Færsluflokkur: Mannréttindi

Lífsgæðin á landsbyggðinni

DyrafjordurAgustAtlason Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði um 166 frá 1. júlí í fyrra til 1. júlí á þessu ári á meðan landsmönnum fækkaði um 109. Þetta las ég á fréttasíðunni skutull.is  haft eftir Hagstofunni

Langt er síðan Vestfirðingum hefur fjölgað annað eins á milli ára.  Þeir eru nú 7.445 talsins og hefur þeim þar með fjölgað um 2,3% milli ára, sé rétt reiknað. Wink  

Ein afleiðing kreppunnar á Íslandi virðist ætla að verða sú að hagur landsbyggðarinnar vænkist. Fólk sér nú fyrir sér fleiri ákjósanlega búsetukosti en borgina. Víða úti á landi er húsnæði ódýrara en á höfuðborgarsvæðinu, vegalengdir styttri, öll þjónusta nær manni og um leið lipurri. Þar  er atvinnuleysi víðast hvar lítið. Fólk kemst í nánari snertingu við náttúruna, stutt er í gönguleiðir, skíðalönd og á aðrar útivistarslóðir. skidi-ReykjavikIs

Í litlu samfélagi verður einstaklingurinn stærri en hann annars væri -  það getur verið ótvíræður kostur, þó stundum sé það líka galli.  En í litlum byggðarlögum skipa allir máli.

Raunar sýna hagstofutölurnar að þrátt fyrir fækkun á landsvísu, þá fjölgar íbúum í flestum landshlutum nema á Austurlandi og Vesturlandi.  Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði bæði í Hafnarfirði og Kópavogi en fólki fækkaði hinsvegar í Reykjavík.  Á þessari stundu er ekki gott að segja til um hvaða þýðingu þetta hefur fyrir höfuðborgina - enda liggur ekki fyrir nákvæm greining á því að hvaða þjóðfélagshópar það eru sem eru að yfirgefa borgina, og í sumum tilvikum landið. Við verðum því sjálf að geta í þær eyður. 

 En það eru þó góðar fréttir að landsbyggðin skuli vera inni í myndinni sem vænlegur og raunhæfur búsetukostur fyrir fjölda fólks - enda held ég að þeir sem ala allan sinn aldur í Reykjavík og næsta nágrenni hennar fari mikils á mis. Kostir þess að búa úti á landi verða aldrei skýrðir fyrir þeim sem ekki þekkir til af eigin raun, því þar erum við að tala um lífsgæði sem ekki mælast í hagtölum.

kyr2

Barnavernd á erfiðum tímum

barnavernd Þegar þrengir að efnahag þjóðarinnar er ástæða til þess að huga betur en nokkru sinni að velferð barna. Opinberar tölur sýna mikla fjölgun barnaverndarmála á fyrstu mánuðum þessa árs, einkanlega í Reykjavík þar sem tilkynningar til barnaverndarstofu borgarinnar voru 40% fleiri en á sama tíma árið áður. Vera kann að þessi aukning beri vott um vaxandi vitund almennings um barnaverndarmál. Engu að síður er full ástæða til að taka þetta alvarlega sem vísbendingu um versnandi hag barna og fjölskyldna þeirra.

Börn eru saklaus og varnarlaus. Þau eru framtíð þjóðarinnar og að þeim verðum við að hlúa, ekki síst þegar illa árar.

Ég tók málið upp við félags- og tryggingamálaráðherra í fyrirspurnartíma í þinginu í morgun. Umræðuna í heild sinni má sjá hér

 -----------

PS: Meðfylgjandi mynd tók ég af vef mbl.is - hún var þar merkt Ásdísi.


Gleði og stolt

GayPrideRoses "Alltaf grunaði mig þetta!" sagði hann við mig sigri hrósandi gamall samverkamaður sem ég hitti á miðjum Laugaveginum í dag. Ég gekk þar í humátt á eftir Gleðigöngunni og hafði valið að fara á eftir fánanum sem á stóð  "stoltar fjölskyldur".

"Þú ert auðvitað ein af þeim" sagði hann og klappaði á öxl mína skælbrosandi.  

 "Ég er stoltur aðstandandi eins og aðrir hér" svaraði ég umhugsunarlaust og áttaði mig ekki strax á því hvað maðurinn var að fara.

En þegar ég sá brosið hverfa eins og dögg fyrir sólu fyrir örvæntingarfullum vandræðasvip - þá varð ég að stilla mig um að skella ekki upp úr. 

"Takk fyrir komplímentið" sagði ég með blíðu blikki þegar ég sá hvað maðurinn var miður sín. Svo hélt ég mína leið. Hann stóð orðlaus eftir undir ásakandi augnaráði eiginkonunnar sem var við hlið hans. Þessi skondna uppákoma var einhvernvegin eins og atriði úr danska myndaflokknum Klovnen - án þess að ég geti skýrt það nánar (mér er enn skemmt þegar ég hugsa um þetta).

Annars var gríðarleg stemning í bænum og mikill mannfjöldi. Ég hafði mælt mér mót við vini mína á horni Barónstígs þar sem við horfðum á litríka gönguna nálgast og slógumst svo í hópinn þegar vörubílarnir  með skemmtiatriðunum voru farnir framhjá. Hvarvetna var fólk með litríkar blómfestar um háls og marglita fána. Á Arnarhóli var þjóðhátíðarstemning - einhver þægileg blanda af rólegheitum og stuði.

Aðstandendur göngunnar hafa sannarlega ástæðu til að vera bæði  glaðir og stoltir í dag.


mbl.is „Stærsta gangan til þessa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var þá ekkert jákvætt?

Í upphafi þessarar fréttar segir að ýmislegt hafi eftirlitsnefnd ÖSE þótt "með ágætum" í framkvæmd síðustu Alþingiskosninga. Síðan les maður áfram og les um ágallana sem ræddir eru í skýrslunni. Vissulega þurfum við að horfa til þess sem betur má fara. Rétt er það,  en .... það kemur hvergi fram í þessari frétt hvað  það var sem var með svo miklum "ágætum".

Af hverju ekki? Angry

Satt að segja finnst mér þetta lýsa umræðunni í samfélaginu betur en flest annað - hér er  allt sogað niður í hyldýpi neikvæðninnar.  

Ég vil fá að vita hvað var jákvætt í þessari  ÖSE skýrslu. Fyrst þar var eitthvað jákvætt, þá vil ég sem almennur íslenskur lesandi fá að sjá það! 

I rest my case.

 


mbl.is Atkvæðavægi átalið af eftirlitsnefnd ÖSE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjör námsmanna

Austurvöllur LÍN er orðið algjört grín nefnist  athyglisverð grein eftir Dagnýju Ósk Aradóttur laganema og fv formann Stúdentaráðs HÍ. Þar rekur hún fyrir lesendum kjör námsmanna sem þurfa að reiða sig á framfærslulán LÍN. Fram kemur að námslán einstaklings í eigin eða leiguhúsnæði eru 100.600 krónur á mánuði. Tekjuskerðingin er síðan 10% þannig að námsmaður sem er með 800.000 krónur í tekjur á síðasta ári (t.d. 200.000 krónur á mánuði í heildartekjur fyrir fjögurra mánaða sumarvinnu) fær 91.711 krónur á mánuði þá níu mánuði sem hann stundar námið hér heima. Þá á hann eftir að greiða húsaleigu - sem varla getur verið mikið minni en 40-50 þúsund á mánuði - sem þýðir að hann hefur kannski 10-12 þús krónur milli handa í viku hverri. Það er varla fyrir mat.

Dagný ræðir ekki um kjör erlendra námsmanna, svo mig langar til þess að víkja nokkrum orðum að því efni.

Námsmenn erlendis fá greidda 9 mánaða framfærslu á skólaári, og gildir þá einu þó að skólaárið sé í reynd 10 mánuðir víða, eins og t.d. í Danmörku. Mánaðarleg útborgun til nemanda sem býr einn í íbúð ætti að vera 7200 dkr á mánuði en er í reynd 6400 dkr þar sem skólaárið er 10 mánuðir.  Lánin eru greidd eftir á þannig að nemendur eru alltaf með yfirdrátt í banka. Vextirnir af yfirdrættinum fylgja stýrivöxtum og hafa því farið í 19%. Meðalhúsaleiga fyrir stúdenta í Danmörku er 3500 - 4000 dkr á mánuði, þannig að þá sér hver maður að ekki er mikið eftir.

Námsmenn erlendis reiða sig algjörlega á framfærsluna frá LÍN. Þeir hafa ekki stuðningsnet fjölskyldunnar (geta t.d. ekki skroppið í mat til foreldra) auki þess sem atvinnumöguleikar þeirra eru skertir við núverandi aðstæður. 

Það er því ekki mjög freistandi fyrir ungt fólk að setjast á skólabekk um þessar mundir. Það krefst ódrepandi áhuga, staðfestu og seiglu.

Loks er umhugsunarefni að atvinnuleysisbætur á Íslandi eru nálægt 150 þús kr á mánuði, eða um þriðjungi hærri en námslánin. 

Þetta þarf að athuga betur.


Skilaboð eða áreiti

Síðustu daga hefur tölvupóstum rignt yfir okkur alþingismenn. Fyrst var það vegna Ice-save samningsins, síðan vegna Evu Joly. Þetta eru fjöldapóstar með stöðluðu orðalagi sem sendir eru jafnvel aftur og aftur frá sama fólki.

Ég hef viljað svara þessum sendingum, vegna þess að ég tel það kurteisi að svara bréfum. Sú góða viðleitni mín er nú þegar orðin stórlöskuð, því þetta er óvinnandi vegur.

Ástæða þess að ég færi þetta í tal núna er sú að mér finnast fjöldasendingar af þessu tagi vera vond þróun. Þær leiða til þess að þeir sem fyrir þeim verða gefast upp á samskiptum við sendendur. 

Þar með rofna tengslin milli þingmannsins og kjósandans. Samskiptin hætta að vera gagnkvæm - þau verða einhliða. Í stað samræðu kemur áreiti. Það er slæmt.

Fjöldasendingar þar sem fólk notast við skilaboð sem einhver annar hefur samið, og sendir í þúsundavís á tiltekinn hóp viðtakenda, þjóna sáralitlum tilgangi. Vægi skilaboðanna aukast ekkert við það þó sama bréfið berist þúsund sinnum. Það verður bara að hvimleiðu áreiti. Því miður.

Mun þægilegra væri fyrir alla aðila ef þeir sem standa fyrir fjöldasendingum af þessu tagi myndu einfaldlega opna bloggsíðu þar sem safnað væri undirskriftum við tiltekinn málstað. Síðan væri þeim málstað komið á framfæri við alþingismenn og önnur stjórnvöld í eitt skipti. Það væri eitthvað sem hefði raunverulega vigt.

Þetta er mín skoðun ... að fenginni reynslu.

 


Óvirðing við þjóðþingið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sýndi forseta Alþingis mikla óvirðingu í þinginu í gær, þegar hann kvaddi sér hljóðs undir liðnum "fundarstjórn forseta" og setti síðan á ræðu um allt annað mál án nokkurra tengsla við fundarnstjórn forseta. Þegar hann síðan dró upp Fréttablaðið og fór að lesa upp úr því var forseta þingsins nóg boðið - enda gera  þingsköp ráð fyrir því að óskað sé leyfis forseta áður en lesið er upp úr blöðum eða bókum í ræðustóli. Þegar þarna var komið sögu tók forseti Alþingis til sinna ráða, en Sigmundur Davíð þráaðist við og ætlaði ekki úr stólnum.

Framkoma nokkurra framsóknarmanna - ekki síst formannsins - hefur farið stigversnandi í þinginu undanfarna daga. Þau finna sér hvert tilefni til þess að stíga í pontu, atyrða þaðan aðra viðstadda með leiðinlegu orðavali. Þau hrópa fram í fyrir ræðumönnum, benda með fingri - berja jafnvel í pontuna og hækka röddina. Raunar hafa framíköll almennt aukist mikið undanfarið - og þá er ég ekki að tala um beinskeyttar athugasemdir sem fljúga glitrandi um salinn. Nei, ég er að tala um leiðinlegt húmorslaust þref sem heldur áfram eftir að menn eru komnir í sæti sitt. Agaleysi. Ókurteisi.

 Það er sorglegt þegar virðingarleysið fyrir þjóðþinginu er komið inn í sjálfan þingsalinn.

Sigmundur Davíð og co. eru á góðri leið með að breyta Alþingi Íslendinga í skrípaleikhús. Og það er hugraun fyrir okkur hin sem sitjum á þessu sama þjóðþingi að horfa á þetta gerast.

Forsætisnefnd Alþingis verður að taka á þessu máli.


mbl.is Óásættanleg framkoma forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strandveiðarnar tóku daginn

StykkisholmurÞað var þaulseta í þinginu í dag. Eftir óundirbúinn fyrirspurnartíma sem tók 40 mínútur, og svo drjúga (en óverðskuldaða) törn um fundarstjórn forseta, kom loks röðin að aðalmáli dagsins: Sjálfu Strandveiðifrumvarpinu.

Margir hafa beðið í óþreyju eftir lyktum þess máls - þær eru raunar ekki ráðnar til fulls, en verða það vonandi á morgun.

En sumsé: Ég sem starfandi formaður Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þingsins mælti fyrir nefndaráliti meirihluta nefndarinnar. Því virðulega hlutverki fylgir sú skylda að vakta umræðuna frá upphafi til enda, veita andsvör (t.d. hér, hér, hér og hér ) og taka þátt í málflutningnum.

Að lokinn þessari törn - sem tók lungann úr deginum - kom það í minn hlut að mæla fyrir meirihlutaáliti um nýgerðan búvörusamning. Ég var snögg að því - en gerði það svikalaust, enda var mér það bæði ljúft og skylt. Sauðfjár- og kúabændur að þessu sinni sýnt samningsvilja og samábyrgð í þessari samningsgerð sem er þeim til sóma og öðrum til eftirbreytni á erfiðum tímum.


Eva Joly og vanhæfi ríkissaksóknara

thjofur Það er einhver undarlegur seinagangur í þessu máli. Vanhæfi ríkissaksóknara hefur legið fyrir lengi. Hann hefur sjálfur lýst sig vanhæfan. Gerði það fyrir mörgum mánuðum. Og hvað er þá málið?? Af hverju í ósköpunum er ekki búið að skipa nýjan mann?

Hér er um að ræða mikilvægustu efnahagsbrotarannsókn sem gerð hefur verið - ekki aðeins á Íslandi heldur trúlega í allri Evrópu. Þessi rannsókn varðar sögulegt hrun og er, eins og Eva Joly bendir réttilega á, margfalt stærri og mikilvægari en nokkuð sem hún sjálf hefur komið að til þessa. Lærdómarnir sem dregnir verða af þessari rannsókn - verði hægt að draga þá á annað borð - munu verða færðir í kennslubækur heimsins.

Það er með ólíkindum að ekki skuli hafa verið settur brýnn forgangur á að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem augljósar voru fyrir rannsókn málsins - til dæmis vanhæfi ríkissaksóknarans sem hefur lengi legið fyrir og mikið var fjallað um í október síðastliðnum þegar ég setti m.a. inn þessa bloggfærslu hér.

Hitt finnst mér umhugsunarefni - hafi ég tekið rétt eftir - að Eva Joly skuli frekar mæta í sjónvarpsviðtal til að koma athugasemdum sínum á framfæri heldur en að tala við þar til bær yfirvöld. Er hún fyrst að benda á þessa vankanta núna? Sé það tilfellið  - af hverju dró hún það svona lengi? Hvers vegna sneri hún sér ekki beint til dómsmálaráðuneytisins?


mbl.is Björn verður ríkissaksóknari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú reynir á styrk þingsins

thingsalur-eyjan Sú fáránlega staða kom upp á fundum efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar í morgun að fulltrúar fjármálaeftirlitsins þóttust ekki geta veitt nefndunum umbeðnar upplýsingar um verðmat á eignum við uppgjör gömlu og nýju bankanna. Og til að réttlæta þögnina var vísað í 5. gr. upplýsingalaga en það er einmitt sú grein sem kveður á um rétt almennings til þess að fá upplýsingar.

Það er aumt ef Alþingi Íslendinga - sjálfur löggjafinn - getur ekki fengið upplýsingar út úr stjórnkerfinu til þess að grundvalla löggjafastörf sín á.

Alþingi Íslendingar þarf að sjálfsögðu að taka sínar ákvarðanir á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga hverju sinni. Það gefur auga leið.

Nú reynir á stöðu löggjafans gagnvart framkvæmdavaldinu sem mörgum finnst að séu að vaxa löggjafarvaldinu yfir höfuð. 

Hér er tekist á um grundvallaratriði og hér má þingið ekki fara halloka.

Nú reynir á styrk Alþingis.

  


mbl.is Tveimur þingnefndum meinað um upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband