Færsluflokkur: Mannréttindi

Ingibjörg Sólrún og hennar framlag

ISGAlþjóðlegur baráttudagur kvenna var í gær. Dagurinn færði íslenskum konum góða uppskeru í prófkjörum helgarinnar. Það skyggði þó á gleðina að þann sama dag ákvað einn atkvæðamesti kvenskörungur í íslenskum stjórnmálum, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að kveðja þann vettvang um óákveðinn tíma.

Fáir stjórnmálamenn - ef nokkur - hafa lagt meira af mörkum til íslenskrar kvennabaráttu en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Fyrir það verðskuldar hún þakklæti kvenna um land allt. Sem borgarstjóri kom hún miklum umbótum til leiðar í stjórnkerfi borgarinnar. Þær breytingar leiddu til nútímalegri stjórnsýslu með minni launamun milli kynjanna svo dæmi sé tekið. Hún leiddi málefni barnafólks í borginni til mun betri vegar með leikskólabyltingunni sem svo hefur verið nefnd og einsetningu skólanna.

Sem stjórnmálaforingi hefur Ingibjörg Sólrún sýnt fádæma dugnað og fórnfýsi.

Fyrr í dag samþykkti stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar ályktun þar sem Ingibjörgu Sólrúnu er þakkað hennar merka framlag til íslenskra stjórnmála og samfélagsumbóta.

Hún er vel að þeim þökkum komin.

 


Prófkjörið stendur yfir!

Prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi hófst með rafrænni kosningu í gær og stendur til kl. 16 á sunnudag. Allar nánari upplýsingar eru á kosningasíðu kjördæmisins http://www.xsnv.blog.is/ eða á heimasíðu Samfylkingarinnar, http://www.samfylking.is/

Ég gef ótrauð kost á mér í annað tveggja forystusæta flokksins.

Mín helstu baráttumál eru þessi:

  • Ég hef ríkan skilning á hlutskipti fjölskyldna og vil beita mér í þeirra þágu.
  • Ég tel brýnt að innleiða lýðræðisumbætur og stjórnlagaþing
  • Ég vil ábyrga stjórnsýslu svo stofnanir fái sinnt lögbundnu hlutverki án inngripa stjórnmála- eða hagsmunaafla.
  • Hlut landsbyggðar gagnvart höfuðborginni þarf að rétta með fjölbreyttum menntunarkostum, bættum samgöngum og fjarskiptatækni
  • Auðlindir lands og sjávar eiga að vera þjóðareign en ekki markaðsvara fyrir útvalda.
  • Íslendingar eiga að hafa samstarf og vera í samfélagi við aðrar þjóðir
  • Íslenskan landbúnað þarf að frelsa undan áratugagömlu miðstýrðu framleiðslustjórnunarkerfi.
  • Auka þarf möguleika bænda til þess að sinna sjálfstæðri matvælaframleiðslu og tengja hana ferðaþjónustu.
  • Brýnast tel ég þó að verja lífskjör almennings á þeim tímum sem við nú lifum. Ég vil að byrðarnar verði lagðar á breiðustu bökin en hinum hlíft.

Velferðarsjónarmið og jafnaðarstefna eru aldrei mikilvægari en á krepputímum.

 


Fundaferð og framhaldssagan um Kristinn H.

Grundarfjörður Framboðsferðalagið gengur vel. Í fyrradag var fundað á Sauðárkróki, Blönduósi og Hvammstanga. Þar bárust okkur þær fréttir að Kristinn H. Gunnarsson væri genginn til liðs við Samfylkinguna og hygðist bjóða sig fram í Norðvesturkjördæmi. Errm Menn litu hver á annan og nú upphófust ýmsar vangaveltur. Morguninn eftir brunuðum við á Hólmavík og héldum það ágætan fund í hádeginu. Nú voru komnar upp efasemdir um að Kristinn væri í Samfylkingunni, a.m.k. var hann ekki á leið í framboð  töldu menn. Jæja, áfram var haldið suður á bóginn, um Laxárdalsheiði í Búðardal. Þegar þangað var kom bárust enn spurnir af Kristni H. Gunnarssyni.  Nú var hann sko ekki á leið í Samfylkinguna heldur á leið í framboð fyrir Framsóknarflokkinn. Whistling

Hafi menn orðið undrandi við fyrstu fréttir af flokkaskiptaáformum Kristins þá datt nú andlitið af. En auðvitað varð til vísa í bílnum og hún er svona.

 Í Samfylkingu gekk með glans
- hann gerði það án rannsóknar
og eftir heldur stuttan stans
stökk á lista Framsóknar.

Annars er þetta hið skemmtilegasta ferðalag hjá okkur. Við erum fimm saman í bíl og þar er glatt á hjalla.

Nú erum við stödd í Stykkishólmi, búin að fá okkur heitt brauð og kruðerí í morgunmat. Í dag verða fundir í Grundarfirði og á Hellissandi. Á morgun verður fundur hér í Stykkishólmi. Þaðan tökum við ferjuna Baldur yfir Breiðafjörð og verðum svo með fund á Patreksfirði á Sunnudagskvöld.

Hér er prófkjörssíðan mín og hérna er prófkjörssíða kjördæmisins.


Búsáhaldabyltingin var galdur

busahaldabyltingin.jpg Ekki alls fyrir löngu ritað Sigurður Líndal grein í Fréttablaðið um ráðherravaldið í stjórnskipan landsins. Þetta er athyglisverð grein sem full ástæða er til að halda fram. Í niðurlagi kveður hinsvegar við óvæntan tón hjá Sigurði varðandi búsáhaldabyltinguna svokölluðu. Um hana segir Sigurður:

En fátt stendur þó lýðræðinu meira fyrir þrifum en ofurvald afþreyingariðnaðarins. Áhrif hans birtast ekki sízt í firringu þannig að menn losna úr tengslum við umhverfi sitt og berast inn í sýndarveruleika. Nýjustu birtingarmyndir hennar eru pottlokaglamur undir stjórn rokkara og rappara, sem leyst hefur rökræðuna af hólmi og þá er stutt í að bareflin taki við af sleifunum. Með þessu er forsendum lýðræðisstjórnarhátta hafnað. Við þessu má bregðast með almennri upplýsingu sem stuðlað geti að gagnrýnni hugsun. 

Ég get ekki tekið undir það að búsáhaldabyltingin hafi verið sigur afþreyingariðnaðarins yfir rökhyggjunni. Sem sérfræðingur í galdramálum hef ég kynnt mér vel ýmiskonar galdra- og trúarathafnir í gegnum tíðina, form þeirra og inntak. Og satt að segja hef ég fundið samsvörun með búsáhaldabyltingunni og ýmiskonar galdraathöfnum sunnar á hnettinum, t.d. í Afríku. 

Formið er þetta: Meðlimir ættbálksins koma saman við eldinn og stíga dans undir taktfastri hrynjandi og hrópa óskir sínar eða áköll til guðanna.

Nóttina sem búsáhaldabyltingin stóð sem hæst logaði eldur í miðborginni þaðan sem takturinn barst eins og hjartsláttur út í náttmyrkrið. Þarna var sunginn mikill seiður. Þarna sameinaðist hugarorka þúsunda manna í fastri hrynjandi og ákalli um breytingar. Þessi seiður hafði áhrif.

Búsáhaldabyltingin var því engin afþreying - hún var galdur.


Sláum í klárinn!

skjaldamerki Ýmis teikn eru á lofti þessa dagana um að áform ríkisstjórnarinnar um að koma í gegn lagafrumvarpi  um stjórnlagaþing verði tafið von úr viti. Sjálfstæðismenn virðast ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hindra þetta.

Fyrirheitið um stjórnlagaþing var eitt af þeim loforðum sem sefuðu reiði almennings á dögum búsáhaldabyltingarinnar góðu. Við sem stöndum að undirskriftarsöfnunin við áskorun um þessar lýðræðisumbætur á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is tókum eftir því að daginn sem hin nýja stjórn tilkynnti áform sín að setja lög um stjórnlagaþing, hægði mjög á undirskriftunum. Þær höfðu hrúgast inn af miklu afli dagana á undan, en svo kyrrðist skyndilega. Nú þegar þessi orð eru skrifuð eru þær orðnar 7.364.

 Það er afar mikilvægt að ríkisstjórnin missi ekki dampinn úr áformum um þær lýðræðisumbætur sem hér um ræðir. 

Það er jafn mikilvægt að almenningur í landinu missi ekki slagkraftinn við að minna á vilja sinn í þessu efni.

Krafan um stjórnlagaþing á sér sterkan hljómgrunn meðal almennings.En betur má ef  duga skal!

Við stefnum að því að afhenda undirskriftirnar 6. eða 7. mars- svo það er best að slá í klárinn!

 


Einsdæmið með Davíð - eftirlaun hans og bréfaskriftir

bankastjornSB Ef einhver stendur fjárhagslega vel að vígi að yfirgefa starfsvettvang sinn nú á þessum krepputímum þá ætti það að vera Davíð Oddsson. 

Skjátlist mér ekki mun hann njóta a.m.k. fjórfaldra eftirlauna þegar starfstíma hans lýkur.  Þið leiðréttið mig endilega ef þetta er rangt - en svo virðist sem Davíð eigi rétt á óskertum eftirlaunum sem 1)Seðlabankastjóri, 2) forsætisráðherra, 3) alþingismaður, og 4)borgarstjóri í Reykjavík. Það held ég hljóti að vera einsdæmi að einn maður eigi svo ríkan eftirlaunarétt - að minnsta kosti hlýtur það að vera fádæmi.

Það er raunalegt að sjá Seðlabankastjórana Davíð Oddsson og Eirík Guðnason streitast við að sitja sem fastast þrátt fyrir beiðni forsætisráðherra um að þeir víki úr stóli Seðlabankastjóra og semji um starfslok. Fleiri eru augljóslega sömu skoðunar, því Lars Christensen, yfirmaður greiningardeildar Danske Bank, segir þvermóðsku Davíðs Oddssonar vera beinlínis "neyðarlega" (sjá hér).

Bréf Davíðs til Jóhönnu Sigurðardóttur er sömuleiðis sérkennileg smíði. Þar sakar hann forsætisráðherra um pólitíska valdníðslu sem eigi sér engin fordæmi um gjörvallan hinn "vestræna heim" ef ég man orðalagið rétt. Hefur Jóhanna þó ekki annað af sér brotið en að gera Seðlabankastjórunum heiðarlega grein fyrir vilja ríkisstjórnarinnar.

Og gleyminn er Davíð.

Sjálfur hefur hann áður skrifað bréf sem forsætisráðherra, eins og fram kemur í greinargóðri samantekt á bloggi Friðriks Þórs Guðmundssonar þar sem rifjuð eru upp bréfaskrif Davíðs frá fyrri tíð, þ.e.: 

  • Bréf til Sverris Hermannssonar fv. Landsbankastjóra vegna  vaxtaákvörðunar ... og ...
  • Bréf til biskups Íslands vegna smásöguskrifa sr. Arnar Bárðar Jónssonar þáverandi fræðslufulltrúa Þjóðkirkjunnar.

Í bréfinu til Sverris sem m.a. er rifjað upp í Fréttablaðinu í dag, sagði Davíð m.a. ...

... ef þið lagið ekki þvæluna, sem þið gerðuð í síðasta vaxtaóðagoti, er það endanlegt dæmi þess að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera og þá mun ég sjá til þess fyrr en nokkurn grunar að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera. Ég vil fá svar frá þér ­ annað en skæting í fjölmiðlum ­ strax ­ því ég mun ekki sitja lengur kyrr ...

Einsdæmi?? 

 


mbl.is Lýsir miklum vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt lýðveldi er ekki stjórnmálaframboð

althingi2 Við sem stöndum að undirskriftasöfnuninni um Nýtt lýðveldi á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is erum ekki stjórnmálaframboð. Best að þetta sé alveg á hreinu - því það er einhver misskilningur í gangi núna. Í kvöld fékk ég símtal frá blaðamanni Morgunblaðsins sem vildi ræða við mig um framboðsmál af því hann taldi að Nýtt lýðveldi og Lýðveldisbyltingin sem rekur vefsíðuna www.lydveldisbyltingin.is væri sami hópur. Svo er ekki. Báðir hópar styðja þó sama málstað að því er virðist og það er ágætt.

Þetta er meðal þess sem bar á góma í þættinum "Í býtið" í  morgun, en þangað mætti ég í spjall við Kollu og Heimi (hlusta hér).

Allmargir hafa spurt mig hvort ekki sé ástæða til að sameina þessa tvo hópa og sameina þar með kraftana. Um það vil ég segja þetta:

Ein krafa - ólíkir hópar: 

Krafan um utanþingsstjórn (eða einhverskonar þjóðstjórn), stjórnlagaþing og nýtt lýðveldi á hljómgrunn í öllum stjórnmálaflokkunum og meðal fjölda fólks sem stendur utan við alla pólitík. Það er margt sem skilur þetta fólk að, en eitt sem sameinar það: Nefnilega krafan um nýtt lýðveldi.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að stofnun nýs stjórnmálaafls sé ekki besta leiðin til að ná þessu markmiði. Það segi ég með fullri virðingu fyrir því stjórnmálaafli sem nú er verið að stofna utan um þessa kröfu. Það stjórnmálaafl mun etja kapps við hina flokkana fyrir næstu kosningar, eftir gömlu leikreglunum, og kannski fá atkvæðamagn sem einhverju nemur. En í kosningum er spurt um stjórnmálaskoðanir fólks og afstöðu til ótal margra mála sem varða landshagi. Að fara fram meið eitt mál í kosningar, og láta allt annað liggja á milli hluta - það getur orðið erfitt þegar til kastanna kemur, því vitanlega verða alþingismenn að hafa stefnu í flestum málaflokkum. Kjósendur eiga rétt á að vita fyrir hvað framboðin standa í veigamiklum atriðum. Hver er stefnan í umhverfismálum, sjávarútvegsmálum, Evrópumálum, utanríkismálum, virkjunarmálum o.s. frv.

Horfum á það sem sameinar, ekki það sem sundrar 

Við sem stöndum að vefsíðunni Nýtt lýðveldi, tókum afdráttarlausa afstöðu til þess að við værum óháð öllum stjórnmálaframboðum. Við teljum það fljótvirkari og árangursríkari leið að sameina Íslendinga, hvar í flokki sem þeir standa, um þessa einu kröfu. 

Við fögnum því ef stjórnmálaflokkarnir taka undir með okkur, hvort sem þeir eru nýir eða gamlir. En ef undirskriftasöfnunin tekst vel - segjum að það safnist tugþúsundir undirskrifta - þá gæti hún orðið nokkurskonar þjóðarátak á fáum vikum. Krafa sem stjórnvöld hefðu ekki stöðu til að horfa framhjá við núverandi aðstæður.

Að því sögðu skal upplýst að nú rétt fyrir kl 23:00 höfðu 4.868 skrifað undir kröfuna um utanþingsstjórn, stjórnlagaþing og nýtt lýðveldi. Ekki amalegt á aðeins þremur dögum. Smile

logo 

 Nýtt lýðveldi


Nýtt lýðveldi: Undirskriftasöfnunin er hafin!

Undirskriftasöfnunin til stuðnings utanþingsstjórn og boðun stjórnlagaþings er hafin á vefsíðunni Nýtt lýðveldi. Nú vona ég að almennignur taki við sér, fari inn á vefslóðina http://www.nyttlydveldi.is/ og skrifi undir áskorun okkar til forseta Íslands og Alþingis.

Að þessari undirskriftarsöfnun stendur hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í þjóðfélaginu Fólkið í landinu þráir nýtt upphaf og nýjar leikreglur ásamt endurreisn þeirra gilda sem þjóðin hefur um aldir lagt rækt við; gilda á borð við heiðarleika, samvinnu, ábyrgð og jöfnuð. Við viljum efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsin. Í því skyni viljum við mynda þverpólitíska breiðfylkingu um þau markmið sem koma fram í áskoruninni til forseta og Alþingis. Margir góðir og vel metnir Íslendingar hafa lagt til  ráðgjöf og aðstoð við undirbúning þessa framtaks.

Hópurinn er óháður öllum stjórnmálaframboðum og hagsmunaöflum.

 

Áskorun Íslendinga til forseta lýðveldisins og Alþingis Íslendinga

 

Við undirritaðir Íslendingar skorum á forseta Íslands og Alþingi að hlutast til um skipun tímabundinnar utanþingsstjórnar sem fari með framkvæmdavald forseta á grundvelli 15. og 24. greina stjórnarskrár lýðveldisins Íslands í samræmi við stjórnskipan landsins.

Jafnframt skorum við á Alþingi að samþykkja stjórnskipunarlög um boðun til stjórnlagaþings - nýs þjóðfundar. Forseti Íslands boði til þingsins fulltrúa sem kosnir verði ásamt varafulltrúa fyrir hvern þeirra í almennum kosningum sem haldnar skulu innan tveggja mánaða frá síðari samþykkt frumvarps til stjórnarskipunarlaga. Kjörgengi til stjórnlagaþings hafi allir sem uppfylla kjörgengisskilyrði 34. gr. stjórnarskrárinnar nema forseti Íslands, alþingismenn og ráðherrar. Í kosningum til stjórnlagaþings verði allt landið eitt kjördæmi.

Stjórnlagaþing semji nýja stjórnarskrá þar sem lagður verði grunnur að nýju lýðveldi með virku og endurnýjuðu lýðræði. Í því felst m.a.

  • endurskoðun á kosningareglum til Alþingis og kjördæmaskipan
  • skýr aðgreining milli framkvæmdavalds, löggjafavalds og dómstóla.

Að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána verði þing rofið og efnt til nýrra alþingiskosninga á grundvelli hennar.

Undirskrift hér.

 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband