Færsluflokkur: Mannréttindi

Málþófið sigraði - lýðræðið tapaði

althingishusid_01 Með málþófi og fundatæknilegum bolabrögðum hefur Sjálfstæðismönnum tekist að ýta stjórnlagaþinginu út af borðinu. Málinu sem vakti vonarneistann með þjóðinni um að nú væri hægt að byrja eitthvað frá grunni: Semja nýjar leikreglur, veita fólkinu vald til þess að koma að samningu nýrrar stjórnarskrár - virkja lýðræðið í reynd. Já, málinu sem var til vitnis um það - að því er virtist - að stjórnvöld, þar á meðal Alþingi, hefðu séð að sér; að þau vildu raunverulega sátt við þjóð sína, fyrirgefningu og nýtt upphaf.

Það var auðvitað allt of gott til að geta verið satt. Og auðvitað var það Sjálfstæðisflokkurinn sem þumbaðist og rótaðist um eins og naut í flagi til að stöðva málið. Til þess þurftu þeir að skrumskæla leikreglur lýðræðisins og málfrelsið sem því fylgir; halda uppi málþófi og tefja störf þingsins. 

Það var þeim líkt.


mbl.is Stjórnarskráin áfram á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarkur og siðbót

ljónoglamb Þó að stjórnvöld standi nú frammi fyrir fleiri og brýnni úrlausnarefnum en nokkru sinni fyrr er krafa dagsins einföld. Hún rúmast í einu orði: Siðbót.

Þetta hógværa orð  er í reynd lausnarorðið fyrir íslenskt samfélag eins og staðan er í dag. En siðbót kallar á kjark.

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Þetta eru falleg orð, en þau hafa enga þýðingu nema hugur fylgi máli og gjörðir orðum.

Íslendingar hafa nú fengið óþyrmilega að kynnast því hvað gerist þegar ábyrgðar- og skeytingarleysið ræður ríkjum. Jöfnuður án ábyrgðar er óhugsandi. Þegar enginn tekur ábyrgð á velferð annarra, þá ríkir einungis ójöfnuður.

Ójafnréttið í samfélaginu hefur birst okkur með ýmsum hætti. Það  birtist í aðstöðumun landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis; óréttlátu kvótakerfi; skefjalausri sérhagsmunagæslu; ójöfnum lífskjörum; launamun kynjanna og þannig mætti lengi telja.

Samfylkingin á nú það erindi við íslenska þjóð að hefja jafnaðarhugsjónina til vegs og virðingar.  Að standa fyrir endurreisn íslensks samfélags og siðbót í íslenskum stjórnmálum. Til þess þarf kjark.

  •  Það þarf kjark til að breyta íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu með sanngjörnum hætti þannig að um það náist sátt í samfélaginu.      
  • Það þarf kjark til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leita nýrra tækifæra á vettvag þjóðanna til hagsbóta fyrir íslenskan almenning.
  • Það þarf kjark til þess að halda áfram uppbyggingu háskólastarfs og símenntunar; já, að veðja á menntun og mannrækt í þeim mótbyr sem framundan er.
  • Það þarf kjark til að innleiða ábyrga stjórnsýslu og knýja fram lýðræðisumbætur.
  • Það þarf kjark til að leita sannleikans varðandi efnahagshrunið og kalla til ábyrgðar alla sem að því komu – jafnt stjórnmálamenn sem forsvarsmenn fjármálastofnana.

Já, það útheimtir kjark að vera ábyrgur jafnaðarmaður við þær aðstæður sem nú ríkja. Líklega hefur það hlutskipti aldrei haft meiri þýðingu en einmitt nú.  

 -----------------

PS: Þessi hugleiðing birtist sem grein í Morgunblaðinu s.l. fimmtudag og er endurbirt hér


Geta skal þess sem gott er ...

Mér hefur að undanförnu orðið tíðrætt um mikilvægi þess að hlífa þeim sem hlífa skyldi í þeim  sparnaðar- og niðurskurðaraðgerðum sem grípa þarf til í kjölfar efnahagskreppunnar. Það er á slíkum tímum sem það skiptir máli að forgangsraða í þágu velferðarhugsunar.

Sé litið til árangurs af stjórnarsetu Samfylkingarinnar undanfarin tæp tvö ár, má sjá hvers virði það er að hafa jafnaðarmannaflokk við stjórnvölinn þegar á reynir. Lítum á lífeyrismál aldraðra og öryrkja til dæmis.

Lífeyrir aldraðra og öryrkja hefur aldrei hækkað jafn mikið og á þeim tíma sem liðinn er frá því Samfylkingin settist í ríkisstjórn. Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru óskertar bætur lífeyrisþega færðar undir láhgmarkslaunm á vinnumarkaði og þeim haldið þar, þrátt fyrir góðæri undangenginna ára.

Eftir tæplega tveggja ára stjórnarsetu Samfylkingarinnar hefur tekist að snúa þróuninni við. Greiðslur til lífeyrisþega hafa vaxið um  42% eða 19,2 milljarða milli áranna 2007-2008.

Óskertar bætur lífeyristrygginga eru nú 13% hærri en lágmarkslaun á vinnumarkaði og hafa aldrei áður erið hærri. Þær munu hafa hækkað um 43% í ríkisstjórnartíð Samfylkingarinnar.

Í reynd má segja að kjör lífeyrisþega hafi verið varin mun betur en kjör almennra launþega eftir hrun bankanna. Það er í samræmi við þá eindregnu velferðaráherslu Safmylkingarinnar að standa vörð um kjör þeirra  sem minnst hafa milli handanna.

Það skiptir máli hverjir stjórna.


Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjölmiðla

bréfburður Bréf Fjármálaeftirlitsins til nokkurra fjölmiðlamanna þar sem þeim er hótað málsókn fyrir að rjúfa bankaleynd er eitt þeirra mála sem ég hef ekki komist til að blogga um fyrr en nú. Mér rennur þó blóðið til skyldunnar að segja nokkur orð um þetta mál.

Mannréttindasáttmáli sameinuðu þjóðanna kveður á um skoðana- og tjáningarfrelsi allra manna án utanaðkomandi afskipta og rétt fólks til þess að afla sér og taka við upplýsingum og hugmyndum hvaða fjölmiðils sem er án tillits til landamæra.

Í alþjóðlegum siðareglum blaðamanna sem UNESCO samþykkti 1983 er kveðið á um rétt einstaklinga og samfélaga til þess að taka við raunsönnum og hlutlausum upplýsingum sem fengnar eru með vönduðum hætti, og sömuleiðis að tjá sig frjálslega gegnum ólíka menningar og samskiptamiðla. Skjalið tekur m.a. á  eftirfarandi þáttum:

  • Óhlutdrægni fjölmiðlamanna
  • Ábyrgð þeirra gagnvart samfélaginu
  • Fagmennsku þeirra og vönduðum vinnubrögðum
  • Virðingu fyrir almannahagsmunum og lýðræðislegum stofnunum
  • Umhyggju fyrir gildismati og siðferði samfélaga

Blaðamannafélög víðsvegar um heim hafa sett sér siðareglur, sem allar ber að sama brunni og byggja á alþjóðlegum staðli: Samkvæmt þeim eru nokkrar skyldur lagðar á herðar blaðamanna, m.a.: 

  • Að þeir séu óháðir stjórnmálaöflum og valdhöfum
  • Að þeir hafi skarpa sýn á greiningarhlutverk fréttamiðla (umfram hið augljósa, hið áhugaverða eða yfirborðslega)
  • Að þeir miðli raunsönnum, sanngjörnum og skiljanlegum fréttum
  • Að þeir þjóni öllum samfélagshópum (ríkum, fátækum, ungum, gömlum, íhaldssömum, róttækum, o.s.frv.)
  • Að þeir verji og haldi fram mannréttindum og lýðræði
  • Að þeir aðhafist ekkert sem rýrt geti traust almennings á fjölmiðlum.

Hótanirnar í bréfi FME  um viðurlög og refsingu vega umfjöllunar um bankahrunið eru ógnun við tjáningarfrelsið og upplýsingaskyldu fjölmiðla við almenning. Ætti erindi þess að ná fram að ganga væri alvarlega vegið að grundvelli íslenskrar fjölmiðlunar og þeim gildum sem henni ber að starfa eftir.

Hér má sjá viðtal við Agnesi Bragadóttir og Kristinn Hrafnsson um þetta mál í Silfri Egils um helgina.


Hugur í Samfylkingarfólki

Í þessum skrifuðum orðum sit ég á Landsfundi Samfylkingarinnar þar sem verið er að leggja lokahönd á málefnastarfið. Í gær var kjörin ný forysta fyrir flokkinn og í dag er verið að kjósa framkvæmdastjórn, flokksstjórn, nefndir og ráð.

Þetta hefur verið frábært þing og augljóslega mikill hugur í mönnum, ekki síst í velferðarmálum, sjávarútvegsmálum og Evrópumálum.

Ég bind miklar vonir við þá stefnu sem nú er að fæðast í meðförum þingsins.


Tvær ræður: Önnur með hugmóði, hin með tárum.

 Það var skeleggur stjórnmálamaður sem steig á svið á landsfundi Samfylkingarinnar í dag til þess að kveðja með reisn. Þróttur í röddinni og öryggi í fasi. Henni var fagnað lengi og innilega um leið og hún steig á svið og henni var klappað lof í lófa að lokinni ræðu. Fundargestir risu úr sætum.

Já það var stemning á setningu landsfundarins í dag. Um leið skynjuðum við öll að nú eru að verða þáttaskil. Ingibjörg Sólrún stígur nú út af sviðinu eftir langan og merkan stjórnmálaferil, oft stormasaman, einkum síðustu mánuðina.

Við keflinu tekur Jóhanna Sigurðardóttir sem óumdeildur foringi og fyrsta konan til að gegna starfi forsætisráðherra á Íslandi. Um varaformannsembættið keppa tveir efnilegir stjórnmálamenn, hvor öðrum frambærilegri. Mikið og gott mannval. mannud

Í gær hélt Ingibjörg Sólrún aðra og öðruvísi ræðu. Þá kvaddi hún konurnar í flokknum á ársþingi Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar sem haldið var á Hótel Loftleiðum. Sú ræða var ekki síður sterk en ræðan í dag, en hún sló á allt aðra strengi. Í henni var fjallað um hlutskipti og erindi kvenna í stjórnmálum; komið inn á samkennd og samstöðu - ekki síst mikilvægi þess að við konur hlúum vel hver að annarri - einkum þeim sem við sendum út á vígvöllinn fyrir okkur.

Sterk ræða í meitluðum, vel völdum orðum.

Ræða sem þrýsti fram tárum og kallaði fram faðmlög.

Ræða sem við gleymum aldrei.


mbl.is Siðrof í íslensku samfélagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónuárás í formi fréttar

HannesHolmsteinn Svo virðist sem veiðileyfi hafi verið gefið á Svein Harald Øygard, nýráðinn Seðlabankastjóra. Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem lengi hefur  látið lítið fyrir sér fara veður nú fram með miklu offorsi gegn Seðlabankastjóranum. Hann frýjar honum vits, telur að hann hafi ekki gáfur til að sinna starfi sínu. Til marks um það nefnir Hannes að Øygard hafi ekki kannast við einhverja skammstöfun. Woundering 

Það er athyglisvert að bera þennan málflutning Hannesar Hólmsteins saman við þekktar eineltis skilgreiningar. Eitt einkenni eineltis eru uppnefni og sú tilhneiging að svipta þann sem fyrir verður persónuleika sínum og því sem gæðir hann reisn.

Hannes hefur t.d. ekki fyrir því að nafngreina Seðlabankastjórann.  "Maður þessi" segir hann og velur honum uppnefni, kallar hann "fjallamann" og snýr út úr starfsheiti hans, talar m.a.  um "bráðabirgðaseðlabankastjórann".

Athyglisverðast af öllu finnst mér þó að visir.is skuli birta þessa persónuárás Hannesar Hólmsteins sem einhverskonar frétt þar sem vammir Hannesar og skammir gegn Øygard eru birtar gagnrýnislaust - svo ómálefnalegar sem þær annars eru.

Ég kann ekki við þetta, verð að segja eins og er. Þetta er engin frétt, þetta er bara persónuárás. Skætingur sem á ekkert erindi inn á fréttasíðu.


Sjálf þekki ég ekki Svein Harald Øygard. Ég veit þó að hann var aðstoðarfjármálaráðherra Noregs um tíma, leiddi m.a. endurskoðun skattalöggjafar í Noregi árið 1992 og sat í starfshópi norsku ríkisstjórnarinnar um hugsanleg efnahagsleg áhrif inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Í fréttum af ráðningu hans kom fram að hann er með meistarapróf í þjóðhagfræði, tók þátt í vinnu norskra stjórnvalda í banka- og gjaldmiðilskreppunni þar í landi árið 1992. Hann hefur starfað við seðlabanka Noregs, í fjármálaráðuneytinu og á norska- Stórþinginu.

Það er býsna bratt af að frýja þessum manni vits, svo ekki sé meira sagt.

Og það er leitt að sjá fjölmiðla lepja sorann úr lófa Hannesar Hómsteins.


HB-Grandi ætti að skipta arðinum milli starfsfólksins

HBGrandi "Löglegt en siðlaust" sagði Vilmundur Gylfason einu sinni. Setningin ómaði í höfði mér þegar ég horfði á þetta viðtal við framkvæmdastjóra HB-Granda í Kastljósi í kvöld. Hann reyndi þar að bera í bætifláka fyrir þá ákvörðun eigenda fyrirtækisins að greiða sjálfum sér 180 mkr í arð frekar en að greiða starfsfólkinu 13.500 kr. umsamda launahækkun sem átti að koma til greiðslu 1. mars.  Þetta viðtal bætti ekki málstað HB-Granda.

Afstaða eigendanna - eins og hún var kynnt af talsmanni þeirra í þessu viðtali - er fyrir neðan allar hellur. Angry

Í venjulegu árferði væri það ekkert tiltökumál þó greiddur sé út "hóflegur" arður, eins og það er orðað af framkvæmdastjóranum. En þegar fólk hefur verið beðið um að falla frá umsömdum launahækkunum af tillitssemi við rekstrarstöðu fyrirtækisins þá er þetta undarleg ráðstöfun, svo ekki sé meira sagt. Hún er áreiðanlega ekki í anda þeirra sem stofnuðu fyrirtækin á sínum tíma (annarsvegar HB á Akranesi, hinsvegar Bæjarútgerðina, Ísbjörninn o.fl. í Reykjavík). Raunar held ég að enginn af þeirri kynslóð útgerðarmanna hefði lagt blessun sína yfir það að hýrudraga starfsfólkið til að geta skipt með sér arði.

En nú eru augljóslega aðrir tímar.

Ég skora á eigendur fyrirtækisins að gefa eftir þessar arðgreiðslur - svo "hóflegar" sem þær eru að þeirra eigin sögn - og láta þær renna til starfsmanna. Því þó þetta sé trúlega ekki "brot" á samningunum sem gerðar voru um frestun launahækkana - og þar með ekkert ólöglegt - þá er þetta auðvitað siðlaust. Það sjá allir.


Hver á að njóta vafans - starfsmaðurinn eða barnið?

skólabarn Þegar grunur leikur á að barn hafi þrisvar sinnum verið slegið af starfsmanni á leikskóla og rannsaka þarf málið - hver á þá að njóta vafans? Starfsmaðurinn eða barnið?

Í mínum huga er enginn vafi á því - með fullri virðingu fyrir réttindum starfsmannsins - að barnið á að njóta vafans. Það er ekki nóg að bjóða foreldrunum að flytja barnið úr sínu daglega umhverfi á annan leikskóla. Barnið á rétt á því að vera á sínum leikskóla, og líði því vel að öðru leyti, er ástæðulaust að flytja það annað. Barnið á rétt á öruggu umhverfi.

Þess eru dæmi úr öðrum starfsgreinum að starfsfólki er vísað tímabundið úr starfi meðan rannsókn á meintum brotum þess stendur yfir. Það fer að vísu eftir alvarleika málsins. En starfsmenn leikskóla verða líka að fá tvímælalaus skilaboð um að það er óásættanlegt að slá til barna. Ekkert foreldri á að sætta sig við slíka meðferð á barni sínu.


mbl.is Sló barn utan undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar bjarga þarf verðmætum er lotuvinna það sem gildir

Ég tek undir með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að Alþingi á að starfa í sumar. Eins og sakir standa eru svo mörg og veigamikil verkefni óunnin í endurreisninni eftir bankahrunið að það verður að taka á þeim hratt og vel. Alþingismenn ættu að gefa tíma sinn að þessu sinni, vinna skipulega og af hugmóði. Þingleyfinu má fresta. Það mætti líka stytta það.

Við þekkjum það Vestfirðingar - já og þeir sem búa í sjávarbyggðum - hvernig það er að vinna í lotum. Það er inngróið í okkar atvinnumenningu að leggja nótt við dag þegar bjarga þarf verðmætum.

Nú liggur þjóðarbúið sjálft undir og þá dugir ekki að fara í sumarfrí.


mbl.is Steinunn Valdís: Vill að þingið starfi í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband