira persónulegra níð og ljótara um pólitískan andstæðing sinn, og hefur engar áhyggjur af væntanlegum lestri barna hans á óþverranum.

Hvílíkur hræsnari.

Og þú, þú sjálf reynir að verja þetta.

Skammastu þín. 

Þú sem máttir að mínu mati hljóta íllgjörn og óverðskulduð skrif um þig sjálfa áður en þú flæmdist frá menntaskólanum á Ísafirði, dettur þú í sama pytt? Ertu bara ekkert betri sjálf? Ríður flokkshollusta þín skynseminni og manngæskunni ofurliði?

Össurá að skammast sín. Skammast sín og biðjast afsökunar.

Hvorki þú né önnur flokksystkini hans eiga að reyna að verja hann.

Það er feigðarflan.

Guðm. R.Ingvason

Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 21:40

7 identicon

Þið sem hafið kommenterað á þessa færslu, lásuð þið hana ekki? Hvar kemur fram að Ólína sé að verja það með hvaða hætti Össur talar um Gísla Martein?

Mér sýnist hún nú vera mótfallin aðferðunum þá hún sé annars hrifin af ritstíl Össurar.

Af kynnum mínum af Ólínu hingað til hefur mér lærst að hún er síðasta manneskja sem myndi mæla bót ómálefnalegum aðdróttunum og skætingi, hvort sem er á pólitískum vettvangi eða öðrum.

Góðar stundir, Erla Rún.

Erla Rún (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 22:14

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég las færslu Ólínu, svo athugasemdirnar og ég varð að lesa færsluna aftur því ég náði ekki gagnrýninni í athugasemdunum. Ég fæ með engu móti séð að Ólína sé að afsaka skrif Össurar. Þvert á móti - hún gagnrýnir þau í tvígang í færslunni.

Á öðrum staðnum segir Ólína: "En hún er óvægin - allt of óvægin." Á hinum staðnum segir hún: "Sú orðræða sem hér er vísað til er hinsvegar leiðinleg. Persónulegar árásir eru blettur á íslenskri stjórnmálaumræðu - já og opinberri umræðu almennt og yfirleitt."

Það er alltaf leiðinlegt að lesa athugasemdir þar sem skín í gegn að viðkomandi hafi alls ekki lesið það sem hann er að gagnrýna.

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.2.2008 kl. 22:29

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk Erla Rún fyrir þín orð.

Það er augljóslega mikill tilfinningahiti í þessu máli - og sumir það æstir að þeir gefa sér ekki tíma til að lesa það sem þeir eru að tjá sig um. 

Guðmundur R. Ingvarsson ætti að telja upp að tíu - draga andann djúpt - og lesa svo færsluna á nýjan leik. Þá sér hann væntanlega að það fór fyrir honum eins og Össuri - að skjóta yfir markið.

Hér hefur engum vörnum verið haldið uppi fyrir persónuárásum eða ómálefnalegum skrifum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 21.2.2008 kl. 22:29

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Og takk Hanna Lára - ég hafði ekki séð þína athugasemd þegar ég birt mína hér fyrir ofan. Það er gott að eiga góða að í umræðunni stundum

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 21.2.2008 kl. 22:33

11 identicon

Ég tek undir með þeim Hönnu Láru og Erlu Rún. Ég get ekki séð að Ólína hafi varið Össur í þessari færslu - þvert á móti setur hún ofan í við hann þó hún hæli honum fyrir rithöfundarhæfileikann. Mér finnst nú að þessu Guðmundur R. megi skammast sín fyrir ofsann í sinni athugasemd.

Mér hefur alltaf fundist Ólína skrifa mjög sjálfstætt og málefnalega - og hún virðist óhrædd við að gagnrýna og hrósa því sem hún hefur skoðun á. Blessunarlega laus við flokkshlýðni, hefur mér sýnst.

Kristín Helga (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 22:39

12 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Góður pistill hjá þér Ólína.

Hafa ekki allir góðir skrifarar lent í því einhverntímann að ritlistin tekur völdin, penninn fær sitt sjálfstæða líf um stund.  

Marta B Helgadóttir, 21.2.2008 kl. 23:28

13 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Sæl Ólína!

Verð nú að taka undir með Láru Hönnu (ekki öfugt) og fleirum, eins og svo oft á blogginu fara menn hreinlega yfir um af skjótfengnum gremjuköstum og gera sig um leið af algjörum fíflum!

En sama er mér.

Eins og þú segir er ritsnilld össurar viðblasandi, en þér finnst hann ganga of langt í innihaldinu og skjóta já yfir markið. En hvernig og hvers vegna í ósköpunum?

Þetta er einfaldlega snilldarleg háðsprýdd ádeila hjá honum, en já vissulega líka HÁRBEITT!

Gagnrýnin á hana sem og þig hérna, finnst mér alveg yfirþyrmandi eymdarleg, eintómt væl og órökstutt bull!

Magnús Geir Guðmundsson, 22.2.2008 kl. 00:07

14 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Ólína þú ert frábær að skrifa um þetta. Ég get ekki leynt þvi að mér finnst mjög oft svör og útúrsnúningur á pistlum bloggverja til skammar. Það er erfitt þegar ekki er hægt að aðskilja persónur frá því sem þær gera pólitík, kannski er Össur góður penni (hef ekki kynnt mér þeð sérstaklega) en í þessu tilviki um leið og Össur kallar Gísla "sjónvarpsdrenginn" finnst mér eins og það vanti í hann virðingu fyrir þeim sem yngri eru og ákveðna föðurímynd í stjórnmálum nútímans, þar sem Össur gæti verið faðir Gísla miðað við aldur. En kannski er Össur seinþroska í föðurhlutverkinu, hann byrjaði svo seint, ætli Gísli hafi bara ekki verið á undan honum í föðurhlutverkinu?

Edda Agnarsdóttir, 22.2.2008 kl. 00:12

15 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæl Ólína, mikið er ég sammála þér. Össur er snilldarpenni og færsla hans um Gísla Martein var lipurlega skrifuð þó hún hafi verið færð ansi mikið í stílinn. Þessi skrif, væru þau skrifuð af einhverjum öðrum, væru vart í umræðunni. Þar liggur hundurinn grafinn... Össur er ekki óbreyttur borgari, hann er þingmaður og ekki nóg með það hann er ráðherra! Hann verður því að gæta sín umfram aðra í skrifum sínum. Í umræddri færslu dansar hann algjörlega á línunni. Þetta verður hann að fara að læra og reyndar tel ég að það væri góðverk ef fleiri en þú bentir honum á það að "stundum má satt kyrrt liggja!"

Ingibjörg Hinriksdóttir, 22.2.2008 kl. 00:28

16 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Össur er að verða brjálaður á lofthausunum sem íhaldið hefur sett í ráðherraembætti og get ég ekki láð honum það. Hann vegur nú húskarla þessarra lofthausa. Stay tuned.

Baldur Fjölnisson, 22.2.2008 kl. 00:47

17 Smámynd: Tiger

  Brilljant færsla hjá þér Ólína. Verð að viðurkenna að ég gat ekki annað en glott af og til þegar ég las hana, er sammála þér með hvert orð í raun og veru. Ég glotti þó ekki síður þegar ég las sumar athugasemdirnar. Ótrúlega fljótfærir bloggarar sem voru svo fljótir til því þeir héldu að nú væru þeir með málefnalegar skammarræður á bloggarann Ólínu. Þeir hefðu betur lesið betur, eða bara lesið yfir höfuð - þá hefðu þeir ekki skrifað eitt aukatekið orð. 

Ég verð þó að segja það að mér finnst alveg hreint út ótrúlegt hvað við smáborgarnir erum alltaf fljót að afhausa alla sem gera eitthvað öðruvísi en "ætlast er til" af þeim.

Mér þykir það virkilega undarlegt að engin skuli geta virt það að Persónan Össur þarf ekki nauðsynlega að vera Ráðherrann Össur. Ráðherrann Össur þarf að sitja á hesti sínum og gæta alls velsæmis. Ráðherrann Össur þarf að gæta fyllstu varúðar í öllum samskiptum við aðra í pólitíkinni - eða þannig.

Aftur á móti finnst mér að Persónan Össur ætti að fá að vera í friði með sitt persónulega einkalíf, einkablogg, einka hvað sem er...

Persónan Össur klæðir sig úr Ráðherranum Össuri að vinnudegi loknum og leggur hann á skrifborðið, býður honum góða nótt og fer svo heim í skjól sitt sem venjuleg persóna.

Þar ætti Persónan Össur að geta farið í náttsloppinn sinn, fengið sér kaffibolla og jafnvel pípu - kveikt á tölvunni og farið að blogga um það sem honum langar til að blogga um, rétt eins og við öll gerum. Ráðherrann Össur er á skrifborðinu í vinnunni en Persónan Össur er að blogga heima hjá sér í eigin tölvu og í eigin bloggi - látum hann í friði.

  Takk fyrir mig og afsakaðu svefngalsann.

Tiger, 22.2.2008 kl. 02:38

18 Smámynd: Guðmundur Jóhannsson

Þessi færsla þín er ágæt en full af fínum "hnífstungum", ég sé ekki betur en að þú notir átök innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna til að mæra "snilldar" skrif Össurar.  Munurinn  á þínum skrifum og á Össurar er sá að maður þarf að lesa þín skrif tvisvar til að finna "stungurnar" en Össur setur þær þannig fram að maður verður orðlaus.  Hvaða merkingu lesum við úr. "  En hún er óvægin - allt of óvægin ". Óvægin er svona fullorðins, karlmannlegt.  Lesa má á milli línana, herðum duglega í stráknum, hann þarf að þola svona skrif.  Þarna hefði átt að standa, allt of skítleg og ómálefnaleg.

Ekki gat ég fundið þessa dulbúnu hótun Sigurðar Kára sem þu talar um, þvert á móti sagði hann að samstarfið þyldi meiri ágjöf en þetta.  Hann var samt greinilega mjög ósáttur við skrif Össurar og taldi þau ekki auka á samstarfsgleðina við Össur. 

Svo er það nú þannig að maður er ráðherra allan sólahringinn og hagar sé sem slíkur, hitt er kallað "klofinn persónuleiki".  Þessi orðræða kemur óorði á alla stjórnmálamenn og verður til þess að ungt forðast stjórnmál, þökk sé "snilldar pennum"

Ég ætla að vona að formaður samfylkinngar og hinn almenni flokksmaður sendi Össuri skýr skilaboð um að haga skrifum sínum um mótherjana á málefnalegan hátt í framtíðinni. 

Guðmundur Jóhannsson, 22.2.2008 kl. 06:00

19 Smámynd: Sævar Helgason

Er Össur nokkuð annað að gera en að fjalla um borgarstjóramanninn Gísla Martein , störf hans bæði góð og það sem lakar hefur gengið ?

Mér finnst blogg Össurar vera algjör snilld kvað varðar notkun á mikilvirku myndlíkingarmáli til að koma  því að í stuttum texta sem hann telur máli skipta.

En það er greinilegt að sitt sýnist hverjum. 

Sævar Helgason, 22.2.2008 kl. 09:24

20 identicon

Ekkert að pistli þínum Ólína. Mér líst ekki á það að Sigurður Kári sé settur sem siðskrifarýnir á báðum stöðvum. Ég er sammála þér og Lúlla. En það má ekki slíta þetta úr samhengi og nafni virkaði eins og píslavottur. Merkilegir tímar, menn eru annað hvort með hnífa- eða pennasett í bakinu.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 11:29

21 identicon

Ef lesið er á milli línanna, getur hver vel lesandi maður lesið, að Ólína er að mæra Össur fyrir þessi níðskrif sín um Gísla Martein.

Þó svo að Össur fari úr vinnugallanum að kvöldi dags og láti gamminn geisa, þá eru þessi skrif hans ekkert til að mæra.  Orð hans skýra sig sjálf.  Svona hugsar hann til annarra. 

Það hafa verið langar biðraðir við handvaskinn af Samfylkingarfólki, sem hamast við að hvítþvo Össur af þessum skrifum hans. 

Einungis Samfylkingarfólk sér hið jákvæða í þessum skrifum hans.  Það sést líka á athugasemdum við þessa færslu Ólínu, að vinkonur hennar úr Samfylkingunni eru að hrósa henni fyrir skrifin og þykjas svo ekki sjá neitt ljótt við skrif Össurar.

Spurningin er bara, á Össur þá bara nokkuð heima í pólitík??  Hann hefur ekki komið neinu af viti í verk sem Inaðar- og byggðamálaráðherrra annað en að ráða pólitíska vini sína í góð embætti hjá hinu opinbera, enda er Samfylkingin orðin að stærstu vinnumiðlun landsins. 

Fyrst að Össi er svona mikill snilldarpenni, því hættir hann ekki í pólitík og gerist rithöfundur??  Hann gæti skrifað ágætis skemmtisögur um Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn sem hafa orðið fyrir óhöppum í pólitík og þannig skemmt landslýð.

Gunnar Afdal (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 11:39

22 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Mikið vildi ég að snillingurinn hér að ofan gæti bæði fundið fyrir mig flokkskírteinið mitt í Samfylkingunni og það sem enn betra væri, konuna í mér!

Magnús Geir Guðmundsson, 22.2.2008 kl. 12:07

23 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Góður, Magnús Geir...   Hann má í leiðinni finna mitt flokksskírteini - í einhverjum flokki - en hann þarf hins vegar ekki að finna konuna í mér, hún er á sínum stað.

Svo þarf snillingurinn að læra betur að lesa - eða þjálfa svokallaðan lesskilning. Hér er ekki verið að mæra skrif Össurar eða hvítþvo hann af skrifunum, síður en svo.

Annars á maður ekki að svara svona skrifum, einkum þar sem skrifað er undir dulnefni...

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.2.2008 kl. 12:15

24 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir innlegg ykkar - sérstaklega tvær síðustu athugasemdirnar, Magnús Geir og Lára Hanna (fyrirgefðu að ég sneri nafninu þínu við hér ofar). Ég hef engu við þær að bæta. 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.2.2008 kl. 13:25

25 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þegar ég sé sumar athugasemdirnar datt mér í hug maðurinn í áramóraskaupinu, sem rauk til að blogga, algerlega án þess að kynna sér málið, þegar konan hans las einhverja fyrirsögnina.

lesa fyrst. kommenta svo.

annars get ég vel tekið undir þennan pistil. þarna er dæmalaust beittur penni á ferð og oft unun að lesa. ég veit ekki hvort mér finnist pistillinn rætinn, en líklega hefði mátt skrifa af meiri virðingu eða tillitsemi. aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Brjánn Guðjónsson, 22.2.2008 kl. 13:45

26 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þá á ég við þinn pistil, Ólína

Brjánn Guðjónsson, 22.2.2008 kl. 13:46

27 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Ég sé ekki hvernig menn geta fundið róg eða aðdróttanir í garð Gísla Marteins í þessum pistli. Það þarf ekki glöggan mann til þess að sjá að Ólína er að gagnrýna rætin og ómálefnaleg skrif um einstaklinga. Mér finnst pistillinn málefnalegur og rökfastur - eins og Ólínu er von og vísa. Ég var alls ekki ánægð með skrif Össurar og tel þau fyrir neðan virðingu hans. Ef menn skoðanir, geta þeir sett þær fram á annan hátt en þennan.

Ég tek undir með Láru Hönnu og fleirum sem hafa heilbrigðar skoðanir á færslu Ólínu.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 22.2.2008 kl. 14:06

28 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Æ, núj ætla ég ekki að gera neinn ágreining við ykkur ágætu konur, en hvað varðar grein Össurar, er ég algjörlega ósammála ykkur að þeirri einföldu ástæðu að ég hef fyrir það fyrsta bæði lesið og hlustað á þá sem kveinka sér hæst núna fara með miklu alvarlegri og rætnari málflutning, sem í alvöru var til þess gjörður að laska viðkomandi!

Munið þið til dæmis ekki lengur eftir hvernig meðferð og það árum saman Alfreð nokkur Þorsteinsson fékk að ha´lfu D listamanna og skipti þá engu að allan þann tíma voru Framsóknarmenn með þeim í ríkisstjórn á sama tíma!

Hann var na´nast stimplaður sem glæpamaður sem gengi í sjóði borgarinnar að vild vegna ýmisa skoðana hans og verka m.a. sem formaður stjórnar O.R.Ég þarf væntanlega ekki að rifja þetta frekar upp í smáatriðum.Allt þetta vol og væl nú, kjökur og ég veit ekki hvað, er reyndar ekki úr munni vissra manna marktækara en svo, að það þjónar aðeins þeim tilgangi sem svo oft áður hefur verið beitt í pólitíkinni, að beina athyglinni frá eigin vitleysis- og vandræðagangi! "Smjörklípuaðferð" geta menn kallað það eða tilbrigði við hana, en í jósi ruglsins í borginni (sem blessaður karlinn hann vilhjálmur ætlar að viðhalda eins og fram hefur komið í fréttum) grípa nú fulltrúar stóra flokksins hvert hálmstrá til að beina kastljósinu annað!

Þetta finnst mér nú liggja í augum uppi.

Hvernig dettur svo nokkrum manni í hug að stjornarsamstarfið í alvöru skjálfi út af þessu? Menn selja sig nú dýrar en svo til að glata völdunum, það er örugglega það síðasta sem Geir Haarde gæti hugsað sér núna eins og ástandið er, að slíta stjórninni og það þótt einn og einn liðsmanna hans kveinki sér og það í alvöru!

Meira og miklu fleira þyrfti nú til. Eins og við vitum reynir nú og mun reyna heldur betur á getu stjórnarinnar í raun og sann að sigla þolanlega gegnum þá erfiðleika sem upp eru komnir og að líkum ´sér enn ekki fyrir endan á. Af því ættum við frekar að huga en ekki einvherju röfli og ramakveini sem er ef eitthvað er, bara stormur í vatnsglasi!

Magnús Geir Guðmundsson, 22.2.2008 kl. 23:18

29 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég skynja nú ekki snilldina í Össuri. Stóryrði eru ekki snilld - nema einstaka sinnum. En ekki hjá honum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.2.2008 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband