Hreindýrskálfur og hús við Vatnsstíg

hreindyrskalfur_1__large_ Tvær fréttir vöktu athygli mína í sjónvarpinu í kvöld. Annars vegar þessi frétt um bréf Umhverfisstofnunar þar sem hreindýrskálfi er hótað lífláti ef fólkið sem bjargaði lífi hans á sínum tíma og tók hann til sín sækir ekki um leyfi til umhverfisráðuneytisins fyrir því að hafa hann.

Í fréttinni er haft eftir starfsmanni stofnunarinnar að "alls ekki hafi verið ætlunina að valda sárindum með bréfinu þótt skrifað hafi verið að dýrið skyldi aflífað yrði ekki sótt um leyfi fyrir því".

Það er einmitt það. Ég legg til að starfsmenn umhverfisstofnunar fari í svolitla naflaskoðun núna og velti fyrir sér þeim markmiðum stofnunarinnar sem lúta að dýravernd.

VatnsstígurSvo er það þessi frétt um hústökuna á Vatnsstíg þar sem maður horfði á lögregluna eyðileggja hús til þess að "bjarga því" úr klóm hústökufólks. Reyndar hafði hústökufólkið dyttað að húsinu og ætlað að hefja þar einhverja uppbyggilega starfsemi á meðan það væri ónotað - en það mátti alls ekki.  Eignarrétturinn þið skiljið.

Að vísu hafði húsið staðið autt í á annað ár, og verið notað af útigangsfólki án þess að nokkur kallaði til lögreglu. En sumsé - þegar komið var ungt fólk með málningardósir og heita súpu í potti, þá var tilefni til aðgerða. Og þær létu sko ekki á sér standa. Með keðjusögum og kylfum var hluti hússins bútaður í sundur til þess að sýna hústökuliðinu alvöru málsins.

Já, eignarrétturinn .... hann lætur sko ekki að sér hæða.  

Eins og fram kemur í fréttinni þá er eignarrétturinn svo heilagur, að jafnvel ónýt hús sem bíða þess að víkja fyrir nýjum, má ekki nota í uppbyggilegum tilgangi. Frekar skulu þau fá að drabbast niður sem dópgreni. Enda er hið síðarnefnda mun líklegra til þess að flýta fyrir niðurrifinu heldur en ef eitthvað uppbyggilegt á sér stað innandyra. Það er nefnilega þekkt hertækni húsa- og lóðabraskara að kaupa gömul hús á verðmætum lóðum til þess að rífa þau og byggja ný. Í sumum tilvikum er beinlínis ýtt undir það að útigangsfólk taki sér bólfestu í húsnæðinu svo betur gangi að fá samþykki fyrir niðurrifi.

Í ýmsum borgum hafa borgaryfirvöld gripið til þess ráðs að setja búsetuskyldu á hús í námunda við miðborgir, til þess að hindra atburðarás af þessu tagi. Reykjavíkurborg hefur ærna ástæðu til að hugleiða þann möguleika, því þetta er ekki eina húsið sem er að grotna niður í miðborginni.

En sumsé - tvær fréttir um það hvað lífið getur stundum verið öfugsnúið.


mbl.is Hóta að aflífa hreindýrskálf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Og þarna set ég Amen á eftir efninu!

Ía Jóhannsdóttir, 15.4.2009 kl. 21:24

2 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég held, að það hefði getað verið áhugaverð útkoma, að leyfa krökkunum að vera þarna.

Gefa þeim tækifæri, til að nýta húsið.

Framkvæmdir, munu ekki fara af stað á næstunni, eftir allt saman.

Þarna, er væntanlega komin spurning til núverandi borgarstjóra.

Kveðja, Einar B. Bjarnason

Einar Björn Bjarnason, 15.4.2009 kl. 22:34

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þótt ég sé ekki sérlega hrifinn af hústökufólki verð ég þó að viðurkenna að það er umtalsvert ríkari ástæða til að fangelsa þetta drasl sem er að leggja miðbæinn í rúst en krakkagrey sem reyna að lífga upp á hann.

Það er einfaldlega skömm að því hvernig borgaryfirvöld hafa hegðað sér gagnvart þeirri fátæklegu byggingarsögu sem við eigum, og á það jafnt við um þá fulltrúa sem hafa þegið mútur fyrir og svo hina sem ekki eru svo heppnir. 

Þorsteinn Siglaugsson, 15.4.2009 kl. 23:06

4 Smámynd: Kiddi Jói

Amen, segi nú bara ekki annað.

Kiddi Jói, 16.4.2009 kl. 00:42

5 Smámynd: Guðrún Jónína Eiríksdóttir

Margt er skrítið í kýrhausnum og í þjóðfélaginu.

Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 16.4.2009 kl. 00:44

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta tvennt eru góð dæmi um ýmsar myndir hins öfugsnúna fáránleika sem virðist því miður vera að ná tangarhaldi á ýmsum stofnunum landsins. Ég hef fylgst með fréttaflutningi af atburðarrásinni varðandi Vantsstíg 4. Hef ekki alveg verið viss um það hingað til hvað mér átti að finnast um það mál allt saman. Yfirgengileg vitleysan sem átti sér stað þar í gærmorgun hjálpaði mér þó til þess og svo kemur fréttin af hreindýrskálfinum!

Í báðum tilvikum er vísað í lög og reglugerðir en það virkar þó þannig á mig að ég sannfærist alltaf betur og betur um nauðsynina á ærlegri hugarfarsbreytingu en sennilega verður heldur ekki komist hjá einhverri hreingerningu líka.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.4.2009 kl. 02:13

7 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ólína, þú ert að fara á þing og mér sýnist þú hafa töluverða samúð með málstað hústökufólksins, og því fór æeg að velta því fyrir mér hvort þú munir styðja anarkista og byltingu þeirra á þingi? Muntu beita þér fyrir afnámi eignaréttar í áföngum eða takamörkun á honum? Og, í hvaða tilfellum?

"Við sem stöndum að þessari hústöku ætlum okkur að breyta því peningadrifna samfélagi sem við búum í. Partur af því er að verja þetta hús; hús sem átti að fara í kjaft kapítalsins því hér var fyrirhugað að reisa heljarinnar verslunar- og skrifstofuferlíki....Það er bylting - en ekki kosningar - sem við þurfum til að koma þessum ormétna valdastrúktúr fyrir kattarnef....Þetta hús er okkar! Baráttan er okkar; baráttan gegn yfirvaldi og auðhyggju....

Hústaka er einn þáttur byltingarinnar og því hvetjum við alla til að framkvæma hústökur; taka yfir tóm hús eða neita að fara úr húsum sínum.

Lifi byltingin!

Kveðja,
Hústökufólkið við Vatnsstíg 4."

Benedikt Halldórsson, 16.4.2009 kl. 02:48

8 Smámynd: Björn Heiðdal

Kæra Ólína,

Þetta er nánast dónaskapur hjá þér að gefa í skyn að starfsmenn Umhverfisstofnunar viti ekki hvað þeir eru að gera.  Fyrir þeirra hönd er ég móðgaður.  Ekki sármóðgaður heldur svona léttmóðgaður. 

Nú á tímum atvinnuleysis er ófært að framboðsfólk gagnrýni þá sem framfylgja lögum ESB.  Þessi lög eru til að vernda fólkið og dýrin en ekki bara annað hvort!  Að framfylgja lögum er verulega atvinnuskapandi og með inngöngu okkar í ESB fáum við fleiri og betri lög til að framfylgja.

Innganga Íslands í ESB mun skapa ótal störf fyrir vel menntaða evrópusérfræðinga, lögfræðinga, þýðendur og allt fólkið sem þarf til að framfylgja reglum ESB.  Þetta eru þínir kjósendur og ef þú leggst gegn störfum þess ertu á móti þínum eigin málflutningi!

Fleiri reglur, meira ESB!

Björn Heiðdal, 16.4.2009 kl. 04:00

9 Smámynd: Gerður Pálma

Afgreiðlsa Vatnsstígsins og Hreindýrafóstursins er í mínum huga fyrirmynd af þeim stjórnarháttum og hugsunarhætti sem viðgengst í stjórn landsins. Heilbrigðar umræður og ákvörðunartökur í samræmi við þarfir og framtíðarsýn landsins eru ekki á borðinu. Þessi hústökuhópur var að gera frábæra hluti, hvernig væri að húseigandi/ur tjái sig um hvað var til fyrirstöðu að nýta húsið þar til framkvæmdir færu af stað. Hver er húseigandinn? Hver er hans stefna og samkennd um framtíðaráform Íslands.
 Ég er 10000% sammála Birni Heiðdal, ef okkur veitist sú ógæfa að ganga í ESB þá verður þetta ískalda reglugerðakerfi enn meira vald á Íslandi en í dag. 
Umræður almennings t.d. í Hollandi er mikið í þá átt að því miður erum við komin i ESB og því er ekki aftur snúið svo það verður að díla við það. Hinsvegar telja mjög margir að sú ákvörðun hafi ekki verið þjóðinni til heilla.
Það eru að koma upp gífurleg vandamál í ESB sem við munum ekki hafa nein áhrif á en við verðum að axla þau saman með Evrópu ef við göngum í ESB, enn eitt risalag af ábyrgð sem við ekki getum axlað.
Spillingin innan ESB er í sama skala við Ísland og stærðarmunurinn. Við eigum í erfiðleikum með spillingu innan okkar mini kerfis, hvað þá  innan ESB?

Gerður Pálma, 16.4.2009 kl. 06:27

10 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Tækni & vísindi | mbl.is | 22.4.2008 | 13:53

Leiðinleg störf setja heilann á sjálfstýringu

HVER HEFUR SINN DJÖFUL AÐ DRAGA.

Fleiri Vísindamenn segja að leiðinleg störf valdi því að heilinn fari á eins konar sjálfsstýringu, og það geti leitt til alvarlegra mistaka, sem reyndar megi sjá fyrir með um 30 sekúndna fyrirvara með greiningu á heilastarfseminni.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC, en niðurstöður vísindamannanna britast í Proceedings of National Academy of Sciences. Vonast þeir til þess, að hægt verði að búa til viðvörunartæki sem fylgist með heilastarfsemi þeirra sem sinna störfum þar sem mistök geta verið dýrkeypt, eins og til dæmis flugmenn.

Segja vísindamennirnir ennfremur að slíkt tæki gæti reynst einkar vel fyrir þá sem sinna sérlega einhæfum störfum þar sem erfitt sé að halda einbeitingu, eins og til dæmis vegabréfaeftirliti.

Í rannsókninni kom það vísindamönnunum verulega á óvart að 30 sekúndum áður en þátttakandi gerði mistök mátti sjá mjög greinilega breytingu á heilastarfseminni, sagði dr. Stefan Debener við Southampton-háskóla.

„Heilinn fer að spara orku með því að stytta sér leið við sama verkefni. Það dregur úr virkni í framheilanum, og virkni eykst á svæði sem tengist hvíldarstöðu.“

Þetta er ekki til marks um að heilinn sé að sofna, segir Debener. „Sjálfsstýring væri betri líking. Það má draga þá ályktun að tilhneigingin til orkusparnaðar leiði til þess að of mikið sé dregið úr viðleitnin, og það valdi mistökunum.“

Kjartan Pétur Sigurðsson, 16.4.2009 kl. 06:36

11 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Hústökufólkið hefur vakið all hressilega athygli á mikilli meinsemd í reykvísku samfélagi. Græðgisgengið kaupir eignir á eftirsóttum stöðum til að rífa og byggja nýtt og stærra. Í firringu undanfarinna ára skipti engu þótt þeir rústuðu þar með einmitt þeim verðmætum sem gerðu staðinn eftirsóttan.

Húsið sem um ræðir er eitt þerra húsa sem gera söguna og umhverfið svo miklu miklu meira virði. En yfirvöld skipulags- og menningarmála virðast þeirrar skoðunar að grískar súlur séu það eina sem vert er að vernda og varðveita. Það er ekki mikið af þeim í Reykjavík.

Í Sviss þarf að bera niðurrif og uppbyggingu af þessu tagi undir dóm íbúa viðkomandi hverfis í leynilegri atkvæðagreiðslu. Við þurfum á slíkri stjórnsýslu að halda. Kjörnum fulltrúum er ekki treystandi til að standa vörð um umhverfi okkar og menningarverðmæti.

Guðl. Gauti Jónsson, 16.4.2009 kl. 13:19

12 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Það sem vakti athygli mína var niðurlæging Víkingasveitarinnar að gera sér að góðu að fara inn um dyrnar. Þorgeir Hávarson og félagar hefðu aldrei látið annað eins spyrjast út um sig.

Það var víkinga háttur jafnan, að rjúfa þekjuna þyrftu þeir inn að ná gamalmennum konum og börnum og eigi að ganga um dyr að kerlingasið.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 16.4.2009 kl. 14:46

13 Smámynd: Héðinn Björnsson

Manni hefði fundist snjallari taktík hjá lögreglunni að bíða þangað til eigandinn þyrfti að nota húsnæðið með að rýma það.

Héðinn Björnsson, 16.4.2009 kl. 17:40

14 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Já, Ólína, þessar tvær fréttir sýna hvor á sinn hátt, að Nýja Ísland er ekki alveg runnið upp, þegar forgangsröðun og hugsunarháttur er annars vegar.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 16.4.2009 kl. 18:34

15 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Er svo ekki dálítið sérstakt, að lögreglan skyldi taka að sér, svona í "forbifarten", að rústa húsinu fyrir verktakann -ókeypis ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 16.4.2009 kl. 18:42

16 Smámynd: Katrín

Alveg er ég viss um að þú yrði ekki par hrifin ef húsatökufólk hefði hertekið þitt hús í Reykjavík ja eða bara fyrir vestan.  Eignarrétturinn er sem betur fer til staðar og það að ungt fólk mæti með fallegar hugsanir og málingu í dós og hertekur eigur annara breytir ekki þeirri staðreynd að þarna er þjófnaður á ferð.  Mér finnt það sorglegt að sjá þig styðja við slíkar aðgerðir en skiljanlegt í ljósi þess að þú er í framboði til alþingis þar sem engin atkvæði eru ,,of dýrt kveðin"

Katrín, 17.4.2009 kl. 09:23

17 Smámynd: Katrín

málningu..átti orðið að vera:)

Katrín, 17.4.2009 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband