Færsluflokkur: Mannréttindi

Söguleg umskipti

 Í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins tekur félagshyggjuríkisstjórn tveggja flokka til valda með skýrt og óskorað umboð meirihluta þjóðarinnar - og undir forsæti konu, í þokkabót. Þetta er sögulegur viðburður.  Tímamót sem vert er að minnast í framtíðinni.

Velferðarstjórnin er orðin til.

Áratugum saman hafa íslenskir vinstrimenn átt undir högg að sækja andspænis harðneskju og skeytingarleysi hægri aflanna. Þeim hefur kerfisbundið verið haldið frá áhrifum og opinberum ítökum, ekki aðeins á vettvangi stjórnmála heldur á öllum sviðum samfélagsins. Á sama tíma hefur áherslan legið á forréttindi fárra á kostnað velferðar fjöldans. Fyrir þá hugmyndafræði hefur almenningur liðið .... og greitt dýru verði.

En ... (eins og skáldið sagði, og megi það nú rætast) ...

... í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól,
það er maísólin hans.

Það er maísólin okkar
okkar einingabands.
Fyrir þér dreg ég fána
þessa framtíðarlands!

 Wizard

Megi farsæld fylgja störfum þessarar nýju ríkisstjórnar, landi og þjóð til heilla.


mbl.is Ný ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsendaspár og hræðsuáróður LÍÚ

fiskveiðar Það er auðséð á þeim ályktunum og yfirlýsingum sem nú dynja á fjölmiðlum um yfirvofandi hrun sjávarútvegsins, gjaldþrot útgerðanna og ... þið vitið, allan pakkann ... að LÍÚ ætlar ekki að vinna með stjórnvöldum að því að leiðrétta hið óréttláta kvótakerfi sem hefur kallað  hrun yfir svo margar sjávarbyggðir á undanförnum 20 árum. 

Nei - njet. Þeir ætla í stríð og eru komnir í skotgrafirnar.

Hræðsluáróður og heimsendaspár - það eru einu orðin sem ég á yfir máflutning þessara manna. Sá málflutningur er grímulaus sérhagsmunagæsla sem á fátt skylt við rökræðu.

Þeir tala eins og það standi til að "umbylta" kerfinu - þegar staðreyndin er sú að menn eru að tala um að endurheimta auðlind þjóðarinnar úr höndum einstaklinga á tuttugu árum. Ná aftur því sem frá byggðunum var tekið á nánast jafnmörgum árum og aldur kerfisins segir til um. Auk þess er það yfirlýstur ásetningur stjórnvalda að hafa samráð við útgerðina um útfærsluna - já kalla þá að borðinu og gefa þeim kost á að vera með í ráðum.

Samt halda menn áfram í skotgrafahernaðinum - eins fjarri rökræðunni og hugsast getur.

Og þetta skal á sig lagt í vörn fyrir kerfi sem hefur með tímanum þróast í yfirveðsett og ofurskuldsett leiguliðakerfi. Kerfi  þar sem nýliðun getur ekki átt sér stað nema nýliðarnir gerist leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Kerfi þar sem sjálfir handhafarnir sitja að fiskveiðiheimildum sem voru gefnar útgerðunum í upphafi - sitja einráðir að sjálfri auðlindinni. Kerfi sem samkvæmt úrskurði Mannréttindanefndar SÞ brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun. Kerfi sem hefur innbyggða samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust.

Innköllun aflaheimilda á áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki umbylting og mun ekki leiða hrun yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn og hófsöm leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.


mbl.is Mun setja bankana aftur í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maísólin okkar skein í dag

1.maí07.gangan.gústi 1. maí gangan á Ísafirði í dag var sú fjölmennasta frá því ég flutti hingað vestur. Það var frábært að sjá hversu margir fylktu sér á bak við fána verkalýðsfélaganna við undirleik Lúðrasveitar Vestfjarða sem leiddi gönguna. Dagskráin var létt og skemmtileg og ræður góðar.

Ástæðan fyrir hinni miklu þátttöku er vafalaust efnahags- og atvinnuástandið í landinu. Það er líka vert að vekja á því athygli - eins og einn ræðumanna dagsins benti á - að baráttusöngur verkalýðsins sem ortur var á frönsku árið 1870 á við enn þann dag í dag. Kannski hefur hann aldrei verið betur viðeigandi en einmitt nú - sérstaklega niðurlag fyrsta erindis, sem ég letra hér með rauðu í tilefni dagsins (þýð. Sveinbjörn Egilsson).

Fram þjáðir menn í þúsund löndum
sem þekkið skortsins glímutök
nú bárur frelsis brotna á ströndum
boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burt vér brjótum!
Bræður, fylkjum liði í dag.
Vér bárum fjötra en brátt vér hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.

:/  Þó að framtíð sé falin
grípum geirinn í hönd
því Internasjónalinn
mun tengja strönd við strönd./:

skutull08Annars var þetta frábær dagur. Við,  félagar Björgunarhundasveitinni, notuðum góða veðrið til þess að taka æfingu með hundana nú síðdegis. Við fórum inn í Álftafjörð þar sem sólin skein á lognværan og sindrandi sjóinn. Það var maísólin okkar. Smile

Við heyrðum í fugli og fundum lykt af rekju og vaknandi gróðri í vorblíðunni. Hundarnir réðu sér ekki af kæti og vinnugleði. Yndislegt.

 


Fréttafölsun um útstrikanir

Undanfarna daga hafa fjölmiðlar tuggið það hver upp eftir öðrum að Ólína Þorvarðardóttir hafi verið sá frambjóðandi sem fékk flestar útstrikanir á kjörseðlum í NV-kjördæmi. Ríkisútvarpið hefur flutt um þetta tvær fréttirMorgunblaðið sömuleiðis, að ekki sé talað um svæðisfjölmiðlana sem flestir gerðu nokkuð með þetta.  Látið var að því liggja að "talsvert" hafi verið um yfirstrikanir í kjördæminu, og hef ég verið krafin svara í framhaldi af þessu, t.d. í Morgunblaðinu s.l. mánudag.

Nú er komið í ljós að þessi frétt var allan tímann röng. Yfirstrikanir á kjörseðlum í NV- kjördæmi voru  í fyrsta lagi fremur fáar miðað við önnur kjördæmi. 

Samkvæmt Morgunblaðinu í gær skiptust þær sem hér segir:

248 strikuðu út nafn Einars Kristins Guðfinnssonar, Sjálfstæðisflokki (6,5%)
181 strikuðu út nafn Ólínu Þorvarðardóttur, Samfylkingu (4,3%)
158 strikuðu út nafn Jóna Bjarnasonar, VG (3,9%)
157 strikuðu út nafn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, VG (3,9%)

En vitleysan er ekki öll eins. Samkvæmt Fréttablaðinu í dag er allt annað uppi á tengingnum - og skiptingin svona:

248 strikuðu út Einar K. Guðfinnsson
160 strikuðu út Ásbjörn Óttarsson
159 strikuðu út Lilju Rafney Magnúsdóttur

Nú er mér spurn: Hvað veldur því mikla misræmi sem í gær og dag er orðið á tölunum frá yfirkjörstjórninni?

Hvernig má það vera að í fjóra heila daga gangi röng frétt eins og logi um akur í fjölmiðlum? Sjálf þóttist ég vita að upphaflega fréttin væri röng, þar sem ég hafði verið í sambandi við þann fulltrúa Samfylkingarinnar sem var viðstaddur talninguna. Ég reyndi að segja blaðamanni Morgunblaðsins strax á Sunnudagsmorgun að hans upplýsingar stönguðust á við mínar. Blaðamaðurinn vitnaði þá í formann yfirkjörstjórnar NV-kjördæmis og fullyrti að þaðan væru þessar upplýsingar komnar. Þetta væri óyggjandi. Aðrir fjölmiðlar hafa einnig vitnað til formanns yfirkjörstjórnar NV-kjördæmis.

Þarna er augljóslega eitthvað bogið við upplýsingagjöfina. Hvað veldur því? Sú spurning er afar áleitin.

Satt að segja veit ég veit ekki hvort er verra , tilhugsunin um að það hafi verið trúnaðarmaður almennings í yfirkjörstjórn sem brást eða fjölmiðlarnir.

Svo mikið er víst að málið þarfnast skýringa. Og ég mun kalla eftir þeim.

----------

PS: Og vitleysan heldur áfram - í hádegisfréttum RÚV var verið að þylja upp enn eina talnarununa, og nú er Einar Kristinn kominn með 183 útstrikanir en ég 140 Shocking 


Hvað er málið?

Það er einkennilegt að fylgjast með sterkum yfirlýsingum einstakra þingmanna VG  undanfarinn sólarhring meðan formenn flokkanna eru að reyna að mynda ríkisstjórn. Það er eins og stjórnmarmyndunarviðræðurnar séu á tveimur vígstöðvum - við samningsborð forystumanna flokkanna og í fjölmiðlum.

VG samþykkti á landsfundi sínum ekki alls fyrir löngu að aðildarumsókn að ESB skyldi útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er einmitt það sem Samfylkingin hefur lagt til. VG hefur lagt áherslu á það að stór og þýðingarmikil mál verði útkljáð með þjóðaratkvæði.

Hvað er málið?

Þjóðin var rétt í þessu að færa ráðamönnum þau skilaboð upp úr kjörkössunum að a) hún vildi félagshyggjustjórn. og b) að hún vildi aðildarumsókn að ESB.

Þetta eru skýr skilaboð. Það er skylda þessara tveggja flokka að svara þessu kalli.


mbl.is Enn ósætti um ESB-málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr dagur í íslenskum stjórnmálum

blóm Nýr dagur er risinn með gjörbreyttu landslagi í íslenskum stjórnmálum. Nú er ljóst að 27 nýir þingmenn munu taka sæti á Alþingi. Að baki er spennandi kosninganótt og væntanlega hefur verið mikil rússibanareið í tilfinningalífi þeirra jöfnunarþingmanna sem ýmist voru inni eða úti fram undir morgun.

Í Norðvesturkjördæmi var mikil spenna fram eftir nóttu, því litlu munaði að Samfylkingin næði inn sínum þriðja manni. Það fór ekki svo, því miður.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið verðskuldaða refsingu. Flokkurinn tapar 12% á landsvísu sem er mesta tap hans frá stofnun árið 1929.

Hástökkvarar kosninganna eru VG og Borgarahreyfingin. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeim síðarnefndu farnast nú þegar þeir eru  komnir með fjóra fulltrúa á þing og þurfa að fara að taka afstöðu til fjölmargra mála sem hvergi hafa komið fram í stefnu þeirra.

Samfylkingin getur vel við unað. Hún er stærsti stjórnmálaflokkur landsins með skýrt umboð til stjórnarmyndunar. Evrópusinnar geta líka vel við unað, því það er ljóst af kosningaúrslitum að sá málstaður hefur sótt á í þessum kosningum.

Nú liggur beint við að formenn Samfylkingar og VG hefji stjórnarmyndunarviðræður. Persónulega vona ég að þeir nái góðri lendingu í Evrópumálinu og að farsællega takist til við myndun stjórnar þessara tveggja flokka.

Já, nú eru eru sögulegir tímar í íslenskum stjórnmálum. Aldrei fyrr hefur þjóðin kosið félagshyggjustjórn með hreinan meirihluta tveggja flokka. Aldrei hafa fleiri konur verið kjörnar á þing og aldrei hefur meiri nýliðun átt sér þar stað.

Ég hlakka til að takast á við verkefnin sem bíða um leið og ég finn til ríkrar ábyrgðar gagnvart því nýja hlutverki að gegna þingmennsku. Og svo ég haldi áfram með þema gærdagsins:

Dagsins lifna djásnin góð
draumar sanna gildið sitt:
Víst ég heiti vorri þjóð
að vinna fyrir landið mitt.

 


Dagsins lifna djásnin enn ...

Arnarfjordur3.AgustAtlasonDagsins lifna djásnin enn,
af draumi vaknar spurnin hljóð:
Verð ég til þess valin senn
að vinna fyrir land og þjóð?

Þessi vísa braust fram í höfuðið á mér rétt eftir að ég vaknaði í morgun. Í dag ráðast leikar varðandi það hverjir fá umboð til þess að vinna fyrir þjóðina að loknum kosningum.

Íslendingar eiga skýran valkost. Hann er sá að leiða jafnaðarstefnuna til öndvegis undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur formanns Samfylkingarinnar, og hafna þar með harðneskju frjálshyggjunnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir um árabil.

Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur sem öðrum flokkum fremur horfir til framtíðar og þeirra tækifæra sem vænta má í samstarfi og samfélagi við aðrar þjóðir. Hún er eini flokkurinn um þessar mundir sem býður upp á stefnu og framtíðarsýn í peningamálum.

Stefnu sinni í Evrópumálum deilir flokkurinn með stærstu samtökum atvinnulífsins, bæði launafólks og atvinnurekenda, eins fram hefur komið í umsögnum  með nýbirtri Evrópuskýrslu. 

Allt frá efnahagshruninu hefur Samfylkingin unnið að því að byggja brú fyrir heimilin í landinu til að yfirstíga erfiðleikana sem hrunið olli. Aðgerðirnar eru bæði almennar og sértækar. Megináhersla hefur verið lögð á það að leysa vanda skuldsettustu heimilanna og koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný með þrennt fyrir augum:

1) Að hraða endurreisn fjármálakerfisins og skapa skilyrði fyrir enn hraðari lækkun vaxta og endurvinna traust á íslenskt atvinnu- og efnahagslíf með skýrri framtíðarsýn í peningamálum. Fyrirtækin verða að fá upplýsingar um það hvert stefnir í gjaldeyris- og vaxtamálum því það eru lykilþættirnir í starfsumhverfi þeirra.

2) Að ráðast strax í arðbærar atvinnuskapandi aðgerðir á vegum hins opinbera til að fjölga störfum.

3) Að styðja við þau nýsköpunarfyrirtæki sem eru sprotarnir að stórfyrirtækjum framtíðarinnar.

Samfylkingin hefur svikalaust einhent sér í erfið og aðkallandi verkefni eftir efnahagshrunið. En hún lætur ekki þar við sitja. Íslenskir jafnaðarmenn bjóða líka upp á skýra framtíðarsýn.

Já, kjósendur standa frammi fyrir sögulegu tækifæri í dag. Það tækifæri mega íslenskir jafnaðarmenn ekki láta renna sér úr greipum. 

 

---------

PS: Myndina hér fyrir ofan tók sá frábæri myndasmiður Ágúst Atlason í Arnarfirði á dögunum.


Bæjarstjórar í slorvinnu

fiskveiðarÞrír bæjarstjórar birtu grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Þar hóta þeir endalokum sjávarútvegsins ef Samfylkingin fær framgengt löngu tímabærri leiðréttingu á óréttlátu kvótakerfi sem mikill meirihluti landsmanna er sammála um að þurfi að breyta.

Þetta er kerfi sem hefur með tímanum þróast yfir í leiguliðakerfi þar sem nýliðun getur ekki átt sér stað nema nýliðarnir gerist leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Sjálfir handhafarnir sitja að fiskveiðiheimildum sem voru gefnar útgerðunum í upphafi - sitja einráðir að sjálfri auðlindinni.

Fyrir um tvöhundruð árum lagðist af illræmt leiguliðakerfi meðal íslenskra bænda. Enginn vill taka það upp aftur. Hví ættum við að sætta okkur við ósanngjarnt leiguliðakerfi í sjávarútvegi á 21. öld?

Bæjarstjórarnir þrír, láta sem þeir séu að skrifa fyrir byggðarlögin þrjú þar sem þeir hafa verið ráðnir til starfa. Þeir saka andstæðinga kvótakerfisins um mannfyrirlitningu, gera þeim upp það viðhorf að „sjávarútvegurinn sé ekkert annað en slorvinna" í augum „elítunnar" svo notuð séu þeirra orð.

Hvaðan kemur þetta orðbragð spyr ég? Jú, það kemur frá þremur hálaunamönnum sem eiga það sameiginlegt, auk þess að vera Sjálfstæðismenn, að vinna allir þægilega innivinnu á vel innréttuðum skrifstofum. Þeir eru „elítan og "slorvinnan"  sem þeir tala um er ekki rétt lýsing á störfum fiskvinnslufólks. Það orð mætti mun frekar nota um þeirra eigin vinnuaðferðir nú rétt fyrir kosningar. 
 

Bæjarstjórarnir þrír virðast hafa gleymt hruni byggðanna undanfarna áratugi, eftir að núverandi kvótakerfi var komið á. Þeir gleyma líka úrskurði Mannréttindanefndar SÞ um kerfið brjóti mannréttindi og hindri eðlilega nýliðun.  Þeir horfast heldur ekki í augu við það að í núverandi kerfi er innbyggð sama meinsemd og sú sem olli efnahagshruninu í haust. Þá sátu menn í aftursætinu aðgerðarlausir. Það má ekki gerast aftur.

Ég er frambjóðandi fyrir þessar kosningar og verð vonandi alþingismaður að þeim loknum. Ég get ekki setið þegjandi og horft á kvótakerfið með allri sinni  leiguáþján, veð- og skuldsetningu hrynja yfir þjóðina.

Tillaga Samfylkingarinnar um árlega innköllun 5% aflaheimilda á 20 árum er sanngjörn leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.

 

----

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag og er endurbirt hér.


Greinin sem ekki fékkst birt í Bændablaðinu

kyr2 Fyrir um mánuði síðan sendi ég Bændablaðinu grein um ESB og íslenskan landbúnað. Greinin fékkst ekki birt. Var því borið við að Mbl hefði birt eftir mig grein um sama mál nokkru síðar. En sumsé, hér kemur:

Greinin sem ekki fékkst birt í Bændablaðinu

 Svonefndur Píningsdómur sem lögtekinn var á Alþingi 1490 setti skorður við verslun Íslendinga og samskiptum þeirra við útlendinga. Áður höfðu Englendingar haft leyfi til þess að versla við landsmenn og stunda hér fiskveiðar gegn því að greiða tolla og skatta. Þetta lagðist illa í stórbændur landsins og útvegsmenn sem kærðu sig ekki um samkeppni um vinnuafl og verslun. Afleiðing Píningsdóms varð fjögurra alda fátækt og einangrun landsins.

Nú, tæpum 520 árum síðar stöndum við Íslendingar frammi fyrir því hvort við viljum eiga opið markaðs- og viðskiptasamband við nágrannaríki okkar í Evrópu. Líkt og í aðdraganda Píningsdóms árið 1490 kemur harðasta andstaðan gegn því frá íslenskum bændum og útvegsmönnum.

Á nýafstöðnu Búnaðarþingi var samþykkt eindregin andstaða við aðildarumsókn Íslands að ESB. Enginn rökstuðningur fylgdi ályktuninni til fjölmiðla. Í viðtali sem flutt var í Spegli Ríkisútvarpsins við hagfræðing bændasamtakanna mátti þó greina ótta við matvælainnflutning og afnám tolla.

Sjálf er ég ein þeirra sem lengi vel óttuðust inngöngu í ESB - taldi m.a. að með henni yrði stoðum svipt undan íslenskum landbúnaði. Við myndum missa sjálfstæði okkar Íslendingar, ofurselja okkur miðstýrðu fjölþjóðlegu valdi. Já, ég var beinlínis hrædd við tilhugsunina. Ég held að svipað eigi við um bændur. Þeir vita hvað þeir hafa en ekki hvað þeir fá. Á þessu þarf að taka með opinni og upplýstri umræðu.  Annars verður það óttinn sem ræður för - og hann er afleitur förunautur.

Ég er þeirrar skoðunar að íslenskir bændur hafi margt að vinna við inngöngu í ESB. Sambandið hefur sett sér ákveðna byggðastefnu þar sem ríkt tillit er tekið til dreifðra byggða með stuðningi við vistvænar framleiðsluaðferðir, ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og vöruþróun. Styrkjakerfi ESB er samþætt byggðastefnu þess og þar er gengið út frá sjálfbærri landbúnaðarstefnu. Í þessu felast ýmsir möguleikar fyrir íslenska bændur, hvort sem þeir sinna ferðaþjónustu eða sauðfjárrækt. Sem stendur er íslenskur landbúnaður njörvaður niður í miðstýrt framleiðslustjórnunarkerfi sem er að uppistöðu nær hálfrar aldar gamalt. Fullyrt hefur verið að stuðningskerfi ESB sé mun heilbrigðara en niðurgreiðslukerfið íslenska - enda aðlagað breytingum, nýsköpun og þróun í samstarfi og samskiptum þjóða í áranna rás. Þetta þurfa íslenskir bændur að kynna sér vel því þarna geta falist ýmis tækifæri fyrir þá sem sem vilja svara kalli tímans um vistvænar framleiðsluaðferðir byggðar á sérstöðu og gæðum afurða. Í því efni eiga Íslendingar mikla möguleika.

Ætla má að gengissveiflur og ótryggt rekstrarumhverfi séu bændum þung í skauti ekki síður en öðrum atvinnuvegum. Við inngöngu í Evrópusambandið og með upptöku evru má gera sér vonir um stöðugra efnahagsumhverfi með minni gengissveiflum, lægra vaxtastigi og bættum almennum lífskjörum.  Í slíku umhverfi er auðveldara að gera langtímaáætlanir í rekstri - ekki síst búrekstri sem á mikið undir innfluttum aðföngum. Vissulega þyrftu íslenskir bændur að keppa við innflutta matvöru - en á móti kemur að samkeppnisstaða þeirra sem matvælaframleiðenda myndi batna til muna. Markaðir í Evrópu myndu opnast fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og um leið margvíslegir möguleikar til nýsköpunar og vöruþróunar. Við erum hér að tala um 500 milljón manna markað sem Íslendingar fengju fullan og tollfrjálsan aðgang að.

Hér er til mikils að vinna. Grundvallaratriðið er þó að vita að hverju skuli stefnt. Íslendingar - ekki síst bændur - verða að skilgreina þarfir sínar og væntingar til fjölþjóðlegs samstarfs á borð við ESB og setja sér marknið. Síðan á að sækja um aðild; fara í viðræður og gefa loks þjóðinni kost á að taka afstöðu til þess sem í boði er með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sem stendur höfum við allt að vinna - en ekkert að óttast.

 


Hreindýrskálfur og hús við Vatnsstíg

hreindyrskalfur_1__large_ Tvær fréttir vöktu athygli mína í sjónvarpinu í kvöld. Annars vegar þessi frétt um bréf Umhverfisstofnunar þar sem hreindýrskálfi er hótað lífláti ef fólkið sem bjargaði lífi hans á sínum tíma og tók hann til sín sækir ekki um leyfi til umhverfisráðuneytisins fyrir því að hafa hann.

Í fréttinni er haft eftir starfsmanni stofnunarinnar að "alls ekki hafi verið ætlunina að valda sárindum með bréfinu þótt skrifað hafi verið að dýrið skyldi aflífað yrði ekki sótt um leyfi fyrir því".

Það er einmitt það. Ég legg til að starfsmenn umhverfisstofnunar fari í svolitla naflaskoðun núna og velti fyrir sér þeim markmiðum stofnunarinnar sem lúta að dýravernd.

VatnsstígurSvo er það þessi frétt um hústökuna á Vatnsstíg þar sem maður horfði á lögregluna eyðileggja hús til þess að "bjarga því" úr klóm hústökufólks. Reyndar hafði hústökufólkið dyttað að húsinu og ætlað að hefja þar einhverja uppbyggilega starfsemi á meðan það væri ónotað - en það mátti alls ekki.  Eignarrétturinn þið skiljið.

Að vísu hafði húsið staðið autt í á annað ár, og verið notað af útigangsfólki án þess að nokkur kallaði til lögreglu. En sumsé - þegar komið var ungt fólk með málningardósir og heita súpu í potti, þá var tilefni til aðgerða. Og þær létu sko ekki á sér standa. Með keðjusögum og kylfum var hluti hússins bútaður í sundur til þess að sýna hústökuliðinu alvöru málsins.

Já, eignarrétturinn .... hann lætur sko ekki að sér hæða.  

Eins og fram kemur í fréttinni þá er eignarrétturinn svo heilagur, að jafnvel ónýt hús sem bíða þess að víkja fyrir nýjum, má ekki nota í uppbyggilegum tilgangi. Frekar skulu þau fá að drabbast niður sem dópgreni. Enda er hið síðarnefnda mun líklegra til þess að flýta fyrir niðurrifinu heldur en ef eitthvað uppbyggilegt á sér stað innandyra. Það er nefnilega þekkt hertækni húsa- og lóðabraskara að kaupa gömul hús á verðmætum lóðum til þess að rífa þau og byggja ný. Í sumum tilvikum er beinlínis ýtt undir það að útigangsfólk taki sér bólfestu í húsnæðinu svo betur gangi að fá samþykki fyrir niðurrifi.

Í ýmsum borgum hafa borgaryfirvöld gripið til þess ráðs að setja búsetuskyldu á hús í námunda við miðborgir, til þess að hindra atburðarás af þessu tagi. Reykjavíkurborg hefur ærna ástæðu til að hugleiða þann möguleika, því þetta er ekki eina húsið sem er að grotna niður í miðborginni.

En sumsé - tvær fréttir um það hvað lífið getur stundum verið öfugsnúið.


mbl.is Hóta að aflífa hreindýrskálf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband