Færsluflokkur: Sjónvarp
Markaðstorg þjóðanna. Getspeki Sigmars.
25.5.2008 | 13:19
Mikið déskoti var Sigmar seigur að giska á einkunnagjöf þjóðanna í Júróvisjóninni í gær. Það er eiginlega það sem stendur upp úr - svona fyrir utan frammistöðu Íslendinganna í keppninni.
Getspeki Sigmars segir manni það líka að tónlistin sjálf skipar æ minni sess í þessari keppni. Þetta er auðvitað fyrst og fremst markaðstorg þar sem þjóðirnar keppast við að vekja athygli á sér og auglýsa sig fyrir fjárfestum, ferðamönnum, alþjóðlegum verslunarkeðjum og þar fram eftir götum. Og það er orðið átakanlega fyrirsjáanlegt hvernig atkvæði falla milli þjóða og svæða. Við Íslendingar erum þar engin undantekning - kjósum Norðurlandaþjóðirnar og Vestur-Evrópulöndin og þiggjum þeirra stuðning á móti. Enda var það línan fyrir keppnina.
Svolítið hlálegt fannst mér að sjá Þýskaland og Lettland fá tólf stig einhversstaðar frá - svona í ljósi þess að flutningur þeirra var alveg rammfalskur á köflum. Reyndar finnst mér með ólíkindum að sjónvarpsáhorfendur skuli þurfa að hlusta á rammfalskan söng í jafn tæknivæddri útsendingu og Júróvisjón - þar sem keppendurnir eiga að vera það sem stendur upp úr eftir undankeppnir. Ég heyrði ekki betur en Rúmeníuframlagið hafi líka verið falskt - jafnvel sænska lagið á köflum.
Þess vegna hefði ég orðið móðguð ef við Íslendingar hefðum ekki komist upp fyrir Svía. Segi það satt. Okkar flytjendur slógu hvergi feilnótu og fóru aldrei út af sporinu - heldur voru landi og þjóð til mikils sóma.
Takk fyrir það.
Glæsilegt hjá Eurobandinu
22.5.2008 | 23:54
Það gerist sjaldan - og æ sjaldnar satt að segja - að ég fyllist sannkölluðu þjóðrembustolti yfir frammistöðu Íslendinga á erlendri grundu. Seint hélt ég að ég myndi sitja með gæsahúð af gleði yfir Júróvisjón. Það hefur bara ekki gerst síðan Sigga Beinteins og Grétar Örvars flatteruðu hálfan heiminn - já, og Selma svo reyndar seinna. Því miður minnist ég þess oftar að hafa setið hálf vandræðaleg og stressuð fyrir framan skjáinn að fylgjast með okkar fulltrúum í keppninni.
En í kvöld gerðist það aftur.
Ég bókstaflega sat sem bergnumin og var að SPRINGA af stolti. Þau Regína Ósk og Friðrik Ómar ásamt félögum sínum í bakbandinu stóðu sig með sönnum sóma. Lífleg, geislandi, örugg - þetta var sko alvöru frammistaða.
Og mér er bara nákvæmlega sama hvar við lendum í þessari keppni þegar upp er staðið - ég er svo harðánægð með mitt fólk. Það var ekki hægt að gera þetta betur. Hvort Evrópa kann svo að meta þetta er önnur saga. En ég lít þá frekar á það sem evrópskt menningarvandamál ef okkar fólk fær ekki gott brautargengi í keppninni.
Ég óska okkur öllum til hamingju með þessa glæsilegu frammistöðu Júróbandsins.
Kom skemmtilega á óvart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt 23.5.2008 kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eru 700 þúsund ofurlaun?
10.5.2008 | 19:36
Einhvernveginn hefur það aldrei hvarflað að mér að starf framkvæmdastjóra miðborgarmála hafi verið búið til handa Jakobi Frímanni Magnússyni. Ég trúi borgarstjóra mæta vel þegar hann sver slíkar ásakanir af sér. Hann segist hafa leitað til ýmissa áður en kom að ráðningu Jakobs, þ.á.m . Kristínar Einarsdóttur, fyrrum miðborgarstjóra. Þessu trúi ég líka vel. Það breytir því ekki, að það átti að auglýsa stöðuna svo hæfir einstaklingar gætu gefið kost á sér til starfans.
Því get ég vel skilið að fjölmiðlar skuli spyrja gagnrýnið um ástæður þess að staðan var ekki auglýst. Þeim ber að gera það. En ég get ekki tekið andköf yfir því þó að verkefnisstjóri í krefjandi, tímabundnu starfi fái sjöhundruð þúsund krónur á mánuði. Það eru bara engin ofurlaun - jafnvel þó að margur hafi minna. Og satt að segja finnst mér sem fjölmiðlarnir hafi farið aðeins fram úr sér þarna. Ég veit vel að þetta eru engin verkamannalaun. En hvað ætli fréttamaður á sjónvarpinu hafi í mánaðarlaun þegar saman eru komin föst laun, vaktaálagið og óunna yfirvinnan (sem var umtalsverð þegar ég var og hét sem fréttamaður á sjónvarpinu)? Ætli fréttamaðurinn sem spurði borgastjóra spjörunum úr á föstudagskvöldið sé með mikið lægri laun en Jakob Frímann? Hverju skyldi muna þar?
Vitanlega er engin ástæða til þess að hlífa þeim sem fara með völdin við knýjandi spurningum um leikreglur lýðræðisins og stjórnsýslu almennt. Hitt væri kærkomið ef þeir sem ganga fram sem varðmenn almennings (og þá á ég að sjálfsögðu við fjölmiðla) gætu gert það af kurteisi og tilhlýðlegri mannvirðingu. Á það hefur skort gagnvart Ólafi F. Magnússyni.
Ég get ekki fellt mig við að fréttamenn sýni viðmælendum sínum yfirgang. Síst af öllu þegar um er að ræða virkilega góða og öfluga fréttamenn sem ég sjálf hef dálæti á.
Eitt er að krefja svara og spyrja ákveðið - framígrip og háðsglósur yfir borðið eru annað mál. Þegar tilfinningar fréttamanna eru farnar að sjást á þeim í viðtölum við ráðamenn - af ekki stærra tilefni en einni mannaráðningu - þá er tímabært fyrir þá hina sömu fréttamenn að staldra aðeins við og hugsa sinn gang.
Ég segi nú svona.
Miðborgarstjóra R-listans var boðið starfið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Gleymt er þá gleypt er
8.5.2008 | 10:07
Stundum er talað um að minni kjósenda sé gloppótt - og vika langur tími í pólitík. Að minnsta kosti hættir okkur oft til þess að gleyma jafnóðum því sem vel er gert en sjá svo ofsjónum yfir einhverju sem enn vantar.
Að undanförnu hefur Stöð-2 farið mikinn gegn Ingibjörgu Sólrúnu utanríkisráðherra vegna kosningaloforðs sem hún gaf fyrir síðustu kosningar. Svo mjög liggur fréttamönnum á að sjá þetta eina kosningaloforð efnt - nú þegar innan við fjórðungur er liðinn af kjörtímabilinu - að þeir telja niður dagana til þinghlés. Líkt og ekkert annað loforð hafi verið gefið fyrir síðustu kosningar - enginn annar stjórnmálamaður hafi opnað munninn - og ekkert hafi verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar.
Það er því tímabært að rifja upp það sem gert hefur verið á þessu eina ári sem liðið er frá kosningum - líkt og Ágúst Ólafur gerir á sinni bloggsíðu. Listinn lítur nokkurnveginn svona út:
1. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga hafa hækkað um 7,4% á þessu ári eða um 9.400 krónur til þeirra sem aðeins fá óskertar greiðslur úr almannatryggingum.
2. Þessu til viðbótar verður öllum öldruðum, sem ekki njóta a.m.k. 25.000 króna greiðslu úr lífeyrissjóði nú þegar, tryggð sérstök kjarabót sem jafngildir 25.000 króna greiðslu úr lífeyrissjóði á mánuði.
3. Skerðing bóta vegna tekna maka var að fullu afnumin 1. apríl. Alls munu um 5.800 lífeyrisþegar uppskera hærri bætur við þessa breytingu, þ.e. um 3.900 öryrkjar og um 1.900 ellilífeyrisþegar.
4. Búið er að setja 90.000 króna frítekjumark á fjármagnstekjur á ári til að draga úr of- og vangreiðslum tekjutengdra bóta. Um 90% ellilífeyrisþega og um 95% örorkulífeyrisþega hafa fjármagnstekjur undir þessum mörkum.
5. Vasapeningar til tekjulausra vistmanna hafa hækkað um tæplega 30%.
6. Skerðingarhlutfall ellilífeyris hefur verið lækkað úr 30% í 25%
7. Þá mun frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega 6770 ára verða hækkað í 100.000 krónur á mánuði frá 1. júlí . Þetta þýðir að ellilífeyrisþegar geta aflað sér tekna af atvinnu upp að 1.200.000 krónum á ári án þess að það hafi áhrif til skerðingar á lífeyrisgreiðslur þeirra í stað 327.000 króna áður.
8. Tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga hefur verið að fullu afnumin.
9. Hinn 1. júlí mun einnig verður sett 300.000 króna frítekjumark á lífeyrisgreiðslur örorkulífeyrisþega.
10. Hinn 1. júlí mun aldurstengd örorkuuppbót einnig hækka. Þannig mun einstaklingur sem metinn var til örorku 24 ára gamall fá 100% uppbót eftir breytinguna í stað 85% nú. Alls munu um 12.000 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar njóta hækkunarinnar.
11. Um næstu áramót verður afnumin hin ósanngjarna skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar.
12. Um áramótin tóku gildi ný lög sem fela í sér mikilvægar breytingar á greiðslum til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Greiðslurnar nema 80% af meðaltali heildarlauna foreldra yfir tiltekið viðmiðunartímabil, en þetta fyrirkomulag er sambærilegt greiðslum í fæðingarorlofi. Talið er að foreldrar um 200 barna muni nú nýta sér þessar greiðslur árlega eftir breytingu en voru á síðasta ári færri en 10.
13. Þá hefur verið ákveðið að hækka skattleysismörkin um 20.000 krónur á kjörtímabilinu fyrir utan verðlagshækkanir .
14. Komugjöld á heilsugæslu fyrir börn hafa verið afnumin.
15. Skerðingarmörk barnabóta verða hækkuð um 50%.
16. Hámark húsaleigubóta verður hækkað um 50%.
17. Eignaskerðingarmörk vaxtabóta verða hækkuð um 35%.
18. Stimpilgjöld afnumin fyrir fyrstu kaupendur.
19. Ný jafnréttislög hafa verið sett.
20. Fyrsta aðgerðaráætlun fyrir börn samþykkt - Unga Ísland samþykkt.
Þetta er allnokkuð á ekki lengri tíma - verð ég að segja. Dágott.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Fréttamennska eða áróður?
7.5.2008 | 22:24
Fyrst fannst mér svolítið smart hjá fréttastofu Stöðvar-2, að minna Ingibjörgu Sólrúnu á ummæli sín um eftirlaunareglu þingmanna. Gott hjá þeim, hugsaði ég. Nú hljóta þeir að ganga á röðina. Taka þá, hvern ráðherrann á fætur öðrum og spyrja áleitið um kosningaloforðin.
En þeir gengu ekki á röðina. Þeir hafa bara þrástagast á þessum einu ummælum Ingibjargar Sólrúnar fyrir síðustu kosningar - og talið niður: 30 dagar til þinghlés, 20 dagar .... o.s. frv. Dag eftir dag eftir dag. Það mætti halda að tíminn væri að renna út. Eins og mennirnir viti ekki af því að kjörtímabil spannar fjögur ár en ekki eitt.
Hvað er að gerast með fréttstofu Stöðvar-2? Lítur hún ekki á sig sem fréttamiðil lengur? Hefur hún gleymt hlutverki sínu, að segja fréttir?
Fjölmiðlar eiga vissulega að veita stjórnvöldum aðhald. Það gera þeir með upplýstri óhlutdrægri umræðu, með því að varpa ljósi á mál og láta menn standa skil á gjörðum sínum. Að krefja stjórnmálamenn skil á kosningaloforðum getur að sjálfsögðu flokkast sem slíkt aðhald. En þegar einn stjórnmálamaður af 63 er tekinn fyrir - og eitt loforð af líklega nokkur hundruð loforðum sem gefin eru fyrir kosningar - og það áður en fjórðungur er liðinn af kjörtímabilinu. Dag eftir dag - fréttatíma eftir fréttatíma. Sama klifunin. Hvað er það?
Það er að minnsta kosti ekki fréttamennska.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hvar eru útgerðarmenn í umræðunni um olíuhreinsistöð?
1.5.2008 | 11:55
Siglingaleiðirnar umhverfis Ísland eru hættulegustu siglingarleiðir í heimi. Olíuflutningar um þetta svæði eru því sérlega áhættumiklir vegna hættu á mengunarslysum. Þetta kom fram í Kompásþætti s.l. þriðjudagskvöld (sjá HÉR).
Út af Vestfjörðum eru gjöfulustu fiskimið landsins. Og þó að sjávarútvegur og fiskvinnsla á Vestfjörðum sé vart svipur hjá sjón þeirri sem áður var - þá sækja aðrar útgerðir á þessi mið. Íslenskur sjávarútvegur á nánast allt sitt undir því að þessum fiskimiðum verði ekki spillt, eins og ég hef ég bloggað um áður (sjá HÉR).
Hér er mikið í húfi - sjávarútvegur er ein meginstoð okkar efnahagslífs. Þess vegna furða ég mig á því að íslenskir útgerðarmenn skuli ekkert hafa blandað sér í þessa umræðu um olíuhreinsistöð á Íslandi. Ekki þarf lengi að skoða myndband af olíuslysi Exxon Valdez við strendur Alaska fyrir nokkrum árum til að skilja hættuna sem Íslendingum sem fiskveiðiþjóð stafar af olíuhreinsistöð hér við land (smellið HÉR).
Enginn á meira undir afdrifum þessa máls, en einmitt þeir sem lifa af fiskveiðum, fiskvinnslu og fiskútflutningi. Eitt mengunarslys við landið er nóg til þess að gjöreyðileggja möguleika okkar Íslendinga til þess að selja fisk á erlendum mörkuðum.
Nú hefur nýr bæjarstjórnarmeirihluti í Bolungarvík lýst yfir stuðningi við stóriðjuáform á Vestfjörðum og þar með olíuhreinsistöð. Ekki tala þeir í umboði meirihluta bæjarbúa, svo mikið þykist ég vita. En þeir hafa meirihluta eins manns í bæjarstjórninni, og beita nú þeim meirihluta í einu umdeildasta máli sem komið hefur upp þar um slóðir. Það er auðséð á öllu að Bolungarvík er ekki lengur sá útgerðarstaður sem áður var, og nú er þeim Bolvíkingum - sumum hverjum að minnsta kosti - slétt sama um fiskimiðin við landið.
Já, Bleik er svo sannarlega brugðið.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (47)
Meiri maður en Vilhjálmur Þ - en við hvern var Lára að tala?
25.4.2008 | 17:01
Lára Ómarsdóttir - sem nú hefur ákveðið að hætta störfum sem fréttamaður á Stöð-2 eftir óheppileg ummæli sem hún lét falla á vettvangi atburða í fyrradag - er maður að meiri fyrir vikið.
Og hún er meiri maður en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, kjörinn borgarfulltrúi í Reykjavík, fyrrverandi og tilvonandi borgarstjóri.
Lára kveðst hafa talað í gríni við starfsfélaga. Gráglettni er nokkuð sem erfitt getur verið að meta af þriðja aðila sem heyrir tilvituð orð á öðrum stað og annarri stund.
En það er nokkuð sem vekur athygli þegar hlustað er á hljóðupptökuna, sem þið getið heyrt hér. Það er engu líkara en Lára sé að reyna að koma til móts við tilmæli einhvers hinumegin á línunni. Hver var það? Enn og aftur verður að setja fyrirvara um eftirátúlkun þriðja aðila - en það er eitthvað sem slær mig undarlega við þetta samtal. Og ef ég ætti að hafa túlkunarvald, þá myndi ég veðja á að þarna séu tveir samstarfsmenn að ræða sína á milli um mögulega sviðsetningu.
Nú hefur annar þeirra sagt upp starfi sínu - hinn ekki. Og hvor skyldi hafa verið hærra settur?
En hvort sem Lára var nú að grínast eða ekki - og hvort sem hún ætlaði að þóknast einhverjum hærra settum á Stöð-2 eða ekki - þá eru viðbrögð hennar ábyrg. Hún hefur axlað sína ábyrgð - það er meira en sagt verður um ýmsa sem þó bera þyngri ábyrgð á velferð almennings en einn fréttamaður á sjónvarpsstöð.
Ég óska Láru velfarnaðar í þeim verkefnum sem bíða hennar - og þess verður vafalaust ekki langt að bíða að hún finni hæfileikum sínum og kröftum viðnám á verðugum vettvangi.
----------
PS: Ég heyrði í sjónvarpinu í kvöld að Lára væri fimm barna móðir. Ég er sjálf fimm barna móðir, var einu sinni fréttakona á sjónvarpinu. Sömueliðis Ólöf Rún Skúladóttir sem ég held að eigi fjögur eða fimm börn, og Jóhanna Vigdís líka, ef mér skjátlast ekki. Hvað er þetta með fréttakonur og frjósemi??
Hættir sem fréttamaður á Stöð 2 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
GAAAS, GAAAS! - Getum við ekki látið einhvern kasta eggjum?
23.4.2008 | 23:01
Jeminn eini - það er agalegt að horfa upp á þetta (smellið hér ).
Hvað gerðist eiginlega í dag? Misstu allir glóruna?
GAAAAS - GAAAAS - GAAAS - öskrar ungur lögreglumaður með úðabrúsa sem hann beitir augljóslega sem vopni en ekki varnartæki gegn mannfjöldanum.
"Við getum kannski látið einhvern kasta eggjum rétt á meðan við erum live?" segir ung fréttakona á Stöð-2 svo heyrist skýrt á einu upptökutækinu. Sama fréttakona spyr áköf af hverju lögreglan beiti ekki sömu hörku við flutningabílstjórana og umhverfisverndarsinnana í fyrra. Það er óþægileg ögrun í röddinni.
Lögreglumaðurinn sem verður fyrir svörum segir - líka með ákefðarglampa í augum: "Bíddu bara í nokkrar mínútur, þá skulum við sýna þér hvernig við látum verkin tala!" Var lögreglan á þeirri stundu búin að ákveða að beita valdi? Þegar maður gerir sig líklegan til þess að fara að fyrirmælum lögreglu og fjarlægja bíl sinn, þá er hann handtekinn með látum.
Það leynist engum sem sér þessi myndskeið sem ganga á netinu núna og sýnd voru á sjónvarpsstöðvunum í dag, að adrenalínið tók stjórnina. Ábyrgir aðilar, lögregla og fjölmiðlar voru farnir að láta sig dreyma um valdbeitingu áður en atburðarásin hófst - með ofbeldi, ryskingum og eggjakasti.
Það var sárt að sjá þarna ráðalausa unglinga horfa upp á þessar aðfarir. Menn liggja blóðuga og ofurliði borna í götunni - öskrandi lögreglumenn og bílstjóra. Þarna var svo augljóslega farið yfir mörkin - í orðsins fyllstu merkingu: Mörkin sem lögreglan setti sjálf - gula bandið sem strengt hafði verið milli lögreglu og mótmælenda. Svo ruddist lögreglan sjálf yfir þessi mörk í átt að fólkinu.
Er þetta fordæmið sem við viljum hafa fyrir unglingum og óhörðnuðu fólki? Er þetta það sem við viljum?
Svei.
Sjónvarp | Breytt 25.4.2008 kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Kompásinn og konurnar
16.4.2008 | 09:52
Í Kompássþætti gærkvöldsins var fjallað um áformaða olíuhreinsistöð á Vestfjörðum frá ýmsum hliðum. Þeir sem tjáðu sig um málið voru allt karlmenn - utan ein rússnesk kona sem starfar hjá þarlendu olíufyrirtæki.
Margt athyglisvert kom fram í þættinum varðandi sjónarspilið - mér liggur við að segja apaspilið - sem hróflað hefur verið upp í kringum þessa olíuhreinsistöð. Í því sambandi vil ég líka benda á færsluna mína frá því í gær um sýndarfyrirtækið Katamak-Nafta.
Hinsvegar mætti halda að málið væri óviðkomandi almenningi á Vestfjörðum, því enginn fulltrúi almennra íbúa tók til máls í þættinum. Þeir innlendu aðilar sem fengu að tjá sig um málið voru bæjarstjórarnir á Patreksfirði, Ísafirði og í Bolungarvík auk Ómars Ragnarssonar og Ólafs Egilssonar.
Og svo sannarlega hlýtur þetta mál að vera óviðkomandi kvenþjóðinni sem býr á Vestfjörðum, því engin kona fékk að segja álit sitt á málinu í þættinum. Þó veit ég að það var talað við a.m.k. tvær konur í undirbúningi þáttarins - ég veit það því ég er sjálf önnur þeirra.
Annað hvort höfum við Soffía Vagnsdóttir ekki sagt neitt af viti - eða sjónarmið okkar þykja ekki skipta máli - tja, nema hvort tveggja sé. Að minnsta kosti voru innleggin okkar tekin út.
Ég er svolítið sorgmædd yfir þessu - verð að játa það. En kannski ekkert mjög hissa, því miður.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Denni gangbrautarvörður og Helgi Seljan
9.4.2008 | 22:14
Í gærkvöldi lá ég húðlöt og horfði á Kastljósið. Helgi Seljan og Ingibjörg Sólrún stóðu sig bæði vel í viðtali sem hann tók við hana. Helgi sýndi á sér svolítið nýja hlið - var pollrólegur en um leið mjög beinskeyttur í spurningum. Hann er að verða faglegri með tímanum og þetta kúl fer honum vel. Ingibjörg Sólrún lét ekki bifast og svaraði í samræmi við tilefnið - en hún var augljóslega í svolítið þröngri stöðu um tíma. Svaraði samt af rökvísi og skynsamlegu viti.
En viðtalið sem heillaði mig í þessu Kastljósi var tekið við Denna gangbrautarvörð. Denni mætir í kofann sinn á hverjum degi og gætir þess að bílarnir stöðvi fyrir vegfarendum sem þurfa að komast yfir götuna. Sérstaklega finnur hann til ábyrgðar gagnvart yngstu börnunum, eins og skiljanlegt er. Einnig langar hann mjög að koma ákveðnum skilaboðum til ökumanna sem fara um gangbrautina hans dags daglega.
Það hvernig þessi maður talaði um skyldur sínar og hlutverk snart mig djúpt. Virðingin fyrir starfinu skein af hverju hans orði og öllu hans fasi. Það var eitthvað heimspekilega fagurt við þetta. Og mig langaði bara til þess að hneigja mig fyrir honum.
Það geri ég hér með.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)