Tvær ræður: Önnur með hugmóði, hin með tárum.

 Það var skeleggur stjórnmálamaður sem steig á svið á landsfundi Samfylkingarinnar í dag til þess að kveðja með reisn. Þróttur í röddinni og öryggi í fasi. Henni var fagnað lengi og innilega um leið og hún steig á svið og henni var klappað lof í lófa að lokinni ræðu. Fundargestir risu úr sætum.

Já það var stemning á setningu landsfundarins í dag. Um leið skynjuðum við öll að nú eru að verða þáttaskil. Ingibjörg Sólrún stígur nú út af sviðinu eftir langan og merkan stjórnmálaferil, oft stormasaman, einkum síðustu mánuðina.

Við keflinu tekur Jóhanna Sigurðardóttir sem óumdeildur foringi og fyrsta konan til að gegna starfi forsætisráðherra á Íslandi. Um varaformannsembættið keppa tveir efnilegir stjórnmálamenn, hvor öðrum frambærilegri. Mikið og gott mannval. mannud

Í gær hélt Ingibjörg Sólrún aðra og öðruvísi ræðu. Þá kvaddi hún konurnar í flokknum á ársþingi Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar sem haldið var á Hótel Loftleiðum. Sú ræða var ekki síður sterk en ræðan í dag, en hún sló á allt aðra strengi. Í henni var fjallað um hlutskipti og erindi kvenna í stjórnmálum; komið inn á samkennd og samstöðu - ekki síst mikilvægi þess að við konur hlúum vel hver að annarri - einkum þeim sem við sendum út á vígvöllinn fyrir okkur.

Sterk ræða í meitluðum, vel völdum orðum.

Ræða sem þrýsti fram tárum og kallaði fram faðmlög.

Ræða sem við gleymum aldrei.


mbl.is Siðrof í íslensku samfélagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ingibjörg var stórkostleg í dag og talaði um hlutina án umbúða en þó með ákveðinni nærfærni. Hún hvatti okkur hin til dáða og miðlaði okkur af sinni miklu reynslu í lífi og starfi. Hún fékk góðar undirtektir og mikið lof í lófannn.  

Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.3.2009 kl. 00:57

2 Smámynd: Áslaug Sigurjónsdóttir

Ég mun sakna hennar í pólitíkinni, vona samt að hún hafi ekki sagt sitt síðasta orð í pólitískum tilgangi. 

Í hennar stað kemur ömmubarn vinkonu ömmu minnar, og er ég mjög sátt við það.  En sem betur fer eru til nokkuð margar konur sem hafa þó nokkuð góða möguleika að komast langt í  pólitík.  

Ingibjörg og Jóhanna gangi ykkur vel á þeim vígstöðvum sem þið takist á við á þeirri stund sem þið lifið í.  Jóhanna sem forsetisráðherra og Ingibjörg að ná sér eftir sín veikindi.  Gef ykkur góðar hugsanir í baráttunni.

Áslaug Sigurjónsdóttir, 28.3.2009 kl. 02:04

3 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Ábyggilega ágætis kona en svaf jafn vært og Geir á verðinum blessuð  konan

Víða í þjóðfélaginu þarf ekki ræður til að þrýsta fram tárum.   Atvinnuleysi, peningaleysi, skuldasúpa, matarskortur.  Sumir eru tengdari "Kreppukerlingu" en aðrir og ég er ekki viss um að margir þeirra sitji fundi Samfylkingar og Sjálfstæðis  

Páll A. Þorgeirsson, 28.3.2009 kl. 02:15

4 Smámynd: Gunnlaugur I.

Hennar tími í Íslenskum stjórnmálum er alveg liðinn, hún sjálf sá alveg fyrir því með dapurri framgöngu sinni. 

Vonandi berið þið Samfylkingarfólk nú gæfu til þess loksins að kjósa alvöru jafnaðarmann sem leiðtoga ykkar.

Gunnlaugur I., 28.3.2009 kl. 08:34

5 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

 Ræða  Ingibjargar Sólrúnar  var vissulega góð,- mjög góð. Rannveig  vinkona mín, komst líka  vel frá sínu, nema ....  Hún nefndi að   ung listakona, Gerður Helgadóttir hefði gert steindar rúður í Kópavogskirkju. Önnur  listakona, Högna Sigurðardóttir hefði  teiknað sundlaugina í Kópavogi. Sagði síðan réttilega að Kópavogskirkja  væri tákn bæjarfélagsins. Hún lét þess  hinsvegar ekki getið  hver  teiknað  hefði kirkjuna. Það var nefnilega karl. Hörður Bjarnason, arkitekt  og  húsameistari ríkisins. Kirkjan er sannkallað listaverk og mun eins og  Skálholtskirkja halda nafni hans á lofti  um ókomna tíð.

Þetta  fannst mér óþarflega smátt. því  máttu skila  til Rannveigar.

Eiður Svanberg Guðnason, 28.3.2009 kl. 11:20

6 Smámynd: Sigurður Rúnar Sæmundsson

Þessar ræður hefðu kannski átt heima á landsfundi sjálfstæðismanna, þar sem heimskan ræður ríkjum ?? Hver talar um pólitík í dag, eða ábyrgð..? Nú er talað á persónulegum nótum og mjög þröngum pólitískum nótum. Næstum því eins og í saumaklúbb. Þú Ólína, ættir að skammast þín, sem vel gefin manneskja og háskólaborgari að taka þátt í svona pólitík.

Sigurður Rúnar Sæmundsson, 28.3.2009 kl. 19:53

7 Smámynd: Halla Rut

Ætlar þú næst að skrifa um tár þeirra er nú eru að missa heimili sín og lífsviðurværi vegna sofandaháttar og ábyrgðaleysi þeirra konu er þú mærir hér svo mjög?

Halla Rut , 28.3.2009 kl. 23:02

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það er leitt þegar fólk lætur blindast svo mjög af pólitík að það skoðar alla hluti í því ljósi. J

Já, það er leitt þegar fólk blindast svo mjög - eins og Sigurður Rúnar og Halla Rut hér ofar - að það þolir ekki vingjarnleg orð í garð annars fólks sem það lítur á sem pólitíska andstæðinga.  Þegar heiftin verður svo mikil að hún verður að mannfyrirlitningu.

Ég mun halda áfram að tala vel um fólk - jafnt pólitíska samherja sem aðra. Ekkert af því er oflof eða mærð, ég hef einfaldlega eðlislæga tilhneigingu til þess að leita hins jákvæða í fari  annarra. 

Nú held ég að fleiri mættu taka sér þetta viðhorf til fyrirmyndar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.3.2009 kl. 11:05

9 Smámynd: Þorsteinn Egilson

Mín frjálslega túlkun á boðskapnum Davíðs:

Glóir bjart sá gullni kvistur
af gæðaviði sprottinn.
Oki jafns er aðeins Kristur
og ef til vill hann Drottinn

 Kveðja,

Þorsteinn Egilson, 30.3.2009 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband